Hæstiréttur íslands
Mál nr. 799/2015
Lykilorð
- Hilming
- Skilorð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. nóvember 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Jóhann Arnar Jóhannsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 398.000 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur Jóhanni Arnari Jóhannssyni, kt. [...], Hæðarseli 15, Reykjavík, fyrir hylmingu, með því að hafa fimmtudaginn 23. janúar 2014 haft í vörslum sínum á lögheimili sínu að Hæðarseli 15 í Reykjavík, fjallareiðhjól af gerðinni Kona Stinky, þrátt fyrir að ákærða hafi verið ljóst að um þýfi væri að ræða og þannig haldið fjallareiðhjólinu ólöglega fyrir eigandanum, en fjallareiðhjólinu var stolið af stigagangi á 7. hæð í stigagangi að [...] í Kópavogi þann 8. október 2013.
Er brot þetta talið varða við 1. mgr. 254. gr., en til vara 263. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og greiðslu málsvarnarlauna sér til handa. Til vara er gerð krafa um vægustu refsingu er lög leyfa.
Sunnudaginn 10. október 2013 lagði A fram tilkynningu til lögreglu um stolið reiðhjól. Fram kemur í tilkynningunni að um sé að ræða reiðhjól sonar A, af gerðinni Kona Stinky, að áætluðu verðmæti á bilinu 300 til 350.000 krónur. Hjólinu hafi verið stolið af stigagangi fjöleignarhússins að [...] í Kópavogi. Með tilkynningunni fylgdi ljósmynd af hjólinu.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 23. janúar 2014 hafði A samband þann dag og gerði grein fyrir því að hann hafi hugsanlega fundið hið stolna reiðhjól til sölu á bland.is. Hjólið væri það eina sinnar tegundar á landinu og kostaði nýtt um eina milljón króna. Umrætt hjól hafi verið notað og virði þess um 300 til 350.000 krónur. Í skýrslunni kemur fram að A hafi mælt sér mót við sölumann hjólsins. Hann hafi átt að hitta sölumanninn að Hæðarseli 15 í Reykjavík og uppsett söluverð verið 200.000 krónur.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að þrír lögreglumenn hafi farið áleiðis á staðinn til að vera til taks vegna málsins. A hafi síðan kallað lögreglu til og staðfest við hana að um væri að ræða hjólið sem hann hefði tilkynnt stolið. Í skýrslunni kemur fram að ákærði hafi verið á vettvangi og sagt að hann væri að selja hjólið. Af mynd hafi mátt ráða að um fyrrnefnt hjól hafi verið að ræða, en hjólið hafi verið mjög sérstakt í útliti. Meðal annars hafi gjarðir verið sprautaðar á kafla með áberandi gulum lit. Ákærði hafi spurt hvort hjólið væri stolið. Er því hafi verið svarað játandi hafi ákærði sagt að um það hafi hann hafi ekki vitað. Hann hafi keypt hjólið af kunningja sínum á 30.000 krónur. Er ákærða hafi verið tjáð að hann væri grunaður um hylmingu hafi hann upplýst að hann hafi keypt hjólið tveimur vikum áður af strák sem héti Helgi. Hann vissi ekki símanúmerið hjá Helga en Helga þekkti hann í gegnum sameiginlegan kunningja. Helgi hafi boðið honum hjólið á 30.000 krónur og komið með hjólið í Hæðarselið. Kunningi ákærða, sem komið hafi þeim saman, héti Stefán Haukur. Ákærði vissi ekki símanúmerið hjá honum. Í lok skýrslunnar kemur fram að ákærði hafi greint frá því að hann hafi greitt fyrir hjólið með reiðufé.
Mánudaginn 27. janúar 2014 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru vegna þjófnaðar á framangreindu reiðhjóli
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu. Þá gaf hann skýrslu fyrir dómi. Hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa keypt hjólið af dreng sem héti Helgi. Fyrir dómi lýsti ákærði því að hjólið hafi hann keypt af dreng sem héti Stefán. Ákærði hafi komist í samband við drenginn á spjallsíðum á internetinu. Hann vissi ekki um föðurnafn Stefáns eða hvernig komast mætti í samband við hann. Stefán hafi talað um að hann hafi keypt hjólið. Ákærða hafi ekki grunað að hjólið væri stolið og hafi mælt sér mót við Stefán hjá versluninni Nettó í Mjódd. Hann hafi greitt um 40.000 krónur í reiðufé fyrir hjólið og ætlað að nota það sjálfur. Margt hafi verið að hjólinu og ákærði ákveðið að selja það. Hann hafi ekki vitað um verðgildi hjólsins en áttað sig á því að það væri talsvert er í ljós hafi komið að varahlutir í það hafi verið dýrir. Hvað söluverðið varðaði hafi hann ekki verið með ákveðið verð í huga en í samskiptum á bland.is hafi honum verið boðið að taka vespu upp í hjólið, sem ef til vill hafi kostað um 70.000 krónur.
