Hæstiréttur íslands

Mál nr. 433/2010


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón


Fimmtudaginn 10. febrúar 2011.

Nr. 433/2010.

Baldvin Einar Einarsson

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

gegn

Mjólkursamsölunni ehf.

(Kristín Edwald hrl.)

Vinnuslys. Líkamstjón.

B krafðist skaðabóta úr hendi vinnuveitanda síns, M ehf., vegna líkamstjóns sem hann hlaut við vinnu sínu í kæligeymslu. Hæstiréttur taldi að M ehf. hefði ekki gætt fyrirmæla um að tryggja að framkvæmd vinnu og aðstæður á vinnustað væru þannig að gætt væri fyllsta öryggis starfsmanna, sbr. 37. og 42. gr. laga nr. 46/1980. Voru kröfur B því teknar til greina. Þá hafnaði Hæstiréttur kröfu M ehf., þess efnis að B bæri meðábyrgð á líkamstjóni sínu, enda taldi rétturinn sýnt í málinu að starfsmenn M ehf. hefðu vakið athygli verkstjóra á hinum saknæmu aðstæðum og að ræddar hefðu verið leiðir til úrbóta, sem þó hefði ekki verið hrint í framkvæmd.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júlí 2010. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda, Mjólkursamsölunnar ehf., vegna líkamstjóns sem áfrýjandi hlaut í vinnuslysi 16. maí 2006, í kæligeymslu atvinnuhúsnæðis stefnda að Bitruhálsi 1 í Reykjavík. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði einungis dæmdur skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss áfrýjanda og málskostnaður falli niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi varð fyrir slysi við störf sín hjá stefnda laust eftir hádegi 16. maí 2006. Óumdeilt er að hann var á vinnustað til loka vinnudagsins, en hann kveðst sjálfur ekki hafa þá getað unnið neitt vegna slyssins. Hann leitaði til læknis daginn eftir og var óvinnufær samkvæmt læknisvottorði til 6. júní 2006 er hann kom til starfa á ný. Þann dag undirritaði verkstjóri stefnda, Helgi Hannesson, ásamt öryggistrúnaðarmanni tilkynningu til Vinnueftirlitsins um slysið. Í skýrslu verkstjórans fyrir dómi kom fram að hann hafi vitað um slysið daginn sem það varð, en ekki hafi þá legið fyrir hversu alvarlegt það var. Hann kvaðst, eftir að honum varð ljóst að áfrýjandi var óvinnufær um nokkurn tíma, hafa ákveðið að bíða með tilkynningu til Vinnueftirlitsins þar til áfrýjandi kæmi aftur til starfa þar sem áfrýjandi hafi þekkt atvik að slysinu, sem hann sjálfur hafi ekki gert.

Stefndi sinnti samkvæmt framansögðu ekki skyldu sinni samkvæmt því sem mælt er fyrir um í 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum um að tilkynna vinnuslysið til Vinnueftirlitsins innan viku frá því það átti sér stað. Aðstæður á vinnustað voru óbreyttar þegar tilkynning var send og liggur ekkert fyrir um að ekki hafi verið unnt að rannsaka atvik að slysinu með fullnægjandi hætti, þótt tilkynning hafi ekki verið send á réttum tíma. Að auki hefur við meðferð málsins verið upplýst hvernig atvik að slysinu voru, að því marki sem unnt er. Hefur því brot stefnda á reglum um tilkynningarskyldu á vinnuslysum í 79. gr. laga nr. 46/1980 ekki áhrif við mat á sönnun í málinu.

II

Eins og greinir í héraðsdómi var áfrýjanda ásamt samstarfsmanni sínum, Sigurði Gunnari Sigfússyni, falið að skipta um reimar í kælibúntum og smyrja í legur. Kælibúntin eru staðsett í um sex metra hæð frá gólfi í kæligeymslunni og notuðu þeir svonefnda skæralyftu til að komast upp að þeim. Var lyftan stöðvuð þegar handrið hennar nam við neðri brún röra, sem lágu neðan við kælibúntin. Á því kælibúnti, sem áfrýjandi og samstarfsmaður hans unnu við, þegar slysið varð, er mannop á öðrum endanum, sem veit út að láréttum kapalstiga. Áfrýjandi, sem átti að fara inn í kælibúntið, þurfti að koma sér fyrst upp úr skæralyftunni og upp á kapalstigann, sem er nálægt því að vera í brjósthæð þegar staðið er í skæralyftunni. Þaðan þurfti hann svo að smeygja sér inn um mannopið í kælibúntið og mjaka sér áfram um 180 sentimetra til að vinna verk það sem honum var falið. Mannopið er þröngt, en kælibúntið er 41 sentimetri á annan veginn en 54 sentimetrar á hinn. Er áfrýjandi hafði sinnt verkefninu mjakaði hann sér liggjandi á bakinu til baka og þegar fæturnir voru komnir út um mannopið fann hann fótfestu til þess að lyfta rassi og mjöðmum yfir brún mannopsins og að því búnu lyfti hann þessum hluta líkamans. Þá skrikaði honum fótur af ástæðum, sem ekki er upplýst um, og féll niður á brún mannopsins með mjóbakið. Hlaut hann af því líkamstjónið, sem hann krefst bóta fyrir í málinu.

