- Fasteign
- Eignarnám
- Eignarréttur
- Meðalhóf
- Stjórnarskrá
|
Fimmtudaginn 5. nóvember 2015. |
Nr. 173/2015.
|
Hestamannafélagið Funi (Hjördís Halldórsdóttir hrl.) gegn Önnu Aðalheiði Guðmundsdóttur (Jóhannes A. Sævarsson hrl.) |
Fasteign. Eignarnám. Eignarréttur. Meðalhóf. Stjórnarskrá.
Í málinu krafðist A þess að ógilt yrði ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra frá árinu 2010 þar sem H var veitt heimild til eignarnáms á landi úr jörð hennar undir reiðstíg á austurbakka Eyjafjarðarár í Eyjafjarðarsveit. Í dómi Hæstaréttar kom fram að miða yrði við það að ráðherra hefði lagt til grundvallar ákvörðun sinni að reiðstígurinn myndi í senn eiga undir 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. vegalaga nr. 80/2007, svo og að skilyrðum 6. mgr. 37. gr. laganna væri að öðru leyti fullnægt til að veita H heimild til eignarnámsins. Eins og A hefði lagt málið fyrir dómstóla kæmi þetta ekki til frekari skoðunar við úrlausn málsins. Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar sé eignarrétturinn friðhelgur og megi engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, enda standi lagafyrirmæli til slíkrar skerðingar og komi fullt verð fyrir. Talið var að af 1. mgr. 10. gr., sbr. 6. gr. vegalaga leiddi að reiðstígar teldust til vegakerfis landsins. Bæði hefðu Eyjafjarðarsveit með nánar tilgreindu aðalskipulagi og vegamálastjóri í tillögu til ráðherra byggt á því að nauðsynlegt væri að leggja sérstakan reiðstíg inn Eyjafjörð til að tryggja umferðaröryggi, jafnt fyrir ökumenn bifreiða og hestamenn. Ekki væru efni til að hnekkja þessu mati á því að almenningsþörf væri að þessu leyti fyrir hendi til að skerða eignarréttindi A. Við mat á því hvort uppfylltar væru kröfur um meðalhóf yrði að gæta að því að A hefði þegar verið gert í þágu almenningsþarfar að sæta takmörkun á eignarréttindum sínum yfir landi jarðarinnar með því að um það lægi þjóðvegur. Þótt slík þörf stæði jafnframt til að A gæti orðið að þola frekari skerðingu á eignarréttindum sínum til að koma við reiðstíg um landið yrði ekki horft fram hjá því að stígur af þeim toga kæmi aðeins takmörkuðum fjölda manna að beinum notum og væri að auki miðað hér við að hann yrði í eigu einkaaðila en hvorki ríkisins né sveitarfélags. Af þessu leiddi að ekki gæti komið til álita að skerða eignarréttindi A frekar en hafði verið gert með því að taka undan jörð hennar land undir annað vegarstæði nema fullreynt væri að aðrir ásættanlegir kostir væru ekki tækir. Í málinu lá fyrir að vegamálastjóri hafði lagt til grundvallar í tillögu sinni að tveir valkostir um legu reiðstígs í landi A hefðu verið raunhæfir og framkvæmanlegir, annars vegar með því að fara leiðina austan við Eyjafjarðará, sem deilt var um í málinu, og hins vegar með því að bæta héraðsleið fyrir hestaumferð samhliða þjóðvegi vestan við ána og gera úr henni stofnleið. Ekki yrði séð á hvaða grunni þessi síðarnefndi kostur gæti ekki talist ásættanlegur í samanburði við hagsmuni A af því að þurfa ekki að hlíta frekari skerðingu eignarréttinda sinna, en að því yrði að gæta að víða í vegakerfi landsins lægju reiðstígar samhliða vegum fyrir umferð vélknúinna ökutækja, auk þess sem ekki hefði verið hnekkt málatilbúnaði A um að kostnaðarmat, sem vegamálastjóri hafði aflað í tengslum við tillögurnar, væri ekki í öllum atriðum reist á réttum forsendum. Þá hefðu ekki komið fram haldbærar skýringar á ástæðum þess að ekki hefði verið lagt mat á hvort almenningsþörf yrði mætt með reiðstíg á öðrum tilgreindum stað. Hefði því ekki verið sýnt fram á það gegn andmælum A að meðalhófs hefði verið gætt þegar ráðherra tók hina umþrættu ákvörðun. Var því fallist á kröfu A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. mars 2015. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi staðfesti umhverfisráðherra 7. janúar 2005 breytingu á aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 1994-2014 frá 26. mars 1997. Um þetta var birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing nr. 42/2005, þar sem sagði meðal annars: „Breytingin felst í því að lega reiðleiðar frá Akureyri að Melgerðismelum breytist á kafla frá þjóðvegi sunnan Akureyrarflugvallar og að Víðinesi gegnt Melgerðismelum. Í stað þess að liggja meðfram Eyjafjarðarbraut eystri færist hún að austurbakka Eyjafjarðarár og um leið er reiðleið með Eyjafjarðarbraut eystri frá Syðra-Laugalandi að Víðinesi felld út.“ Þessi breyting á aðalskipulagi varðaði meðal annarra stefndu, sem er eigandi Munkaþverár í Eyjafjarðarsveit, með því að Eyjafjarðarbraut eystri, þjóðvegur nr. 829, fer að hluta um land jarðarinnar, en innan merkja hennar er jafnframt hluti þess svæðis, sem ný reiðleið átti að liggja um á austurbakka Eyjafjarðarár. Var ráðgert í breyttu aðalskipulagi að reiðleiðin lægi á bökkum árinnar eða í námunda við þá meðal annars á 4.412 m löngu bili frá norðurmerkjum Munkaþverár, rúmlega 1.000 m norðan við svonefnda Miðbraut, þjóðveg nr. 823 sem sker jörðina frá vestri til austurs, og um 1.600 m suður fyrir ármót Þverár efri og Eyjafjarðarár. Samkvæmt skipulaginu átti reiðleiðin að liggja á þessu svæði meðal annars eftir eða við hlið um 1.700 m langs malarvegar, sem eigendur Munkaþverár höfðu látið gera í landi jarðarinnar suður að malarnámi á bökkum Þverár efri frá Miðbraut, en sú braut tengir Eyjafjarðarbraut eystri við Eyjafjarðarbraut vestri, þjóðveg nr. 821, handan Eyjafjarðarár. Í aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025, sem nú gildir, á reiðleiðin að vera með sama hætti, en það mun hafa verið staðfest af ráðherra 22. nóvember 2007.
Samkvæmt gögnum málsins ritaði áfrýjandi, sem er félag hestamanna í Eyjafjarðarsveit, ásamt Hestamannafélaginu Létti á Akureyri bréf til sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 1. ágúst 2005, þar sem sótt var um framkvæmdaleyfi til að gera reiðstíg á hluta leiðarinnar milli Akureyrar og Melgerðismela, en félögin tvö munu á þeim tíma hafa sameiginlega staðið að mótssvæði fyrir hestamenn á Melgerðismelum. Umsóknin sneri nánar tiltekið að framkvæmdum á svæðinu „frá landamerkjum Hóls 2 og Munkaþverár að norðan að merkjum Stór-Hamars og Bringu að sunnan“, en tekið var fram í henni að unnið yrði „samkvæmt staðfestu aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 1994-2014“. Gegn andmælum stefndu veitti sveitarfélagið þetta leyfi 15. mars 2006, meðal annars með þeim skilyrðum að „sunnan Miðbrautar og að Þverá efri verði farinn malarborinn vegur, sem þar er fyrir hendi“, haft skyldi náið samráð „við landeigendur um yfirferð og framkvæmdir í landi þeirra“ og yrði reiðvegurinn „afgirtur landmegin ef það er talið nauðsynlegt eða þar sem landeigendur gera um það kröfu.“ Í leyfinu var einnig tekið fram að sveitarstjórnin liti svo á að með útgáfu þess teldust „framkvæmdaleyfishafarnir veghaldarar sbr. 16. og 17. gr. vegalaga, nr. 45/1994.“ Í framhaldi af þessu veitti sveitarfélagið jafnframt með bréfi 11. maí 2006 „reiðveganefnd Léttis leyfi til réttarbyggingar í landi Munkaþverár norðan Miðbrautar“, en tekið var fram að þetta væri gert á grundvelli umsóknar og „gildandi skipulags um legu reiðvegar frá norðurmörkum sveitarfélagsins að Melgerðismelum.“ Það skilyrði var sett fyrir leyfinu að haft yrði „fullt samráð við landeiganda um nánari staðsetningu framkvæmdarinnar, girðingar, hlið og annað sem máli skiptir um notkun réttarinnar og umgengni.“
Með bréfi 3. apríl 2009 leitaði áfrýjandi eftir heimild ráðherra til eignarnáms „vegna reiðstígs í landi Munkaþverár í Eyjafjarðarsveit á grundvelli 6. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007, sbr. 10. gr. sömu laga.“ Í bréfinu var því meðal annars lýst að reynt hafi verið í tugi ára að ná samkomulagi við eigendur jarðarinnar um reiðstíg um land hennar, en viðræður um þetta hafi engum árangri skilað og væri það að mati áfrýjanda þrautalending að leita eftir þessari heimild „vegna almannahagsmuna til þess að auka öryggi vegfarenda í Eyjafjarðarsveit.“ Lagt var til grundvallar að vegstæðið í landi stefndu væri 4.412 m að lengd og 10 m að breidd, en samkvæmt því ætti eignarnámið að ná til 4,41 hektara og væri það svæði afmarkað á „fjórum ódags. uppdráttum ... sem unnir voru af Vegagerðinni.“
Með bréfi 6. apríl 2009 sendi ráðherra vegamálastjóra þetta erindi „til tillögugerðar“, en um það var vísað til 6. mgr. 37. gr. vegalaga. Þessu svaraði vegamálastjóri með bréfi 20. ágúst sama ár, þar sem meðal annars var greint frá því að við „undirbúning að tillögugerð Vegagerðarinnar“ hafi þótt nauðsynlegt af afla greinargerðar Verkfræðistofu Norðurlands ehf. „um kostnað og umferðaröryggi, við tvær útfærslur á gerð reiðleiðar frá Hólmunum við Akureyrarflugvöll inn að Melgerðismelum“. Hafi önnur leiðin verið sú fyrrgreinda eftir austurbakka Eyjafjarðarár, en hinn kosturinn að fylgja svonefndri héraðsleið fyrir hestaumferð vestan við ána, sem lægi að mestu samhliða þjóðvegi nr. 821, og gera á henni úrbætur. Komist hafi verið að þeirri niðurstöðu í greinargerðinni að „báðir valkostir um legu reiðleiðar (sem stofnleið) milli Akureyrar og Melgerðismela séu raunhæfir og framkvæmanlegir og aðrir kostir komi ekki til greina.“ Leiðin vestan Eyjafjarðarár væri mun nær umferð bifreiða, þar sem hámarkshraði væri 90 km á klukkustund, og leiddi þetta af sér hættu á að hross fældust. Girða yrði alla þessa leið af, en að auki yrðu vegþveranir á henni og yrði að setja þar ristahlið, sem gætu skapað hættu fyrir lausgangandi hross ef þau reyndu að komast út af brautinni. Samkvæmt kostnaðaráætlun verkfræðistofunnar yrði vestari leiðin um 44.000.000 krónum dýrari en sú eystri. Það væri jafnframt mat vegamálastjóra að betra væri „með tilliti til öryggis umferðar að færa hestaumferð fjær umferðarmiklum vegum.“ Lagði hann því til að eignarnám yrði heimilað í samræmi við beiðni áfrýjanda.
Stefnda andmælti því með bréfum til ráðherra 8. maí og 22. október 2009 að áfrýjanda yrði veitt heimild til eignarnáms. Gegn þeim andmælum tók ráðherra ákvörðun 25. nóvember 2010 um að verða við beiðni áfrýjanda, en þó með þeim skilyrðum að hann fengi „gilt framkvæmdaleyfi“ sökum þess að fyrrnefnt leyfi hans 15. mars 2006 væri útrunnið, viðhald reiðvegarins yrði á ábyrgð ríkisins og Eyjafjarðarsveitar, sbr. 1. mgr. 10. gr. vegalaga, vegurinn yrði ætlaður almenningi til frjálsrar umferðar samkvæmt sama lagaákvæði og þess yrði gætt við lagningu hans að flutningsleiðir að malarnámi í landi stefndu við Þverá efri yrðu ekki skertar. Áfrýjandi gerði 28. mars 2011 athugasemd um það við ráðherra að hann teldi framkvæmdaleyfi sitt frá 15. mars 2006 enn í gildi. Af þessu tilefni lét ráðherra frá sér fara nýja ákvörðun 20. desember 2011, þar sem hann felldi gegn andmælum stefndu niður skilyrðið í fyrri ákvörðuninni um að áfrýjandi aflaði sér nýs framkvæmdaleyfis.
Áfrýjandi beindi 18. júní 2012 til stefndu „tillögu að eignarnámsbótum“ fyrir 4,4 hektara lands undir reiðstíg gegnum jörð hennar, þar sem hann bauðst til að greiða fyrir það 110.000 krónur ásamt 100.000 krónum í málskostnað, en jafnframt lýsti hann yfir að hann myndi bera kostnað af gerð girðinga báðum megin við reiðstíginn og viðhaldi þeirra svo lengi sem stefnda ætti jörðina. Stefnda hafnaði þessu boði og varð ekki árangur af frekari tilraunum aðilanna til að ná samkomulagi. Áfrýjandi leitaði því 2. maí 2013 eftir að matsnefnd eignarnámsbóta mæti „hæfilegar eignarnámsbætur“ til stefndu „fyrir 4,41 ha. lands vegna lagningar reiðvegar um land Munkaþverár.“ Í úrskurði matsnefndarinnar 4. september 2013 var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjanda bæri að greiða stefndu eignarnámsbætur að fjárhæð 5.500.000 krónur auk 1.481.067 króna í málskostnað.
