Hæstiréttur íslands

Mál nr. 360/2011


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Þjófnaður
  • Ítrekun


                                                                                              

Fimmtudaginn 6. október 2011.

Nr. 360/2011.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir

settur saksóknari)

gegn

Björgvin Þór Kristjánssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Brot gegn valdstjórninni. Þjófnaður. Ítrekun.

B var sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa brotist inn í þjónustumiðstöð á H og 1. mgr. 106. gr. sömu laga með því að hafa hótað tveimur lögreglumönnum við skyldustörf á H lífláti og líkamsmeiðingum. B játaði brot sitt samkvæmt 244. gr. laganna, krafðist sýknu fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. laganna en að öðru leyti að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi yrði milduð. Í Hæstarétti var, með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, staðfest niðurstaða hans um sakfellingu B vegna framangreindra brota. Við ákvörðun refsingar var einkum litið til ákvæða 3. mgr. 106. gr. og 255. gr. laga nr. 19/1940 og refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en að öðru leyti að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð.

Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti kom fram að farið er rangt með nafn annars af þeim lögreglumönnum sem getið er í ákæru 5. janúar 2011 og tekið er upp í hinum áfrýjaða dómi. Hann heitir [...].

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærum.

Eftir að hinn áfrýjaði dómur gekk var ákærði hinn 17. ágúst 2011 dæmdur í Héraðsdómi Austurlands í 18 mánaða fangelsi fyrir umferðar- og hegningarlagabrot, þar á meðal fyrir brot gegn valdstjórninni sem beindust gegn fjórum lögreglumönnum og tilraun til meiriháttar líkamsárásar gegn einum þeirra. Voru brotin talin varða við 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Þessum dómi var ekki áfrýjað.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 106. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hafði ákærði áður en hann framdi þau brot sem um ræðir í þessu máli margoft hlotið dóma fyrir auðgunarbrot, einkum þjófnað, auk þess sem hann var tvisvar á árinu 2009 dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður einkum litið til ákvæða 3. mgr. 106. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga og ákveðst refsing hans fangelsi í 12 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

          Ákærði, Björgvin Þór Kristjánsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

            Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 343.737 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 10. maí 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. apríl sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á [...], dags. 25. október 2010 og ákæru ríkissaksóknara, dags. 5. janúar 2011, á hendur Björgvini Þór Kristjánssyni, kt. [...], [...], [...]. Málin voru sameinuð á þingfestingardegi síðar greindrar ákæru, 17. mars 2011.

Í ákæru lögreglustjórans á [...]  dags. 25. október 2010, er ákærða gefinn að sök þjófnaður „með því að hafa á tímabilinu frá föstudeginum 1. október til mánudagsins 4. október 2010, brotist inn í þjónustumiðstöð tjaldsvæðisins á  [...], með því að spenna upp glugga á austurhlið og stolið þaðan tveimur hátölurum og einum útvarpsmagnara af tegundinni Pioneer, að áætluðu verðmæti kr. 15.000.“

Í ákæruskjali er háttsemin talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í ákæru ríkissaksóknara, dags. 5. janúar 2011, er ákærða gefið að sök brot  gegn valdstjórninni „með því að hafa að kvöldi laugardagsins 23. október 2010, fyrir utan lögreglustöðina að [...] og skömmu síðar í fangaklefa lögreglustöðvarinnar, hótað lögreglumönnunum A og B, sem þar voru við skyldustörf, lífláti og líkamsmeiðingum.“

Í ákæruskjali er háttsemin talin varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 25/2007 og er þess þar krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Við fyrirtöku málsins 17. mars 2011 játaði ákærði sök samkvæmt ákæru lögreglustjórans á [...], dags. 25. október 2010, en neitaði sök samkvæmt ákæru ríkissaksóknara, dags. 5. janúar 2011.

Af hálfu ákærða er þess krafist að honum verði ekki gerð refsing vegna ákæru lögreglustjórans á [...] frá 25. október 2010, en til vara vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst ákærði sýknu af ákæru ríkissaksóknara, dags. 5. janúar 2011, en til vara að dæmd verði vægasta refsing sem lög leyfa. Komi til þess að refsing verði dæmd er þess krafist að henni verði frestað skilorðsbundið. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna að mati réttarins og greiðslu útlagðs kostnaðar.

