Hæstiréttur íslands
Mál nr. 172/2005
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 3. nóvember 2005. |
|
Nr. 172/2005. |
Orkubú Vestfjarða hf. (Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) íslenska ríkið og (Skarphéðinn Þórisson hrl.) Þörungaverksmiðjan hf. (Hanna Lára Helgadóttir hrl.) gegn Birgi Óskari Bjarnasyni (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Gjafsókn.
Árið 1996 féll B í hver í landi Reykhóla í Austur-Barðastrandarsýslu, steinsnar utan við þéttbýlið á staðnum. Vegna áverka er hlutust af slysinu var honum metinn 50% varanlegur miski og 50% varnaleg örorka. Krafði hann Í, O hf. og Þ hf. um greiðslu bóta á grundvelli þessa mats og byggði málssóknina á því að allir þessir aðilar hefðu að nokkru marki verið umráðamenn jarðhitaréttinda á Reykhólum í skilningi 51. gr. þágildandi orkulaga nr. 58/1967. Með vísan til ákvæðisins og staðsetningar hversins var talið að umráðamönnum hans hafi borið að girða hann af. Þá var talið að Í hafi, sem eigandi jarðarinnar, einn verið umráðamaður hversins, enda yrði ekki lagður sá skilningur í samning, sem gerður hafði verið um nýtingu jarðhita á landinu, að leigutakar samkvæmt honum teldust umráðamenn hversins í skilningi umrædds ákvæðis. Voru O hf. og Þ hf. því sýknuð af kröfum B en Í gert að greiða honum umkrafða fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 27. apríl, 2. maí og 11. maí 2005. Þeir krefjast allir sýknu af kröfum stefnda í málinu og greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að áfrýjendum verði in solidum gert að greiða sér aðra og lægri fjárhæð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en honum var veitt gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Atvik málsins eru rakin í héraðsdómi. Þar kemur fram að 28. desember 1996 féll stefndi í hverinn Kraflanda, sem er í landi Reykhóla í Austur-Barðastrandarsýslu, steinsnar utan við þéttbýlið á staðnum. Þegar þetta gerðist hafði stefndi, sem var langt kominn á fjórða ár, verið að leik við hverinn ásamt 11 ára bróður sínum og jafnaldra hans. Mun stefnda hafa skrikað fótur og fallið í sjóðandi heitt vatnið. Hlaut hann samkvæmt framlögðu læknisvottorði djúpan II. stigs bruna á allan vinstri fót, upp á rasskinn og síðu og á vinstri handlegg upp fyrir olnboga. Varð hann að liggja samtals 102 daga á sjúkrahúsi af þessum völdum og var honum metinn 50% varanlegur miski og 50% varanleg örorka sem afleiðing slyssins. Fyrir Hæstarétti er hvorki ágreiningur um þessar afleiðingar slyssins né fjárhæð þeirra skaðabóta sem héraðsdómur ákvað honum. Aðila greinir hins vegar á um hvort tjón hans megi rekja til skaðabótaskylds verknaðar eða athafnaleysis áfrýjenda allra eða einhvers þeirra.
Stefndi reisir málsókn sína fyrir Hæstarétti á hendur áfrýjendum á því að þeir hafi allir að nokkru marki verið umráðamenn jarðhitaréttinda á Reykhólum í skilningi 51. gr. þágildandi orkulaga nr. 58/1967 með áorðnum breytingum. Vísar hann í því sambandi til eignarráða ríkisins á jörðinni Reykhólum og samnings um jarðhitaréttindi hennar 26. mars 1996 að því er varðar aðra áfrýjendur. Heldur hann því fram að engar ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu áfrýjenda til þess að koma í veg fyrir slysið en 51. gr. þágildandi orkulaga leggi þá skyldu á herðar umráðamanni að girða jarðhitasvæði sem hætta stafar af.
Af hálfu áfrýjenda er ágreiningur um hver sé umráðandi jarðhitasvæðisins í skilningi 51. gr. orkulaga. Jafnframt er því haldið fram af hálfu ríkisins að svo sem víða hagi til á Íslandi verði ekki lögð víðtæk skylda á herðar landeiganda að girða alla hveri. Einnig er til þess vitnað að í lögregluskýrslu komi fram að börn á Reykhólum hafi hvað eftir annað verið vöruð við hættu af hverunum, sem á þessu svæði séu margir.
II.
Hverinn Kraflandi tilheyrir jörðinni Reykhólum, sem er í eign ríkisins. Hverinn er í nánd þéttbýlis þar sem alltaf má búast við einhverri umferð og börnum að leik. Verður að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdóms að samkvæmt 51. gr. orkulaga, sem giltu á þessum tíma, hafi sú skylda verið lögð á umráðamenn hversins að girða hann af og koma þannig í veg fyrir að hætta stafaði frá hvernum, en fallast verður á það með héraðsdómi að á þann hátt hefði mátt koma í veg fyrir slysið.
Það ræðst af skýringu á áðurnefndum samningi, sem áfrýjendur eru bundnir af, hver teljist umráðamaður jarðhitasvæðisins og hversins Kraflanda. Ljóst má vera að íslenska ríkið sem jarðeigandi er umráðamaður jarðhitasvæðisins í heild og er það því á þess ábyrgð að hverinn var ekki girtur af, verði ekki af samningnum ráðið að aðrir áfrýjendur hafi tekið að sér umráð svæðisins eða þess hluta sem hverinn tilheyrir.
Í 1. mgr. 1. gr. samningsins segir að leigusali heimili leigutaka að nýta allt að 35 ltr/sek af 100° heitu vatni eða jafngildi þess af varmaafli úr borholum í landi jarðarinnar, sem leigutaki hafi þegar virkjað og hafið nýtingu úr. Staðsetning borhola sé sýnd á meðfylgjandi uppdrætti sem fylgi samningnum og sé hluti af honum. Uppdráttur þessi er ekki lagður fram í málinu og mun vera glataður, en þrátt fyrir það virðist af orðalagi samningsins mega ráða að ekki sé leigutaka heimiluð víðtækari umráð jarðhitasvæðisins en sem svarar þeim borholum sem hann hefur virkjað. Aðrar greinar samningsins styðja þessa niðurstöðu. Núverandi leigutakar eru áfrýjendurnir Orkubú Vestfjarða hf. og Þörungaverksmiðjan hf. Af gögnum málsins má ráða að hverinn Kraflandi var ekki nýttur af þeim og tilfæringar, sem gerðar höfðu verið við hverinn, voru ekki af þeirra völdum. Verða þeir því ekki taldir umráðamenn hans í skilningi 51. gr. þágildandi orkulaga og ber að sýkna þá af kröfum stefnda. Íslenska ríkið hefur ekki bent á að öðrum hafi verið veitt umráð yfir hvernum og verður samkvæmt framanskráðu að staðfesta héraðsdóm um ábyrgð þess á slysi stefnda.
Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest. Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Orkubú Vestfjarða hf. og Þörungaverksmiðjan hf., eru sýknaðir af öllum kröfum stefnda, Birgis Óskars Bjarnasonar.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda 9.168.623 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 28. desember 2001 til 1. apríl 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Málkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hans fyrir réttinum, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2005.
I
Mál þetta var höfðað 28. júní 2004 og dómtekið 7. mars 2005.
