Hæstiréttur íslands

Mál nr. 83/2001


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 31

Nr. 83/2001.

Fimmtudaginn 31. maí 2001.

 

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Chigozie Óskari Anoruo

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Líkamsárás. Skaðabætur.

C var ákærður fyrir líkamsárásir með því að hafa ráðist á þau V og S á veitingastaðnum A þar sem hann starfaði sem dyravörður. Hlaut V minniháttar áverka, en S hlaut brot á augnbotni og mikla og varanlega sjónskerðingu sem leiddi til 10% örorku. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu C, en með hliðsjón af ferli C og aldri hans og því að spark hans í andlit S var fólskulegt og stórháskalegt og olli miklu tjóni þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi tvö ár. Ákvörðun héraðsdóms um bótagreiðslur til V og S var staðfest fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu en refsing ákærða þyngd og hann dæmdur til greiðslu skaðabóta eins og í ákæru greinir og í samræmi við breytta kröfugerð í héraði.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing hans verði milduð og dæmdar bótakröfur lækkaðar. Í héraði var mál þetta höfðað gegn öðrum manni að auki, en hann unir héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða.

Svo sem fram kemur í héraðsdómi rauf ákærði skilorð reynslulausnar á eftirstöðvum refsingar, 100 dögum, og var hún tekin upp og dæmd með í héraðsdómi sbr. 1. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Svo sem þar greinir einnig hlaut ákærði dóm 11. júlí 1997 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, og var með þeim dómi fyrri dómur fyrir hegningarlagabrot frá 6. febrúar 1996, þar sem refsing hafði verið skilorðsbundin, tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi samkvæmt 60. gr. laganna. Með hliðsjón af þessum ferli ákærða og aldri hans, og því að spark hans í andlit brotaþolans Söru Lífar Stefánsdóttur var fólskulegt og stórháskalegt og olli miklu tjóni, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi tvö ár.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er hann staðfestur um bótagreiðslur til Söru Lífar og Vignis Bergmanns Hreggviðssonar.

Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun er staðfest. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Ákærði, Chigozie Óskar Anoruo, sæti fangelsi tvö ár.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur til Söru Lífar Stefánsdóttur og Vignis Bergmanns Hreggviðssonar, og um sakarkostnað, eru staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur, og þóknun Bjarna Þórs Óskarssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns brotaþolans Söru Lífar Stefánsdóttur fyrir Hæstarétti, 40.000 krónur, og þóknun sama lögmanns vegna brotaþolans Vignis Bergmanns Hreggviðssonar, 20.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2001.

I.

Málið er höfðað með ákæru dagsettri 21. september 2000 á hendur Chigozie Óskari Anoruo, kt. 120474-5619, Barmahlíð 30, Reykjavík og R […] “fyrir eftirgreindar líkamsárásir, aðfaranótt sunnudagsins 21. nóvember 1999, á veitingastaðnum Café Amsterdam við Tryggvagötu í Reykjavík, þar sem ákærðu störfuðu báðir sem dyraverðir:

I.

Á hendur ákærðu báðum, fyrir að hafa í félagi ráðist á Vigni Bergmann Sverrisson, kt. 141176-3749, skellt honum í gólfið og margsinnis slegið hann og sparkað í hann, með þeim afleiðingum að hann hlaut um 1,5 sm langa (svo) skurð á vinstri augabrún, mar á efra augnloki vinstra megin og kúlu aftarlega á höfði hægra megin.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

II.

Á hendur ákærða Chigozie Óskari, fyrir að hafa sparkað í hægra auga Söru Líf Stefánsdóttir (svo), kt. 271281-7149, með þeim afleiðingum að hún hlaut brot á augnbotni og mikla og varanlega sjónskerðingu og er metin með 10% örorku vegna hennar.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Bjarni Þór Óskarsson hrl. fyrir hönd Vignis Bergmann Hreggviðssonar, krefst þess að ákærðu verði dæmdir in solidum til að greiða skaðabætur, að fjárhæð kr. 308.320, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. nóvember 1999, en síðan dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Bjarni Þór Óskarsson hrl. fyrir hönd Söru Líf (svo) Stefánsdóttur, krefst þess að ákærði Chigozie Óskar, verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur, að fjárhæð kr. 4.028.532, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. nóvember 1999, en síðan dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.”

Við aðalmeðferð málsins lagði réttargæslumaður Söru Lífar Stefánsdóttur fram uppfærslu og leiðréttingu á kröfugerð Söru Lífar í samræmi við 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. dskj. nr. 7.  Er þar krafist skaðabóta að fjárhæð 4.672.314 krónur með 4,5% ársvöxtum af 2.681.274 krónum frá 18. maí 2000 til dómsuppsögu, vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.991.040 krónum frá 21. nóvember 1999 til dómsuppsögu.  Frá dómsuppsögu er krafist dráttarvaxta af 4.672.314 krónum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.

Af hálfu ákærða, Chigozie Óskars Anoruo, er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, þ.m.t. bótakröfum Vignis Bergmanns Hreggviðssonar og Söru Lífar Stefánsdóttur.  Til vara er þess krafist að honum verði dæmd vægasta refsing, er lög leyfa.  Verði ákærða dæmd frelsisskerðing er þess krafist að hún verði skilorðsbundin, sbr. b lið 57. gr. almennra hegningarlaga.  Verði ákærði sakfelldur er þess aðallega krafist að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara er þess krafist að bótakröfur verði stórlega lækkaðar.  Að lokum er þess krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda að mati dómsins.

[…]

II.

Málavextir

Aðfaranótt sunnudagsins 21. nóvember 1999 fóru lögreglumenn að boði stjórnstöðvar að veitingahúsinu Amsterdam í Tryggvagötu, en þaðan hafði verið hringt og tilkynnt um mann í tökum dyravarða.  Er lögreglumenn komu á vettvang komu dyraverðir með Vigni Bergmann Hreggviðsson í tökum á móti þeim og var Vignir blóðugur í andliti.  Var hann færður í lögreglubifreiðina til viðtals.  Nokkru síðar kom Sara Líf Stefánsdóttir í fylgd lögreglumanna í lögreglubifreiðina nokkuð blóðug í framan.

Að sögn Vignis hafði hann átt í orðaskiptum við dyraverðina sökum þess að Sara Líf hafði ekki aldur til þess að vera inni á skemmtistaðnum.  Hefðu orðaskiptin endað á því að hann hefði verið snúinn niður af dyravörðunum.  Hefðu þeir lamið hann og sparkað í hann eftir að þeir hefðu snúið hann niður í gólfið.  Vignir hafði skurð á vinstra gagnauga, en einnig kvaðst hann vera aumur í líkamanum eftir barsmíðar dyravarðanna.  Sagði Vignir að Chigozie Óskar hefði verið einn dyravarðanna, sem hefði lamið hann eftir að hafa komið honum í tök.

Sara Líf sagði að hún og Vignir hefðu átt orðaskipti við dyraverðina vegna þess að hún hefði ekki aldur til að fara inn á skemmtistaðinn.  Kvað hún Chigozie og R ásamt þriðja dyraverði hafa snúið Vigni niður og í tök.  Hefðu þeir barið Vigni þar sem hann hefði legið í tökum dyravarðann.  Sagðist hún hafa farið á miðborgarstöð lögreglu og sótt hjálp.  Er hún hefði komið til baka hefði hún séð dyraverðina leiða Vigni í átt að lögreglubifreið, sem komin hefði verið á vettvang.  Hefði hún farið til Vignis en þá hefði Chigozie ýtt henni í burtu.  Hún hefði þá ætlað aftur til Vignis, en þá hefði Chigozie sparkað í andlit hennar og hún hlotið skurð af sparkinu.  Fram kemur í lögregluskýrslu að Sara Líf var með skurð við hægri augabrún.  Þeim Vigni og Söru Líf var ekið á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur til aðhlynningar.

Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir ákærða, Chigozie, að Vignir hefði kýlt hann í vangann inni á skemmtistaðnum og því hefðu þeir tekið hann í tök.  Kvaðst ákærði ekki hafa beitt óþarfa valdi.  Ákærði, R, kvað Söru Líf hafa sparkað í kálfa hans og því hefðu átökin byrjað.

Vitnin, Guðmundur Emil Jónsson og Jón H. Hafsteinsson, komu að máli við lögreglu á vettvangi og sögðust hafa orðið vitni að því er ákærði, Chigozie, barði ítrekað í bak Vignis eftir að hafa tekið hann í tök.  Sögðu þeir að þetta hefðu verið nokkur högg og hefðu þau verið algjörlega óþörf þar sem þeir hefðu haft Vigni í tökum.  Í lögregluskýrslu kemur fram að vitni þessi hafi virst nokkuð allsgáð að sjá.  Vitnið, Þ, kom einnig að máli við lögreglu á vettvangi og kvaðst hún hafa séð einhvern sparka í andlitið á Söru Líf.  Hún sagðist hins vegar ekki hafa séð hver gerði það.  Að lokum segir í skýrslunni að mikil ólga hafi verið í fólki á vettvangi vegna meðferðar dyravarðanna á Vigni.

Í málinu liggur frammi læknisvottorð, Ólafs R. Ingimarssonar, sérfræðings á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur, dags. 2. desember 1999.  Þar segir að Vignir Bergmann Hreggviðsson hafi leitað á slysadeildina 21. nóvember 1999 kl. 2.56.  Hafi hann sagst hafa lent í átökum við dyraverði á skemmtistaðnum Amsterdam í Reykjavík, hann verið sleginn í andlit, tekinn hálstaki og sparkað í bak honum þegar hann lá í gólfinu.  Við skoðun hafi ekki verið að sjá áverka á skrokknum, en hann hafi verið með skurð á vinstri augabrún lateralt.  Skurðurinn hafi verið u.þ.b. 1,5 cm.  Skurðbrúnir hafi verið nokkuð marðar, en í sárinu hafi ekki verið óhreinindi.  Jafnframt segir að sárið hafi verið deyft og saumað með þremur sporum af Ethilon.

Þá segir í vottorðinu að Vignir hafi komið aftur daginn eftir til að fá áverkavottorð.  Segir að sárið virðist hafast eðlilega við.  Hann sé með mar á efra augnloki vinstra megin og vott af glóðarauga, en það sé eðlileg afleiðing áverka og saumaskapar.  Fram hafi komið að hann hafi verið með kúlu hægra megin, aftarlega á höfði.

Í samantekt læknisins segir að Vignir Bergmann hafi leitað á slysadeildina vegna líkamsárásar og fengið sár á vinstri augabrún, sem hafi verið saumað.  Hann sé með kúlu á höfði hægra megin og kvarti um verk í baki eftir spörk.  Þetta séu þó minni háttar áverkar.

Þá liggur frammi í málinu áverkavottorð fyrir Söru Líf Stefánsdóttur ritað af Einari Thoroddsen lækni á háls- nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur 1. febrúar 2000.  Segir að Sara Líf hafi hlotið mjög slæmt brot á augnbotni hægra megin í nóvember 1999.  Áverkinn á augað hafi gert það að verkum að sjónin hafi laskast og augnopið hætt að hreyfast eins og það hafi átt að sér.  Augnfitan hafi farið að hluta til niður í kjálkaholuna og hreyfingar augans orðið mjög skertar.  Gert hafi verið við þetta með því að setja titaniumnet í augnbotninn undir augað til að styðja við það.  Brotið hafi náð mjög langt aftur eftir augnbotninum og vegna þessa hafi ekki verið unnt að setja netið yfir alla sprunguna vegna nálægðar við sjóntaugina.

Sara Líf hafi legið á háls- nef- og eyrnadeild vegna þessa en farið í skoðanir hjá augnlæknum.  Hún hafi haft verki auganu fyrst á eftir en augnhreyfingar verið nokkuð góðar, en hugsanlega þó nokkuð hindraðar yfir til hægri.  Auk þess sé hún með dofa á húðsvæði undir auganu.

Einnig liggur frammi vottorð Gunnars Sveinbjörnssonar augnlæknis vegna Söru Lífar Stefánsdóttur dags. 12. mars 2000.  Í vottorðinu segir að Söru Líf hafi verið vísað til hans eftir aðra skoðun slysadeild hinn 22. nóvember 1999.  Við skoðun þann dag hafi sjón á vinstra auga Söru Lífar verið eðlileg, rúmlega 1,0 án glerja, og hafi það auga verið eðlilegt hið ytra sem innra.  Sjón á hægra auga hafi verið 0,05 án glerja.  Í vottorðinu er áverkum Söru Lífar lýst, m.a. að sár hafi verið á efra og neðra augnloki hægra auga, auk þess sem þau hafi verið marin og bólgin.  Þá er lýst blæðingu í hvítu augans, forhólfi og augnbotni við sjóntaug.  Einnig að ljósop hafi ekki svarað ljósáreiti.  Bjúgur hafi verið í miðgróf augans, við sjóntaugarós og í augnbotni, svokallað Berlins ödem, sem komi eftir högg.  Grunur hafi verið um brot á botni augntóftar og hafi það verið staðfest við röntgenrannsókn.

Í vottorðinu segir ennfremur að bólgan og marið í lokum hafi minnkað smám saman.  Einnig blóð í hvítu, forhólfi og í augnbotni við sjóntaug.  Hins hafi orðið veruleg skerðing á sjón.  Sara Líf hafi við síðasta eftirlit hinn 20. desember 1999 séð minna en 0,05 eða einungis fingurtalningu í 25 cm fjarlægð.  Ljósop hafi verið vítt og brugðist illa við ljósi.  Örvefsbreytingar hafi verið við sjóntaug og í miðgróf augans.  Hreyfitruflun hafi verið á hægra auga þannig að það hreyfðist ekki lengra til hliðar en 15 gráður, en ætti annars að ná 50 gráða hreyfiferli.

Um horfur á bata segir í vottorðinu að ljóst sé að Sara Líf sé með verulega sjónskerðingu á hægra auga, sem sé meiri en þau mörk sem sett séu fyrir lögblindu.  Sé þetta rakið til áverkans í miðgróf augans og sjóntaugarós.  Horfur á að sjónin batni með tímanum séu mjög litlar.  Einnig sé hreyfitruflun á auganu sem sé visst lýti, en valdi ekki tvísýni eins og búast mætti við því sjónin á auganu sé svo léleg.  Hreyfitruflunin sé vegna brotsins í augntóftarbotni.  Ljósop séu misvíð og verði það að öllum líkindum áfram.

Að lokum er það álit læknisins að Sara Líf hafi fengið alvarlegan áverka með mikilli varanlegri sjónskerðingu, sem hafi orsakast af kröftugu höggi nánast beint á augað því augnumgjörð hafi ekki hlíft eða tekið þunga af högginu.  Áverkin samrýmist uppgefnum áverkamáta, þ.e. sparki í augað.  Horfur á að ástand batni séu mjög lélegar.

