Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-303

Sigríður Katrín Færseth (Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Ólafur Örn Svansson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Tryggingarbréf
  • Lánssamningur
  • Uppgjör
  • Hafnað

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 21. desember 2020 leitar Sigríður Katrín Færseth leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 27. nóvember sama ár í málinu nr. 823/2019: Sigríður Katrín Færseth gegn Landsbankanum hf., á grundvelli. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á því að staða skuldar hennar við gagnaðila samkvæmt tryggingarbréfi hefði numið 21.515.928 krónum á nánar tilgreindum degi í samræmi við upplýsingar sem hún fékk frá starfsmanni gagnaðila í tengslum við sölu fasteignar hennar sem tryggingarbréfið hvíldi á. Síðar kom í ljós að uppgefin staða hefði verið miðuð við stöðu án dráttarvaxta og kostnaðar. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda að teknu tilliti til þess að fyrir hefði legið skýrt umboð hjá fasteignasala til að annast uppgjör skuldar að baki áhvílandi tryggingarbréfs fyrir hönd leyfisbeiðanda auk þess sem ágreiningur um fjárhæð skuldarinnar hefði legið fyrir þegar kaupsamningur um eignina var gerður. Þá hefði greiðsla af hálfu leyfisbeiðanda á grundvelli tryggingarbréfsins verið innt af hendi án fyrirvara.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi annars vegar um þýðingu á rangri upplýsingagjöf fjármálastofnana og hins vegar um útreikning á stöðu skuldar samkvæmt tryggingarbréfi. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að meðferð málsins fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem gagnaðili hafi ekki verið krafinn um útreikning skuldarinnar þrátt fyrir að leyfisbeiðandi hafi ítrekað bent á að hann væri rangur. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttur sé bersýnilega rangur enda byggist niðurstaða réttarins meðal annars á röngum útreikningi gagnaðila auk þess sem ranglega hafi verið byggt á því að fasteignasalan hafi haft umboð til að semja við gagnaðila fyrir hönd leyfisbeiðanda. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.