Hæstiréttur íslands

Mál nr. 400/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Skuldabréf
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Fyrning


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. október 2001.

Nr. 400/2001.

Ágúst Júlíusson

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Trésmiðju Snorra Hjaltasonar ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Fjárnám. Skuldabréf. Sjálfskuldarábyrgð. Fyrning.

T ehf. krafðist fjárnáms hjá Á á grundvelli veðskuldabréfs, útgefnu af S til T ehf., sem áritað var um sjálfskuldarábyrgð Á. Krafðist Á þess að ógilt yrði sú ákvörðun sýslumanns að hafna mótmælum hans við því að fjárnámið næði fram að ganga.  Undirskrift Á á veðskuldabréfið var talin fela í sér gilda heimild til handa T ehf. til að innheimta kröfu sína á hendur Á án undangengins dóms eða sáttar á grundvelli 1. mgr. 3. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. 7. tl. 1. gr. sömu laga. Ekki var á það fallist með Á að röng tilgreining útgáfudags skuldabréfsins í skuldbreytingarskjölum, sem Á hafði einnig undirritað, gæti ein og sér staðið því í vegi að T ehf. gæti beitt því hagræði við innheimtu sem tilvitnuð ákvæði aðfararlaga veittu honum. Ekki var heldur talið að misræmi í tilgreiningu á númeri skuldabréfsins leiddi til annarrar niðurstöðu. Þá var hafnað þeirri málsástæðu Á að ábyrgð hans væri niður fallin fyrir fyrningu, enda var talið að nafnritun hans á skuldbreytingarskjölin hefði rofið fyrningarfrest gagnvart honum. Kröfu Á um lækkun eða niðurfellingu vaxta eða innheimtukostnaðar var einnig hafnað, þar sem Á hafði engar sannanlegar athugasemdir gert við kröfu T ehf. frá því hann hóf innheimtuaðgerðir, þar til við aðfarargerð þá sem um var deilt í málinu. Kröfu Á var samkvæmt þessu hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 3. apríl sama árs um að hrinda mótmælum sóknaraðila gegn því að fram næði að ganga fjárnám á hendur honum samkvæmt kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2001.

Málsaðilar eru:

Sóknaraðili er Ágúst Júlíusson, kt. 241061-2569, Sogavegi 172, Reykjavík, en varnaraðili er Trésmiðja Snorra Hjaltasonar ehf. kt. 700189-2369, Vagnhöfða 7b, Reykjavík.

Mál þetta barst dóminum 23. maí sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem dagsett er 21. sama mánaðar.

Það var tekið til úrskurðar 19. september sl. að afloknum munnlegum málflutningi.

Dómkröfur:

Sóknaraðili krefst þess aðallega, að ógilt verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 3. apríl sl. um að hafna mótmæltum hans við því, að fjárnámsmálið nr. 011-2001-03991, að kröfu Trésmiðju Snorra Hjaltasonar ehf. nái fram að ganga hjá honum.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.

Til vara, krefst sóknaraðili þess, að fjárnámskrafan verði stórlega lækkuð og að málskostnaður verði felldur niður.

Varnaraðili krefst þess, að staðfest verði ákvörðun sýslumanns um að aðfarargerð nr. 011-2001-03991 í málinu Trésmiðja Snorra Hjaltasonar ehf. gegn Ágústi Júlíussyni, nái fram að ganga hjá sóknaraðila.

Varnaraðili krefst þess einnig að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Málavextir, málsástæður og lagarök:

Mál þetta á sér langan aðdraganda. Það á sér þær rætur, að Sólveig Róshildur Erlendsdóttir, Reyrvegi 36, gaf út veðskuldabréf til varnaraðila, sem dagsett er 22. apríl 1993. Skuldabréfið er að fjárhæð 2.450.000 krónur og var tryggt með 4 veðrétti í húseigninni Reyrengi 36 í Reykjavík. Það skyldi greitt á fjórum árum með mánaðarlegum afborgunum í fyrsta sinn 1. ágúst 1993. Vextir skyldu reiknast frá 14. apríl 1993. Á bakhlið skuldabréfsins er eftirfarandi ákvæði prentað skyggðu letri: ,,Sé skuldin tryggð með sjálfskuldarábyrgð, eða veðtrygging reynist ófullnægjandi, má gera fjárnám til tryggingar fullnustu skuldarinnar, án undangengins dóms eða réttarsáttar samkvæmt 7. tölulið 1. málsgreinar 1. greinar laga nr. 90/1989 hjá aðalskuldara eða sjálfskuldarábyrgðarmönnum. Fjárnámsheimildin nær til allra krafna samkvæmt bréfi þessu. “  Neðst á skuldabréfinu er prentað skyggðu letri  ,,Undirskrift sjálfskuldarábyrgðaraðila” Þar undir eru prentaðar línur, sem sjálfskuldarábyrgðarmönnum er ætlað að rita nöfn sín á.  Sóknaraðili ritaði nafn sitt á eina slíka línu. Veðskuldabréfið er vottað tveimur vottum, sem báðir votta sérstaklega undirritun sóknaraðila.  Greiðsluskilmálum veðskuldabréfsins var tvívegis breytt. Í fyrra sinnið hinn 26. júní 1995. Yfirskrift þessa skjals er svohljóðandi: Breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfs nr. 306-64-1777.  Síðan segir í meginmáli skjalsins:,,Skuldabréf útgefið 14.04.1003 af Sólveigu Róshildi Erlendsdóttur að fjárhæð kr. 2.450.000,00 tryggt með fasteignaveði í húseigninni Reyrengi 36 í Reykjavík.. Lán þetta bar að endurgreiða með 48 afborgunum á 1 mánaða fresti. Þann 1.06 1995 eru eftirstöðvar skuldabréfsins kr. 2.379.803.60, þar af vanskil kr. 1.103.762,40. Vextir reiknast frá 01.06.95.”  Síðan segir í niðurlagi skjalsins. ,,Lán þetta ber að endurgreiða með 100 afborgunum á 12 mánaða fresti. Næsti gjalddagi verur 01.08. 1995. Að öðru leyti haldast ákvæði skuldabréfsins.  Sóknaraðili ritar nafn sitt á skilmálabreytinguna, ásamt fyrirsvarsmanni varnaraðila, aðalskuldara skulda­bréfsins og eiginmanni hennar, Ólafs Júlíussonar. Skjalið er vottað af tveimur vottum.

Síðari skilmálabreytingin er dagsett 11. ágúst 1996 og er upphaf hennar eins orðað og í hinni fyrri. Síðan segir: ,,Lán þetta bar að endurgreiða með 48 afborgunum á 1 mán. fresti, gerð var skilmálabreyting á láni þessu þann 26.06.95 og bar þá að greiða lán þetta með 100 afborgunum á 1 mán. fresti, fyrsti gjalddagi var 01.08, 1995 og voru eftirstöðvar brefsins 2.379.803,60. Þann 09.08. 1996 eru eftirstöðvar skuldabréfsins 2.518.523,00 þar af vanskil 448..093,40. Vextir reiknast frá 01.08. 1996.” Síðan er því lýst, hvernig skilmálum skuldabréfsins sé breytt að beiðni skuldara. Í niðurlagi skjaldsins segir svo: ,,Lán þetta ber að endurgreiða með 300 afborgunum á 1 mánað fresti. Næsti gjalddagi verður 01.09. 1996. Að öðru leyti haldast ákvæði skuldabréfsins.”  Sömu einstaklingar undirrita skjalið og undirrituðu fyrri skilmálabreytinguna. Vottar eru tveir, en ekki þeir sömu og á fyrri skilmálabreytingu.