Áður en matsnefnd eignarnámsbóta kvað upp fyrrgreindan úrskurð höfðaði stefnda mál þetta gegn áfrýjanda og Hestamannafélaginu Létti með stefnu 10. júlí 2013. Krafðist stefnda þess að ógilt yrði í fyrsta lagi framkvæmdaleyfi áfrýjanda og hestamannafélagsins 15. mars 2006 vegna reiðstígagerðar, í öðru lagi framkvæmdaleyfi hestamannafélagsins 11. maí sama ár til að reisa rétt í landi stefndu og í þriðja lagi ákvörðun ráðherra 25. nóvember 2010, svo sem henni var breytt 20. desember 2011, um að heimila áfrýjanda eignarnám á landi úr jörð stefndu undir reiðstíg. Með hinum áfrýjaða dómi var hafnað kröfu stefndu um ógildingu framkvæmdaleyfisins frá 15. mars 2006, en aðrar kröfur hennar á hinn bóginn teknar til greina. Stefnda unir héraðsdómi fyrir sitt leyti og það gerir jafnframt Hestamannafélagið Léttir.
II
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. vegalaga getur ráðherra að fengnum tillögum forstjóra Vegagerðarinnar heimilað að land verði tekið eignarnámi til lagningar almennra stíga og einkavega, sbr. 10. og 11. gr. laganna, enda komi fullar bætur fyrir. Í 1. mgr. 10. gr. vegalaga eru reiðstígar taldir til almennra stíga, séu þeir ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar og verði þeim haldið við af fé ríkisins eða sveitarfélaga, en í 11. gr. laganna segir að einkavegir séu vegir, sem hvorki teljast þjóðvegir né sveitarfélagsvegir og eru í eigu einstaklinga, fyrirtækja eða opinberra aðila. Við það verður að miða að ráðherra hafi lagt til grundvallar ákvörðun sinni 25. nóvember 2010 að reiðstígur í landi Munkaþverár, sem aðilarnir deila um, myndi í senn eiga undir 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. vegalaga, svo og að skilyrðum 6. mgr. 37. gr. laganna væri að öðru leyti fullnægt til að veita áfrýjanda heimild til eignarnáms á landi undir stíginn. Eins og stefnda hefur lagt málið fyrir dómstóla kemur þetta ekki til frekari skoðunar við úrlausn þess.
Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur og má engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, enda standi lagafyrirmæli til slíkrar skerðingar og komi fullt verð fyrir. Af 1. mgr. 10. gr., sbr. 6. gr. vegalaga leiðir að reiðstígar teljast til vegakerfis landsins. Bæði hafa Eyjafjarðarsveit með fyrrgreindu aðalskipulagi og vegamálastjóri í tillögu til ráðherra 20. ágúst 2009 byggt á því að nauðsynlegt sé að leggja sérstakan reiðstíg inn Eyjafjörð til að tryggja umferðaröryggi, jafnt fyrir ökumenn bifreiða og hestamenn. Ekki eru efni til að hnekkja þessu mati á því að almenningsþörf sé að þessu leyti fyrir hendi til að skerða eignarréttindi stefndu. Úr því verður á hinn bóginn jafnframt að leysa hvort uppfylltar séu kröfur um meðalhóf til að beita heimild til eignarnáms á landi stefndu við þær aðstæður, sem uppi eru í málinu, en þeim kröfum telst því aðeins fullnægt að ekki sé með öðrum úrræðum unnt á ásættanlegan hátt að ná þeim tilgangi, sem eignarnámi er ætlaður, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 19. mars 2009 í máli nr. 425/2008 og 15. nóvember 2012 í máli nr. 60/2012. Við mat á þessu verður að gæta að því að stefndu hefur þegar verið gert í þágu almenningsþarfar að sæta takmörkun á eignarréttindum sínum yfir landi Munkaþverár með því að um það liggur þjóðvegur nr. 829, Eyjafjarðarbraut eystri. Þótt slík þörf standi samkvæmt áðursögðu jafnframt til að stefnda geti orðið að þola frekari skerðingu á eignarréttindum sínum til að koma við reiðstíg um landið verður ekki horft fram hjá því að stígur af þeim toga kemur aðeins takmörkuðum fjölda manna að beinum notum og er að auki miðað hér við að hann yrði í eigu einkaaðila en hvorki ríkisins né sveitarfélags. Af þessu leiðir að ekki getur komið til álita að skerða eignarréttindi stefndu frekar en orðið er með því að taka undan jörð hennar land undir annað vegarstæði nema fullreynt sé að aðrir ásættanlegir kostir séu ekki tækir. Í tillögu vegamálastjóra 20. ágúst 2009 var sem áður segir byggt á því að tveir valkostir um legu reiðstígs milli Akureyrar og Melgerðismela í landi stefndu væru „raunhæfir og framkvæmanlegir“, annars vegar með því að fara leiðina austan við Eyjafjarðará, sem deilt er um í málinu, og hins vegar með því að bæta héraðsleið fyrir hestaumferð samhliða þjóðvegi nr. 821 vestan við ána og gera úr henni stofnleið. Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð á hvaða grunni þessi síðarnefndi kostur gæti ekki talist ásættanlegur í samanburði við hagsmuni stefndu af því að þurfa ekki að hlíta frekari skerðingu eignarréttinda sinna, en að því verður að gæta að víða í vegakerfi landsins liggja reiðstígar samhliða vegum fyrir umferð vélknúinna ökutækja, auk þess sem ekki hefur verið hnekkt málatilbúnaði stefndu um að kostnaðarmat, sem vegamálastjóri aflaði í tengslum við tillögu sína, sé ekki í öllum atriðum reist á réttum forsendum. Þá verður ekki horft fram hjá því að í aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 1994-2014 var eftir gögnum málsins gert ráð fyrir „reiðleið með Eyjafjarðarbraut eystri frá Syðra-Laugalandi að Víðinesi“ þar til áðurnefndar breytingar á skipulaginu tóku gildi 7. janúar 2005. Í framlögðum tillögum um breytingar á núgildandi aðalskipulagi, sem virðast hafa verið gerðar á vegum sveitarfélagsins og dagsettar voru 10. nóvember 2009, var miðað við að reiðstígur þessi yrði aftur tekinn í notkun sem héraðsleið. Ekki verður annað séð en að stígur þessi hafi legið samhliða þjóðvegi nr. 829 meðal annars gegnum land Munkaþverár. Í málinu hafa ekki komið fram haldbærar skýringar á ástæðum þess að ekki hafi verið lagt mat á hvort almenningsþörf yrði mætt með reiðstíg á þessum stað. Þegar allt framangreint er virt hefur ekki verið sýnt fram á það gegn andmælum stefndu að meðalhófs hafi verið gætt þegar ráðherra ákvað 25. nóvember 2010 að heimila áfrýjanda að taka eignarnámi land úr jörð stefndu undir reiðstíg. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hestamannafélagið Funi, greiði stefndu, Önnu Aðalheiði Guðmundsdóttur, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. desember 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð miðvikudaginn 22. október 2014, er höfðað af Önnu Aðalheiði Guðmundsdóttur, kt. [...], Munkaþverá, Eyjafjarðarsveit á hendur Hestamannafélaginu Funa, kt. [...], Hólakoti, Eyjafjarðarsveit og Hestamannafélaginu Létti, kt. [...], Fluguborg 11, Akureyri. Fyrir hönd Hestamannafélagsins Funa er stefnt Brynjari Skúlasyni, kt. [...], Hólsgerði, Eyjafjarðarsveit en fyrir hönd Hestamannafélagsins Léttis er stefnt Andreu Margréti Þorvaldsdóttur, kt. [...], Oddagötu 1, Akureyri. Málið var höfðað 11. júlí 2013 á hendur Hestamannafélaginu Létti og 17. júlí á hendur Hestamannafélaginu Funa.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að framkvæmdaleyfi til stefndu, dagsett 15. marz 2006, vegna reiðvegagerðar á austurbakka Eyfjarðarár frá landamerkjum Hóls II og Munkaþverár í Eyjafjarðarsveit að norðan að landamerkjum Stóra Hamars og Bringu að sunnan í sama sveitarfélagi verði ógilt. Þá krefst stefnandi þess gagnvart stefnda Hestamannafélaginu Létti að byggingarleyfi dagsett 11. maí 2006 vegna réttarbyggingar í landi Munkaþverár norðan Miðbrautar verði ógilt. Þá krefst stefnandi þess gagnvart stefnda Hestamannafélaginu Funa að ákvörðun ráðherra í máli nr. SAM 09040011, dagsett 25. nóvember 2010, um heimild til eignarnáms vegna reiðstígs á bökkum Eyjafjarðarár, auk ákvörðunar ráðherra um breytingu á fyrrgreindri ákvörðun dagsettri 20. desember 2011, verði ógilt. Loks krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu óskipt úr hendi stefndu auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Bæði stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar.
Málavextir
Stefnandi er eigandi jarðarinnar Munkaþverár í Eyjafjarðarsveit og rekur þar kúabú og sauðfjárbú. Þá hefur hún selt möl úr námum á bökkum Þverár efri og kostað vegagerð á austurbakka Eyjafjarðarár vegna þeirra malarflutninga. Stefndu Hestamannafélagið Funi og Hestamannafélagið Léttir hafa lengi óskað eftir því að reiðleið verði lögð frá Akureyri fram að athafnasvæði hestamanna á Melgerðismelum eftir leið sem að hluta myndi liggja um eignarland stefnanda. Hún hefur ekki fallizt á það. Ágreiningur þessa máls snýst um eignarnám sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra heimilaði stefndu Hestamannafélögunum Funa og Létti á landi undir reiðleiðina, úr landi stefnanda, og um framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi sem stefndu hefur verið veitt vegna gerð reiðvegarins og mannvirkis honum tengt.
Hinn 26. marz 1997 var staðfest aðalskipulag fyrir Eyjafjarðarsveit 1994 - 2014. Hinn 7. janúar 2005 staðfesti umhverfisráðherra breytingu á svæðisskipulagi Eyjafjarðarsvæðis 1998-2018 og aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 1994-2014. Breytingin sem þá var gerð fólst í því að reiðleið frá Akureyri að Melgerðismelum var breytt þannig að í stað þess að hún lægi meðfram Eyjafjarðarbraut vestri skyldi hún færast að austurbakka Eyjafjarðarár, þar á meðal um landareign stefnanda. Andmælti stefnandi þessari ákvörðun.
Í greinargerð með núgildandi aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar segir meðal annars að veruleg uppbygging hafi átt sér stað á Melgerðismelum fyrir allmörgum árum í þeim tilgangi að þar yrði miðstöð hestaíþrótta. Talsmenn hestamanna telji að ágreiningur um reiðleið og skortur á henni standi framtíð Melgerðismela mjög fyrir þrifum og að öll frekari uppbygging þar sé tilgangslaus að óbreyttu. Sú aðstaða sem þegar sé fyrir hendi nýtist ekki sem skyldi vegna þessa. Sveitarstjórn telji nauðsynlegt að þarna verði ráðin bót á til að leggja grunn að öflugri starfsemi hestamanna á svæðinu sem sé einstakt til útiveru og bjóði upp á fjölbreytta kosti fyrir hestamennsku. Núverandi reiðleið fari að hluta til um og með fjölförnum þjóðvegi sem sé óæskilegt vegna öryggissjónarmiða. Vegna þessa sé lagt til að reiðleiðin frá Akureyri að Melgerðismelum verði færð á austurbakka Eyjafjarðarár.
Hinn 15. marz 2006 veitti Eyjafjarðarsveit stefndu sameiginlega framkvæmdaleyfi vegna reiðvegagerðar á landamerkjum Hóls II og Munkaþverár að norðan að landamerkjum Stóra Hamars og Bringu að sunnan.
Hinn 11. maí 2006 veitti sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar, að tillögu skipulagsnefndar sveitarfélagsins, reiðveganefnd stefnda Hestamannafélagsins Léttis leyfi til byggingar réttar í landi Munkaþverár norðan Miðbrautar. Var í leyfinu vísað til gildandi skipulags um legu reiðvegar frá norðurmörkum sveitarfélagsins að Melgerðismelum. Sagði í leyfinu að það væri háð „venjulegum skilyrðum um fullt samráð við landeiganda um nánari staðsetningu framkvæmdarinnar, girðingar, hlið og annað sem málið skiptir um notkun réttarinnar og umgengni.“ Með bréfi til sveitarstjórnar Eyjafjarðasveitar dagsettu 24. september 2006 kvaðst stefnandi alfarið hafna því að reiðvegur yrði lagður um það land Munkaþverár sem lægi á bökkum Eyjafjarðarár að austanverðu líkt og gert væri ráð fyrir í nýauglýstu skipulagi. Þetta land væri nytjað til búskapar og þar um lægi vegur sem nýttur væri vegna malarnáms. Samskonar erindi hefði áður verið hafnað bréflega fyrir þó nokkurum árum með ýtarlegri rökum og í kjölfarið á því hefði reiðvegur verið skipulagður annars staðar. Kvaðst stefnandi óska eftir því að sveitarstjórn „[áttaði] sig á þessari staðreynd og [léti] af ítrekuðum hugmyndum sínum um þennan reiðveg í landi Munkaþverár.“ Reiðveganefnd stefnda Hestamannafélagsins Léttis skrifaði stefnanda bréf dagsett 22. september 2006. Var þar vísað í framkvæmdaleyfi sem sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hafði veitt reiðveganefndinni vegna réttarbyggingar í landi Munkaþverár. Sagði í bréfinu að framkvæmdaleyfið hefði verið bundið því skilyrði að fullt samráð yrði haft við landeiganda um nánari staðsetningu, girðingu, hlið og annað sem að máli skipti. Með vísan til þess væri óskað eftir fundi með stefnanda eða þeim sem að hún tilnefndi sem fulltrúa sinn til að ræða nánar um staðsetningu réttarbyggingarinnar og annars sem að framkvæmdinni lyti. Bærist ekki svar innan viku yrði litið svo á að stefnandi hefði samþykkt staðsetningu réttarinnar og einnig yrði litið svo á að stefnandi óskaði ekki eftir að reiðleið yrði afgirt þar sem hún færi um land stefnanda. Fjórum dögum síðar skrifaði stefnandi reiðveganefndinni og sagðist hafa skrifað sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar og alfarið hafnað að reiðvegur yrði lagður um það land sitt sem væri á bökkum Eyjafjarðarár að austanverðu. Þá yrði ekki veitt leyfi til réttarbyggingar í landi Munkaþverár norðan Miðbrautar.