Stefnandi er Bjarni Óskar Halldórsson, [...] og Erna María Böðvarsdóttir, [...] Traðarbergi 17, Hafnarfirði vegna ólögráða sonar þeirra, Birgis Óskars Bjarnasonar, [...]
Stefndu eru, íslenska ríkið, og er landbúnaðarráðherra, iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra stefnt í málinu vegna þess, Reykhólahreppur, [...], Reykhólum, Austur-Barðastrandasýslu, Orkubú Vestfjarða hf., [...], Stakkanesi 1, Ísafirði og Þörungaverksmiðjan hf., [...], Karlsey, Reykhólum, Austur-Barðastrandasýslu. Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., [...], Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu, in solidum, verði gert að greiða stefnanda 13.448.510 krónur auk vaxta af stefnufjárhæð samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 frá 28. desember 2001 til þingfestingardags gagnvart öðrum stefndu en Orkubúi Vestfjarða hf. en gagnvart þeim er krafist vaxta samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 frá 16. apríl 2004 til þingfestingardags og dráttarvaxta frá þingfestingardegi gangavart öllum stefndu til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndu, in solidum, verði gert að greiða stefnanda aðra lægri fjárhæð, samkvæmt ákvörðun dómsins, með þeim vöxtum sem dómurinn ákveður. Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda, sem er ábyrgðartryggingarfélag stefndu, Reykhólahrepps, Orkubús Vestfjarða hf. og Þörungaverksmiðjunnar hf.
Jafnframt aðal- og varakröfu krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum eins og mál þetta sé ekki gjafsóknarmál.
Stefndi, íslenska ríkið, gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.
Stefndi, Reykhólahreppur, gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Til vara krefst hann þess að sök verði skipt, dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.
Stefndi, Orkubú Vestfjarða hf., gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Til vara krefst hann þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og sök skipt og málskostnaður felldur niður.
Stefndi, Þörungaverksmiðjan hf., gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Til vara að sök verði skipt og málskostnaður felldur niður og til þrautavara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
Réttargæslustefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., gerir engar kröfur í málinu og eru engar kröfur gerðar á hendur honum.
II
Málavextir eru þeir að þann 28. desember 1996 féll stefnandi í hverinn Kraflanda í landi jarðarinnar Reykhóla, Reykhólahreppi, Austur-Barðastrandasýslu og slasaðist hann alvarlega. Var hann aðeins þriggja ára þegar þetta var og hafði verið að leik við hverinn ásamt 11 ára bróður sínum og öðrum dreng á sama aldri.
Kemur fram í lögregluskýrslu sem gerð var í kjölfar slyssins að umræddur hver hafi verið notaður til að baka í. Að öllu jöfnu sé ekki vatn í honum þar sem það hverfi þegar dælt sé úr hverasvæðinu þar eð mikið vatn fari í Þörungaverksmiðjuna og þegar hún sé í gangi sé hverinn að jafnaði þurr. Svo kemur fram í skýrslunni að börnin muni hafa verið að leika sér á svæðinu þrátt fyrir að margsinnis hafi verið búið að segja þeim að þarna mættu þau ekki vera og að gerðar verði ráðstafanir til að ræða við bæjaryfirvöld svo að gengið yrði þannig frá svæðinu að ekki væri hætta á því að slys sem þessi geti komið fyrir. Ekki liggur fyrir í málinu að það hafi gengið eftir. Af myndum sem liggja fyrir í málinu sjást ofnar ofan á hvernum og ber gögnum ekki saman um hvort þeir hafi verið þar þegar slysið varð eða hvort þeir hafi verið settir þar í kjölfar slyssins, þá í þeim tilgangi að draga úr hættu þeirri sem af hvernum stafaði. Þá ber gögnum heldur ekki saman um það hvort umræddur hver væri að jafnaði þurr þegar vinnsla væri í stefnda, Þörungaverksmiðjunni hf., en vitnið Guðmundur Sigvaldason, starfsmaður stefnda Þörungaverksmiðjunnar hf., bar fyrir dómi að allaf væri vatn í hvernum.
Um ástæðu þess að drengirnir voru þarna umrætt sinn er margt óljóst en faðir stefnanda bar fyrir dómi að það væri rangt sem fram komi í lögregluskýrslu að margsinnis hafi verið búið að segja börnunum að þarna mættu þau ekki vera.
Líkamstjóni stefnanda er lýst í vottorði Rafns A. Ragnarssonar, yfirlæknis á lýtalækningadeild Landspítalans, og kemur þar fram að stefnandi hafi brennst illa á vinstri ganglim og hendi þegar hann hafi runnið ofan í opinn hver. Um hafi verið að ræða djúpan II. stigs bruna, á gjörvöllum vinstri ganglim, rasskinn og upp á síðu og vinstri handlegg upp fyrir olnboga. Þá hafi í þessu enn fremur verið svæði með III. stigs bruna.
Jónas Hallgrímsson læknir mat líkamstjón og miska stefnanda vegna slyssins í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 og er niðurstaða hans samkvæmt matsgerð 2. desember 2000 að enn séu ekki öll kurl komin til grafar um afleiðingar þessa mikla brunaslyss. Hafi stefnandi mikil lýti á vinstri handlegg og vinstri fótlegg ásamt kláða, verkjum, viðkvæmni og kuldaóþoli. Hreyfifærni hans í vinstri hönd sé eitthvað varanlega skert og óvíst hvort hann haldi fullri hreyfingu í öðrum liðum handleggs og fótleggs þar sem örvefur gæti ennþá verið í myndun og valdið frekari samdráttum og stirðleika. Það sem óljósast sé séu sálrænar afleiðingar slyssins sem trúlega séu langt frá því að vera komnar í ljós ennþá. Muni stefnandi alla tíð bera þessi miklu lýti og trúlega fyrirverða sig fyrir þau á einhvern hátt. Lýti, viðkvæmni og kuldaóþol á örvefssvæðum auk skertrar hreyfifærni, sérstaklega í vinstri hönd, muni líklega hafa mikil og aðallega neikvæð áhrif á framtíð stefnanda í námi og starfi og þar með á tekjuhæfi hans.
Metið samkvæmt skaðabótalögum sé tímabundið atvinnutjón ekkert. Varðandi þjáningar þá hafi stefnandi legið á spítala í 102 daga vegna afleiðinga slyssins. Hafi síðustu og fjórðu innlögn lokið 5. október 1998 eða um tveim árum eftir slysið. Sé talið að stefnandi hafi verið veikur í skilningi skaðabótalaga þann tíma en á meðan á því hafi staðið hafi hann verið rúmliggjandi á spítala í 102 daga.
Hvað snerti varanlegan miska þá nái hefðbundnar örorkutöflur sem notaðar séu á Íslandi ekki yfir líkamstjón stefnanda. Brunasvæðið nái yfir stóran hluta af vinstri handlegg og vinstri hönd og allan vinstri fótlegg og fót. Sé miski stefnanda metinn að lágmarki 50%. Þar sem stefnandi sé barn ákvarðist bætur til hans samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga á grundvelli miskastigs sem sé metið að lágmarki 50%.
Samkvæmt þinglýsingarvottorði úr þinglýsingarbókum sýslumannsins á Patreksfirði er jörðin Reykhólar, Reykhólahreppi, Barðastrandasýslu með tilheyrandi mannvirkjum þinglesin eign Ríkissjóðs Íslands samkvæmt heimildarbréfi 13. maí 1939 og er óumdeilt að stefndi, íslenska ríkið, er eigandi landsins þar sem umræddur hver er staðsettur.
