Hæstiréttur íslands
Mál nr. 386/2004
Lykilorð
- Skaðabætur
- Örorka
- Líkamstjón
- Vinnuslys
|
|
Fimmtudaginn 10. mars 2005. |
|
Nr. 386/2004. |
Alefli ehf. (Ólafur Haraldsson hrl.) gegn Smára Á. Snæfeld (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Skaðabætur. Örorka. Líkamstjón. Vinnuslys.
S, sem var starfsmaður A, varð fyrir vinnuslysi á vinnusvæði A þegar timburstæða hrundi á hann. Talið var að ástæða þessa hafi verið sú að of stuttar þverspýtur hafi verið settar undir stæðuna þannig að þegar vírar voru klipptir utan af henni hafi ysta röð spýtnanna vegið salt á þeim. Taldist slíkur frágangur óforsvaranlegur og í andstöðu við reglur nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Var talið að móttaka timbursins hafi verið liður í starfsemi A og það hafi verið afhent á starfstöð hans, en samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hafi honum borið að tryggja að gætt væri fyllsta öryggis á vinnustaðnum. Hvíldi sönnunarbyrði fyrir því að öðrum en starfsmönnum A væri um að kenna hvernig frá timbrinu hefði verið gengið hjá A og þar sem slík sönnun hefði ekki tekist var bótaábyrgð vegna slyssins lögð á hann. Ekki var talið að S hefði sýnt af sér eigin sök. Nánar var fjallað um einstaka kröfuliði en gert var í héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi varð fyrir slysi á vinnusvæði áfrýjanda í Grafarvogi 9. júlí 1999 þegar hann vann ásamt öðrum starfsmanni áfrýjanda við að taka sperrur úr timburstæðu og leggja þær niður. Hafði stæðan verið sett ofan á aðra timburstæðu, en milli þeirra höfðu verið lagðar tvær þverspýtur eða millilegg nærri hvorum enda. Fimm raðir af timbri voru í hvorri stæðu. Skyndilega hrundi ysta röðin öðru megin úr efri stæðunni og lenti á stefnda með þeim afleiðingum að hann slasaðist. Vinnueftirliti ríkisins var þegar tilkynnt um atvikið og er skýrsla þess 9. júlí 1999 meðal málskjala. Kemur þar meðal annars fram að sperrurnar hafi verið 4,80 m á lengd og 22,5 cm breiðar og að þverspýtur milli timburstæðanna hafi aðeins náð 8 cm öðru megin og 15 cm hinu megin inn undir ystu röð efri stæðunnar. Verður einnig ráðið af skýrslunni að þverspýturnar hafi verið tvær tommur á þykkt. Myndir fylgdu skýrslunni, sem sýna aðstæður á vettvangi. Af myndunum og skýrslunni er ljóst að ysta sperruröðin hefur vegið salt á endum þverspýtnanna eftir að vírar voru klipptir utan af stæðunni og lítið mátt hreyfa við henni til að hún steyptist ekki niður. Meiðslum stefnda og málavöxtum að öðru leyti er nánar lýst í héraðsdómi.
Samverkamaður stefnda við áðurnefnt verk og verkstjóri hjá áfrýjanda gáfu skýrslu fyrir dómi. Af framburði þeirra verður ráðið að komið hafi verið með timbrið til áfrýjanda með vörubifreið frá Húsasmiðjunni hf., en þeim var hins vegar ókunnugt um hver hafi tekið timbrið af bifreiðinni og staflað því. Samstarfsmaður stefnda bar að annað hvort hafi bifreiðarstjórinn sjálfur affermt bifreiðina og notað til þess krana á henni eða að byggingakrani á svæðinu hafi verið notaður til þess, en almennt hafi báðar þessar aðferðir verið notaðar til að afferma bifreiðir, sem komu með byggingarefni á staðinn. Taldi hann að timburstæðurnar hafi verið teknar af bifreiðinni í sitt hvoru lagi í ljósi þess hve stórar þær voru. Verkstjórinn taldi líklegt að bílstjórinn hafi annast verkið. Hvorugt vitnið gat heldur tjáð sig um það hver hafi sett þverspýturnar ofan á neðri stæðuna, en báðir töldu að annað hvort hafi einhver starfsmaður áfrýjanda gert það eða bílstjóri frá Húsasmiðjunni hf. Ekki er vikið að þessu atriði í áðurnefndri skýrslu vinnueftirlitsins.