III

Þótt verk það, sem áfrýjandi vann umrætt sinn, kunni að hafa verið einfalt voru aðstæður við að komast inn og út úr kælibúntinu og þaðan niður í skæralyftuna þröngar og erfitt um vik með allar hreyfingar. Eru þessar erfiðu aðstæður orsök þess að áfrýjandi varð fyrir líkamstjóninu.

Áfrýjandi hefur lagt fram vottorð lækna um meiðsli sín og afleiðingar þeirra. Telst nægilega sannað að hann hafi í slysinu hlotið líkamsjón, sem haft hefur varanlegar afleiðingar fyrir hann. Í þessu máli, sem höfðað er sem viðurkenningarmál, verður hvorki skorið úr um hverjar hinar varanlegu afleiðingar séu né hvort eldri meiðsli kunni að hafa þýðingu við mat á afleiðingum slyssins.

Ekki er umdeilt í málinu að Vinnueftirlitið hafði hvorki gert athugasemdir við starfsaðstæður í kæligeymslunni eða kælibúntin né skæralyftuna. Í málinu hefur verið lögð fram skýrsla Vinnueftirlitsins frá 2005 um skoðun á skæralyftunni.

Í skýrslum, sem teknar voru fyrir dómi af áfrýjanda, Sigurði Gunnari Sigfússyni og Helga Hannessyni, sem var þjónustustjóri stefnda er slysið varð og fór með verkstjórn yfir áfrýjanda og framangreindum samstarfsmanni hans, kemur fram það mat áfrýjanda og verkstjórans að vinnuaðstaðan við framkvæmd verksins hafi ekki verið góð. Fram hafi komið ábending öryggistrúnaðarmanns um úrbætur, sem falist hafi í því að setja annað mannop á hinn enda kælibúntsins, en þannig hefði verið unnt að vinna það verk, sem áfrýjandi sinnti er hann slasaðist, standandi í skæralyftunni. Þessi lausn hefði verið rædd en ekki af þeirri alvöru að leitt hefði til þess að hún kæmi til framkvæmda. Kostnaður hefði að mati þjónustustjóra ekki verið ,,ýkja mikill“. Hann taldi þó að þessi ráðstöfun hefði ,,hugsanlega ekki endilega fyrirbyggt þetta“ slys.

Samkvæmt framansögðu verður að ætla að unnt hefði verið, án verulegs tilkostnaðar, að gera ráðstafanir, sem líklegt er að aukið hefðu öryggi starfsmanna við framkvæmd þeirrar vinnu, sem hér um ræðir. Verður fallist á með áfrýjanda, að sýnt sé fram á, að stefndi hafi ekki gætt fyrirmæla 37. gr. og 42. gr. laga nr. 46/1980 um að tryggja að framkvæmd vinnu og aðstæður á vinnustað væru þannig að gætt væri fyllsta öryggis starfsmanna og beri því ábyrgð á líkamstjóni áfrýjanda.

Á áfrýjanda, sem unnið hafði hjá stefnda um tíu ára skeið, er slysið varð, hvíldi samkvæmt 26. gr. laga nr. 46/1980 skylda til þess að stuðla að öruggum starfsskilyrðum og vekja athygli vinnuveitanda eða verkstjóra á vanbúnaði eins og þeim, sem hér um ræðir. Í málinu er upplýst og óumdeilt að starfsmenn höfðu vakið athygli verkstjóra á aðstæðum og voru ræddar leiðir til úrbóta, sem þó var ekki hrint í framkvæmd. Getur stefndi því ekki borið fyrir sig að skyldu samkvæmt 26. gr. laga nr. 46/1980 hafi ekki verið sinnt og skiptir í því efni ekki máli, hvort það var áfrýjandi eða annar starfsmaður sem kom með ábendinguna. Mátti stefnda því vera kunnugt um vanbúnaðinn. Verður heldur ekki talið að áfrýjandi hafi borið sig gáleysislega að við verkið eða öðru vísi en stefndi ætlaðist til af honum. Verður því hafnað að áfrýjandi eigi að bera meðábyrgð á líkamstjóni sínu.

Samkvæmt framansögðu verður viðurkennd skaðabótaskylda stefnda á líkamstjóni því sem áfrýjandi hlaut í vinnuslysi þann 16. maí 2006 í kæligeymslu atvinnuhúsnæðis stefnda að Bitruhálsi 1 í Reykjavík.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Mjólkursamsölunnar ehf., vegna líkamstjóns er áfrýjandi, Baldvin Einar Einarsson, hlaut í vinnuslysi þann 16. maí 2006, í kæligeymslu atvinnuhúsnæðis stefnda að Bitruhálsi 1 í Reykjavík.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.000.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2010.

