Hæstiréttur íslands
Mál nr. 430/1999
Lykilorð
- Skuldabréf
- Kyrrsetning
- Kröfugerð
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 23. mars 2000. |
|
Nr. 430/1999. |
Icemex ehf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn þrotabúi Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. (Árni Grétar Finnsson hrl.) |
Skuldabréf. Kyrrsetning. Kröfugerð. Frávísun frá Hæstarétti.
Við áfrýjun máls krafðist I aðallega þess að kyrrsetning í nánar tilteknum eignum hans yrði felld úr gildi og hann sýknaður af fjárkröfum Þ. Talið var að eftir uppkvaðningu héraðsdóms hefði samkomulag orðið með málsaðilum um að ljúka ágreiningi þeirra með greiðslu dómskuldarinnar gegn því að kyrrsetningu yrði aflétt af eigum I, en samkomulagið hefði ekki verið háð fyrirvara um áfrýjun þess af hálfu I. Þótti áfrýjun málsins ekki vera samrýmanlega þessum gerðum I og var málinu því vísað frá Hæstarétti að kröfu Þ.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Haraldur Henrysson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 27. ágúst 1999. Stefnan var ekki þingfest, en málinu var áfrýjað á nýjan leik 22. október 1999. Endanlegar kröfur áfrýjanda eru þær að kyrrsetning, sem gerð var í nánar tilgreindum eigum hans, verði felld niður, en til vara að hún verði felld niður að hluta. Þá krefst hann sýknu af öllum fjárkröfum stefnda, en til vara að þær verði lækkaðar og að til skuldajafnaðar komi þá gagnkröfur áfrýjanda á hendur stefnda að fjárhæð 5.368.832 krónur. Hann krefst einnig sýknu af kröfu stefnda um rétt til innistæðu á bankareikningi í vörslu nafngreinds lögmanns. Áfrýjandi krefst loks málskostnaðar fyrir báðum dómstigum, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi krefst þess aðallega að öllum kröfum áfrýjanda verði vísað frá Hæstarétti og að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Til vara krefst hann sýknu af kröfum áfrýjanda og staðfestingar héraðsdóm. Hann krefst ennfremur málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Í áfrýjunarstefnu var þess krafist að felld yrði úr gildi kyrrsetning, sem lögð var á eigur áfrýjanda 11. janúar 1999 og að hrundið yrði rétti stefnda yfir innistæðu á bankabók í vörslu Jónasar A. Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns. Þess var og krafist að dráttarvextir legðust ekki á hina dæmdu fjárhæð fyrr en 1. maí 1999. Loks var krafist málskostnaðar. Í lok kröfugerðarinnar sagði síðan: „Að öðru leyti er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur“.
Með endanlegum kröfum áfrýjanda í greinargerð til Hæstaréttar, sem áður voru raktar, hefur hann aukið við upphaflegar kröfur sínar í áfrýjunarstefnu. Svo sem hann hefur lagt grundvöll að kröfugerð sinni í áfrýjunarstefnu felst að hann sætti sig við héraðsdóm að hluta. Í því fólst ráðstöfun sakarefnisins af hans hálfu og verða kröfur ekki auknar eftir það gegn mótmælum stefnda. Getur sá hluti héraðsdóms, sem kröfugerð í áfrýjunarstefnu náði ekki til, þegar af þeirri ástæðu ekki komið til endurskoðunar við meðferð málsins fyrir Hæstarétti.
II.
Lögmaður áfrýjanda sendi skiptastjóra stefnda skeyti 25. júní 1999, þar sem boðin var fram greiðsla á kröfu hins síðarnefnda samkvæmt héraðsdómi, en fjármunir til þess væru til reiðu á bankabók í vörslu áðurnefnds lögmanns. Var tekið fram að með þessu væri áfrýjandi ekki að viðurkenna réttmæti dómkröfunnar, en greiðslan væri innt af hendi til að losa eignir áfrýjanda undan kyrrsetningu. Þessu var fylgt eftir með símbréfi stjórnarformanns áfrýjanda til skiptastjórans 1. júlí 1999, þar sem ítrekað var boð um að greiða dómskuldina strax „gegn því að kyrrsetningu verði aflétt að öllu leyti gagnvart Icemex ehf.“. Engin önnur skilyrði voru sett fyrir greiðslu. Í bréfi skiptastjóra til vörslumanns bankabókarinnar sama dag kom fram að samkomulag hefði orðið um að losa bankabókina með þeim hætti að áfrýjandi greiddi dómkröfuna með dráttarvöxtum og kostnaði með fé af bókinni, samtals 6.014.614 krónum, inn á geymslureikning í Landsbanka Íslands hf. Óskaði skiptastjóri atbeina vörslumanns bókarinnar til þessarar ráðstöfunar. Stofnaði stjórnarformaður áfrýjanda í kjölfarið geymslureikning og bað vörslumanninn að leggja inn á hann áðurnefnda fjárhæð, sem tekin yrði af bankabókinni. Í framhaldi af því lýsti skiptastjóri stefnda því yfir að aðrar eignir áfrýjanda en bankabókin væru leystar undan kyrrsetningu og heimilt væri að greiða áfrýjanda fé, sem eftir stæði á bankabókinni umfram það, sem færi inn á geymslureikninginn. Setti hann jafnframt það skilyrði að fé á reikningnum yrði greitt stefnda 31. ágúst 1999 hefði stefndi ekki fyrir þann tíma ákveðið að áfrýja héraðsdómi til Hæstaréttar. Samþykkti áfrýjandi það. Áðurnefndan dag tilkynnti skiptastjóri stjórnarformanni áfrýjanda bréflega þá ákvörðun stefnda að una héraðsdómi. Er bréf hans áritað 1. september 1999 af stjórnarmanni áfrýjanda um samþykki við því að greiða stefnda fjárhæðina, sem var gert samdægurs.
Samkvæmt því, sem að framan er rakið, varð samkomulag með málsaðilum um að ljúka ágreiningi þeirra með greiðslu dómskuldarinnar gegn því að kyrrsetningu yrði aflétt af eignum áfrýjanda. Samkomulagið var háð fyrirvara stefnda um áfrýjun, en án nokkurs fyrirvara af hálfu áfrýjanda. Áfrýjun málsins 27. ágúst 1999, sem stefndi kveður sér fyrst hafa orðið kunnugt um 1. september sama ár, gat ekki samrýmst þeim gerðum áfrýjanda, sem að framan eru raktar. Að þessu virtu verður fallist á aðalkröfu stefnda um frávísun málsins frá Hæstarétti.
Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá Hæstarétti.
Áfrýjandi, Icemex ehf., greiði stefnda, þrotabúi Júlíusar P. Guðjónssonar ehf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 1999.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. apríl 1999, var höfðað með stefnu birtri lögmanni stefnda 20. janúar 1999 og þingfestri 27. janúar 1999.
