Hæstiréttur íslands

Mál nr. 478/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lagaskil


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. desember 2005.

Nr. 478/2005.

Jón Þóroddsson

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

sýslumanninum í Reykjavík

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Erfðafjárskattur. Lagaskil.

Deilt var um álagningu erfðafjárskatts samkvæmt ákvörðun sýslumanns. Hafði arfleifandinn látist 28. mars 2004 og erfingjarnir fengið leyfi 13. ágúst 2004  til einkaskipta á dánarbúinu. Erfðafjárskýrsla var afhent sýslumanni 12. janúar 2005. Hinn 1. apríl 2004 tóku gildi lög nr. 14/2004 um erfðafjárskatt og var í  21. gr. laganna mælt fyrir um að lögin skyldu taka til skipta á dánarbúum eftir þá, sem létust þann dag eða síðar. Sagði enn fremur að frá sama tíma féllu lög nr. 83/1984 um erfðafjárskatt úr gildi. Með lögum nr. 15/2004, sem tóku gildi 20. apríl 2004 var bætt inn í lög nr. 14/2004 ákvæði til bráðabirgða, sem kvað á um að lög nr. 83/1984 með síðari breytingum skyldu gilda, með nánar tilgreindum undantekningum, um skipti á dánarbúum þeirra sem látist hefðu fyrir 1. apríl 2004. Var deilt um það í málinu hvort bráðabirgðaákvæði þetta veitti fullnægjandi heimild til álagningar erfðafjárskatts á grundvelli hinna eldri laga, eins og sýslumaður hafði lagt til grundvallar ákvörðun sinni um álagningu skattsins. Talið var að regla nefnds bráðabirgðaákvæðis væri fortakslaus og ótvíræð og í samræmi við hefðbundnar lagaskilareglur og veitti fullnægjandi lagastoð, í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrár, fyrir álagningu erfðafjárskatts þess, sem um var deilt í málinu. Þá var tekið fram að arfleifandi hafi látist í gildistíð laga nr. 83/1984 og erfðafjárskýrslu hafi verið skilað eftir að umdeilt bráðabirgðaákvæði hafði tekið gildi og ákvæði 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrár stæði því þar af leiðandi ekki í vegi að erfðafjárskatturinn teldist löglega á lagður. Ekki var heldur fallist á að ólögmæt mismunun fælist í beitingu bráðabirgðaákvæðisins. Var ákvörðun S um álagningu erfðafjárskattsins því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. nóvember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2005, þar sem leyst var úr ágreiningi um álagningu erfðafjárskatts á varnaraðila vegna arfs hans úr dánarbúi Sigrúnar Júlíusdóttur. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., en sóknaraðila hefur verið veitt kæruleyfi. Sóknaraðili krefst þess aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 18. febrúar 2005 um álagningu erfðafjárskatts á arf sóknaraðila úr framangreindu dánarbúi og að því verði slegið föstu að sóknaraðila beri ekki að greiða erfðafjárskatt af þeim arfi. Til vara krefst hann þess að álagður erfðafjárskattur á nefndan arf sóknaraðila megi ekki verða hærri en verið hefði samkvæmt álagningarreglum laga nr. 14/2004. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2005.

Með bréfi sýslumannsins í Reykjavík dagsettu 26. apríl 2005 og mótteknu í Héraðs­dómi Reykjavíkur 29. sama mánaðar var ágreiningi aðila um álagningu erfða­fjárskatts beint til úrlausnar dómsins og var mál þetta þingfest af því tilefni 20. maí s.á. Málið var tekið til úrskurðar 3. október sl.

Sóknaraðili er Jón Þóroddsson, kt. 250342-4629, Sunnuvegi 21, Reykjavík.

