Hæstiréttur íslands

Mál nr. 600/2017

Ferðaþjónusta og Sumarhús ehf. (Skúli Bjarnason lögmaður)
gegn
Zsuzanna Aleksic (Eva B. Helgadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Vinnulaun

Reifun

Z höfðaði mál gegn F ehf. til heimtu launa sem hún taldi sig eiga inni hjá félaginu. Í ráðningarsamningi milli Z og F ehf. var kveðið á um tiltekið tímakaup og var útreikningur kröfu Z byggður á tímaskráningum hennar sjálfrar. F ehf. hélt því fram í málinu að skráningin væri röng og vinnuframlag Z samkvæmt skráningunni ósannað. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að tímaskráningar Z væru handskráðar samtímaheimildir. Hefði F ehf. ekki lagt fram neina aðra tímaskráningu en honum hefði verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun um vinnuframlag Z með því að skrá vinnu hennar með stimpilklukku eða yfirfara tímaskráningu hennar jafnóðum. Yrði því að leggja tímaskráningu Z til grundvallar við úrlausn málsins enda ekki við annað að styðjast og ekkert fram komið sem rýrði trúverðugleika þeirrar skráningar. Var F ehf. því gert að greiða Z umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Ingimundur Einarsson héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að fjárhæð kröfunnar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að mál þetta hefur verið rekið samhliða öðru samkynja máli.

Dómsorð:

 Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ferðaþjónusta og sumarhús ehf., greiði stefndu, Zsuzsanna Aleksic, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 22. júní 2017

            Mál þetta, sem tekið var til dóms 14. júní 2017 er höfðað með stefnu birtri 14. júní 2016.

            Stefnandi er Zsuzsanna Alekisic, kt. [...], Ungverjalandi.

            Stefndi er Ferðaþjónusta og sumarhús ehf., kt. 711001-2630, Hörgslandi 1, Kirkjubæjarklaustri. Fyrirsvarsmaður stefnda er Ragnar B. Johansen, kt. [...], stjórnarmaður, Hörgslandi 1, Kirkjubæjarklaustri.

            Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar samtals að fjárhæð 1.849.809 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 167.988 kr. frá 1. apríl 2015 til 1. maí 2015, af 416.272 kr. frá þeim degi til 1. júní 2015, af 1.122.331 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2015, af 1.763.093 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 1.849.809 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum úr hendi stefnda.

            Endanlegar dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en þær ella lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda. Upphaflega gerði stefndi kröfu um skuldajöfnuð skv. 28. gr. laga nr. 91/1991 en frá því var fallið við aðalmeðferð. Við endurflutning vildi stefndi endurvekja þá kröfu.      

            Við aðalmeðferð gaf stefnandi skýrslu, sem og áður greindur fyrirsvarsmaður stefnda. Þá gáfu vitnaskýrslur Gyorgy Evetovics fyrrverandi starfsmaður stefnda og stefnandi í sambærilegu máli gegn stefnda, Guðrún Elín Pálsdóttir formaður Verkalýðsfélags Suðurlands,  Þorvaldur Kári Þorsteinsson endurskoðandi stefnda, Sveinbjörn Sveinsson fyrrum starfsmaður stefnda, og Tamita Loise Olayvar fósturdóttir fyrirsvarsmanns stefnda.

            Fyrir uppkvaðningu dóms var gætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

            Málavextir

            Stefndi rekur ferðaþjónustu og var stefnandi, sem er ungverskur ríkisborgari, starfsmaður hjá honum hluta ársins 2015. Aðilar eru sammála um að starfið hafi byrjað í lok mars eða seinni hluta þess mánaðar og lokið í júlí sama ár.

            Fram hefur verið lagt afrit af ráðningarsamningi milli aðila, gerður á eyðublaði frá Vinnumálastofnun. Segir þar að stefnandi sé ráðinn til starfa hjá stefnda með starfsheitið verkamaður, í fullt 100% starf og dagvinnu. Skuli laun fara samkvæmt kjarasamningi og greiðist 1.380 kr. á tímann. Laun skuli greidd mánaðarlega. Segir jafnframt að ráðningartími sé tímabundinn, en ekkert segir þó um hvenær ráðningu skuli ljúka. Þá segir um áunnin réttindi skv. kjarasamningi að þau miðist við fyrri ráðningu 20. mars 2015. Greiða skuli í Lífeyrissjóð Rangæinga og er Verkalýðsfélag Suðurlands tilgreint sem stéttarfélag. Ráðningarsamningurinn er dagsettur 20. júní 2015.