Þá liggur frammi í málinu örorkumat, sem ofangreindur augnlæknir framkvæmdi á Söru Líf og er það dagsett 18. maí 2000.  Þar kemur fram að umræddur augnlæknir skoðaði Söru Líf 16. maí 2000 til frekara mats á varanleika skaðans.  Niðurstöður þeirrar skoðunar séu að mestu samhljóða síðustu skoðun hinn 20. desember 1999.  Ljósopsvíkkun sé þó minna áberandi og hreyfiferillinn sé nú 30 gráður og hafi því lagast.  Auk þess hafi verið gerð sjónsviðsmæling, sem sýndi verulega skerðingu á sjónsviði hægra auga að 20 gráðum.  Einnig sé farið að bera á rangeygu við vissar aðstæður, t.d. við tölvuvinnu og nákvæmnisvinnu nálægt auganu, en þá rynni augað inn að nefi.

Síðan segir í örorkumatinu:

“I. Þjáningabætur.

Tjón varð 21. 11. 1999.  Blæðingar í auganu, endurblæðing 23.11. og aðgerð sem gerð var til að laga brot á augntótt kröfðust rúmlegu til og með 28. 11. 1999.  Eftir það var hún áfram veik en ekki rúmföst meðan bjúgur og blæðingar í augnbotni og við sjóntaug voru að hverfa og brot í augntótt að gróa til 08.12. 1999 er hún byrjaði að vinna.

II. Varnalegur miski.

Varanlegur miski af sjónskerðingu hennar skv töflum örorkunefndar frá 1994 er milli 15 og 20 af hundraði.  Við framreikning á skerðingunni eftir töflunni er það nærri lægi að vera 18%.  Að teknu tilliti til hreyfihindrunar augans, misvíðra ljósopa og tilhneigingu til þess að augað renni inn að nefi (rangeygu sem síðar gæti komið til aðgerð til að rétta ef það ástand versnar), auk sjónsviðskerðingar sem hvert eitt og sér er metið til örorku og er allt afleiðing áverkans, met ég varnalegan miska hennar 20% (tuttugu af hundraði).

Áverkinn gerir það að verkum að Sara Líf má ekki aka ökutæki í 6 mánuði frá áverka.  Hún finnur að sjónsvið vantar til hægri (í samræmi við verulega sjónsviðsskerðingu hennar á hægra auga) og kemur það til með að trufla akstur.

III. Varanleg örorka.

Sara Líf hóf störf 08.12 ´99, sama starf og hún vann áður við tengingar á rafmagnshlutum.  Það hefur gengið þokkalega vel.  Hún finnur þó fyrir þreytuverk í hægra auga seinnipart vinnudags þó það hafi ekki komið niður á vinnuþátttöku enn sem komið er.  Ekki er þó ólíklegt að með hækkandi aldri og minni aðlögunarhæfni geti þetta komið niður á tekjumöguleikum hennar í framtíðinni, sérstaklega upp úr fertugu er aldursfjarsýni kemur fram.  Einnig rýrir þetta möguleika hennar að takast á við meira sjónkrefjandi verkefni í framtíðinni td tölvuvinnu vegna minna úthalds.  Ég met því örorku hennar 10% (tíu af hundraði).”

Mánudaginn 22. nóvember 1999 kærði Sara Líf Stefánsdóttir dyravörð á veitingastaðnum Café Amsterdam fyrir ofangreinda líkamsárás fyrir lögreglu.  Hún kvaðst ekki vita hvað hann héti en kvað hann vera blökkumann.  Sama dag kærði Vignir Bergmann Hreggviðsson ákærðu, Chigozie og R, fyrir lögreglu fyrir fyrrnefnda líkamsárás.

Verða nú raktir framburðir ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærði, Chigozie Óskar Anoruo, neitar sakargiftum.  Aðspurður fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið að störfum á Café Amsterdam umrædda helgi, 20.-21. nóvember 1999.  Kvaðst hann hafa starfað þar sem dyravörður í 2-3 mánuði þegar þetta var.  Umrætt kvöld sagðist ákærða hafa verið í gallajakka, sem veitingastaðurinn láti honum í té, og kvað ákærði hann merktan ákveðinni viskítegund.  Um tvær tegundir af jökkum sé að ræða, sem staðurinn láti í té, annars vegar fyrrnefndir gallajakkar og hins vegar svartir jakkar merktir SOL.  Hann kvað ákærða, R […], Jökul, Ómar, sem nú sé látinn, og Trausta einnig hafa verið að störfum þetta sama kvöld, en þeir hafi allir starfað sem dyraverðir.  Ákærði kvaðst hafa komið til vinnu um kl. eitt um nóttina.  Um kl. 2.30 hefðu komið að staðnum stúlka og karlmaður, en þau hefðu verið í hópi fólks.  Hefðu þau viljað komast inn á staðinn og kvaðst ákærði hafa óskað eftir að þau sýndu persónuskilríki.  Flest þeirra, sem í hópnum voru, hefðu sýnt honum persónuskilríki, greitt aðgöngumiða og farið inn á staðinn.  Komið hefði í ljós að fyrrgreind stúlka og karlmaður, sem með henni hefði verið, höfðu ekki aldur til að fara inn á staðinn.  Hefði þá komið til þeirra vinkona stúlkunnar, 25 til 30 ára að aldri, og hefði hún óskað eftir að stúlkan fengi að fara inn á staðinn.  Ákærði kvaðst hafa neitað því og hefði vinkonan þá óskað eftir að fá að tala við eiganda staðarins.  Báðir eigendurnir, Ari og Ólafur, hefðu verið á barnum á þessum tíma og hefði konan farið beint til Ara í fylgd ákærða, R.  Hefðu þau rætt saman og Ari sagt við hana að aðeins þeir, sem til þess hefðu aldur, fengju að fara inn á staðinn.  Hefði konan þá farið til baka og náð í persónuskilríki stúlkunnar og farið inn aftur til að tala við Ara.  Ari hefði skoðað skilríkin, litið á ákærða og sagt: “Nei, og biddu þau um að fara.”  Ákærði sagðist hafa sagt við vinkonuna að stúlkan væri of ung og hún yrði að fara af staðnum, en henni sjálfri væri frjálst að fara inn.  Unga stúlkan hefði þá sagt að hún myndi ekki yfirgefa staðinn og að hún óskaði eftir því að fá að fara inn.  Ákærði kvaðst hins vegar hafa bent henni á að búið væri að tala við eigandann og hann hefði sagt nei.  Aðspurður sagði ákærði að stúlkan hefði verið 18-19 ára gömul, en á staðnum hefði verið 20 ára aldurstakmark.  Aðspurður kvað hann sterka áfengislykt hafa lagt af fólkinu.  Þessu næst hefði komið til hans maður, sem hefði verið kominn inn á staðinn, en hann hefði verið í hópnum með stúlkunni, og sagt við ákærða að hann yrði að hleypa henni inn á staðinn.  Ákærði hefði sagt honum hvað eigandinn hefði sagt og hefði maðurinn þá orðið mjög æstur.  Ákærði hefði sagt við manninn að stúlkan yrði að fara.  Maðurinn hefði þá sagt að það yrði að hleypa henni inn, hann myndi greiða fyrir hann aðgangseyrinn.  Ákærði hefði þá sagt að þetta snerist ekki um greiðslu heldur að stúlkan væri alltof ung.  Hefði maðurinn þá byrjað að uppnefna hann, kalla hann útlending og þar fram eftir götunum.

Aðspurður kvað hann manninn hafa verið með ljósskolleitt hár, 21 til 23 ára gamall.  Stúlkan hefði verið í þröngum buxum og svokölluðum platform skóm og í blússu eða skyrtu.

Þessu næst kvaðst ákærði ásamt ákærða, R, hafa reynt að fá þessi tvö til að víkja af vettvangi eða til að fara frá, en þá hefðu fleiri vinir mannsins komið að þeim.  Ákærði kvaðst hafa bent stúlkunni á að það væri hópur fólks, sem biði eftir því að komast inn og að hún yrði að fara.  Þeir væru einungis að sinna skyldum sínum.  Stúlkan hefði neitað að fara og þeir reynt að koma henni út.  Þeir ákærðu hefðu staðið í miðju hópsins í anddyri veitingastaðarins, en Trausti hefði verið við dyrnar.  Hefði þeim tekist að koma þeim út.  Stúlkan hefði orðið mjög reið og byrjað að slá eða berja ákærða og uppnefna hann.  Ákærði sagðist síðan hafa farið aftur inn í anddyrið, en vinur stúlkunnar hefði staðið rétt hjá Trausta, sem hefði staðið rétt fyrir innan dyrnar.  Maðurinn hefði troðið sér aftur inn í anddyrið og viðhaft ljótt orðbragð við Trausta og verið mjög reiður.  Trausti hefði sagt að þau yrðu bara að fara á annan stað, það væri ekkert sem þeir gætu gert fyrir þau.  Skyndilega hefði maðurinn slegið Trausta í höfuðið og  hefði Trausti borið hendur fyrir höfuð sér.  Þeir ákærði, R, hefðu séð hvað gerst hefði og hefðu þeir gripið í manninn og spurt hann hvað hann héldi að hann væri að gera.  Hann hefði þá snúið sér við, bölvað og ragnað og uppnefnt þá, sparkað í ákærða, R, og látið högg dynja á ákærða, Chigozie.  Vinkona mannsins hefði komið aftur inn í anddyrið og byrjað að berja eða slá til ákærða.  Í þessum áflogum hefði maðurinn, þ.e.a.s. vinur stúlkunnar, sparkað í peningakassann, sem þarna hefði verið.  Hann hefði haldið áfram að sparka og slá og hefði þetta endað með því að þeir hefðu orðið að taka hann föstum tökum.  Þeir hefðu reynt að hafa hemil á honum, en hann hefði barist um og slegið og sparkað til þeirra.  Þeir hefðu náð föstum tökum á honum og komið honum niður á gólfið.  Þegar þeir hefðu náð honum niður hefðu þeir náð góðum tökum á honum.  Hefðu þeir hjálpað honum á fætur, en haldið honum fast.  Dyrnar hefðu slegist fram og aftur á meðan á þessu stóð, en Ari hefði komið að þegar hann hefði séð hvað var að gerast.  Hefði verið hringt á lögreglu, en þeir hefðu haldið manninum föstum upp við vegg þar til lögregla kom.  Hefði hann barist um á hæl og hnakka.

Þegar lögregla kom á staðinn hefðu þeir farið með manninn út og staðið við útitröppur veitingastaðarins þegar lögreglumenn hefðu komið til að taka við manninum.  Kvaðst ákærði hafa haldið þétt í handlegg mannsins.  Lögreglumaðurinn hefði spurt ákærða einhvers og ákærði reynt að svara, en þá hefði maðurinn, sem þeir héldu í tökum, slegið hann kjaftshöggi.

Ákærði leiðrétti þennan framburð og kvaðst skyndilega hafa fengið högg á andlitið þegar þeir biðu með manninn við útgang veitingastaðarins, en höggið hefði komið frá stúlkunni, sem þeir neituðu að hleypa inn á staðinn.  Henni hefði verið haldið frá á meðan þeir voru að afhenda manninn lögreglu, en henni tekist að komast upp að ákærða og slá hann með krepptum hnefa í andlitið.  Stúlkan hefði hlaupið í burtu eftir höggið.  Ákærði kvaðst hafa orðið mjög undrandi á högginu og runnið til.  Hefði hann misst jafnvægið og hann snúist þegar hann hefði verið að reyna að ná jafnvæginu, fótur hans lyfst og skyndilega hefði stúlkan legið í götunni.  Hann gerði ráð fyrir að stúlkan hafi verið á hlaupum til hans aftur þegar fótur hans lyftist og hefði hann fundið að fótur hans kom við eitthvað.  Kvaðst ákærði ekki vita í hvað fótur hans rakst, en hann hefði séð stúlkuna liggja á jörðinni, rétt fyrir utan veitingastaðinn.  Lögregluþjónninn hefði verið með manninn á leiðinni að lögreglubílnum og hefði ákærði séð stúlkuna hlaupa að honum líka.

Aðspurður kvaðst ákærði hafa misst jafnvægið í þann mund sem hann var að afhenda lögreglumanninum Vigni.  Sagðist hann hafa stigið með annan fótinn út á tröppurnar fyrir framan dyrnar og fengið höggið vinstra megin frá og á vinstri vangann.  Við það hefði hann misst jafnvægið, stigið skref áfram, runnið til, misst jafnvægið og við það hafi vinstri fótur hans lyfst upp og til hliðar.  Ákærði sagði að Sara Líf hefði hlaupið á fótinn.  Hún hefði komið hlaupandi að honum með bakið örlítið beygt.

Ákærði var inntur eftir því hvernig Vignir hefði fengið þá áverka, sem greinir í læknisvottorði.  Sagði ákærði að þeir hafi verið fjórir að reyna að ná tökum á honum, en það hefði verið erfitt vegna þess að hann hefði barist um.  Kvað ákærði Vigni hafa slegið þá og sparkað í þá.  Þetta hefði allt gerst mjög hratt, en honum hefði tekist að ná taki á honum og koma honum niður.  Hurðin hefði slegist til á meðan og Vignir henst til og frá og sagði ákærði að verið gæti að hann hefði slegist utan í hurðina eða hurðin í hann.  Þegar þeir hefðu náð tökum á Vigni sagðist ákærði hafa séð að hann hefði meitt sig eitthvað á augabrún og að það blæddi úr andliti hans.

Ákærði neitaði því að hafa slegið til Vignis eða sparkað í hann.  Þá kvað hann ákærða, R, ekki heldur hafa gert það.  Það eina sem þeir hefðu gert hefði verið að reyna að ná tökum á Vigni.  Ákærði kvað Vigni ekki hafa róast fyrr en lögreglan hafði tekið við honum.  Hann kvað þá hafa reynt í um 45 mínútur að koma Vigni út af staðnum með því að tala hann til og fá hann til að skilja að hann yrði að fara.  Aðspurður kvað ákærði Söru Líf og Vigni og hópinn, sem þau voru með, hafa verið á staðnum í um 45 mínútur áður en átökin hófust.  Aðspurður kvaðst ákærði halda að um 15 til 20 mínútur hafi liðið frá því að þeir tóku Vigni tökum og þar til lögregla kom á staðinn.  Hann kvað átökin við Vigni hafa átt sér stað í anddyri veitingastaðarins, rétt fyrir innan útidyr hans.