Varnaraðili er sýslumaðurinn í Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 18. febrúar 2005 um álagningu erfðafjárskatts á arfshluta sóknaraðila úr dánarbúi móður hans, Sigrúnar Júlíusdóttur, verði felld úr gildi og að dómurinn kveði svo á að erfða­fjár­skylda sóknaraðila vegna arftöku úr greindu dánarbúi sé ekki fyrir hendi og varnaraðila beri því að endurgreiða honum kr. 63.599 ásamt dráttarvöxtum frá 2. mars 2005 til greiðsludags. Til vara krefst sóknaraðili þess að varnaraðila beri að endur­ákvarða erfðafjárskattinn samkvæmt þeim álagningarreglum sem lög nr. 14/2004 kveða á um.  Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur varnaraðila eru að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum sóknar­aðila og staðfest verði ákvörðun varnaraðila frá 17. febrúar 2005 um álagðan erfða­fjárskatt að fjárhæð kr. 63.599. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Málavextir

Í máli þessu er deilt um hvort ákvörðun varnaraðila, sýslumannsins í Reykja­vík, um álagningu erfðafjárskatts hafi átt sér fullnægjandi lagastoð. Sóknaraðili, Jón Þórodds­son, er sonur og einn erfingja Sigrúnar Júlíusdóttur sem lést 28. mars 2004, en hún sat í óskiptu búi eftir Þórodd E. Jónsson sem lést 13. ágúst 1976. Leyfi til einka­skipta á búinu var veitt 13. ágúst 2004. Erfðafjárskýrsla er dagsett 10. janúar 2005 og mót­tekin af sýslumanni 12. s.m. Í bréfi sóknaraðila sem fylgdi erfðafjárskýrslunni gerir hann þá kröfu með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 465/2004, að erfingjum verði ekki gert að greiða erfðafjárskatt. Þann 17. febrúar 2005 var erfða­fjár­skýrslan árituð til staðfestingar á álagningu erfðafjárskatts og var erfingjum tilkynnt um álagninguna með bréfi dags. 18. s.m. Sóknaraðili mótmælti álagningunni með bréfi til varnaraðila 2. mars 2005 og vísaði til áðurgreinds dóms Hæstaréttar Íslands. Sama dag greiddu erfingjar álagðan erfðafjárskatt með fyrirvara. Með bréfi sókn­ar­aðila 8. s.m. til varnaraðila var þess krafist að ágreiningi aðila um álagningu erfða­fjárskatts yrði skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli 119. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á því að samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 465/2004, sem hafi fordæmi í máli þessu,  hafi á tímabilinu frá 1. til 20. apríl 2004 engin lögmælt álagningarheimild verið fyrir hendi á dánarbú þeirra arfláta, sem látnir voru fyrir 1. apríl 2004 og skiptum var ólokið hjá. Lög nr. 83/1984 hafi verið felld úr gildi með 21. gr. laga nr. 14/2004 og löggjafinn geti því ekki sótt heimild til skattlagningar í lögin. Því til frekari rökstuðnings vísar hann til 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Varakröfu sína byggir sóknaraðili á að það myndi brjóta gegn 65. gr. stjórn­ar­skrárinnar yrði álagning erfðafjárskattsins látin standa þar sem hann sætti þá mun þyngri og lakari skattakjörum en þeir erfingjar sem njóta bættra skattakjara laga nr. 14/2004.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili byggir á að þegar sóknaraðili lagði fram erfðafjárskýrslu sína í janúar 2005 hafi ótvírætt verið í gildi löggjöf um erfðafjárskatt vegna töku arfs eftir þá sem látnir voru fyrir 1. apríl 2004, sbr. ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 14/2004, sem sett var með lögum nr. 15/2004, þar sem mælt sé fyrir um að ákvæði laga nr. 83/1984 skuli gilda um skipti á dánarbúum þeirra sem önduðust fyrir 1. apríl 2004. Niður­staða dóms Hæstaréttar í málinu nr. 465/2004 breyti engu þar um en samkvæmt henni hafi á tímabilinu frá 1. til 20. apríl 2004 ekki verið í gildi nein löggjöf um erfða­fjár­skatt vegna töku arfs eftir þá sem látnir voru fyrir 1. apríl 2004. Byggir varnaraðili á að lög nr. 15/2004, sem birt voru 20. apríl 2004, séu gild lagaheimild til töku erfða­fjárskatts af arfi eftir þá sem létust fyrir 1. apríl 2004. Sóknaraðili hafi lokið skiptum á dán­arbúum foreldra sinna í janúar 2005 og lagt þá fram erfðafjárskýrslu. Lög nr. 15/2004 hafi á því tímabili veitt fullnægjandi lagaheimild til innheimtu erfðafjárskatts af arfi eftir þá sem létust fyrir 1. apríl 2004. Byggir varnaraðili á að með lögum nr. 15/2004 hafi efnisreglur laga nr. 83/1984 verið lögfestar. Lögin hafi verið sett með stjórn­skipulegum hætti og séu bindandi fyrir sóknaraðila. Á dánardægri Sigrúnar Júlíus­dóttur hafi lög nr. 83/1984 verið í gildi. Með lögum nr. 15/2004 hafi ákvæði þeirra verið lögtekin á ný og gildi því um skipti á búi Sigrúnar í janúar 2005. Ekki sé um afturvika lagasetningu að ræða.