Fyrir dóminn komu feðgarnir A og sonur hans B, eigandi hjólsins. Lýstu þeir því að umrætt hjól hafi B keypt af nafngreindum einstaklingi í Keflavík töluvert áður. Hjólið hafi þá verið næstum nýtt. B hafi eytt miklum fjármunum í hjólið í gegnum tíðina og hafi það verið þjónustað bæði hjá hjólreiðaversluninni Hjólaspretti og hjólreiðaversluninni Markinu. Hjólinu hafi verið stolið af stigapalli að [...] í Kópavogi, 8. október 2013. Vinur B hafi séð hjólið auglýst á bland.is. Hafi kunninginn boðið vespu í skiptum fyrir hjólið og beðið um að fá að sjá það. Seljandinn hafi tekið vel í það. Áður en A og B hafi farið á staðinn hafi þeir haft samband við lögreglu og óskað eftir því að hún væri til taks ef umrætt hjól væri hjól B. Er þeir hafi komið á staðinn hafi komið í ljós að um var að ræða hið stolna hjól. Þeir hafi gert lögreglu aðvart um það og hún komið til þeirra. Í framhaldi hafi þeir fengið hjólið afhent. B lýsti því að hann hefði keypt mikið af upprunalegum varahlutum á hjólið. Um væri að ræða hluti eins og dempara, bremsur, gíra o.fl. Hlutir þessir væru mjög dýrir. Hefði hann keypt varahluti í hjólið fyrir á bilinu 300 til 400.000 krónur.
Fyrir dóminn komu lögreglumennirnir þrír sem fóru að Hæðarseli og unnu að rannsókn málsins. Staðfestu þeir þátt sinn í rannsókn málins. Báru þeir allir að ákærði hafi ekki getað gefið upp föðurnafn þess sem selt hafi honum hjólið eða neinar upplýsingar sem gagnast hafi til að komast í samband við þann aðila. Lögreglumenn hafi grunað ákærða um að hafa vitað af því að hjólið væri stolið.
Niðurstaða:
Ákærða er gefin að sök hylming með því að hafa haft stolið reiðhjól í vörslum sínum á lögheimili sínu, þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að um þýfi væri að ræða. Gögn málsins leiða í ljós að umræddu reiðhjóli var stolið af stigagangi fjöleignarhússins að [...] í Kópavogi, 8. október 2013.
Ákærði neitar sök. Kveðst hann hafa keypt reiðhjólið löglega og ekki hafa verið kunnugt um að það væri stolið. Ákærði er að mati dómsins ótrúverðugur í framburði sínum þar sem nokkurt misræmi kemur fram í framburði hans. Hjá lögreglu bar hann að hafa keypt hjólið af dreng sem héti Helgi. Hafi það verið fyrir milligöngu sameiginlegs kunningja sem héti Stefán Haukur. Fyrir dómi bar ákærði að hann hafi keypt hjólið af manni er héti Stefán, en hann hafi komist í kynni við hann á samskiptasíðum á internetinu. Eins dregur það úr trúverðugleika framburðar ákærða að hann hefur ekki getað gefið upp föðurnafn eða aðrar upplýsingar um seljanda hjólsins.
Verðmæti umrædds reiðhjóls er töluvert, svo sem eigandi þess hefur staðhæft og styðja reikningar í málinu þann framburð eigandans. Á samskiptasíðum bauð ákærði hjól þetta til sölu. Lýsti ákærði því þar að hann hefði keypt hjólið fyrir 4.000 Bandaríkjadali eða tæplega 600.000 íslenskar krónur að verðgildi dagsins í dag. Í ljósi þess sem hér að framan er rakið er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi verið ljóst að um þýfi væri að ræða. Verður hann því sakfelldur fyrir hylmingu, sem á undir 1. mgr. 254. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærði er fæddur í júlí 1986. Á hann að baki sakaferil, sem ekki er ástæða til að rekja nema að því er varðar síðasta dóminn. Ákærði var með dómi héraðsdóms, 13. september 2013, dæmdur í 3ja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til 3ja ára. Ákærði hefur hér í dómi verið sakfelldur fyrir hylmingu. Hefur hann með broti sínu rofið skilyrði framangreinds refsidóms. Verður refsidómurinn nú tekinn upp á grundvelli ákvæða 60. gr. laga nr. 19/1940 og hann dæmdur með refsingu í þessu máli. Ákærði á sér engar málsbætur. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Í ljósi sakaferils ákærða er ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði greiði sakarkostnað skipaðs verjanda síns, eins og í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Elín Hrafnsdóttir fulltrúi lögreglustjóra.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Jóhann Arnar Jóhannsson, sæti fangelsi í 5 mánuði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar héraðsdómslögmanns, 511.500 krónur.