I

Ákæra lögreglustjórans á [...] dags. 25. október 2010:

Um málavaxtalýsingu er skírskotað til ákæru, en ákærði játaði skýlaust sök samkvæmt ákærunni. Var málið því þegar tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu, samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Með játningu ákærða, sem fær fulla stoð í gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um það brot sem lýst er í ákæruskjali og sem þar er rétt heimfært til refsiákvæðis.

II

Ákæra ríkissaksóknara, dags. 5. janúar 2011:

Samkvæmt frumskýrslu lögreglustjórans á [...], dags. 24. október 2010, barst lögreglu ósk frá föður ákærða um aðstoð vegna ölvunar og óláta í ákærða inni á heimili þeirra kl. 23:11 að kvöldi 23. október s.á. Er lögregla kom á staðinn barst aftur tilkynning um að ákærði væri farinn þaðan og hefði sést berja í bifreið til móts við lögreglustöðina á [...]. Kemur fram að lögregla hafi komið að ákærða sitjandi við götuna gegnt lögreglustöðinni. Hafi hann verið ber að ofan og virst í annarlegu ástandi, allur titrandi og ekki svarað lögreglumönnunum í fyrstu, en síðan færst allur í aukana og byrjað að hrækja og öskra formælingar að lögreglumönnum. Hafi lögreglumennirnir haldið við hann og ítrekað reynt að róa hann án árangurs. Hafi lögregla gætt varúðar vegna vitneskju um að ákærði væri smitaður af lifrarbólgu C, en sjá hafi mátt blæðandi sár og skrámur á höndum hans og höfði. Hafi ákærða að lokum verið haldið niðri í föstum tökum og hann í framhaldi handtekinn kl. 23:30 og fluttur á lögreglustöð. Vegna smithættu og þess hve mikið ákærði hafi hrækt, hafi lögreglumenn brugðið á það ráð að setja rykgrímu fyrir vit hans. Ákærði hafi brugðist illa við öllum tilraunum lögreglu til að ná sambandi við hann og hafi hann haldið uppteknum hætti með formælingar og hótanir í garð þeirra eftir að komið var í fangaklefa kl. 23:36. Hafi hann virst í eins konar sturlunarástandi, öndun hans hafi verið mjög hröð og líkaminn allur mjög spenntur, andlit hans afmyndað af reiði og æsingi, sjáöldur útþanin og augu hans útglennt. Í fangaklefa hafi ákærði ítrekað gert tilraunir til að skaða sjálfan sig með því að slá höfði sínu við vegg, auk þess sem hann hafi sparkað í annan lögreglumanninn. Hafi lögreglumennirnir ekki talið óhætt annað en að halda ákærða niðri sökum hættu á því að hann skaðaði sjálfan sig. Hafi læknir verið kallaður til, sem komið hafi kl. 00:01 og sprautað ákærða með róandi lyfjum. Meðan komu læknisins hafi verið beðið hafi ákærði haldið áfram að hóta lögreglumönnum lífláti og barsmíðum, m.a að hann myndi sprengja bifreiðar þeirra og taka inn stera til að geta barið þá. Hafi hann beint máli sínu að þeim með nafni og tekið fram að hann vissi hvar þeir ættu heima. Hafi þessar hótanir verið margendurteknar, auk minniháttar svívirðinga. Einnig hafi ákærði hótað tilkölluðum lækni lífláti og verið með svívirðingar í hennar garð. Ákærði hafi byrjað að róast eftir að hafa verið gefin róandi lyf og hafi handjárn þá verið losuð af honum og fangaklefa lokað kl. 00:15.

Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að rætt hafi verið við foreldra ákærða, sem borið hafi um að ákærði hafi gengið berserksgang á heimilinu. Liggja fyrir í málinu ljósmyndir af verksummerkjum þar. Þá liggur fyrir í málinu 30 mínútna upptaka af samskiptum lögreglumanna og ákærða í fangaklefa, auk samantektar um efni hennar.

Verður nú rakinn eftir þörfum framburður ákærða og þeirra vitna sem komu fyrir dóminn.

Ákærði kvaðst fyrir dómi muna síðast eftir því að hafa verið að klæða sig í skó en næst muna eftir sér í fangaklefa. Hann kvaðst hafa verið að drekka, en ekki muna hve mikið hann drakk né hvað. Hann kvaðst ekkert geta tjáð sig um þær hótanir í garð lögreglumanna sem honum væru gefnar að sök, þar sem hann myndi ekkert eftir atvikum. Hann kvaðst ekkert eiga sökótt við umrædda lögreglumenn og hafa átt góð samskipti við þá í gegnum tíðina, þótt þeir hafi oft þurft að hafa afskipti af honum. Hann myndi aldrei standa við hótanir af því tagi sem honum væru gefnar að sök. Hann kvaðst hafa verið með áverka á úlnlið fyrir þetta kvöld. Ákærði kvaðst ávallt vera samvinnuþýður við lögreglu að fyrra bragði, en hann sé öryrki vegna áverka víðs vegar um líkamann og þoli illa þegar hann sé tekinn tökum af lögreglu. Slíkt hafi leitt til þess að hann hafi brugðist illa við og eigi það við um umrætt atvik, sem og einhver fyrri samskipti við lögreglu, einkum í Reykjavík.