Stefnandi er Þrotabú Júlíusar P. Guðjónssonar ehf., kt. 480388-1439. Er málið höfðað af skiptastjóra þrotabúsins Ingimundi Einarssyni hrl. fyrir þess hönd.
Stefndi er Icemex ehf., kt. 450298-2399, Smiðjuvegi 2, Kópavogi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:
- Að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða honum kr. 34.333.653,-, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, þannig; Af kr. 9.408.875,- frá 1. maí 1998 til 30. júní s.á., en frá þeim degi af kr. 18.466.225,- til 16. ágúst s.á., en frá þeim degi af stefnufjárhæðinni kr. 34.333.653,- til greiðsludags, allt þó að frádregnum kr. 954.147,-, er stefndi innti af hendi þann 13. janúar 1999.
- Til vara er gerð sú krafa að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 32.837.098,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, þannig: Af kr. 7.912.320,- frá 1. maí 1998 til 30. júní s.á.., en frá þeim degi af kr. 16.969.670,- til 16. ágúst s.á., en frá þeim degi af kr. 32.837.098,- til greiðsludags, allt þó að frádregnum kr. 954.147,-, er stefndi innti af hendi þann 13. janúar 1999.
- að staðfest verði með dómi kyrrsetningargerð, sem fram fór hjá stefnda þann 11. janúar 1999, framkvæmd af Sýslumanninum í Kópavogi, en endurupptekin að hluta þann 13. ajnúar s.l., í eftirtöldum eignum stefnda: Fasteigninni að Smiðjuvegi 2, Kópavogi, eignarhluta gerðarþola samkvæmt kaupsamningi dags. 1. maí 1998, bifreiðunum YJ-803 og RT-719, lagerhillum, skrifstofuhúsgögnum og skrifstofutækjum, áfengisbirgðum á lager stefnda og áfengisbirgðum stefnda í Tollvörugeymslunni Zimsen ehf., samkvæmt uppskrift þann 11. janaúar 1999.
- að staðfestur verði með dómi réttur stefnanda til innistæðu á bankabók í vörslu Jónasar Aðalsteinssonar hrl., sem er andvirði útleystra áfengisbirgða stefnda úr Tollvörugeymslu Zimsen ehf. frá 13. janúar 1999 og allt til dómsuppkvaðningar í staðfestingamáli, allt í samræmi við skilmála sem bókaðir voru hjá Sýslumanninum í Kópavogi þann 13. janúar 1999.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist að kyrrsetning, sem gerð var í eignum stefnda þann 11. janúar 1999, verði felld niður, en til vara er þess krafist að kyrrsetning, sem gerð var í eignum stefnda þann 11. janúar 1999, verði felld niður að hluta.
Þess er einnig aðallega krafist að stefndi verði sýknaður af öllum fjárkröfum stefnanda, en til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar og að til skuldajafnaðar á móti kröfum stefnanda komi kröfur stefnda á hendur stefnanda að fjárhæð kr. 5.368.832,-.
Þess er einnig krafist að stefndi verði sýknaður af kröfu stefnanda um rétt til innistæðu á bankareikningi í vörslu Jónasar Aðalsteinssonar hrl.
Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, en til vara er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.
II.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem upp var kveðinn þann 12. október 1998, var bú Júlíusar P. Guðjónssonar ehf., kt. 480388-1439, með lögheimili í Reykjavík, en starfsstöð að Smiðjuvegi 2, Kópavogi, tekið til gjaldþrotaskipta. Sama dag var Ingimundur Einarsson, hrl. skipaður skiptastjóri búsins. Skiptabeiðandi var Tollstjórinn í Reykjavík v/ opinberra gjalda, einkum áfengisgjalds, og nam krafa hans kr. 126.755.105..
Við yfirheyrslu skiptastjóra yfir fyrrum framkvæmdastjóra félagsins, Gunnari Júlíussyni, greindi hann frá því að allar eignir Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. hefðu verið seldar með kaupsamningi þann 1. maí 1998. Kaupandi hefði verið fyrirtækið Icemex ehf., stefndi í máli þessu, sem hann hefði stofnað í febrúar 1998 ásamt félaga sínum Þóri Steingrímssyni. Afhenti hann skiptastjóra afrit af kaupsamningnum dagsett 1. maí 1998 og viðauka við kaupsamninginn dagsettan 1. júní 1998.
Samkvæmt kaupsamningnum keypti stefndi allar eignir og rekstur félagsins þannig:
Fasteignin Smiðjuvegur 2 kr. 10.500.000
Bifreiin YL-592 kr. 1.100.000
Bifreiðin YJ 803 kr. 850.000
Lagerlyftari kr. 200.000
Lagerhillur kr. 400.000
Skrifstofuhúsgögn kr. 2.000.000
Skrifstofutæki kr. 870.000
Viðskiptasambönd kr. 12.200.000
Samtals kr. 28.120.000
Kaupverðið skyldi þannig greitt:
Með yfirtöku áhvílandi láns á Smiðjuvegi 2kr. 9.070.432
Með yfirtöku lána vegna bifreiða, lyftara, skrif-
stofuhúsgagna og ljósritunarvélar, samtalskr. 3.225.352
Með útgáfu skuldabréfs til 10 árakr. 15.824.216
Lager var sérstaklega metinn og var söluverð hanskr. 20.913.388
Var um samið að lagerinn greiddist annars vegar með uppgreiðslu yfirdráttarskuldar fyrirtækisins við Búnaðarbanka Íslands í Hafnarfirði kr. 5.000.000 og hins vegar með tveimur jafnháum víxlum með gjalddaga 1. nóvember 1998 og 1. maí 1999, hvorum að fjá rhæð kr. 7.956.694.
Eins og áður greinir var gerður viðauki við kaupsamninginn þann 1. júní 1998. Segir þar að aðilar séu sammála um að kaupandi yfirtaki skuldabréf nr. 1335 að upphæð kr. 2.000.050,- í Búnaðarbankanum sem sé tilkomið vegna vörubirgða í TVG svo og að lagfærðar verði áfallnar verðbætur að upphæð kr. 404.513,- af láni hjá FBA vegna húsnæðis sem láðist að geta um í upphaflegum kaupsamningi.