Þann 12. janúar 1996 var gerður samningur á milli Orkubús Vestfjarða og stefnda Reykhólahrepps, um sölu Reykhólahrepps á Hitaveitu Reykhólahrepps til Orkubúsins. Orkubú Vestfjarða var á þeim tíma sameignarfélag ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum, sbr. 3. gr. laga nr. 66/1976 um Orkubú Vestfjarða frá 31. maí 1976. Með þessum samningi afhenti stefndi, Reykhólahreppur, Orkubúi Vestfjarða allan þann rétt sem hann átti til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallsvatns til orkuframleiðslu, sbr. 6. gr. samningsins. Samningurinn var gerður með fyrirvörum, meðal annars um samþykki iðnaðarráðherra og að staðfesting fengist frá landbúnaðarráðuneytinu um að Hitaveita Reykhólahrepps hefði rétt til nýtingar á jarðhita í landi ríkisjarðanna á Reykhólasvæðinu, sbr. 9. gr. samningsins. Með bréfi Landbúnaðarráðuneytisins frá 2. febrúar 1996 staðfesti ráðuneytið sameiginlegan nýtingarrétt stefndu, Reykhólahrepps og Þörungaverksmiðjunnar hf., á heitu vatni úr jörðinni Reykhólum í samræmi við þarfir sveitarfélagsins og verksmiðjunnar og í samræmi við þá skiptingu sem lægi fyrir. Þó var tekið fram að heimild og staðfesting ráðuneytisins væri gefin með fyrirvara um samþykki Orkustofnunar samkvæmt 20. gr. þágildandi orkulaga nr. 58/1967. Enn fremur er tekið fram í bréfinu að nauðsynlegt væri að gera skriflegan samning um nýtingu jarðhitans.
Slíkur samningur var gerður þann 26. mars 1996 þar sem stefndu, Reykhólahreppi, vegna hitaveitunnar, og Þörungaverksmiðjunni hf., var heimilað að nýta jarðhita úr landi Reykhóla í Reykhólahreppi. Í 1. gr. samningsins kemur fram að um takmörkuð réttindi sé að ræða, enda væri stefndu, Reykhólahreppi og Þörungaverksmiðjunni, einungis heimilað að nýta allt að 35 lítrum á sekúndu af ca 100 °C heitu vatni. Í 8. gr. samningsins var stefnda, Reykhólahreppi, heimilað að framselja rétt sinn samkvæmt samningnum til Orkubús Vestfjarða. Undir þennan samning ritaði einnig starfsmaður Iðnaðarráðuneytisins og voru því fyrirvararnir í 9. gr. samningsins frá 12. janúar 1996 uppfylltir og þar með gátu kaup Orkubús Vestfjarða á Hitaveitu Reykhólahrepps átt sér stað. Orkubú Vestfjarða hf. tók svo við öllum eignum og skyldum Orkubús Vestfjarða á grundvelli laga sem samþykkt voru á Alþingi árið 2001.
Í máli þessu er deilt um það fyrst og fremst hvort stefndu beri skaðabótaábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar á tjóni stefnanda, sem hann varð fyrir er hann féll ofan í sjóðheitan hver, þar sem þeir hafi vanrækt skyldu sína, sem umráðaaðilar jarðhitasvæðisins, að girða svæðið af.
III
Stefnandi kveður stefnda, íslenska ríkið, vera eiganda Reykhólajarðarinnar, þar sem umræddur hver, sem nefndur sé Kraflandi, sé staðsettur. Með eignarráð jarðarinnar fari jarðardeild landbúnaðarráðuneytisins fyrir hönd landbúnaðarráðherra, sbr. 9. gr. auglýsingar nr. A 96/1969 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, gildandi á þeim tíma sem slysið varð.
Iðnaðarráherra hafi, á þeim tíma sem slysið varð, farið með yfirstjórn orku- og iðnaðarmála, sbr. 8. gr. auglýsingar nr. A 69/1996 og verið æðsti yfirmaður Orkustofnunar, sem starfað hafi samkvæmt gildandi orkulögum þegar slysið varð, en með 54. gr. þeirra laga hafi stofnuninni verið falið eftirlitshlutverk af hálfu ríkisins með jarðhitasvæðum og jarðhitamannvirkjum. Samkvæmt 53. gr. sömu laga hafi ráðherra haft heimild til að setja reglugerð, meðal annars um öryggisráðstafanir gegn hættu og tjóni sem gæti stafað af jarðhitasvæðum og jarðhitamannvirkjum. Reglugerðarheimildin muni ekki hafa verið nýtt af hálfu ráðherra og sé það miður, þar sem ljóst megi vera að komast hefði mátt hjá tjóni stefnanda hefðu öryggisráðstafanir verið viðhafðar.
Með kaupsamningi 12. janúar 1996 hafi stefndi, Orkubú Vestfjarða hf., keypt rekstur og allar eignir Hitaveitu Reykhólahrepps af Reykhólahreppi.
Samkvæmt leigusamningi landbúnaðarráðherra, f.h. jarðadeildar landbúnaðar-ráðuneytisins annars vegar og Hitaveitu Reykhólahrepps og stefnda Þörungaverksmiðjunnar hf. hins vegar, um nýtingu á jarðhita úr landi Reykhólajarðarinnar, dagsettum 26. mars 1996, sem þinglýst hafi verið á jörðina 13. apríl 1996, hafi þessir aðilar farið með umráð nýtingar að jarðhita á jörðinni í sameiningu sem leigutakar, þegar slysið varð.
Með kaupsamningi 5. desember 2001 hafi stefndi, íslenska ríkið, keypt allt hlutafé stefnda, Reykhólahrepps, í Orkubúi Vestfjarða hf. Samkvæmt ákvæði 4. gr. samningsins og ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 40/2001 um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, beri sameignarfélagar Orkubús Vestfjarða áfram, gagnvart kröfuhöfum, einfalda óskipta ábyrgð á skuldbindingum Orkubús Vestfjarða sem stofnast höfðu áður en hlutafélag var stofnað um rekstur þess, samkvæmt eignarhlutföllum l. desember 2000.
Byggir stefnandi á því að ofangreindir aðilar hafi allir verið, að nokkru marki, umráðamenn jarðhitaréttinda í skilningi 51. gr. þágildandi orkulaga og með vísan til áðurgreindra samninga og laga nr. 40/2001 og beri þeir því ábyrgð á tjóni stefnanda, en fyrir liggi að engar ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu neins þeirra, til að varna slysum af því tagi sem stefnandi varð fyrir og að meta beri það þeim til sakar, með tilliti til bótaskyldu. Þetta eigi ekki síst við sé litið til þess sem fram komi í skýrslu lögreglu um tjónsatburðinn, að þessum aðilum hafi mátt vera kunnugt um að hætta gæti skapast af hverum á svæðinu, sem alla jafna stafaði ekki hætta af, við þær aðstæður sem ríkt hafi þegar slysið varð, þ. e. að heitavatnsnotkun væri lítil vegna árstíðarbundins hlés í rekstri stefnda, Þörungaverksmiðjunnar hf.
