Hæstiréttur íslands

Mál nr. 336/2005


Lykilorð

  • Ökutæki
  • Slysatrygging


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. janúar 2006.

Nr. 336/2005.

Lloyd’s of London og

Guðmundur Helgi Andersen

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

gegn

Jennýju Andersen

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Ökutæki. Slysatrygging.

J slasaðist í umferðarslysi í mars 1998 er hún ók fram úr bifreið á Vesturlandsvegi í Kjós, án þess að gæta nægilega að umferð á móti og í veg fyrir aðra bifreið. Féllust L og G á rétt J til bóta úr slysatryggingu ökumanns, sem G, eigandi bifreiðarinnar, hafði tekið hjá L, en töldu að hún yrði að bera hluta tjóns síns sjálfs þar sem hún hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er slysið varð. Talið var, að miða yrði við að J hafi verið fær til að stjórna ökutæki í umrætt sinn, þrátt fyrir stuttan svefn nóttina fyrir slysið. Með framburði vitna þótti sýnt að aksturslag J hafi verið eðlilegt og aðstæður á slysstað almennt hagstæðar til framúraksturs. Þó var talið ljóst að J hafi sýnt af sér gáleysi er hún reyndi framúrakstur í þann mund er bifreið bar að úr gagnstæðri átt. Hins vegar yrðu þessi mistök J ekki talin svo óvenjuleg eða sérstök að gáleysi hennar gæti talist stórkostlegt. Var hún því ekki talin hafa fyrirgert rétti sínum til bóta úr slysatryggingu ökumanns.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 26. júlí 2005. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu stefndu en til vara að krafan verði lækkuð og dráttarvextir í fyrsta lagi reiknaðir frá dómsuppsögu. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi varð umferðarslys að morgni laugardagsins 14. mars 1998 er stefnda ók bifreiðinni JO 285 suður Vesturlandsveg í Kjós og fram úr bifreið án þess að gæta nægilega að umferð á móti og í veg fyrir bifreiðina HO 880 sem ekið var í norður með þeim afleiðingum að árekstur varð. Lést ökumaður bifreiðarinnar HO 880 en stefnda slasaðist lífshættulega. Óumdeilt er að áfrýjandinn Guðmundur Helgi Andersen var eigandi bifreiðarinnar JO 285 og hafi haft ábyrgðartryggingu og slysatryggingu ökumanns hjá áfrýjandanum Lloyd´s of London. Í máli þessu krefur stefnda áfrýjendur um bætur vegna líkamstjóns er hún hlaut í slysinu. Aðila greinir ekki á um hvert tjón hennar var.

Áfrýjendur fallast á þá niðurstöðu héraðsdóms að stefnda njóti réttar til bóta úr slysatryggingu ökumanns. Þeir telja hins vegar að hún hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í umrætt sinn og eigi því að bera hluta tjóns síns sjálf samkvæmt 5. gr. skilmála tryggingarinnar, sem rakin er í hinum áfrýjaða dómi, sbr. 20. gr. þágildandi laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga og 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þar sem henni hafi þegar verið greiddir tveir þriðju hlutar tjóns síns eigi hún ekki frekari kröfu og beri því að sýkna áfrýjendur. Áfrýjandinn Guðmundur Helgi Andersen hefur ekki borið fyrir sig aðildarskort. Ekki er ágreiningur um að stefnda sýndi af sér gáleysi umrætt sinn en stefnda telur að það verði ekki talið stórkostlegt þannig að skerði rétt hennar til bóta.

II.

