Hæstiréttur íslands
Mál nr. 66/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Fimmtudaginn 19. febrúar 2009. |
|
Nr. 66/2009. |
A(Stefán Karl Kristjánsson hdl.) gegn B (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu A, um að fella niður nauðungarvistun á sjúkrahúsi, sem ákveðin var af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 25. janúar 2009.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði niður nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 25. janúar 2009. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun um nauðungarvistun verði felld úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur til hvors, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2009.
Með beiðni, dagsettri 26. f.m. hefur A, kt. [...], [...], Reykjavík, farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, 25. f. m., um það að hún skuli vistast nauðug á sjúkrahúsi. Mál þetta var þingfest 29. þ.m. og tekið til úrskurðar í dag.
Sóknaraðili kveðst ekki vera haldin geðveiki. Meðal gagna málsins er hins vegar staðfest vottorð Andrésar Magnússonar geðlæknis þar sem fram kemur að sóknaraðili er haldin langvinnum geðsjúkdómi, aðsóknarkendum ranghugmyndum. Segir þar að nauðungarvistun sé óhjákvæmileg til þess að unnt sé að tryggja það að sóknaraðili fái læknismeðferð við sjúkdóminum. Ómar Hjaltason geðlæknir, sem stundar sóknaraðila á geðdeild Landspítala, segir að meðferðin, sem hún þurfi að fá, felist í daglegri lyfjagjöf og daglegri samtalsmeðferð. Þá segir hann það einkenna þennan sjúkdóm að sjúklingurinn hafi lítið sjúkdómsinnsæi. Loks er að geta þess að í málinu eru margar lögregluskýrslur frá árunum 2003 til 2008 sem bera það með sér að sóknaraðili hefur átt í verulegum útistöðum við nágranna sína og fleira fólk.
Dómarinn telur ljóst af því sem rakið hefur verið að brýn nauðsyn sé til þess að vista sóknaraðila á sjúkrahúsi. Ber því að ákveða að fyrrgreind ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast.
Málskostnað, þar með talda þóknun til talsmanna aðilanna, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl. og Páls Arnórs Pálssonar hrl., 100.000 krónur til hvors um sig, ber að greiða úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun Dómsmálaráðuneytisins frá 25. janúar 2009 að A, kt. [...], [...], Reykjavík, skuli vistast á sjúkrahúsi.
Þóknun til talsmanna aðilanna, Stefán Karl Kristjánssonar hdl. og Páls Arnórs Pálssonar hrl., 100.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.