Þá séu aðilar einnig sammála um að viðskiptavild (umboð) hafi verið ofmetin við upphaflega samningsgerð og séu þeir sammála um að umsamið verð skuli lækkað um helming eða í 6.100.000,- Segir síðan að þessar lagfæringar skuli ganga til lækkunar á víxlum skv. kaupsamningnum
Í málavaxtalýsingu stefnanda kemur fram að skiptastjóri hafi fengið aðgang að bókhaldsgögnum félagsins hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem hafði lagt hald á þau gögn skömmu eftir upphaf skipta. Þrotabúið hafi síðan fengið Sigurgeir Bóasson löggiltan endurskoðanda til þess að skoða bókhaldið og gera þrotabúinu grein fyrir eignum þess og afdrifum. Skýrsla endurskoðandans var lögð fram í málinu. Samhliða bókhaldsathugun hafi skiptastjóri beðið um mat á verðmæti fasteignarinnar að Smiðjuvegi 2, viðskiptavild fyrirtækisins og verðmæti þess lausafjár sem selt var 1. maí 1998. Möt þessi hafa verið lögð fram í málinu og samkvæmt þeim var söluverð fasteignarinnar áætlað kr. 16.000.000, verðmæti bifreiðarinnar IL 592 kr. 935.000, bifreiðarinnar YJ 803 kr. 1.218.000, lagerlyftara kr. 230.000, lagerhillna kr. 317.000, skrifstofuhúsgagna kr. 880.500 og skrifstofutækja kr. 392.500.
Birgir Finnbogason löggiltur endurskoðandi og Þorsteinn Víglundsson deildarstjóri hjá Kaupþingi hf. mátu viðskiptavild fyrirtækisins og komast þeir að þeirri niðurstöðu að verð það sem greitt hafi verið fyrir hana samkvæmt viðaukanum kr. 6.100.000 hafi ekki verið of lágt. Þegar stefnandi höfðaði mál þetta lá mat á verðmæti fasteignarinnar fyrir en ekki mat á lausafé og viðskiptavild.
Í stefnu segir, að við skoðun á bókhaldsgögnum þrotabúsins hafi fundist skuldabréfið, sem stefndi skyldi gefa út vegna kaupsamningsins að fjárhæð kr. 15.824.216 svo og “víxlarnir” tveir, sem áttu að vera til greiðslu á lager, hvor að fjárhæð kr. 7956.694,-. Hafi þeir báðir verið óútgefnir og ósamþykktir.
Við kyrrsetningargerð og í stefnu var ekki á það fallist af hálfu stefnanda að taka tillit til þeirra breytinga sem fólust í áðurnefndum viðauka til lækkunar á víxlunum. Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi á hinn bóginn í aðalkröfu upphaflegar kröfur sínar um kr. 6.504.513 á þeim forsendum að fallist væri á lækkun viðskiptavildar í kr. 6.100.000 og lækkun vegna verðbóta að fjárhæð kr. 404.513 vegna FBA lánsins. Í varakröfu sinni hefur stefnandi ennfremur lækkað kröfur sínar enn frekar eða um kr. 1.496.555 vegna yfirtöku stefnda á skuldabréfi í Búnaðarbankanum vegna vörubirgða í TVG upphaflega að fjárhæð kr. 2.000.050,- en að eftirstöðvum kr. 1.496.555 á yfirtökudegi.
III.
Fjárkröfur sínar í málinu byggir stefnandi í fyrsta lagi á skuldabréfi því að fjárhæð kr. 15.824.216,- er stefndi gaf út þann 6. maí 1998 samkvæmt kaupsamningnum með eigin sjálfskuldarábyrgð. Bréfið hafi verið gefið út til 10 ára með 120 mánaðarlegum afborgunum og borið 5% fasta ársvexti sem reiknast frá 16.ágúst 1998. Skuldin hafi verið bundin vísitölu neysluverðs, með grunnvísitölu 183,1. Fyrsti gjalddagi hafi verið 16. ágúst 1998. Engin afborgun hafi verið greidd af skuldabréfinu og hafi því skuldin öll verið gjaldfelld þann 8. janúar 1999 með heimild í 5. tl. skuldabréfsins frá 1. gjalddaga 16. ágúst 1998. Hafi höfuðstóll skuldabréfsins, að viðbættum verðbótum til 16. ágúst numið kr. 15.867.428,-. Sé krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 16. ágúst 1998 til greiðsludags. Þann 13. janúar 1999 hafi stefndi greitt innborgun á skuldina, kr. 954.147,- er gengið hafi til greiðslu innheimtuþóknunar og áfallinna dráttarvaxta.
Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að báðir “víxlarnir” sem áttu að vera til greiðslu mismunar v/ kaupa á lager samkvæmt kaupsamningi, hafi verið einskis virði sem slíkir, enda hvorki samþykktir né áritaðir um útgáfu. Byggir stefnandi á því að fjárhæð “víxlanna” teljist í raun ekki annað en vangoldið kaupverð. Krefst hann dráttarvaxta vegna þeirra frá 1. maí 1998. Áður er getið lækkunar stefnanda á stefnukröfum varðandi þessa víxla, sem stafar af þeim atriðum sem stefnandi hefur fallist á að taka tillit til í viðaukanum við kaupsamninginn. En í stefnu féllst stefnandi hvorki á lækkun vegna yfirtöku lánsins í Búnaðarbankanum að nafnverði 2.000.050, vegna verðbótamismunar af FBA láni kr. 404.513 né lækkunar á viðskiptavild úr 12.200.000 í 6.100.000. Er því í aðalkröfu krafist kr. 9.408.875,- vegna víxlanna og í varakröfu kr. 7.912.320. Í báðum tilvikum er krafist dráttarvaxta frá 1. maí 1998.
Þá er liður í kröfum stefnanda, að stefndi standi í viðskiptaskuld við stefnanda að fjárhæð kr. 9.057.350 . Geri Sigurgeir Bóasson löggiltur endurskoðandi grein fyrir viðskiptakröfu stefnda í greinargerð sinni til búsins og rangfærslum, bakfærslum og leiðréttingum á þeirri kröfu frá 1. maí til 12. október 1998. Sé niðurstaða hans, eftir leiðréttingar á færslum, að viðskiptaskuld stefnda við þrotabúið sé kr. 9.057.350,- og að hún hafi stofnast þann 30. júní 1998. Sé því krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.
Samkvæmt framansögðu nema því samanlagðar fjárkröfur stefnanda í aðalkröfu kr. 34.333.653,-, en í varakröfu kr. 32.837.098,-. Upphaflegar dómkröfur samkvæmt stefnu námu hins vegar kr. 40.838.166,-. Í stefnu segir að stefnanda hafi orðið ljóst að fenginni þeirri niðurstöðu að skuld stefnda næmi rúmum 40 milljónum, að allar eignir stefnda, sem ráðstafað var til hans með kaupsamningnum 1. maí 1998, hrykkju tæpast til greiðslu skuldarinnar, enda hafi stefnanda ekki verið kunnugt um aðrar eignir stefnda. Þar sem fyrrum framkvæmdastjóri fyrirtækisins og núverandi stjórnarformaður stefnda, hafði áður ráðstafað öllum eignum Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. með fyrrgreindum kaupsamningi til stefnda, hafi stefnandi talið verulega hættu á því að slíkt endurtæki sig þegar stefnda yrði kynnt krafa þrotabúsins. Hafi því verið lögð fram kyrrsetningarbeiðni þann 8. janúar 1999 hjá sýslumanninum í Kópavogi til tryggingar kröfum stefnanda þá alls að fjárhæð kr. 53.781.636. Inni í þeirri fjárhæð hafi verið veðkröfur Fjárfestingabanka atvinnulífsins og Búnaðarbanka Íslands hf. sem lýst hafði verið í þrotabúið, alls að fjárhæð kr. 9.400.596,-. Kyrrsetningargerðin hafi hafist þann 8. janúar 1999, en verið frestað til framhalds þann 11. janúar s.á. Þá hafi verið lögð fram bréf frá Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., þar sem kröfur þeirra í þrotabúið voru afturkallaðar. Hafi eignir stefnda síðan verið kyrrsettar fyrir öðrum kröfum eins og fram komi í dómkröfum stefnanda.