Í skýrslu sem stefnda gaf lögreglu 26. mars 1998 kom fram að hún hafi verið að skemmta sér í Reykjavík kvöldið áður en slysið varð og fram á nótt en hafi að því búnu ekið til Akraness og sofið í tvær til þrjár klukkustundir áður en hún hélt áleiðis til Reykjavíkur um klukkan sjö að morgni. Hún kvaðst hafa verið vel fyrir kölluð þrátt fyrir skamman svefn, en hún neyti ekki áfengis. Hún sagðist ekki muna eftir slysinu eða akstrinum frá Hvalfjarðarbotni. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi bar stefnda á sömu lund. Stefnda var 22 ára þegar slysið varð. Í álitgerð örorkunefndar kemur fram að hún hafði verið við góða heilsu fyrir slysið og stundað íþróttir. Þegar framangreint er virt verður að fallast á það með héraðsdómi að miða verði við að stefnda hafi verið fær til að stjórna ökutæki, sbr. 1. mgr. 44. gr. umferðarlaga,  þrátt fyrir stuttan svefn. Breytir það ekki þessari niðurstöðu að stefnda, sem hlaut lífshættulega áverka, muni ekki eftir slysinu eða akstrinum næstu mínútur þar á undan.

Miðað við framburð vitnisins Rögnvaldar Einarssonar hjá lögreglu virðist stefnda hafa ekið á eðlilegum hraða. Rögnvaldur kvaðst hafa ekið á „umferðarhraða“ og hafi stefnda ekið fram úr honum við Brynjudalsá en hann dregið hana uppi á móts við Háls í Kjós. Ók hann á eftir stefndu er slysið varð og sagði hann stefndu hafa ekið „ekki neitt óeðlilega hratt þarna“ og verið „á umferðarhraða“. Vegurinn var beinn á þeim kafla er slysið varð og ekkert sem bannaði framúrakstur eða hindraði útsýn fram á veginn. Þá ber Rögnvaldi og vitninu Birni Guðmundssyni, sem stefnda var að reyna að aka fram úr er áreksturinn varð, saman um að aðstæður hafi verið góðar. Umferð hafi verið lítil, gatan hálkulaus og þurr eða því sem næst og veður bjart.

Skýrslum þessara vitna hjá lögreglu ber saman um að stefnda hafi virst ætla að aka fram úr bifreið Björns og sveigt í því skyni yfir á vinstri vegarhelming örskömmu áður en bifreiðina HO 880 bar að úr gagnstæðri átt. Á uppdrætti lögreglu af vettvangi eru sýnd „dragför/hemlaför“ eftir bifreið þá er stefnda ók og verður að miða við að hún hafi reynt að forðast árekstur með hemlun. Enda þótt aksturslag stefndu fram að slysinu virðist hafa verið eðlilegt og aðstæður á slysstað almennt hagstæðar til framúraksturs er ljóst er að stefndu urðu á mistök er hún reyndi framúrakstur í þann mund er bifreið bar að úr gagnstæðri átt, hvort sem það var vegna þess hún kom ekki auga á bifreiðina eða að hún mat fjarlægðir rangt. Sýndi hún þannig ótvírætt af sér gáleysi við aksturinn. Til þess að gáleysi teljist stórfellt þarf það að vera á mjög háu stigi. Umferðaróhöpp verða oftast vegna þess að ökumenn leggja ekki rétt mat á aðstæður. Verður ekki talið að framangreind mistök stefndu séu svo óvenjuleg eða sérstök að gáleysi hennar geti talist stórkostlegt óháð þeim hörmulegu afleiðingum er af hlutust. Verður því ekki talið að stefnda hafi fyrirgert rétti sínum til bóta úr slysatryggingu ökumanns.

Krafa stefndu um dráttarvexti frá 18. nóvember 2000 til greiðsludags verður tekin til greina með vísan til 1. mgr. 24. gr. þágildandi laga nr. 20/1954, sbr. 3. mgr. greinarinnar eins og henni var breytt með lögum nr. 33/1987.

 Í héraðsdómi er misræmi milli forsendna og dómsorðs þar sem héraðsdómari taldi greiðskyldu áfrýjenda óskipta í forsendum en gat þess ekki í dómsorði. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kom fram að líta bæri svo á að greiðsluskylda hefði verið dæmd óskipt. Samkvæmt framansögðu verður héraðsdómur staðfestur á þann hátt er í dómsorði greinir.

Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður, þó þannig að áfrýjendur, Lloyd´s of London og Guðmundur Helgi Andersen, skulu óskipt greiða stefndu, Jennýju Andersen, tildæmda fjárhæð.

Áfrýjendur greiði stefndu óskipt 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2005.

             Mál þetta var þingfest 29. september 2004 og dómtekið 11. þ. m.

Stefnandi er Jenný Andersen, Álftamýri 12, Reykjavík.

Stefndu eru Lloyd´s of London, One Lime Street, London, Englandi, en vegna hans er málshöfðuninni beint að tjónafulltrúa Lloyd´s á Íslandi, og Guðmundur Helgi Andersen, Álftamýri 12, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða sér 6.691.442 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 14. mars 1998 til 18. október 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1987 frá 18. nóvember 2000 til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en henni var veitt gjafsóknarleyfi 29. september 2004

Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að stefnanda verði gert að bera verulegan hluta af tjóni sínu sjálf og að kröfur hennar verði verulega lækkaðar svo og að dráttarvextir verði í fyrsta lagi reiknaðir frá dómsuppsögu að telja.  Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Laugardaginn 14. mars 1998, kl. 7.59, varð umferðarslys er stefnandi ók bifreiðinni JO-285 á leið suður Vesturlandsveg í Kjós og skammt sunnan við veginn að Félagsgarði ók hún fram úr bifreið án þess að gæta nægjanlega að umferð á móti og í veg fyrir bifreiðina HO-880, sem var ekið í norður, með þeim afleiðingum að árekstur varð með bifreiðunum og ökumaður HO-880 beið bana.  Stefnandi hlaut lífshættulega fjöláverka.  Stefndi, Guðmundur Helgi Andersen, var eigandi bifreiðar­innar JO-285 og hafði ábyrgðartryggingu og slysatryggingu ökumanns og eiganda sem farþega hjá stefnda, Lloyd´s of London.

Tekin var lögregluskýrsla af stefnanda 26. mars 1998.  Hún kvaðst ekki muna eftir sjálfu slysinu.  Hún hafi verið að skemmta sér á veitingahúsinu Astro kvöldið áður og farið þaðan kl. 2.45.  Hún hafi ekið kunningja sínum upp á Akranes, lagt sig þar og sofið í 2-3 klukkustundir að hún taldi.  Frá Akranesi hafi hún síðan farið kl. um 7 og ekið á Grundartanga þar sem hún hafi verið um kl. 7.30 og kunningi hennar farið þar úr bifreiðinni.  Hún hafi síðan ekið áleiðis til Reykjavíkur og mundi eftir sér hjá Ferstiklu og í Hvalfjarðarbotni.  Síðan viti hún ekki hvað kom fyrir og hafi vaknað 20. mars á sjúkrahúsi í Reykjavík.  Hún kvaðst hafa verið vel fyrir kölluð í umrætt sinn þrátt fyrir að hafa ekki sofið meira.  Hún kvaðst ekki neyta áfengis og ekki hafa drukkið neitt sem truflað hefði akstur sinn.  Hún kvaðst haf verið með öryggisbelti er slysið varð.

Einnig voru teknar lögregluskýrslur af tveimur vitnum.

