Hæstiréttur íslands

Mál nr. 508/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Skuldajöfnuður


Miðvikudaginn 5

 

Miðvikudaginn 5. janúar 2005.

Nr. 508/2004.

Ástráður Hreiðarsson

(Ingólfur Hjartarson hrl.)

gegn

Tryggingasjóði lækna

(Jón G. Briem hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Skuldajöfnuður.

Á hafði greitt lífeyrisiðgjald til T í séreignarsjóð frá 1981. Árin 1992 og 1996 tók Á lán hjá T sem tryggð voru með veði í húseign hans. Í kjölfar fjárdráttar framkvæmdastjóra T var skipuð skilanefnd til að sjá um að slíta sjóðnum. Á lýsti kröfu sinni til nefndarinnar og krafðist þess að krafa sjóðsins vegna nefndra lánveitinga gengi á móti kröfu sinni til inneignar úr honum. Talið var, að réttindi Á væru háð því hverjar eignir væri að finna í sjóðnum og yrði ekki viðurkenndur réttur hans til skuldajafnaðar með annarri fjárhæð en inneign hans sem byggði á raunverulegri fjárhagsstöðu sjóðsins. Skilanefnd T hafi ekki lokið störfum og því ekki ljóst hver réttindi Á ætti í honum. Var því staðfest ákvörðun sýslumanns um framgang nauðungarsölu á húseign Á að kröfu T.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2004, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 17. ágúst 2004 um að halda áfram nauðungarsölu á fasteigninni Hofgörðum 26 á Seltjarnarnesi. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefnd ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða honum málskostnað fyrir héraðsdómi og kærumálskostnað.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Kemur krafa hans um greiðslu málskostnaðar í héraði því ekki til álita.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ástráður Hreiðarsson, greiði varnaraðila, Tryggingasjóði lækna, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2004.

             Mál þetta barst dóminum 30. ágúst 2004.  Það var tekið til úrskurðar 4. nóvember sl.  Það varðar ágreining um það hvort nauðungarsölu verði fram haldið á eigninni nr. 26 við Hofgarða á Seltjarnarnesi.

             Sóknaraðili er Ástráður Hreiðarsson, kt. 141242-4749, Hofgörðum 26, Seltjarnarnesi.  Varnaraðili er Tryggingasjóður lækna, kt. 520169-7339.

 

             Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 17. ágúst 2004 að nauðungarsala á eigninni nr. 26 við Hofgarða á Seltjarnarnesi verði fram haldið.  Þá krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað með hliðsjón af gjaldskrá Lögfræðiþjónustunnar ehf.

             Varnaraðili krefst þess að staðfest verði sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 17. ágúst sl. að halda áfram uppboði á fasteign sóknaraðila, Hofgörðum 26, Seltjarnarnesi.  Enn fremur krefst hann greiðslu málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að mati dómsins. 

 

             Málavextir.

             Sóknaraðili greiddi viðbótarlífeyrisiðgjald til varnaraðila frá 1981.  Samkvæmt samþykktum sjóðsins var hann séreignarsjóður og hlutverk hans að vera uppsöfnunarsjóður til greiðslu lífeyris. 

             Í desember 1992 fékk sóknaraðili veðlán hjá varnaraðila að upphæð kr. 1.000.000.  Lánstími var rúm 15 ár. Aftur fékk sóknaraðili lán hjá varnaraðila í september 1996 að upphæð kr. 445.000. Lánstími var rúm 11 ár. Samkvæmt ákvæðum í skuldabréfunum var sjóðnum heimilt að segja láninu upp án fyrirvara, eða stytta lánstíma, hætti sóknaraðili að greiða í sjóðinn eða við eigendaskipti að hinni veðsettu eign. 

             Þann 20. apríl 2002 óskaði þáverandi framkvæmdastjóri varnaraðila eftir opinberri rannsókn á starfi hans fyrir varnaraðila þar sem hann hefði misfarið með eignir sjóðsins og dregið sér fé.  Skipuð var skilanefnd 19. febrúar 2003 til að sjá um að slíta sjóðnum. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni með bréfi til skilanefndar dags. 14. mars 2003.  Þar gerði hann kröfu um að krafa varnaraðila vegna lánveitinga hans gengi á móti kröfu hans til inneignar.  Það sem umfram kynni að reynast yrði greitt til hans. 