Eftir að slysið varð hafi stefnandi fengið upplýsingar um að nokkrum árum áður hefði orðið slys á þessu svæði sem svipi um margt til slyss stefnanda. Hafi verið rekið dómsmál fyrir bæjarþingi Reykjavíkur um málið og hafi stefndu því hlotið að vera ljós hættan sem af svæðinu stóð. Hafi stefndu því að mati stefnanda sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að aðhafast ekkert til að afstýra hættunni.
Stefnandi kveður að vænta megi, eins og fram komi í matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis, að sálrænar afleiðingar slyssins fyrir stefnanda hafi ef til vill ekki verið komnar fram þegar matið hafi verið framkvæmt. Mat á þeim afleiðingum sem fram séu komnar hafi nú að nokkru farið fram, sbr. skýrslu Einars Inga Magnússonar sálfræðings og renni niðurstöður þess mats enn frekari stoðum undir kröfugerð stefnanda um umfang tjónsins.
Með bréfi lögmanns stefnanda til stefndu 28. desember 2001 hafi stefndu fyrst verið krafðir um skaðabætur þær sem mál þetta fjalli um í samræmi við framangreinda matsgerð, önnur fylgigögn og ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan hafi þó fyrst verið höfð uppi gagnvart stefnda, Orkubúi Vestfjarða hf., með bréfi. 16. apríl 2004.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig miðað við þingfestingardag 29. júní 2004:
|
1. Þjáningar-rúmfastur í 102 daga x 1.380 |
kr. 186.660 |
|
2. Þjáningar-veikur í skilningi skaðabótalaga í 545 daga x 990 |
kr. 539.550 |
|
3. Varanlegur miski- 8.443.000 x 50% |
kr. 4.221.500 |
|
4. Varanleg örorka 8.443.000 x 50% x 200 |
kr. 8.443.000 |
|
5. Útlagt vegna læknisvottorðs, matsgerðar og þingl.vott |
kr. 58.900 |
|
Samtals |
kr. 13.449.610 |
Vegna sérstakra atvika þessa hörmulega slyss þar með talið vegna ungs aldurs stefnanda og þeirrar miklu röskunar sem slysið hafi valdið og muni valda um ófyrirsjáanlega framtíð á högum hans og fjölskyldu hans sé krafist hámarksbóta samkvæmt gildandi rétti á þeim tíma sem slysið varð.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið kveðst stefnandi byggja málsókn sína á hendur stefndu á meginreglum skaðabótaréttar um sakarábyrgð á tjóni utan samninga og ábyrgð á hættulegum eiginleikum fasteigna. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 og um varnarþing vísar hann til 3. mgr. 33. gr. sömu laga sbr. og 1. mgr. 42. gr. laganna.
IV
Málsástæður stefnda, íslenska ríkisins
Stefndi kveður að í íslenskum skaðabótarétti sé ekki að finna hlutlæga ábyrgð á eigendum mannvirkja heldur þurfi að sanna sök. Samkvæmt íslenskri dómaframkvæmd beri ekki að nota strangt sakarmat á umsjónarmönnum eða eigendum fasteigna heldur sé sök viðkomandi aðila metin eftir venjulegu sakarmati. Skaðabótaábyrgð fasteignaeiganda á búnaði fasteigna byggist líka á almennu sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð án nokkurrar rýmkunar. Um þetta séu til ýmsir dómar. Í þeim dómum þar sem bótaskylda hafi verið felld á íslenska ríkið vegna vanbúnaðar á mannvirkjum sjáist greinilega að bótaábyrgðin sé ekki strangari en venjulega.
Stefndi telur að ekki sé um að ræða skaðabótaábyrgð hjá íslenska ríkinu í máli þessu í ljósi þeirra staðreynda að ekki sé hægt að koma auga á sök hjá þeim sem íslenska ríkið beri ábyrgð á í þessu samhengi. Slysið sýnist hvorki verða rakið til vanbúnaðar né vanrækslu heldur til óhapps sem starfsmönnum stefnda verði ekki kennt um. Í þessu sambandi sé bent á að umrætt hverasvæði sé ekki svæði sem fólki sé sérstaklega beint til. Þvert á móti komi fram í gögnum málsins að stefnandi hafi verið á bannsvæði þegar slysið varð. Af þessu megi ráða að börn máttu alls ekki vera að leik á svæðinu. Þá liggi fyrir að hætta við hveri komi ekki fram skyndilega. Börn muni hafa verið að leika sér á svæðinu þrátt fyrir að margsinnis hafi verið búið að segja þeim að þarna mættu þau ekki vera, svo notað sé orðalag úr lögregluskýrslu. Stefnandi hafi verið þriggja ára þegar hann hafi fallið ofan í hverinn á svæði þar sem hann mátti ekki leika sér. Sú staðreynd ein og sér hljóti að benda til gáleysis foreldra hans eða þeirra sem á honum báru ábyrgð.
Stefndi vekur sérstaklega athygli á samningi landbúnaðarráðuneytisins við Reykhólahrepp vegna Hitaveitu Reykhólahrepps og Þörungaverksmiðjunnar hf. dagsettan 26. mars 1996, sem fjallar um nýtingu jarðhita úr landi Reykhóla. Samkvæmt samningi þessum leigja og nýta tilgreindir leigutakar hitaréttindi jarðarinnar með tilteknum skilmálum og takmörkunum. Stefndi lítur svo á að með samningi þessum hafi leigutakar orðið umráðamenn jarðhitaréttinda jarðarinnar í skilningi 51. gr. orkulaga nr. 58/1967 meðan það ákvæði var í gildi. Samkvæmt lagaákvæðinu hafi umráðamanni verið skylt að girða jarðhitasvæði sem hætta stafaði af. Af þessari ástæðu geti stefndi á engan hátt borið ábyrgð á þeim slysum sem gætu hafa stafað af vanbúnaði á slysstað. Ábyrgðin hafi hvílt á umráðamönnum jarðhitasvæðisins en þeir hafi verið, samkvæmt samningnum, meðstefndu, Reykhólahreppur, vegna hitaveitu hreppsins og Þörungaverksmiðjan hf.
Leiði að mati stefnda allar ofangreindar málsástæður til þess að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda. Þá telur stefndi að forsendur útreiknings stefnanda á kröfu hans séu rangar í veigamiklum atriðum. Þá mótmælir hann dráttarvaxtakröfu stefnanda. Um málskostnað vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda, Reykhólahrepps
Stefndi kveður að samkvæmt íslenskum skaðabótarétti sé það meginregla að tjónþola beri að sanna sök meints tjónvalds, þ.e. að hann hafi valdið tjóni af ásetningi eða gáleysi. Takist honum það ekki sé ljóst að sýkna verði meintan tjónvald, nema fyrir liggi að hann beri hlutlæga bótaábyrgð samkvæmt íslenskum lögum. Í þessu máli sé hvorki um sök stefnda né hlutlæga bótaábyrgð hans að ræða. Einungis sé hægt að leggja hlutlæga bótaábyrgð á aðila með sérstakri lagasetningu Alþingis en hún sé ekki og hafi ekki verið til staðar.
Hafi stefndi ekki brotið neinar lagareglur í tengslum við slys stefnanda þann 28. desember 1996. Stefndi og starfsmenn hans hafi því ekki að neinu leyti sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem leitt geti til skaðabótaskyldu hans. Engin athafnaskylda hafi heldur hvílt á stefnda samkvæmt íslenskum lögum og reglum til að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slys.