Rögnvaldur Einarsson kvaðst hafa verið á leið til Reykjavíkur frá Akranesi á bifreið sinni á umferðarhraða.  Við Brynjudalsá hafi bifreiðinni JO-285 verið ekið fram úr bifreið sinni.  Hann kvaðst hafa tekið eftir að annað framljósið vantaði á bifreiðina.  Á móts við bæinn Háls kvaðst hann hafa ekið þessa bifreið uppi en henni hafi verið ekið á eftir annarri bifreið.  Rétt eftir að bifreiðarnar hafi verið komnar sunnan við afleggjarann að Félagsgarði hafi ökumaður JO-285 beygt yfir á vinstri vegarkant og greinilega ætlað fram úr næstu bifreið á undan.  Rétt í því hafi bifreiðin HO-880 komið á móti, til norðurs.  Kvaðst hann hafa séð til ferða hennar og hafi hún verið í alla staði eðlilega staðsett á veginum og með ökuljós tendruð.  Hann kvaðst ekki hafa séð nein viðbrögð hjá ökumanni bifreiðarinnar JO-285 um að bifreiðinni væri hemlað eða að ökumaður reyndi að beygja aftur til hægri en svigrúm hafi verið til þess þar sem ökumaður fremstu bifreiðarinnar hafi verið vel hægra megin á veginum.  Ökumaður bifreiðarinnar HO-880 hafi hemlað og reynt að beygja undan til en aðdragandinn hafi verið stuttur og bifreiðarnar skollið saman af miklu afli.  Hann kvað aðstæður, er slysið varð, hafa verið góðar, gatan því sem næst þurr, bjart og umferð nánast engin.  Ökumaður bifreiðarinnar JO-285 hafi ekki ekið neitt óeðlilega hratt, verið á umferðarhraða en hann hafi virst ekki hafa séð til ferðar bifreiðarinnar HO-880.

Björn Guðmundsson kvaðst hafa umræddan morgun verið á leið til Reykja­víkur frá Akranesi í bifreið sinni.  Hann kvaðst hafa ekið á 85 til 90 km. hraða á umræddum stað, þ.e. skammt sunnan við Félagsgarð í Kjós.  Hann kvað veginn hafa verið þurran og hálkulausan og veðrið gott, þ.e. hálfskýjað og gola.  Hann kvaðst hafa mætt jeppabifreið af gerðinni MMC Pajero og virst hraði hennar vera eðlilegur.  Þegar bifreiðarnar hafi mæst hafi hann litið í hliðarspegil og séð bifreið sem kom á eftir á röngum vegarhelmingi og hafi hann áttað sig á því að ökumaður þeirrar bifreiðar hafi ætlað að aka fram úr bifreið sinni.  Hann kvað árekstur, sem hafi  verið mjög harður, hafa orðið nokkru aftan við bifreið sína.  Hann kvað Rögnvald Einarsson hafa komið á slysavettvanginn og tilkynnt um slysið.  Þeir hafi hlúð að hinum slösuðu eins og þeim var unnt.  Hann kvaðst telja að ökumaður jeppans hafi ekki verið í öryggisbelti.

Á vettvangsuppdrætti lögreglunnar eru sýnd hemlaför eftir bifreiðina HO-880 og nokkuð styttri “dragför/hemlaför” eftir JO-285.

Í opinberu máli, sem var höfðað á hendur stefnanda, var henni með dómi 23. september 1998 gert að sæta fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið í tvö ár, og hún var svipt ökuréttindum í átján mánuði.  Var talið að stefnandi hefði brotið gegna 215. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 4. gr. og a-lið 2. mgr. 20. gr. umferðarlaga.  Í dóminum segir m.a.:  “Af þeim myndum, sem lögreglan tók á vettvangi, má sjá að mun minna sér á jeppabifreið hins látna en lítilli bifreið ákærðu.  Miðað við eðli þeirra meiðsla ern ökumaðurinn hlaut er hugsanlegt að notkun öryggisbeltanna hefði bjargað lífi hans.  Einnig þykir rétt að hafa í huga þær afleiðingar sem slysið hafði fyrir ákærðu sjálfa.”

Örorkunefnd komst að þeirri niðurstöðu, sbr. matsgerð 30. janúar 2001, að varanleg örorka og varanlegur miski stefnanda vegna slyssins væri 55%.