Varnaraðili byggir á að varakrafa sóknaraðila sé ódómtæk þar sem hún sé um for­gang og forréttindi og gangi þvert gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þá sé hún and­stæð 21. gr. laga nr. 14/2004 um viðmiðun dánardags og eigi sér enga lagastoð. Erfða­fjárskattur samkvæmt lögum nr. 83/1984 sé lagður á eftir efnislegum mæli­kvarða og jafnræðisreglu gætt. Löggjafinn hafi víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði skuli ráða skattskyldu manna og upphæð skatta. Ekki geti verið um mismunun að ræða milli sóknaraðila og annarra sem eins er ástatt um.

Niðurstaða

Um gildistöku laga nr. 14/2004 um erfðafjárskatt voru svofelld ákvæði í 21. gr.: Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2004 og taka til skipta á dánarbúum þeirra sem andast þann dag eða síðar. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 83/1984, um erfða­fjárskatt, með síðari breytingum. Lögin taka einnig til búskipta þeirra er hafa heimild til setu í óskiptu búi fari þau fram eftir gildistöku laganna. 

Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 465/2004, sem sóknaraðili byggir á að hafi for­dæm­isgildi í máli þessu, komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að samkvæmt beinum orðum ákvæðis 2. málsliðar 21. gr. laga nr. 14/2004 hafi ekki verið lengur í gildi nein lög­gjöf um erfðafjárskatt vegna töku arfs eftir þá sem látnir voru fyrir 1. apríl 2004. Sýslu­manni hefði því brostið heimild til álagningar erfðafjárskatts samkvæmt erfða­fjárskýrslu, sem afhent var honum 13. apríl 2004, en á þeim tíma hafði ekki tekið gildi ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 14/2004, sem sett var með lögum nr. 15/2004.

Tilvitnað ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 14/2004, sem gildi tók 20. apríl 2004, er svohljóðandi: Ákvæði laga nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, með síðari breyt­ingum, skulu gilda um skipti á dánarbúum þeirra sem önduðust fyrir 1. apríl 2004, sbr. þó ákvæði 3. ml. 21. gr. laganna. Í greinargerð kemur fram að með bráða­birgða­ákvæðinu sé leitast við að taka af öll tvímæli hvað varðar lagaskil milli eldri og nýrri laga um erfðafjárskatt.

Ágreiningur máls þessa snýst um álagningu erfðafjárskatts á grundvelli bráða­birgða­ákvæðisins.

