Hæstiréttur íslands
Mál nr. 447/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Tilhögun gæsluvarðhalds
|
|
Mánudaginn 15. nóvember 2004. |
|
Nr. 447/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Tilhögun gæsluvarðhaldsvistar.
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá var lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfu X um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar hans til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 25. nóvember 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Verði aðalkrafa varnaraðila ekki tekin til greina krefst hann þess að héraðsdómara verði gert að taka til efnismeðferðar kröfu um tilhögun gæsluvarðhaldsvistunar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um gæsluvarðhald yfir varnaraðila.
Eftir að hinn kærði úrskurður hafði verið kveðinn upp á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2004 og sóknaraðili hafði kynnt varnaraðila tilhögun gæsluvarðhaldsvistar samkvæmt 108. gr. laga nr. 19/1991 krafðist varnaraðili að gæsluvarðhald yfir honum yrði „án takmarkana“, eins og bókað var í þingbók. Héraðsdómari ákvað að ekki yrði leyst úr þeirri kröfu án þess að skriflegt og rökstutt erindi þess efnis bærist dóminum. Með vísan til 4. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991, með ároðnum breytingum, sbr. 75. gr. sömu laga, bar héraðsdómara að taka kröfu varnaraðila um tilhögun gæsluvarðhalds til efnismeðferðar. Verður því lagt fyrir héraðsdómara að taka þessa kröfu varnaraðila til slíkrar meðferðar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Lagt er fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar kröfu varnaraðila, X, um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar hans.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2004.
Lögreglustjórinn í Reykjavík krafðist þess í dag að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X sæti áfram gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 25. nóvember 2004, klukkan 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki meint brot gegn almennum hegningarlögum er varði stórfelldan innflutning fíkniefna til landsins. Rannsókn málsins hafi staðið yfir um alllangt skeið og hafi fjöldi manns gefið skýrslu með réttarstöðu sakbornings. Málið sé umfangsmikið og taki til fleiri en einna fíkniefnasendinga, sem lögregla hafi lagt hald á, og sé aðild hinna grunuðu í nokkrum tilvikum einskorðuð við einstaka sendingar. Kærði sé grunaður um að hafa staðið fyrir innflutningi á 7.694 g af amfetamíni, en efnið hafi verið falið í vörusendingu, sem lögreglan hafi lagt hald á [...].
[...]
Verið sé að rannsaka ætluð brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og megi ætla að ef þau sönnuðust, þá myndu þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991.
Á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2004 sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 432/2004 sætir kærði gæsluvarðhaldi til kl. 16.00 í dag.
Ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík vinnur að rannsókn ætlaðs brots kærða í félagi við aðra gegn almennum hegningarlögum, sem varðar stórfelldan innflutning fíkniefna til landsins. Rannsóknargögn málsins benda til aðildar kærða að innflutningi verulegs magns fíkniefna til landsins, þannig að rökstuddur grunur þykir vera um aðild hans að verknaði sem varðar fangelsisrefsingu. Á það er fallist að kærði gæti haft áhrif á framburði annarra eða komið undan gögnum sem þýðingu hafi í málinu gangi hann laus. Samkvæmt þessu og með tilvísun í a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 ber því að fallast á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 25. nóvember 2004, klukkan 16.00.