Sú aðferð að nota of stuttar þverspýtur milli timburstæðanna var óforsvaranleg og bauð þeirri hættu heim að úr efri stæðunni hryndi eftir að vírar væru losaðir utan af henni. Þessi frágangur efnisins var jafnframt í andstöðu við fyrirmæli í greinum 1.1, 2.1 í A-hluta og 14.2 í B-hluta IV. viðauka við reglur nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Áfrýjandi ber fyrir sig að ósannað sé að starfsmenn hans hafi unnið þetta verk og því verði hann ekki gerður ábyrgur fyrir þessari handvömm. Varðandi þetta er til þess að líta að móttaka á timbrinu var liður í starfsemi áfrýjanda og það var afhent á starfsstöð hans, en samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga n. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum bar áfrýjanda að tryggja að gætt væri fyllsta öryggis á vinnustaðnum. Verkið laut verkstjórn hans eins og önnur á svæðinu. Er sú aðstaða fyrir hendi að sönnunarbyrði hvílir á honum um það að öðrum en hans eigin starfsmönnum verði um það kennt hve illa tókst til við að stafla timbrinu. Sú sönnun hefur ekki tekist og er fallist á að áfrýjandi sé bótaskyldur vegna þess gáleysis, sem viðhaft var þegar önnur timburstæðan var sett ofan á hina. Með vísan til forsendna héraðsdóms eru ekki heldur efni til að láta stefnda bera hluta tjóns síns sjálfur eins og áfrýjandi krefst. Verður samkvæmt þessu staðfest niðurstaða héraðsdóms um fulla bótaskyldu áfrýjanda á tjóni stefnda.
II.
Stefndi krefst bóta samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum fyrir tímabundið atvinnutjón. Honum hafi verið greidd laun fyrir þann tíma, sem hann var frá vinnu, en við ákvörðun þeirra hafi verið litið til meðaltalslauna hans allt tímabilið frá því hann hóf störf hjá áfrýjanda í febrúar 1999 fram til slysdags. Réttara hefði verið að taka mið af launum hans tvo síðustu mánuðina fyrir slysið, en þá hafi umsvif áfrýjanda verið meiri en fyrr á árinu og yfirvinna starfsmanna hans að sama skapi mikil. Fjárhæð launanna, sem stefndi fékk greidd meðan hann var óvinnufær, hafi verið 41.508 krónum lægri en meðaltalslaunin þessa tvo mánuði og er við það miðað í þessum kröfulið. Engar upplýsingar hafa verið lagðar fram um verkefnastöðu áfrýjanda á þeim tíma, sem um ræðir, eða að laun annarra starfsmanna áfrýjanda styðji staðhæfingu hans um að mikil yfirvinna hafi þá verið í boði. Nægir þá ekki að vísa til þess að almennt séu meiri umsvif í byggingarvinnu á sumrin en öðrum tímum árs eins og stefndi gerir. Krafan er ósönnuð og verður áfrýjandi sýknaður af henni.
Óumdeilt er að stefndi var einn mánuð frá vinnu vegna slyssins. Hann krefst engu að síður þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga í tvo mánuði. Stefndi á rétt til þjáningabóta fyrir það tímabil, sem hann taldist veikur í skilningi áðurnefndrar lagagreinar. Það skilyrði var ekki lengur fyrir hendi eftir að hann hóf störf að nýju. Á hann samkvæmt því kröfu á 28.500 krónum í þjáningabætur.