Gögn málsins bera með sér, að varnaraðili hóf innheimtuaðgerðir á hendur sóknaraðila með innheimtubréfi lögmanns dags. 17. desember 1997. Umkrafin skuld nam þá 3.213.287 krónum. Sóknaraðili virðist ekki hafa sinnt innheimtubréfi lögmanns varnaraðila, sem því eftir innheimtutilraunum sínum með því að senda sóknaraðila greiðsluáskorun, dags. 11. febrúar 1998, sem birt var fyrir honum sama dag. Þar er skorað á sóknaraðila að greiða skuldina við varnaraðila innan 15 daga,  ella verði krafist aðfarar. Skuldin nam 3.293.511 krónum, samkvæmt sundurliðun í greiðsluáskorun. Lögmaður varnaraðila sendi sýslumanninum í Reykjavík aðfararbeiðni, sem dagsett er 4. mars s.á. Sýslumaður boðaði sóknaraðila til fjárnáms og var boðunarbréf sýslumanns birt 2. apríl s.á. á lögheimili sóknaraðila fyrir föður hans. Boðunarbréf sýslumanns hefur ekki verið lagt fram í málinu. Fjárnám var síðan gert hjá sóknaraðila á starfstöð sýslumannsins í Reykjavík hinn 16. apríl s.á. Í gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík er svohljóðandi bókun. ,,Fyrir gerðarbeiðanda mætir Sveinn Jónatansson hdl. Gerðarþoli er ekki mætur. Skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga  nr. 90/1989 er fullnægt til að gerðin fari fram þótt ekki sé mætt fyrir gerðarþola. Að ábendingu gerðarbeiðanda, er hér með gert fjárnám fyrir kröfum gerðarbeiðanda í : eignarhluta gerðarþola í fasteigninni Sogavegi 172, hér í borg og bifreiðinni JN026, af gerðinni Volvo, árgerð 1989. Sýslumaður mun tilkynna gerðarþola um fjárnámið og þýðingu þess.”  Varnaraðili krafðist nauðungarsölu á hinni fjárnumdu bifreið með beiðni dags. 23. júní s.á. til lúkningar skuld að fjárhæð 3.535.047 krónur, samkvæmt sundurliðun í sölubeiðni. Bifreiðin var seld á uppboði, sem fram fór 3. október s.á. skv. áritun sýslumanns á fjárnámsendurrit. Nettósöluandvirði bifreiðarinnar nam 187.926, sem greiddust upp í fjárnámskröfu varnaraðila, sbr. áritun sýslumanns á fjárnámsendurritið og framlagða úthlutunargerð.

Húseignin Reyrengi 36 í Reykjavík, sem sett var að veði til tryggingar skuld Sólveigar Róshildar Erlendsdóttur, var seld á nauðungaruppboði sem fram fór 30. september 1998. Ekkert greiddist af uppboðsandvirði eignarinnar upp í skuldina við varnaraðila.

Ráða má að framlögðum gögnum, að lögmaður varnaraðila afturkallaði uppboðsbeiðni dags. 2. nóvember 1998 á eignarhluta sóknaraðila í Sogavegi 172 með bréfi til sýslumanns 12. apríl 1999.  Lögmaðurinn krafðist enn nauðungarsölu á eignarhluta sóknaraðila í Sogavegi 172 með uppboðsbeiðni dags. 8. nóvember 1999. Sú uppboðsbeiðni virðist hafa verið afturkölluð 30. maí á síðastliðnu ári, sbr. áritun á uppboðsbeiðni.

Lögmaður varnaraðila sendi beiðni til sýslumannsins í Reykjavík dags. 24. febrúar sl. þar sem krafist var endurupptöku aðfarar hjá sóknaraðila. Sýslumaður boðaði sóknaraðila á skrifstofu sína 3. apríl sl. og var sú boðun birt fyrir sóknaraðila sjálfum 22. mars sl. Krafist var fjárnáms hjá sóknaraðila til tryggingar skuld að fjárhæð 5.575.602 krónum. Lögmaður sóknaraðila mætti við aðfarargerðina og lagði fram skrifleg mótmæli. Þau eru efnilega samhljóða málsástæðum hans hér í dómi, (sjá umfjöllun um málsástæður sóknaraðila). Fulltrúi sýslumanns ákvað að hafna framkomnum mótmælum sóknaraðila og láta gerðina ná fara fram að ganga, eins og bókað er í gerðarbók sýslumanns. Þar er ennfremur bókað: ,,Lögmaður gerðarþola kveðst muni skjóta þeirri ákvörðun fulltrúa sýslumanns til héraðsdóms og óskar eftir að málinu verði frestað á meðan úrlausn héraðsdóms gangi. Lögmaður gerðarbeiðanda samþykkir að  gerðinni verði frestað á meðan.”

