Hæstiréttur íslands
Mál nr. 444/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 6. júlí 2015. |
|
Nr. 444/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Hrafnhildur María Gunnarsdóttir aðstoðarsaksóknari) gegn X (Þorsteinn Ingi Valdimarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun meðan á því stæði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. júlí 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. júlí 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. júlí 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. júlí nk. kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kröfuna byggir lögreglustjóri á a. lið 1. mgr. 95. gr. og b-lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kærði hafnar kröfunni. Hann krefst aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að hann verði ekki látinn sæta einangrun.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglan hafi þann 30. júní farið í húsleit að heimili aðila að nafni Y. Við þá leit hafi fundist mikið magn af MDMA og peningar. Í kjölfarið hafi lögreglan farið í húsleit í íbúð Y og fundið upplýsingar um sendingu á sófa frá Rotterdam í Hollandi. Samskiptin í tölvunni hafi verið á nafni meðkærða, Z, en skjöl varðandi þessa sendingu hafi fundist í tölvu Y á heimili hans. Lögreglan hafi farið að vöruhóteli [...] og kannað með umræddan sófa, en grunur hafi leikið á að í honum væru falin fíkniefni. Við skoðun á sófanum hafi komið í ljós að búið hafi verið að negla spónaplötu við bak hægra sætis sófans. Sófinn hafi verið gegnumlýstur og hafi þá komið í ljós pakkningar sem innihéldu mikið magn af sterkum fíkniefnum.
Y og Z hafi báðir verið handteknir sæti nú gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins. Þeir neiti báðir sök. Við skýrslutöku af Z hafi hann upplýst lögreglu um það að vinur hans, X hefði fengið hann til að móttaka fíkniefni í tösku niður við bryggju. Z segir X hafa farið með sér til að sækja vegabréf. Síðan hafi verið tekin mynd af vegabréfinu og sú mynd send Y. Myndin og upplýsingarnar varðandi Z hafi verið notaðar við sendinguna á sófanum hingað til lands. Þessar upplýsingar hafi fundist í tölvu Y. Í framburði Z komi fram að Z hafi eingöngu verið í samskiptum við X í tengslum við innflutninginn á fíkniefnunum.
X hafi verið handtekinn í gærkveldi. X hafi neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu í dag. Hann kveðst þó þekkja bæði Y og Z en kvaðst ekkert kannast við sendingu á fíkniefnum hingað til lands.
Kærði sé undir rökstuddum grun um innflutning sterkra fíkniefna hingað til lands. Lögreglan hafi nú handtekið alls þrjá aðila sem grunur leiki á að hafi staðið að innflutningi efnanna. Það liggi fyrir að taka þurfi frekari skýrslur af sakborningum í málinu. Rannsókn málsins hófst í gær og sé nú á frumstigi en nauðsynlegt sé að yfirheyra kærða frekar og hafa upp á fleiri einstaklingum sem kunni að tengjast málinu. Lögreglan vinni nú í því að rekja sendinguna og afla gagna sem geti haft sönnunargildi í málinu. Þá hafi lögreglan nú þegar óskað eftir aðstoð hollenskra yfirvalda til að rekja sendingu sófans hingað til lands. Um sé að ræða mjög mikið magn hættulegra fíkniefna sem víst þykir að hafi átt að fara í sölu- og dreifingu hér á landi. Nauðsynlegt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi en ljóst er að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hann eða kærði geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á. Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga, er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið, svo og rannsóknargagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á byrjunarstigi. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina. Jafnframt er fallist á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. júlí nk. kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.