            Þá hefur líka verið lagður fram ráðningarsamningur milli aðila, bæði á íslensku og ensku. Eru báðar útgáfurnar ódagsettar og virðast heimatilbúnar, en ekki gerðar á sérstöku eyðublaði. Í ensku útgáfunni, sem er undirrituð af báðum aðilum, segir að mánaðarlaun séu 376.614 kr. og 1.380 kr. á dagvinnutímann, en 2.484 kr. fyrir eftirvinnutíma. Fullt dagsverk sé reiknað áður en komi til þess að eftirvinna sé reiknuð. Starfsmaðurinn taki á sig að kaupa mat fyrir 25.000 kr. á mánuði og teljist það til launa. Ef starfsmaðurinn kaupi meira en fyrir 25.000 kr. á mánuði þá greiði hann það sjálfur. Dagvinnutími sé frá kl. 07.00 til 18:00 en ekki meira en 8 stundir á dag og sé ein stund til hádegisverðar. Starfsmaðurinn hafi fría gistingu, rafmagn, morgunmat og kvöldmat ef hann vinni og aðstoði í veitingastað. Starfsmaðurinn hafi óskað eftir að hætta starfinu 24. júlí 2015 og skipti ekki máli hvort hann hafi unnið uppsagnarfrest. Í íslensku útgáfunni segir ámóta auk þess að frítt húsnæði og rafmagn teljist til launa. Er þessi útgáfa aðeins undirrituð af stefnda, en undir er samkomulag um starfslok þar sem segir að samstarfsmaður hennar hafi ákveðið að hætta störfum 24. júlí 2015 og hafi unnið uppsagnarfrest skv. samkomulagi og er það undirritað af stefnanda. Er í samningi þessum hvorki vísað til kjarasamnings né verkalýðsfélags og ekkert segir um hvert starfið er.

            Fyrir liggur að eftir starfslok leitaði stefnandi til Verkalýðsfélags Suðurlands og hafði uppi athugasemdir um launagreiðslur til sín. Í framhaldi af því krafði verkalýðsfélagið stefnda um ógreidd laun stefnanda með bréfi 22. september 2015 og var krafan 1.830.504 kr.

            Stefndi hefur hafnað greiðsluskyldu.

            Í málinu hefur verið lagt fram í frumriti handskrifað yfirlit stefnanda sjálfrar yfir unnar stundir sínar á hverjum degi frá 20. mars 2015 til 24. júlí 2015 þegar hún lauk störfum. Eru kröfur stefnanda og útreikningur þeirra byggðar á skjali þessu. Ekki liggur fyrir í málinu önnur skráning á vinnu stefnanda.

            Málsástæður og lagarök stefnanda

            Stefnandi kveðst byggja á kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands vegna Vlf. Suðurlands m.a. og Samtaka atvinnulífsins vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi sem hún kveður marka grundvöll ráðningarsambands aðila og réttar stefnanda til endurgjalds fyrir vinnu sína í þágu stefnda.

            Kveður stefnandi að nefndur kjarasamningur eigi við um þau störf sem stefnandi hafi innt af hendi og hafi því að geyma þau lágmarkskjör sem um þau gildi, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og 7. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.

            Þá byggir stefnandi og á því að allan óskýrleika á inntaki ráðningarsamnings aðila beri að túlka stefnanda í hag sbr. gr. 1.15 í kjarasamningi, sbr. auglýsingu nr. 503 frá 1997 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE um skyldu vinnuveitanda til að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, en láti atvinnurekandi það undir höfuð leggjast beri hann hallann af skorti á sönnun í því efni.

            Jafnframt kveðst stefnandi reisa kröfu sína á meginreglu samningaréttar um skyldu til efnda gerðra samninga. Gerður hafi verið skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda í lok júní 2015 og hafi samningurinn verið gerður á eyðublað Vinnumálastofnunar. Þar hafi verið samið um að kaup og kjör stefnanda skyldu vera í samræmi við nefndan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands vegna Vlf. Suðurlands enda hafi stefnandi verið ráðinn í starf verkamanns og með félagsaðild í Vlf. Suðurlands og sé stefndi bundinn af þeim kjörum sem þar hafi verið samið um. Í því samhengi byggir stefnandi sérstaklega á því að sá samningur sem stefndi hafi útbúið sjálfur og gert stefnanda að undirrita við starfslok, þann 24. júlí 2017, sé ógildur og að engu hafandi. Þar sé um að ræða eftirágerning sem stefndi hafi knúið stefnanda til að rita undir en ella fengi hann ekki uppgjör launa við starfslok. Þannig hafi stefnanda verið þröngvað til að rita undir samning um lakari kjör en upphaflegur samningur hafi gert ráð fyrir og sem hafi verið forsenda ráðningar stefnanda, sem hafi komið hingað gagngert til að sinna vinnu hjá stefnda. Eðli máls samkvæmt hafi stefnanda ekki verið unnt að starfa í samræmi við hinn síðari samning þar sem hún hafi þá þegar innt af hendi þá vinnuskyldu sem henni hafi verið ætlað og raunar langt umfram það. Því verði ekki breytt fyrir liðinn tíma. Síðari samningurinn milli aðila sem gerður hafi verið í tilefni starfsloka stefnanda verði því ekki lagður til grundvallar samningssambandi aðila og beri því að víkja honum í heild, eða að því marki sem hann sé óhagstæður stefnanda, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga enda bersýnlega ósanngjarnt að halda honum upp á stefnanda.

            Þá byggir stefnandi auk þess á því að sá samningur sé ógildur með vísan til 31. gr. laga nr. 7/1936, stefnandi hafi verið háður stefnda með þeim hætti að henni hafi verið allar bjargir bannaðar nema fá laun sín greidd úr hendi hans við starfslok, stefnandi hafi haft húsnæði á vegum stefnda og staðið því veglaus í raun í framandi landi. Stefndi hafi þannig haft öll ráð stefnanda í hendi sér, auk þess sem stefnandi hafi ekki þekkt til þeirra reglna vinnuréttar sem gildi hérlendis.