Í bréfi tjónafulltrúa Lloyd´s á Íslandi, 8. mars 2004, til lögmanns stefnanda, segir að á þeim tíma, sem slysið varð, hafi hámark varðandi bótagreiðslur úr slysa­tryggingu eiganda og ökumanns að lögum verið 21.000.000 króna.  Vísað er til þess að vátryggjandi hafi þann 18. október 2000 greitt stefnanda fullnaðarbætur vegna slyssins og hafi við það uppgjör verið miðað við að stefnandi bæri eigin sök á því tjóni, sem hún varð fyrir, að a.m.k. 1/3 hluta.  Samtals hafi bótagreiðslu numið 13.850.290 krónum og sé það mat vátryggjanda að stefnandi hafi þeim fengið tjón sitt bætt að fullu.  Framkomnum kröfum um viðbótargreiðslur sé því hafnað.

Framangreind greiðsla þ. 18. október 2000, þ.e. bætur að upphæð 8.380.290 auk lögfræðikostnaðar að upphæð 450.406 krónur og virðisaukaskatts, var af hálfu stefnanda móttekin með fyrirvara.

Við að almeðferð málsins var breyting á kröfugerð stefnanda sem leiðir til einföldunar á málsástæðum frá því sem verið hafði samkvæmt stefnu.

Aðila greinir ekki á um hvert tjón stefnanda hafi verið og í málinu er ekki tölulegur ágreiningur.

Krafa stefnanda er reist á því að við uppgjör 18. október 2000 hafi af hálfu stefnda, Lloyd´s of London, verið ranglega miðað við að stefnandi bæri 1/3 eigin sök í málinu og því hafi þriðjungur verið dreginna af hverjum bótalið; tímabundnu atvinnu­tjóni 916.666 krónur, þjáningabótum 270.680 krónur, miskabótum 880.256 krónur og bótum vegna varanlegrar örorku 4.623.840 krónur.

Um lagagrundvöll vísar stefnandi til 88. gr., 90. gr. og 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Dómkröfur stefnanda byggjast á því að stefndu beri að greiða sér fullar bætur vegna tjóns sem hún varð fyrir vegna umferðarslyssins, sbr. I. kafla laga nr. 50/1993 með síðari breytingum.  Vísað er til þess að samkvæmt 88. gr. umferðarlaga nægi stefnda ekki að sýna fram á (einfalt) gáleysi stefnanda heldur að það hafi verið “stórkostlegt”.

Krafist er vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga eins og ákvæðið var á slysdegi af bótum frá tjónsdegi 14. mars 1998 til 18. nóvember 2000 er mánuður hafi verið liðinn frá því að kröfum stefnanda var hafnað og tjónið gert upp með fyrirvara en dráttarvaxta krafist frá þeim tíma.

Stefndu byggja sýknukröfu sína annar vegar á því að regla 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga eigi ekki við um líkamstjón stefnanda og verði hún að sæta sakar­skiptingu sem byggist á einföldu mati á gáleysi. Og hafi stefndu verið rétt að bera fyrir sig kröfu um sakarskiptingu sem varlega áætluð nemi 1/3 hluta tjónsins.

Í öðru lagi byggja stefndu sýknukröfu sína á því að jafnvel þó talið yrði að sýna þurfi fram á stórkostlegt gáleysi hjá stefnanda til þess að unnt verði að beita sakarskiptingu hafi stefnandi hagað sér á stórkostlega gálausan hátt sem leitt hafi til slyssins.  Framburðir vitna svo og lýsing stefnanda sjálfrar á aðdraganda slyssins bendi til þess að hún hafi ekki verið fær um að stjórna ökutækinu á öruggan hátt.  Að sögn stefnanda hafi hún verið vansvefta eftir að hafa verið á skemmtistað kvöldið áður að afloknum vinnudegi.  Hún hafi ekið um langan veg og ekki hvílst nema í 2-3 klukkustundir áður en hún lagði af stað á ný.  Stefnandi hafi reynt framúrakstur án þess að aðstæður leyfðu og að því er virðist án þess að gefa gaum að aðkomandi umferð og án þess að því er séð verði gert neitt til að afstýra því að slys yrði og þannig beinlínis átt sök á því tjóni sem hún varð fyrir.  Stefnanda hafi með engu móti getað dulist að þessar athafnir hennar væru stórháskalegar og til þess fallnar að valda slysi ein og raun varð.  Stefnandi verði því að sæta skerðingu bótaréttar vegna eigin sakar og í því ljósi hafi hún fengið tjón sitt bætt að fullu.