Þess ber einnig að geta, að varnaraðili reyndi einnig að innheimta skuldina hjá aðalskuldara veðskuldabréfsins, Sólveigu Róshildi Erlendsdóttur, eftir að hin veðsetta húseign hafði verið seld á nauðungaruppboði,  án þess að innheimtutilraunir hans hafi borið árangur. 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila:

Sóknaraðili styður kröfur sínar í málinu eftirfarandi rökum:

1.        Hann hafi ekki undirgengist sjálfskuldarábyrgð á þeirri skuld, sem tilgreind sé á skuldabréfi því, sem sé aðfararheimild sóknaraðila, með þeim hætti að honum sé unnt að krefjast aðfarar hjá honum án undangengins dóms. Hvergi sé tekið fram í texta veðskuldabréfsins, að sóknaraðili hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldarinnar og að hann hafi þannig undirgengist einhliða og óskilyrta viðurkenningu á sjálfskuldarábyrgð sinni. Meint sjálfskuldarábyrgð hans uppfylli því ekki venjuleg skilyrði þess að vera aðfararhæf, þar sem ekki sé að finna tilvísun til þess í texta skuldabréfsins. Þar sé þess einungis getið, að unnt sé að krefjast aðfarar o.s.frv., ef skuldin sé tryggð með sjálfskuldarábyrgð, en nafn sóknaraðila sé ekki nefnt í því sambandi.

2.        Verði talið, að sóknaraðili hafi undirgnegist ábyrgð á skuld Sólveigar Róhildar Erlendsdóttur, þá sé sú ábyrgð hans fallin niður fyrir fyrningu skv. 4. tl. 3.gr. laga nr. 14/1905, sbr 2. mgr. sömu laga, en krafa á hendur honum hafi þá í raun orðið gjaldkræf á árinu 1994. Gerðarbeiðandi hafi lagt fram tvö skjöl, sem eigi að sýna að skuldinni hafi verið skuldbreytt, þ.e. skuld sem beri yfirskriftina ,,Breyting á greiðsluskilmálum skuldabréf nr. 306-64-1777.”  Skjöl þessi vísi bæði til þess, að þau séu skuldbreytingarskjöl, sem varði skuldabréf, útgefið 14. apríl 1993 og geti því ekki átt við skuldabréf það, sem fjárnámsmálið sé sprottið af, þar sem það skuldabréf sé útgefið 22. apríl s.á. Ekki sé heldur samræmi milli þess númers, sem tilgreint sé í skuld­breytingarskjölunum og auk þess sé ekki í texta skuldbreytingarskjalanna vísað til þess að sóknaraðili hafi þar undirgengist sjálfskuldarábyrgð á skuldinni.

3.        Að skuldbreytingarskjölin beri það ekki með sér, að hann hafi undirgengist ábyrgð á skuld Sólveigar Róshildar Erlendsdóttur með áritun sinni á skjölin og heldur ekki samþykkt með óyggjandi hætti að taka á sig þá auknu ábyrgð sem skilmálabreytingarnar höfðu í för með sér, enda sé hvergi vikið að aðkomu hans að málinu í texta skilmálabreytinganna.

4.        Að sýslumaður sé óbundinn af fyrri úrlausnum sínum við endurupptöku aðfarargerðar, sbr. 3. mgr. 68. gr. 90/1989 (afl.).

5.        Að það sé meginregla réttarfars, að sá sem neyta vilji þess hagræðis, sem felst í beinni aðfararheimild án undangengins dóms eða sáttar, verði að hafa óyggjandi heimildir fyrir þeirri aðför, ella neyðist hann til að afla sér dóms fyrir kröfu sinni. Þetta hafi varnaraðili ekki tekist og því beri að hafna kröfu hans um fjárnám.

6.        Að kröfum varnaraðila um alla vexti og allan kostnað sé sérstaklega mótmælt, enda hafi engin gögn verið lögð fram þessu til sönnunar og augljóslega sé gerð krafa til greiðslu á fyrndum vöxtum eða krafan til vaxta sé byggð á löglausum útreikningum.

Málástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili vísar til þess, að innheimtutilraunir hans á hendur sóknaraðila hafi staðið yfir í mörg ár og lýsir innheimtutilraunum sínum á sama hátt og að framan er rakið. Vanraraðili upplýsir að fyrri beiðni um nauðungarsölu á eignarhluta sóknaraðila í Sogavegi 172 hafi verið afturkölluð vegna loforðs hans um greiðslu á 300.000 krónum, sem ekki hafi verið staðið við.  Síðari uppboðsbeiðnin hafi verið afturkölluð, þar sem líklegt hafi þótt, að nauðungarsalan yrði árangurslaus, enda hafi einungis verið um að ræða sölu á 20% eignarinnar og engin önnur sölu­beiðni hafi legið fyrir.

