Hæstiréttur íslands
Mál nr. 341/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 13. ágúst 2004. |
|
Nr. 341/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Böðvar Bragason lögreglustjóri) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. ágúst 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. ágúst 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. september 2004 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt um kærða og verður úrskurðurinn því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. ágúst 2004.
Lögreglustjórinn í Reykjavík krafðist þess í dag að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X [...] verði á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldsvist til miðvikudagsins 29. september 2004, kl. 16:00.
Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð rannsóknara var kærði dæmdur í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði fyrir fjölda auðgunarbrota með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí sl. Kærði hefur áfrýjað dómi þessum til Hæstaréttar. Á meðan á málsmeðferð stóð fyrir héraðsdómi og í áfrýjunarfresti, sætti kærði gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar 7. maí 2004 í máli nr. 175/2001. Lögreglustjórinn í Reykjavík krafðist ekki áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli 106. gr. laga nr. 19/1991 eftir að áfrýjunarfrestur var liðinn vegna dómsins 5. maí sl. Ákærði var handtekinn 4. ágúst sl. og fundust þá í bifreið hans ýmsir munir sem lögregla taldi þýfi og lagði hald á. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst sl. var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag á grundvelli a. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 9. ágúst sl. í máli nr. 332/2004. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð rannsóknara hefur kærði undanfarin ár verið í mikilli brotastarfsemi. Segir að hann hafi margsinnis sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna og síbrota en ávallt hafið brotastarfsemi aftur þrátt fyrir afskipti lögreglu. Kærði sæti nú rannsókn vegna sjö nýrra mála á tímabilinu 27. júlí sl. til 4. ágúst sl. þegar kærði var handtekinn, eins og áður segir. Eru þessi brot talin varða við 244. gr., 248. gr. og 259. gr. hegningarlaga og fíkniefnalöggjöfina.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa framið fjársvik og fíkniefnabrot á þeim skamma tíma sem leið frá því að hann var leystur úr gæsluvarðhaldi þar til hann var handtekinn 4. ágúst sl. Í dómum Hæstaréttar, sbr. síðast dóm réttarins 7. maí 2004 í máli nr. 175/2001, hefur ítrekað verið talið að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 106. gr. sömu laga, væri fullnægt um kærða. Að mati dómara á sú niðurstaða enn frekar við eftir þau brot sem kærði hefur viðurkennt að hafa framið eftir að gæsluvarðhaldi hans lauk þar til hann var handtekinn 4. ágúst sl. Með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 106. gr. sömu laga, verður því fallist á kröfu rannsóknara um gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 29. september 2004, kl. 16.00.