Þann 13. janúar 1999 óskaði stefndi eftir því við Sýslumanninn í Kópavogi að gerðin yrði endurupptekin í því skyni að leysa áfengisbirgðir í Tollvörugeymslu Zimsen ehf., eins og þær voru við uppskrift þann 11. janúar s.á., undan kyrrsetningunni, gegn jafngildum tryggingum sem settar yrðu fyrir útleystum birgðum. Var á þetta fallist af hálfu stefnda gegn eftirgreindum skilyrðum:
1. Að trygging, jafngild cif. verði útleystra áfengisbirgða, yrði lögð inn á bankabók sem yrði í vörslum lögmanns Tollvörugeymslunnar, Jónasar Aðalsteinssonar, hrl.
2. Fjárhæð sú sem lögð yrði inn á þessa bankabók stæði ávallt til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda uns fyrir lægju lyktir í staðfestingarmáli.
3. Að fyrir lægi yfirlýsing af hálfu lögmanns Tollvörugeymslunnar, þar sem hann f.h. Tollvörugeymslunnar, tæki að sér vörslu ofangreindrar bankabókar og tryggði að eingöngu yrði afhentur sá hluti áfengisbirgða gerðarþola sem sett hafi verið trygging fyrir.
4. Fyrir lægi staðfesting Tollvörugeymslu á stöðu lagers þann 11. janúar 1999 í samræmi við kyrrsetningargerð.
5. Að afhending áfengis samkvæmt ofangreindum skilyrðum gæti hafist jafnskjótt og sýslumanni hefði borist yfirlýsing lögmanns Tollvörugeymslunnar um ofangreint.
Yfirlýsing lögmanns Tollvörugeymslunnar, Jónasar Aðalsteinssonar, hrl., barst sýslumanni þann 15. janúar 1999 og voru því áfengisbirgðir í Tollvörugeymslu Zimsen ehf. leystar undan kyrrsetningu, að því marki sem jafngild fjárhæð yrði lögð inn á bankabók hverju sinni fyrir útleystum birgðum, og stæði sú bankabók til tryggingar kröfum stefnanda samkvæmt ofanrituðu.
Þann 15. janúar 1999 óskaði stefndi eftir endurupptöku gerðarinnar í því skyni að fella hana niður að hluta eða öllu leyti, en því hafnaði sýslumaður gegn mótmælum stefnanda.
Lagarök stefnanda.
Stefnandi reisir fjárkröfu sína á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um gildi fjárskuldbindinga, efndir þeirra og vanefndir. Skuldabréfið að fjárhæð kr.15.824.216,- sem stefndi gaf út þann 6. maí 1998 hafi ekki verið efnt í samræmi við ákvæði þess: Engar afborganir hefðu verið inntar af hendi þegar stefnandi óskaði kyrrsetningar í eignum stefnda þann 8. janúar 1999, og hefði það því allt verið gjaldfellt af stefnanda samkvæmt ótvíræðri heimild í 5. til. skuldabréfsins.
Samkvæmt kaupsamningi Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. og Icemex ehf. dagsettum 1. maí 1998 hafi stefndi skuldbundið sig til að greiða hluta kaupverðs með tveimur jafnháum víxlum. Stefndi hafi ekki efnt kaupsamninginn að þessu leyti, svo sem honum bar, og skipti þar engu máli þau víxileyðublöð, sem var að finna í bókhaldsgögnum þrotabúsins.
Þá sé viðaukasamningnum við kaupsamninginn mótmælt sem órökstuddum og ósönnuðum umfram það sem stefnandi hafi fallist á undir rekstri málsins.
Þá byggi krafa stefnanda vegna viðskiptaskuldar stefnda að fjárhæð kr. 9.057.350,- á faglegri úttekt löggilts endurskoðanda þrotabúsins, eftir leiðréttingu hans og bakfærslu á fylgiskjali nr. 8765. Telji endurskoðandinn í greinargerð sinni að það skjal fái engan veginn staðist og sé út í hött. Því skuldi stefndi stefnanda umrædda fjárhæð, sem hafi stofnast þann 30. júní 1998.
Um heimild til kyrrsetningar, skilyrði fyrir kyrrsetningu og málsmeðferð að öðru leyti vísar stefnandi til laga nr. 31/1991 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., aðallega 5. gr. og VI. kafla þeirra laga. Um heimild til höfðunar staðfestingarmáls vegna tryggingar úr hendi stefnda fyrir útleystum áfengisbirgðum frá Tollvörugeymslu Zimsen ehf., vísast til 38. gr. sömu laga. krafa um dráttarvexti er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr.
IV.
Í greinargerð stefnda er að miklu leyti vísað til málavaxtalýsingar stefnanda, sem í meginatriðum hefur verið rakin hér að framan. Þó eru gerðar ýmsar athugasemdir við málavaxtalýsinguna. Þannig mótmælir stefndi því sem augljósum rangfærslum, að greiðsla stefnda vegna veðskuldabréfsins að fjárhæð kr. 954.147 þann 13. janúar 199 hafi gengið til greiðslu á innheimtuþóknun og áföllnum dráttarvöxtum. Vísar stefndi til eftirfarandi bókunar í aðfarabók Sýslumannsins í Kópavogi þann 13. janúar 199 við fyrirtöku á endurupptökubeiðni stefnda. “Mætti f.h. gerðarþola býður fram greiðslu á gjaldföllnum afborgunum skuldabréfs þess sem grein er gerð fyrir í kyrrsetningarbeiðni gerðarbeiðanda en uppreiknaðar teljast þær vera að fjárhæð kr. 954.147,- að sögn gerðarþola. Umboðsmaður gerðarbeiðanda tekur við greiðslunni úr hendi gerðarþola í formi tékka með þeim fyrirvara að ekki sé með móttöku greiðslunnar verið að falla frá hugsanlegu riftunarmáli gerðarbeiðanda á hendur gerðarþola á grundvelli gjaldþrotaskiptalaganna og áskilnaði um að skila greiðslunni, ákveði skiptafundur að riftunarmál skuli höfðað. Einnig er gerður fyrirvari af hálfu gerðarbeiðanda um uppreikning gjalddaga”. Telur stefndi að með móttöku greiðslunnar hafi stefnandi skuldbundið sig til að láta greiðsluna ganga inn á gjaldfallnar afborganir og koma hinu gjaldfallna skuldabréfi í skil. Er því síðan haldið fram að stefnandi hafi neitað viðtöku á frekari afborgunum umrædds skuldabréfs, en hann hafi ekki orðið við tilmælum fyrirsvarsmans stefnda um að gefa upp númer á fjárvörslureikningi búsins. Hafi stefndi því geymslugreitt áframhaldandi afborganir.