Varnaraðili hélt innheimtuaðgerðum áfram og lagði fram beiðni um nauðungarsölu á fasteign sóknaraðila hjá sýslumanninum í Reykjavík 5. apríl 2004. Kröfufjárhæð ásamt dráttarvöxtum og kostnaði nam þá 1.201.200.  Við fyrirtöku hjá sýslumanninum í Reykjavík mótmælti lögmaður sóknaraðila að nauðungarsalan næði fram að ganga og sagði kröfuna niðurfallna með skuldajöfnuði.  Fulltrúi sýslumanns féllst ekki á mótmæli lögmanns sóknaraðila en lögmaður varnaraðila samþykkti að fresta framkvæmd nauðungarsölunnar þar til héraðsdómur hefði fjallað um ágreining aðila. 

 

             Málsástæður sóknaraðila.

             Sóknaraðili telur að öll skilyrði séu til skuldajöfnunar milli krafna hans á hendur sjóðnum og krafna sjóðsins á hendur honum.  Ekki sé deilt um að kröfurnar séu gagnkvæmar, þ.e. á milli sömu aðila. Þá telur sóknaraðili að kröfurnar séu sambærilegar.  Bæði skuldajafnaðarkrafan og aðalkrafan hljóða um greiðslu í peningum.  Ekki skipti máli við skuldajöfnuð þótt önnur krafan sé hærri.  Þá beri að hafa í huga að um séreignasjóð sé að ræða.  Fyrir liggi hver eign sóknaraðila var að loknu ársuppgjöri 1999 eða kr. 1.611.389.  Sóknaraðili hafi greitt áfram í sjóðinn til júní 2002 eða allt þar til honum var tilkynnt um væntanlega sjóðþurrð.  Ætti því inneign hans að nema mun hærri fjárhæð, en allan kostnað af starfsrækslu sjóðsins skyldi greiða af vöxtum hans. 

             Samkvæmt ákvæðum 7. gr. hafi sjóðsfélagi getað krafist greiðslu á inneign sinni með flutningi til annars sjóðs.  Hefði sjóðsfélagi fengið skuldabréfalán frá sjóðnum bar honum að taka skuldabréf sitt affallalaust upp í hluta af útborgaðri inneign í sjóðnum.  Þetta sé í samræmi við þá skilmála sem séu í þeim veðskuldabréfum sem sóknaraðili hafi gefið út til sjóðsins þar sem áskilnaður sé um gjaldfellingu hætti lánþegi að greiða í sjóðinn. 

             Sóknaraðili telji einnig að kröfurnar séu hæfar til að mætast hvað greiðslutíma snerti.  Vísað sé til ofangreinds ákvæðis í 7. gr.  Sóknaraðili hafði óskað eftir því við sjóðinn löngu áður en upplýst hafi verið um sjóðþurrð að inneign hans að frádregnum eftirstöðvum veðskuldabréfanna yrði flutt yfir til annars sjóðs.  Lánin hafi verið með nokkuð háum vöxtum og eðlilegra hefði verið að hafa viðbótarlífeyri á sama stað og hinn almenna lífeyri.  Framkvæmdastjóri sjóðsins hafi frestað þeirri framkvæmd og borið fyrir sig að sóknaraðili gæti fengið þetta greitt út við 60 ára aldur.  Það sé í samræmi við það sem fram komi í dreifibréfi frá skilanefnd Tryggingasjóðs lækna að það hafi tíðkast að greiða út inneignir sjóðsfélaga. 

             Þá sé einnig bent á ákvæði 99. og 100. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991.  Eins og fram komi í auglýsingu skilanefndar Tryggingasjóðs lækna í Lögbirtingablaðinu þann 19. mars 2003 hafi fjármálaráðherra ákveðið slit sjóðsins.  Segi í auglýsingunni að skilanefndin skuli taka ákvörðun um hvort sjóðnum verði slitið með sameiningu við annan sjóð eða með öðrum hætti.  Eðlilegt sé í slíkum tilvikum að líta svo á að kröfur sjóðfélaga á sjóðinn séu hæfar til að mæta kröfum sjóðsins á hendur þeim.  Samþykktir sjóðsins um hvernig með eigi að fara við flutning á inneign, sem og ákvæði í veðskuldabréfinu um gjaldfellingu þegar hætt sé að greiða iðgjöld, sé þessu til stuðnings.