Hinn 21. ágúst 2007 lögðu stefndu fram sameiginlega beiðni um heimild til eignarnáms vegna reiðvegar í landi Munkaþverár. Umsækjendur lögðu ekki fram öll umbeðin gögn og var beiðnin afturkölluð.
Hinn 3. apríl 2009 óskaði stefndi Hestamannafélagið Funi eftir því að ráðherra veitti félaginu heimild til eignarnáms á 4,41 ha. landi vegna reiðstígs um land Munkaþverár, austan við Eyjafjarðará, og var vísað til 6. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007 sbr. 10. gr. laganna. Var í beiðninni vísað til staðfests aðalskipulags og breytinga á því og svæðisskipulagi Eyjafjarðar.
Hinn 20. ágúst 2009 lagði Vegagerðin til að eignarnámið yrði heimilað. Í greinargerð Vegagerðarinnar var vísað til úttektar sem Verkfræðistofa Norðurlands ehf. hefði verið fengin til að gera á kostnaði og umferðaröryggi við tvær útfærslur á gerð reiðleiðar frá Hólminum við Akureyrarflugvöll inn að Melgerðismelum, annars vegar vestan árinnar meðfram þjóðveginum og annars vegar austan árinnar líkt og eignarnámsbeiðnin hefði lotið að. Í úttekt verkfræðistofunnar segði meðal annars að samkvæmt gildandi aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar væri stofnleið ákveðin austan Eyjafjarðarár milli hólmanna við Akureyrarflugvöll inn að Melgerðismelum en héraðsleið væri samkvæmt skipulaginu sýnd vestan ár, að mestu samhliða Eyjafjarðarbraut vestri. Stofnleiðin að austan fylgdi bakka Eyjafjarðarár að mestu. Væri í skýrslunni borinn saman stofnkostnaður við gerð reiðleiðar milli áðurnefndra staða sem uppfylli kröfur Vegagerðarinnar um stofnleið. Annars vegar samkvæmt skipulaginu austan ár og hins vegar eftir þeirri leið sem sett sé fram sem héraðsleið vestan ár. Í niðurstöðum úttektarinnar segir meðal annar að „áðurnefndir tveir valkostir um legu reiðleiðar (stofnleiðar) milli Akureyrar og Melgerðismela séu báðir raunhæfir, framkvæmanlegir og ekki séu aðrir kostir sem til greina komi“. Frá öryggissjónarmiði sé vestari leiðin lakari en hún sé í mun meiri nálægð við bílaumferð og vegþveranir fleiri. Heildarkostnaður við reiðleið að vestan væri áætlaður 190 milljónir króna en við reiðleið að austanverðu 146 milljónir króna. Að öðru leyti væri ekki settur fram í skýrslunni samanburður eða mat á öðrum kostum eða göllum leiðanna.
Með bréfi til samgönguráðherra 22. október 2009 mótmælti stefnandi því að heimilað yrði eignarnám á landi hennar til lagningar reiðstígs.
Hinn 25. nóvember 2010 ákvað samgönguráðherra að heimila stefnda Hestamannafélaginu Funa eignarnám vegna reiðstígs í landi Munkaþverár í Eyjafjarðarsveit á grundvelli 6. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2007, sbr. 10. gr. laganna. Skyldi heimildin ná til lands sem alls væri 4,41 ha. Var eignarnámsheimildin bundin fjórum skilyrðum. Í fyrsta lagi að gilt framkvæmdaleyfi fengist, þar sem eldra framkvæmdaleyfi, útgefið 15. marz 2006, væri útrunnið sbr. ákvæði 9. mgr. 27. gr. þág. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í öðru lagi að viðhald reiðstígsins yrði á ábyrgð ríkisins og sveitarfélagsins Eyjafjarðar [sic] sbr. ákvæði 1. mgr. 10. gr. vegalaga. Í þriðja lagi að reiðstígurinn skyldi ætlaður almenningi til frjálsrar umferðar og að í fjórða lagi skyldi þess gætt við lagningu reiðstígsins að flutningsleiðir til og frá afhendingarstaðar malar úr landi eignarnámsþola yrðu ekki skertar. Í ákvörðun sinni vísar ráðherra til þess að beiðnin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar og rekur svo að til greina komi tvær reiðleiðir milli Hólmanna við Akureyrarflugvöll og Melgerðismela, og séu báðar á skipulagi, sú eystri sem stofnreiðleið en sú vestari sem héraðsreiðleið. Í tillögu Vegagerðarinnar hafi þessir kostir verið taldir „tveir skástu valkostirnir en aðrir kostir hafi verið metnir lakari og því hafi ekki verið rétt að kalla eftir sérstakri umfjöllun um þá.“ Segir ráðherra að fallst beri á þau sjónarmið Vegagerðarinnar, sem eigi sér stoð í greinargerð Verkfræðistofu Norðurlands ehf., að báðir kostirnir séu raunhæfir og framkvæmanlegir. Þá rekur ráðherra að í tillögu Vegagerðarinnar segi að vestari leiðin sé mun nær bílaumferð og vegþveranir séu þar fleiri. Sú leið sé í nálægð við umtalsverða og hraða bifreiðaumferð sem skapi hættu á að hross fælist. Þar sem reynt sé að ná sambærilegu umferðaröryggi á vestari leiðinni sé hún girt af frá vegi alla leiðina, og þurfi því að á allar vegþveranir á henni þyrfti að setja ristarhlið sem skapi hættu fyrir lausgangandi hross ef þau reyni að komast úr brautinni. Á eystri leiðinni séu ekki vegþveranir heimreiða og því ekki þörf ristarhliða með þessari hættu, en þær þveranir sem á henni séu, á Eyjafjarðarbraut vestari og Miðbraut, séu ekki þess eðlis að sett verði ristarhlið þar. Þrátt fyrir þessar tvær þveranir þjóðvega á eystri leiðinni verði sá kostur talinn betri enda sé nálægð við umferð mun meiri á vestari leiðinni. Ráðherra vísar til þess að aðalmarkmið vegalaga sé að stuðla að greiðum og öruggum samgöngum og við val á leiðum fyrir reiðstíga beri þannig að hafa almenn umferðaröryggissjónarmið að leiðarljósi. Í ljósi almenns umferðaröryggis sé æskilegt að færa hestaumferð fjær umferðarmiklum vegum ef mögulegt sé. Markmið aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar, að flytja umferð hesta og ríðandi manna eins og kostur sé af stofn- og tengivegum og öðrum fjölförnum akvegum á reiðvegi, sé í fullu samræmi við þessi almennu umferðaröryggissjónarmið. Standi almannahagsmunir til þess að bæta öryggi ríðandi umferðar milli Akureyrar og Melgerðismela. Sé það mat ráðherra að umferðaröryggi sé umtalsvert meira á eystri leiðinni en þeirri vestari enda sé nálægð við umferð mun meiri á vestari leiðinni, þar sem reiðleiðin liggi meðfram þjóðvegi alla vestari leiðina. „Í ljósi almenns umferðaröryggis sbr. 1. gr. vegalaga standi því almannahagsmunir til þess að eystri leiðin verði fyrir valinu en ekki sú vestari. Sé því skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf uppfyllt þar sem sambærilegu umferðaröryggi [verði] ekki náð á vestari leiðinni og þeirri eystri. Með vísan til þessa og í samræmi við tillögur Vegagerðarinnar sbr. gildandi aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar [sé] það niðurstaða ráðuneytisins að almannahagsmunir standi til þess að heimila beri eignarnám úr landi Munkaþverár í Eyjafjarðarsveit vegna lagningar reiðstígs samkvæmt beiðni [stefnda Hestamannafélagsins Funa] þar um.“ Var því niðurstaða ráðherra sú að heimila stefnda Hestamannafélaginu Funa eignarnám vegna reiðstígs í landi Munkaþverár og skyldi heimildin ná til alls 4,41 hektara lands. Var heimildin bundin þeim fjórum skilyrðum sem áður voru rakin.
Hinn 20. desember 2011 tók innanríkisráðherra nýja ákvörðun og felldi úr gildi það skilyrði eignarnámsheimildarinnar að aflað yrði nýs framkvæmdaleyfis. Hefði stefndi Hestamannafélagið Funi sýnt fram á að „framkvæmdir við lagningu reiðstígsins hafi í raun verið hafnar skömmu eftir að framkvæmdaleyfi var gefið út“, hinn 15. marz 2006. Hafi stefndi lagt fram verksamning vegna framkvæmda sem tengist „umræddri reiðstígsgerð á bökkum Eyjafjarðarár“, og séu reikningar vegna framkvæmdanna dagsettir í maí 2006, aðeins tveimur mánuðum eftir að framkvæmdaleyfi hafi fengizt. Við meðferð þessa máls mótmælti stefnandi að skilyrðið yrði fellt úr gildi.
Hinn 28. ágúst 2012 var haldinn fundur í sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar. Var þar meðal annars á dagskrá liðurinn „0809029 Reiðvegamál Munkaþverá, bakkar Eyjafjarðarár“. Í fundargerð er eftirfarandi bókað undir þeim lið: „Spurningar hafa vaknað hjá sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar varðandi eignarnámsheimild þá er veitt var Hestamannafélaginu Funa á bökkum Munkaþverár með úrskurði Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis dags. þann 25. nóvember 2010 og framkvæmdaleyfi útgefnu af sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar dags. þann 15. mars 2006 og eru þær eftirfarandi:
Í framkvæmdaleyfi, útgefnu af sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar þann 15. mars 2006, hljómar liður 2.9 þannig: „Náið samráð skal haft við landeigendur um yfirferð og framkvæmdir í landi þeirra“
Hvernig fer með þetta skilyrði sveitarstjórnar fyrir því að framkvæmdir geti farið fram ef af eignarnámi verður?
Eitt af skilyrðum eignarnáms af hálfu ráðuneytisins er að: „Viðhald reiðstígsins skal vera á ábyrgð ríkisins og sveitarfélagsins Eyjafjarðar sbr. ákvæði 1. mgr. 10. gr. vegalaga nr. 80 2007.“
Í framkvæmdaleyfinu útg. þann 15. mars kemur fram í lið 2.11: „Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar lítur svo á að með útgáfu framkvæmdaleyfis þessa teljist framkvæmdaleyfishafarnir veghaldarar sbr. 16. og 17. gr. vegalaga nr. 45/1994. Þarna stangast á annars vegar texti í útgefnu framkvæmdaleyfi og hins vegar skilyrði [ráðuneytis] fyrir því að af eignarnámi geti orðið. Hvernig túlkar ráðuneytið þetta sem á undan er talið?
Ljóst er að hér fara ekki saman þau skilyrði sem sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar annars vegar og ráðuneytið hins vegar setja. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur um langt skeið verið fullkunnugt um ágreining þann sem uppi er í þessu máli þ.e. að hestamannafélagið Funi og landeigandi Munkaþverár hafa ekki náð samkomulagi um umferð ríðandi manna um land Munkaþverár. Framkvæmdaleyfið var á sínum tíma gefið út í góðri trú sveitarstjórnar um að um myndi semjast og ber orðalag keim af því. Hlýtur því að vera eðlilegt að spyrja: Telst framkvæmdaleyfi það sem um ræðir vera ennþá í gildi þar sem sveitarstjórn gerði ekki ráð fyrir þeim möguleika að farið yrði í eignarnám á grundvelli þess?“ Er næst bókað að sveitarstjórn samþykki að málinu verði frestað til næsta fundar.
Á næsta fundi sveitarstjórnar, hinn 19. september 2012, var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókað: „Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar skorar á Hestamannafélagið Funa og eigendur Munkaþverár að reyna til hins ýtrasta að semja um lagningu reiðvegar um land Munkaþverár þannig að ekki þurfi að koma til fyrirhugaðs eignarnáms. Sveitarstjórn telur ekki rétt að blanda sér í málið að öðru [leyti].“ Segir að þessi bókun hafi verið samþykkt með sex atkvæðum en einn setið hjá.