Þá gerir stefndi athugasemdir við umfjöllun stefnanda um viðaukasamninginn og víkur að niðurstöðum matsmanna, sem sýni að kaupverð eigna hafi síst verið of lágt samkvæmt þeim samningi. Þá getur hann þess að hvorugum samningnum hafi verið rift af hálfu stefnanda. Með hliðsjón af breyttri kröfugerð stefnanda í málinu þykja ekki efni til að reifa sjónarmið stefnda frekar um þennan þátt.
Af hálfu stefnda er gerð athugasemd við kröfuliðinn viðskiptaskuld stefnda að fjárhæð kr. 9.057.350, sem stefnandi byggi á greinargerð Sigurgeirs Bóassonar löggilts endurskoðanda. Í greinargerð endurskoðandans komi fram að bókhald Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. hafi verið vel og skilmerkilega fært, en staðnæmst sé við færslu á kr. 12.450.000,- m/vsk. á vörukaupa- og lánadrottnareikningi fyrirtækisins til lækkunar á skuld stefnda við fyrirtækið. Komi fram hjá endurskoðandanum að hann treysti sér ekki til að taka tillit til þessarar færslu fyrr en nánari skýringar komi fram. Í greinargerðinni komi fram að á móti þessari “skuld” stefnda við fyrirtækið komi skuld þess við stefnda að fjárhæð kr. 3.392.650 og sé mismunurinn skuld stefnda. Við endurupptöku kyrrsetningarinnar þann 15. janúar 1999 hafi verið lagt fram bréf Péturs Guðbjartssonar löggilts endurskoðanda, endurskoðanda Júlíusar P. Guðjónssonar ehf., ásamt útskrift úr bókhaldi þess fyrirtækis, en þar séu færðar fram mjög einfaldar og eðlilegar skýringar á áðurgreindri færslu, þ.e. að til þess að Júlíus P. Guðjónsson ehf. gæti afgreitt pantanir á tímabilinu frá maí til júní 1998 hafi stefndi lagt út fyrir vörukaupum, sem stefndi hafi síðan fengið endurgreitt þegar varan hafði verið seld. Telji stefndi því fram komnar skýringar á þeirri óvissu sem talin var vera fyrir hendi og því sé um að ræða viðskiptaskuld stefnanda við stefnda. Þessu til stuðnings megi benda á dskj. nr. 34, en þar komi fram yfirlit yfir sölu fyrirtækisins í maí og júní 1998 eða samtals að fjárhæð kr. 26.017.319. Í ljósi þess að allar birgðir fyrirtækisins voru seldar stefnda gefi auga leið að einhvern veginn hafi Júlíus P. Guðjónsson ehf. þá komið höndum yfir vörur til þess að standa undir þeirri sölu. Það sé því hugsunarvilla að unnt sé að selja varning fyrir milljónir króna án nokkurra birgða. Þá vísar stefndi til reiknings úr bókhaldi fyrirtækisins, sem er reikningur frá stefnda stílaður á Júlíus P. Guðjónsson ehf. að fjárhæð kr. 12.450.000 vegna vöruflæðis.
Er því haldið fram af hálfu stefnda að þar sem ekki hafi náðst að kynna þær breytingar sem fólust í samningum stefnanda og stefnda frá 1. maí 1998 hafi verið ákveðið að selja áfram vörur undir merkjum Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. til loka júní 1998. Á tímabilinu frá 1. maí til 30 júní 1998 hafi stefndi leyst út vörur úr Tollvörugeymslunni sem JPG og stefndi seldu síðan eftir því sem við átti. Hafi vörukaup stefnda á þessu tímabili verið sem hér segir:
Afgreiðslugjald kr. 110.075
Skilagjald kr. 571.701
Áfengisgjald kr. 10.068.818
Virðisaukaskattur kr. 4.745.071
Innkaupsverð vörubirgða kr. 3.871.971
Af hálfu stefnda er á því byggt, að á tímabilinu maí-júní 1998 hafi JPG greitt kr. 1.210.980 til sýslumannsins í Kópavogi samkvæmt sérstöku samkomulagi. Hafi þessar greisður runnið beint frá ÁTVR til sýslumanns, en peningarnir hafi orðið til vegna sölu í sérverslun ÁTVR á Stuðlahálsi. Hafi vörurnar sem greitt var fyrir verið eign stefnda frá og með 1. maí 1998 og verði því að telja að þrotabúið skuldi stefnda þessa fjárhæð.
Þá er á því byggt að fjárhæð láns hjá Búnaðarbanka Íslands hf. sem stefndi yfirtók hafi verið nokkru hærra en get var ráð fyrir í samningum aðila. Þar muni kr. 765.202. Í greinargerð Sigurgeirs Bóassonar sé staðfest að viðskiptaskuld stefnanda við stefnda nemi kr. 3.392.65ö. Samtals geri þetta kr. 5.368.832. Sé það skuldajafnaðarkrafa stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Kröfu sína um niðurfellingu kyrrsetningarinnar í heild sinni byggir stefndi í fyrsta lagi á vanhæfi Sýslumannsins í Kópavog, í öðru lagi á því að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 1. mgr. 5. gr. KYL.og í þriðja lagi á því að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 2. mgr. 5. gr. KYL.
Að því er fyrstu málsástæðuna varði komi fram í gögnum málsins að langstærsta krafan sem lýst var í þrotabúið hafi verið krafa Tollstjórans í Reykjavík vegna vangoldins áfengisgjalds. Sýslumaðurinn í Kópavogi hafi haft með innheimtu áfengisgjaldsins að gera; þar hafi verið staðið skil á innborgunum á áfengisgjaldinu til ríkissjóðs. Samkvæmt 6. gr.laga nr.96/1995 um gjald af áfengi og með vísan til reglugerðar, hafi sýslumanni borið að taka tryggingu fyrir skilum á áfengisgjaldinu. Það hafi ekki verið gert auk þess sem það hljóti að teljast verulega ámælisvert fyrir þennan innheimtumann ríkissjóðs að láta jafn stóra upphæð safnast upp sem raun bar vitni. Það kunni því að varða miklu embættisheiður sýslumanns sjálfs að sem mest komi upp í kröfu ríkissjóðs á hendur þrotabúinu. Engu breyti í þessu tilviki þótt Tollstjórinn í Reykjavík hafi á síðari stigum yfirtekið innheimtu áfengisgjaldsins.