Ákærði var inntur nánar út þann framburð hans að Sara Líf hefði ráðist á hann um það leyti, sem átökin voru að brjótast út, en slíkt kæmi ekki fram í lögregluskýrslu.  Sagðist ákærði þá ekki hafa vitað hver það var, sem sló til hans og réðst á hann.

Ákærði kvað anddyri veitingastaðarins um 3,5 m á lengd og 1,8-2 m á breidd og í einu horni þess sé miðasalan.  Oftast séu 4 dyraverðir við störf.  Einn sé við ytri dyr, annar við innri dyr, sá þriðji sjái um að selja aðgöngumiða, en sá fjórði sé á ferli, þ.e. í anddyri eða inni á veitingastaðnum.  Kvaðst ákærði hafa staðið við innri dyr umrætt kvöld.  Hópurinn, sem Sara Líf  og Vignir hefðu verið í, hefði verið u.þ.b. 15 manns.  Mikil þrengsli séu í anddyrinu þegar verið sé að hleypa slíkum hópum inn.  Aðspurður sagði ákærði að Vignir og Sara Líf hefðu kallað til sín “fjandans svertingjar”, “you black shit”, útlendingur o.s.frv.  Hefðu þau virst æst og hefðu þau bölvað og ragnað.  Þegar þeim, dyravörðunum, hafði tekist að koma þeim út fyrir útidyr veitingastaðarins hefði hún byrjað að slá til þeirra.  Aðspurður sagði ákærði að hann, ákærði, R, Ómar og Trausti hefðu komið Söru Líf út af veitingastaðnum í fyrra sinnið.  Kvaðst hann nánast hafa borið hana út af staðnum.  Minntist hann þess ekki að Sara Líf hefði fallið á jörðina þegar hún kom út eða að hún hefði misst skóinn sinn.  Aðspurður kvaðst ákærði vera um 175-176 cm á hæð og um 76 kg að þyngd.

Við rannsókn málsins afhenti ákærði lögreglu skriflega skýrslu á ensku um málið, sem hann hafði sjálfur sett á blað.  Við yfirheyrslu 21. desember 1999 neitaði ákærði að tjá sig um málið, en vísaði til framlagðrar skýrslu sinnar.  Skýrsla þessi var þýdd af löggiltum skjalaþýðanda og dómtúlki.  Er þar í meginatriðum greint frá atburðum kvöldsins á sama hátt og að ofan greinir.  Þar er þó ekki tekið fram að Vignir hafi hlotið meiðsl sín við að rekast utan í hurð.  Ákærði var yfirheyrður að nýju hjá lögreglu 22. mars 2000.  Ákærði var þá inntur frekar út í ýmis atriði í fyrrgreindri skýrslu og kynntur framburður vitna í málinu.  Hann lýsti viðureigninni við Vigni á sama veg og áður.  Hann sagðist ekki vita hvernig Vignir hlaut áverka sinn, en kvaðst telja líklegt að hann hefði hlotið áverkann þegar hann var að þrengja sér inn um útidyrnar og þá rekist utan í hurðina eða hurðarkarminn.  Ákærði neitaði alfarið að hafa barið eða slegið Vigni.  Þá neitaði hann alfarið að hafa sparkað í andlit Söru Lífar, en kvað Söru Líf hafa hlaupið á fótinn, sem hefði lyfst upp þegar hann reyndi að ná jafnvægi.

Ákærði, R, neitar sakargiftum.  Hann kvaðst aðspurður hafa verið við störf sem dyravörður á Café Amsterdam umrætt kvöld.  Sagðist hann hafa starfað sem dyravörður þar í 7-8 mánuði þegar þetta var.  Hann kvaðst hafa verið í dyravarðarjakka umrætt kvöld, en sagðist ekki muna hvort hann hefði verið í svörtum jakka eða gallajakka.  Hann kvað ákærða, Chigozie, Trausta og Ómar einnig hafa verið við vinnu þetta kvöld.  Ákærði kvaðst hafa verið í dyrunum þegar umræddur hópur kom á staðinn.  Öllum hefði verið hleypt inn nema Söru Líf þar sem hún hefði verið skilríkjalaus og sýnilega ekki haft aldur til að fara inn á staðinn.  Vinkona Söru Lífar hefði spurt hvort hún mætti tala við eigandann og kvaðst ákærði hafa farið með henni inn á staðinn til að tala við Ara.  Ari hefði sagt að hún mætti fara inn ef hún væri að verða tvítug.  Hann og konan hefðu farið aftur út og hefði Sara Líf þá framvísað skilríkjum, sem þau hefðu farið með inn aftur og sýnt Ara.  Á meðan hefðu hinir dyraverðirnir reynt að koma þeim Söru Líf og Vigni út af staðnum.  Þegar hann hefði snúið til baka og komið fram í anddyrið hefði hann séð Vigni kýla Trausta og hefði Trausti fengið kúlu.  Sagðist ákærði þá hafa hlaupið til dyranna og þeir dregið Vigni inn, haldið honum fast og sett hann á gólfið.  Ákærði kvaðst hafa haldið í fætur Vignis þegar hann lá á gólfinu þar sem hann hefði sparkað, en strákarnir hefðu haldið honum að ofanverðu.  Einhver hefði ýtt á hurðina og hún skellst á Vigni, sem hefði fengið sár, sem blætt hefði úr.  Ákærði kvað þá hafa verið á leiðinni með hann inn í eldhús til að þrífa sárið þegar Ari hefði stöðvað þá og sagt að hann ætti að bíða úti.  Þó hefði Vignir ekki verið rólegur.  Ákærði sagðist ekki hafa haldið Vigni á meðan beðið var eftir lögreglunni heldur hefði hann rætt við vin Vignis og sagt honum að lögreglan væri á leiðinni.  Aðspurður kvaðst ákærði aðeins hafa haldið Vigni á meðan hann lá í gólfinu.  Á meðan beðið var eftir lögreglu hefði ákærði, Chigozie, og annað hvort Trausti eða Ómar haldið Vigni.  Aðspurður sagði ákærði að hvorki hann né ákærði, Chigozie, hefðu lamið Vigni.  Þeir hefðu orðið að taka Vigni föstum tökum þar sem hann hefði kýlt einn dyravarðanna.  Aðspurður kvað ákærði um 10 mínútur hafa liðið frá því umræddur hópur kom á staðinn og þar til þeir urðu að taka Vigni tökum, en ákærði sagðist þó eiga erfitt með að meta það.  Þá sagði ákærði aðspurður að Sara Líf hefði reynt að lemja ákærða, Chigozie, á meðan þeir héldu Vigni á gólfinu.  Ákærði sagði að nauðsynlegt hefði verið að taka Vigni tökum þar sem hann hefði verið brjálaður og búinn að kýla Trausta.

Þegar lögreglan kom á staðinn hefðu þeir ákærði, Chigozie, leitt Vigni út og hefði Chigozie, verið vinstra megin, en hann sjálfur hægra megin við Vigni.  Hann hefði því ekki séð hvernig Sara Líf hlaut sinn áverka.  Þá sagðist hann ekki hafa séð Söru Líf eftir að hún hlaut áverkann.

Aðspurður kvaðst ákærði kannast við að þau Sara Líf og Vignir hefðu viðhaft ljótt orðbragð, s.s. “dickheads”, helvítis útlendingar o.s.frv.  Ákærði kvaðst hafa sagt lögreglunni á vettvangi að Vignir hefði lamið Trausta og að hann væri rispaður og með kúlu.  Nánar aðspurður sagði ákærði að Vignir hefði fengið áverka við auga við það að hurðin hefði skollið í höfuð hans.  Eftir að Vignir hafði slegið Trausta hefði hann komið að þeim ákærða, Chigozie, og reynt að berja þá, en þeir hefðu staðið í dyrunum eftir að Trausti hafði verið kýldur.  Nánar aðspurður sagði ákærði að Vignir hefði reynt að kýla þá áður en þeir tóku hann tökum og eftir að þeir settu hann í gólfið hefði hann byrjað að sparka einnig.  Þegar þeir tóku Vigni tökum hefði hann staðið í ytri dyrum og þeir síðan dregið hann inn í anddyrið á milli ytri og innri dyra staðarins.

Ákærði kvaðst vera 174 cm á hæð og hafa verið 74 kg. á þessum tíma.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 14. mars 2000.  Hann lýsti atburðarásinni á sama hátt og að ofan greinir.  Í lögregluskýrslu er þó haft eftir ákærða að er þeir ákærð, Chigozie, voru að leiða Vigni út í bifreiðina hefði hann séð út undan sér að Sara Líf hefði komið og ráðist að Chigozie.  Síðan hefði hann séð Söru Líf detta og hefði hann haldið að hún hefði hnotið um eitthvað.  Einnig sagðist hann hafa Söru Líf fyrir utan lögreglubílinn, eftir að hann var búinn að skila Vigni af sér, og hefði annað auga hennar verið stokkbólgið og lokað.  Hann hélt því hins vegar fast fram að hann hefði ekki séð neinn sparka í Söru Líf.  Ákærði neitaði alfarið að hafa slegið, barið eða sparkað í Vigni og kvaðst ekki hafa séð ákærða, Chigozie, gera það heldur.  Hann kvaðst þess fullviss að Vignir hefði hlotið áverka sinn við að slengjast utan í útidyrahurðina, en ekki innri hurðina eins og fram kæmi í framburði vitna, sem honum var kynntur.  Ákærði sagði það ekki rétt að Vignir hefði sparkað í hann eða kýlt hann svo sem fram kæmi í skýrslu ákærða, Chigozie.

Kærandi, Vignir Bergmann Hreggviðsson, kom fyrir dóminn og bar vitni.  Hann kvaðst hafa verið að skemmta sér niðri í bæ umrætt kvöld ásamt hópi fólks, þ.e. þeim Eiríki, Erlu, Söru Líf, Guðmundi Skarphéðins og Aðalbjörgu Evu.  Hefðu þau farið inn í anddyrið á Café Amsterdam og ætlað inn.  Í hópnum hefðu hins vegar verið tvær stúlkur, sem ekki hefðu verið orðnar tvítugar og hefði þeim ekki verið hleypt inn.  Eiríkur hefði farið inn, svo og Erla, en hún hefði ætlað að tala við eigandann og hefðu þau beðið í anddyrinu á meðan.  Hefðu verið mikil læti þarna inni og hefðu dyraverðirnir verið biðja þau að fara út.  Sara Líf hefði greinilega ekki heyrt vel í dyraverðinum og skyndilega hefðu ákærðu tekið hana upp og hent henni út á götuna eins og kartöflupoka og hefði hún dottið í götuna.  Hefðu þá verið liðnar 5-10 mínútur frá því að þau komu á staðinn.  Hefði fokið í hann við sjá þetta og hefði hann ætlað að hlaupa í þá, en þeir hefðu verið fljótir að snúa hann niður.  Hefðu þeir hent honum í gólfið, barið hann allan og sparkað í hann og hefði hann fengið skurð fyrir ofan annað augað.  Þá sagði hann að þeir hefðu dregið hann inn og hann hangið í hurðarkarminum og reynt að komast út aftur.  Áður en hann vissi af hefði hann allt í einu verið kominn upp að vegg og hefði dyravörðurinn haldið í höndina á honum.  Vinkona hans hefði verið þarna nálægt og hefði hún margoft beðið þá um að sleppa honum.  Þegar lögregla hefði verið komin á staðinn og dyravörðurinn hefði verið að leiða hann út hefði Sara Líf komið móti honum og reynt að fá hann lausan, en þá hefði hún fengið spark í andlitið frá stráknum, sem hefði haldið honum, þ.e. ákærða, Chigozie.

Aðspurður kvaðst hann ekki kannast við að hafa kýlt dyravörð.  Hann hefði hins vegar ætlað að hlaupa í þá, rífa í þá eða eitthvað, eins og kærandi orðaði það.  Hann hefði hins vegar ekki náð að kýla dyravörðinn.  Hann kvaðst alveg örugglega hafa viðhaft ljótt orðbragð vegna meðferðarinnar á Söru Líf.  Hann kvað þau hins vegar ekki hafa verið búin að uppnefna dyraverðina áður en Söru Líf var hent út.  Hann kvaðst aðspurður hafa verið undir áhrifum þetta kvöld en muna vel eftir atvikum.  Hann kvað dyraverði þá, sem hlut áttu að máli, vera ákærðu í máli þessu.  Einhverjir fleiri hefðu verið þarna en honum hefði verið snúið það fljótt niður í gólfið að hann hefði ekki séð hverjir það voru.  Aðspurður hvernig hann hlaut áverka þá, sem greindi í læknisvottorði, sagði hann að andlitið og raunar allur líkaminn hefði skellst í gólfið og einnig hefði verið sparkað í hann.  Á meðan honum hefði verið haldið upp við vegginn hefði hann verið kýldur undir síðuna og þá hefði honum verið skellt utan í vegginn á augabrúnina.  Þá hefði lekið blóð yfir augun á honum.  Hann kvað þó líklegt að hann hefði fengið skurð á augabrún fyrr í atburðarásinni, þ.e. þegar sparkað var í hann eða þegar honum var skellt í gólfið.  Hann kvaðst þó ekki vera viss um hvort sparkað hefði verið í höfuðið á honum.  Hann hefði ekki séð neitt þar sem hann hefði verið að reyna að verja sig.  Fyrst hefði hann verið dreginn aðeins inn fyrir anddyrið, en síðan hefði hann verið dreginn inn í anddyrið aftur og þá hefði hann verið reistur upp við vegg og haldið þar með aðra hönd fyrir aftan bak.  Aðspurður kvað hann það rétt að hann hefði reynt að losa sig þegar honum var haldið af dyravörðunum.  Í þann mund er lögregla kom hefði verið farið með hann út og hefði hönd hans enn verið haldið aftur fyrir bak.  Þá hefði Sara Líf komið hlaupandi á móti honum og hefði hún beðið þá um að sleppa honum.  Hún hefði hins vegar ekki slegið til dyravarðanna.  Fyrst hefði ákærði, Chigozie, ýtt við Söru Líf og síðan hefði hann sparkað beint í hana.  Kvaðst hann geta fullyrt að hann hefði sparkað í Söru Líf viljandi til þess að bægja henni frá.  Um mjög þungt högg hefði verið að ræða.  Sparkið hefði verið nokkurn veginn beint fram.  Fóturinn hefði farið upp og svo út.  Þegar sparkað hefði verið í Söru Líf hefðu þau verið stödd fyrir utan staðinn.  Ákærði, Chigozie, hefði verið nokkurn veginn við hliðina á honum.  Hélt hann að sparkið hefði verið beint fram.