Mál þetta, sem var dómtekið 5. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Baldvini Einari Einarssyni, Logafold 156, Reykjavík á hendur Mjólkursamsölunni ehf., Bitruhálsi 1, Reykjavík og Sjóvá Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu birtri 5. janúar 2010.

Stefnandi krefst þess, að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda, Mjólkursamsölunnar ehf., vegna líkamstjóns er hann hlaut í vinnuslysi hinn 16. maí 2006, í kæligeymslu atvinnuhúsnæðis stefnda, að Bitruhálsi 1, Reykjavík.

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Ekki eru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað.

Stefnda krefst þess til vara, að hún verði einungis dæmd skaðabótaskyld að hluta vegna slyss stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar, en réttargæslustefndi tekur undir kröfur og málatilbúnað stefndu.

Málavextir

Stefnandi er vélvirki að mennt og atvinnu. Á árinu 1996 hóf hann störf hjá stefnda. Hinn 16. maí 2006 slasaðist hann við vinnu sína í kæligeymslunni. Samkvæmt verkbeiðni átti að skipta um reimar í kælibúntum og smyrja legur. Tólf kælibúnt eru í kæligeymslu stefnda og eru þau upp við loft. Um árlegt eftirlit var að ræða og vann Sigurður Gunnar Sigúfsson, samstarfsmaður stefnanda, síðar þjónustustjóri stefnda, verkið ásamt stefnanda. Vaninn var að tveir sinntu umræddu verki. Annar þeirra skreið inn í kælibúntið og hinn stóð í skæralyftunni og handlangaði verkfæri og aðstoðaði að öðru leyti. Stefnandi skreið inn að þessu sinni og Sigurður Gunnar varð eftir á lyftunni. Slysið átti sér stað við kælibúnt 9. Til að komast inn í kælibúntið þurfti að opna svokallað mannop sem er á öðrum enda kælibúntsins. Lengd kælibúntsins, að viðgerðarstað, er um það bil 180 cm. Mannopið er um 41 cm á hæð og 54 cm á breidd. Til að komast að reimunum og búkkalegunum þurfti að mjaka sér áfram á annarri hliðinni með hendur fyrir ofan höfuð og þarf m.a. að fara með fram mótor og blásara sem eru inni í búntinu. Slysið átti sér stað þegar stefnandi var að skríða út úr kælibúntinu. Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvernig það átti sér stað svo sem reifað er í niðurstöðukafla dómsins.

Slysið varð um kl. 14 og lauk stefnandi vinnu þann dag. Daginn eftir leitaði hann til heilsugæslunnar í Grafarvogi og var frá vinnu vegna slyssins í samtals 12 vinnudaga. Hinn 6. júní 2006 var Vinnueftirliti ríkisins tilkynnt um slysið.

Með bréfi stefnanda til réttargæslustefnda 6. febrúar 2009 var þess farið á leit við félagið, að það viðurkenndi skaðabótaskyldu stefnda, vegna slyss stefnanda. Með tölvupósti réttargæslustefnda 4. mars 2009 var bótaskyldu hafnað, með þar tilgreindum hætti. Því er mál þetta höfðað.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að slys hans sé skaðabótaskylt samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Slys hans megi rekja til þess að honum var falið að vinna að erfiðu verki við varhugaverðar vinnuaðstæður í kæligeymslu stefnda, í mikilli hæð og við lágan lofthita, án þess að nægar öryggisráðstafanir hefðu verið gerðar til að tryggja öryggi hans. Slysið megi einnig rekja til þess, að samstarfsmaður stefnanda sinnti ekki varúðar- og aðgæsluskyldu sinni, með því að huga ekki að öryggi hans og hafa ekki veitt honum næga aðstoð, er hann var að mjaka sér úr kælibúntinu. Stefndi verði samkvæmt þessu að bera ábyrgð á líkamstjóni stefnanda, sem af slysinu hlaust, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga og reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum og saknæmu aðgæsluleysi starfsmanna sinna.

Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eru lagðar ríkar skyldur á herðar atvinnurekendum að tryggja öryggi starfsmanna sinna. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi vanrækt að framfylgja umræddum skyldum, sem leitt hafi til þess að hann slasaðist.

Í 13. gr. laganna er kveðið á um það, að atvinnurekandi skuli tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, við framkvæmd vinnu og um vélar, tækjabúnað og fleira. Í 1. mgr. 14. gr. laganna segir, að atvinnurekandi skuli gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu, sem kunni að vera bundin við starf þeirra. Atvinnurekandi skal þar að auki sjá um, að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt, að ekki stafi hætta af. Í 17. gr. laganna segir svo, að þar sem fleiri atvinnurekendur eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað, skulu þeir og aðrir, sem þar starfa, stuðla sameiginlega að því að tryggja góðan aðbúnað og heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum. Í 37. gr. laganna segir, að vinnu skuli haga og framkvæma þannig, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Í 42. gr. laganna segir svo, að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður, að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Í 46. gr. sömu laga er svo mælt fyrir um að áhöld, tæki og annar búnaður skuli þannig úr garði gerður að gætt sé fyllsta öryggis.