            Stefnandi hafi unnið í fullu starfi og vel það. Samkvæmt ráðningarsamningi hafi henni borið að vinna reglulegan vinnudag og beri því að reikna henni laun samkvæmt því. Í því felist að henni hafi borið að fá mánaðarlaun en ekki tímakaupsvinnu þar sem stefnda sé tækt að haga málum svo hann leggi mat á talningu vinnustunda og hagnýti útreikningsviðmið fyrir full laun, 172 stundir, sbr. gr. 1.7 í kjarasamningi áður en til álita komi greiðsla yfirvinnulauna. Slík framsetning sé röng og í ósamræmi við ákvæði kjarasamnings og feli auk þess í sér mikla hættu á misnotkun. Stefnanda beri með réttu dagvinnulaun fyrir vinnuframlag á dagvinnutíma og yfirvinnulaun fyrir vinnu sem unnin sé utan þess tímabils, sbr. 2. kafla kjarasamnings. Samkvæmt gr. 2.1.1 sé dagvinnutímabil frá kl. 8-17 mánudaga til föstudaga, en upphaf dagvinnu skuli greina í ráðningarsamningi. Það hafi ekki verið gert í tilviki stefnanda en við útreikninga stéttarfélagsins hafi verið við það miðað að dagvinna hæfist við upphaf tímaskráningar stefnanda og lyki kl. 17:00 en þá tæki við yfirvinnutímabil á degi hverjum. Taki útreikningar stéttarfélagsins á kröfu stefnanda mið af þessu. Stefnandi hafi sjálf haldið utan um tíma sína, sbr. framlögð handskrifuð yfirlit, en engin stimpilklukka hafi verið á staðnum. Stefndi hafi hvorki mótmælt tímaskráningum stefnanda þrátt fyrir áskoranir þar um né lagt fram aðra tímaskráningu og beri því að miða við skáningu stefnanda í þessu efni.

            Um launkröfu vegna marsmánaðar 2015.

            Í mars 2015 hafi stefnandi unnið frá 20.-31. mánaðarins án þess að fá frídag. Stefnandi hafi sjálf haldið utan um vinnutíma sinn og samkvæmt því hafi hún unnið alls 110 vinnustundir á þessum 12 dögum. Þar af hafi 59,5 stundir fallið á tímabil dagvinnu en 51 stund á yfirvinnutímabili og miðist útreikningur stéttarfélagsins við það. Stefnandi hafi fengið greiddar 1.380 kr. á tímann í dagvinnu og 2.484 kr. í yfirvinnu úr hendi stefnda sbr. ráðningarsamning þar um og launaseðil og séu það þær fjárhæðir launa sem útreikningurinn byggi á enda hafi stefndi viðurkennt í verki að það skyldi vera kaupgjald stefnanda.

            Í samræmi við ofangreint skyldu rétt laun stefnanda fyrir dagvinnu í mars vera 82.110 kr. en 126.684 fyrir vinnu unna á yfirvinnutímabili. Þá skyldi stefnandi hafa 4.140 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld sbr. gr. 2.4 í kjarasamningi sbr. og 53. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Skv. gr. 2.4 kjarasamnings skuli haga vinnutíma þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld. Verði því við komið skuli dagleg hvíld ná til tímabilsins milli kl. 23:00 til kl. 06:00. Séu starfsmenn beðnir um að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð sé heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1 ½ klst (dagvinna) safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Í öllum tilvikum sé óheimilt að skerða átta klst. hvíld. Í mars 2015 hafi stefnandi ekki náð 11 stunda hvíldartíma aðfaranótt föstudagsins 27. mars og heldur ekki aðfararnótt mánudagsins 30. mars. Annars vegar hafi 0,5 stundir upp á hvíldina og hins vegar 1,5 tíma, eða samtals 2 tíma sem margfaldað með 1,5 geri 3 tíma í frítökurétt á dagvinnukaupi sem stefnda hafi borið að gera upp við stefnanda. Þar sem misbrestur hafi verið á því sé krafist leiðréttingar á því.

            Kveður stefnandi að laun fyrir mars skv. framansögðu hefðu því átt að nema 212.934 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10, 17% skv. gr. 5.1 í kjarasamningi eða 21.655 kr. Að því virtu hafi stefnda borið að greiða stefnanda alls 234.589 kr. fyrir mars en hann hafi hins vegar aðeins greitt 66.591 kr. Vanti því alls 167.998 kr. upp á rétt launa stefnanda fyrir marsmánuð og sé krafist leiðréttingar á því.

            Kröfur stefnanda um leiðréttingar á launum fyrir aðra mánuði byggi á sömu ákvæðum kjarasamningsins og hér hafi verið gerð grein fyrir eftir atvikum og sé til þeirra vísað í öllum tilvikum.

Um launakröfu vegna aprílmánaðar 2015.

            Stefnandi kveðst hafa unnið alla daga aprílmánaðar 2015, en þar af 173 stundir í dagvinnu og skyldi fyrir þá vinnu hafa 238.740 kr.