Framburður ákærða fyrir dómi varðandi þær hótanir sem honum eru gefnar að sök var á svipaðan veg og við skýrslugjöf hans hjá lögreglu, sem fram fór daginn eftir umræddan atburð. Þar kvaðst ákærði ekki minnast neinna hótana af sinni hálfu, en hafi verið um slíkt að ræða hafi þær einungis verið settar fram til að fá lögreglumennina til að sleppa tökum á honum og ekki hafi verið nein meining að baki þeim. Hjá lögreglu bar ákærði um að hafa verið búinn að drekka mjög mikið, eða um 1 líter af 20% sterku áfengi. Kvaðst hann muna eftir að hafa legið á götunni ber að ofan, að reyna að stöðva umferð til að geta náð sambandi við lögreglu vegna áverka sem hann hafi verið búinn að hljóta. Kvaðst hann einnig muna lítillega eftir því að hafa verið sprautaður af lækni og að hafa verið haldið föstum í tökum lögreglumanna. Lögreglumennirnir hafi meitt hann mikið og hafi hann verið æstur vegna þess.

A, annar þeirra lögreglumanna sem afskipti höfðu af ákærða umrætt sinn, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst ásamt samstarfsmanni sínum, B, hafa komið að ákærða sitjandi á kantsteini gegnt lögreglustöðinni á [...], eftir að lögreglu höfðu borist tilkynningar, fyrst frá [...] ákærða vegna óláta hans á [...] [...] og síðan frá vegfaranda um mann sem barið hefði í bifreið á leið um [...]. Ákærði hafi fallið úr sitjandi stellingu á magann er að honum var komið. Vitnið kvaðst þekkja ákærða vel og hafa strax þegar komið var að honum hafa kynnt ákærða hverjir þeir lögreglumenn væru sem hefðu afskipti af honum, í því skyni að fara sem best að ákærða. Ákærði hafi þó, um leið og hann rankaði við sér, farið að hóta lögreglumönnunum lífláti og limlestingum. Ákærði hafi verið vægast sagt æstur og hafi hann á endanum verið handtekinn og færður með valdi á lögreglustöð. Ákærði hafi hrækt að lögreglumönnunum og því hafi verið brugðið á það ráð að setja rykgrímu yfir vit hans. Í fangaklefa hafi ákærði haldið áfram að hóta lögreglumönnunum og ausa yfir þá svívirðingum. Hann hafi hótað þeim með nafni, hótað að koma heim til þeirra og hótað að sprengja bifreiðar þeirra, sem þeir skyldu ekki efast um að hann væri fær um. Vitnið kvaðst telja ákærða hafa verið í sturlunarástandi og lögreglumennirnir hafi metið það svo að ekki væri óhætt annað en að halda ákærða niðri svo hann skaðaði ekki sjálfan sig, sem hann hafi reynt með því að skalla veggi. Á endanum kvaðst vitnið hafa tekið þá ákvörðun að kalla til lækni vegna ástands ákærða. Læknirinn hafi sprautað ákærða með róandi lyfjum.

Nánar aðspurður út í hótanir ákærða kvað vitnið þær hafa beinst bæði að sér og B og að ákærði hafi bæði nafngreint þá og tilgreint heimilisföng þeirra til að skapa ógn. Ákærði hafi hótað þeim báðum lífláti og limlestingum margítrekað. Vitnið kvaðst vita til þess að ákærði þekkti í raun til heimilisfanga þeirra. Hann kvaðst hafa tekið þessar hótanir alvarlega og óttast að ákærði geti gert sér eða fjölskyldu sinni eitthvað til miska þegar hann sé í sturlunarástandi á borð við það sem hann hafi verið í umrætt sinn. Ákærði sé fíkill og fari reglulega í ástand þar sem ástæða sé til að óttast hann.