Stefndi hafi selt öll réttindi sín til nýtingar á jarðhita í landi bújarðarinnar Reykhóla til Orkubús Vestfjarða með sölu sinni á Hitaveitu Reykhólahrepps þann 12. janúar 1996. Eftir þann tíma hafi stefndi engan rétt eða heimild haft til þess að nýta jarðhita á þessu tiltekna svæði. Ljóst sé að stefndi hafi hvorki verið eigandi jarðarinnar né umráðaaðili jarðhitaréttindanna samkvæmt 51. gr. þágildandi orkulaga nr. 58/1967. Jörðin Reykhólar hafi verið þinglýst eign Ríkissjóðs Íslands.
Samkvæmt þágildandi svæðisskipulagi hafi hverinn verið utan marka þéttbýlis og hafi stefndi því ekki getað gert ráðstafanir til að varna slysum. Honum hafi beinlínis verið óheimilt að viðhafa framkvæmdir á eignarjörð annars aðila. Samkvæmt þessu sé ljóst að ekki hafi hvílt á stefnda skylda til að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slys af þessu tagi.
Verði líkamstjón stefnanda að mestu leyti rakið til óhappatilviljunar og aðgæsluleysis foreldra hans. Ríkar skyldur hvíli á forráðamönnum barna til að koma í veg fyrir að barn slasist og beri að viðhafa sérstaka aðgæsluskyldu þegar í hlut eigi mjög ung börn. Verði að telja að aðgæslu þeirra hafi verið ábótavant í þessu tilviki.
Eins og rakið hafi verið sé hverinn ekki innan þéttbýlismarka Reykhólahrepps. Náttúra Íslands sé um margt stórbrotin og sé landið þakið af hverum með mjög heitu vatni. Hingað til hafi ekki verið skylt að girða fyrir alla hveri, klettasyllur, björg, fossa, o.fl. Það hafi þó verið gert þar sem margt fólk safnist saman til að skoða tiltekið náttúrufyrirbrigði. Sé því mótmælt að slíkar skyldur séu lagðar á eigendur eða umráðaaðila náttúrufyrirbæra.
Málskostnaðarkröfu sína styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varðandi varakröfu sína kveður stefndi að þess sé krafist að sök verði skipt nákvæmlega eftir því hversu mikla ábyrgð hver og einn hafi borið sbr. 1. mgr. 25. gr. skaðabótalaga, þótt ábyrgð verði dæmd in solidum, verði komist að þeirri niðurstöðu að stefndi, Reykhólahreppur, beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda. Beri stefndi skaðabótaábyrgð sé því mótmælt að hann eigi að bera hana einn. Sérstaklega skuli á það bent að stefndi, íslenska ríkið, hafi verið eigandi jarðarinnar þegar slysið varð og stefndu, Orkubú Vestfjarða og Þörungaverksmiðjan, handhafar nýtingarréttar á jarðhita í jörðinni.
Þá mótmælir stefndi útreikningi miskabóta þar sem stefnandi miði við 6.000.000 króna sem grunnfjárhæð varanlegs miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sbr. lög nr. 42/1996. Samkvæmt 4. gr. laganna sé grunnfjárhæðin 4.000.000 króna og samkvæmt því ættu miskabætur miðað við 29. júní 2004 að vera 2.814.138 krónur (5.625.275 x 50%).
Bætur fyrir varanlega örorku fari eftir 8. gr. þágildandi skaðabótalaga. Samkvæmt því ákvæði séu bætur fyrir varanlega örorku stefnanda 200% af bótum fyrir varanlegan miska, eða 5.628.275 krónur ( 2.814.138 x 200%).
Ekki sé fallist á að 5. málsliður 1. mgr. 4. gr. þágildandi skaðabótalaga eigi við í þessu máli, enda sé honum einungis beitt við mjög sérstakar aðstæður.
Málskostnaðarkrafa stefnda í varakröfu sé grundvölluð á 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda, Orkubús Vestfjarða hf.
Af hálfu stefnda er á því byggt í aðalkröfu að hann eigi enga aðild að máli þessu, hann hafi hvergi komið að þeirri atburðarás sem leitt hafi til tjóns stefnanda og að hann eigi enga aðild að þeim málsástæðum sem stefnandi byggi mál þetta á. Sá aðildarskortur leiði til sýknu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. eml.
Sé ljóst að stefndi hafi einungis staðbundinn rétt til tiltekinnar orkunýtingar að á svæðinu eða allt að 35 l/sek. af ca 100 °C heitu vatni og þá með stefnda, Þörungaverksmiðjunni hf., samkvæmt 1. gr. samningsins frá 26. mars 1996. Stefndi byggir á því að hann beri einungis ábyrgð á eigin orkunýtingu og eigin orkumannvirkjum og rekstri þeirra.
Hafi stefndi aldrei, hvorki einn né með öðrum, tekið að sér eða borið ábyrgð á almennri gæslu eða umráðum jarðhitaréttinda jarðarinnar Reykhóla af öðrum ástæðum. Eigandi jarðhitaréttindanna sé ríkissjóður. Ríkissjóður sé að sjálfsögðu umráðamaður þeirra réttinda, jafnt að eignarétti svo og sem umráðamaður samkvæmt ákvæðum þágildandi orkulaga, 51. gr., 53. og 54. gr. Ríkissjóður hafi ekki leigt stefnda þann hver sem hafi verið vettvangur líkamstjóns stefnanda. Ríkissjóður hafi ekki samið við stefnda um vörslu eða umráð þess hvers og beri stefndi enga ábyrgð á umræddum hver.
Enda þótt stefndi sé nefndur leigutaki með meðstefnda, Þörungaverksmiðjunni hf., í samningnum frá 26. mars 1996 sé það einungis gert af hagkvæmnisástæðum og til áréttingar skiptingarhlutfalli hitaveitunnar og Þörungaverksmiðjunnar á leigðri orku. Hvor þessara tveggja aðila beri alfarið og einungis ábyrgð á eigin rekstri, þar sé ekki um solidariska ábyrgð að ræða. Samkvæmt niðurlagi 15. greinar samningsins frá 26. mars 1996 verði stefndi aðeins ábyrgur fyrir tjóni sem kunni að verða af starfsemi hans á jörðinni.
Tjón stefnanda verði að mati stefnda ekki rakið til starfsemi stefnda á jörðinni, orkuveitumannvirkja stefnda eða rekstrar þeirra. Því fari fjarri að slysið geti með nokkru móti talist hafa átt sér stað vegna sakar stefnda, starfsmanna hans eða vegna sakar annarra aðila sem stefndi kunni að bera eða hafa borið ábyrgð á.
Stefndi mótmælir því þannig eindregið að hann sé eða hafi verið umráðamaður margnefnds hvers eða frárennslis frá honum þar sem tjónsatburðurinn hafi átt sér stað. Hann mótmælir því að hann sé eða hafi verið umráðamaður í skilningi ákvæða 51. gr. orkulaga.
Gagnstæðri túlkun stefnda, íslenska ríkisins, á samningnum frá 26. mars 1996 kveðst stefndi mótmæla enda sé hún röng og í andstöðu við orðrétt efni hans. Þessar málsástæður stefnda sýni allar sameiginlega sem og hver og ein að ekki sé um sök að ræða af hálfu stefnda í máli þessu og því eigi samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar að sýkna hann.