Með vísan til þessara afdráttarlausu lagafyrirmæla og vegna hinna erfiðu aðstæðna, sem áður er lýst, bar stefnda að tryggja, að fullnægjandi öryggisráðstafanir væru gerðar til að koma í veg fyrir slysahættu í kæligeymslunni. Stefnandi telur einsýnt að stefndi hafi látið þetta undir höfuð leggjast með þeim afleiðingum að stefnandi slasaðist. Á því verði stefndi að bera ábyrgð gagnvart honum.

Stefnandi byggir jafnframt á því að hann hafi ekki notið nauðsynlegrar aðstoðar samstarfsmanns síns, Sigurðar Gunnars Sigfússonar, þjónustustjóra tæknideildar stefnda, þegar hann var að mjaka sér út úr kælibúntinu, en Sigurður var þá staddur í skæralyftunni. Hafi það ekki verið að ástæðulausu að tveir menn voru sendir upp í skæralyftunni, til viðhalds á kælibúntunum, þó svo að ljóst væri að einungis annar þeirra kæmist inn í kælibúntin til að sinna þar viðhaldi. Hlutverk þess sem ekki fór inn í kælibúntið var ekki síst að aðstoða og gæta að öryggi þess, sem fór inn í búntið. Stefnandi telur að þjónustustjórinn hafi látið undir höfuð leggjast að sjá til þess, að skæralyftan væri í þeirri hæð eða stöðu, að tryggt væri að stefnandi næði öruggri fótfestu er hann smeygði sér út úr kælibúntinu. Í ljósi hinna miklu þrengsla í búntinu, kuldans í kæligeymslunni og takmarkaðra möguleika stefnanda til að athafna sig, hafi þjónustustjóranum jafnframt borið að aðstoða stefnanda með beinum hætti við að komast út úr búntinu, með öruggum hætti. Hafi verið alveg sérstök ástæða fyrir þjónustustjórann, að tryggja öryggi stefnanda við hinar erfiðu aðstæður, en það hafi hann ekki gert. Á þessu aðgerðarleysi þjónustustjórans verður stefndi að bera skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda.

Hefði mannop verið á hinum enda kælibúntsins, hefði stefnandi ekki þurft að fara inn í búntið til að smyrja þar búkkalegurnar, heldur hefði hann getað sinnt því þeim megin, standandi í skæralyftunni. Það liggur því fyrir, að hefði mannop einnig verið á hinum enda búntsins, hefði stefnandi ekki þurft að vinna við þær erfiðu aðstæður sem honum var gert að gera, og hefði þar af leiðandi ekki slasast. Hafði það raunar verið rætt hjá stefnda að setja mannop á hinn enda kælibúntanna, en úr því hafði ekki orðið.

Stefnandi telur að notkun og staða skæralyftunnar á slysdegi, í kæligeymslu stefnda, hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli greinar 1.1 í II. viðauka við reglugerð nr. 367/2006, um notkun tækja. Þar segir: „tæki skal sett upp, staðsett og notað þannig að sem minnst hætta stafi af fyrir þá sem nota það og aðra starfsmenn. Til dæmis með því að tryggja að nægjanlegt rými sé milli þeirra hluta tækisins sem hreyfanlegir eru og fastra eða hreyfanlegra hluta í umhverfinu...“ Stefnandi telur að staðsetning og hæð skæralyftunnar umrætt sinn, er hann var að smeygja sér úr kælibúntinu, hafi ekki verið með þeim hætti, að tryggt væri að ekki stafaði af því slysahætta. Hefði þjónustustjóri stefnda átt að sjá til þess að skæralyftan væri í slíkri stöðu að stefnandi kæmist með öruggum hætti niður úr kælibúntinu. Ljóst er að mati stefnanda að þannig var málum ekki háttað.

Þrátt fyrir alvarleika slyss stefnanda og ótvíræða lagaskyldu stefnda, samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 og fyrirmæla í reglum nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa, tilkynnti stefndi Vinnueftirliti ríkisins ekki um slysið fyrr en með bréfi dags. 6. júní 2006. Af þeim sökum voru tildrög þess ekki rannsökuð, eins og fram kemur í bréfi Vinnueftirlits ríkisins, svo sem aðstæður í kæligeymslu stefnda á slysdegi, gerð og búnaður skæralyftunnar, kælibúntið og umbúnaður þess, sem og annað sem varpað gat ljósi á orsakir slyssins. Af þessari vanrækslu stefnda leiðir að hann ber sönnunarbyrði fyrir því að aðdragandi slyssins, og atvik að öðru leyti, hafi orðið með öðrum hætti en stefnandi byggir á. Verður hann því að ber hallann af sönnunarskorti á að eðlilega hafi verið staðið að verki af hans hálfu, sbr. hér til dæmis Hrd. nr. 371/2004.

