Hæstiréttur íslands

Mál nr. 626/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Áfrýjunarfjárhæð
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Mánudaginn 10

 

Mánudaginn 10. desember 2007.

Nr. 626/2007.

E.P. verk ehf.

(Stefán BJ Gunnlaugsson hrl.)

gegn

Sigurbirni Ársæli Þorbergssyni

(Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson hdl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Áfrýjunarfjárhæð. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærumáli E ehf. gegn S, varðandi gildi fjárnáms, var vísað frá Hæstarétti þar sem höfuðstóll kröfu E ehf. náði ekki áfrýjunarfjárhæð, sbr. 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. nóvember 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og sér dæmdur málskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins barst sýslumanninum í Keflavík 3. apríl 2006 beiðni varnaraðila, sem er starfandi héraðsdómslögmaður, fyrir hönd nafngreinds dansks hlutafélags um fjárnám hjá sóknaraðila fyrir skuld samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar sama ár í máli, sem félagið höfðaði á hendur honum. Fjárnám var gert samkvæmt þessari beiðni 24. maí 2007, en samkvæmt framlagðri bókun um gerðina var varnaraðili sagður vera gerðarbeiðandi og var félagsins einskis getið. Sóknaraðili leitaði 5. júlí 2007 úrlausnar Héraðsdóms Reykjaness um gildi fjárnámsins. Mál þetta var þingfest af þessu tilefni 28. ágúst sama ár og var því beint að varnaraðila. Í hinum kærða úrskurði var fallist á með varnaraðila að rangt hafi verið að beina málinu að honum og var því vísað frá dómi af þeirri ástæðu. Þrátt fyrir þetta orðalag úrskurðarins verður að líta svo á að leyst hafi verið úr málinu að efni til að þessu leyti, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og lúti málskot sóknaraðila að því.

Samkvæmt áðurnefndri beiðni um fjárnám 3. apríl 2006 var höfuðstóll kröfunnar, sem leitað var fullnustu á, 17.923 danskar krónur. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. og 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 verður beitt um kæru sem þessa, sbr. 4. mgr. 150. gr. laganna og 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989, svo sem ítrekað hefur verið í dómaframkvæmd Hæstaréttar eftir að dómur gekk, sem birtur er í dómasafni réttarins 1994, bls. 1101. Krafan, sem mál þetta varðar, nær ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt fyrstnefnda lagaákvæðinu. Verður málinu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, E.P. verk ehf., greiði varnaraðila, Sigurbirni Ársæli Þorbergssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

                               Úrskurður héraðsdóms Reykjaness 6. nóvember 2007.

I.

Málið barst dóminum 6. júlí sl. og var þingfest 28. ágúst sl. Það var tekið til úrskurðar 11. október sl. að loknum munnlegum málflutningi.

 

Sóknaraðili er E.P. verk ehf., Efstahrauni 27, Grindavík.

 

Varnaraðili er Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson hdl.

 

Sóknaraðili krefst þess aðallega að aðfarargerð sýslumannsins í Keflavík nr. 034-2007-01255, sem fram fór hjá sóknaraðila 24. maí sl. verði ógilt. Til vara krefst sóknaraðili þess að aðfarargerðinni verði breytt á þann veg að ábending sóknaraðila verði tekin til greina. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

 

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að henni verði hafnað. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

II.

Í gögnum málsins liggja frammi tvær aðfararbeiðnir, önnur dagsett 13. mars 2006, sem á að vera dagsett 13. mars 2007, og hin dagsett 30. mars 2006. Sú beiðni, sem tekin var fyrir hjá sýslumanninum í Keflavík 24. maí sl., er fyrrnefnd beiðni frá 13. mars sl. Í beiðninni segir að Sigurbjörn Þorbergsson hdl. krefjist þess, fyrir hönd APV Shared Services/APV A/S, Pasteudvej, í Silkeborg í Danmörku, að gert verði fjárnám hjá E.P. verki ehf., Efstahrauni 27 í Grindavík, til tryggingar skuld að höfuðstóli DKK 17.923 ásamt vöxtum og ýmsum kostnaði. Aðfararheimildin er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 31. janúar 2006 í máli APV Shared Services á hendur E.P. verki ehf. en með dóminum var E.P. verki ehf. gert að greiða APV Shared Services DKK 17.923 með dráttarvöxtum frá 22. september 2005.

 

Eins og áður segir var aðfararbeiðni dagsett 13. mars 2007 tekin fyrir hjá sýslumanninum í Keflavík 24. maí sl. og segir í endurriti að gerðarbeiðandi sé Sigurbjörn Þorbergsson hdl. en að gerðarþoli sé E.P. verk ehf. Við aðfarargerðina benti sóknaraðili á til fjárnáms tæki, svonefnt S-CD-Unit, sem hafði verið grundvöllur framangreindrar málshöfðunar. Af hálfu gerðarbeiðanda var ekki fallist á fram boðna tryggingu þar sem ekki væri ljóst hvar tækið væri niður komið auk þess sem verðmæti þess væri óljóst með því að um sérsmíði var að ræða og að nauðungarsölu yrði ekki komið á í útlöndum. Fulltrúi sóknaraðila við gerðina, stjórnarmaður í einkahlutafélaginu, lýsti því síðan yfir að félagið ætti engar aðrar eignir og var fjárnáminu lokið án árangurs með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989. Með tilkynningu dagsettri 5. júlí sl., sem barst dóminum 6. sama mánaðar, krafðist sóknaraðili úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerðina.