Með bréfi til sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar, dags. 26. september 2012, óskuðu stefnandi, sem eigandi Munkaþverár, og eigendur jarðanna Rifkelsstaða I, Rifkelsstaða II, Stóra Hamars I, og Stóra Hamars II eftir því að aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar yrði breytt „á þann veg að hætt verði við fyrir hugaða lagningu reiðvegar um lönd okkar.“ Skyldi aðalskipulaginu breytt þannig „að hluta fyrirhugaðrar reiðvega lagningar á þessu svæði verði breytt á þá leið: Að frá syðri landamerkjum Hóls 2 austan Eyjafjarðarár suður að Stórhamri, að Stórhamri meðtöldum muni reiðvegur ekki liggja um lönd“ þeirra. Var farið fram á að afgreiðslu málsins yrði hraðað svo komast mætti hjá því „að fyrirhugaðar framkvæmdir við reiðvegalagningu verði hafnar í óþökk undirritaðra landeigenda.“ Á næsta fundi sveitarstjórnar, hinn 31. október 2012, var bókað vegna þessarar óskar: „Sveitarstjórn getur ekki orðið við erindi landeigenda um breytingu á núgildandi aðalskipulagi hvað varðar lagningu reiðvegar um lönd þeirra á austurbakka Eyjafjarðarár.“
Hinn 18. júní 2012 skrifaði stefndi Hestamannafélagið Funi stefnanda og lagði til að stefnanda yrðu greiddar 25.000 krónur í eignarnámsbætur fyrir hvern hektara, alls 110.000 krónur. Þá myndi stefndi setja upp á sinn kostnað hrosshelda girðingu beggja vegna hins eignarnumda lands og sjá um kostnað vegna viðhalds girðingarinnar á meðan stefnandi ætti jörðina. Þar sem reiðstígur færi yfir akveg myndi „tilboðshafi [sic] setja upp hlið og beita sér fyrir því að félagsmenn gangi haganlega um.“ Loks skyldi stefnanda greiddar 100.000 krónur í málskostnað. Með bréfi dags. 2. júlí 2012 hafnaði stefnandi tillögunni, en lagði ekki fram eigin tillögu og vísaði vegna þess til þess að eignarnámsheimildin væri „óljós að hluta“.
Með beiðni til matsnefndar eignarnámsbóta 2. maí 2013 óskaði stefndi Hestamannafélagið Funi eftir því að matsnefnd eignarnámsbóta mæti hæfilegar bætur vegna eignarnámsins. Í úrskurði nefndarinnar 4. september 2013 segir meðal annars að fallizt sé á það með stefnanda að landið vestan fyrirhugaðs reiðvegar verði ekki nýtanlegt á stórum köflum vegna vegarins og þeirra girðinga sem settar verði upp. Þá sé það álit nefndarinnar að framkvæmdin muni rýra jörðina í verði meira en sem nemi verðmæti þess lands sem eignarnumið verði, enda muni „allt land jarðarinnar sem liggur að Eyjafjarðará að nokkru ónýtast vegna framkvæmdarinnar og gera það minna hentugt til ýmis[s] konar nýtingar.“ Þá sé ljóst að reiðvegurinn og girðingin með fram honum muni hafa „truflandi áhrif á aðgengi að Eyjafjarðará til veiðiiðkunar“ og fleira, þótt aðkoma veiðimanna verði ekki bönnuð. Var niðurstaða nefndarinnar að greiða skyldi 1,7 milljónir króna vegna hins eignarnumda lands og 3,8 milljónir króna vegna annarrar verðlækkunar jarðarinnar vegna eignarnámsins. Þá skyldi greiða stefnanda 1.481.067 krónur vegna kostnaðar við rekstur matsmálsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Vegna framkvæmdaleyfis, dags. 15. marz 2006.
Stefnandi kveðst byggja kröfu um ógildingu framkvæmdaleyfis dags. 15. marz 2006 á því að ósamræmis gæti milli þess og eignarnámsheimildarinnar. Núverandi framkvæmdaáætlun sé því ekki í samræmi við leyfi sem gefin hafi verið út fyrir rúmlega 7 árum. Í fyrsta lagi hafi stefndi Hestamannafélagið Léttir hætt við að taka þátt í framkvæmdunum enda eigi það félag enga aðild að eignarnáminu. Stefnandi kveðst telja nauðsynlegt ef gilt eigi að vera að gefa út nýtt leyfi til að samræmi sé milli framkvæmdaleyfis og eignarnámsheimildar. Ekki sízt þar sem leyfið tilgreini báða stefndu sem veghaldara, en samkvæmt gögnum málsins hafi stefndu komizt að samkomulagi um að stefndi Hestamannafélagið Funi sjái um málið án aðkomu stefnda Hestamannafélagsins Léttis, án þess þó að sveitarfélagið Eyjafjarðarsveit hafi um það fjallað eða tekið ákvörðun þar að lútandi. Stefnandi kveðst því telja að óvissa ríki um hver beri ábyrgð á veghaldinu. Einnig sé ósamræmi milli framkvæmdaleyfis og eignarnámsheimildar að því leyti að framkvæmdaleyfi geri ráð fyrir að reiðleiðin liggi eftir malarvegi stefnanda frá miðbraut og að Þverá efri en eignarnámsheimildin geri ráð fyrir nýrri vegagerð fyrir reiðleið að töluverðum hluta á þeim stað. Stefndi Hestamannafélagið Funi muni því að óbreyttu eignast land sem framkvæmdaleyfið taki ekki til. Þarna sé um misræmi að ræða sem stefnandi kveðst telja leiða til ógildingar á framkvæmdaleyfinu.
Stefnandi kveðst einnig byggja kröfu um ógildinu framkvæmdaleyfisins á því að sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hafi brotið málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, einkum rannsóknarregluna, við undirbúning ákvörðunar um málið m.a. með því að leita ekki umsagnar samkvæmt náttúruverndarlögum og lögum um dýrasjúkdóma þar sem reiðstígurinn fari yfir varnarlínu vegna sauðfjársjúkdóma. Segir stefnandi að svo virðist sem engin könnun hafi farið fram með tilliti til fornminja en Munkaþverá sé gömul jörð með mikla sögu sem nái aftur til landnáms. Stefnandi kveðst byggja á því að sveitarstjórn hafi borið að endurupptaka málið þegar eignarnámsheimildin hafi legið fyrir þar sem fyrri ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi og misvísandi upplýsingum um umfang og eðli framkvæmdanna. Stefnandi kveðst telja að fyrri ákvörðun hafi verið ógildanleg og hafi því verið skilyrði fyrir sveitarstjórn að afturkalla hana. Stefnandi kveðst telja að núverandi áætlanir stefnda Hestamannafélagsins Funa um framkvæmdir við gerð reiðstígsins séu það umfangsmiklar að þær séu matsskyldar.
Stefnandi kveðst einnig byggja ógildingarkröfu sína á því að forsenda framkvæmdaleyfisins um samráð við landeigendur hafi brostið. Í framkvæmdaleyfinu sé beinlínis tekið fram að leyfishafar skuli hafa náið samráð við landeigendur um framkvæmdir í landi þeirra. Augljóst sé að samkomulag liggi ekki fyrir a.m.k. að því er stefnanda varði.
Þá kveðst stefnandi byggja á því að framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaleyfinu hafi stöðvazt lengur en ár óháð andstöðu stefnanda og því beri að fella framkvæmdaleyfið úr gildi af þeim sökum.
Vegna byggingarleyfis, dagsetts 11. maí 2006.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um ógildingu byggingarleyfis á því að það sé ekki í samræmi við framangreint framkvæmdaleyfi til stefndu þar sem reiðveganefnd Léttis sé tilgreindur leyfishafi. Stefnandi kveðst telja rétt að beina dómkröfum um þetta atriði um þetta að stefnda hestamannafélaginu Létti þar sem leyfishafinn sé hluti af því félagi.
Stefnandi kveðst auk þess byggja á því að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við eignarnámsheimildina þar sem umfang hins fyrirhugaða eignarnumda svæðis norðan Miðbrautar sé ekki nægilega stórt fyrir réttina sem byggingarleyfið ráðgeri og því beri að ógilda það.
Stefnandi kveðst einnig byggja á því að ekki hafi verið farið að lögbundnum málsmeðferðarreglum við útgáfu leyfisins, meðal annars hafi byggingarnefnd ekki fjallað um viðkomandi umsókn eins og borið hafi gera. Ekki hafi verið leitað umsagnar stefnanda áður en ákvörðun hafi verið tekin um útgáfu leyfisins eins og skylt hafi verið.
Þá kveðst telja að byggingarleyfið sé fallið úr gildi þar sem byggingarframkvæmdir hafi ekki hafizt innan 12 mánaða frá útgáfu þess.
Vegna eignarnámsheimildar dagsetts 25. nóvember 2010, sbr. ákvörðun 20. desember 2011.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um ógildingu eignarnámsheimildar stefnda Hestamannafélagsins Funa á eftirfarandi málsástæðum.
Stefnandi kveðst meðal annars byggja á því að eignarnámsheimildin sé í andstöðu við gildandi skipulag að því leyti að lagðir verði nýir slóðar frá Miðbraut að Þverá efri eins og frekast sé kostur. Þessar fyrirætlanir megi sjá í greinargerð II með skipulaginu sem samþykkt hafi verið 22. nóvember 2007. Eignarnámsheimildin geri hins vegar ráð fyrir á löngum kafla að gerður verði nýr stígur austan malarflutningavegarins, en svæðið hafi ekki verið deiliskipulagt.
Stefnandi segist byggja kröfu sína um ógildingu eignarnámsheimildarinnar á því að ósamræmi sé á milli lýsingar á legu hins eignarnumda lands að hluta milli Miðbrautar og Þverár efri og hnitsetningar sömu leiðar og á uppdrætti númer 3. Lýsing leiðarinnar í umsókn stefnda Hestamannafélagsins Funa um eignarnámið geri ráð fyrir að leiðin liggi austan malarvegar en á viðkomandi uppdrætti sjáist hins vegar að leiðin fari eftir malarveginum á nokkur hundruð metra löngum kafla norðan Þverár efri. Misræmi þetta hafi ekki verið leiðrétt áður en ráðherra hafi tekið ákvörðun um eignarnámið. Stærð hins eignarnumda taki mið af ofangreindum hitum. Stefndi Hestamannafélagið Funi hafi lýst því yfir að félagið ætli ekki að yfirtaka malarveginn nema mjög lítinn hluta hans þar sem fyrirhugaður reiðstígur þveri veginn skammt norðan við Þverá efri. Stefndi Hestamannafélagið Funi hefur því neitað að miða verðlagningu landsins við malarveginn að hluta. Stefnandi segist telja að ekki sé hægt að framkvæma eignarnám á grundvelli ónákvæmra gagna um legu stígsins og því beri að ógilda ákvörðunina um eignarnámið. Skerðing stjórnarskrárvarinna eignarréttinda verði að byggjast á nákvæmum gögnum og telji stefnandi að stefndi Hestamannafélagið Funi hafi ekki sjálfdæmi um legu reiðstígsins.
Stefnandi kveðst byggja á því að óskýrleiki sé um hver fari með forræði yfir reiðstígnum þar með talið lagningu stígsins og viðhaldi hans og því beri að ógilda eignarnámsheimildina. Samkvæmt framkvæmdaleyfi, dagsettu 15. marz 2006, séu báðir stefndu veghaldarar. Stefnandi kveðst telja eignarnámsheimildina, dagsetta 25. nóvember 2010, hins vegar óskýra um hvernig veghaldi stígsins skuli háttað en þar komi stefndi Hestamannafélagið Léttir ekki við sögu. Tekið sé fram í skilyrði nr. 2 í eignarnámsheimildinni að viðhald reiðstígsins skuli vera á ábyrgð ríkisins og sveitarfélagsins Eyjafjarðarsveitar án þess að það sé skýrt nánar. Þessi framsetning sé ekki í samræmi við 1. mgr. 10. gr. vegalaga nr. 80/2007, sem geri ráð fyrir ábyrgð annaðhvort ríkis eða sveitarfélags. Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins að þessir aðilar hafi tekið á sig viðhaldsskyldu stígsins. Alls óvíst er því hver eigi að sjá um viðhald stígsins og bera kostnað af því. Réttarstaða stefnanda að þessu leyti verði að vera skýr og ekki sízt varðandi girðingar. Stefnandi kveðst telja mjög óeðlilegt að tengja saman eignarhald einkaaðila á almennum reiðstíg og viðhaldskyldu opinberra aðila á sama vegi enda sé ekki gert ráð fyrir því í vegalögum að skyldum veghaldara sé skipt. Af þessum sökum sé krafa um ógildingu eignarnámsheimildarinnar byggð ekki sízt þar sem viðhald sé einn aðalþáttur veghalds og óljóst hver sé veghaldari reiðstígsins samkvæmt framansögðu.
Þá kveðst stefnandi byggja kröfu um ógildingu eignarnámsheimildarinnar á því að eignarréttur hennar á jörðinni Munkaþverá sé varinn af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sem heimili því aðeins skerðingu þess réttar að almenningsþörf krefji sem ekki liggi fyrir í þessu máli. Stefnandi kveðst byggja á því að reiðstígagerð falli ekki sjálfkrafa undir almenningsþörf þótt ráðherra sé heimilt að taka land eignarnámi undir reiðstíga í vegalögum. Gæta verði meðalhófsreglu 72. gr. stjórnarskrárinnar enda liggi fyrir andstaða fleiri landeigenda sem málið varði. Skoða verði hvert tilvik fyrir sig enda þótt skipulagsáætlanir hafi verið gerðar um reiðstíga. Samkvæmt skipulagi Eyjafjarðarsveitar sé áætlað að leggja reiðstíga annars staðar í sveitarfélaginu en á austurbakka Eyjafjarðarár. Stefnandi segist telja að lagning þeirra stíga muni koma að sambærilegum notum og stígur eftir austurbakkanum.