Vitnið kvaðst ekki vita til þess að aðrir hafi orðið vitni að samskiptum þeirra lögreglumanna við ákærða, utan þess að læknirinn hafi komið að hluta þeirra. Aðspurður kvaðst vitnið minnast þess að ákærði hafi kvartað undan verkjum í handlegg og beðið lögreglumenn að lina tökin á sér, en lögreglumennirnir hafi útskýrt fyrir ákærða að tökin yrðu linuð ef hann róaði sig niður. Vitnið lýsti tökum lögreglu á ákærða nánar en ekki er þörf á að rekja það nánar hér. Aðspurður kvað vitnið ákærða hafa borið með sér að vera undir áhrifum en þetta hafi ekki verið nánar rannsakað.

Framburður A fyrir dómi samræmist því sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu, er hann undirritar, sem og kæruskýrslu hans, dags. 16. nóvember 2010.

B lögreglumaður gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Hann bar með sama hætti og A um upphaf málsins og tilkynningar sem lögreglu bárust. Ákærði hafi, þegar lögregla kom að honum sitjandi á kantsteini gegnt lögreglustöðinni, verið ber að ofan í aðeins einum skó. Ákærði hafi hniprað sig niður á jörðina, skolfið, öndun hans hafi verið hröð og augu hans útglennt meðan lögreglumennirnir hafi reynt að ná sambandi við hann án árangurs. Er ákærði hafi reynt að standa upp hafi lögreglumönnum ekki litist á blikuna og tekið hann tökum og handjárnað hann. Ákærði hafi hrækt að þeim en við því hafi lögreglumennirnir brugðist með því að setja á hann rykgrímu, eftir að hann hafi verið handjárnaður.  Gríman hafi hins vegar fljótlega losnað frá og fatnaður lögreglumannanna verið úthræktur. Ákærði hafi neitað að standa í fæturna og það orðið úr að lögreglumennirnir hafi borið hann yfir á lögreglustöðina. Þá hafi ákærði byrjað að hóta báðum lögreglumönnunum lífláti og barsmíðum og m.a. hótað því að sprengja bíla þeirra, taka inn stera til að geta lamið þá og að koma heim til þeirra í þessu skyni. Vitnið kvaðst lítið mark hafa tekið á þessum hótunum fyrr en komið var inn í fangaklefa, en þá hafi ákærði farið að nafngreina þá í hótunum sínum og horft stíft í augu þeirra meðan hann bar þær fram. Vitnið kvaðst þekkja vel til ákærða og oft hafa haft afskipti af honum, en ákærði hafi aldrei fyrr farið svona langt yfir strikið. Vitnið kvaðst hafa óttast að ákærði væri kominn í slíkt sturlunarástand að hætta væri á að hann fengi hjartaáfall. Læknir hafi því verið kallaður til sem gefið hafi ákærða róandi lyf með sprautu og hann róast í framhaldi af því. 

Vitnið kvað hótanir ákærða hafa beinst m.a. að heimili hans, þar sem 6 einstaklingar búi. Hann kvaðst óttast það mjög hvað gerst gæti ef ákærði kæmi heim til hans í ástandi á borð við það sem hann hafi verið í umrætt sinn. Hann kvað  ákærða þekkja vel til þess hvar hann byggi og hvaða bifreið hann æki. Aðspurður kvað vitnið hótanir ákærða hafa beinst gegn báðum lögreglumönnunum, en hann hafi nafngreint þá báða til skiptis, auk þess sem ákærði hafi verið með hótanir og aðdróttanir í garð læknisins sem kallaður hafi verið til. Vitnið kvað hótanir ákærða hafa verið svipaðar í garð beggja lögreglumannanna. Ákærði hafi margítrekað hótað báðum lögreglumönnunum lífláti með orðunum „ég ætla að drepa þig“ og oftsinnis sagt „þú munt sjá eftir þessu“.

Vitnið sagði sér og A hafa verið það brugðið eftir að hótanir ákærða höfðu gengið á í nokkurn tíma, að þeir hafi ákveðið að sækja upptökutæki. Vitnið hafi sótt tækið og sagt við ákærða að kveikt yrði á tækinu. Læknirinn hafi komið fljótlega í kjölfarið og helstu svívirðingar og hótanir ákærða hafi verið yfirstaðnar þegar upptakan fór í gang.

Framburður B fyrir dómi samræmist því sem fram kemur kæruskýrslu hans, dags. 25. nóvember 2010.

C, [...] ákærða, kom fyrir dóminn og lýsti stuttlega ástandi ákærða umrætt sinn. Ekki er þörf á að rekja sérstaklega framburð hans, sem samræmdist framburði lögreglumannanna tveggja um að ákærði hafi verið í eins konar sturlunarástandi.