Byggi stefnandi öðrum þræði á reglum íslensks skaðabótaréttar um ábyrgð á hættulegum eiginleikum fasteigna, samkvæmt upptalningu í lagaákvæðakafla stefnu. Af hálfu stefnda sé á það bent að hann sé hvorki eigandi né umráðamaður þeirrar fasteignar þar sem tjónsatburðurinn átti sér stað né heldur þeirrar orku í fljótandi formi sem þar hafi verið að finna. Þessi málsástæða eigi þannig ekki heldur við um stefnda, sem leiði til sýknu.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda telur stefndi að vísa beri máli þessu frá dómi ex officio með vísan til ákvæða 2. málsgreinar 18. greinar eml. þess efnis að ef þeim sem beri óskipta skyldu er ekki öllum veittur kostur þess að svara til sakar í máli skuli vísa því máli frá dómi. Bent sé á það að af hálfu stefnanda sé á því byggt í stefnu að stefndu “hafi allir verið, að nokkru marki, umráðamenn jarðhitaréttinda (jarðarinnar?) í skilningi tilvitnaðs ákvæðis orkulaga” (væntanlega 51., 53. og 54. gr. þágildandi orkulaga). Þar eð málið sé byggt á þessari málsástæðu af hálfu stefnanda væri lögskylt að gefa öðrum nýtendum/umráðamönnum jarðhitaréttinda jarðarinnar, meðal annars þeim sem notuðu margnefndan hver til brauðgerðar, kost á því að gæta réttar síns en þeir séu að minnsta kosti að hluta til, taldir upp í 2. mgr. 2. greinar samningsins frá 26. mars 1996. Það hafi ekki verið gert.
Í varakröfu sé á því byggt af hálfu stefnda, verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu eða að málinu verði vísað frá dómi ex officio, að lækka beri dómkröfu stefnanda að álitum vegna vanræktrar umönnunarskyldu lögráðamanna stefnanda með því að gæta þess ekki betur að barnið væri ekki að leik í grennd við heitan hver en því megi jafna til eigin sakar.
Þá séu útreikningar á bótakröfu stefnanda og forsendur rangar í veigamiklum atriðum. Hámarksbætur fyrir varanlegan miska samkvæmt 4. gr. þágildandi skaðabótalaga nr. 50/1993, sem og hámarksbætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 8. grein sömu laga séu of háar og beri því að lækka dómkröfur stefnanda.
Í varakröfu sé þess krafist að sök verði skipt á grundvelli ákvæða 1. mgr. 25. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, ef aðstæður tilgreindar í þeirri lagagrein teldust eiga við. Verði stefndu dæmdir til einhverrar greiðslu í þessu máli beri að fella meginhluta sakar, ef ekki alla, á aðra en stefnda í máli þessu á þeim grundvelli að hann hafi ekki verið í neinni aðstöðu til eða haft tilefni til að hafa áhrif á þá atburðarás sem leitt hafi til líkamstjóns stefnanda. Þá mótmælir stefndi dráttavaxtarkröfu sérstaklega frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Málsástæður stefnda, Þörungaverksmiðjunnar hf.
Stefndi kveður það ekki hafa verið á hans ábyrgð eða færi að koma í veg fyrir umrætt slys. Því verði slysið hvorki rakið til sakar stefnda né starfsmanna hans. Þær kröfur verði ekki gerðar til stefnda að honum hefði borið að girða af hverasvæði í Reykhólahreppi, enda ekki umráðaaðili svæðis í skilningi þágildandi 51. gr. orkulaga nr. 58/1967, þótt stefndi hafi með sérstökum samningi við landbúnaðarráðuneytið fengið heimild til að nýta hluta hins heita vatns á svæðinu ásamt hreppnum. Í þeim samningi komi ekkert fram um slíka kröfu heldur aðeins, eins og fram komi í 15. gr. samningsins, að stefnda bæri að a) ganga snyrtilega um landið og frá mannvirkjum er hann kynni að reisa þar og b) að hann valdi ekki ábúendum tjóni eða ónæði.
Hafi stefndi borað sérstakar holur í þeim tilgangi að nýta vatn og hafi hann reist sérstök mannvirki í kring um þær sem lokaðar séu fyrir aðgengi óviðkomandi. Í máli þessu sé ógerlegt að halda því fram að slysið megi rekja til vanbúnaðar mannvirkja stefnda enda vel frá þeim gengið í hvívetna. Þá séu þau í nokkurri fjarlægð frá þeim stað er slysið hafi orðið. Sök stefnda sé því ekki fyrir hendi og ekki sé að finna reglur um hlutlæga ábyrgð á eigendum mannvirkja í íslenskum bótarétti.
Þá kveður stefndi að engar reglur virðist hafa verið settar um öryggisráðstafanir gegn hættu og tjóni sem stafi af jarðhitasvæðum og mannvirkjum svo sem iðnaðarráðherra hafi verið heimilt að setja í reglugerð.
Hafi slysið orðið á því svæði sem ekki sé innan þéttbýlisins. Á landsbyggðinni séu mörg svæði sem kunni að skapa hættu, nálægð við sjó, grjóthrun og hamrar í nálægum fjöllum og svo mætti lengi telja. Ekki verði með sanngirni hægt að ætlast til þess að öll slík svæði séu girt af heldur hafi verið litið svo á að fólk lærði að búa við slíkar aðstæður og að sýna tilhlýðilega aðgætni. Krefjist nálægð við slíkar aðstæður sérstakrar aðgæsluskyldu foreldra og forráðamanna barna. Stefnandi hafi verið um 3 ára gamall þegar slys varð og að því er virðist einn að leik ásamt bróður sínum og vini hans. Verði einhverju um kennt þá hafi skort á eftirlit forráðamanna en tekið skuli fram að faðir stefnanda hafi á þeim tíma er slysið varð verið framkvæmdastjóri yfir starfsemi stefnda.
Telji dómurinn að stefnda hefði borið að girða af svæðið þá sé sú ábyrgð jafnframt landeiganda sem og stefnda, Reykhólahrepps. Þá sé sök einnig forráðamanna drengsins sem ekki hafi gætt hans nægilega við þær aðstæður sem hér hafi verið og hafi þau gjörþekkt aðstæður, sér í lagi þar sem faðirinn hafi jafnframt verið framkvæmdastjóri stefnda. Um sakarskiptingu vísist til 25. gr. laga nr. 50/1993. Þá mótmælir stefndi sérstaklega upphafsdegi dráttarvaxtakröfu.
Um lagarök vísist að öðru leyti til orkulaga nr. 58/1967 með síðari breytingum, skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum sem og almennra reglna skaðabótaréttar. Krafa um greiðslu málskostnaðar sé byggð á 129 gr., sbr. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Málskostnaðarkrafa varakröfu sé grundvölluð á 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.
V
Eins og rakið hefur verið byggir stefnandi kröfur sínar á hendur stefndu á því að þeir hafi allir verið að nokkru marki umráðamenn jarðhitaréttinda í skilningi 51. gr. þágildandi orkulaga nr. 58/1967, sbr. 2. gr. laga nr. 53/1985. Samkvæmt því ákvæði var umráðamanni jarðhitasvæðis sem hætta stafar af skylt að girða það af. Telur stefnandi að þar sem stefndu hafi ekki sinnt þeirri lagaskyldu sinni að girða af hverinn sem stefnandi féll ofan í hafi þeir sýnt af sér stórfellt gáleysi og beri því ábyrgð á tjóni stefnanda sem hann varð fyrir vegna þess að hann féll í hverinn. Málatilbúnaður stefnanda verður ekki skilinn á þann veg að hann byggi kröfur á hendur stefndu á því að þeir beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda.