III.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar í máli þessu á því í fyrsta lagi að gerðarbeiðandi sé í aðfarargerð sagður vera Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson, kt. 281264-3629. Aðfararheimild sé dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. janúar 2006 en þann dag hafi enginn dómur gengið þess efnis að Sigurbirni væru dæmdar kröfur á hendur sóknaraðila. Hins vegar hafi sóknaraðili þann dag verið dæmdur til að greiða APV Shered Service í Danmörku DKK 17.923 auk dráttarvaxta en lögmaður hins danska félags hafi verið Sigurbjörn Þorbergsson hdl. Gerðarbeiðandi sé þannig ranglega tilgreindur í aðfarargerð sýslumanns og þar sem hún sé röng beri að ógilda hana. Hin ranga tilgreining sé andstæð reglum 2. gr. aðfararlaga þar sem segi að gerðarbeiðandi sé rétthafi.

 

Þá byggir sóknaraðili á því að svo virðist sem tvær aðfararbeiðnir hafi verið í gangi á hendur sóknaraðila vegna sama máls en síðan hafi verið gert fjárnám samkvæmt eldri aðfararbeiðninni þar sem krafan var að fjárhæð 320.062 krónur. Þar sem gerðarbeiðandi sé rangur aðili og svo virðist sem tvær aðfararbeiðnir hafi verið í gangi á sama tíma vegna sama máls eigi að ógilda fjárnámsgerðina.

 

Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að hann hafi til tryggingar kröfu þeirri, sem fjárnám var gert fyrir, bent á svonefnt S Cudint tæki sem hann keypti af APV Shared Service á 1.349.440 krónur en sem sé nú í vörslum hins danska félags. Af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. janúar 2006 megi ráða að varnaraðili hafi metið vöruna á DKK 113.000 og sé hún því langt yfir verðmæti þeirrar kröfu sem beðist sé fjárnáms fyrir. Hið danska félag geti því selt tækið fyrir kröfunni en einnig hefði það getað krafist mats á tækinu með vísan til ákvæða 38. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Þar sem bent hafi verið á eign hafi það verið andstætt ákvæðum 63. aðfararlaga að ljúka fjárnáminu með vísan til 8. kafla aðfararlaga enda hafi fjárnámið ekki verið árangurslaust.

 

Loks gerir sóknaraðili athugasemdir við að gert hafi verið fjárnám fyrir kostnaði við fjárnám að fjárhæð 10.476 krónur án nánari skilgreiningar. Þá sé krafist fjárnáms vegna vaxta af kostnaði án þess að skilgreint sé hvaða vexti átt sé við en þeir nemi 9.460 krónum. Samkvæmt aðfararheimildinni, dóminum frá 31. janúar 2006, hafi málskostnaður verið felldur niður og fjárnám hafi verið gert 24. maí sl. þannig að vextir geti ekki verið af þeim kostnaði. Fjárnám hafi verið fellt niður vegna útivistar af hálfu gerðarbeiðanda 20. febrúar 2007 og hefðu vextir af kostnaði þá verið 1.663 krónur og hafi því hækkað um 8.000 krónur á tveimur mánuðum. Ekki verði séð að aðfararheimild sé fyrir þessum kostnaði. Með vísan til þessa telji sóknaraðili fjárnámsgerðina ranga og þegar af þeirri ástæðu beri að fella hana úr gildi.

IV.

Varnaraðili byggir kröfu sína um frávísun á því að krafa sóknaraðila uppfylli ekki ákvæði 2. mgr. 87. gr. aðfararlaga. Samkvæmt lagaákvæðinu sé gagnaðili að gerð varnaraðili máls en sóknaraðili beini kröfu sinni að Sigurbirni Ársæli Þorbergssyni persónulega. Í greinargerð sóknaraðila sé varnaraðili þó tilgreindur sem Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson (APV Shared Services APV AS Danmörku) og í skjölum, sem lögð eru fram af hálfu sóknaraðila, komi fram að um sé að ræða fyrirtöku aðfarargerðar vegna kröfu APV Shared Services á hendur E.P. verki ehf um greiðslu skuldar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-6017/2005. Sóknaraðila hafi þannig verið ljóst og hann hafi sjálfur talið að APV Shared Services væri gerðarbeiðandi en engu að síður kosið að beina kröfu sinni í máli þessu að varnaraðila.