Stefnandi kveðst telja að afstaða áhugamannafélags endurspegli ekki almenningsþörf í skilningi ákvæðisins, jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að reiðstígurinn sé ætlaður almenningi til frjálsrar umferðar. Stefnandi kveðst hafa heimildir fyrir því að 40 manna fundur hjá stefnda Hestamannafélaginu Funa hafi tekið ákvörðun um að krefjast eignarnámsins.
Stefnandi segist hafa það staðfest frá eiganda Rifkelsstaða II, Gunnari Jónassyni, að hann muni ekki leyfa lagningu stígsins um sitt land nema stefnandi samþykki lagningu fyrir sitt leyti. Þessi afstaða hans hafi legið lengi fyrir án þess að stefndi Hestamannafélagið Funi hafi brugðizt við henni með nokkurum hætti til að tryggja lagningu stígsins alla þá leið sem að fyrirhugðu sé.
Stefnandi kveðst telja að þörf fyrir reiðleiðir til að tengja saman fjarlæga staði hafi minnkað mikið eftir að aukning hafi orðið í flutningum hesta milli svæða með ökutækjum. Stefnandi kveðst telja fyrirhuguð not stígsins ekki réttlæta skerðingu á landi sínu enda sé reiknað með að nota stíginn mest að sumarlagi þegar lítið sé í ám. Stefnandi kveðst vekja athygli á því að gamlar reiðleiðir hafi aldrei legið um austurbakka Eyjafjarðarár sökum þess hve svæðið sé mýrlent og blautt á köflum auk þess sem Þverárnar séu erfiðar yfirferðar sérstaklega í leysingum. Stefnandi kveðst hafa boðið stefnda Hestamannafélaginu Funa land undir reiðstíg vestan Eyjafjarðarár en því boði hafi ekki verið sinnt. Stefnandi kveðst telja að hægt sé að leggja örugga reiðstíga meðfram þjóðvegum beggja vegna ár í Eyjafjarðarsveit og tengja með því Akureyri og Melgerðismela, það sé meðfram vegi 821 og 829. Stefnandi kveðst telja fullyrðingu stefnda Hestamannafélagsins Funa, um að reiðstígur á austurbakka Eyjafjarðarár auki til muna öryggi ríðandi manna í samanburði við stíga meðfram núverandi þjóðvegum, ekki standast fyllilega enda sé ekki gert ráð fyrir í framkvæmdaleyfi að Þverá efri verði brúuð við lagningu reiðstígsins. Í leysingum sé það vatnsfall mjög varasamt umferð hesta. Í gögnum sem vegamálastjóri hafi aflað við undirbúning málsins komi fram að reiðleiðir eftir austurbakka Eyjafjarðarár og meðfram þjóðvegi vestan ár séu báðar raunhæfar og framkvæmanlegar. Auka megi umferðaröryggi að vestan með því að girða leiðina vel af. Þessar upplýsingar komi fram í umsögn vegamálastjóra sem meðal annars hafi byggt á skýrslu Verkfræðistofu Norðurlands ehf. um samanburðarkostnað við gerð reiðleiða frá Akureyri að Melgerðismelum. Stefnandi segist telja að forsendur þessarar áætlunar rangar að hluta og kveðst benda á að gert sé ráð fyrir í skýrslunni að austurleiðin fari eftir malarvegi stefnanda frá Miðbraut að Þverá efri, og að Þverá efri verði brúuð sem sé í andstöðu við framkvæmdaleyfið, eignarnámsheimildina og forsendur hennar. Einnig kveðst stefnandi benda á að ekki hafi verið tekið mið af því í áætluninni að hluta framkvæmdanna hafi þá þegar verið lokið, svo sem gerð brúar yfir Eyjafjarðará skammt fyrir norðan Melgerðismela sem sé grundvöllur leiðarinnar eftir austurbakkanum og hafi eflaust verið kostnaðarsöm framkvæmd.
Stefnandi segist telja að dregið hafi úr þörf fyrir reiðleið eftir austurbakka Eyjafjarðarár, meðal annars þar sem starfsemi stefnda Hestamannafélagsins Léttis, á Melgerðismelum muni ekki vera eins umfangsmikil og áður hafi verið, vegna betri aðstöðu á Akureyri fyrir hestamennsku.
Stefnandi kveðst því telja að almenningsþörf liggi ekki fyrir og því sé ekki heimild til að skerða land stefnanda vegna reiðstígs enda hafi við ákvörðun eignarnámsins ekki verið gætt reglna um meðalhóf eins og að framan sé rakið til að ná fram markmiðum framkvæmdarinnar.
Stefnandi kveðst, vegna sjónarmiða um málsmeðferð undirbúnings sveitarstjórnar að útgáfu framkvæmdaleyfis, vísa til 27. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum, sbr. og IX. kafla þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 400/1997. Vegna skyldu til að afla umsagnar náttúruverndarnefndar, skv. 11. gr. laga nr. 134/1999, segist stefnandi vísa til 9.1. gr. reglugerðar nr. 400/1997. Vegna sjónarmiða um fyrirbyggjandi aðgerðir vegna dýrasjúkdóma vísi stefnandi til V. kafla laga nr. 25/1993 og vegna sjónarmiða um varnarlínur sé vísað til 12. gr. laganna, sbr. auglýsingu um varnarlínu vegna sauðfjársjúkdóma nr. 793/2009. Vegna sjónarmiða um skyldu og þörf umhverfismats áður en framkvæmdaleyfið sé gefið út kveðst stefnandi vísa til 5. gr. og 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og 1. 3. viðauka laganna. Vegna almennra sjónarmiða um málsmeðferð sveitarstjórnar við undirbúning ákvörðunar kveðst stefnandi vísa til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sérstaklega rannsóknarskyldu hennar samkvæmt 10. gr. laganna. Vegna sjónarmiða um réttaráhrif stöðvunar framkvæmda, sem séu leyfisskyldar, sé vísað til grunnraka 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vegna sjónarmiða um málsmeðferð undirbúnings sveitarstjórnar að útgáfu byggingarleyfis sé vísað til IV. kafla þágildandi skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðar breytingum, sbr. og I. kafla þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og vísað sé til 7. mgr. 43. gr. laganna um skyldur til að kynna málið þeim sem hagsmuna eigi að gæta svo og um málsmeðferð byggingarnefndar, sbr. og 12. gr. reglugerðar nr. 441/1998. Vegna sjónarmiða um réttaráhrif þess að byggingarframkvæmdir hafi ekki hafizt innan 12 mánaða frá útgáfu þess sé vísað til 1. mgr. 45. gr. laga nr. 73/1997 og 14. gr. reglugerðar nr. 441/1998.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sínar á meginreglum eignarréttar um að henni sé rétt að halda eignum sínum óskertum. Kveðst hún í þessu sambandi meðal annars vísa til 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum, sem heimili aðeins skerðingu eignarréttar ef almenningsþörf krefji, en við mat á því verði að gæta meðalhófs. Stefnandi kveðst vísa til þess að eignarnámsheimild 6. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007, eigi ekki við í málinu og að ósamræmi við veghald komi fram í eignarnámsheimildinni sbr. 5. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. og IV. kafla vegalaga. Vegna varnarþings sé vísað til 2. mgr. 33. gr. og 34. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa sé studd við 130., sbr. 129. gr. laganna en vegna kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé vísað til laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu segjast mótmæla alfarið öllum málástæðum og lagarökum stefnanda.
Stefndu segjast byggja á því að engin lög eða reglur leiði til þess að ógilda beri framkvæmdaleyfi, byggingarleyfi eða ákvörðun ráðherra um heimild til eignarnáms vegna reiðstígs á bökkum Eyjafjarðarár. Leyfin og ákvarðanirnar séu í samræmi við gildandi skipulag og teknar lögum samkvæmt. Þá séu dómstólar ekki bærir til að endurskoða ákvarðanir stjórnvalda ef þær séu teknar lögum samkvæmt.
Stefndu segjast byggja á því að sýkna beri stefndu af öllum kröfum stefnanda vegna tómlætis stefnanda. Mörg ár séu liðin frá því að umrædd leyfi hafi verið veitt eða ákvarðanir teknar. Þannig hafi um 7 ár liðið frá því að framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi hafi verið veitt þar til málið hafi verið höfðað. Þá hafi 3 ár liðið frá því ráðherra hafi tekið ákvörðun um heimild til eignarnáms. Þannig hafi málið ekki verið höfðað fyrr en fyrir hafi legið úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta þar sem hæfilegar bætur vegna eignarnáms hafi verið metnar. Sé því byggt á því að allir málshöfðunarfrestir séu liðnir og í samræmi við almennar reglur um tómlæti beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Vegna kröfu um ógildingu framkvæmdaleyfis
Stefndu segjast alfarið mótmæla því að ógilda beri framkvæmdaleyfi vegna reiðvegagerðar frá landamerkjum Hóls II og Munkaþverár að norðan að landamerkjum Stóra Hamars og Bringu að sunnan dagsett 15. marz 2006, eins og stefnandi geri kröfu um. Ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfið hafi verið tekin í samræmi við lög og reglur. Þá sé framkvæmdaleyfið í samræmi við lög og reglur.
Stefndu segjast mótmæla því, sem stefnandi haldi fram, að gefa þurfi út nýtt framkvæmdaleyfi þar sem báðir stefndu séu tilgreindir sem veghaldari. Það leiði ekki til ógildingar á framkvæmdaleyfi þó að stefndu hafi komizt að samkomulagi um að stefndi Hestamannafélagið Funi óskaði eftir heimild til eignarnáms á þeim hluta reiðleiðarinnar sem fari um land stefnanda. Stefndu segjast benda meðal annars á að framkvæmdaleyfið taki ekki einungis til gerðar reiðstígs í landi stefnanda heldur líka fyrir utan það. Þá bendi stefndu á að stefndu hafi staðið sameiginlega að framkvæmdum vegna reiðleiðarinnar.
Stefndu segja að ekki geti leitt til ógildingar framkvæmdaleyfis þó að talið verði, sem stefndu mótmæli, að ákveðin atriði eða skilyrði í framkvæmdaleyfi hafi ekki verið uppfyllt. Það geti hins vegar haft áhrif á heimild framkvæmdaleyfishafa til að framkvæma í samræmi við leyfið en leiði ekki til ógildingar á því. Þannig sé kveðið á um það bæði í núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 53. gr., og í eldri skipulags og byggingarlögum nr. 73/1997, sbr. 56. gr., að í slíkum tilvikum geti skipulagsfulltrúi stöðvað slíka framkvæmdir þar til úr hafi verið bætt. Það leiði hins vegar ekki til ógildingar á framkvæmdaleyfi.
Þá hafi umrætt framkvæmdaleyfi verið gefið út af sveitarfélaginu Eyjafjarðarsveit og sé það þess að fella það úr gildi ef það telji skilyrði til þess. Sveitarfélagið hafi réttilega ekki séð neina ástæðu til að gera svo.
Þá valdi það ekki ógildingu framkvæmdaleyfis þó að eignarnámsheimild geri ráð fyrir að reiðleiðin verði meðfram svonefndum malarvegi en ekki á veginum. Vera kunni að stefndu þurfi að óska eftir breytingum á framkvæmdaleyfinu er varði þann hluta framkvæmdarinnar sem sé meðfram malarveginum. Það valdi hins vegar ekki ógildingu leyfisins. Fari aðili umfram mörk framkvæmdaleyfis sé hægt að stöðva framkvæmdir en það valdi ekki ógildingu. Þá ætti ekki að vera erfitt fyrir stefndu, ef þörf krefji, að óska eftir framkvæmdaleyfi á þeim hluta sem fari eftir veginum þar sem það sé í samræmi við skipulag og þá hafi stefndi Hestamannafélagið Funi tekið land meðfram veginum eignarnámi fyrir reiðveg.
Stefndu segjast mótmæla því, sem stefnandi haldi fram, að sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hafi brotið málsmeðferðarreglur við undirbúning eða töku ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfis.
Stefndu segjast mótmæla að leita hafi átt umsagnar samkvæmt náttúruverndarlögum. Stefndu segja að stefnandi vísi í þessu sambandi til 11. gr. laga nr. 134/1999. Óljóst sé af stefnu til hvaða laga sé vísað en lög nr. 134/1999 sé forsetaúrskurður um sendiráð og fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og sendiræðisskrifstofur en hann hafi verið felldur úr gildi með forsetaúrskurði nr. 131/2001. Stefndu segja að sé stefnandi í raun að vísa til 11. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd þá mótmæli stefndu því að við útgáfu á framkvæmdaleyfinu hafi átt að afla umsagnar náttúruverndarnefndar. Í þessu sambandi bendi stefndu á að í 11. gr. laganna sé einungis kveðið á um að hlutverk nefndarinnar sé að vera til ráðgjafar en ekkert sé kveðið á um skyldu til að afla umsagnar áður en framkvæmdaleyfi sé gefið út. Það sé einungis skylda að afla umsagnar náttúruverndarnefndar áður en framkvæmdaleyfi sé gefið út vegna svæða sem njóti sérstakrar verndar sbr. 37. gr. laganna sem hafi í för með sér röskun jarðmynda og vistkerfa sem talin séu upp í ákvæðinu. Ljóst sé að það ákvæði eigi ekki við hér. Þá sé því mótmælt að sveitarstjórn hafi borið að leita umsagnar náttúruverndarnefndar á grundvelli gr. 9.1. í reglugerð nr. 400/1997. Þar komi hvergi fram að leita skuli umsagnar náttúruverndarnefndar. Komi einungis fram að sveitarstjórn skuli gæta að ákvæðum laga um náttúruvernd áður en framkvæmdaleyfið sé veitt. Ekkert liggi fyrir um að það hafi ekki verið gert og þó ekki hafi verið sérstaklega aflað umsagnar náttúruverndarnefndar áður en framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út sé ekkert sem segi að það leiði til þess að ógilda beri leyfið. Þá liggi fyrir að framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út í samræmi við samþykktar skipulagsáætlanir sem staðfestar hafi verið af skipulagsyfirvöldum, umhverfisráðherra þar með talinn. Skipulagsáætlanir hafi verið gerðar og samþykktar í samræmi við lög og reglur en þar hafi verið leitað umsagnar lögum samkvæmt.