             Sóknaraðili eigi kröfu á Tryggingasjóð lækna um að greiða honum inneign hans hjá sjóðnum í samræmi við samþykktir hans og í samræmi við iðgjaldaframlag hans.  Fyrir liggi hver eign hans hafi verið í lok ársins 1999.  Þótt misfarið hafi verið með fé sjóðsins breyti það ekki rétti sóknaraðila til að nota kröfufjárhæðina til skuldajöfnunar.  Almennt sé viðurkennt að skuldajöfnuður geti leitt til þess að efndir fáist á gagnkröfu sem ella myndi ekki hafa innheimst.  Þá sé skuldajöfnuður ekki bundinn við það að aðilar hafi fyrir fram getað búist við fullnustu með skuldajöfnuði. 

             Þar sem sóknaraðili telji að krafa varnaraðila sé að fullu uppgerð með skuldajöfnuði við hluta inneignar hans hjá sjóðnum beri að fella niður framgang uppboðsins á eign hans að Hofgörðum 26, Seltjarnarnesi.

            

             Málsástæður varnaraðila.

             Varnaraðili segir sóknaraðila byggja kröfur sínar alfarið á reglum um skuldajöfnuð.  Með kröfulýsingu dags. 14. mars 2003 til varnaraðila hafi sóknaraðili lýst yfir skuldajöfnuði á ætlaðri inneignarkröfu hans á móti kröfu varnaraðila samkvæmt veðskuldabréfi.

             Fallist sé á að kröfur aðila séu gagnkvæmar.  Fallist sé á að kröfurnar séu sambærilegar, það er báðar eru kröfurnar um greiðslu peninga.  Ekki sé þó fallist á að krafa sóknaraðila hafi numið kr. 1.611.389 þegar hann lýsti yfir skuldajöfnuði. 

             Varnaraðili byggir á því að kröfurnar séu ekki hæfar til að mætast hvað varðar greiðslutíma.

Í fyrsta lagi sé krafa varnaraðila gjaldfallin vegna vanskila sóknaraðila en krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila sé ekki gjaldfallin. Krafa sóknaraðila sé krafa um að ætluð inneign hans í Tryggingasjóði lækna gangi á móti skuldabréfakröfu varnaraðila. Um sé að ræða séreignarsjóð sem ýmsir læknar hafi verið félagar í og greitt til, þar á meðal sóknaraðili.  Inneignir hafi ekki verið sérgreindar.  Fé sjóðsins hafi mátt ávaxta í samræmi við ákvæði 36. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 6. gr. samþykkta sjóðsins.  Vegna fjárdráttar framkvæmdastjóra sjóðsins og þess að hann hafi misfarið með fé sjóðsins hafi eignir hans orðið litlar sem engar. Ekki sé enn ljóst hversu miklar þær eru eða kunna að verða.  Byggt sé á því að sóknaraðili geti aðeins átt tilkall til tiltekins hlutfalls af eignum sjóðsins.  Fyrr en ljóst sé hverjar eignirnar séu geti krafa sóknaraðila ekki orðið gjaldkræf. 

Sjóðnum hafi verið skipuð skilanefnd í samræmi við ákvæði X. kafla laga nr. 129/1997.  Sjóðurinn hafi verið talinn ógjaldhæfur.  Samkvæmt 3. mgr. 49. gr. laganna skuli nettó eignir sjóðsins renna til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda.  Sjóðfélagar skuli öðlast réttindi í Söfnunarsjóðnum í sama hlutfalli og sjóður þeirra er í hlutfalli við heildarlífeyrisskuldbindingar Söfnunarsjóðsins.  Af þessu leiði að við slit Tryggingasjóðs lækna komi ekki til útborgunar úr sjóðnum, heldur eignist félagarnir réttindi í Söfnunarsjóðnum.  Hér sé því heldur ekki um gjaldkræfa kröfu sóknaraðila að ræða á hendur varnaraðila. 

