Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-42
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Leigusamningur
- Brostnar forsendur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 28. mars 2022 leitar Íþaka fasteignir ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjaness 16. sama mánaðar í máli nr. E-2261/2020: Fosshótel Reykjavík ehf. gegn Íþöku fasteignum ehf. og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili telur að samþykkja eigi beiðnina.
3. Aðilar gerðu leigusamning 2. júlí 2013 þar sem leyfisbeiðandi leigði gagnaðila fasteign frá 1. júní 2015 til tuttugu ára í því skyni að reka hótel. Vegna aðstæðna sem rekja má til COVID-19-heimsfaraldursins lokaði gagnaðili hótelinu í lok mars 2020. Ágreiningur málsins lýtur að kröfu gagnaðila að ákvæði um leigufjárhæð í leigusamningi við leyfisbeiðanda verði tímabundið vikið til hliðar að fullu. Gagnaðili reisir kröfur sínar á ákvæði í samningnum um ófyrirséð og ófyrirsjáanleg atvik, ólögfestri reglu kröfuréttar um óviðráðanleg ytri atvik (force majeure), reglu kröfuréttar um stjórnunarábyrgð, sem og reglum samningaréttar um brostnar forsendur og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sem vísað er til í 11. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Leyfisbeiðandi gerir hins vegar kröfu um greiðslu áfallinnar leigu fyrir 1. apríl til 1. september 2020 að frádregnum innborgunum.
4. Með dómi héraðsdóms var fallist á það með gagnaðila að vegna þeirra atvika sem til komu eftir gerð leigusamnings aðila og voru afleiðingar heimsfaraldurs COVID-19 væru uppfyllt skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 til að víkja verðákvæði greinar 6.1 í leigusamningi aðila tímabundið til hliðar. Nánar tiltekið með þeim hætti að frá 1. apríl 2020 til og með 31. mars 2021 skyldi gagnaðili greiða tvo þriðju hluta leigufjárhæðar í hverjum mánuði samkvæmt grein 6.1 iii, að viðbættri verðtryggingu samkvæmt 2. mgr. greinar 6.1 í leigusamningnum, auk virðisaukaskatts. Þá var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda í gagnsök.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að skilyrði fyrir áfrýjun héraðsdóms í málinu beint til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt. Hann telur brýnt að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti enda leiði ágreiningur um efni leigusamningsins til réttaróvissu sem geri aðilum erfitt fyrir með að framfylgja efni hans. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða málsins geti verið fordæmisgefandi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að fjölmargir aðilar í ferðaþjónustu séu í sömu sporum og aðilar þessa máls og því sé um fordæmisgefandi mál að ræða.
6. Eins og rakið er í beiðninni var mál þetta fyrst dæmt í héraði 16. mars 2021. Með ákvörðun Hæstaréttar 4. maí 2021 í máli nr. 2021-105 var samþykkt beiðni um leyfi til að áfrýja dómi héraðsdóms beint til Hæstaréttar á grundvelli þess að það var talið hafa þýðingu fyrir framkvæmd fjölda samninga þar sem forsendur hefðu breyst vegna heimsfaraldurs og væri brýnt að fá niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti. Með dómi Hæstaréttar 28. október 2021 í máli nr. 19/2021 var dómur héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Liggur nú fyrir sem fyrr segir dómur héraðsdóms 16. mars 2022 sem óskað er leyfis Hæstaréttar til að áfrýja beint til réttarins.
7. Ljóst er að aðstæður í samfélaginu hafa nú breyst verulega frá því að fyrra áfrýjunarleyfi var veitt 4. maí 2021. Á þeim tíma voru í gildi víðtækar sóttvarnaráðstafanir sem veruleg áhrif höfðu fyrir aðila í ferðaþjónustu, meðal annars á möguleika þeirra til að afla tekna og standa við gerðar skuldbindingar og sá ekki fyrir endann á því ástandi og þeirri réttaróvissu sem það skapaði. Eru aðstæður gjörbreyttar þar sem öllum sóttvarnaráðstöfunum var aflétt 25. febrúar á þessu ári og ferðaþjónustan starfar nú án nokkurra slíkra takmarkana.
8. Í beiðninni leggur leyfisbeiðandi áherslu á mikilvægi þess að leysa úr þeirri réttaróvissu sem ríki milli aðila eftir dóm héraðsdóms um framkvæmd leigusamnings þeirra og mikla fjárhagslega hagsmuni þeirra sem séu í húfi. Vísað er til þess almennum orðum að málið geti verið fordæmisgefandi fyrir fjölmarga aðila í ferðaþjónustu vegna þess ástands sem ríkti á tíma sóttvarnaráðstafana. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir um ætlaðan fjölda þeirra og leyfisbeiðandi hefur ekki fært fram sérstök rök fyrir því að það hafi samfélagslega þýðingu að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti.
9. Að virtum gögnum málsins er ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 að þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti. Af þeirri ástæðu er beiðni um leyfi til að áfrýja héraðsdómi í málinu beint til Hæstaréttar hafnað.