Varnaraðili byggir á því, að sóknaraðili hafi undirritað umrætt veðskuldabréf sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. Í stöðluðum texta bréfins fyrir ofan undirritunina sé texti sem tilgreini, hvað felist í undirritun sjálfskuldarábyrgðarmanna, (sjá skáletrun ofarlega á bls. 2 að framan). Einnig verði að líta til þess, að sóknaraðili hafi fyrst borið það fyrir sig við endurupptöku aðfarargerðarinnar í apríl sl. að hann hafi ekki áttað sig á þýðingu undirritunar sinnar, þrátt fyrir áralangt og stöðugt innheimtuferli. Þá sé ekki ljóst í hvaða tilgangi sóknaraðili telji sig hafa ritað undir skuldabréfið, ef ekki í því skyni að taka á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldinni.

Varnaraðili mótmælir því að skuld sóknaraðila sé fallin niður við fyrningu, enda hafi skuldabréfinu tvívegis verið skuldbreytt í síðara skiptið 11. ágúst 1996. Sóknaraðili hafi undirritað þá skuldbreytingu. Allt frá árinu 1997 hafi staðið yfir óslitnar innheimtuaðgerðir á hendur sóknaraðila, eins og framlögð gögn sýni. Með móttöku sýslumanns á aðfararbeiðni á hendur sóknaraðila í mars 1998 hafi fyrningu verið slitið og nýr 4 ára fyrningarfrestur hafist. Málið hafi síðan verið rekið með eðlilegum hraða á hendur sóknaraðila.

Einnig sé þeirri málsástæðu sóknaraðila mótmælt, að skilmálabreytingarnar eigi ekki við veðskuldabréf það, sem sóknaraðili ábyrgðist með sjálfskuldarábyrgð sinni, enda hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á, að um annað slíkt skuldabréf sé að ræða milli sömu aðila og sömu fjárhæðar. Misritun útgáfudags skuldabréfs í skilmálabreytingu geti ekki haft þau áhrif á gildi hennar gagnvart útgefanda eða ábyrgðaraðila, að ábyrgð þess síðarnefnda sé fallin niður.  Báðar skilmálabreytingarnar séu undirritaðar af öllum hlutaðeigandi einstaklingum, vottaðar á réttan hátt og innfærðar í þinglýsingabækur án athugasemda, enda augljóst, hvaða veðskuldabréfi var verið að skuldbreyta, þrátt fyrir misritun útgáfudags. Sjálfskuldarábyrgðin komi skýrt fram í báðum skilmálabreytingunum, en þar sé kveðið á um það, að öll ákvæði skulda­bréfsins haldist að öðru leyti. Því sé ljóst, að sóknaraðili sé bundinn við sjálfskuldarábyrgð sína, enda hafi varnaraðili ekki leyst hann frá ábyrgð sinni

Varnaraðili bendir á það í tilefni af mótmælum sóknaraðila við umkröfðum innheimtukostnaði, að umfang innheimtumálsins hafi verið mikið, m.a. hafi honum verið sendar tvær greiðsluáskoranir, auk fjölda innheimtubréfa, þrjár aðfararbeiðnir, fjórar nauðungarsölubeiðnir og tvær kröfulýsingar. Mætt hafi verið ótal sinnum í fjárnám eða uppboð. Sóknaraðila hafi fengið bréf og tilkynningar með síhækkandi innheimtukostnaði. Varnaraðili vísar til framlagðs skjals, þar sem innheimtukostnaður sé sundurliðaður til sönnunar á umkröfðum innheimtukostnaði.

Varnaraðili byggir á því gagnvart mótmælum sóknaraðila á vaxtakröfu hans, að hún sé í samræmi við ákvæði veðskuldabréfsins, sem sóknaraðili hafi ábyrgst með sjálfskuldaábyrgð sinni. Skuldabréfið hafi verið gjaldfellt 1. október 1996 og hafi þá höfuðstóll þess numið 2.510.128 kr. Áfallnir samningsvextir hafi þá numið 25.520 kr. Skuldin hafi verið dráttarvaxtareiknuð frá gjaldfellingardegi með lögmæltum dráttarvöxtum. Fyrning dráttarvaxta hafi verið slitið með því innheimtuferli, sem að framan sé lýst.