Nánar aðspurður kvaðst hann ekki hafa komið hlaupandi að ákærðu, heldur hefði hann verið þarna hjá þeim og verið að rífa kjaft, eins og vitnið orðaði það.  Hefði hann þá verið snúinn í gólfið.  Aðspurður kvað hann það vel geta verið rétt sem eftir honum væri haft í lögregluskýrslu að það hefði fokið í hann og hann spurt dyravörðinn hvað hann væri að gera og þá hefði annar hvor ákærðu slegið hann í andlitið.  Því næst hefði hann verið dreginn inn á staðinn.  Kvaðst hann vera nokkurn veginn viss að svona hefði þetta verið, en hann hefði munað betur eftir þessu þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu.  Hann hefði verið með einhver læti þarna og þeir greinilega viljað þagga niður í honum.  Lætin hefðu verið í því fólgin að hann hefði rifið kjaft og kallað þá öllum illum nöfnum.  Hann hefði hins vegar ekki náð að slá þá; þeir hefðu orðið fyrri til.  Þeir hefðu slegið hann niður í gólfið og síðan lamið hann.

Aðspurður kvaðst hann vera að fullu búinn að jafna sig á áverkum þeim, sem hann hefði hlotið umrætt kvöld.

Kærandi bar í megindráttum á sama veg hjá lögreglu, en þar bar kærandi þó ekki um ætlað spark ákærða, Chigozie, í auga Söru Lífar.

Kærandi, Sara Líf Stefánsdóttir, sagði að hún, Guðmundur, Eva, Erla, Eiríkur og Vignir hefðu farið inn í anddyrið á Café Amsterdam umrætt kvöld.  Dyravörðurinn hefði neitað henni um inngöngu og hefði vinkona hennar þá farið inn á staðinn til að tala við eiganda hans, Ara.  Á meðan hefðu þau staðið í anddyrinu og verið að tala saman og bíða eftir að hún kæmi til baka.  Annar dyravarðanna hefði þá beðið hana um að fara út, en hún kvaðst ekki hafa heyrt hvað hann sagði og hefði hann þá tekið í sig og tuskað sig til.  Hún hefði beðið hann um að sleppa sér þar sem hún gæti sjálf gengið út, en hann hefði ekki hlustað á hana og hent sér út.  Hefði hann ýtt henni þannig að hún hefði dottið.  Hún kvaðst ekki kannast við að hafa slegið dyraverðina.  Aðspurð kvaðst hún hafa drukkið tvo bjóra áður en hún fór út til að skemmta sér.  Hún kvað um 15 mínútur hafa liðið frá því að þau komu á staðinn og þar til átökin hófust.  Hún sagðist ekki hafa séð hvernig átök dyravarðanna og Vignis byrjuðu, en þegar hún hefði staðið upp hefði hún séð Vigni liggja í gólfinu á anddyrinu.  Hefði hann hangið í dyrakarminum og reynt að komast út.  Sagðist hún hafa reynt að tosa aðeins í hann en það hefði verið tilgangslaust og hefði hún því farið á lögreglustöðina eftir hjálp.  Dyraverðirnir, sem átt hefðu þarna hlut að máli, séu ákærðu í þessu máli og einhver Íslendingur.  Aðspurð kvaðst hún ekki hafa séð dyraverðina berja Vigni þar sem hann lá á gólfinu.  Hún sagðist ekki vita hvort Vignir sló til dyravarðanna þar sem hún hefði ekki séð upphaf átakanna.  Þegar hún hefði komið til baka hefðu þeir verið að leiða hann út og hefði hún gengið upp að þeim og beðið þá um að sleppa og vel geti verið að hún hafi togað eitthvað í Vigni.  Hefði ákærði, Chigozie, þá ýtt henni frá og sparkað síðan í hana.  Aðspurð kvaðst hún hafa verið mjög æst og vel gæti verið að hún hefði látið einhver orð falla.  Hún kvaðst hins vegar ekki kannast við að hafa slegið til dyravarðanna.

Nánar aðspurð um sparkið kvað hún ákærða, Chigozie, hafa staðið uppréttur og hefði hann ýtt henni frá með annarri hendinni, þannig að hún hefði hallast aðeins aftur, og síðan hefði hann sparkað.  Kvaðst hún halda að hann hefði sparkað beint fram.  Sagðist hún aðeins muna eftir mjög þungu höggi og að hafa dottið í götuna.  Hún kvaðst fullviss um að ákærði hafi sparkað af ásetningi.  Lögreglan hefði verið komin á staðinn þegar þetta var, en lögreglubílnum, sem var hvítur sendiferðabíll, hefði verið lagt á ská á hornið og hefðu lögreglumennirnir verið á bak við hann.  Þeir hefðu því ekki séð sparkið.  Töluvert af fólki hefði verið þarna fyrir utan.

Hún var spurð út það atriði í lögregluskýrslu þar sem eftir henni er haft að Vignir hefði rifið í dyravörðinn og verið að munnhöggvast við hann.  Kvaðst hún þá muna óljóst eftir þessu þar sem hún hefði ekki séð þetta almennilega.  Þá var hún spurð út í það atriði í lögregluskýrslu þar sem eftir henni er haft á vettvangi að dyraverðirnir hefðu barið Vigni þar sem hann hefði legið í tökum dyravarðanna.  Sagðist hún þá ekki muna hver gerði hvað.  Hann hefði legið þarna í gólfinu og hefði verið sparkað í hann, en hún geti ekki sagt til um hver það var sem sparkaði.

Aðspurð kvað hún ákærða, Chigozie, hafa verið fyrir aftan Vigni þegar hann leiddi hann út í lögreglubílinn og hefði hann haldið höndum Vignis fyrir aftan bak, en hana minnti að ákærði, R, hefði verið fyrir framan Vigni.  Sagðist hún hafa komið að þeim frá hlið.  Hún sagðist ekki hafa séð að ákærði, Chigozie, hefði hrasað eða misst jafnvægið.  Hún kvaðst vera blind á öðru auga eftir atburðinn, en áður hefði hún verið með fulla sjón á þessu auga.

Kærandi bar í megindráttum á sömu lund hjá lögreglu.

Aðalbjörg Eva Sigurðardóttir gaf skýrslu í málinu í gegnum síma.  Hún kvaðst hafa farið á Café Amsterdam umrætt kvöld ásamt Söru Líf, Vigni, Gumma og fleirum.  Hópurinn hefði verið um 8 manns.  Kvaðst hún hafa verið undir áhrifum áfengis og muna óljóst eftir atburðum.  Þau hefðu ætlað að reyna að komast inn á staðinn, en dyraverðirnir hefðu viljað sjá skilríkin þeirra.  Þau hefðu ekki verið með skilríki og hefði orðið úr þessu smáþref.  Hefðu hún, Erla, Gummi og Vignir farið út úr anddyrinu.  Allt í einu hefðu orðið einhver hávaðalæti og hefði hún litið inn í anddyrið og séð Vigni liggja á gólfinu.  Hefði hann legið á hliðinni og verið að berjast um.  Hún sagðist ekki hafa séð hverjir héldu honum.  Aðspurð sagðist hún ekki hafa séð Söru Líf eða Vigni berja dyraverðina eða viðhafa ljótt orðbragð við þá.  Þau hefðu bara verið reyna að komast inn með því að spyrja hvort þau mættu tala við eigandann o.s.frv.  Kvaðst hún hafa verið inni í anddyrinu í 10-15 mínútur að reyna að komast inn, en þá hefði hún farið út.  Hún sagðist hafa séð lögregluna koma á staðinn og þegar Vignir var leiddur út í lögreglubílinn.  Kvaðst hún hafa séð Söru Líf detta aftur fyrir sig á bíl og hefði hún staðið upp alblóðug.  Hefði Sara Líf öskrað upp: “Hann sparkaði í augað á mér”.  Fullt af fólki hefði hópast í kringum Söru Líf og hefði hún ekki komist að henni.  Hún lýsti dyravörðunum, sem leiddu Vigni út í bílinn, þannig að annar hefði verið svartur, en hinn hefði verið dökkur yfirlitum.  Sér hefði virst hann vera útlendingur.

Í lögregluskýrslu er haft eftir vitninu í símaskýrslu að Vigni hefði verið haldið niðri í anddyrinu af svarta dyraverðinum og spánverjalega dyraverðinum.  Þá segir að hún hafi séð þegar Vignir var leiddur út í lögreglubíl, litið aðeins undan til að ræða við Erlu, en þegar hún hefði snúið sér við aftur hefði hún séð Söru Líf vera að standa upp rétt við lögreglubifreiðina og hefði hún haldið um augað á sér.  Að öðru leyti bar vitnið á sömu lund hjá lögreglu.

Erla Vala Elíasdóttir kvaðst hafa komið á Café Amsterdam umrætt kvöld í hópi fólks, en í honum hafi m.a. verið Sara Líf, Vignir, Eiríkur, Denni og Eva.  Hún kvaðst ekki hafa verið undir miklum áhrifum áfengis og muna vel atburði.  Sara hefði ekki fengið að fara inn og hefði hún, Erla, fengið að fara með skilríkin hennar inn til að sýna þau þeim, sem ábyrgð ber á staðnum.  Kvaðst hún hafa farið tvívegis inn til að tala við manninn.  Þegar hún hefði verið á leiðinni út aftur í síðara skiptið og verið að ganga fram hjá barnum og að anddyrinu hefði Vignir legið á gólfinu í anddyrinu.  Hún hefði því ekki séð aðdragandann að átökunum.  Hefði Vigni verið haldið og ákærðu verið að berja hann.  Kvaðst hún hafa spurt hvort hún mætti ekki bara fara með Vigni út, en maðurinn, sem hún hefði sýnt skilríki Söru Lífar, hefði sagt að hann réði ekkert við þetta þegar svona væri komið.  Að beiðni dyravarðann hefði hann hringt á lögreglu.  Hún hefði gengið út í gegnum anddyrið þegar búið hefði verið að reisa Vigni við úr gólfinu.  Hefði hann verið settur upp við vegg, hann verið laminn og hefði hann orðið blóðugur í framan.  Hefði ákærði, Chigozie, barið Vigni upp við vegginn og við það hefði komið skurður fyrir ofan augað á Vigni.  Ákærði, Chigozie, hefði einn haldið Vigni við vegginn.  Sagðist hún hafa spurt hvort hún mætti ekki fara með Vigni út og hefði annar dyravarðanna, ákærði R, viljað stoppa og leyfa henni að fara með hann út, en hinn hefði ekki viljað það.  Kvaðst hún hafa séð ákærða, Chigozie, berja Vigni með því að kýla í síðuna á honum á meðan honum var haldið upp við vegginn.  Vignir hefði einnig verið laminn á meðan hann lá í gólfinu, en hún kvaðst ekki geta sagt til um hvor þeirra hefði lamið hann þá.  Hefðu þeir báðir haldið í hendurnar á honum og hefði Vignir ekkert getað gert.  Hún kvaðst ekki hafa séð hvort þeir héldu í fæturna á honum, en það gæti vel verið.  Nánar aðspurð kvaðst hún ekki hafa séð hvor þeirra barði Vigni á meðan hann lá í gólfinu því hún hefði verið að reyna að tala við manninn, sem rekur staðinn, og biðja hann um að stoppa þetta og leyfa henni að fara með Vigni út.  Aðspurð kvað hún u.þ.b. 15 mínútur hafa liðið frá því að þau komu á staðinn og þar til þetta gerðist.  Þegar hún hefði farið inn á staðinn hefðu þau þrjú staðið upp við vegginn frammi og verið að spjalla saman.  Engin læti hefðu verið í þeim.

Þar sem henni hefði ekki tekist að fá ákærðu til að hætta hefði hún farið út.  Hún hefði mætt þeim þegar þeir hefðu verið að koma með Vigni út og hefði lögregla þá verið komin á staðinn.  Vignir hefði spurt hann: “Erla, hvar er hún, er allt í lagi með hana?”, en þá hefði hann verið búinn að sjá hvað kom fyrir Söru Líf.  Kvaðst hún þá hafa farið inn þvöguna og hefði hún séð Söru Líf upp við hvítan, stóran Van-bíl og hefði hún séð að Sara Líf var öll í klessu í framan, eins og vitnið orðaði það.

Aðspurð kvaðst hún fyrst hafa farið í fylgd ákærða, R, inn á staðinn til að tala við eiganda staðarins.  Í síðara skiptið hefði hún farið ein og hefði eigandi staðarins gengið með henni til baka að anddyrinu.  Þá kvað hún aðspurð að rétt væri eftir sér haft í lögregluskýrslu að hún hefði séð ákærða, Chigozie, slá Vigni með krepptum hnefa í bakið.

Vitnið bar á sömu lund hjá lögreglu.

Guðmundur Ágúst Skarphéðinsson kvaðst hafa komið á Café Amsterdam umrætt kvöld í fylgd með Vigni, Söru Líf, Erlu (Evu?), Erlu og Eiríki.  Hann kvað Erlu Völu og Eirík hafa farið fyrst inn á staðinn.  Á undan þeim Vigni í röðinni hefðu verið Sara Líf og Erla, en þær hefðu báðar verið um 18 ára gamlar.  Hefðu þær verið stöðvaðar og spurðar um skilríki.  Þegar þær sýndu skilríki hefði komið í ljós að þær voru of ungar til að fara inn á staðinn.  Hefðu þær orðið óánægðar og farið að röfla og hefði honum skilist að þær hefðu oft verið á Café Amsterdam og átt greiða leið þar inn þar sem þær þekktu eigandann.  Hann og Vignir hefðu reynt að tala um fyrir stelpunum og sagt þeim að koma eitthvert annað, en þær hefðu haldið áfram að röfla.  Dyraverðirnir hefðu lítið rætt málið, sennilega vegna lélegrar tungumálakunnáttu.  Eftir fjórar til fimm mínútur hefði þetta endað með því að þeir hefðu hent þeim út eins og kartöflupokum, eins og vitnið orðaði það.  Söru Líf, sem væri léttust af öllum, hefði verið hent síðast út og hefði hún lent illa á gangstéttinni, misst skóinn og meitt sig.  Við þetta hefði Vignir orðið alveg brjálaður og farið í dyraverðina og sagt: “Hvern djöfulinn á þetta að þýða” o.s.frv.  Hefði þetta gerst mjög hratt og hefði hann ekki séð hvort hann ýtti við dyravörðunum eða ekki.  Hann hefði samstundis verið rifinn inn fyrir og um leið hefðu þeir byrjað að sparka í hann og kýla hann.  Hefði hann legið algjörlega hreyfingarlaus á gólfinu og ekki getað gert neitt en þeir haldið áfram að sparka og kýla.  Einhver hópur hefði myndast þarna, bæði fyrir utan og innan, og hefði fólk m.a. verið að reyna að komast út.  Hann hefði reynt að hringja á lögreglu en verið tjáð að hún væri á leiðinni.  Síðan hefðu dyraverðirnir komið með Vigni út.  Sara Líf hefði verið orðin alveg brjáluð og hefði hún sennilega verið að reyna að toga í Vigni og hefði það endað með því að dekkri dyravörðurinn hefði ýtt í hana og þegar hún hefði verið við það að detta hefði hann þrumað í hana með fætinum og hefði höggið farið beint í augað á henni.  Í þann mund hefði borið að lögreglubíl og hefðu Vignir og Sara Líf farið inn í hann og vitni hópast að til að gefa upp nöfn sín.  Hefði fólk verið alveg brjálað yfir því, sem það hafði orðið vitni að.