            Í aprílmánuði hafi stefnandi unnið á skírdag, fimmtudaginn 2. apríl, föstudaginn langa, 3. apríl, páskadag, 5. apríl, annan í páskum, mánudaginn 6. apríl og sumardaginn fyrsta fimmtudaginn 23. apríl. Samkvæmt gr. 2.3 í kjarasamningi skuli allir þessir dagar vera frídagar launafólks. Beri því að greiða dagvinnulaun fyrir þessa daga falli frídagur á virkan dag, sbr. gr. 1.10 kjarasamnings. Sé unnið á frídegi beri að auki að greiða yfirvinnukaup fyrir unninn tíma, nema skírdag og páskadag en þá daga beri að greiða sérstakt stórhátíðarkaup ofan á dagvinnulaun fyrir vinnu þessa daga, sbr. gr. 1.8.2. Við útreikning á kröfu stefnanda hafi verið tekið tillit til þessa eftir atvikum þannig að auk dagvinnulauna dagana 2., 6. og 23. apríl séu stefnanda reiknaðar samtals 25,5 stundir í yfirvinnu vegna vinnu þá daga. Þá séu stefnanda reiknuð laun fyrir 8 dagvinnustundir auk 7 stunda á stórhátíðarkaupi vegna vinnu föstudaginn langa og 7 stundir á stórhátíðarkaupi vegna vinnu á páskadag.

            Þá hafi stefnandi ekki náð lágmarkshvíld í sex skipti í aprílmánuði. Hafi vantað samanlagt 9 stundir upp á lágmarkshvíld stefnanda þann mánuð. Því hafi borið að reikna stefnanda frítökurétt 9x1,5 eða sem nemi 13,5 stundum vegna þessa. Það hafi ekki verið gert og sé því gerð krafa um greiðslu frítökuréttar vegna apríl sem nemi 18.630 kr.

            Í samræmi við ofangreint skyldu rétt laun stefnanda fyrir apríl vera 238.740 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 269.514 fyrir yfirvinnu og 40.329 kr. í stórhátíðarkaup. Þá hafi stefnandi átt að fá greiddar 18.630 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld (frítökuréttur). Samtals hafi laun stefnanda fyrir apríl því átt að nema 567.213 kr. og á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17% eða 57.686 kr. Alls hafi því stefnda borið að greiða stefnanda 624.898 kr. fyrir vinnu í apríl en hann hafi aðeins greitt 376.614 kr. Vanti því alls 248.284 kr. upp á rétt laun stefnanda þann mánuð og sé krafist leiðréttingar á því.

            Um launakröfu vegna maímánaðar 2015.

            Stefnandi kveðst hafa fengið frí þann 1. maí en unnið alla aðra daga mánaðarins. Fyrir það vinnuframlag skyldi greiða henni sem nemi 155,5 stundum í dagvinnu, 242 stundir á yfirvinnulaunum og 13,5 stundir á stórhátíðarkaupi vegna vinnu í þann tíma á hvítasunnudag, sbr. gr. 2.3 í kjarasamningi.

            Vinnutími stefnanda í maí hafi orðið til þess að lágmarkshvíld hennar hafi ítrekað verið skert, en stefnandi hafi ekki notið lágmarkshvíldar einn einasta dag í þeim mánuði. Hafi vantaði alls 59,5 stundir uppá í þeim efnum í maí og það x 1,5 veiti stefnanda rétt til frítökuréttar sem nemi 89,25 stundum á dagvinnukaupi.

            Í samræmi við ofangreint skyldu rétt laun stefnanda fyrir maí vera 214.590 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 601.128 fyrir yfirvinnu og 43.847 í stórhátíðarkaup. Þá skyldi stefnandi hafa 123.165 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld. Laun stefnanda fyrir maí skv. framansögðu hefðu því átt að nema 982.730 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17%, 99.944 kr. Að því virtu hafi stefnda borið að greiða stefnanda alls 1.082.673 kr. fyrir vinnu í maí en hafi aðeins greitt 376.614 kr. Vanti því 706.059 kr. upp á rétt laun stefnanda þann mánuð og sé krafist leiðréttingar á því.

            Um launakröfu vegna júnímánaðar 2015.

            Stefnandi kveðst hafa fengið frí þann 17. júní en unnið alla aðra daga mánaðarins. Fyrir það vinnuframlag skyldi greiða henni sem nemi 145 stundum í dagvinnu og 224 stundir á yfirvinnulaunum. 

            Lágmarkshvíld stefnanda í júní hafi sætt skerðingu á hverjum degi, en samtals hafi vantað 81 stund uppá í þeim efnum í júní sem x 1,5 veiti stefnanda rétt til frítökuréttar sem nemi 121,5 stundum á dagvinnukaupi.

            Í samræmi við ofangreint skyldu rétt laun stefnanda fyrir júní vera 200.100 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 556.416 fyrir yfirvinnu. Þá skyldi stefnandi hafa 167.670 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld. Laun stefnanda fyrir júní skv. framansögðu hefðu því átt að nema 924.186 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17%, 93.990 kr. Að því virtu hafi stefnda borið að greiða stefnanda alls 1.018.176 kr. fyrir vinnu í júní en hafi aðeins greitt 376.614 kr. Vanti því 641.562 kr. upp á rétt laun stefnanda þann mánuð og sé krafist leiðréttingar á því.