Almennt valdi það ekki vanhæfi sýslumanns við aðfarargerð að hann sé sjálfur innheimtumaður, enda liggi þá til grundvallar gildar aðfararheimildir. Kyrrsetning sé hins vegar bráðabirgðaaðgerð sem krefjist mun meira mats þess er framkvæmir gerðina á málsatvikum, varðandi það hvort skilyrði kyrrsetningar séu fyrir hendi.
Varðandi aðra málsástæðuna er af hálfu stefnda á því byggt, að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1991, þar sem kveðið sé á um það að sennilegt megi telja, að fari kyrrsetning ekki fram, muni draga mjög úr líkindum til að fullnusta kröfu takist eða að hún verði verulega örðugri. Segi í greinargerð með 5. gr. að fyrirmæli þessi beri að skilja sem svo að raunhæfa nauðsyn beri til vegna hagsmuna kröfuhafa. Eini rökstuðningurinn í kyrrsetningarbeiðni stefnanda fyrir því að þessi lagaskilyrði hafi verið til staðar hafi annars vegar verið að fyrirsvarsmaður Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. og síðar stjórnarformaður stefnda hefði ráðstafað öllum eignum félagsins til stefnda og hins vegar væri það ljóst að þær eignir sem stefndi keypti af félaginu dygðu ekki til að standa undir kröfum stefnanda. Telur stefndi hægt að vísa fyrra atriðinu á bug, þar sem ljóst sé með hliðsjón af niðurstöðum matsmanna að eignir Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. voru seldar á eðlilegu verði. Þegar horft sé síðan á fjárhæð réttmætra krafna sé augljóst að mati stefnda að síðara atriðið eigi ekki við.
Þá byggi stefndi í þriðja lagi á því að þær kröfur sem til gundvallar kyrrsetningunni voru lagðar, séu fallnar niður: Séu þar með skilyrði 2. mgr. 5. gr. KYL ekki lengur fyrir hendi og forsendur fyrir niðurfellingu kyrrsetningarinnar þar með til staðar, sbr. 3. tl. 3. mgr. 22. gr. KYL.
Bendir stefndi á að við framhald kyrrsetningarinnar þann 11. janúar 1998 hafi verið fallið frá hluta þeirra krafna sem upphaflega lágu að baki kyrrsetningarbeiðninni, nánar tiltekið vegna lánanna frá Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., sem afturkallað höfðu kröfur þær er þeir lýstu í þrotabúið og samþykkt að lán hvíldu áfram á fasteigninni að Smiðjuvegi 3. Þá hafi stærsta einstaka krafa stefnanda að baki kyrrsetningunni fallið niður við endurupptöku kyrrsetningarinnar þann 13. janúar 1999 þegar skuldabréfakröfu að fjárhæð kr. 15.824.216,- var komið í skil. Þá byggir stefndi á því að að þær kröfur sem þá standi eftir séu það vafasamar einar og sér að þær geti ekki legið til grundvallar kyrrsetningu. Í stefnu sé á því byggt að vangoldið sé kaupverð lagers þess sem stefndi keypti af Júlíusi P. Guðjónssyni ehf. í formi tveggja víxla samtals að fjárhæð kr. 15.913.388. Frá þeirri upphæð sé rökrétt að draga upphæð víxils sem enn sé ekki kominn á gjalddaga, kr. 7.956.694. Standi þá eftir fjárhæð þess víxils sem í gjalddaga var fallinn samkvæmt kyrrsetningarbeiðni, kr. 7.956.694. Bendir stefndi á að samkvæmt viðauka við kaupsamninginn hafi verið samið um að kr.8.001.068 skyldu koma til lækkunar á víxilskuldum þessum, þ.e. vegna yfirtöku eftirstöðva lánsins hjá Búnaðarbanka Íslands hf., kr. 1.496.555, með lagfæringu verðbóta vegna yfirtekins láns hjá FBA, kr. 404.513 og með lækkun kaupverðs lagers með lækkun viðskiptavildar um kr. 6.100.000, sem matsmenn hafi staðfest að væri réttmæt. Heldur stefndi því fram að meðan kaupsamningsviðaukanum hafi ekki verið rift standi hann, sérstaklega í ljósi þess að ekki sé krafist tryggingar á hugsanlegum kröfum þrotabúsins í tengslum við hugsanlega riftun. Þá er á því byggt varðandi kröfu stefnanda um viðskiptaskuld stefnda, að af hálfu stefnda hafi verið færðar fram mjög einfaldar og eðlilegar skýringar á umþrættri 10 mílljón króna færslu.
Verði ekki fallist á það að allar kröfur stefnanda séu fallnar niður krefjist stefndi þess að hluti kyrrsetningarinnar verði látinn niður falla. Hið kyrrsetta sé mun verðmætara en þær kröfur sem eftir standi, en upphafleg fjárhæð sem krafist var kyrrsetningar fyrir hafi numið 50 milljónum króna.
Um lagarök vísar stefndi til 5. gr. laga nr.31/1991, varðandi dráttarvaxtakröfu til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og varðandi málskostnað til 129. og 130 gr. laga nr. 91/1991.
Við aðalmeðferð málsins gáfu munnlegar skýrslur Gunnar Júlíusson annar eigenda stefnda, Þórir Einar Steingrímsson, framkvæmdastjóri stefnda og vitnin Sigurgeir Bóasson, löggiltur endurskoðandi og Pétur Guðbjartsson, löggiltur endurskoðandi.
Niðurstöður.
Eins og að framan getur, greiddi stefndi stefnanda 954.147 krónur við fyrir töku á beiðni stefnda um endurupptöku kyrrsetningarinnar hjá Sýslumanninum í Kópavogi þann 13 janúar 1999. Kemur fram í bókun í aðfarabók sýslumanns að boðin hafi verið fram greiðsla á gjaldföllnum afborgunum skuldabréfsins sem um ræðir, sem uppreiknaðar teljist vera kr. 954.147. Byggði stefndi þá fjárhæð á útreikningi Búnaðarbanka Íslands á skuldabréfinu. Umboðsmaður stefnanda tók við greiðslunni með þeim fyrirvara annars vegar, að ekki væri með móttöku greiðslunnar verið að falla frá hugsanlegu riftunarmáli á grundvelli gjaldþrotaskiptalaga og því væri áskilnaður um að skila greiðslunni ákvæði skiptafundur að riftunarmál skyldi höfðað og hins vegar gerði umboðsmaðurinn fyrirvara um uppreikning gjalddaga.
Dómurinn telur að á hvorugan fyrirvarann hafi reynt. Í fyrsta lagi var riftunarmál ekki höfðað og í öðru lagi hefur uppreikningi gjalddaga við greiðsluna ekki verið mótmælt sem röngum. Til þess ber að líta að við móttöku greiðslunnar var af hálfu stefnanda enginn fyrirvari gerður um greiðslu innheimtukostnaðar vegna skuldabréfsins.