 

Varakröfu sína byggir varnaraðili á sömu sjónarmiðum og frávísunarkröfuna. Þar sem varnaraðili hafi verið ranglega tilgreindur og ekki átt aðild að gerðinni beri að hafna kröfu sóknaraðila með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið byggir varnaraðili á að skilyrði fyrir árangurslausu fjárnámi hafi verið fyrir hendi. Eign sú, sem sóknaraðili bendi á til fjárnáms, sé ekki í vörslum hans en það sé sóknaraðila að sanna eignarrétt sinni yfir umræddri eign og tilvist hennar. Eignin sé ekki í höndum gerðarbeiðanda APV Shared Services og ekkert liggi fyrir um að hún sé til. Þar sem slík óvissa ríki um tilvist eignarinnar verði gerðarbeiðandi ekki að þola að fjárnám sé gert í henni til fullnustu kröfunnar. Tilvísanir sóknaraðila til dómsins frá 31. janúar 2006 séu ekki fullnægjandi í þessu samhengi með vísan til 116. gr. laga nr. 91/1991. Dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila en forsendur héraðsdómara eða málflutningur aðila hafi ekki bindandi réttaráhrif. Niðurstaða dómara um hvar umrætt tæki kunni að vera, skipti ekki máli en telji sóknaraðili sig eiga lausafé í vörslum gerðarbeiðanda geti hann sótt þann rétt fyrir dómstólum.

 

Þá byggir varnaraðili kröfur sínar á því að sýslumaður hafi metið eignina ófullnægjandi tryggingu. Samkvæmt 63. gr. aðfararlaga sé ekki heimilt að ljúka fjárnámi án árangurs ef bent hafi verið á eign gerðarþola nema sýslumaður staðreyni að eignin nægi ekki til fullrar tryggingar, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna. Verðmæti eignarinnar sé óvíst enda ekki vitað hvar hún er og þá sé óvíst hvort eitthvað fengist upp í kröfu aðila við nauðungarsölu ef hún væri þar sem sóknaraðili segi hana vera. Við bætist að tækið sé sérsmíði fyrir sóknaraðila sem gæti reynst erfitt að selja öðrum. Þó svo varan hafi kostað DKK 113.000 til sóknaraðila endurspegli það ekki söluverðmæti hennar til annarra eða við nauðungarsölu. Ljóst sé af endurriti úr gerðabók sýslumanns að sýslumaður hafi metið eignina, sem sóknaraðili benti á, sem ófullnægjandi tryggingu. Skilyrði til árangurslauss fjárnáms samkvæmt 62. og 63. gr. aðafararlaga hafi því verið fyrir hendi.

V.

Sóknaraðili styður kröfu sína um ógildingu aðfarargerðar við ákvæði 15. kafla laga nr. 90/1980 um aðför. Í tilkynningu sinni dagsettri 5. júlí sl. tilgreinir sóknaraðili Sigurbjörn Þorbergsson, varnaraðila málsins, sem gerðarbeiðanda hinnar umdeildu aðfarargerðar nr. 034-2007-01255. Í endurriti úr gerðabók vegna gerðarinnar er Sigurbjörn sagður vera gerðarbeiðandi en sóknaraðili máls þessa gerðarþoli. Hins vegar er óumdeilt að aðfararheimild sú, sem til grundvallar lá þegar hið umdeilda fjárnám var gert, er dómur í héraðsdómsmálinu nr. E-6017/2005, APV Shared Services gegn E.P. verki ehf. Þá ber framlögð aðfararbeiðni með sér að Sigurbjörn Þorbergsson hdl. krefst fjárnáms hjá gerðarþola fyrir hönd APV Shared Services. Samkvæmt ákvæðum 2. gr. aðfararlaga getur sá krafist aðfarargerðar sem aðfararheimild ber með sér að sé rétthafi hennar. Gerðarbeiðandi er þannig sá maður eða lögpersóna sem biður um aðfarargerð og krefst þess að fá réttindum sínum fullnægt með henni.

 

Þegar litið er til framlagðrar aðfararbeiðni, sem ásamt aðfararheimildinni er grundvöllur gerðarinnar, verður að telja að APV Shared Services sé rétthafi og þar með gerðarbeiðandi í málinu. Framlögð bréf sóknaraðila til sýslumannsins í Keflavík bera með sér að hann hafi litið svo á að um væri að ræða fyrirtöku aðfarargerðar vegna kröfu APV Shared Services á hendur E.P. verki ehf. um greiðslu skuldar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-6017/2005. Sóknaraðila var þannig ljóst að APV Shared Services var beiðandi gerðarinnar. Að þessu virtu verður að líta svo á að nafn Sigurbjörns Þorbergssonar hafi fyrir mistök verið skráð þar sem gerðarbeiðanda er getið í endurriti sýslumannsins en að þar hefði átt að standa nafn APV Shared Services. Getur Sigurbjörn Þorbergsson því ekki talist varnaraðili í ágreiningsmáli þessu og verður því að fallast á aðalkröfu varnaraðila og vísa málinu frá dómi.

Eins og mál þetta er vaxið þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.