Nánar aðspurður kvað hann báða ákærðu og aðeins þá tvo hafa barið Vigni.  Hann kvaðst hins vegar ekki geta greint frá þessu í smáatriðum, þ.e. einstökum höggum o.s.frv.  Hann kvað ákærðu hafa skellt Vigni strax í gólfið og hefði hann legið allan tímann.  Sagðist hann hafa séð báða ákærðu kýla og sparka í Vigni, en hann gæti ekki greint frá þessu í smáatriðum þar sem kýlingarnar og spörkin hefðu verið á handahófskenndan hátt.  Spörkin hefðu þó lent í síðu Vignis.  Vignir hefði verið reistur upp í sama mund og lögregla kom á staðinn og þeir leitt hann út í lögreglubíl.  Dekkri dyravörðurinn hefði verið með Vigni í eins konar lögreglutaki

Aðspurður kvaðst hann vera vinur Vignis og Söru Lífar og hafa þekkt Vigni frá því þeir voru unglingar.  Hann kvaðst hafa fundið til áfengisáhrifa umrætt kvöld.

Ákærði bar á sömu lund hjá lögreglu.  Í lögregluskýrslu kemur þó fram að hann hafi séð tvo til þrjá starfsmenn koma ákærðu til aðstoðar við að halda Vigni.  Vignir hefði verið rifinn inn á veitingastaðinn aftur og aðeins inn fyrir innri dyr staðarins.  Hann hefði síðan verið færður aftur inn í anddyrið við útidyrnar og um tíma hefði höfuð Vignis verið undir beru lofti, en búkur hans innandyra.  Kvaðst hann hafa séð tvo dyraverði, annan svartan og hinn sennilega ættaðan frá Suður-Ameríku, sparka í síðu Vignis þar sem hann lá á gólfinu.  Aðrar barsmíðar hefði hann ekki séð nema stympingar við að halda Vigni niðri.

Þórey Ingimundardóttir kvaðst hafa verið stödd á Café Amsterdam umrætt kvöld ásamt Guðmundi Emil, Ragnari og Jóni.  Hún kvað þau hafa stoppað stutt við á staðnum og verið á leiðinni út þegar þau hefðu orðið vör við þvögu í anddyrinu, sem sé mjög þröngt.  Þar hefðu margir dyraverðir verið að lemja ljóshærðan strák, sem hefði legið í gólfinu, e.t.v. á hnjánum.  Aðspurð kvaðst hún ekki beinlínis hafa séð hnefahögg eða spörk.  Hún kvað dyraverðina hafa verið litaða og gæti annar hafa verið suður-amerískur.  Hún sagðist strax hafa farið til baka því mikið hefði gengið á og kvaðst hún ekki hafa viljað blanda sér í þetta.  Þau hefðu því hinkrað smástund og komist út síðar.  Hún og Guðmundur Emil hefðu síðan staðið úti á götu fyrir utan staðinn og verið að ræða atburðinn, en þá hefði verið komin þvaga fyrir utan staðinn, þegar stelpa hefði komið hlaupandi að þvögunni og kallað: “Þið misþyrmduð kærastanum mínum” eða eitthvað í þá áttina.  Þá hefði komið löpp út úr þvögunni, snöggt eins og kamelljón, eins og vitnið orðaði það, og hefði stelpan tekist á loft og lent við fætur vitnisins.  Aðspurð kvað hún sparkið hafa verið það hátt, fast og snöggt að það geti ekki hafa verið óvart.  Hún kvað stúlkuna alveg hafa verið upprétta þegar sparkað var í hana.  Hún kvaðst ekki hafa séð hver sparkaði.

Vitnið bar á sömu lund hjá lögreglu.  Í lögregluskýrslu kemur þó fram að hún hafi séð höfuð ljóshærða mannsins slengjast í tvígang utan í dyrastaf innri hurðarinnar, þ.e. hurðarinnar frá anddyrinu sjálfu inn á veitingastaðinn.  Hún hefði ekki séð hverjir voru í átökum við þennan ljóshærða mann en hún hefði talið það vera dyraverði.  Þá lýsti hún sparki því, sem Sara Líf varð fyrir sem karatesparki.

Ragnar Höskuldsson kvaðst hafa verið á Café Amsterdam umrætt kvöld ásamt Jóni og Guðmundi Emil.  Þeir hefðu verið þar við drykkju.  Kvaðst hann hafa séð tvo dyraverði, aðallega annan þeirra, lemja mann til og frá.  Maðurinn hefði legið í gólfinu og hefðu dyraverðirnir haldið áfram.  Hefðu þeir félagarnir ákveðið að skipta sér af þessu, en þá hefði Jóni og Guðmundi Emil verið hent út, en honum inn aftur.  Hann kvað annan dyravörðinn hafa dregið manninn aftur fyrir sig á leiðinni út, eins og vitnið orðaði það, en hinn hefði staðið fyrir framan manninn og lamið hann á meðan.  Nánar aðspurður kvað hann umrædda dyraverði hafa verið tvo og hefði annar verið dekkri en hinn.  Annar hefði haldið manninum og hinn lamið hann.  Sá, sem lamdi manninn, hefði verið stór og breiður og hélt hann að sá hefði verið ljósari.  Barsmíðarnar hefðu átt sér stað á meðan maðurinn lá í gólfinu.  Honum fannst báðir dyraverðirnir vera útlendingslegir, en annar þeirra hefði verið dökkur, þ.e. svartur.  Hinn hefði verið stærri og herðabreiðari og meiri um sig.  Maðurinn hefði verið hálf meðvitundarlaus á gólfinu á meðan fyrrnefndir dyraverðir hefðu barið hann, þ.e. þeir hefðu verið með hnefana í honum og eins sparkað í hann.  Eftir að Jóni og Guðmundi Emil hafði verið hent út hefðu dyraverðirnir reist manninn upp.  Því næst sagðist vitnið hafa séð stúlku hoppa upp á bakið á öðrum stráknum og hún hefði síðan komið eftir gólfinu og endað á fótstiginu á barnum.  Í sama mund hefði lögreglan komið og kvaðst vitnið þá hafa forðað sér út.  Nánar aðspurður um útlit dyravarðanna kvað hann ljósari dyravörðinn hafa verið stærri og herðabreiðari og hefði hann litið út fyrir að æfa vaxtarrækt.  Báðir hefðu virst vera útlendingar, en þó kvaðst hann ekki hafa tekið neitt sérstaklega eftir því hvort ljósari maðurinn var útlendingur eða ekki.

Í lögregluskýrslu er haft eftir Ragnari að hann hefði verið nokkuð undir áhrifum áfengis umrætt kvöld.  Hann hefði séð dyravörð, dökkan yfirlitum og útlendingslegan með frekar skásett augu, sennilega af asískum uppruna, berja á einhverjum pilti.  Í upphafi hefði annar dyravörður haldið piltinum, eins og hann væri að reyna að koma honum út, en dökki dyravörðurinn þá farið að berja á piltinum.  Sá, sem hélt piltinum, hefði þá sleppt honum, en sá dökki haldið áfram að berja á piltinum.  Pilturinn hefði verið nánast lagstur í gólfið á magann.  Fyrst hefði pilturinn legið í nánast sitjandi stellingu og hefði hann þá séð dökka dyravörðinn slá hann í höfuðið.  Þegar pilturinn hefði verið lagstur á magann hefði hann haldið áfram að berja í skrokk piltsins.  Á meðan hefði hinn dyravörðurinn bara staðið hjá.  Þá greindi Ragnar frá því, að eftir að hann hefði reynt að komast út án árangurs og stillt sér upp við barinn aftur hefði hann séð kvenmann koma að anddyrinu og grípa í annan dyravörðinn og skammast í honum.  Hefði kvenmaðurinn því næst komið fljúgandi frá anddyrinu og inn á veitingastaðinn og hefði hún lent á gólfinu við barborðið.  Því næst hefði hann heyrt einhvern segja að lögreglan væri komin.

Jón H. Hafsteinsson kvaðst hafa verið á Café Amsterdam umrætt kvöld ásamt Ragnari Höskuldssyni og Guðmundi Emil Jónssyni og hefðu þeir verið undir áhrifum áfengis.  Hann kvaðst ekki hafa séð upphafið að átökunum, en tekið eftir þessu þegar lætin hefðu verið sem mest.  Þeir félagarnir hefðu verið á leiðinni út og því séð þetta gerast frammi í anddyrinu og hefði farið fyrir brjóstið á þeim hálffantaleg handtök dyravarðanna.  Sagðist vitnið hafa séð þarna átök tveggja dyravarða, sem hefðu verið dökkir yfirlitum, og manns, sem var ágengur og þeir voru að reyna að stöðva.  Hefði farið fyrir brjóstið á honum að sjá annan þeirra liggja ofan á manninum og lemja hann í bakið með olnbogaskotum, eins og vitnið orðaði það.  Hann kvaðst hins vegar ekki geta sagt til um hvor ákærðu það var og kvaðst hann ekki hefðu getað borið kennsl á ákærðu ef hann hefði séð þá annars staðar en í réttarsalnum.  Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð höfuð mannsins rekast í gólfið eða eitthvað annað.  Þegar dyraverðirnir hefðu verið búnir að yfirbuga manninn og héldu honum þarna niðri í anddyrinu hefði hurðin verið lokuð og hvorki hægt að komast út né inn.  Sagðist hann hafa beðið um það að honum yrði hleypt út og hefði hann þurft að klofa yfir þá, sem lágu í gólfinu.  Fyrir utan hefði verið múgur og margmenni og hefði hann hvorki séð þegar maðurinn var leiddur út í lögreglubifreiðina né hvernig stúlkan hlaut sinn áverka.

Framburður vitnisins hjá lögreglu var í samræmi við ofangreint.  Í lögregluskýrslu er þó haft eftir vitninu að það hefði séð ungan mann reyna að komast inn á veitingastaðinn og hefði hann staðið í einhverju þvargi við dyraverðina.  Annar dyravörðurinn hefði verið frekar dökkur á húð og grannur og hefði honum sýnst hann vera af asískum uppruna.  Hinum dyraverðinum gat hann ekki lýst.  Hefði hann séð dökka dyravörðinn reka olnboga nokkrum sinnum í bak unga mannsins, sem dyraverðirnir voru með í tökum.

Guðmundur Emil Jónsson kvaðst hafa verið á Café Amsterdam umrætt kvöld ásamt Þóreyju, Jóni og Ragnari.  Þau hefðu verið á leiðinni út, en ekki komist vegna áfloga við innganginn.  Þar hefðu dyraverðir verið með mann, sem þeir hefðu beitt óþarfa harðræði með því að láta hnefahögg dynja á skrokk hans.  Hann kvaðst ekki hafa séð hvernig átökin hófust, en hann hefði séð að dyraverðirnir höfðu manninn undir að lokum, en hann hefði streist á móti.  Einn dyravarðanna hefði verið af erlendu bergi brotinn en hinir hefðu verið Íslendingar.  Aðspurður kvað hann það vel geta staðist, sem haft væri eftir honum í lögregluskýrslu, að dyravörðurinn, sem hefði verið dökkur yfirlitum og útlendingslegur í útliti, hefði haft sig mest í frammi.  Hann kvaðst ekki hafa séð áverka á manninum og sagðist ekki hafa séð hvernig stúlkan fékk sinn áverka.  Hann hefði hins vegar heyrt fólk tala um það á staðnum að hún hefði fengið spark í andlitið.

Vitnið bar á sömu lund hjá lögreglu í öllum aðalatriðum.

Sveinn Trausti Helgason kvaðst hafa verið við vinnu sem dyravörður á Café Amsterdam umrætt kvöld.  Hann sagði að stúlkan hefði verið spurð um skilríki, sem hún hefði ekki framvísað og hefði henni þá verið vísað frá.  Vinkona hennar hefði fengið að tala við eigandann, sem ekki hefði heimilað að stúlkunni yrði hleypt inn.  Kærasti stúlkunnar hefði orðið svolítið æstur yfir þessu og hefðu þeir vísað honum út.  Kvaðst hann hafa staðið við fremri dyrnar og í sömu andrá hefði maðurinn snúið við, hlaupið til baka og ætlað að rjúka inn aftur og slegið til sín.  Hefði maðurinn slegið sig hnefahöggi beint í ennið.  Honum hefði verið kippt inn í anddyrið og honum snúið niður í gólfið og hringt á lögreglu.  Aðspurður kvað hann manninn ekki hafa verið beittur óþarfa hörku.  Hann kvað ákærðu, Ómar og Hauk hafa verið þarna með sér.  Hann hefði ekki orðið vitni að því að ákærðu hafi sparkað og lamið manninn.  Honum hefði verið haldið á meðan beðið hefði verið eftir lögreglu.  Vignir hefði streist á móti og rekist utan í dyrakarminn.  Þegar lögreglan hefði komið á staðinn hefðu ákærðu leitt manninn út í lögreglubílinn sitt til hvorrar handar og hefðu þeir haldið höndum hans fyrir aftan bak.  Hann kvaðst ekki hafa orðið vitni að því sem gerðist fyrir utan veitingastaðinn því hann hefði snúið sér að því að tæma anddyrið.

Vitnið bar í megindráttum á sömu lund hjá lögreglu.  Þar sagðist hann hafa verið staðsettur við útidyr staðarins en ákærðu hefðu verið við innri dyrnar.  Eftir að Vignir hafði slegið hann í ennið hefðu ákærði komið að og kippt Vigni inn fyrir.  Hann hefði hins vegar haldið áfram stöðu sinni í útidyrunum.  Þá kvað hann Vigni hafa rekist í hurðarkarm í innri dyrunum þegar hann var snúinn niður.  Hefði hann rekist utan í hurðarkarmanna vegna átakanna, þ.e. hann hefði barist á móti dyravörðunum.  Þá kvaðst hann ráma í að Sara Líf hefði veist að dyravörðunum eða lögreglumönnum við útidyrnar og ætlað að losa Vigni, en sagðist þó ekki muna vel eftir þessu.  Hann myndi ekki eftir hvort hún hefði hrasað.