Stefnandi neitar því að slys hans verði rakið til óhappatilviks eða eigin gáleysis. Stefnandi telur einsýnt að slys hans megi að öllu leyti rekja til atvika sem stefndi ber ábyrgð á. Ósannað sé að hann hafi hagað sér með gáleysislegum hætti umrætt sinn. Ekki verði með nokkru móti séð, í ljósi þeirra þrengsla sem stefnandi var að vinna við, að hann hafi getað borið sig að með öðrum hætti en hann gerði. Stefnandi mótmælir því hér, sem röngu og ósönnuðu, sem fram kemur í tölvupósti réttargæslustefnda, að hann hafi margoft starfað við verk það er hann slasaðist við. Hið rétta er að hann hafði einungis einu sinni áður skriðið inn í kælibúntin til viðhalds. Með vísan til þess, og annars framangreinds, er að mati stefnanda ekki hægt að láta hann bera hluta af tjóni sínu sjálfur.

Stefnandi byggir á almennum reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga, sakarreglunni og reglunni um ábyrgð vinnuveitenda á saknæmum verkum og aðgæsluleysi þeirra sem undir hann heyra. Einnig er byggt á skaðabótalögum nr. 50/1993 og lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, báðum með áorðnum breytingum. Jafnframt byggir hann á reglugerð nr. 367/2006, um notkun tækja. Um málskostnað vísast til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. Um virðisaukaskatt vísast til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Málsástæður og lagarök stefnda

Um bótaábyrgð stefndu fer samkvæmt almennu sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Stefnda byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ósannað sé að tjón stefnanda megi rekja til saknæmrar háttsemi stefndu eða starfsmanna hennar eða annarra atvika sem stefnda beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að tjón hans verði rakið til saknæmrar háttsemi annars eða annarra en hans sjálfs og sú sönnun hefur ekki tekist. Verði óhapp stefnanda talið annað en óhappatilvik byggir stefnda sýknukröfu sína í öðru lagi á því að óaðgæslu hans sjálfs hafi verið um að kenna.

Í máli þessu liggur ekki annað fyrir en að stefnda hafi að öllu leyti framfylgt ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og er fullyrðingum stefnanda um hið gagnstæða harðlega mótmælt sem bæði röngum og ósönnuðum. Stefnandi vísar í stefnu til fjölmargra ákvæða nefndra laga en tilgreinir þó ekki með hvaða hætti hann telur stefndu hafa brotið gegn þeim, enda eru starfsaðstæður hjá stefndu eins og best verður á kosið og sérstök áhersla er lögð á að öllum reglum um vinnuvernd og öryggismál sé framfylgt í hvívetna. Það er því ekki með nokkru móti unnt að færa rök að því að umrædd ákvæði hafi verið brotin.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram að búnaður skæralyftu þeirrar sem notuð var í umrætt sinn sætti hvorki athugasemdum af hálfu Vinnueftirlitsins árin 2005, 2006 og 2007 né síðar.

Fullyrðingum stefnanda um að það verk sem honum var falið að sinna umræddan dag hafi verið varhugavert, og að ekki hafi verið gerðar fullnægjandi ráðstafanir til að tryggja öryggi hans, er mótmælt sem bæði röngum og ósönnuðum. Þegar nauðsynlegt er að vinna umrætt verk fara tveir menn upp með skæralyftunni og er hún stöðvuð alveg við rörin umhverfis kælibúntið. Rörin umhverfis kælibúntið liggja þétt saman. Fallhætta er því engin þó svo að kælibúntið sé staðsett í nokkurri hæð. Verkið er unnið með þeim hætti að annar þeirra sem upp fara með skæralyftunni lyftir sér upp á rörin og skríður þaðan inn í kælibúntið. Hinn er áfram á skæralyftunni og er honum til aðstoðar með því að rétta honum nauðsynleg verkfæri og eftir atvikum á annan hátt. Ekki er sérstök hætta fólgin í því að skríða inn í kælibúntið til að sinna umræddu viðhaldsverki enda er búnaður þess aftengdur meðan á verkinu stendur. Vandséð er því hvernig unnt hefði verið að inna umrætt verk af hendi á annan eða öruggari hátt eða hvernig stefnda hefði mátt koma í veg fyrir umrætt óhapp. Fullyrðingu stefnanda, um að til hafi staðið að koma fyrir mannopi á hinum enda kælibúntsins, er mótmælt sem bæði rangri og ósannaðri. Kælibúntið er eins og það kemur frá framleiðanda þess og gert ráð fyrir því að sinna þurfi viðhaldi þess með áðurnefndum hætti. Ekki fæst heldur séð að hitastigið í kæligeymslu stefnda skapi sérstaka hættu í þessu sambandi enda er það ekki svo lágt að hálka myndist. Þá er það ávallt á sama bili og öllum þeim sem þar starfa ljóst hvað það er.

