Hæstiréttur íslands

Mál nr. 197/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Föstudaginn 11. apríl 2008.

Nr. 197/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Erlendur Þór Gunnarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. apríl 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með hliðsjón af alvarleika þess brots sem varnaraðili er grunaður um, bæði að því er varðar afleiðingar og verknaðaraðferð, verður fallist á það með héraðsdómi að almannahagsmunir standi til þess að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur  9. apríl 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úr­skurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæslu­varð­haldi allt til miðvikudagsins 23. apríl 2008, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að öryggisvörður í versluninni Tíu - ellefu, Austurstræti 17, Reykjavík, hafi orðið fyrir fólskulegri líkamsárás. Þyki ljóst að um mjög hættulega árás hafi verið að ræða, þar sem að öryggisvörður hafi verið sleg­inn með glerflösku í höfuð, þegar að hann var að störfum snemma morguns.

Brotaþoli málsins A hafi gefið lögreglu stutta lýsingu á undanfara árásarinnar og lýst því m.a. hvernig að kærði hafði þessa sömu nótt verið fjarlægður af lögreglu úr versluninni eftir að hafa verið til vandræða þar innan dyra. Ekki hafi reynst unnt að taka frekari skýrslur af honum, þar sem að hann liggi enn þungt haldinn á spítala. Samkvæmt upplýsingum frá spítala muni hann ekki verða skýrslutækur fyrr en í lok þessarar viku í fyrsta lagi. Hafi hann hlotið lífshættulegan áverka í árásinni og þurft að gangast undir læknisaðgerð, þar sem naumlega hafi tekist að bjarga lífi hans. Erfitt sé að spá fyrir um batahorfur hans að svo stöddu.

Í upptöku úr eftirlitsmyndavél í miðborginni megi sjá hvar kærði standi nokkra stund fyrir utan verslunina og virðist sem hann sé þar að fylgjast með því sem gerist inni í versluninni. Þá sjáist hvar hann taki upp flösku og bíði færis. Síðar megi sjá með hvaða hætti hann veitist að starfsmanni verslunarinnar þegar að hann komi út úr verslun Tíu - ellefu. Myndskeiðið beri að mati lögreglu með sér einbeittan ásetning til þess að fremja alvarlegt ofbeldisverk. Í ljósi þessa þyki árásin sérstaklega alvarleg og sé þá einnig litið til þess að fyrr um nóttina hafi þurft atbeina lögreglu til að fjarlægja kærða úr versluninni. Hann hafi svo komið öðru sinni að versluninni og virðist þá hafa ráðist að sama starfsmanni og áður hafði haft af honum afskipti. Af myndskeiðinu megi jafnframt ráða að engin samskipti hafi verið á milli kærða og brotaþola áður en hann hafi slegið hann af afli í höfuðið. Veruleg hætta hafi stafað af verknaðinum, þ.e. að slá annan mann í höfuðið með glerflösku, enda hafi litlu mátt muna að mannsbani yrði af völdum verknaðarins.

Unnið hafi verið að rannsókn málsins af fullum þunga og sé henni nánast lokið. Þó liggi fyrir að taka skýrslur af lögreglumönnum sem hafi haft afskipti af kærða fyrr um nóttina. Þá þurfi að senda málið til ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar og með því greinargerð rann­sóknara, sbr. 77. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Ætla verði ríkissaksóknara eitthvert svigrúm til ákvörðunar um saksókn.

Í gær hafi Hæstiréttur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um þriggja daga gæsluvarðhald með vísun í rannsóknarhagsmuni málsins. Nú liggi áðurnefnt myndskeið fyrir og beri það að mati lögreglustjóra með sér að um fullkomlega tilefnislausa og fólskulega árás hafi verið að ræða.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu í gær hafi kærði játað brotið en í skýrslunni komi fram að hann hafi ekki farið að versluninni í þeim tilgangi að ráðast að öryggisverðinum og að hann hafi tekið flöskuna upp eftir að hann hafi séð öryggisvörðinn koma út úr versluninni. Áður hafi kærði í skýrslutöku játað brotið en þó sagt að hann myndi ekki vel eftir því.

Myndskeiðið beri hins vegar með sér að mati lögreglu að kærði hafi beðið brotaþola vopnaður flösku og ráðist að honum að óvörum þegar hann hafi gengið út úr versluninni í eftirliti sínu. Þyki þetta vera til marks um alvarleika brotsins og að kærði hafi beðið brotaþola beinlínis í þeim tilgangi að ráðast á hann. Þá sé að síðustu vísað í upplýsingaskýrslu lögreglumanns þar sem fram komi að hann hafi heyrt kærða segja að öryggisvörðurinn hafi átt þetta skilið.

Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 séu uppfyllt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum varði allt að 16 ára fangelsi og sé í eðli sínu svo svívirðilegt að almanna­hagsmunir krefjist þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi.

Ætlað brot sem nú sé til rannsóknar kunni að varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Brotið sé að mati lögreglu sérstaklega alvarlegt með tilliti til aðdraganda, hvaða aðferða kærði hafi beitt og hinna alvarlegu afleiðinga sem hafi orðið af völdum brotsins.

Hér fyrir dómi játaði kærði að hafa slegið öryggisvörðinn. Samkvæmt því og með vísun til þess sem að framan er rakið svo og með vísun til rann­sóknargagna telur dómurinn kærða undir sterkum grun um að hafa framið brot er kann að varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Getur brot á því ákvæði varðað allt að 16 ára fangelsi. Með vísun til þessa fellst dómurinn á það með lögreglustjóra að almannahagsmunir standi til þess að kærði gangi ekki laus. Það er því fallist á að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi í máli þessu, og verður því orðið við kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. apríl 2008, kl. 16:00.