Marvin Rolondo Cruz Cruz kvaðst hafa verið á neðri hæð veitingastaðarins þegar atburðir þeir, sem hér er fjallað um, hófust.  Hann kvað tvo dyraverði hafa verið með mann í tökum þegar hann kom upp.  Annar þeirra hefði verið ákærði, R, og kvaðst hann halda að ákærði, Chigozie, hefði verið hinn dyravörðurinn.  Maðurinn, sem þeir voru með í tökum, hefði legið í gólfinu og hefðu þeir haldið höndum hans fyrir aftan bak.  Hann kvaðst ekki hafa séð dyraverðina sparka í eða lemja manninn.  Aðspurður kvaðst hann hafa séð áverka á manninum við augað.

Hjá lögreglu bar vitnið að þegar það kom upp hefðu ákærðu verið að færa Vigni í tökum inn í anddyrið frá aðalsalnum.Vignir hefði þá verið með sár við augabrún.  Þarna hefði verið lítil stúlka, Sara Líf, og hefði hún verið mjög æst.  Hann hefði tekið utan um Söru Líf, lyft henni upp og borið út fyrir.  Hún hefði ítrekað reynt að komast inn aftur, en hann hefði hindrað það og sagt henni að lögreglan væri að koma.  Hefði hann verið í útidyrunum til að hindra að Sara Líf kæmist inn og hefði hann því snúið baki í anddyrið.  Sara Líf hefði verið við útidyrnar allan tímann þar til lögregla kom á staðinn.  Þá sagði hann að þegar ákærðu leiddu Vigni út í lögreglubílinn hefði Sara Líf komið hlaupandi að þeim, komið aftan að ákærða, Chigozie, og síðan hrasað frá honum og fram fyrir sig í átt að útidyrahurð veitingastaðarins.  Þegar vitninu var kynntur framburður lögreglumanna í málinu um að Sara Líf hefði komið á lögreglustöðina eftir hjálp, sagði vitnið að vel geti verið að það hefði misst sjónar á Söru Líf einhverja stund á meðan hún hljóp á lögreglustöðina.  Þá breytti hann framburði sínum á þann veg að hann kvaðst nú ekki muna hvað gerðist eftir að Sara Líf réðst á ákærða, Chigozie, þegar hann var að leiða Vigni út í lögreglubílinn.

Ólafur S. Ólafsson, annar eigenda veitingastaðarins Café Amsterdam, kvaðst hafa verið að vinna á barnum umrætt kvöld.  Hann hefði orðið var við einhverja rekistefnu í anddyrinu.  Þá hefði hann séð ákærða, R, ganga í fylgd konu framhjá barnum og inn í eldhús, en þar hefði Ari verið og hefði hann rætt við þau.  Hann hefði spurt Ara hvort eitthvert vandamál væri í gangi, en hann hefði sagt honum að svo væri ekki; þau væru að reyna að koma stúlku inn á staðinn, sem ekki væri komin með aldur.  Síðan hefði hann séð þau koma aftur inn á staðinn og ræða við Ara og í sama mund hefðu einhverjar stympingar átt sér stað í anddyrinu.  Hann hefði séð að peningaskúffan fyrir miðasöluna hefði verið farin á gólfið og að smáaurar hefðu rúllað um gólfið.  Næst hefði hann séð ákærðu og sennilega Trausta snúa þarna mann niður í gólfið og halda honum niðri.  Maðurinn hefði spriklað mikið og þá hefði honum virst þeir taka fastar á honum.  Annar þeirra hefði setið yfir manninum aftarlega, aðeins fyrir neðan rass, en hinn hefði verið við axlir mannsins.  Þeir hefðu a.m.k. haldið annarri hönd mannsins fyrir aftan bak.  Kvað hann það reglu hjá þeim að ef menn væru erfiðir keyrðu þeir þá fastar niður til þess að forðast slys.  Kvaðst hann hafa staðið á barnum þegar þetta var, þ.e. um fimm metra frá anddyrinu.  Hann hefði séð Ara hlaupa fram í anddyrið og hefði hann talið málið vera að leysast þar sem þeir væru búnir að snúa manninn niður.  Síðan hefði komið lögreglubíll á staðinn og þegar dyraverðirnir hefðu verið að drösla manninum út hefði hann tekið eftir umræddri stúlku, sem hefði verið í mikilli geðshræringu, og hefði hún lamið frá sér og komið hlaupandi að.  Hann kvaðst ekki hafa séð hana detta.  Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð dyraverðina berja eða sparka í manninn, sem þeir voru með í tökum

Vitnið bar mjög á sömu lund hjá lögreglu.

Ari Schröder, annar eigandi veitingastaðarins Café Amsterdam, kvaðst hafa verið að vinna á barnum umrætt kvöld.  Hann skýrði frá því, sem þegar hefur komið fram, að ákærði, R, hefði komið til hans í fylgd konu, sem hefði viljað tala við hann.  Hún hefði tjáð honum að hún hefði komið með hópi fólks úr Keflavík og ein stúlkan í hópnum væri undir aldri.  Hefði hún spurt hvort möguleiki væri á því að stúlka þessi fengi að fara inn.  Hann hefði sagt ákærða, R, að ef stúlkan væri orðin 18 ára væri þetta í lagi.  Nokkru síðar hefði hann komið til baka með skilríki, sem sýndu að stúlkan var ekki orðin 18 ára og hefði hann þá sagt R og konunni að þá gæti hann ekki heimilað að henni yrði hleypt inn á staðinn.  Hefði hann verið staddur í eldhúsinu þegar konan talaði við hann, en þegar hún fór hefði hann gengið fram á barinn og séð þau ganga fram í anddyri og í sama mund séð að allt logaði í látum og hávaða frammi í anddyrinu.  Kvaðst hann hafa hlaupið fram í anddyrið og séð að ákærðu héldu stráknum niðri.  Allt hefði verið út um allt í anddyrinu, borð hálf fallið á hliðina og peningar út um allt.  Kvaðst hann hafa reynt að koma reiðu á hlutina.  Þá hefði verið hringt á lögreglu því strákurinn hefði ekkert róast og stympast á móti.  Dyraverðirnir hefðu verið með strákinn alveg í gangveginum og hefði hann beðið þá um að færa hann aðeins til hliðar svo að hægt væri að ganga um anddyrið, og hefðu þeir gert það.  Kvaðst hann hafa staðið í ytri dyrunum þegar lögregla kom á staðinn og hefði lögreglan lagt bifreið sinni alveg upp við dyrnar á veitingastaðnum.  Ákærðu hefðu síðan leitt strákinn út til sitt hvorrar handar og þegar þeir hefðu verið að stíga niður af tröppunni hefði stelpan hlaupið inn í þá, eins og vitnið orðaði það.  Hefði stúlkan verið gargandi.  Hann kvaðst ekki hafa séð hvað gerðist, en kvaðst hafa séð hana detta aftur fyrir sig.

Aðspurður um tök dyravarðanna á Vigni þar sem hann lá í gólfinu sagði hann að höndum mannsins hefði verið haldið fyrir aftan bak og að hann hefði legið á maganum.  Báðir ákærðu hefðu eiginlega verið við efri hluta líkama mannsins og notað hina höndina til að halda fótunum.  Þó kvaðst hann ekki muna þetta alveg.  Hann kvaðst ekki hafa séð ákærðu berja á manninum, en þegar hann hefði verið reistur upp hefði hann séð að maðurinn var með skurð yfir öðru auganu.  Kvaðst hann gera ráð fyrir að hann hefði rekið ennið í þröskuldinn.  Aðspurður kvað hann Trausta hafa sagt sér að strákurinn hefði slegið hann og kvaðst hann hafa séð að Trausti var með stóra kúlu yfir öðru auganu eða á enninu.

Framburður vitnisins var á sömu lund hjá lögreglu.

Haukur Hilmarsson kvaðst hafa verið að vinna sem dyravörður á Café Amsterdam umrætt kvöld en kvaðst annað hvort hafa verið inni í sal eða niðri á neðri hæðinni þegar umræddir atburður gerðust.  Kvaðst hann hafa komið upp stuttu eftir að þetta var yfirstaðið og hefði honum þá verið sagt hvað gerðist.  Stúlkan, kærasti hennar og lögreglan hefðu þá verið farin.

Halldór Hólm Kristjánsson kvaðst hafa verið staddur í anddyrinu á Café Amsterdam á tali við dyraverðina þegar hópur af krökkum kom á staðinn.  Strák einum hefði verið meinaður aðgangur og einhver læti upphafist, en vitnið kvaðst þá hafa vikið úr anddyrinu og aftur inn í veitingasalinn.  Hann kvaðst ekki hafa orði vitni að neinum handalögmálum.  Eina, sem hann myndi, var að drengnum hefði verið vísað út og þá hefði hann orðið mjög æstur.  Hann kvaðst ekki hafa orðið vitni að neinum handalögmálum eða áflogum fyrir utan staðinn.

Sigurður Guðmann Diðriksson gaf skýrslu fyrir dóminum í gegnum síma.  Hann kvaðst hafa staðið upp við barinn á Café Amsterdam ásamt bróður sínum og þar sem þeir hefðu verið að ræðast við hefði hann séð ryskingar.  Kvaðst hann hafa séð mann ráðast á dyravörð, sem sé dökkur.  Þegar sá hinn sami hefði verið að reyna að koma manninum út við annan mann hefði komið þarna að stelpa og byrjað að berja þann fyrri.  Þetta hefði endað á því að þeir hefðu komið manninum út og hefði honum ekki sýnst vera um alvarlegar ryskingar að ræða.  Um venjuleg slagsmál hefði verið að ræða, einhverjar kýlingar og læti, eins og vitnið orðaði það.  Stúlkan hefði verið alveg brjáluð, hún hefði hoppað og barið.  Aðspurður kvað hann stúlkuna hafa verið í anddyrinu.

Egill Örn Egilsson kvaðst hafa séð þegar ákærði, Chigozie, var að leiða mann út af staðnum og afhenda hann lögreglunni.  Kærasta mannsins hefði verið alveg snarklikkuð, eins og vitnið orðaði það, hún hefði öskrað á hann og slegið hann.  Hann hefði farið upp með höndina og fótinn og hún hlaupið í hann, þ.e. hún hefði alveg augljóslega ráðist á hann.  Aðspurður kvað hann ákærða, Chigozie, vera kunningja sinn og að hann hefði hringt í sig fyrir skömmu og beðið sig um að vitna fyrir sig.

Erik Sævar Greco kvaðst hafa verið staddur ásamt hópi fólks, m.a. Agli, fyrir utan Café Amsterdam umrætt kvöld.  Hefði hann heyrt óp eða öskur og kvenmann öskra.  Hann hefði litið í áttina til ákærða, Chigozie, og honum sýnst hann hafa runnið til eða misst jafnvægið.  Annar fótur hans hefði lyfst og hefði vitnið þá séð stúlkuna, sem æpti, koma hlaupandi á fótinn á ákærða, Chigozie.  Hún hefði síðan virst falla aftur fyrir sig í götuna.  Aðspurður kvaðst hann hafa þekkt ákærða, Chigozie, í nokkurn tíma og hefði ákærði beðið hann um að koma til að bera vitni í málinu.

Páll Ingi Jónasson kom fyrir dóminn og gaf skýrslu.  Hann kvaðst ekki muna eftir umræddum atburði og kvaðst ekki einu sinni muna eftir að hafa verið á staðnum umrætt kvöld.

Hálfdán Daðason, lögreglumaður, kvaðst hafa verið við gæslu í miðbænum umrædda nótt.  Á miðborgarstöðina hefði komið ung stúlka og óskað eftir aðstoð þeirra á veitingastaðnum Café Amsterdam.  Þegar þeir komu þangað hefði verið þar mikið af fólki og myrkur og erfitt að átta sig á hlutunum.  Þeir hefðu séð að dyraverðir voru með mann í tökum og hefðu þeir ekið bifreiðinni að staðnum.  Þegar hann hefði verið að stíga út úr bifreiðinni hefði fyrrgreind stúlka komið fljúgandi fyrir framan hann.  Hefði hún komið á hlið og að framhorni bifreiðarinnar, sem hefði snúið inn í Grófina til suðurs.  Annað hvort hefði henni verið fleygt af miklu afli, henni sparkað eða kastað, en vitnið kvaðst ekki hafa séð hvernig þetta hefði viljað til.  Hún hefði alla vegna komið á fljúgandi ferð.  Þetta væri sér minnisstæðast úr þessu máli, þ.e.a.s. að stúlkan hefði komið fljúgandi, nánast í lausu lofti.

Arnór Eyþórsson, lögreglumaður, kvaðst hafa farið að veitingastaðnum Café Amsterdam vegna einhverra handalögmála.  Til þeirra hefði komið stelpa og talað við þá um þessi slagsmál og hefði hún viljað fá þá út úr bílnum til að ræða við einhverja menn.  Kvaðst hann hafa farið út úr bílnum, sem hafi verið stór svör “maría”, og þar sem hann hefði setið farþegamegin hefði hann þurft að fara fyrir bílinn.  Þegar hann hefði komið fyrir bílinn hefði hann séð að það blæddi úr andlitinu á stelpunni.  Hann sagðist hins vegar ekki hafa séð hvað gerðist.

Kristján Helgi Þráinsson, lögreglumaður, kvaðst hafa farið á vettvang umrætt kvöld.  Hringt hefði verið á niðborgarstöðina og óskað eftir hjálp og í sama mund hefði komið stúlka á stöðina og beðið um aðstoð þeirra vegna sama atviks.  Þegar þeir komu á vettvang hefði hann séð stúlkunni bregða fyrir þar.  Þá hefðu dyraverðir komið með mann til þeirra, sem þeir hefðu tekið í lögreglubílinn.  Í sama mund hefði hann séð stúlkuna krjúpa þarna rétt hjá og stuttu síðar hefði hún komið í bílinn til þeirra.  Hefði hún þá verið blóðug í andliti og sagt þeim að dyravörður hefði sparkað í hana.  Vitnið sagðist hins vegar ekki hafa séð hvað gerðist.  Mikill hiti hefði verið í fólki á staðnum og hefði það verið ósátt við meðferð dyravarða á kærasta stúlkunnar, Vigni.  Hann sagði að þeir hefðu farið aftur á vettvang eftir að hafa ekið stúlkunni og kærasta hennar á slysadeild og talað við dyraverðina.  Þeir hefðu ekki kannast við að hafa gengið of langt.  Hann minntist þess ekki að dyraverðirnir hefðu minnst á það að einn þeirra hefði verið kýldur af Vigni.  Aðspurður kvað hann dyraverðina hafa leitt Vigni til sitt hvorrar handar út í lögreglubílinn til þeirra.