Sú staðhæfing stefnanda að umrætt óhapp hafi átt sér stað vegna þess að ekki hafi verið gætt fullnægjandi öryggisráðstafana í kæligeymslu stefnda fær einfaldlega ekki staðist. Svo sem áður greinir á sú fullyrðing stefnanda, að hann hafi fengið hnykk á bakið er hann missti fótfestu á handriði skæralyftunnar við það að skríða út úr kælibúntinu, líklega vegna hálku, sér ekki stoð í gögnum málsins. Það má því ljóst vera að það hafði enga þýðingu að stefnandi var staddur í kæligeymslu þegar umrætt slys átti sér stað. Má því vera ljóst að orsakasamband skortir aukinheldur milli meints vanbúnaðar og óhapps stefnanda.

Því er að sama skapi harðlega mótmælt að notkun skæralyftunnar í kæligeymslu stefnda á slysdegi eða aðra daga hafi verið í andstöðu við grein 1.1. í II. viðauka við reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja eða önnur laga- eða stjórnvaldsfyrirmæli á þessum vettvangi. Enn fremur var staða hennar umræddan dag í fullu samræmi við nefnt ákvæði auk þess sem stefnandi og Sigurður Gunnar fóru saman upp með skæralyftunni og því báðum ljóst í hvaða hæð og stöðu hún var stöðvuð. Þá fæst ekki séð að notkun hennar og staða umræddan dag hafi haft nokkra þýðingu varðandi óhapp stefnanda svo sem áður er rakið.

Í ljósi framangreinds fæst ekki séð að stefnanda hafi verið sérstök hætta búin eða aðstæður umræddan dag á einhvern hátt varhugaverðar. Stefnandi er vélvirki að mennt og atvinnu. Hann hafði starfað hjá stefnda í 10 ár þegar slysið átti sér stað og var þaulkunnugur öllum aðstæðum. Hann hafði framkvæmt það verk sem um var að ræða áður og því fulljóst hvað í því fólst. Þrátt fyrir þetta hafði hann aldrei gert athugasemdir við aðbúnað eða öryggisráðstafanir hjá stefnda svo sem honum bar að gera samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 teldi hann þar einhverju ábótavant.

Því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að slys stefnanda megi á einhvern hátt rekja til saknæmrar háttsemi samstarfsmanns hans, Sigurðar Gunnars Sigfússonar. Í stefnu er á því byggt að Sigurður Gunnar „hafi látið undir höfuð leggjast að sjá til þess, að skæralyftan væri í þeirri hæð eða stöðu, að tryggt væri að stefnandi næði öruggri fótfestu er hann smeygði sér út úr kælibúntinu“. Svo sem áður greinir fóru þeir stefnandi og Sigurður Gunnar saman upp með skæralyftunni og því báðum ljóst í hvaða hæð og stöðu hún var stöðvuð. Sigurður Gunnar bar ekki ábyrgð á því umfram stefnanda. Þá fæst, svo sem áður segir, ekki séð hvaða þýðingu þetta atriði hafði fyrir óhapp stefnanda. Enn fremur fæst ekki með nokkru móti séð hvernig Sigurður Gunnar hefði getað komið í veg fyrir óhapp stefnanda með beinum hætti. Þá er málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti í hæsta máta misvísandi þar sem ýmist er byggt á því að Sigurður Gunnar hafi aðstoðað stefnanda út úr kælibúntinu og niður á skæralyftuna eða að hann hafi ekkert gert til að aðstoða hann.

Af framangreindu má vera ljóst að óhapp stefnanda verður ekki á nokkurn hátt rakið til saknæmrar háttsemi stefndu eða starfsmanna hennar.

Áðurgreindu til viðbótar fæst hvorki séð að stefnandi hafi sýnt fram á að líkamstjón hans sé afleiðing af umræddu óhappi eða orsakasamband sé þar á milli. Til staðfestingar á líkamstjóni stefnanda er í stefnu vísað til læknisvottorðs Jóseps Ó. Blöndals, yfirlæknis á St. Franciskusspítala í Stykkishólmi, dags. 5. janúar 2009. Í umræddu vottorði kemur fram að stefnandi hafi fengið bakverki í nokkra daga 1992 en að öðru leyti hafi bakóþægindi ekki angrað hann. Þetta er þó ekki alls kostar rétt því stefnandi datt 12. nóvember 2004 og fékk þá hnykk á mjóbak, svo sem fram kemur í tilkynningu til Vinnueftirlitsins, dags. 24. nóvember 2004 og var frá vinnu í rúma viku í kjölfar þess. Það er því ljóst að stefnandi hafði áður glímt við bakmeiðsl. Í nefndu vottorði Jóseps Ó. Blöndals kemur jafnframt fram að stefnandi hafi tamið sér slæmar vinnustellingar og kann líkamstjón hans allt eins að vera afleiðing af því. Þá kemur fram í vottorðinu að „horfur ættu að vera góðar, haldi hann áfram með æfingaprógramm sitt og lagfæri vinnustellingar“. Ekkert liggur því fyrir um að líkamstjón stefnanda sé afleiðing af umræddu óhappi eða að það sé orsök þess.