Í örorkumati tveggja lækna var stefnda metinn 4% varanlegur miski og 3% varanleg örorka af völdum slyssins. Matinu hefur ekki verið hnekkt og verður það lagt til grundvallar niðurstöðu um þessa kröfuliði hans. Í matinu kemur einnig fram að stefndi hafi tekið meirapróf til að stjórna ökutækjum og aflað sér réttinda til að stjórna vinnuvélum. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um bætur handa stefnda fyrir varanlegan miska og varanlega örorku.
Greiðsla úr slysatryggingu launþega að fjárhæð 106.752 krónur kemur til lækkunar kröfu stefnda. Málið var þingfest 9. september 2003, en áfrýjandi bar ekki sérstaklega fyrir sig í greinargerð í héraði að vextir eldri en fjögurra ára væru fyrndir. Miðast upphaf vaxtakröfu samkvæmt því við slysdag eins og stefndi krefst.
Samkvæmt öllu framanröktu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 1.205.685 krónur með vöxtum, eins og nánar segir í dómsorði. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Alefli ehf., greiði stefnda, Smára Á. Snæfeld, 1.205.685 krónur með 4,5% ársvöxtum af 246.513 krónum frá 9. júlí 1999 til 9. september sama árs og af 1.205.685 krónum frá þeim degi til 13. júlí 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. júní sl., var höfðað 5. september 2003 af Smára Á. Snæfeld, [kt], Lautasmára 14, Kópavogi, á hendur Alefli ehf., [kt.], Dalhúsum 14, Reykjavík, en Sjóvá-Almennum tryggingum hf., [kt.], Kringlunni 5, Reykjavík, var stefnt til réttargæslu.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.626.421 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 316.521 krónu frá 9. júlí 1999 til 9. september sama ár, en af 1.626.421 krónu frá þeim degi til 13. júlí 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi 1.382.445 króna með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af 316.521 krónu frá 9. júlí 1999 til 9. september s.á., en af 1.382.445 krónum frá þeim degi til 13. júlí 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara krefst stefnandi 1.116.801 krónu með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af 316.521 krónu frá 9. júlí 1999 til 9. september s.á., en af 1.116.801 krónu frá þeim degi til 13. júlí 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Krafist er og málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður samkvæmt málskostnaðarreikningi. Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega en málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi meiddist í baki á vinnusvæði stefnda 9. júlí 1999 er hann vann við að færa sperrur úr timburstæðu á stroffu ásamt öðrum starfsmanni stefnda. Verkið unnu þeir saman og stóð hvor þeirra við annan enda stæðunnar sem stóð ofan á annarri timburstæðu. Þegar þeir höfðu tekið nokkur borð úr efri stæðunni hrundi ysta lag hennar yfir stefnanda og lenti aftan á hálsi hans, öxlum og baki. Samkvæmt læknisvottorðum tognuðu hálsvöðvar, brjósthryggur og öxl stefnanda, mar eða hrufl var ofan á hægri öxl hans og upp á hálsinn og eymsl á hryggjartindum hálsliða.