Stefndu segjast mótmæla því að sveitarstjórn Eyjafjarðasveitar hafi borið að leita umsagnar skv. lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim sbr. lög nr. 25/1993, eða brotið hafi verið gegn þeim lögum við veitingu framkvæmdaleyfisins. Stefndu segja að stefnandi vísi hér til V. kafla laganna og um varnarlínur til 12. gr. laganna sbr. auglýsingu um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma nr. 793/2009. Stefndu segja að í fyrsta lagi verði engan veginn séð hvar kveðið sé á um að leita skuli umsagnar skv. fyrrnefndum lögum eða auglýsingu áður en framkvæmdaleyfið sé gefið út. Í öðru lagi varði auglýsing nr. 793/2009 varnarlínu vegna sauðfjársjúkdóma en hafi ekkert að gera með hesta. Þá verði ekki séð að varnarlínur séu á þeirri reiðleið sem framkvæmdaleyfið taki til. Þannig komi fram að Eyjafjarðarlína sé Eyjafjarðará sunnan Bringu að Skjónafelli og að Miklafelli í Hofsjökli. Framkvæmdaleyfið varði hins vegar reiðvegagerð frá landamerkjum Hóls II og Munkaþverár að norðan og landamerkjum Stóra Hamars og Bringu að sunnan. Þannig sé reiðstígurinn fyrir norðan landamerki að Bringu en varnarlína vegna sauðfjársjúkdóma sé sunnan Bringu. Stefndu segjast mótmæla að forsenda framkvæmdaleyfisins um samráð við landeigendur hafi brostið en í stefnu sé vísað til þess að í framkvæmdaleyfinu sé beinlínis tekið fram að leyfishafar skuli hafa náið samráð við landeigendur. Stefndu segjast hafa haft fullt samráð eins og kostur hafi verið við landeigendur varðandi framkvæmdir. Staðreynd málsins sé hins vegar sú að stefnandi hafi alfarið lagzt gegn framkvæmdinni. Því hafi verið farin sú leið að taka hluta af leiðinni eignarnámi. Allt hafi verið reynt til þess að fá stefnanda til að samþykkja reiðstíginn og stefndu hafi í því sambandi viljað, eins og frekast hafi verið kostur, koma til móts við stefnanda varðandi til dæmis það hvort reiðleiðin eigi að vera á malarveginum eða ekki, hvar eigi að hafa girðingar, og svo framvegis. Sé því mótmælt að ekki hafi verið haft samráð við stefnanda eða aðra landeigendur. Sá hluti leiðarinnar sem fari um land Munkaþverár verði tekinn eignarnámi og sé stefnandi þá ekki lengur eigandi þess lands. Hann teljist því ekki landeigandi lengur á þeirri leið sem reiðleiðin sé um.
Stefndu segjast mótmæla því að ógilda eigi leyfið með tilliti til fornminja eða endurtaka hefði átt málið þegar eignarnámsheimildin hafi legið fyrir. Stefndu segja að stefnandi skýri þetta ekkert frekar. Jafnframt sé ljóst að það sé á forræði sveitarstjórnar að taka ákvarðanir varðandi framkvæmdaleyfið. Þá sé því mótmælt að framkvæmdir vegna reiðstígsins séu matsskyldar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þannig sé ljóst að gerð reiðleiðarinnar hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif sbr. o-lið 1. mgr. 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Stefnandi rökstyðji það ekkert frekar í stefnu frekar en margt annað heldur slái þessu fram órökstutt. Stefndu segjast benda á að málsástæður stefnanda séu mjög vanreifaðar og sé oft erfitt að átta sig á hverju sé byggt á.
Stefndu segjast mótmæla því að framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaleyfinu hafi stöðvazt lengur en ár óháð andstöðu stefnanda og því beri að fella framkvæmdaleyfið úr gildi. Stefndu segja að í framhaldi af því að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út 15. marz 2006 hafi framkvæmdir við gerð reiðleiðarinnar hafizt en á þeim tíma sem leyfið hafi verið gefið út hafi gilt skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 en þar segi í 9. mgr. 27. gr. að framkvæmdaleyfið falli úr gildi hefjist framkvæmdir ekki innan tveggja ára frá útgáfu þess. Stefndu segja að hvergi sé kveðið á um það í lögum að fella bera framkvæmdaleyfi úr gildi ef framkvæmdir hafi stöðvazt lengur en í eitt ár. Í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 123/2010 segi einungis að stöðvist framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd í eitt ár eða lengur geti sveitarstjórn fellt framkvæmdaleyfið úr gildi. Þannig sé skýrt kveðið á um það í lögum að jafnframt þó að framkvæmdin stöðvist lengur en í eitt ár þá falli framkvæmdaleyfi ekki úr gildi. Þá sé það á valdi sveitarstjórnar að taka ákvörðun um það hvort fella beri leyfið úr gildi en það valdi hins vegar ekki ógildingu þess. Þá séu deilur við stefnanda, sem hafi eindregið lagzt gegn framkvæmdinni, ástæður þess að framkvæmdir hafi dregizt.
Vegna kröfu um ógildingu byggingarleyfis.
Stefndu segjast alfarið mótmæla að ógilda beri byggingarleyfi dagsett 11. maí 2006. Ákvörðun um að veita byggingarleyfið hafi verið tekin í samræmi við lög og reglur. Þá sé byggingarleyfið í samræmi við skipulag, sbr. meðal annars gr. 3.8.3. í greinargerð II með aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025.
Stefndu segjast mótmæla, sem stefnandi haldi fram, að ógilda beri byggingarleyfið þar sem stefndi Hestamannafélagið Léttir sé tilgreindur sem byggingarleyfishafi. Það leiði ekki til ógildingar og skipti engu þó að stefndi Funi sé jafnframt tilgreindur sem leyfishafi á framkvæmdaleyfi. Þá leiði það ekki til ógildingar á byggingarleyfinu þó það svæði sem tekið sé eignarnámi sé minna en það land sem þurfi fyrir réttarbyggingu þá er byggingarleyfið kveði á um. Þá sé því mótmælt að málsmeðferð sveitarfélagsins Eyjafjarðarsveitar hafi ekki verið í samræmi við lög. Því sé mótmælt, sem stefnandi haldi fram, að byggingarnefnd hafi ekki fjallað um umsóknina. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi skipulagsnefnd fjallað um umsóknina. Einnig sé því mótmælt, að stefnandi hafi ekki fengið beiðni, um að koma fyrir áningarhólfi í landi stefnanda til umsagnar en í umsögn um framkvæmdaleyfið dagsett 1. ágúst og 2. desember 2005 sé sérstaklega kveðið á um þetta áningarhólf í landi stefnanda. Þá sé því mótmælt að ógilda beri byggingarleyfið með vísan til þess að byggingarframkvæmdir hafi ekki hafizt innan 12 mánaða. Stefndu segjast mótmæla því að framkvæmdir hafi ekki hafizt innan þess tíma og þá leiði það ekki til ógildingar á leyfinu þó framkvæmdir hafi ekki hafizt innan 12 mánaða.
Vegna eignarnámsheimildar dagsett 25. nóvember 2010, sbr. ákvörðun 20. desember 2011.
Stefndu segjast alfarið mótmæla því að ógilda beri ákvarðanir ráðherra dagsettar 25. nóvember 2010 og 20. desember 2011. Ákvörðun ráðherra um að heimila eignarnám hafi verið teknar í samræmi við lög og reglur. Þá séu ákvarðanirnar í samræmi við lög og reglur.
Stefndu segjast sérstaklega benda á að fyrir liggi skýr heimild til eignarnáms í 6. mgr. 37. gr. vega laga nr. 80/2007. Þannig hafi löggjafinn tekið ákvörðun um að almenningsþörf krefji að land sé tekið eignarnámi undir reiðstíga. Löggjafinn hafi falið ráðherra að fengnum tillögum vegamálastjóra að taka ákvörðun um hvort heimila beri eignarnám á landi til lagningar almennra stíga en undir þá falli reiðvegir sbr. 10. gr. vegalaga, og einkavega. Stefndu segjast byggja á því að dómstóla skorti valdbærni til að ógilda eða endurskoða slíka ákvörðun.
Stefndu segjast byggja á því að engir annmarkar séu á ákvörðun ráðherra um að heimila eignarnám sem leitt geti til ógildingar. Þannig sé því mótmælt sem stefnandi haldi fram að skilyrði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um að almenningsþörf krefji sé ekki uppfyllt. Stefndu segjast ítreka að heimild til eignarnáms lands til lagningar reiðstíga sé skýr sbr. 6. mgr. 36. gr. vegalaganna nr. 82/2007. Reiðvegir séu hluti af vegakerfi landsins sbr. 6. gr. vegalaga. Um nauðsyn þess að leggja reiðveg um land stefnanda hafi verið fjallað ýtarlega bæði af sveitarfélagi Eyjarfjarðarsveitar, Vegagerðar og ráðherra. Niðurstaða ráðherra hafi verið að skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar um að almenningsþörf væri uppfyllt í málinu í ljósi almenns umferðaröryggis sbr. ákvæði 1. gr. vegalaga.
Stefndu segja að upphaflega hafi sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar talið nauðsynlegt að breyta legu reiðleiðar frá Akureyri að Melgerðismelum þar sem þáverandi reiðleið hafi að hluta farið um fjölfarinn þjóðveg sem væri óásættanlegt með tilliti til öryggissjónarmiða. Aðal- og svæðisskipulagi hafi því verið breytt en með þeirri breytingu hafi áherzla verið lögð á að umferð ríðandi manna og hesta flyttist eftir því sem frekast væri kostur af þjóðvegum og öðrum fjölförnum akvegum á sérstaka reiðvegi. Þá skyldu umferðaröryggissjónarmið ráða mestu um val á leiðum fyrir hestaumferð. Sú breyting hafi verið samþykkt bæði af Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra.
Stefndu segja að í framhaldi af beiðni stefnda Hestamannafélagsins Funa um eignarnám hafi farið fram ýtarlegt mat af hálfu Vegagerðarinnar. Niðurstaða hennar hafi verið að heimila ætti eignarnám á landi stefnanda. Vegagerðin hafi farið yfir þá kosti sem að hafi verið til staðar, kostnað við gerð reiðstíga og nauðsyn. Tvær reiðleiðir frá Hólminum við Akureyrarflugvöll inn að Melgerðismelum hafi verið taldar raunhæfar og framkvæmanlegar, annars vegar vestan árinnar meðfram þjóðveginum og hins vegar austan árinnar meðal annars um land stefnanda. Vegagerðin hafi hins vegar talið að austari leiðin væri bezti kosturinn út frá öryggi hesta, hestamanna og bílaumferðar og kostnaður og eignaskerðing væri minni en vestan megin.
Stefndu segja að vegamálastjóri hafi farið yfir þær athugasemdir sem borizt hafi við tillögu hans. Niðurstaðan hafi verið sú að athugasemdir stefnanda hafi ekki breytt niðurstöðu Vegagerðarinnar.
Stefndu segja að í ákvörðun ráðherra sé að finna ýtarlegan rökstuðning fyrir ákvörðun ráðherra um að veita eignarnámsheimildina. Í ákvörðuninni sé bent á að heimild til eignarnáms byggi á skýru lagaákvæði og heimild ráðherra til eignarnáms samkvæmt 6. mgr. 37. gr. vegalaga gangi ekki lengra en nauðsynlegt sé til að ná markmiði laganna sbr. 1. gr. sem sé að setja reglur um vegi og veghald og stuðla að greiðum og öruggum samgöngum. Stefndu segja að ráðherra geri réttilega grein fyrir því að ekki sé skilyrði samkvæmt lögunum að opinberir aðilar fari með veghald reiðstíga þó að ríkið eða sveitarfélög standi straum af kostnaði við viðhald almennra stíga. 10. gr. vegalaga standi því ekki í vegi að heimild til eignarnáms verði veitt öðrum en opinberum aðilum. Því til stuðnings sé bent á að í 26. gr. vegalaga sé gert ráð fyrir heimild til fjárveitinga til almennra reiðstíga í samgönguáætlun samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð skuli að höfðu samráði við samtök hestamanna og sveitarfélög. Þá vísi ráðherra til þess að fyrir liggi skipulag Eyjafjarðarsveitar sem staðfest hafi verið af umhverfisráðherra þar sem kveðið hafi verið á um reiðstíginn. Einnig að austari leiðin sé mun öruggari en vestari leiðin, vestari leiðin sé mun nær bílaumferð, þar þurfi að setja ristarhlið sem skapi hættu fyrir laus hross, engar þveranir með ristarhliðum séu hins vegar á austari leiðinni og vísað sé til markmiða vegalaga sem sé að stuðla að greiðum og öruggum samgöngum. Við val á leiðum fyrir reiðstíga beri þannig að hafa að leiðarljósi umferðaröryggissjónarmið varðandi vegfarendur almennt. Þannig sé ekki eingöngu um að ræða öryggi hesta og fámenns hóps hestamanna heldur einnig öryggi vegfaranda almennt. Þá sé leiðin mun kostnaðarminni. Þá hafi komið fram að það væri mat ráðherra að almannahagsmunir stæðu til þess að bæta öryggi ríðandi umferðar milli Akureyrar og Melgerðismela og að það yrði ekki gert nema í samræmi við aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar. Í ljósi almenns umferðaröryggis hafi almannahagsmunir því staðið til þess að austari leiðin yrði fyrir valinu en ekki sú vestari. Hafi því skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf verið uppfyllt þar sem sambærileg umferðaröryggi yrði ekki náð á vestari leiðinni og á þeirri austari.