Gunnar Sveinbjörnsson, augnlæknir, staðfesti að hafa gefið út framlagt læknisvottorð frá 12. mars sl. og framkvæmt örorkumat dags. 18. maí sl. vegna kæranda, Söru Lífar Stefánsdóttur.  Hann sagði að hún hefði fengið mikið mar á ytri augnumgjörð og augnlok og lítils háttar sár á augnlok.  Aðaláverkinn hefði hinsvegar verið út af höggi á augað sjálft, sem valdið hefði blæðingu inni í auganu, í framholinu og í augnbotninum.  Blæðingin hefði greinilega verið það mikil að augað hefði aflagast verulega inni í augntóftinni.  Komið hefði smárifa við sjóntaugina þar sem hún festist við augað sjálft.  Þá hefði verið brot í augntóft.

Sjónin á auganu væri mjög léleg og sjónsviðið væri verulega skert og sjónvíddin léleg.  Ekki væri sem sagt nóg með að sjónskerpan væri léleg heldur væri sjónvíddin líka léleg.  Enginn möguleiki væri að laga þetta með aðgerð og gleraugu gerðu ekkert gagn.

Hann kvað framangreindan áverka dæmigerðan áverka eftir mjög kröftugt högg.  Útilokað væri að áverkinn hefði orðið við fall í gangstétt, til þess væri áverkinn allt of mikill.  Við fall hlífði augnumgjörðin auganu algerlega, en í þessu tilviki hefði mikið högg lent beint á auganu.  Áverkinn bæri heldur ekki nein merki falls því Sara Líf hefði ekki verið með áverka á augnumgjörðinni eða nefi, sem myndu hlífa í slíkum tilvikum, heldur hefði áverkinn eingöngu verið á augnlokinu og auganu sjálfu.  Þá væri áverkinn of mikill til að hann gæti hafa orsakast af því að viðkomandi hefði hlaupið á hurð, vegg eða eitthvað þess háttar.  Aflið í þeim tilvikum væri allt of lítið í slíkum tilvikum til að valda svona miklum áverka.  Þegar örorkumatið hefði verið gert hefði verið útséð um að einhver bati yrði á sjón Söru Lífar.  Engin ástæða væri hins vegar til að ætla að ástandið ætti eftir að versna.

Dómari gekk á vettvang ásamt sækjanda og verjendum ákærðu.

III.

Niðurstaða

Um I. kafla ákæru:

Svo sem að framan er rakið hafa ákærðu báðir staðfastlega neitað að hafa beitt kæranda, Vigni Bergmann, harðræði er þeir tóku hann tökum umrætt kvöld.  Nauðsynlegt hefði hins vegar verið að taka kæranda föstum tökum þar sem hann hefði ráðist á og kýlt einn dyravarðanna.

Fram hefur komið í málinu að umrætt kvöld komu kærendur á fyrrgreindan veitingastað í hópi fólks úr Keflavík.  Var Söru Líf meinaður aðgangur að staðnum þar sem hún hafði ekki náð tilskildum aldri til að fara inn á staðinn, en hún var tæplega 18 ára þegar þetta var.  Á staðnum er hins vegar 20 ára aldurtakmark.  Þá hefur fram komið að þrátt fyrir þetta freistaði Sara Líf þess með aðstoð vinkonu sinnar, Erlu Völu, að fá heimild eigenda staðarins til að fara inn á staðinn.  Þá þykir fram komið að á meðan þessu fór fram biðu Sara Líf, Aðalbjörg Eva, Vignir og Guðmundur Ágúst í anddyri staðarins.  Kærendum, ákærða, R, og vitnunum Aðalbjörgu Evu og Erlu Völu ber saman um að um 10-15 mínútur hafi liðið frá því að hópurinn kom á staðinn og þar til ákærðu tóku Vigni tökum.  Anddyri umrædds veitingastaðar er mjög lítið og þröngt.  Fram hefur komið hjá ákærða, Chigozie, og þeim Vigni og Söru Líf sjálfum að þau voru beðin um að víkja úr anddyrinu og að eftir nokkurt þref var þeim vísað út.  Kærandi, Vignir, hefur lýst því að það hafi fokið í hann við að sjá unnustu sína, Söru Líf, hent út af staðnum eins og kartöflupoka, eins og hann orðaði það sjálfur.  Kvaðst hann hafa ætlað í dyraverðina, en þeir verið fljótir að snúa hann niður.  Ákærðu kveða Vigni hafa slegið dyravörðinn, Svein Trausta, hnefahöggi í andlitið.  Á sama veg bar vitnið, Sveinn Trausti, hér fyrir dómi.  Þá kvaðst vitnið, Ari, hafa séð að Sveinn Trausti, var með stóra kúlu á enni eftir átökin.  Ekkert er minnst á þetta atvik í frumskýrslu lögreglu, en þar er hins vegar haft eftir ákærða, Chigozie, að Vignir hefði kýlt hann í vangann inn á skemmtistaðnum og því hefðu þeir tekið hann tökum.  Í sömu skýrslu er hins vegar haft eftir ákærða, R, að Sara Líf hefði sparkað í kálfa hans og því hefðu átökin byrjað.  Lögreglumaðurinn, Kristján Helgi, kvaðst hafa farið aftur á vettvang eftir að hafa ekið kærendum á slysadeild og rætt við dyraverðina.  Kvaðst hann ekki minnast þess að honum hefði verið greint frá því að Vignir hefði slegið einn dyravarðanna og hann fengið kúlu á ennið.  Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að Vignir hefur viðurkennt að hafa ætlað að hlaupa í dyraverðina, rífa í þá eða eitthvað slíkt eins og kærandi bar sjálfur fyrir dómi.  Þá viðurkenndi hann að hafa rifið kjaft, eins og hann orðaði það, og kallað dyraverðina öllum illum nöfnum.  Hann hefði hins vegar ekki náð að slá þá þar sem þeir hefðu orðið fyrri til að snúa hann niður í gólfið.  Í ljósi þessa verður að fallast á það með ákærðu að nauðsynlegt hafi verið að taka Vigni tökum.

Upplýst er að umrætt kvöld voru þrír dyraverðir við störf í anddyri Café Amsterdam, þ.e. ákærðu báðir og Sveinn Trausti, auk Ómars, sem ekki gekk heill til skógar og annaðist því ekki eiginlega dyravörslu.  Verður ekki séð að nauðsynlegt hafi verið að skella kæranda, Vigni, sem er bæði grannur og fremur smávaxinn, í gólfið með þeim hætti sem gert var til að yfirbuga hann í ljósi þess að á móti honum tóku þrír fílefldir karlmenn.

Vignir kvaðst telja líklegt að hann hafi fengið skurð á augabrún áður en honum var skellt upp við vegginn, þ.e. þegar sparkað var í hann eða þegar honum var skellt í gólfið.  Þó sagðist hann ekki vera viss um að sparkað hefði verið í höfuðið á honum.  Vitnið, Erla Vala, sagði að ákærði, Chigozie, hefði barið Vigni upp við vegginn og við það hefði hann fengið skurð fyrir ofan auga.  Ákærði, Chigozie, kvaðst halda að Vignir hefði slegist utan í hurð eða hurðin skellst á hann og þannig hefði hann hlotið skurðinn.  Þegar þeir hefðu verið búnir að yfirbuga hann hefði hann tekið eftir að Vignir hafði meitt sig á augabrún.  Hjá lögreglu kvaðst ákærði hins vegar telja líklegt að Vignir hefði hlotið umræddan áverka þegar hann hefði þrengt sér inn um útidyrnar og rekist utan í hurðina eða hurðarkarminn.  Ákærði, R, sagði hér fyrir dómi að hurðin hefði skellst á Vigni.  Hjá lögreglu sagðist hann vera þess fullviss að Vignir hefði hlotið áverkann við að slengjast utan í útidyrahurðina þegar þeir skelltu honum á gólfið.  Vitnið, Sveinn Trausti, kvað Vigni hafa streist á móti og rekist utan í dyrakarm.  Vitnið, Ari Schröder, kvaðst hafa séð að þegar ákærðu reistu Vigni upp hefði hann verið með skurð yfir öðru auganu.

Ljóst þykir af framburði kæranda og ofangreindra vitna að kærandi hlaut skurð á augabrún við átökin, sem urðu þegar honum var skellt í gólfið í anddyrinu eða á meðan hann lá þar, en sannað þykir með framburði vitnanna, Guðmundar Ágústs, Aðalbjargar Evu og Sveins Trausta, svo og kærenda, Vignis og Söru Lífar, að kæranda, Vigni, var skellt nær samstundis í gólfið.

Framburður ákærða, Chigozie, um að kærandi, Vignir, hafi sparkað í ákærða, R, og látið höggin dynja á honum sjálfum áður en þeir tóku hann tökum fær ekki stuðning í framburði vitna eða ákærða, R.  Ákærði, R, kvað kæranda hins vegar hafa reynt að kýla þá áður en þeir tóku hann tökum.  Þá fær framburður ákærða, Chigozie, um að 45-60 mínútur hafi liðið frá því að hópurinn kom á staðinn og þar til þeir tóku Vigni tökum, ekki stuðning í framburði vitna eða ákærða, R.  Framburður ákærða, Chigozie, um að kærandi, Sara Líf, hafi barið hann og slegið þegar hann vísaði henni út og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið þegar hann leiddi kæranda, Vigni, út í lögreglubifreiðina, fær heldur eigi stuðning í framburði vitna.  Með vísan til framangreinds þykir framburður ákærða, Vignis, ótrúverðugur.

Ákærði, R, kveðst hafa hlaupið til dyranna þegar Vignir ætlaði að kýla þá, haldið honum fast og sett hann á gólfið.  Hann hefði haldið í fætur Vignis á meðan hann lá á gólfinu, en strákarnir hefðu haldið honum að ofanverðu.  Hann segist aðeins hafa haldið Vigni á meðan hann lá á gólfinu en eftir að Vignir hafði verið reistur upp hefði hann ekki haldið honum.  Þetta á sér stuðning í framburði vitnanna, Erlu Völu og Guðmundar Ágústs.

Vitnið, Erla Vala, kvað kæranda, Vigni, hafa verið laminn á meðan hann lá í gólfinu, en hún kvaðst ekki geta sagt til um hvor ákærðu hefði lamið hann.  Þeir hefðu hins vegar báðir haldið í hendurnar á Vigni og hann því ekkert getað gert.  Hún kvaðst hins vegar hafa séð ákærða, Chigozie, berja Vigni upp við vegg í anddyrinu og kýla í síðuna á honum á meðan hann hélt honum þar.  Á sama veg bar kærandi, Vignir, hér fyrir dómi.  Hann sagði enn fremur að hann hefði allur verið barinn og að sparkað hefði verið í hann eftir að honum var hent á gólfið.  Vitnið, Guðmundur Ágúst, kvað báða ákærðu hafa barið Vigni og kvaðst hann hafa séð þá báða kýla og sparka í Vigni og hefðu spörkin lent í síðu hans.  Kærandi, Sara Líf, sagði að sparkað hefði verið í Vigni þar sem hann lá á gólfinu, en hún gæti ekki sagt til um það hver sparkaði.  Vitnið, Þórey, kvaðst hafa séð marga dyraverði lemja ljóshærðan strák, sem legið hefði á gólfinu í anddyrinu.  Dyraverðirnir hafi verið litaðir og kvað hún annan geta verið ættaðan frá Suður Ameríku.  Hún kvaðst þó ekki beinlínis hafa séð hnefahögg eða spörk.  Vitnið, Guðmundur Emil, kvaðst hafa séð dyraverði með mann við innganginn og hefðu þeir látið hnefahögg dynja á skrokki hans.  Vitnið, Jón H. Hafsteinsson, kvaðst hafa séð átök tveggja dyravarða og manns, sem verið hefði ágengur.  Dyraverðirnir hefðu verið dökkir yfirlitum.  Hefði hann séð annan þeirra liggja ofan á manninum og lemja hann í bakið með olnbogaskotum.  Hann kvaðst hins vegar ekki geta sagt til um hvor ákærðu það var.

Framburður vitnisins, Ragnars, þykir ruglingslegur og í ósamræmi við framburð vitnisins hjá lögreglu, svo og framburði annarra vitna í málinu.  Þykir því ekki unnt að byggja á framburði þess í máli þessu.

Vitnin, Sveinn Trausti, Marvin Rolondo, Ari Schröder og Ólafur S. Ólafsson, segjast ekki hafa séð ákærðu kýla eða sparka í Vigni.  Framburður Sveins Trausta um að vitnið, Haukur, hefði verið með honum í anddyrinu færi ekki stuðning í framburði Hauks sjálfs eða annarra vitna í málinu.  Þá hefur framburður vitnisins, Marvins Rolondo, verið hvarflandi.  Í ljósi framangreinds og þess að Sveinn Trausti og Marvin voru samstarfsmenn ákærðu á Café Amsterdam og Ari og Ólafur eru eigendur veitingastaðarins þykir framburður vitna þessara um þetta atriði ótrúverðugur.

Framburður vitnisins, Guðmundar Ágústs, sem hefur verið staðfastur, þykir afar greinargóður og trúverðugur.  Þá þykir framburður vitnanna, Þóreyjar, Guðmundar Emils og Jóns H. Hafsteinssonar trúverðugur í ljósi þess að vitni þessi eru alls ótengd ákærðu og eigendum veitingastaðarins, svo og kærendum og vinum þeirra.

Með vísan til framburðar ákærðu og vitna í málinu þykir sannað að ákærðu hafi í félagi skellt kæranda, Vigni, í gólfið í því skyni að yfirbuga hann.  Þá er fram komið að báðir héldu þeir Vigni föstum tökum þar sem hann lá á gólfinu.  Með vísan til framburðar vitnanna, Guðmundar Ágústs og Guðmundar Emils, sem studdur er framburði vitnisins, Þóreyjar, þykir og sannað að ákærðu hafi báðir og í félagi kýlt Vigni og sparkað í hann eftir að hann var fallinn í gólfið.  Ekki er að fullu upplýst hvaða þátt hvor um sig átti nákvæmlega í árásinni á meðan Vignir lá í gólfinu.  Háttsemi beggja ákærðu var hins vegar til þess fallin að valda þeim áverkum, sem kærandi, Vignir, hlaut og staðfestir hafa verið með læknisvottorði, og verða þeir báðir taldir bera ábyrgð á þeim.

Brot ákærðu er réttilega heimfært undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10 .gr. laga nr. 20,1981.