Í þessu sambandi er því jafnframt mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi eftir umrætt óhapp þurft að vinna léttari störf en áður. Hið rétta er að stefnandi gegndi sambærilegu starfi hjá stefndu eftir óhappið og hann gerði áður þar til hann lét af störfum þar síðla árs 2008.             

Stefnda mótmælir því harðlega að skilyrði séu til að snúa sönnunarbyrði við í því máli sem hér er til úrlausnar. Samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 ber að tilkynna slys til Vinnueftirlitsins innan sólarhrings þegar líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni. Ekkert benti til þess að óhapp stefnanda væri þess eðlis að þessi regla ætti við enda lauk hann vinnudegi sínum svo sem áður greinir. Stefnda tilkynnti umrætt óhapp um leið og stefnandi sneri aftur til vinnu, sbr. tilkynningu til Vinnueftirlitsins, dags. 6. júní 2006.

Það fæst því ekki séð að unnt sé að gera stefndu að bera halla af sönnunarskorti um tildrög óhappsins eða atvik að öðru leyti. Verði engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að stefnda hafi vanrækt tilkynningarskyldu að þessu leyti skal áréttað að vanræksla á tilkynningarskyldu hefur einungis áhrif á sönnunarmat ef fyrir liggur að mál hefði verið betur upplýst ef rannsókn hefði farið fram. Ekki fæst séð að svo hefði verið í þessu tilviki.

Telji dómurinn að ekki hafi verið um óhappatilvik að ræða, byggir stefnda jafnframt á því að stefnandi verði að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Stefnandi er sem áður segir vélvirki að mennt og atvinnu. Hann hafði starfað hjá stefnda í 10 ár þegar slysið átti sér stað og var þaulkunnugur öllum aðstæðum. Það lá ljóst fyrir hvaða verk skyldi vinna og hafði stefnandi gert það áður. Stefnanda var því fullljóst hvað í því fólst og hvernig skyldi bera sig að. Gögn málsins benda til þess að stefnandi hafi verið viðkvæmur í baki og var því full ástæða fyrir hann til að sýna enn meiri varkárni en ella. Stefnandi gerði hins vegar hvorki athugasemdir við umrætt verk né óskaði eftir því að samstarfsmaður hans Sigurður Gunnar fengi það hlutverk að skríða inn í búntið en hann yrði til aðstoðar utan við það. Þá benda gögn málsins til þess að hann hafi staðnæmst með bakið á lúgukarmi búntsins en hann hefði hæglega getað borið sig að með öðrum hætti. Sakarreglan á að veita vernd gegn óvæntu og ófyrirséðu tjóni, en ekki gegn tjóni, sem tjónþolinn gat vel séð fyrir og búið sig undir. Í ljósi alls framangreinds ber ótvírætt að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Ef ekki verður á sýknukröfu stefndu fallist er gerð krafa um að hún verði einungis dæmd skaðabótaskyld að hluta vegna umrædds óhapps stefnanda. Ábyrgð stefndu er grundvölluð á sök og þegar svo háttar til skal tjónþoli bera tjón sitt sjálfur í samræmi við þá ábyrgð, sem hann ber á því. Stefnandi sýndi af sér verulegt gáleysi í umrætt sinn og því ótækt annað en að hann beri umtalsverðan hluta tjóns síns sjálfur. Um nánari rökstuðning er vísað til rökstuðnings fyrir aðalkröfu stefndu.

Um lagarök vísar stefnda til almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð, reglunnar um meðábyrgð tjónþola og reglna um sönnun og sönnunarbyrði. Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Varðandi atvikið sjálft segir svo í stefnu: „Að henni lokinni mjakaði hann sér út sömu leið til baka. Þegar komið var að enda búntsins stöðvaði hann við brún mannopsins og reyndi að finna þar fótfestu á brún handriðs skæralyftunnar svo hann kæmist niður úr búntinu í skæralyftuna. Við það missir hann fótfestuna, líklegast vegna þess að handriðið var sleipt vegna kuldans í kæliklefanum, með þeim afleiðingum að hann fékk slæman slink á bakið. Varð stefnandi strax mjög slæmur og þurfti Sigurður að aðstoða hann út úr búntinu niður í vinnulyftuna, þar sem stefnandi var ófær um að gera það einn og óstuddur.“

Í tilkynningu til Vinnueftirlitsins, dags. 6. júní 2006, segir: „Var að skipta um reimar og smyrja legur í kælibúnti nr. 9. Til þess að vinna verkið þarf að fara inn um lúgu á búntinu. Þegar Baldvin var á leið út um lúguna þurfti hann að leggja bakið á lúgukarm meðan hann fann fótfestu utan við búntið og fékk við það mikinn verk í mjóhrygg.“ Þessa frásögn ritaði Helgi Hannesson eftir stefnanda og hefur Helgi staðfest það fyrir dómi.

Í vottorði Jóseps Ó. Blöndals, yfirlæknis á St. Franciskusspítala í Stykkishólmi, dags. 5. janúar 2009, segir: „Rann til á brún á svokölluðu kælibúnti og fékk skyndilegan verk í mjóbakið.“ Ætla má að frásögn þessi sé höfð eftir stefnanda.