            Um launakröfu vegna júlímánaðar 2015.

            Stefnandi kveðst hafa unnið frá 1. til 21. júlí í þágu stefnda en þá hafi orðið samkomulag um starfslok hennar. Stefnandi hafi fengið frí dagana 14. og 15. júlí en unnið aðra daga á fyrrgreindu tímabili. Vinnuframlag hennar þann tíma hafi verið þannig að fyrir það beri að greiða 89,5 stundir í dagvinnu og 95 stundir á yfirvinnulaunum. Lágmarkshvíld stefnanda í júlí hafi sætt skerðingu þannig að upp á hana hafi vantað á tímabilinu frá 1. til 4. júlí samtals 9 stundir sem x 1,5 veiti stefnanda rétt til frítökuréttar sem nemi 13,5 stundum á dagvinnukaupi.

            Í samræmi við ofangreint skyldu rétt laun stefnanda fyrir júlí vera 123.510 kr. fyrir vinnu unna á dagvinnutímabili en 235.980 fyrir yfirvinnu. Þá skyldi stefnandi hafa 18.630 kr. vegna skerðingar á lágmarkshvíld. Laun stefnanda fyrir júlí skv. framansögðu hefðu því átt að nema 378.120 kr. Á þá fjárhæð hafi borið að reikna orlof 10,17%, 38.455 kr.

            Þá hafi stefnda ennfremur borið, skv. gr. 1.5 í kjarasamningi að gera upp við stefnanda áunninn rétt til orlofs- og desemberuppbótar við starfslok. Full desemberuppbót með gjalddaga endranær 2015 skyldi nema 78.000 kr. Fullt starf í því sambandi teljist vera 45 vikur en áunna desemberuppbót beri að gera upp við starfslok verði þau fyrir gjalddaga, sbr. gr. 1.4.1 í kjarasamningi. Stefnandi hafi unnið 17 vikur hjá stefnda er starfslok hafi orðið og hafi því borið að greiða 17/45 uppbótarinnar eða 29.467 kr. og sé krafist leiðréttingar á því.

            Á sama hátt hafi stefnda borið að greiða stefnanda orlofsuppbót við starfslok, sbr. gr. 1.4.2 í kjarasamningi. Við útreikning hennar hafi verið við það miðað að full orlofsuppbót með gjalddaga endranær 1. júní 2015 hefði numið 42.000 kr. og reiknist því stefnanda 6/45 þeirrar fjárhæðar í orlofsuppbót fyrir tímabilið frá 20. mars til 30. apríl, eða 5.598 kr. og því til viðbótar 11/45 orlofsuppbótar með gjalddaga árið 2016 sem þá skyldi nema 44.500 kr. Af þeirri fjárhæð hafi stefnandi við starfslok unnið sér rétt til greiðslu 10.879 kr. Samtals hafi stefnda því borið að greiða stefnanda 16.477 kr. í uppgjör orlofsuppbótar við starfslok, sem ekki hafi verið gert og sé krafist leiðréttingar á því. 

            Að ofansögðu virtu megi ljóst vera að stefnda hafi borið að greiða stefnanda alls 462.519 kr. fyrir vinnu í júlí en hafi aðeins greitt 376.614 kr. Vanti því 85.905 kr. upp á rétt laun stefnanda fyrir júlí og sé krafist leiðréttingar á því.

            Kveðst stefnandi mótmæla fullyrðingum stefnda um að stefnandi hafi fengið greidd margföld verkamannalaun fyrir vinnu sína og notið hlunninda í starfi, sem röngum og ósönnuðum. Þvert á móti hafi vantað verulega upp á laun stefnanda sé litið til lágmarkskjara samkvæmt gildandi kjarasamningum og lögum, m.a. hvað varðar lágmarkshvíldartíma. Í þessu efni beri sérstaklega að vekja athygli á því að stefndi hafi reiknað stefnanda til tekna 25.000 kr. vegna fæðis sem hann hafi einnig dregið af launum hennar. Hafi verið litið til þeirra greiðslna sem launa við kröfugerð þessa þrátt fyrir að stefnda bæri að sjá stefnanda fyrir endurgjaldslausu fæði í vinnutíma, sbr. gr. 4.5.1 í kjarasamningi. Það að stefndi hafi látið stefnanda húsnæði í té hafi ekki stafað af öðru en þörf stefnda fyrir nærveru stefnanda allan sólarhringinn, að hún væri til taks. Að auki hafi aldrei verið um það samið milli aðila að stefnandi hefði kostnað sem kæmi launum hennar til frádráttar af því að gista í húsnæði á vegum stefnda. Hefði það legið fyrir fyrirfram hefði stefnanda verði tækt að taka afstöðu til þess hvort hún sætti sig við slík kjör en jafnframt gefið henni tækifæri til þess kanna möguleika á öðru húsnæði í hentugri fjarlægð svo stefnanda væri tækt að hafa næði í þeim mæli að lögboðinni lágmarkshvíld yrði mögulega náð. Kröfugerð stefnanda sé því í öllum atriðum hógvær og aðeins í samræmi við lágmarkskjör og sé í  því sambandi vísað til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. 