D, læknir, gaf skýrslu fyrir dómi og kvað A lögreglumann hafa kallað sig til umrætt sinn vegna ástands ákærða. Vitnið kvaðst engin orðaskipti hafa átt við ákærða heldur gengið rakleitt að honum er hún kom inn í  fangaklefann, sprautað hann með róandi lyfjum og farið strax út að því loknu. Eftir það hafi hún staðið fyrir utan klefann og beðið þess að sjá hvort ákærði róaðist. Ákærði hafi verið í sturlunarástandi, barist um og reynt að hrækja á lögreglumennina. Hún kvaðst þekkja vel til ákærða sem skjólstæðings fyrir þennan atburð, en aldrei hafa séð hann í slíku ástandi fyrr. Hún kvaðst hafa talið hann undir áhrifum einhverra lyfja. Ekkert annað hafi verið í stöðunni en að sprauta ákærða niður þar sem hann hafi augljóslega verið hættulegur sjálfum sér og öðrum. Ákærði, sem sé með lifrarbólgusjúkdóm, hafi til að mynda ítrekað reynt að hrækja á lögreglumennina meðan hann barðist um. Lögreglumennirnir hafi haldið ákærða niðri meðan hún sprautaði hann. Á meðan hafi ákærði hótað að fara heim til beggja lögreglumannanna og ráðast að heimili þeirra, en vitnið kvaðst ekki minnast þess sérstaklega að ákærði beindi beinum lífláts- eða ofbeldishótunum að lögreglumönnunum eða fjölskyldum þeirra. Vitnið kvað ákærða hafa verið með einhverjar ávirðingar í sinn garð en engar beinar hótanir.

III

Í ákæru ríkissaksóknara, dags. 5. janúar 2011, er ákærða gefið að sök brot gegn valdstjórninni, með því að hafa hótað tveimur tilgreindum lögreglumönnum lífláti og líkamsmeiðingum, þar sem þeir voru við skyldustörf. Í ákærunni er nafn annars lögreglumannsins ranglega tilgreint en það kemur ekki að sök.

Málatilbúnaður ákæruvaldsins byggir fyrst og fremst á framburðum beggja lögreglumannanna, en auk þess á framburði læknis, sem kallaður var til vegna ástands ákærða og á 30 mínútna hljóðupptöku af samskiptum ákærða og lögreglumannanna. Ákærði neitar sök og ber við algjöru minnisleysi um atburði umrætt sinn.

Lögreglumennirnir tveir komu fyrir dóminn og báru hvor fyrir sig um að ákærði hafi umrætt sinn hótað þeim báðum lífláti og líkamsmeiðingum. Samkvæmt framburði beggja lögreglumannanna hótaði ákærði þeim ítrekað með nafni, kvaðst vita hvar þeir byggju og hafði í hótunum um að koma heim til þeirra. Bera báðir lögreglumennirnir um að ákærða sé vel kunnugt um það hvar þeir búi og að þeir og fjölskyldur þeirra hafi ástæðu til að óttast ákærða þegar hann sé í ástandi líku því sem hann var í umrætt sinn. 

Dómurinn hefur hlýtt á fyrrgreinda hljóðupptöku sem fyrir liggur í málinu. Ekki er alltaf hægt að greina þar orðaskil, en af henni má skýrt heyra að ákærði hefur verið í eins konar sturlunarástandi eins og vitnin hafa lýst, öskrandi, hrækjandi og viðhafandi formælingar. Heyrist hann margítrekað biðja lögreglumenn að sleppa sér en lögreglumenn svara að þeir geri það um leið og hann róist. Líkt og fram kemur í samantekt lögreglu um efni hljóðupptökunnar heyrist ákærði eitt sinn segja skýrt og greinilega „ég veit hvar þú átt heima helvítið þitt“, en auk þess heyrist snemma á upptökunni að ákærði viðhefur orðin „ég sprengi ykkur“. Annað sem talist gæti hótun verður ekki greint á upptökunni. Á upptökunni má greina að læknirinn kemur inn þegar um þriðjungur hennar er liðinn og þótt ekkert heyrist í henni sjálfri má ráða það af orðum ákærða sem beint er til hennar að hún hafi dvalið þar inni í um 2-3 mínútur.