Óumdeilt er í málinu að stefnandi gjaldfelldi skuldabréfið þann 8. janúar 1999 samkvæmt heimild í bréfinu sjálfu. Á hinn bóginn verður að telja að með móttöku greiðslunnar 13. janúar 1999 með þeim fyrirvörum sem að framan getur hafi skuldabréfinu verið komið í skil og gjaldfelling bréfsins þar með úr sögunni. Af þeim sökum kemur því ekki til þess í máli þessu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda andvirði skuldabréfs þessa eins og krafist er af hálfu stefnanda. Eftir þessum úrslitum koma kr. 954.147, sem stefndi greiddi 13. janúar 1999 vegna skuldabréfsins ekki til frádráttar öðrum kröfum stefnanda í máli þessu.
Aðilar deila um það hvort stefndi standi í viðskiptaskuld við stefnanda að fjárhæð kr. 9.057.350 eins og stefnandi heldur fram eða hvort þessu sé öfugt farið og að um hafi verið að ræða viðskiptaskuld Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. við stefnda að fjárhæð kr. 3.392.650 eins og stefndi heldur fram.
Í greinargerð Sigurgeirs Bóassonar löggilts endurskoðanda kemur fram að samkvæmt stöðulista úr bókhaldi Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. skuldi stefndi því félagi ekki neitt, heldur sé niðurstaða bókhaldsins þvert á móti sú að Júlíus P. Guðjónsson ehf. skuldi stefnda kr. 3.392.650 miðað við eftirfarandi niðurstöðu bókhalds.
DebetKredit
Icemex ehf. skv. stöðulista viðskiptabókalds:2.066.076
Icemex ehf. skv. stöðulistalánadrottnabókhalds5.458.726
2.066.0765.458.726
Mismunur:3.392.650
Gerir endurskoðandinn síðan þá breytingu á niðurstöðum bókhalds varðandi viðskipti Icemex ehf., að ekki sé tekið með í reikninginn fylgiskjal nr. 8765, en það skjal veki upp spurningar um trúverðugleika, bæði formlega og efnislega. Þetta skjal segi og sé bókfært þannig, að þann 30. júní 1998, eða mánuði eftir að Júlíus P. Guðjónsson ehf. seldi allan rekstur sinn til stefnda, þá hafi stefndi selt Júlíusi P. Guðjónssyni ehf. vörur fyrir kr. 10.000.000 án virðisaukaskatts, eða kr. 12.450.000 með virðisaukaskatti, og sé þessi upphæð bókfærð á vörukaupa- og lánadrottnareikning til lækkunar á skuld Icemex ehf. við Júlíus P. Guðjónsson ehf. Telur endurskoðandinn skjalið efnislega fjarri því að hægt sé að taka það með og formlega út í hött ef um alvöru viðskipti hefði verið að ræða. Leiðréttir endurskoðandinn færslur samkvæmt þessu skjali með bakfærslu og eftir það fær hann út að stefndi skuldi Júlíusi P. Guðjónssyni kr. 9.057.350 þannig:
DebetKredit
Icemex ehf. skv. stöðulista viðskiptabókalds:2.066.076
Icemex ehf. skv. stöðulistalánadrottnabókhalds5.458.726
14.516.0765.458.726
Mismunur:9.057.350
Pétur Guðbjartsson, löggiltur endurskoðandi, gerði athugasemdir við greinargerð Sigurgeirs Bóassonar. Í bréfi hans dagsettu 11. janúar 1999 segir: “Á tímabilinu maí-júní 1998 leysti Icemex ehf. út vöru fyrir Júlíus P. Guðjónsson ehf., þ.e. sá um vörukaup fyrir félagið. Júlíus P. Guðjónsson var með vörusölu með höndum allt til loka þess tímabils. Gefinn var út reikningur í lok þess tímabils frá Icemex ehf. á hendur Júlíusi P. Guðjónssyni ehf. fyrir þessum viðskiptum og nam hann kr. 10.000.000 fyrir utan virðisaukaskatt, en kr. 12.450.000 með virðisaukaskatti og færðist á viðskiptareikning félagsins”.
Í málinu er upplýst að Sigurgeir Bóasson löggiltur endurskoðandi hafði ekki undir höndum reikning stefnda á hendur Júlíusi P. Guðjónssyni ehf., dskj. 35, er hann gerði framangreindar breytingar á bókhaldi félagsins. Hinn sérfróði meðdómsmaður er sammála því mati Sigurgeirs Bóassonar að ekki hafi átt að taka mark á þessum færslum miðað við þau gögn er hann hafði þá undir höndum. Á hinn bóginn hafi eftir það komið fram frekari gögn sem geri það að verkum að taka verði skýringar stefnda á þessum viðskiptum fyrirtækjanna til greina. Á það einkum við reikning stefnda á dskj. nr. 35 og bréf Péturs Guðbjartssonar endurskoðanda á dskj. nr. 34. Telur dómurinn því sterkar líkur hafa verið leiddar að því að raunveruleg viðskipti hafi átt sér stað milli fyrirtækjanna með þeim hætti er stefndi heldur fram. Samkvæmt því stóð Júlíus P. Guðjónsson ehf. í viðskiptaskuld við stefnda að fjárhæð kr. 3.392.650.
Samkvæmt þessu verður því ekki fallist á þennan kröfulið stefnanda og stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda að því er er varðar viðskiptaskuld stefnda að fjárhæð kr. 9.057.350.
Samkvæmt kaupsamningi skyldi greiða fyrir lager m.a með útgáfu tveggja víxla hvors að fjárhæð kr. 7.956.694, annars með gjalddaga 1. nóvember 1998 en hins með gjalddaga 1. maí 1999. Hvorugur víxillinn var gefinn út. Í viðauka við kaupsamninginn var ákveðið að lækkun viðskiptavildar samkvæmt kaupsamningi um kr. 6.100.000, vanreiknaðar verðbætur vegna FBA láns kr. 404.513 og yfirtaka skuldabréfs hjá B.Í vegna vörukaupa að fjárhæð kr. 2.000.050 skyldi ganga til lækkunar á víxilskuldinni. Af hálfu stefnanda er í aðalkröfu fallist á lækkun stefnukrafna að þessu leyti um kr. 6.100.000 og 404.513 eða samtals kr. 6.504.513 og í varakröfu um kr. 1.496.555 að auki sem voru eftirstöðavar 2.000.050 króna skuldabréfsins á yfirtökudegi. Dómurinn telur að byggja verði á viðaukanum að öllu leyti enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að stefndi hafi ekki yfirtekið skuldabréfið í B.Í að fjárhæð kr.1.496.555. Koma því samtals til lækkunar þeirri fjárhæð sem stefndi átti að greiða samkvæmt víxlunum sem gefa átti út kr. 8.001.068. Samanlagt andvirði víxlanna nam kr. 15.913.388. Samkvæmt því skuldar stefndi enn vegna þeirra kr. 7.912.320. Samkvæmt því verður að miða við að fjárhæð samkvæmt fyrri víxlinum hafi greiðst að fullu við undirritun viðaukans við kaupsamninginn.