 Í bréfi lögmanns stefnanda til réttargæslustefnda, dags. 6. febrúar 2009, segir: „Þegar komið var að brún búntsins stöðvaði hann við brún mannops búntsins og reyndi að finna þar fótfestu. Við það rann hann til á brúninni með þeim afleiðingum að hann fékk slæmt högg á mjóbakið og um leið mjög slæman verk í bakið. Þurfti Sigurður að aðstoða umbj. m. úr búntinu niður í vinnulyftuna, vegna mikilla verkja.“

Fyrir dómi sagði stefnandi að slysið hefði verið með þeim hætti að hann hafi verið að mjaka sér út aftur úr kælibúntinu. Þegar fætur hefðu verið komnir út fyrir kælibúntið lagði hann rassinn á brúnina og reyndi að finna fótfestu. Þegar fótfestan var komin hafi hann lyft sér upp til að mjaka sér út og hafi þá hællinn runnið til og hann dottið á brúnina með rass/mjóbak og fengið mikinn verk í bakið. Hann telur að ástæða þess að hann missti fótfestuna sé sú, að hann lyfti sér með höndum og hafi þyngdarlögmálið orðið til þess að hann rann til og missti fótfestuna. Fyrir dómi vill stefnandi ekki fullyrða, að raki hafi verið á rörum þegar slysið átti sér stað.

Eins og að framan greinir er óljóst hvernig slysið átti sér stað. Í stefnu er byggt á því að stefnandi hafi reynt að finna fótfestu á brún handriðs skæralyftunnar. Stefnandi hélt því ekki fram er hann lýsti slysinu fyrir dómi. Dómurinn fór á vettvang og telur þá háttsemi sem lýst er í stefnu ekki framkvæmanlega þar sem handrið skæralyftunnar fer upp undir rör og ekki sé hægt að fá fótfestu þar. Fyrir dómi dregur stefnandi í land með það að raki eða hálka hafi verið er slysið átti sér stað. Ekki verður annað ályktað, af gögnum málsins, framburði fyrir dómi og af vettvangsgöngu, en að um óhappatilvik hafi verið að ræða þegar stefnandi rekur rass/mjóbak í brún mannopsins, er hann er að skíða út úr kælibúntinu.

Stefnandi telur að aðstæður á vinnustaðnum hafi verið varhugaverðar. Í því skyni vísar hann í stefnu til ýmissa ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, án þess þó að skýra á hvern hátt brotið sé gegn hverju og einu lagaákvæði. Fyrir liggur að Vinnueftirlit ríkisins hefur aldrei gert athugasemdir við kælibúntið, skæralyftuna eða starfsaðstæður í kæligeymslunni. Því er ósannað að aðbúnaðurinn hafi verið þannig að hann hafi valdið óhappinu. Hefði stefnandi talið rétt að breyta útbúnaði kælibúntsins bar honum að koma með athugasemdir í þá veru. Kælibúntin eru óbreytt frá framleiðanda og ekki hafa orðið slys við vinnu í þeim svo kunnugt sé.

Þá er því hafnað að samstafsmaður stefnanda hafi sýnt af sér sök. Hann og stefnandi voru að yfirfara öll kælibúntin, en þau eru tólf að tölu. Þeir skiptust á að fara inn í þau og Sigurður Gunnar sagði fyrir dómi að stefnandi hefði unnið sambærilegt verk á þeim árum er hann vann hjá stefndu. Verður að telja það mjög líklegt í ljósi þess að stefnandi hafði unnið í tíu ár hjá stefnda. Staðsetning lyftunnar var ekki á ábyrgð Sigurðar Gunnars frekar en stefnanda, en eins og að framan greinir á hún ekki þátt í óhappinu. Að mati dómsins var engin ástæða fyrir Sigurð að stýra fótum stefnanda í þetta skiptið fremur en hin skiptin og ekki hafi staðið venja til þess.

Stefnandi taldi ekki ástæðu til að leita á slysadeild þegar óhappið átti sér stað heldur hélt áfram vinnu. Fyrir dómi sagði stefnandi að hann hefði haldið að verkurinn myndi líða hjá. Hann hafði einu sinni fengið þursabit, þ.e. árið 2004, og honum fannst þetta álíka verkir. Því leitaði hann ekki læknis fyrr en daginn eftir. Í ljósi þessa benti ekkert til þess að um tilkynningarskylt slys hefði verið að ræða. Það hefði í reynd staðið stefnanda nær að meta hvort ástæða væri til að láta rannsókn fara fram og eiga frumkvæðið að henni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 254/2001.

Með vísan til þess sem að framan greinir er niðurstaðan sú að um óhappatilvik hafi verið að ræða og sýkna eigi stefnda, af öllum kröfum stefnanda í málinu. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Mjólkursamsalan ehf., er sýknuð af kröfum stefnanda, Baldvins Einars Einarssonar.

Málkostnaður fellur niður.