Framburður lögreglumannanna tveggja er skýr um að ákærði hafi ítrekað, bæði fyrir utan lögreglustöðina og inni í fangaklefa, hótað þeim báðum lífláti og barsmíðum. Framburður þeirra fær nokkra stoð í framburði A læknis sem ber um að hafa heyrt ákærða hóta því að koma heim til lögreglumannanna, enda þótt hún beri ekki um að hafa heyrt beinar ofbeldis- eða líflátshótanir. Þá fær framburður lögreglumannanna stoð í fyrirliggjandi hljóðupptöku, þar sem ákærði heyrist hóta að sprengja lögreglumennina og segir við annan lögreglumanninn „ég veit hvar þú átt heima helvítið þitt“. Með framangreindu telst sannað, gegn neitun ákærða, sem ekki kveðst muna atburði, að ákærði hafi umrætt sinn hótað lögreglumönnunum tveimur, þar sem þeir voru við skyldustörf, lífláti og líkamsmeiðingum eins og í ákæru greinir. Verður ákærði því einnig sakfelldur fyrir brot það sem honum er gefið að sök í ákæru ríkissaksóknara frá 5. janúar 2011 og eru brot hans þar réttilega heimfærð til 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

IV

Ákærði er hér sakfelldur samkvæmt ákæru lögreglustjórans á [...], dags. 25. október 2010, fyrir þjófnaðarbrot er varðar við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og samkvæmt ákæru ríkissaksóknara, dags. 8. apríl 2008, fyrir brot gegn valdstjórninni, sbr. 1. mgr. 106. gr. sömu laga

Ákærði á að baki allnokkurn sakaferil, en hann hefur frá árinu 2000 fram til júní 2010 sautján sinnum hlotið dóma fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum, þar af ellefu sinnum fyrir auðgunarbrot eða tilraun til slíkra brota. Síðast hlaut hann dóm 28. júní 2010 fyrir þjófnaðarbrot, fimm mánaða fangelsi, og var þá fangelsisrefsing sem honum hafði verið veitt reynslulausn af tekin upp og dæmd með. Ákærði hefur tvisvar áður verið dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, annars vegar með dómi 8. janúar 2009, þar sem hann var jafnframt dæmdur fyrir líkamsárás og frelsissviptingu, og hins vegar með dómi 11. nóvember s.á. Þá hlaut hann fangelsisdóm fyrir líkamsárás 24. september s.á. Frá árinu 2004 hafa ekki þótt efni til að skilorðsbinda fangelsisrefsingar sem ákærða hafa verið dæmdar.

Í nefndum dómi frá 24. september 2009 kemur fram að ákærði hafi sætt geðrannsókn í tilefni málsins og sé niðurstaða hennar sú að ákærði sé talinn sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga og ekki verði séð að nein læknisfræðileg atriði eigi við hann sem komi í veg fyrir það að refsing geti borið árangur, reynist hann sekur, sbr. 16. gr. sömu laga.

Ákærði er nú sakfelldur í þriðja sinni fyrir brot gegn valdstjórninni og hafa framangreindir dómar frá 8. júní, 24. september og 11. nóvember 2009  ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar hans nú, sbr. heimild í 4. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafa nokkrir dómar sem hann hefur hlotið á undanförnum árum fyrir auðgunarbrot ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar hans fyrir það þjófnaðarbrot sem hann er nú sakfelldur fyrir, sbr. 255. gr. sömu laga.

Við ákvörðun refsingar ákærða er auk framangreinds til þess horft að hótanir ákærða í garð lögreglumannanna voru margítrekaðar og ofsafengnar. Hvað varðar þjófnaðarbrot það sem ákærði er sakfelldur fyrir horfir játning hans til mildunar. 

Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin, í samræmi við framangreint og 77. gr. almennra hegningarlaga, 9 mánaða fangelsi. Í ljósi sakaferils ákærða eru engin efni til að fresta framkvæmd refsingarinnar skilorðsbundið.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, alls 287.550 krónur, sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin að teknu tilliti til virðisaukaskatts 251.000 krónur, auk útlagðs kostnaðs verjandans vegna flugfargjalds og dagpeninga hans, samtals 36.550 krónur. Enginn sakarkostnaður hlaust af málinu við rannsókn þess hjá lögreglu.

Dómur þessi er kveðinn upp af Halldóri Björnssyni héraðsdómara í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum, klukkan 11:00 þriðjudaginn 10. maí 2011.

Dómsorð:

Ákærði, Björgvin Þór Kristjánsson, sæti fangelsi í 9 mánuði.

Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 287.550 krónur, en þar af nema málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 251.000 krónum.