            Um lagarök kveðst stefnandi vísa til meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga og vinnuréttar um réttar efndir ráðningarsamninga. Þá sé og vísað til laga nr. 55/1980, laga nr. 28/1938 um greiðslu verkkaups, laga nr. 30/1987 um orlof og laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Ennfremur laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styðjast við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við 130. gr. l. nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

            Málsástæður og lagarök stefnda

            Af greinargerð stefnda verður ráðið að hann telji kröfur stefnanda rangar og ósannaðar. Kröfum hafi verið beint að honum af hálfu Verkalýðsfélags Suðurlands vegna stefnanda á fyrri stigum, án þess að þeim fylgdu gögn og útreikningar. Engin tilraun hafi verið gerð til að upplýsa stefnda um rök fyrir hinum miklu kröfum sem fram hafi verið settar á hendur honum heldur greiðslu krafist.

            Stefndi mótmælir sem órökstuddum, ósönnuðum og röngum framlögðum tímaskriftum stefnanda sem hafi verið settar fram löngu eftir starfslok hans. Séu þær  staðlausir stafir, ósannaðir og að engu hafandi.

            Vegna þessa vísar stefndi til samantektar endurskoðanda síns, sem jafnframt hafi annast bókhald félagsins, launauppgjör ofl. Samantektin feli í sér upplýsingar úr bókhaldi um starfsemina og mönnun á þeim tíma sem stefnandi hafi verið við störf hjá stefnda. Stefndi kveður þessa samantekt skýra vel þann óraunveruleika sem í kröfum stefnanda felist.

            Illa og ólæsilegar tímaskriftir stefnanda, fyrst kynntar stefnda með framlagningu stefnu, gangi algjörlega á skjön við þessar upplýsingar sem  teknar séu  að mestu  úr bókhaldi stefnda um umfang og eðli rekstursins á þeim tíma sem um ræði sem og  starfsumhverfi og starfsskiptingu starfsmanna og skýri í leiðinni hvers vegna stefnandi hafi valið þau starfskjör sem um hafi samist.

            Horft á starfslýsingu endurskoðandans og umfang verka og starfssamninga sé ljóst að stefnandi hafi ekki verið illa haldinn með mánaðarlaun og vinnuskylda og vinnutími augljóslega alltaf verið undir umsömdum tímafjölda eins og stefndi hafi ætlað. Með auknum umsvifum þegar hafi vorað, sem raunar hafi verið minni en oft áður hjá stefnda það árið, hafi komið fleira fólk til starfa þannig að álag á starfsfólk sem fyrir var hafi ekki vaxið svo neinu næmi. Að halda öðru fram sé ekki rétt og  framkomnar tímaskriftir séu út úr öllu korti, rangar og algjörlega ósannaðar enda sé framsetning þeirra, fyrirvaralaust og seint og um síðir, afar ótrúverðug.

            Stefndi kveðst telja uppgjör sitt við stefnanda fullkomlega löglegt og tæmandi enda hafi aðilar samið með þessum hætti og gert upp sín á milli án athugasemda eða fyrirvara alla mánuðina sem starfssamningarnir hafi varað, en svo hafi stefnandi birst með milligöngu Verkalýðsfélags Suðurlands og lögmannstofu þess félags, til að hafa uppi fáránlegar kröfur án þess að reyna í neinu að afla sér upplýsinga og skýringa frá forsvarsmanni stefnda.

            Ráðningarsamningur aðila sé í málinu bæði á íslensku og ensku og vísar þá stefndi til þess ráðningarsamnings sem gerður var fyrir starfslok stefnanda. Upphaflega hafi samningur aðila miðast við unnar vinnustundir þannig að laun væru kr. 1.380.- á dagvinnustund, en kr. 2.484.- á yfirvinnustund. Tímakaup sem hafi verið töluvert yfir ákvæðum lámarkslauna kjarasamnings Verkalýðsfélags Suðurlands eða Starfsgreinasambands Íslands og mánaðarlaun þannig kr. 376. 614.-

            Í ráðningarsamningnum komi þessar tímakaupsviðmiðanir fram. Þar sé jafnframt tiltekið að atvinnuveitandi taki að sér að kaupa fæði fyrir launþegann að upphæð kr. 25.000.- á mánuði, sem reiknist til launa. Jafnframt segi þar; „Ef atvinnurekandi borgar meira en þetta í fæði skal farið með það á sama hátt“.  Þá segi efnislega í hinni ensku útgáfu að launþegar séu undanþegnir greiðslu fyrir húsnæði, rafmagn, morgunverð og kvöldverð ef þeir vinni og hjálpi til á matsölustaðnum.

            Fram sé komið að matsölustaðurinn hafi ekki verið ekki í rekstri fyrr en í lok maí utan morgunverðar og það muni starfsmenn hafa nýtt sér, þ.m.t. stefnandi, ásamt með aðgengi til næringar á vegum stefnda  á öðrum tímum, þannig að í raun muni stefnandi að mestu hafa fengið bæði fæði og húsnæði úr hendi stefnda auk  launauppbótarinnar, 25.000.- kr á mánuði, sem hafi gengið til stefnanda og hún að mestu eða öllu farið í tóbakskaup og aðrar sérþarfir fyrir stefnanda sem stefndi hafi annast, eitthvað sem ekki hafi verið stefnda að leggja stefnanda til.

