Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-116
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ógildingarkrafa
- Skuldabréf
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Gréta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Með beiðni 7. apríl 2020 leitar Guðmundur Ásgeirsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. mars sama ár í máli nr. 431/2019: Guðmundur Ásgeirsson gegn Landsbankanum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.
Gagnaðili höfðaði mál þetta eftir heimild í 1. mgr. 120. gr. laga nr. 91/1991 til ógildingar á veðskuldabréfi upphaflega að fjárhæð 16.000.000 króna útgefnu 23. mars 2006 af leyfisbeiðanda og þáverandi eiginkonu hans til gagnaðila. Byggir krafan á því að gagnaðili sé eigandi veðskuldabréfsins en frumrit þess hafi glatast. Gagnaðila sé því nauðsynlegt að fá það ógilt með dómi svo hann geti nýtt sér þau réttindi sem því fylgi.
Með dómi héraðsdóms 9. nóvember 2017 var fallist á kröfu gagnaðila. Var dóminum upphaflega áfrýjað til Landsréttar 11. janúar 2018 sem kvað upp dóm 22. júní 2018 í máli nr. 95/2018. Með dómi Hæstaréttar 15. mars 2019 í máli nr. 19/2018 var málinu sjálfkrafa vísað frá Landsrétti þar sem ekki hefði verið aflað leyfis til þess að áfrýja dóminum þangað samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 91/1991. Dómi héraðsdóms var áfrýjað á ný til Landsréttar 11. apríl 2019 að fengnu áfrýjunarleyfi og kvað Landsréttur upp áðurnefndan dóm í máli nr. 431/2019 þar sem niðurstaða héraðsdóms var staðfest. Vísaði Landsréttur meðal annars til þess að bréfið hefði upphaflega verið gefið út til Landsbanka Íslands hf. og því verið ráðstafað til gagnaðila með gildu framsali samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 15. maí 2014 í máli nr. 672/2013. Þá hefði enginn gefið sig fram með veðskuldabréfið eða krafist synjunar á þeim grunni að hann teldi til réttar yfir því. Talið var nægilega sannað að gagnaðili ætti að njóta umráðaréttar yfir skuldabréfinu.
Leyfisbeiðandi byggir á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um hvaða kröfur séu gerðar til sönnunarfærslu fjármálafyrirtækis sem geri tilkall til skuldabréfs sem hafi glatast. Vísar leyfisbeiðandi til þess að ekki sé að finna fordæmi Hæstaréttar um það efni. Þá hafi meðferð málsins fyrir Landsrétti verið stórlega ábótavant, annars vegar sökum þess að ekki hafi verið leyst úr öllum málsástæðum hans og hins vegar þar sem ekki hafi verið farið að lögum við skipun tveggja af dómurunum sem þar fóru með það, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 12. mars 2019 í máli nr. 26374/18. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína, auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.