Varnaraðili áréttar að lokum, að sóknaraðili hafi fyrst eftir margra ára innheimtu­aðgerðir borið fyrir sig, að honum hafi ekki verið ljóst, hvað í undirritun hans fólst. Sú málsástæða sé of seint fram komin og hreinn fyrirsláttur. Því sé þess krafist, að tekið verði tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar, að um algerlega tilhæfulaust málskost sé að ræða, þar sem kröfur sóknaraðila séu rangar og í ósamræmi við lög og til þess eins fallnar að fá frekari frest á innheimtuaðgerðum varnaraðila á hendur honum.

Forsendur og niðurstaða:

Sóknaraðili hefur ekki mótmælt því að hafa undirritað sem sjálfskuldar­ábyrgðarmaður veðskuldabréf það, sem útgefið var af Sólveigu Róshildi Erlendsdóttur hinn 22. apríl 1993. Né heldur hefur hann mótmælt undirritun sinni á skuldbreytingarskjöl, sem breyttu greiðsluskilmálum veðskuldabréfsins til hagsbóta fyrir aðalskuldara þess og áður er lýst.

Mótmæli hans beinast í fyrsta lagi á því, að því er virðist, að honum hafi ekki verið ljóst, hvaða lögfylgjur undirritun hans gæti haft í för með sér, enda engin yfirlýsing gefin af hans hálfu um greiðsluskuldbindingu hans í texta skuldabréfsins, né heldur í skuldbreytingarskjölunum tveimur um efni eða innihald ábyrgðar hans.

Dómurinn lítur svo á, að sóknaraðili hafi ekki getað farið í grafgötur með það, að hann væri að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuld aðalskuldara veðskulda­bréfsins með nafnritun sinni á skuldabréfið. Hann skrifar nafn sitt á línu næst fyrir ofan prentaðan texta, þar sem segir skyggðu letri: ,,Undirskrift sjálfskuldar­ábyrgðaraðila.”

Undirritun sóknaraðila ein og sér felur í sér skuldbindingu hans gagnvart réttum eiganda veðskuldabréfsins um að hann taki á sig skyldur sjálfskuldarábyrgðarmanns.

Undirritanir aðalskuldara og sóknaraðila eru vottfestar, hvor fyrir sig, eins og áskilið er í 7. tl. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra.

Í texta veðskuldabréfsins er því lýst, hvaða úrræða skuldareigandi geti gripið til gagnvart sjálfskuldarábyrgðarmanni, verði vanskil af hendi aðalskuldara þess. Ofarlega á blaðsíðu 2 hér að framan er gerð grein fyrir texta, sem varðar heimildir skuldareiganda og réttarfarshagræði hans gagnvart sjálfskuldarábyrgðarmönnum og vísast þar til. Textinn er dreginn fram með skáletrun.  Á veðskuldabréfinu er textinn skráður skyggðu (dekkra letri) letri rétt ofan þeirra lína, sem aðalskuldara og ábyrgðarmönnum er ætlað að rita nöfn sín á.

Að mati dómsins, felur undirskrift sóknaraðila á veðskuldabréfið í sér gilda heimild til handa sóknaraðila til að innheimta það á hendur honum án undangengins dóms eða réttarsáttar á grundvelli 1. mgr. 3. gr. aðfararlaga, sbr. 7. tl. 1. gr. sömu laga.

Því næst verður afstaða tekin til þeirrar málsástæðu sóknaraðila, að nafnritun hans á skuldbreytingaskjölin frá 26. júní 1995 og 11. ágúst 1996 hafi ekkert skuldbindingargildi gagnvart honum, þar sem þau vísi til skuldabréfs, sem útgefið sé 14. apríl 1993, en veðskuldabréf það, sem sóknaraðili undirritaði sem sjálfskuldar­ábyrgðarmaður hafi verið útgefið 22. apríl s.á.