            Með þessum ráðningarsamningi aðila, sem stefndi telji á allan máta löglegan, hafi stefnanda verið tryggðar fastar launageiðslur, að mestu með fullu fæði og húsnæði allt eins og stefnandi hafi óskað eftir og sætt sig við og umsamdar vinnustundir þar á bak við hafi stefndi talið rúmast vel á móti þeim verkefnum sem stefnanda hafi verið ætlað að sinna og sinnt, auk þess sem frítt húsnæði ofl. hafi tekið mið af íhlaupavinnu í veitingahúsi sem lengst af hafi þó ekki reynt á og síðan hlutfallslega lítið, enda ekki opnað fyrr en í lok maí. Með vísan til þessa telur stefndi, fari svo að honum verði að einhverju leyti  gert að greiða kröfur stefnanda, að launaígildi þessi séu með því niður fallin og áskilur hann sér þá, sbr. dómkröfu að reikna þessi fríðindi  stefnanda til verðs og skuldajafna andvirði þeirra á móti slíkum kröfum stefnanda.

            Um ráðningarsamning á eyðublaði Vinnumálastofnunar, sem dagsettur er 20. júní 2015, kveður stefndi að hann hafi verið gerður þegar langt hafi verið liðið á starfstíma stefnanda hjá stefnda. Væntanlega sé orsök þessa seinagangi um að kenna en ekkert í þeim samningi breyti því sem aðilar hafi áður um samið. Alveg frá fyrsta launaseðli fyrir febrúar 2015 hafi stefnandi verið kominn með íslenska kennitölu og öll laun og launatengd gjöld hennar hafi jafnóðum verið gerð upp með tilskildum hætti.

            Kveðst stefndi gera kröfu um að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að dæmdar kröfur stefnanda  á hendur stefnda verði lækkaðar verulega enda eigi a.m.k. stærsti hluti þeirra ekki við rök að styðjast, kröfurnar séu of seint fram komnar, illa unnar og ósannaðar.

            Hvernig sem málalok verði kveðst stefndi árétta kröfu sína um málskostnað sér til handa enda séu kröfur stefnanda og málaferli þessi með eindæmum og borin uppi, með nokkru offorsi, af Verkalýðsfélagi starfssvæðisins sem einhverskonar prófmál  um hversu langt verði komist í kröfugerð. Stefnandi kveðst telja að auðvelt hefði verið fyrir verkalýsfélagið, fyrst það hafi tekið að sér málið með þessum hætti, að afla þeirra  upplýsinga sem til hafi þurft svo línur í ágreiningsefninu skýrðust og óbreytt niðurstaða eða einhver leiðrétting, ef rétt teldist, fengi komist að án mikils kostnaðar.  Óásættanlegt sé að aðilar með hálfgildings sjálftökurétt eins og verkalýðsfélög komist upp með að setja mál á spil með þessum hætti og bera ekki ábyrgð á þeim kostnaði sem af hljótist sér í lagi þegar í hlut eiga óþekktir erlendir aðilar svo sem hér sé.

            Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til meginreglna samningsréttar sem og vinnuréttar auk annarra þeirra laga og ákvæða sem  um starfssamninga  og starfskjör fjalla. Þá vísar stefndi til ákvæða laga nr. 91/1991 og um málskostnað til 130. gr. laganna.     

            Forsendur og niðurstaða

            Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um ógreidd laun sem hann kveðst eiga inni hjá stefnda. Hefur stefndi mótmælt þessu og kveður ekkert ógreitt af launum stefnanda.

            Hefur stefnandi gert rækilega grein fyrir útreikningi kröfu sinnar og tímaskráningum sínum, sem útreikningurinn byggir á, en ekki er fyrir að fara öðrum tímaskráningum um vinnu stefnanda hjá stefnda.

            Er óumdeilt tímagjaldið 1.380 kr. á tímann í dagvinnu og 2.484 í eftirvinnu.

            Kjör stefnanda koma fram á ráðningarsamningi á eyðublaði frá Vinnumálastofnun, en undir þann ráðningarsamning var ritað af hálfu beggja samningsaðila. Segir þar að um sé að ræða fullt 100% starf verkamanns og vísað um kjör til kjarasamnings og tekið fram að stéttarfélag sé Verkalýðsfélag Suðurlands. Seinni ráðningarsamningurinn, sem að ofan greinir, var útbúinn við starfslok stefnanda og var ekki með honum unnt að breyta ráðningargjörum stefnanda afturvirkt. Verður alfarið byggt á fyrri ráðningarsamningnum við úrlausn málsins að því leyti sem ráðningarsamningarnir eru ekki samhljóða.