Eins og áður greinir voru víxlarnir aldrei gefnir út. Ber því að fallast á þau sjónarmið stefnanda að líta beri á fjárhæð þeirra sem vangreitt kaupverð. Á það við seinni víxilinn. Verður við það að miða að fjárhæð víxlanna hafi verið gjaldfallin sama dag og kaupsamningur var gerður eða 1. maí 1998. Verða dráttarvextir því miðaðir við þann dag.
Með hliðsjón af því er að ofan greinir um viðskiptaskuldina þykir ljóst að Júlíus P. Guðjónsson ehf. stóð í viðskiptaskuld við stefnda eftir umrædd viðskipti eins og fram kemur í greinargerð Sigurgeirs Bóassonar löggilts endurskoðanda. Nemur sú fjárhæð 3.392.650 krónum. Af hálfu stefnda er þess krafist að sú fjárhæð komi til skuldajafnaðar við tildæmdar kröfur stefnanda. Dómurinn telur skilyrði til skuldajafnaðar fyrir hendi að þessu leyti og verða tildæmdar kröfur stefnanda lækkaðar sem þessu nemur. Að auki hefur stefndi krafist þess að til skuldajafnaðar komi kr. 1.210.980 vegna greiðslu Júlíusar P.Guðjónssonar ehf. til sýslumannins í Kópavogi á tímabilinu maí- júní 1998, vegna greiðslna frá ÁTVR vegna vara sem tilheyrðu stefnda og kr. 765.202 vegna þess að yfirtekið lán hjá Búnaðarbanka Íslands hf. hefði reynst hærra sem þessu nemi en gert hafi verið ráð fyrir í kaupsamningi. Af hálfu stefnda hafa þessir kröfuliðir ekki verið rökstuddir með viðhlítandi hætti auk þess sem þeir eru ekki studdir gögnum. Ber því að hafna því að þessir kröfuliðir komi til skuldajafnaðar við tildæmdar kröfur stefnanda.
Samkvæmt framansögðu er niðurstaða dómsins því sú að stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda 4.519.670 krónur með dráttarvöxtum frá 1. maí 1998 til greiðsludags.
Dómurinn telur stefnda ekki hafa fært fram rök fyrir því að fella beri kyrrsetningu niður vegna vanhæfis Sýslumannins í Kópavogi. Samkvæmt framlögðum gögnum var það Tollstjórinn í Reykjavík sem hafði með innheimt áfengisgjaldsins að gera en ekki Sýslumaðurinn í Kópavogi. Kom það einnig fram í framburði fyrrum framkvæmdastjóra Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. fyrir dóminum að gjaldið hefði jafnan verið greitt hjá Tollstjóranum í Reykjavík og við hann samið um greiðslufresti. Er því ekki fallist á niðurfellingu kyrrsetningarinnar af þessum sökum.
Að öðru leyti telur dómurinn að skilyrði hafi verið fyrir kyrrsetningu á þeim tíma sem hún var framkvæmd og miðað við þau gögn sem þá voru til staðar. Ber því að staðfesta kyrrsetningargerðina sem fram fór hjá stefnda þann 11. janúar 1999, framkvæmd af Sýslumanninum í Kópavogi, en endurupptekin að hluta þann 13. ajnúar 1999, í eftirtöldum eignum stefnda: Fasteigninni að Smiðjuvegi 2, Kópavogi, eignarhluta gerðarþola samkvæmt kaupsamningi dags. 1. maí 1998, bifreiðunum YJ-803 og RT-719, lagerhillum, skrifstofuhúsgögnum og skrifstofutækjum, áfengisbirgðum á lager stefnda og áfengisbirgðum stefnda í Tollvörugeymslunni Zimsen ehf., samkvæmt uppskrift þann 11. janúar 1999 til, en þó að teknu tilliti til þeirrar úrlausnar sem fjárkrafa stefnanda hefur sætt með dómi þessum.
Þá er staðfestur réttur stefnanda til innistæðu á bankabók í vörslu Jónasar Aðalsteinssonar hrl., sem er andvirði útleystra áfengisbirgða stefnda úr Tollvörugeymslu Zimsen ehf. frá 13. janúar 1999 og allt til dómsuppkvaðningar í staðfestingamáli, allt í samræmi við skilmála sem bókaðir voru hjá Sýslumanninum í Kópavogi þann 13. janúar 1999, en þó að teknu tilliti til þeirrar úrlausnar sem fjárkrafa stefnanda hefur sætt með dómi þessum.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur. Er þá meðtalinn útlagður kostnaður stefnanda við kyrrsetninguna og höfðun máls þessa svo og virðisaukaskattur af málflutningsþóknun.
Dóm þennan kveða upp Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari og meðdómsmennirnir Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari og Guðmundur R. Óskarsson, löggiltur endurskoðandi.
Dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómara. Dómarar og lögmenn eru sammála um að endurflutningur sé óþarfur.
D ó m s o r ð :
Stefndi Icemex ehf. greiði stefnanda Þrotabúi Júlíusar P. Guðjónssonar ehf.
4.519.670 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1998 til greiðsludags.
Kyrrsetningargerðin sem fram fór hjá stefnda þann 11. janúar 1999, framkvæmd af Sýslumanninum í Kópavogi, en endurupptekin að hluta þann 13. janúar 1999, í eftirtöldum eignum stefnda: Fasteigninni að Smiðjuvegi 2, Kópavogi, eignarhluta gerðarþola samkvæmt kaupsamningi dags. 1. maí 1998, bifreiðunum YJ-803 og RT-719, lagerhillum, skrifstofuhúsgögnum og skrifstofutækjum, áfengisbirgðum á lager stefnda og áfengisbirgðum stefnda í Tollvörugeymslunni Zimsen ehf., samkvæmt uppskrift þann 11. janúar 1999, er staðfest, en þó að teknu tilliti til þeirrar úrlausnar sem fjárkrafa stefnanda hefur sætt með dómi þessum.
Réttur stefnanda til innistæðu á bankabók í vörslu Jónasar Aðalsteinssonar hrl., sem er andvirði útleystra áfengisbirgða stefnda úr Tollvörugeymslu Zimsen ehf. frá 13. janúar 1999 og allt til dómsuppkvaðningar í staðfestingamáli, allt í samræmi við skilmála sem bókaðir voru hjá Sýslumanninum í Kópavogi þann 13. janúar 1999, er staðfestur, en þó að teknu tilliti til þeirrar úrlausnar sem fjárkrafa stefnanda hefur sætt með dómi þessum.
Stefndi Icemex ehf. greiði stefnanda Þrotaabúi Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. 600.000 krónur í málskostnað.