Stefndu segja að beiðni stefndu um eignarnám hafi þannig fengið ýtarlega umfjöllun lögum samkvæmt og þá sé ákvörðun um að heimila eignarnám tekin af valdbærum aðilum. Bent sé á að sérfræðingar, meðal annars Vegargerðarinnar, hafi fjallað um beiðnina og komizt að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að taka umrætt land eignarnámi fyrir reiðstíginn.
Stefndu segjast mótmæla því sem stefnandi haldi fram að eignarnámsheimildin sé í andstöðu við gildandi skipulag. Stefnandi kveðst í þessu sambandi vísa til greinargerðar II með skipulaginu sem samþykkt hafi verið 22. nóvember 2007 og ekki sé gert ráð fyrir að lagðir verðir slóðar frá Miðbraut að Þverá efri eins og kostur sé. Stefndu segjast benda á að skipulagið banni ekki að lagður sé reiðvegur austan við malarflutningaveginn. Skipulagið kveði einungis á um að eins og frekast sé kostur verði ekki lagðir nýir slóðar. Stefnandi hafi alfarið lagzt gegn því að notast við svonefndan malarflutningaveg og sé því ljóst að reiðvegurinn þurfi að vera meðfram honum. Þá segjast stefndu byggja á því að þó að eignarnámsheimildin væri ekki í samræmi við skipulagsáætlanir sem stefndu segjast mótmæla þá leiði það ekki til ógildingar á eignarnámsheimildinni.
Stefndu segjast mótmæla, sem stefnandi haldi fram, að ósamræmi sé á milli lýsingar á legu hins eignarnumda lands að hluta á milli Miðbrautar og Þverár efri og hnitasetningar sömu leiðar á uppdrætti númer 3. Ennfremur mótmæli stefndu að slíkt ósamræmi ætti að leiða til ógildingar á eignarnámsheimildinni. Megin atriðið sé að eignarnámsheimildin sé skýr. Á þessu atriði hafi sérstaklega verið tekið í ákvörðun ráðherra en þar komi meðal annars fram að beiðni stefnda Hestamannafélagsins Funa um heimild til eignarnáms var skýr. Þar hafi aðallega verið krafizt eignarnáms á 10 metra breiðu svæði samhliða veginum að austanverðu til að leggja reiðstíg. Til vara hafi verið krafizt afnotaréttar af þeim vegi sem þegar hefði verið byggður upp. Í ákvörðun ráðherra komi fram að beiðni stefnda Hestamannafélagsins Funa sé ekki hægt að skilja á annan hátt en þann að ætlunin hafi verið að leggja reiðveg samhliða veginum að austanverðu. Þá hafi vegamálastjóri látið framkvæma kostnaðaráætlun en þar hafi jafnframt verið miðað við að reiðvegurinn væri fyrir austan malarveginn. Beiðnin hafi því verið skýr sem og ákvörðun ráðherra. Þá sé bent á að við meðferð málsins fyrir matsnefnd eignarnámsbóta hafi stefnandi jafnframt byggt á því að vísa ætti málinu frá nefndinni þar sem land sem tekið var eignarnámi væri ekki það sama og það land sem markað hafi verið með hnitum í afstöðumynd sem lögð hafi verið til grundvallar í ákvörðun ráðherra um eignarnámið. Niðurstaða matsnefndar hafi verið að fullnægjandi eignarnámsheimild væri fyrir hendi í málinu. Þá hafi matsnefndin álitið að ekki væri sá óskýrleiki í gögnum um legu hins eignarnumda að það hindraði að matsnefndin mæti verðmæti það lands sem eignarnemi krefðist mats á og nánar væri afmarkað á matskjali eða ástæða væri til að ætla að ákvörðun ráðherra um að heimila eignarnámið hefði verið byggð á óskýrum eða röngum gögnum.
Stefndu segjast mótmæla því sem stefnandi haldi fram að óskýrleiki sé um hver fari með forræði yfir reiðstígnum, þar með talið lagningu hans og viðhaldi eða að það eigi að leiða til ógildingar á eignarnámsheimildinni.
Stefndu segja að samkvæmt ákvörðun ráðherra sé eignarnámsheimildin bundin m.a. því skilyrði að viðhald reiðstígsins skuli vera á ábyrgð ríkisins og sveitarfélagsins Eyjafjarðarsveitar, sbr. 1. mgr. 10. gr. vegalaga. Í 10. gr. vegalaga sé að finna skilgreiningu á almennum vegum, að þar sé tekið fram að þeim skuli haldið við af fé ríkis eða sveitarfélaga. Í samgönguáætlun sé heimilt, sbr. 26. gr. vegalaga, að veita fé til almennra reiðstíga samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð skuli að höfðu samráði við samtök hestamanna og sveitarfélög. Við gerð samgönguáætlunar fari samkvæmt lögum nr. 33/2008. Samkvæmt lögunum skuli ráðherra leggja, á fjögurra ára fresti, fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun, sem taki til fjáröflunar og útgjalda til allra greina samgangna, reiðstíga þar með talinna. Þannig hafi í samgönguáætlun verið veitt fé til reiðstíga. Eins og farið sé yfir í ákvörðun ráðherra þá sé það ekki skilyrði samkvæmt vegalögum að veghald almennra stíga sem falli undir 10. gr. vegalaga sé í höndum ríkis eða sveitarfélaga, en samkvæmt 5. tl. 3. gr. vegalaga felist í veghaldi forræði yfir vegi og vegsvæði, þar með talin vegagerð og þjónusta og viðhald vegar. Einu skilyrðin samkvæmt 10. gr. séu að almennir stígar skuli ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar og þeim haldið við af fé ríkis eða sveitarfélaga. Þó að fjármunir til viðhalds skuli koma frá ríki eða sveitarfélögum þá sé ekkert sem komi í veg fyrir að stefndi Hestamannafélagið Funi sé veghaldari. Fjármunir til viðhalds komi hins vegar af samgönguáætlun og þar með séu bæði skilyrði eignarnámsins og 10. gr. vegalaga uppfyllt í málinu. Þá sé skilyrði eignarnámsins um að ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á viðhaldi uppfyllt lögum samkvæmt, sbr. 10. gr. laganna.
Stefndu segjast mótmæla því sem stefnandi haldi fram að fyrir liggi andstaða fleiri landeigenda eða hún eigi að leiða til þess að ógilda beri eignarnámið. Hér sé verið að auka öryggi og skipti afstaða annarra landeigenda því ekki máli. Þau sjónarmið eigi jafnvel við þó að fleiri kunni að vera mótfallin gerð reiðstígsins.
Stefndu segja ekki rétt að almenningsþörf snúi eingöngu að þörfum stefndu, reiðstígurinn sé opinn allri hestaumferð og sé ekki einskorðaður við félagsmenn í stefndu. Þá snúi almenningsþörf að allri umferð, ekki bara hestaumferð, heldur sé um að ræða öryggi vegfarenda almennt. Hér skipti mestu máli, eins og bent sé á í ákvörðun ráðherra, tillögu Vegagerðarinnar og í aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar, að auka öryggi með því að færa hestaumferð fjær umferðargötum. Þá verði ekki séð hvaða áhrif það eigi að hafa á heimild til eignarnáms hversu margir hafi setið fund hjá stefnda Hestamannafélaginu Funa þar sem ákvörðun hafi verið tekin að óska eftir eignarnámi.
Stefndu segjast mótmæla að ekki hafi meðalhófsreglu verið gætt. Ekki sé gengið lengra en nauðsyn beri til, aðrir kostir hafi verið kannaðir og niðurstaðan sé sú að þessi kostur sé beztur og þá feli hann í sér mun minni eignarskerðingu en reiðleið vestan megin. Þá sé því mótmælt að þörf fyrir reiðleið hafi minnkað eins og stefnandi haldi fram, í raun hafi þörfin fyrir reiðleið aukizt, sérstaklega með aukinni og hraðari umferð á þjóðvegum landsins. Þá hafi hestamennska aukizt mjög mikið sem og ferðatengd hestamennska.
Hvað varði öryggi breyti engu þó ekki yrði gert ráð fyrir að Þverá efri verði brúuð, alveg sé ljóst að aðilar muni ekki fara um þegar aðstæður leyfi ekki. Umferðin sé að sjálfsögðu mest þegar aðstæður séu góðar, en þá sé einmitt aðstaða almennt til ferðalaga góðar, sem leiði til þess að bílaumferð sé mikil. Þá sé mikilvægt að vera fjarri vegum.
Stefndu segjast mótmæla því sem stefnandi haldi fram að forsendur í skýrslum, samanburður á kostnaði við gerð reiðleiða séu rangar. Ekki sé rétt að í skýrslunni sé gert ráð fyrir að austurleiðin fari eftir malarvegi stefnanda frá Miðbraut að Þverá efri. Hér sé um misskilning að ræða hjá stefnanda eins og farið sé yfir í ákvörðun ráðherra.
Í skýrslunni sé gert ráð fyrir því að keypt yrði land undir reiðveg og reiðleið yrði lögð meðfram þeim vegi sem fyrir sé til malarflutninga. Þá verði ekki séð hvaða máli það skipti þó skýrsluhöfundur hafi talið að brúa ætti Þverá ytri. Það þýði einungis að kostnaðurinn við austari leiðina verði enn minni sem leiði svo til þess að munur á kostnaði við austari og vestari leið verði meiri. Þá verði ekki séð hvaða máli skipti að ekki sé tekin með gerð brúar vegna austurleiðar sem þegar sé búið að gera. Skoðunin hafi að sjálfsögðu byggzt á þeim framkvæmdum sem þurfi að fara í, ekki á eldri framkvæmdum sem nýtist. Til dæmis fylgi reiðleiðin að vestan að hluta gömlu Eyjafjarðarbrautinni. Upphaflegur kostnaður við gerð hennar sé ekki tekinn með, slíkar framkvæmdir verði að sjálfsögðu ekki teknar til baka en hér sé eingöngu verið að bera saman framkvæmdir sem þurfi til að klára lagningu reiðleiðarinnar. Loks segjast stefndu benda á að matsnefnd eignarnámsbóta hafi metið verðmæti hins eignarnumda. Eins og fram komi í úrskurði matsnefndar þá telji matsnefndin fullnægjandi eignarnámsheimild liggja fyrir í málinu.
Stefndu segjast byggja kröfu sína um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.
Niðurstaða
Stefnandi hefur frá öndverðu mótmælt þeim skrefum sem stigin hafa verið til að hún verði svipt eign sinni undir reiðveg. Eftir að stefndi Hestamannafélagið Funi óskaði eftir því við matsnefnd eignarnámsbóta að hæfilegar bætur fyrir eignarnám yrðu metnar höfðaði stefnandi mál þetta til ógildingar á eignarnáminu og hafði málið verið höfðað þegar úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp. Þykir stefnandi ekki hafa með tómlæti glatað hugsanlegum rétti sínum í málinu.
Stefnandi krefst þess að framkvæmdaleyfi það er Eyjafjarðarsveit veitti báðum stefndu hinn 15. marz 2006 verði fellt úr gildi.
Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að ósamræmis gæti milli framkvæmdaleyfisins og eignarnámsheimildarinnar. Nefnir stefnandi að stefndi Hestamannafélagið Léttir hafi hætt við að taka þátt í framkvæmdunum enda eigi það enga aðild að eignarnáminu. Að mati dómsins veldur þetta ekki ógildi framkvæmdaleyfisins. Leyfið er veitt stefndu sameiginlega og varðar ekki ógildi leyfisins að þau skipti með sér verkum um framkvæmdina, þar á meðal að aðeins annað þeirra hafi aflað eignarnámsheimildar vegna hennar. Veldur ekki heldur ógildi framkvæmdaleyfisins þótt í því sé gert ráð fyrir að bæði stefndu teljist veghaldarar.
Í framkvæmdaleyfinu er gert ráð fyrir að reiðleiðin liggi meðal annars á malarvegi í eigu stefnanda en í eignarnámsheimild er miðað við að reiðleiðin verði utan malarvegarins. Það veldur ekki ógildi framkvæmdaleyfisins þótt þar sé gert ráð fyrir framkvæmd á malarvegi, sem ekki verður af.
Stefnandi byggir á því að sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hafi brotið málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, einkum rannsóknarreglu, við undirbúning ákvörðunar um málið. Hafi þannig ekki verið leitað umsagna samkvæmt náttúruverndarlögum og lögum um dýrasjúkdóma, en reiðleiðin fari yfir varnarlínu vegna sauðfjársjúkdóma. Ætla verður að stefnandi vísi, vegna sjónarmiða um umsagnir samkvæmt náttúruverndarlögum, til 11. gr. laga nr. 44/1999. Sú lagagrein kveður á um að náttúruverndarnefndir séu sveitarstjórn til ráðgjafar, en leggur ekki þá skyldu á herðar sveitarstjórnar að leita þeirrar ráðgjafar áður en framkvæmdaleyfi er veitt. Stefnandi vísar til V. kafla laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, vegna sjónarmiða um umsagnir samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma. Ekkert í þeim kafla skyldar sveitarstjórn til að leita umsagnar samkvæmt lögunum áður en framkvæmdaleyfi er veitt. Þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að ákvæði laga nr. 25/1993 haggi gildi framkvæmdaleyfisins. Þá veldur ekki ógildi framkvæmdaleyfisins þótt ekki hafi verið sérstaklega hugað að fornminjum, en sjónarmið stefnanda í þá veru eru ekki studd lagarökum.