Stefnandi krefst bóta úr hendi stefnda vegna slyssins fyrir tímabundið tekjutap og þjáningabóta svo og bóta fyrir varanlegan miska og vegna örorku. Stefndi hefur hafnað bótaskyldu. Hann vísar til þess að stæðan hafi verið völt, en hann beri ekki ábyrgð á því heldur þeir sem komu með efnið til hans á vinnusvæðið þar sem þeir hafi staflað því auk þess sem óhappatilviljun og óvarkárni stefnanda sjálfs hafi valdið því að sperrurnar hrundu yfir hann. Slysið verði því ekki rakið til atvika sem stefndi beri ábyrgð á. Stefndi mótmælir enn fremur matsgerð, sem stefnandi hefur lagt fram í málinu, og útreikningum stefnanda á bótakröfunni, en stefndi telur að tekjuviðmiðun, sem stefnandi byggi á samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sé ólögmæt.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi segir kröfu sína í málinu að rekja til vinnuslyssins sem hann hafi orðið fyrir 9. júlí 1999 þegar sperruefni úr timburstæðu féll á hann með alvarlegum afleiðingum. Stefnandi hafi unnið þennan dag hjá stefnda við byggingaframkvæmdir við Spöngina í Grafarvogi. Stefnandi og samstarfsmaður hans hafi átt að taka sperruefni úr timburstæðunni. Þegar þeir höfðu gert það og lagt niður hafi öll ysta röðin skyndilega fallið úr staflanum og lent á höfði og baki stefnanda, en hann hafi snúið baki í timburstæðuna þegar hún féll. Stefnandi hafi fundið til mikilla verkja og því ekki getað haldið áfram að vinna. Hann hafi verið fluttur á slysadeild en þar hafi hann kvartað yfir verkjum í hálsi, hægri öxl, baki og höfuðverk. Skoðun hafi leitt í ljós að hann hafi hlotið mar og yfirborðsáverka á háls, hálstognun, mar á öxl og upphandlegg og tognun á brjósthrygg.
Læknarnir Jónas Hallgrímsson og Guðmundur Björnsson hefðu að beiðni málsaðila lagt mat á afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda með tilliti til skaðabótalaga nr. 50/1993. Samhliða hafi verið óskað eftir mati á afleiðingum tveggja umferðarslysa sem stefnandi hefði orðið fyrir, annars vegar 9. september 1998 og hins vegar 8. mars 2001. Læknarnir hafi átt viðtal við stefnanda 5. mars 2003 og jafnframt hafi farið fram ítarleg skoðun, en matsgerðin sé dagsett 28. apríl 2003. Niðurstaða matslæknanna hafi meðal annars verið sú að stefnandi hafi í umræddu vinnuslysi hlotið 4% varanlegan miska og 3% varanlega örorku. Stefnandi mótmæli að matsgerðin sé haldin annmörkum eins og stefndi haldi fram. Málsaðilar hafi komið sér saman um að leita eftir mati læknanna, eins og fram komi í upphafi matsgerðarinnar, og beri að leggja hana til grundvallar við úrlausn málsins enda hafi henni ekki verið hnekkt.
Stefnandi telji að rekja megi slysið til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda sem valdi bótaskyldu. Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins segi að orsök slyssins virtist einkum vera sú að millileggið á milli stæðanna hafi verið of stutt og því hafi stæðan verið óstöðug. Timbrinu hafi verið staflað af starfsmanni eða starfsmönnum þannig að millileggið hafi eingöngu náð að hluta til undir ystu röðina á efri stæðunni. Af þeirri ástæðu hafi hún orðið mjög völt og því hafi hún fallið við það eitt að stefnandi og samstarfsmaður hans hafi farið að eiga við timbrið. Augljóst gáleysi sé að stafla upp timbri með þessum hætti enda feli það tvímælalaust í sér hættu á slysi eins og hér hafi orðið. Stefndi beri ábyrgð á því að frágangur á efni sé í samræmi við reglur. Samkvæmt reglum íslensks réttar um ábyrgð vinnuveitenda á skaðaverkum starfsmanna sinna hafi gáleysi þeirra leitt til slyssins og beri stefndi ábyrgð á því. Mótmælt er að Húsasmiðjan hf. hafi gengið frá timburstæðunni, eins og stefndi haldi fram, enda sé það alveg ósannað.