Móðir sóknaraðila lést, 28. mars 2004, eða í gildistíð laga nr. 83/1984 um erfða­fjárskatt. Sóknaraðili lagði inn erfðafjárskýrslu hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 12. janúar 2005 eða eftir gildistöku ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 14/2004. Það sem greinir málsatvik í máli þessu frá málsatvikum í tilvitnuðu hæstaréttarmáli, og hér skiptir máli, er að í hæstaréttarmálinu var erfðafjárskýrsla afhent eftir gildis­töku laga nr. 14/2004 en fyrir gildistöku bráðabirgðaákvæðisins, eða 13. apríl 2004, en í máli þessu var erfðafjárskýrsla afhent eftir gildistöku bráðabirgðaákvæðisins, eða í janúar 2005. 

Í nokkrum stjórnarskrárákvæðum er mælt fyrir um að tilteknum málefnum þar á meðal skattamálefnum verði aðeins skipað með lögum. Þannig er í 40. gr. stjórn­ar­skrár­innar nr. 33/1940 kveðið á um að engan skatt megi á leggja nema með lögum. Þá er í 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar kveðið á um að skattamálum skuli skipað með lögum. Markmið greindra ákvæða er fyrst og fremst að tryggja það, að skatta­málefnum verði ekki skipað af öðrum en löggjafanum, og er þá fyrst og fremst verið að útiloka framkvæmdarvaldshafa.

Eins og áður hefur verið rakið var það niðurstaða Hæstaréttar í tilvitnuðu máli að bein ákvæði 2. málsliðar 21. gr. laga nr. 14/2004 um erfðafjárskatt hefðu fellt úr gildi lög nr. 83/1984 um erfðafjárskatt og að því hefði eftir gildistöku laga nr. 14/2004 1. apríl 2004 ekki verið í gildi nein löggjöf um erfðafjárskatt eftir þá sem látnir voru fyrir þann tíma. Úr því ástandi varð ekki bætt nema með lagasetningu og var það eins og áður greinir gert með setningu bráðabirgðaákvæðis við lög nr. 14/2004. Með bráða­birgðaákvæðinu var að því stefnt að taka af öll tvímæli varðandi lagaskil milli eldri og yngri laga með því að kveða á um að lög nr. 83/1984 skuldi gilda um skipti á dánar­búum þeirra sem létust fyrir gildistöku nýju laganna 1. apríl 2004 í þeim tilvikum sem ekki var heimild til setu í óskiptu búi. Með ákvæðinu sem er í samræmi við hefðbundnar lagaskilareglur er þannig lögfest að efnisreglur eldri laga skuli gilda um skipti eftir þá sem létust í gildistíð þeirra.  Er það mat dómsins að regla bráða­birgða­ákvæðisins sé fortakslaus og ótvíræð og að ákvæðið veiti fullnægjandi lagastoð í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar fyrir álagningu erfðafjárskatts þess sem um er deilt í málinu.

Móðir sóknaraðila lést eins og áður greinir í gildistíð laga nr. 83/1984 og bráða­birgðaákvæði laga nr. 14/2004 hafði tekið gildi þegar erfðafjárskýrsla var afhent sýslu­manni. Stendur því ákvæði 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveður á um að enginn skattur verði á lagður nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu, því ekki í vegi að erfðafjárskatturinn teljist lög­lega álagður.

Bráðabirgðaákvæði laga nr. 14/2004 gildir með sama hætti um skipti á dán­ar­búum allra þeirra sem létust fyrir 1. apríl 2004 og eins er ástatt um. Í ákvæðinu felst því ekki ólögmæt mismunun.

Samkvæmt öllu framangreindu verður staðfest ákvörðun varnaraðila, sýslu­manns­ins í Reykjavík, frá 18. febrúar 2005 um álagningu erfðafjárskatts á arfshluta sóknar­aðila úr dánarbúi móður hans, Sigrúnar Júlíusdóttur.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun varnaraðila, sýslumannsins í Reykjavík, frá 18. febrúar 2005 um álagningu erfðafjárskatts á arfshluta sóknaraðila úr dánarbúi móður hans, Sigrúnar Júlíusdóttur.

Málskostnaður fellur niður.