Bæði þessi skjöl vísa að sönnu til skuldabréfs, sem sagt er útgefið 14. apríl 1993 af Sólveigu Róshildi Erlendsdóttur. Að öðru leyti er skuldabréfinu rétt lýst í báðum skjölunum. Í þeim báðum er tekið fram, að þau séu gerð að beiðni skuldara. Einnig byggir sóknaraðili á því í þessu sambandi, að númer skuldabréfsins sé ranglega tilgreint í skuldbreytingaskjölunum. Þar sé vísað til skuldabréf nr. 306-64-1777, en þetta númer sé ekki að finna á veðskuldabréf því sem sóknaraðili skrifaði undir.

Fram kemur á skuldabréfinu, að það sé nr. 1777. Varnaraðili hefur upplýst, að talan 306 vísi til þess útibús Búnaðarbanka Íslands hf., sem annast hafi innheimtu þess, en talan 64 vísi til tegundar skuldarinnar.

Dómurinn getur ekki fallist á, eins og hér stendur á, að röng tilgreining útgáfudags ein og sér standi því í vegi, að varnaraðili geti beitt því hagræði, sem honum er veitt með tilvitnuðum ákvæðum aðfararlaga.  Ekki verður heldur talið að misræmi í tilgreiningu á númeri skuldabréfsins leiði til annarrar niðurstöðu.

Það ákvæði í skuldbreytingarskjölunum, sem snýr að sóknaraðila og varðar hann sérstaklega er sérstök tilvísun til þess, að ákvæði skuldabréfsins haldist að öðru leyti óbreytt. Með því að rita nafn sitt á skuldbreytingarskjölin var sóknaraðili að staðfesta og árétta, að sjálfskuldarábyrgð hans væri áfram virk.

Ekki verður heldur fallist á þá málsástæðu sóknaraðila, að sjálfskuldarábyrgð hans sé fallin niður fyrir fyrningu.

Nafnritun sóknaraðila á skuldbreytingarskjölin rauf þann fyrningarfrest gagnvart honum, sem upphófst við áritun hans á veðskuldabréfið. Fyrningarfrestur miðast því við 11. ágúst 1996, þegar síðara skuldbreytingarskjalið var undirritað. Varnaraðili hóf innheimtuaðgerðir í árslok 1997, eins og áður er lýst. Fyrir hans atbeina var fjárnám gert hjá sóknaraðila 16. apríl 1998. Kröfu varnaraðila var enn við haldið gagnvart sóknaraðila, sbr. 52. gr. aðfararlaga.

Krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila er því í fullu gildi.

Til þess ber einnig að líta í þessu sambandi, að sóknaraðili hefur engar sannan­legar athugasemdir gert við kröfu varnaraðila frá því hann hóf innheimtu­aðgerðir sínar síðla árs 1997, þar til við aðfarargerð þá, sem um er deilt í máli þessu.

Ekki þykja heldur efni til að verða við kröfum sóknaraðila um að lækka eða fella niður vexti og innheimtukostnað, eins og hér stendur á, enda hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á, að þessi kröfuliðir varnaraðila séu rangir. Varnaraðili hefur þvert á móti, lagt fram yfirlit yfir innheimtukostnað og gert grein fyrir því, hvernig hann hefur fallið til á þeim tíma, sem innheimtuaðgerðir á hendur sóknaraðila og aðalskuldara veðskuldabréfsins hafa staðið yfir.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, þykir verða að hafnað kröfu sóknaraðila um að dómurinn ógildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 3. apríl sl. um að hafna mótmæltum hans við því, að fjárnámsmálið nr. 011-2001-03991, að kröfu Trésmiðju Snorra Hjaltasonar ehf. nái fram að ganga hjá honum.

Ekki verður heldur fallist á þá kröfu sóknaraðila, að dómurinn lækki stórlega fjárnámskröfu varnaraðila, enda verður ekki séð með hvaða hætti eða á hvaða forsendum það ætti að verða.

Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað, sem telst hæfilegur 60.000 krónur.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Ágústs Júlíussonar, um að dómurinn ógildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 3. apríl sl. um að hafna mótmæltum hans við því, að fjárnámsmálið nr. 011-2001-03991, að kröfu varnaraðila, Trésmiðju Snorra Hjaltasonar ehf., nái fram að ganga hjá honum.

Þá er og hafnað þeirri kröfu sóknaraðila, að dómurinn lækki stórlega fjárnáms­kröfu varnaraðila.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 60.000 krónur í málskostnað.