Stefnandi hafi verið óvanur starfinu enda hefði hann nýlega hafið störf hjá stefnda þegar slysið varð. Hann hafi auk þess verið reynslulítill og nýlega orðin 18 ára. Honum verði því ekki metið til sakar að hafa ekki áttað sig á þeirri hættu sem hafi stafað af timburstæðunni, en hann hafi alls ekki gert sér grein fyrir því hve óstöðug hún var. Stefnandi hafi auk þess mátt treysta því að ekki stafaði stórfelld hætta af frágangi stæðunnar. Honum hafi hvorki verið leiðbeint um hættur né um vinnuaðferðir. Verkstjórn hafi verið áfátt en hefði hún verið fullnægjandi og vinnuaðstæður í samræmi við reglur hefði mátt koma í veg fyrir slysið. Stefnandi vísi um þetta fyrst og fremst til reglna nr. 499/1994, laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglna nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, auk viðauka, sbr. 14.2. gr. í B hluta IV. viðauka, en þar segi að efni og búnaði skuli staflað upp þannig að ekki sé hætta á að það velti eða falli á hlið. Stefndi beri skaðabótaábyrgð vegna gálausrar háttsemi starfmanna félagsins og vanrækslu, þ.á m. skorti á eftirliti og verkstjórn, samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, þ.á m. reglum um vinnuveitendaábyrgð. Mat á staðabótaábyrgð stefnda sæti strangari mælikvarða en ella vegna erfiðra og hættulegra aðstæðna á vinnustaðnum.
Slysið hafi haft áhrif á heilsu stefnanda, en áverkarnir sem hann hlaut hafi haft víðtæk áhrif á líkamlegt ástand hans og getu til að starfa og sinna áhugamálum sínum. Í mati læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Guðmundar Björnssonar segi að tímabundið atvinnutjón stefnanda hafi verið einn mánuður og þjáningatímabil í tvo mánuði án þess að vera rúmliggjandi. Þeir meti varanlegan miska stefnanda 4% og varanlega örorku 3%.
Stefndi hafi haft ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda á slysdegi og hafi kröfubréf því verið sent félaginu sem hafi verið byggt á niðurstöðu matsgerðarinnar. Réttargæslustefndi hafi fyrir hönd stefnda hafnað bótaskyldu vegna afleiðinga slyssins og hafi málið því verið höfðað.
Dómkröfur stefnanda sundurliðist þannig:
1. Aðalkrafa:
1.1. Tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. 41.508 krónur
1.2. Bætur samkvæmt 3. gr., 60 x 950 krónur 57.000 “
1.3. Bætur samkvæmt 4. gr., 4% af 5.450.335 krónum 218.013 “
1.4. Bætur samkvæmt 5. til 7. gr. 1.309.900 “
1.737.600 krónur x 1.06 x 182,5/147,9 = 2.272.743 krónur
1.887.000 krónur x 1.06 x 182,5/157,9 = 2.311.843 “
2.256.400 krónur x 1.06 x 182,5/170,4 = 2.561.623 “
7.146.209 krónur
7.146.209/3 = 2.382.070
2.382.070 x 18.33 x 3%
Samtals 1.626.421 krónur.
2. Varakrafa:
2.1. Tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. 41.508 krónur
2.2. Bætur samkvæmt 3. gr. 57.000 “
2.3. Bætur samkvæmt 4. gr. 218.013 “
2.4. Bætur samkvæmt 5. til 7. gr. 1.065.924 “
1.394.845 krónur x 1.06 x 182,5/147,9 = 1.824.427 krónur
1.633.729 krónur x 1.06 x 182,5/157,9 = 2.001.550 “
1.752.192 krónur x 1.06 x 182,5/170,4 = 1.989.210 “
5.815.187 krónur
5.815.187/3 = 1.938.396
1.938.396 x 18.33 x 3%
Samtals 1.382.445 krónur
3. Þrautavarakrafa:
3.1. Tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. 41.508 krónur
3.2. Bætur samkvæmt 3. gr. 57.000 “
3.3. Bætur samkvæmt 4. gr. 218.013 “
3.4. Bætur samkvæmt 5. til 7. gr. 800.280 krónur
1.200.000 krónur x 6 % = 72.000
1.272.000 krónur x 3755 / 3282 = 1.455.319
1.455.319 krónur x 18.33 x 3%
Samtals 1.116.801 króna.