Um II. kafla ákæru:

Svo sem fram hefur komið hefur ákærði, Chigozie, neitað því að hafa sparkað í hægra auga Söru Lífar.  Hann kveður Söru Líf hins vegar hafa slegið sig með krepptum hnefa í andlitið, en við það hafi hann runnið til, misst jafnvægið og snúist.  Þegar hann hafi verið að ná jafnvæginu aftur hafi fótur hans lyfst upp.  Í sama mund hafi Sara Líf komið hlaupandi að honum, hún hlaupið á fótinn og dottið í götuna.

Kærandi, Sara Líf, hefur lýst atvikum á þá leið að þegar ákærðu hefðu leitt Vigni út hefði hún gengið upp að þeim og beðið þá um að sleppa Vigni.  Kvað hún vel geta verið að hún hafi togað í Vigni.  Ákærði, Chigozie, hefði þá ýtt henni frá með annarri hendi þannig að hún hefði hallast aðeins aftur og hann síðan sparkað í hana.  Kvaðst hún halda að hann hefði sparkað beint fram.  Um mjög þungt högg hefði verið að ræða og hefði hún dottið í götuna.  Kærandi, Vignir, bar á sama veg.  Hann kvað Söru Líf hafa komið hlaupandi á móti honum þegar ákærðu voru að leiða hann út af staðnum og beðið þá um að sleppa.  Hún hefði hins vegar ekki slegið til dyravarðanna.  Fyrst hefði ákærði, Chigozie, ýtti við henni og síðan sparkað beint í hana.  Um mjög þungt högg hefði verið að ræða og hefði ákærði sparkað nokkurn veginn beint fram.  Kærendur kváðust þess fullviss að ákærði hefði sparkað af ásetningi.

Vitnið, Guðmundur Ágúst, kvað Söru Líf sennilega hafa togað í Vigni þegar ákærðu leiddu hann út í lögreglubifreiðina og hefði það endað með því að dekkri dyravörðurinn hefði ýtt við henni.  Þegar Sara Líf hefði verið við það að detta hefði hann þrumað í hana með fætinum.  Hefði höggið farið beint í augað á henni.  Vitnið, Þórey, kvaðst hafa staðið fyrir utan staðinn, en þá hefði verið búin að myndast þvaga þar fyrir utan.  Stelpa hefði komið hlaupandi að þvögunni og kallað: “Þið misþyrmduð kærastanum mínum” eða eitthvað í þá áttina.  Þá hefði fótur skyndilega komið út úr þvögunni og stelpan tekist á loft og lent við fætur vitnisins.  Sparkið hefði verið það hátt, fast og snöggt að það hljóti að hafa verið af ásetningi.  Vitnið, Ari Schröder, kvað stelpuna hafa hlaupið gargandi að dyravörðunum þegar þeir voru að leiða Vigni út í bifreiðina.  Hann hefði ekki séð hvað gerðist, en séð að stúlkan datt aftur fyrir sig.  Vitnið, Aðalbjörg Eva, kvaðst hafa séð Söru Líf detta aftur fyrir sig á bíl í sama mund og ákærðu leiddu Vigni út í lögreglubílinn.  Hefði hún staðið upp alblóðug og öskrað upp.  “Hann sparkaði í augað á mér.”  Á sömu lund bar vitnið, Erla Vala, en hún kvaðst hafa séð Söru upp við hvítan, stóran Van-bíl og hefði hún verið öll í klessu í framan eins og vitnið orðaði það.  Hefði það verið í sama mund eða stuttu eftir að ákærðu leiddu Vigni út í lögreglubifreiðina.

Lögreglumaðurinn, Hálfdán Daðason, sagði að kærandi, Sara Líf, hefði komið á fljúgandi ferð að framhorni lögreglubifreiðarinnar í þann mund er hann steig út úr bifreiðinni.  Kæranda hefði annað hvort verið fleygt af miklu afli, henni sparkað eða kastað.  Lögreglumennirnir, Arnór Eyþórsson og Kristján Helgi Þráinsson, hafa báðir borið að hafa séð stúlkuna þegar þeir komu á vettvang, en í sama mund og þeir stigu út úr bifreiðinni, en þá voru dyraverðirnir að koma með Vigni til þeirra, hefðu þeir séð að það blæddi úr henni.  Sá síðarnefndi kvaðst hafa séð Söru Líf krjúpa rétt hjá bílnum.  Stuttu síðar hefði hún komið til þeirra í bílinn blóðug í andliti og sagt þeim að dyravörður hefði sparkað í hana.

Vitnið, Gunnar Sveinbjörnsson augnlæknir, kvað áverkann á auga Söru Lífar vera dæmigerðan áverka eftir mjög kröftugt högg.  Útilokað væri að áverkinn hefði orðið við fall í gangstétt eða við það að viðkomandi hefði hlaupið á hurð, vegg eða þess háttar.  Í þeim tilvikum væri aflið allt of lítið til að valda jafn miklum áverka og Sara Líf hlaut.  Þá kvað hann augnumgjörðina hlífa auganu algerlega við fall, en í umræddu tilviki hefði mikið högg lent beint á auganu.

Framburður kærenda og vitnanna, Guðmundar Ágústs, Þóreyjar og lögreglumannsins, Hálfdáns Daðasonar, er í samræmi við ofangreindan framburð Gunnars Sveinsbjörnssonar augnlæknis, en framgreind vitni báru öll um það að sparkið eða höggið, sem Sara Líf varð fyrir hefði verið mjög þungt og kröftugt og orðið þess valdandi að Sara Líf tókst á loft og datt aftur fyrir sig.

Vitnin, Egill Örn og Erik Sævar, báru hér fyrir dómi að kærandi, Sara Líf, hefði hlaupið á fót ákærða, Chigozie.  Vitni þessi voru fyrst nefnd til sögunnar af hálfu ákærða, Chigozie, við aðalmeðferð málsins.  Þau sögðu bæði að ákærði hefði haft samband við þau og beðið þau um að vitna fyrir sig.  Framburður vitna þessara þykir ótrúverðugur.

Framburður ákærða um þetta atriði fær ekki stuðning í framburði vitna, sem komu fyrir dóminn, annarra en ofangreindra tveggja vitna, sem þykja bæði ótrúverðug.  Þykir skýring ákærða á atvikinu fjarstæðukennd og ótrúverðug.

Með vísan til ofangreinds framburðar kærenda og vitnisins, Guðmundar Ágústs, sem studdur er framburði vitnanna, Þóreyjar, Ara Schröder, Aðalbjargar Evu, Erlu Völu og ofangreindra lögreglumanna, en öll þykja vitni þessi trúverðug, þykir sannað að ákærði, Chigozie, hafi sparkað í hægra auga Söru Lífar Stefánsdóttur í greint sinn.  Með vísan til framburðar kærenda og vitnanna, Guðmundar Ágústs og Þóreyjar, sem studdur er framburði vitnisins, Gunnars Sveinbjörnssonar augnlæknis, þykir og sannað að ákærði hafi sparkað í andlit Söru Lífar af ásetningi.

Með vísan til áverkavottorðs Einars Thoroddsen læknis og vottorðs Gunnars Sveinbjörnssonar augnlæknis, svo og með vísan til framburðar Gunnars hér fyrir dómi, þykir sannað að kærandi hlaut alvarlegan áverka á hægra auga, sem hafði í för með sér mikla og varanlega sjónskerðingu og hreyfitruflun á auganu.

Um alvarlegan áverka er að ræða og ljóst þykir að kærandi hefur hlotið stórfellt líkams- og heilsutjón af árásinni í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Háttsemi ákærða, Chigozie Óskars, var til þess fallin að valda fyrrgreindum afleiðingum og þykir brot ákærða því réttilega heimfært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

IV.

Ákvörðun viðurlaga, sakarkostnaður og skaðabætur.

Samkvæmt sakavottorði 21. september sl. hefur ákærði, Chigozie, hlotið tvo refsidóma og gengist undir eina sátt.  Hinn 16. desember 1991 gekkst ákærði undir greiðslu sektar fyrir ölvunarakstur.  Hann var jafnframt sviptur ökurétti í einn mánuð.  Hinn 6. febrúar 1996 var ákærði dæmdur 90 daga fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn 209. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.  Þá var ákærði hinn 11. júlí 1997 dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217.gr., 1. mgr. og 3. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.  Með dóminum var fyrri dómurinn tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir bæði málin samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga.  Hinn 18. janúar 1999 hlaut ákærði reynslulausn í 1 ár á eftirstöðvum refsingarinnar, sem voru 100 dagar.

Brot það, sem ákærði er hér sakfelldur fyrir, var framið 21. nóvember 1999 og með því rauf ákærði því skilorð reynslulausnarinnar frá 18. janúar sama ár, sbr. 2. mgr. 41. gr. almennra hegningarlaga.  Ber því með vísan til 1. mgr. 42. gr. sömu laga að ákveða ákærða refsingu í einu lagi fyrir brot það, sem nú er dæmt um og með hliðsjón af þeirri fangelsisrefsingu, sem óafplánuð er samkvæmt dómi frá 11. júlí 1997.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði, R, ekki sætt refsingu svo kunnugt sé.

Við ákvörðun viðurlaga ákærðu er litið til þess að ákærðu skelltu kæranda, Vigni Bergmann, í félagi í gólfið, án þess að séð verði að það hafi verið nauðsynlegt eins og á stóð, héldu honum þar föstum og gengu í skrokk á honum þar sem hann lá varnarlaus á gólfinu.  Við ákvörðun viðurlaga ákærða, Chigozie, er ennfremur litið til þess að hann hefur tvívegis áður gerst sekur um líkamsárás, sbr. 1. mgr. 218. gr. a.  Þá er litið til þess að árás ákærða á kæranda, Söru Líf, var hrottafengin og hafði í för með sér alvarlegar og varanlegar afleiðingar fyrir kæranda.

Með hliðsjón af ofangreindu þykir refsing ákærða, Chigozie, hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Með hliðsjón af því að ákærði, R, hefur ekki fyrr gerst sekur um brot af þessu tagi og áverkar þeir, sem kærandi, Vignir, hlaut voru ekki alvarlegir, þykir refsing hans hæfilega ákveðin sekt að fjárhæð 100.000, sem ákærða ber að greiða í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi í 20 daga.

Dæma ber ákærða, Chigozie, til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., að fjárhæð 300.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Bjarna Þórs Óskarssonar hrl. að fjárhæð 150.000 krónur.  Þá ber að dæma ákærða, R, til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda, síns, Péturs Arnar Sverrissonar hdl., að fjárhæð 250.000 krónur.  Dæma ber ákærða, Chigozie, til að greiða ¾ hluta alls annars sakarkostnaðar, en ákærða, R, til að greiða ¼ hluta hans.

Af hálfu kæranda, Vignis Bergmann, er krafist skaðabóta að fjárhæð 308.320 krónur.  Er þar um að ræða bætur fyrir þjáningar að fjárhæð 8.320 krónur, sbr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og miskabætur samkvæmt 26. gr. sömu laga að fjárhæð 300.000 krónur.  Krafa kæranda um þjáningabætur eru ekki studdar neinum gögnum og í ljósi þess að um minniháttar áverka var að ræða samkvæmt læknisvottorði verður krafa þessi ekki tekin til greina.  Svo sem að framan greinir skelltu ákærðu kæranda í gólfið, án þess að séð verði að það hafi verið nauðsynlegt til að yfirbuga kæranda, og gengu síðan í skrokk á honum þar sem hann lá í tökum þeirra á gólfinu.  Gerðust ákærðu með þessu sekir um ólögmæta meingerð gegn persónu kæranda.  Er því fullnægt skilyrði 26. gr. skaðabótalaga til að dæma kæranda miskabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 50.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.  Þá ber ákærðu að greiða kæranda 20.000 krónur vegna kostnaðar af aðstoð lögmanns vegna málsins, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Af hálfu kæranda, Söru Lífar Stefánsdóttur, er krafist skaðabóta að fjárhæð 4.672.314 krónur með vöxtum eins og greinir á dskj. nr. 7 úr hendi ákærða, Chigozie.  Krafan er sundurliðuð á eftirfarandi hátt:

Þjáningabætur í 8 daga, rúmföst                                                                                       12.640 krónur

Þjáningabætur í 10 daga, veik en ekki rúmföst                                                                 8.500 krónur

Varanlegur miski 20%                                                                                                       969.900 krónur

Varanleg örorka 10%                                                                                                     2.681.274 krónur

Miskabætur                                                                                                                    1.000.000 krónur

Samtals                                                                                                                            4.672.314 krónur

Að því er kröfu um þjáningabætur varðar er af hálfu kæranda vísað til 3. gr. skaðabótalaga, kröfu um bætur fyrir varanlegan miska til 4. gr. sömu laga, kröfu um bætur fyrir varanlega örorku til 6. gr. sömu laga og kröfu um miskabætur til 26. gr. sömu laga.

Krafa kæranda um þjáningabætur, varanlegan miska og varanlega örorku byggist á læknisvottorði og örorkumati Gunnars Sveinbjörnssonar augnlæknis, sem ekki hefur verið hnekkt af hálfu ákærða.  Verður það því lagt til grundvallar og krafa kæranda um bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska og varanlega örorku teknar til greina að fullu með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Til þess er litið að ákærði réðst fólskulega á kæranda.  Þykir kærandi eiga rétt á miskabótum úr hendi ákærða, Chigozie, samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, sem þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.  Samtals er ákærði, Chigozie, því dæmdur til að greiða kæranda, Söru Líf, 4.172.314 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi ríkissaksóknara.

Aðalmeðferð málsins fór fram 23. og 24. nóvember sl.  Málið var endurupptekið og flutt að nýju 25. janúar sl.

Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna umfangs málsins og embættisanna dómara.

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Chigozie Óskar Anoruo, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði, R, greiði 100.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 20 daga.

Ákærði, Chigozie Óskar, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., að fjárhæð 300.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Bjarna Þórs Óskarssonar hrl. að fjárhæð 150.000 krónur.

Ákærði, R, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Péturs Arnar Sverrissonar hdl., að fjárhæð 250.000 krónur.

Ákærði, Chigozie Óskar, greiði ¾ hluta alls sakarkostnaðar, en ákærði, R, ¼ hluta hans.

Ákærðu, Chigozie Óskar og R, greiði kæranda, Vigni Bergmann Hreggviðssyni, kt. 141176-3749, in solidum 70.000 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 50.000 krónum frá 21. nóvember 1999 til dómsuppsögu, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af 70.000 krónum frá dómsuppsögu til greiðsludags.

Ákærði, Chigozie Óskar, greiði kæranda, Söru Líf Stefánsdóttur, kt. 271281-7149, skaðabætur að fjárhæð 4.172.314 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá dómsuppsögu til greiðsludags.