Óumdeilt er í máli þessu að stefndi, íslenska ríkið, er þinglýstur eigandi þess landssvæðis þar sem hverinn sem stefnandi féll ofan í er staðsettur. Með samningi 26. mars 1996 gerðu annars vegar landbúnaðarráðherra sem leigusali og hins vegar Reykhólahreppur vegna Hitaveitu Reykhólahrepps og Þörungaverksmiðjan hf. sem sameiginlegur leigutaki, samning þar sem leigusali heimilaði leigutaka að nýta heitt vatn úr borholum í landi jarðarinnar sem leigutaki hafði þegar virkjað og hafið nýtingu úr. Kemur fram í samningnum að staðsetning borhola væri sýnd á meðfylgjandi uppdrætti sem væri hluti samningsins. Ekki verður séð að uppdráttur þessi liggi fyrir í málinu.
Í 1. mgr. 2. gr. samningsins segir að leigutakar séu sammála um skiptingu á nýtingarrétti jarðhitans þannig að í hlut Þörungaverksmiðjunnar hf. komi 75% af heildarvatnsmagni en í hlut Reykhólahrepps 25% af heildarvatnsmagni. Í 8. gr. samningsins kemur fram að Reykhólahreppi sé heimilt að framselja rétt sinn samkvæmt samningnum til Orkubús Vestfjarða og með samningi 12. janúar 1996 keypti Orkubú Vestfjarða allar eignir Hitaveitu Reykhólahrepps og með lögum nr. 40/2001 var Orkubú Vestfjarða gert að hlutafélagi sem tók við öllum skuldbindingum Orkubús Vestfjarða og er með sömu kennitölu.
Af framangreindu er ljóst að stefndu, Þörungaverksmiðjan hf. og Orkubú Vestfjarða hf. (áður Orkubú Vestfjarða) fengu með samningnum 26. mars 1996 heimild til nýtingar jarðhita úr landi Reykhóla, sem leigutakar og teljast því umráðaaðilar jarðhitasvæðisins á Reykhólum í skilningi tilgreindrar 51. gr. þágildandi orkulaga. Breytir engu um aðild stefnda, Orkubús Vestfjarða, að hann hafi gerst aðili samningsins af hagkvæmnisástæðum. Með vísan til þess að stefndi, Orkubú Vestfjarða hf. tók við öllum skuldbindingum forvera síns, Orkubús Vestfjarða, er hann réttur aðili að máli þessu og verður hann því ekki sýknaður á grundvelli aðildarskorts sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Í stefnu er ekki rökstutt á hverju stefnandi byggir þær málsástæður sínar að stefndi, Reykhólahreppur, sé umráðaaðili jarðhitasvæðisins. Í bréfi lögmanns stefnanda til stefndu, Reykhólahrepps, íslenska ríkisins og Þörungaverksmiðjunnar hf., 28. desember 2001 kemur fram að krafan á hendur stefnda, Reykhólahreppi, byggi á því að hann hafi þinglýstan samning um nýtingu jarðhita á jörðinni. Ljóst er af gögnum málsins að stefndi, Reykhólahreppur, seldi öll réttindi sín til nýtingar jarðhita í landi bújarðarinnar Reykhóla til Orkubús Vestfjarða, nú Orkubú Vestfjarða hf., með samningi 12. janúar 1996. Samkvæmt gögnum málsins hefur stefndi, Reykhólahreppur, frá þeim tíma ekki haft heimild til nýtingar jarðhita á svæðinu og því ljóst að hann var ekki umráðaaðili jarðhitasvæðisins þar sem slysið varð og verður hann því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi, íslenska ríkið, lítur svo á að með samningnum 26. mars 1996 hafi stefndu, Reykhólahreppur, vegna hitaveitu hreppsins, og Þörungaverksmiðjan hf., orðið umráðamenn jarðhitasvæðisins í skilningi fyrrgreinds ákvæðis 51. gr. og hafi þeir borið ábyrgð á þeim slysum sem kynnu að verða vegna vanbúnaðar á slysstað. Í 2. mgr. 8. gr. samningsins er sérstaklega tekið fram að samningurinn takmarki ekki rétt leigusala til að ráðstafa jarðhitaréttindum úr landi jarðarinnar til annarra aðila, nema það skerði það vatnsmagn sem er til ráðstöfunar fyrir leigutaka. Af orðalagi þessu verður ekki annað ráðið en að stefndi, íslenska ríkið, hafi eftir samninginn enn umráð yfir jarðhitasvæðinu í landi Reykhóla með þeim takmörkunum þó sem leiðir af samningnum.
Í 2. mgr. 2. gr. samningsins frá 26. mars 1996 er tekið fram að samningurinn takmarki ekki samningsbundinn rétt annarra aðila til nýtingar jarðhita í eigu ríkisins á Reykhólum til heimilis og búsþarfa nánar tiltekinna lögbýla. Í samningnum er ekki nánar kveðið á um þessi réttindi en ráða má af þessu að umráðamenn lögbýlanna hafi rétt til takmarkaðrar nýtingar jarðhitasvæðisins þar sem tilgreind lögbýli eru. Gögn málsins bera ekki með sér hvar þessi lögbýli eru á svæðinu fyrir utan svokallað prestsetur. Það er staðsett nálægt umræddum hver en milli hversins og prestsetursins er svokallaður læknabústaður þannig að lóð prestsetursins liggur ekki að hvernum heldur lóð læknabústaðarins. Er samkvæmt þessu vandséð að þessir aðilar teljist umráðaaðilar jarðhitasvæðisins þar sem umræddur hver er staðsettur. Þá verður heldur ekki séð að þeir sem nýtt hafa umræddan hver til matargerðar teljist vera umráðaaðilar hans. Verður máli þessu því ekki vísað frá ex officio á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.
Að öðru leyti verður ekki af gögnum málsins ráðið að jarðhitasvæðinu hafi verið skipt eftir svæðum. Hafi umræddur hver verið utan þess svæðis sem stefndu, íslenska ríkið, Orkubú Vestfjarða hf. og Þörungaverksmiðjan hf., hafa umráð yfir var þeim í lófa lagið að leggja fram haldbær gögn þess efnis. Það hafa þeir ekki gert og verða að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Þar sem því hefur nú verið slegið föstu að stefndu, íslenska ríkið, Orkubú Vestfjarða hf. og Þörungaverksmiðjan hf., hafi verið umráðaaðilar jarðhitasvæðisins á Reykhólum þar sem umræddur hver er staðsettur hvíldi sú skylda á þeim að girða hann af ef hætta stafaði af honum samkvæmt 51. gr. þágildandi orkulaga. Ákvæði 15. gr. samningsins frá 26.mars 1996 þar sem segir meðal annars að leigutaki sé ábyrgur fyrir tjóni sem kann að verða af starfsemi hans á jörðinni, leysir stefndu ekki frá þeirri lagaskyldu að girða jarðhitasvæði sem hætta stafar af, þótt sú hætta varði ekki beinlínis starfsemi þeirra á jörðinni.
