Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-26

Arev verðbréfafyrirtæki hf., Jón Scheving Thorsteinsson (Reimar Pétursson lögmaður) og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Kristín Edwald lögmaður)
gegn
Arev NII slhf. (Gunnar Sturluson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Fyrning
  • Skipting sakarefnis
  • Málskostnaður
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðnum 10. mars 2022 leita annars vegar Arev verðbréfafyrirtæki hf. og Jón Scheving Thorsteinsson og hins vegar Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. febrúar 2022 í máli nr. 510/2021: Arev verðbréfafyrirtæki hf., Jón Scheving Thorsteinsson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn Arev NII slhf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um skaðabætur vegna tjóns sem hann taldi að leyfisbeiðendurnir Arev verðbréfafyrirtæki hf. og Jón Scheving Thorsteinsson hefðu valdið sér í tengslum við kaup gagnaðila á breskum fjárfestingarsjóði en krafan á hendur leyfisbeiðandanum Sjóvá-Almennum tryggingum hf. var reist á ábyrgðartryggingu. Sakarefni málsins var skipt í héraði, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 og laut ágreiningur í þessum þætti málsins aðeins að því hvort krafa gagnaðila væri fyrnd.

4. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms um að krafa gagnaðila væri ekki fallin niður fyrir fyrningu staðfest. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu að skaðabótakrafan lyti reglum um skaðabætur utan samninga og að um fyrningu hennar færi eftir 1. málslið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Vísað var til þess að þótt ekki yrði í öllum tilvikum krafist að sá sem byggi yfir nauðsynlegum upplýsingum væri bær til að slíta fyrningu með málsókn fyrir hönd lögaðila væri fallist á það með héraðsdómi, eins og á stæði í málinu, að hafna málsástæðu leyfisbeiðenda um ætlaða fyrningu kröfu gagnaðila.

5. Leyfisbeiðendurnir Arev verðbréfafyrirtæki hf. og Jón Scheving Thorsteinsson byggja á því að úrlausn Landsréttar um málskostnað sé bersýnilega röng. Landsréttur hafi þannig dæmt gagnaðila málskostnað í héraði án þess að ágreiningi um þann þátt málsins hefði verið áfrýjað til Landsréttar. Vísa leyfisbeiðendur til þess að héraðsdómur hafi dæmt að ákvörðun málskostnaðar biði endanlegrar dómsniðurstöðu og gagnaðili ekki gagnáfrýjað þeirri niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar. Leyfisbeiðendurnir telja jafnframt að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og geti verið fordæmisgefandi varðandi ágreiningsefni um fyrningu. Þannig sé annars vegar til álita hvort ætlaðar kröfur gagnaðila falli undir 2. gr. laga nr. 150/2007 þar sem þær teljist eiga rót að rekja til samnings í skilningi 3. mgr. 9. gr. laganna og hins vegar hvort gagnaðila verði ætluð vitneskja í skilningi 1. mgr. 9. gr. um upplýsingar sem svonefnt fjárfestingarráð og lögmaður á vegum þess fékk eða bar að afla sér. Þannig reyni á hvernig beita eigi ólögfestum reglum um óvirka samsömun. Loks er vísað til þess að héraðsdómur hafi lagt til grundvallar fundargerð sem rituð var af lögmanni á lögmannsstofu þar sem tveir dómara, sem dæmdu málið í Landsrétti, voru starfandi sem lögmenn þegar atvik málsins hófust og annar þeirra einn eigenda stofunnar.

6. Leyfisbeiðandinn Sjóvá-Almennar tryggingar hf. byggir einnig á því að úrlausn Landsréttar um málskostnað sé bersýnilega röng. Þá byggir leyfisbeiðandinn á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og vísar til þess að mikilvægt sé að fá fordæmisgefandi dóm Hæstaréttar um hvernig beita eigi reglum um óvirka samsömun við ákvörðun upphafstíma fyrningar samkvæmt 9. gr. laga nr. 150/2007. Niðurstaða um túlkun 1. mgr. 9. gr. laganna hafi verulegt almennt gildi meðal annars í tengslum við kröfur lögaðila til greiðslu úr vátryggingum. Leyfisbeiðandinn tekur jafnframt undir rökstuðning annarra leyfisbeiðenda.

7. Að virtum gögnum málsins verður talið að ástæða sé til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur um ákvörðun málskostnaðar, sbr. 4. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þegar af þeirri ástæðu er beiðnin samþykkt.