Stefnandi segist telja áætlanir um framkvæmdir við gerð reiðstígsins það umfangsmiklar að þær séu matsskyldar. Vísar stefnandi til 5. og 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Að mati dómsins hefur ekki verið sýnt fram á í málinu að framkvæmdirnar hefðu í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, en telja verður stefnanda bera sönnunarbyrði fyrir því. Þá eru framkvæmdirnar ekki meðal þeirra sem taldar eru upp í 1. viðauka við lögin, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna.
Heimilt er en ekki skylt að fella framkvæmdaleyfi úr gildi ef framkvæmdir stöðvast. Sveitarstjórn sem veitti leyfið hefur ekki kosið að gera það, svo upplýst sé í málinu. Verður leyfið ekki ógilt vegna þessa.
Loks byggir stefnandi kröfu sína á því að ekki hafi verið fylgt því skilyrði framkvæmdaleyfisins að haft skuli náið samráð við landeigendur um framkvæmdir í landi þeirra. Stefnandi hefur eindregið lagzt gegn framkvæmdunum á landi sínu og þykir samráðsleysi við landeigandann ekki hafa orðið slíkt, af ástæðum sem stefndu verði kennt um, að varði ógildi framkvæmdaleyfisins.
Með vísan til framanritaðs þykir stefnandi ekki hafa rennt nægum stoðum undir kröfu sína um ógildingu framkvæmdaleyfis og verða stefndu sýknuð af henni.
Stefnandi krefst þess að ógilt verði byggingarleyfi það, sem Eyjafjarðarsveit veitti „reiðveganefnd Léttis“, hinn 11. maí 2006 til réttarbyggingar í landi Munkaþverár norðan Miðbrautar.
Stefnandi segir að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við framkvæmdaleyfið, þar sem reiðveganefnd Léttis sé tilgreindur leyfishafi. Óumdeilt er í málinu að reiðveganefnd Léttis sé hluti stefnda Hestamannafélagsins Léttis, sem er annar framkvæmdaleyfishafa. Stefndi Hestamannafélagið Léttir tekur til varna gegn kröfunni og ekkert bendir til þess að stefndi víki sér undan réttindum eða skyldum sem kunna að hvíla á byggingarleyfishafanum. Verður að líta svo á að í raun sé stefndi Hestamannafélagið Léttir byggingarleyfishafinn, þótt svo hafi tekizt til að leyfið hafi verið veitt nefnd innan félagsins sem sjálf hefur ekki aðildarhæfi.
Þá byggir stefnandi á því að byggingarleyfið hafi fallið úr gildi þar sem framkvæmdir hafi ekki verið hafnar innan árs frá því leyfið var gefið út. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem giltu fram að gildistöku skipulagslaga nr. 123/2010, skyldi byggingarleyfi falla úr gildi væru framkvæmdir ekki hafnar innan tólf mánaða frá útgáfu leyfisins. Samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 441/1998 skyldu framkvæmdir teljast hafnar þegar undirstöður hefðu verið steyptar eða byggingarfulltrúi hefði annars, eftir því sem við ætti, lokið úttekt á einum eða fleirum úttektarskyldum verkþáttum, Stefndu mótmæla í greinargerð sinni að framkvæmdir hafi ekki verið hafnar innan tólf mánaða, en þau mótmæli eru ekki studd haldbærum gögnum. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á í þessu máli að framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfinu hafi verið hafnar innan tólf mánaða frá útgáfu þess þykir óhjákvæmilegt að verða við kröfu stefnanda um ógildingu leyfisins, með vísan til 1. mgr. 45. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Stefnandi krefst þess að ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra um heimild til eignarnáms, sbr. breytingu innanríkisráðherra á þeirri ákvörðun, verði felld úr gildi.
Stefnandi vísar til þess að eignarréttur sinn á því landi, sem ráðherra heimilaði stefnda Hestamannafélaginu Funa að taka eignarnámi, sé varinn af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
Í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar segir að eignarrétturinn sé friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefjist þess, til þess þarf lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Við mat á því verður að gæta meðalhófs.
Stefndi Hestamannafélagið Funi vísar til þess að skýr heimild til eignarnáms sé í 6. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007. Löggjafinn hafi tekið ákvörðun um að almenningsþörf krefjist þess að land sé tekið eignarnámi undir reiðstíga. Hafi löggjafinn falið ráðherra, að fengnum tillögum vegamálastjóra, að taka ákvörðun um hvort heimila beri eignarnám á landi til lagningar almennra stíga, en undir þá falli reiðvegir sbr. 10. gr. vegalaga. Byggir stefndi á því að dómstólar séu ekki bærir til að ógilda eða endurskoða slíka ákvörðun.
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007 getur ráðherra, að fengnum tillögum forstjóra Vegagerðarinnar, heimilað eignarnám til lagningar almennra stíga og einkavega, en samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna teljast reiðvegir til almennra stíga. Samkvæmt þessu liggur fyrir það almenna mat löggjafans, að til þess geti komið að slík almenningsþörf verði á lagningu reiðstígs að svipta megi mann eign sinni svo stígurinn fáist lagður. Hér er um að ræða almennt mat löggjafans, en löggjafinn hefur ekkert sérstakt mat sett fram á því eignarnámi sem mál þetta varðar. Af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 216/1997, sem kveðinn var upp 12. marz 1998, verður ráðið að dómstólar geta átt úrskurðarvald um það hvort nauðsyn hafi borið til eignarnáms, og af dómi réttarins í máli nr. 425/2008, sem kveðinn var upp 19. marz 2009, verður ráðið að dómstólar geta skorið úr um hvort skilyrði stjórnarskrárinnar um almenningsþörf hafi verið uppfyllt svo að eignarnámi verði réttilega beitt.
Að því frágengnu að dómstólar séu ekki bærir til að ógilda eða endurskoða ákvörðun ráðherra um að heimila eignarnám byggir stefndi Hestamannafélagið Funi á því í málinu að bæði sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar og ráðherra hafi fjallað ýtarlega um nauðsyn þess að leggja reiðveg um land stefnanda.
Í ákvörðun sinni um að heimila eignarnám stefnda Hestamannafélagsins Funa vísar ráðherra til aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar. Eins og áður er rakið segir í greinargerð með núgildandi aðalskipulagi að veruleg uppbygging hafi átt sér stað á Melgerðismelum fyrir allmörgum árum, í þeim tilgangi að þar yrði miðstöð hestaíþrótta. Talsmenn hestamanna telji að ágreiningur um reiðleið og skortur á henni standi framtíð Melgerðismela mjög fyrir þrifum og að öll frekari uppbygging þar sé tilgangslaus að óbreyttu. Sú aðstaða sem þegar sé fyrir hendi nýtist ekki sem skyldi vegna þessa. Sveitarstjórn telji nauðsynlegt að þarna verði ráðin bót á til að leggja grunn að öflugri starfsemi hestamanna á svæðinu sem sé einstakt til útiveru og bjóði upp á fjölbreytta kosti fyrir hestamennsku. Núverandi reiðleið fari að hluta til um og með fjölförnum þjóðvegi sem sé óæskilegt vegna öryggissjónarmiða. Vegna þessa sé lagt til að reiðleiðin frá Akureyri að Melgerðismelum verði færð á austurbakka Eyjafjarðarár.
Með þeim rökum, sem hér voru rakin, ákvað sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar að setja á aðalskipulag reiðleið, sem meðal annars færi um land stefnanda.
Þegar metið er hvort almenningsþörf krefjist þess að stefnandi verði svipt eignarrétti sínum að því landi sem ætlað er undir umræddan reiðveg, verður annars vegar að horfa til þess hvort sú leið, sem ætlað er að liggja meðal annars um land stefnanda, verði með málefnalegum hætti talin betri en aðrar sem til greina koma til að ná því markmiði að reiðvegur liggi frá Akureyri að Melgerðismelum, en einnig að horfa til markmiðsins sjálfs, hvort almenningsþörf sé á slíkum reiðvegi svo nægi til að land verði tekið eignarnámi.
Að mati dómsins hefur með úttekt Verkfræðistofu Norðurlands ehf. verið rökstutt að fyrirhuguð eystri reiðleið sé, í ljósi umferðaröryggissjónarmiða, betri en vestari leiðin sem einnig var metin. Hafa ekki verið leiddar líkur að því að til greina komi nokkur þriðja leið sem tekið geti þessum tveimur fram. Úttekt verkfræðistofunnar hefur ekki verið hnekkt og ekkert verið fært fram sem að mati dómsins gefur tilefni til að draga niðurstöður hennar í efa svo nokkuru nemi. Þykir mega miða við að í ljósi umferðaröryggissjónarmiða sé eystri leiðin betri en sú vestari. Aukið umferðaröryggi er augljóslega í almannaþágu.
Stefndu byggja á því að á Melgerðismelum sé mótssvæði þeirra og þar séu á hverju ári haldnar stórar samkomur hestamanna. Telja verður að reiðleið að slíku mótssvæði sé almennt til styrktar þeirri starfsemi sem þar fer fram. Það eitt og sér leiðir hins vegar ekki til þess að slík almenningsþörf sé á reiðleiðinni að stjórnarskrárvarinn eignarréttur víki.
Stefnandi byggir á því að þörfin fyrir reiðleiðir til að tengja saman fjarlæga staði hafi minnkað mikið eftir að aukning hafi orðið í flutningum hesta milli svæða með ökutækjum. Stefndi vísar til þess að Eyjafjarðarsveit og ráðherra hafi fjallað ýtarlega um nauðsyn þess að leggja reiðveg um land stefnanda. Í greinargerð sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar er byggt á því að talsmenn hestamanna segi að ágreiningur um reiðleið og skortur á henni standi uppbyggingu á Melgerðismelum mjög fyrir þrifum og sé öll uppbygging þar tilgangslaus að óbreyttu. Aðstaðan þar nýtist ekki sem skyldi vegna þessa. Segist sveitarstjórnin vilja ráða bót á þessu. Byggir sveitarstjórnin afstöðu sína þannig á sjónarmiðum sem hún hefur eftir talsmönnum hestamanna, en hefur ekki svo séð verði kannað sjálf á annan hátt þá nauðsyn sem bættar reiðvegasamgöngur séu starfsemi á Melgerðismelum. Í ákvörðun sinni vísar ráðherra til aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar en byggir ákvörðun sína að öðru leyti á samanburði á eystri leiðinni og þeirri vestri.
Samkvæmt þessu verður ekki talið að sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hafi sjálf rannsakað hver nauðsyn bæri til bættrar reiðleiðar fram að Melgerðismelum, svo aðstaðan þar nýttist sem skyldi. Sveitarstjórnin byggir, samkvæmt greinargerð með aðalskipulagi, á skoðun talsmanna hestamanna á málefninu og virðist gera hana að sinni, án þess að getið sé um sjálfstæða athugun hennar á því. Ráðherra vísar í ákvörðun sinni til þess að reiðleiðin sé á skipulagi en leggur ekki sjálfstætt mat á almannahagsmuni af því að reiðleið liggi fram að Melgerðismelum. Stefndu hafa ekki í málinu lagt fram gögn sem sýni fram á almenningsþörfina af slíkri reiðleið. Hefur ekki verið sýnt fram á að ekki megi ná því markmiði, að efla starfsemi á Melgerðismelum, með vægari úrræðum en svipta stefnanda eign sinni. Eignarréttur stefnanda að landi sínu er friðhelgur samkvæmt stjórnarskránni og verður hún ekki svipt honum nema almenningsþörf krefjist þess. Við ákvarðanir þar um verður að gæta meðalhófs. Þegar á framanritað er horft þykir ekki hafa verið sýnt fram á í málinu að almenningsþörf krefjist þess að stefnanda verði gert að láta land sitt af hendi svo þar megi leggja reiðleið. Verður því að fallast á kröfu hennar um ógildingu eignarnámsins.
Með vísan til framanritaðs verða stefndu sýknuð af fyrstu dómkröfu stefnanda en önnur og þriðja teknar til greina. Eftir þeim málsúrslitum verður stefnda Hestamannafélaginu Funa gert að greiða stefnanda 1.255.000 krónur í málskostnað en málskostnaður milli stefnanda og stefnda Hestamannafélagsins Léttis verður felldur niður. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefnanda fór Ingvar Þóroddsson hdl. með málið en Jón Eðvald Malmquist hdl. af hálfu beggja stefndu. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu Hestamannafélagið Funi og Hestamannafélagið Léttir eru sýkn af kröfu stefnanda um ógildingu framkvæmdaleyfis vegna reiðvegagerðar á austurbakka Eyjafjarðarár frá landamerkjum Hóls 2 og Munkaþverár að norðan að landamerkjum Stóra-Hamars og Bringu að sunnan.
Byggingarleyfi til stefnda Hestamannafélagsins Léttis vegna réttarbyggingar í landi Munkaþverár norðan Miðbrautar er ógilt.
Ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 25. nóvember 2010 um heimild til eignarnáms vegna reiðstígs á bökkum Eyjafjarðarár, sbr. ákvörðun innanríkisráðherra 20. desember 2011 um breyting á henni, er ógild.
Stefndi Hestamannafélagið Funi greiði stefnanda 1.255.000 krónur í málskostnað.
Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Hestamannafélagsins Léttis fellur niður.