            Í greinargerð sinni byggir stefndi á því að eftir starfslok stefnanda hafi stefndi ekki heyrt frekar frá stefnanda fyrr en með bréfi Verkalýðsfélags Suðurlands, þar sem hafðar hafi verið uppi órökstuddar kröfur, en á seinni stigum hafi verið vísað til tímaskrár stefnanda sjálfs. Ekki getur það orðið til þess að fría stefnda af kröfum stefnanda hvernig bréfaskriftir þessar voru milli Verkalýðsfélags Suðurlands og stefnda, enda getur réttur stefnanda til ógreiddra launa ekki ráðist af efni bréfaskriftanna.

            Stefndi hefur mótmælt tímaskráningum stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Að mati dómsins er þó ekki við annað að styðjast í þeim efnum. Tímaskráningar stefnanda eru handfærðar samtímaheimildir, en stefndi hefur ekki lagt fram neina aðra tímaskráningu en hann hafði þó öll færi á því að skrá vinnu stefnanda s.s. með stimpilklukku og eða með því að fá hjá stefnanda tímaskráningu jafnóðum. Yfirlit endurskoðanda stefnda, sem unnið er upp úr frásögnum stefnda sjálfs, getur ekki breytt þessu en ekki hafði endurskoðandinn sjálfstæða vitneskju um vinnutíma stefnanda. Þá hefur tímaskráningum stefnanda ekki verið hnekkt með framlögðum gögnum eða skýrslum sem gefnar voru við aðalmeðferð, en þar er annars vegar um að ræða óljósar frásagnir fósturdóttur fyrirsvarsmanns stefnda og hins vegar fyrrverandi starfsmanns stefnda, en hvorugt þeirra hafði tímaskráningu starfsmanna með höndum. Verður við úrlausn málsins byggt á tímaskráningum stefnanda sjálfs enda ekki við annað að styðjast og ekkert sérstakt fram komið í málinu sem rýri trúverðugleika þeirrar skráningar. Rétt er að nefna að hinar handfærðu tímaskráningar eru fjarri því að vera ólæsilegar.

            Í greinargerð stefnda er ekki byggt á því að rangur kjarasamningur hafi verið notaður við útreikning krafna stefnanda eða að tölulegur útreikningur sé rangur miðað við gefnar forsendur.

            Í greinargerð stefnda er vísað til þess að stefndi hafi greitt eða tekið að sér að kaupa fæði fyrir stefnda fyrir 25.000 kr. á mánuði. Engu getur þetta breytt um niðurstöðu málsins en fram hefur komið, m.a. í framburði vitnisins Guðrúnar Elínar Pálsdóttur formanns Verkalýðsfélags Suðurlands, sem annaðist útreikning á kröfu stefnanda, að tekið er tillit til þessa við kröfugerð stefnanda.

            Þá hefur stefndi vísað til þess að stefnandi hafi tekið athugasemdalaust við launum sínum og ekki haft athugasemdir við uppgjör við starfslok. Fram hefur hins vegar komið að nokkur ágreiningur hafi verið milli stefnanda og stefnda, en einkum hafi það þó verið vegna frídaga sem stefnanda hafi þótt á skorta. Að mati dómsins er ekki hald í þessum vörnum, en fyrir liggur að stefnandi er erlendur maður sem hefur ekki rækilega þekkingu á reglum íslensks vinnuréttar og var mikill aðstöðumunur á aðilum að þessu leyti, en fram hefur komið að strax eftir starfslok óskaði stefnandi liðsinnis við að rétta sinn hlut gagnvart stefnda.

            Ekki hefur stefndi fært fram aðrar málsástæður sem geti orðið til þess að sýkna hann af kröfum stefnanda. Eins og að framan greinir vildi stefndi við endurflutning málsins endurvekja kröfu sína um skuldajöfnuð, en hann hafði við aðalmeðferð fallið frá því að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar skv. 28. gr. laga nr. 91/1991. Við endurflutninginn afhenti lögmaður stefnda dóminum til hliðsjónar handskrifað blað til nánari tölulegrar útskýringar á skuldajafnaðarkröfu sinni. Af hálfu stefnanda var því hafnað að krafa þessi kæmist að í málinu. Með hliðsjón af því að stefndi féll við aðalmeðferð frá skuldajafnaðarkröfu sinni verður henni ekki sinnt frekar, en rétt er þó að geta þess að telja verður að hvort heldur sem er þá hafi ekki verið gerð nein grein fyrir henni fyrr en allt of seint og getur hún því alls ekki komið til álita.

            Verður því stefndi dæmdur til að greiða stefnanda hina umkröfu fjárhæð með dráttarvöxtum eins og krafist er, en engin sérstök mótmæli eða málsástæður eru hafðar uppi af hálfu stefnda gegn dráttarvaxtakröfum stefnanda.

            Rétt er að stefndi greiði stefnanda málskostnað og er hann hæfilega ákveðinn kr. 1.136.538 og hefur þá verið litið til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts.

            Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

                Stefndi, Ferðaþjónusta og sumarhús ehf., greiði stefnanda, Zsuzsanna Aleksic, 1.849.809 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 167.988 kr. frá 1. apríl 2015 til 1. maí 2015, af 416.272 kr. frá þeim degi til 1. júní 2015, af 1.122.331 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2015, af 1.763.093 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2015 og loks af 1.849.809 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.136.538 kr. í málskostnað.