Varakrafa stefndu er rökstudd með því að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti við að halda kröfum sínum til streitu þar sem u.þ.b. fjögur ár hafi liðið frá því bætur voru greiddar þar til hafist var handa um málssókn og beri því að lækka við­bóta­greiðslur til hennar og hún geti í fyrsta lagi átt rétt til dráttarvaxta frá dóms­uppsögu eða þingfestingu stefnu.

Af hálfu stefnda, Guðmundar Helga Andersen, er ekki haldið fram sýknu­ástæðu sem taki sérstaklega til hans.

Réttur stefnanda til bóta helgast af 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 32/1998, sem kveður á um að auk ábyrgðartryggingar samkvæm 91. gr. skuli hver ökumaður sem ökutækinu stjórnar tryggður sérstakri slysatryggingu enda hafi hann ekki notað ökutækið í algeru heimildarleysi, sbr. 2. mgr. 90. gr.  Stefnandi nýtur réttar sem vátryggð og sakarskiptingarregla 89. gr. laganna vegna áreksturs skráningarskyldra vélknúinna ökutækja á því ekki við.

             Í skilmálum hins stefnda tryggingafélags fyrir slysatryggingu ökumanns og eiganda sem farþega segir í 5. gr.:  “Réttur til vátryggingabóta getur fallið niður samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga ef vátryggingartaki eða vátryggður vanrækir skyldur sínar gagnvart vátryggjanda, t.d. ef hann ekur án þess að hafa öku­réttindi eða veldur tjóni af stórkostlegu gáleysi eða undir áhrifum áfengis, ávana- eða fíkniefna.”  Þetta undanþáguákvæði samrýmist 20. gr. laga nr. 20/1954, sbr. einnig 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga.

Upplýst er að stefnandi hafði lítið sofið um nóttina fyrir slysið en engu að síður er óhrakið að hún hafi verið vel fyrir kölluð.  Verður þannig við það miðað að stefnandi hafi verið líkamlega og andlega fær um að stjórna ökutæki því sem  hún fór með, sbr. 1. mgr. 44. gr. umferðarlaga.  Óumdeilt er að slysið varð fyrir það stefnandi sýndi af sér gáleysi við aksturinn en á hinn bóginn er engan veginn í ljós leitt að akstursmáti hennar fyrir tjónsatvikið hafi verið sérlega aðfinnsluverður eða glæfra­legur þannig að boðið hafi hættu heim. 

Samkvæmt framangreindu ráðast úrslit málsins af því hvort komist verði að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til tryggingabóta með því að valda tjóni af stórfelldu gáleysi.  Niðurstaða málsins er sú að svo sé ekki og að því beri að fallast á kröfur hennar.  Úrlausn meginágreinings aðila ræðst af réttarvenju og gögn málsins lágu fyrir er hið stefnda tryggingafélag hafnaði að verða að fullu við kröfu stefnanda og verður ekki fallist á varakröfu stefndu sem er reist á tómlæti stefnanda.

Samkvæmt þessu ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda óskipt 6.691.442 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.  Dæma ber stefndu til að greiða 700.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, Óðins Elís­sonar héraðsdómslögmanns 700.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Lloyd´s of London og Guðmundur Helgi Andersen, greiði stefnanda Jennýju Andersen, 6.691.442 krónur með 2% ársvöxtum frá 14. mars 1998 til 18. október 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. nóvember 2000 til 1. júlí 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði 700.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun Óðins Elíssonar héraðsdómslögmanns 700.000 krónur.