Í 1. mgr. 25. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 segir að beri tveir eða fleiri óskipta bótaábyrgð skuli ábyrgð þeirra innbyrðis skiptast eftir því sem sanngjarnt þykir þegar litið er til eðlis skaðabótaábyrgðar þeirra og atvika að öðru leyti. Með hliðsjón af atvikum máls þykir sanngjarnt að ábyrgð stefndu skiptist jafnt innbyrðis.
Ljóst er að hverir eru hættulegir og ekki síst börnum. Umræddur hver var reyndar í útjaðri hins eiginlega byggðarkjarna á svæðinu en þó í göngufæri frá honum og af gögnum málsins má ráða að hann er örstutt frá svokölluðum læknabústað og ennfremur stutt frá götu þeirri sem liggur frá verslun þeirri sem faðir stefnanda telur þá hafa verið að koma frá. Þegar litið er til þess að nokkrum árum áður hafði orðið svipað slys á Reykhólum er ung stúlka féll ofan í hver, og til staðsetningar hversins nálægt byggð þar sem börn eru að leik, mátti umráðaaðilum jarðhitasvæðisins vera ljós sú hætta sem stafað gat af þeim hver sem stefnandi féll ofan í og bar þeim skylda að sjá til þess að hann væri girtur af. Þykir ekki skipta máli í þessu sambandi hvort vatnsmagn var breytilegt í hvernum eða hvort börnum hafi verið bannað að vera á svæðinu. Ótvíræð lagaskylda hvíldi á umráðaaðilum svæðisins til að girða það af. Með því að stefndu sinntu ekki þessari lagaskyldu sinni urðu þeir bótaskyldir gagnvart stefnanda og þykir óhætt að slá því föstu að umrætt slys hefði ekki orðið hefði henni verið sinnt. Að þessu athuguðu verður að meta sök þeirra svo yfirgnæfandi í samanburði við það aðgæsluleysi, sem foreldrar stefnanda kunna að hafa sýnt umrætt sinn, að ekki þykir ástæða til að leggja hluta sakar á stefnanda.
Ekki er ágreiningur í málinu um örorkustig stefnanda en stefndu hafa mótmælt útreikningi stefnanda á tjóni sínu um varanlegan miska og varanlega örorku og telja ekki efni til að viðurkenna hámarksbætur samkvæmt 4. gr. þágildandi skaðabótalaga.
Í 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, eins og hún var orðuð þegar slysið varð, sagði að við ákvörðun fjárhæðar bóta fyrir varanlegan miska skyldi litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns væru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það valdi í lífi tjónþola. Varanlegur miski skyldi metinn til stiga og miðað skyldi við ástand tjónþola þegar ekki væri að vænta frekari bata. Síðan sagði að þegar miski væri metinn alger skyldu bætur vera 4.000.000 króna að teknu tilliti til verðlagsbreytinga sbr. 15. gr. skaðabótalaganna og síðan lækka í réttu hlutfalli við lægra miskastig. Síðan sagði að þegar sérstaklega stæði á væri heimilt að ákveða hærri bætur, þó ekki hærri en 6.000.000 króna að teknu tilliti til verðlagsbreytinga skv. 15. gr. Í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga sagði að í undantekningartilvikum kynni fjárhæð bóta eftir að fjögurra milljóna króna markinu væri náð að þykja ófullnægjandi einkum þegar tjónþoli hefði orðið fyrir margvíslegum líkamsspjöllum, til dæmis bæði orðið fyrir mikilli sköddun á útlimum og misst sjón á báðum augum. Heimildin til að ákveða hærri bætur þegar sérstaklega stæði á væri sett í því skyni að unnt yrði að veita hærri bætur í slíkum tilvikum.
Þessi tilvísun um að heimildinni verði beitt þegar sérstaklega standi á bendir til þess að hvert einstakt tilvik þurfi að skoða sérstaklega og við það miðað að henni verði beitt þegar gera megi ráð fyrir að hinn metni miski tjónþola nái ekki að bæta miska hans að fullu. Varanlegur miski stefnanda var á rökstuddan hátt metinn að lágmarki 50%, sem er mikill og þungbær miski. Eins og aðstæðum hans er þó háttað þykja ekki efni til að beita hinni sérstöku álagsheimild í þessu máli.
Þar sem krafa um bætur vegna varanlegrar örorku byggja á sama grunni og krafa um varanlegan miska eiga sömu sjónarvið um hana og nú hafa verið rakin um álag. Ekki eru gerðar athugasemdir við aðrar fjárhæðir í bótakröfu stefnanda og verða þær teknar til greina að fullu að öðru leyti en því að krafa stefnanda vegna útlagðs kostnaðar við gagnaöflun fellur undir málskostnað sbr. 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Sundurliðast fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda því þannig:
|
Þjáningabætur samtals |
726.210 |
|
Varanlegur miski 4.000.000 x 1,40706886 x 50% |
2.814.138 |
|
Varanleg örorka 4.000.000 x 1,40706886 x 200% |
5.628.275 |
|
Samtals |
9.168.623 |
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verða stefndu, íslenska ríkið, Orkubú Vestfjarða hf. og Þörungaverksmiðjan hf. dæmd til að greiða stefnanda 9.168.623 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði en með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 þykir rétt að upphafstími dráttarvaxta miðist við dómsuppsögudag. Vaxtakrafa stefnanda að öðru leyti sætti ekki andmælum eftir að stefnandi breytti henni í upphafi aðalmeðferðar. Tilvísun stefnanda varðandi vexti af kröfum sínum til skaðabótalaga nr. 50/1993 verður skilin á þann veg að hann krefjist vaxta á grundvelli 16. gr. laganna eins og hún var orðuð áður en henni var breytt með lögum nr. 37/1999, en þau eiga við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til bótaskylds atviks eftir gildistöku þeirra 1. maí 1999. Samkvæmt hinu eldra ákvæði skyldu bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, örorku og missi framfæranda bera 2% vexti á ári en dómsmálaráðherra gat í samráði við Seðlabanka Íslands breytt vaxtafætinum.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals að fjárhæð 1.062.400 krónur, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hans sem þykja hæfilega ákvörðuð 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði. Stefnandi fékk leyfi dómsmálaráðherra til gjafsóknar í málinu þann 10. mars 2003.
Af hálfu stefnanda flutti málið Bjarni Lárusson hdl.
Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, flutti málið Skarphéðinn Þórisson hrl.
Af hálfu stefnda, Reykhólahrepps, flutti málið Sigurður Arnalds hrl.
Af hálfu stefnda, Orkubús Vestfjarða hf., flutti málið Jónas Aðalsteinsson hrl.
Af hálfu stefnda, Þörungaverksmiðjunnar hf., flutti málið Hanna Lára Helgadóttir hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Reykhólahreppur, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Birgis Óskars Bjarnasonar.
Stefndu, íslenska ríkið, Orkubú Vestfjarða hf. og Þörungaverksmiðjan hf., greiði stefnanda óskipt, 9.168.623 krónur með vöxtum samkvæmt þágildandi 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, stefndu, íslenska ríkið og Þörungaverksmiðjan hf., af dæmdri fjárhæð frá 28. desember 2001 til 1. apríl 2005 en stefndi, Orkubú Vestfjarða hf., af dæmdri fjárhæð frá 16. apríl 2004 til 1. apríl 2005, en allir stefndu greiði dráttarvexti af dæmdri fjárhæð samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2005 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals að fjárhæð 1.062.400 krónur, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hans sem þykja hæfilega ákvörðuð 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.