Varnaraðili byggir á því að hann geti aðeins skuldajafnað á móti raunverulegri inneign hans í sjóðnum.  Hann eigi aðeins rétt til ákveðins hlutfalls af eignunum, en ekki rétt til ákveðinnar fjárhæðar.  Þar sem ekki sé ljóst hverjar eignirnar séu, sé heldur ekki ljóst hver krafa sóknaraðila sé.  Því skorti á að krafa sóknaraðila sé nægilega skýr til að hún sé hæf til skuldajafnaðar.

Varnaraðili segir sóknaraðila einnig byggja kröfur sínar um skuldajöfnuð á ákvæðum 99. og 100. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991.  Varnaraðili mótmæli því að þessi ákvæði eigi við hér þar sem varnaraðili sé ekki gjaldþrota. 

Varnaraðili segir sóknaraðila leggja fram yfirlit yfir stöðu hans í séreignarsjóðnum í árslok 1999.  Fyrir liggi að yfirlýsingin sé röng þar sem framkvæmdastjóri sjóðsins hefði nánast tæmt hann af öllum eignum.  Byggt sé á því að sóknaraðili geti aðeins skuldajafnað raunverulegri eign sinni í sjóðnum, ef um slíka eign sé að ræða og þegar upplýst sé hver hún sé.  Því sé mótmælt að hann hafi átt þessa inneign í sjóðnum þegar hann lýsti yfir skuldajöfnuði í mars 2003. 

Varnaraðili telji að ekki séu uppfyllt öll nauðsynleg skilyrði til skuldajafnaðar.  Því verði Héraðsdómur að staðfesta ákvörðun sýslumanns um framhald uppboðs á fasteign sóknaraðila. 

 

             Forsendur og niðurstaða.

             Aðilar deila um það hvort sóknaraðili hafi getað greitt upp veðskuldabréf varnaraðila með lífeyrisréttindum er hann telur sig eiga.  Hann vísar til þess að samkvæmt yfirliti hafi hann átt tiltekna inneign í árslok 1999 og staðhæfir að hún hafi ekki lækkað frá þeim tíma. 

             Stöðu sóknaraðila gagnvart sjóðnum verður ekki líkt við stöðu kröfuhafa gagnvart skuldara í venjulegum kröfuréttarsamböndum.  Réttindi sóknaraðila eru háð því hverjar eignir er að finna í sjóðnum.  Varnaraðili segir að fjárdráttur fyrrverandi fræmkvæmda­stjóra sjóðsins hafi staðið í mörg ár.  Því telji hann að yfirlit frá árinu 1999 hafi ekki verið rétt, það hafi ekki verið byggt á raunverulegri stöðu sjóðsins. 

             Ósannað er að sóknaraðili hafi óskað eftir flutningi á réttindum sínum til annars sjóðs fyrr en á árinu 2003, er hann ritaði skilanefnd sjóðsins.  Þegar hann krafðist skuldajafnaðar var með öllu óljóst hver réttindi hann ætti í sjóðnum, sem var mjög félítill.  Sóknaraðila verður ekki viðurkenndur réttur til skuldajafnaðar með annarri fjárhæð en inneign hans sem byggir á raunverulegri fjárhagsstöðu sjóðsins.  Skiptir ekki máli hversu mikið hann hefur greitt til sjóðsins. 

             Bú varnaraðila hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.  Því eiga 99. og 100. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 ekki við samkvæmt efni sínu.  Þá ber að telja að ákvæðin séu sérreglur og þeim verði því ekki beitt með lögjöfnun hér.  Yfirlýsing sóknaraðila um skuldajöfnuð var því þýðingarlaus og eru skuldabréf varnaraðila ógreidd.

             Skilanefnd varnaraðila hefur ekki lokið störfum.  Er því ekki ljóst hver réttindi sóknaraðili á í sjóðnum.  Verður samkvæmt framansögðu að staðfesta ákvörðun sýslumanns um framgang nauðungarsölu að kröfu varnaraðila. 

             Eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður. 

             Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan. 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

             Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 17. ágúst 2004 um að halda áfram nauðungarsölu á fasteigninni Hofgörðum 26 á Seltjarnarnesi. 

             Málskostnaður fellur niður.