Kröfugerðin miðist við matsgerð Guðmundar Björnssonar og Jónasar Hallgrímssonar um afleiðingar slyssins sem taki mið af skaðabótalögum. Samkvæmt matsgerðinni teljist stefnandi hafa verið 100% óvinnufær í mánuð vegna afleiðinga slyssins. Þar sem stefnandi hafi aðeins haft mjög takmarkaðan fjölda veikindadaga vegna þess að hann hafi nýlega hafið störf hjá stefnda hafi hann eingöngu fengið greidd laun hluta af óvinnufærnitímabilinu. Af yfirliti yfir staðgreiðslu tekjuársins 1999 megi sjá að meðaltekjur stefnanda í starfi hjá stefnda sl. tveggja mánaða fyrir slysið hafi verið 153.697 krónur. Stefnandi hafi hins vegar aðeins fengið greiddar 112.187 krónur þann tíma er hann hafi verið óvinnufær. Krafist er að mismunur á launum sl. mánaða og launa á óvinnufærnitímabilinu verði bætt, enda megi rekja þann tekjumissi stefnanda beint til afleiðinga slyssins.
Í matsgerðinni komi fram að varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins nemi 4%, en krafa stefnanda um bætur fyrir varanlegan miska byggi á því og 4. gr. skaðabótalaga.
Krafan vegna bóta fyrir varanlega örorku grundvallist einnig á matsgerðinni. Munurinn á aðal-, vara- og þrautavarakröfu stefnanda byggðist á þeirri tekjuviðmiðun sem lögð sé til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku. Í aðalkröfunni sé miðað við meðaltekjur iðnaðarmanna við ákvörðun bóta á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda óvenjulegar aðstæður fyrir hendi. Stefnandi hefði nýlega hafið störf hjá stefnda auk þess að hafa flutt sig oft milli starfa fyrir slysið. Hann hafi verið ungur að árum og nýlega hafið störf á vinnumarkaðinum. Í ljósi þessa og aðstæðna allra sé ekki unnt að leggja til grundvallar bótauppgjöri meðaltekjur stefnanda síðastliðinna þriggja almanaksára fyrir slysið, eins og boðað sé í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda gefi sú tekjuviðmiðun ekki rétta mynd af raunverulegu tekjutapi hans í framtíðinni. Verði því að meta tekjur hans sérstaklega með vísan til 2. mgr. 7. gr. laganna. Eðlilegt og sanngjarnt sé að leggja til grundvallar bótauppgjöri meðaltekjur iðnaðarmanna síðastliðinna þriggja almanaksára fyrir slysið, en sú tekjuviðmiðun sé jafnframt nálægt almennum launatekjum hér á landi. Um sé að ræða meðaltekjur hvers árs að meðtöldu 6% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við, þ.e. stöðugleikatímamark.
Til vara sé byggt á tekjuviðmiðun vegna varanlegrar örorku á meðaltekjum verkamanna síðastliðin þrjú almanaksár fyrir slysið. Vísað sé til röksemda fyrir aðalkröfunni því til stuðnings, en að auki til þess að stefnandi hafi unnið ýmis verkamannastörf síðan hann lauk skyldunámi.
Verði hvorki fallist á aðal- né varakröfu stefnanda sé á því byggt að hvað sem öðru líði verði aldrei lögð til grundvallar lægri tekjuviðmiðun við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku en lágmarksbætur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sem séu 1.200.000 krónur að viðbættu 6% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Fjárhæðin sé uppreiknuð með lánskjaravísitölu samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga fram til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við.
Stefnandi hafi engar greiðslur fengið sem koma ættu til frádráttar aðrar en úr slysatryggingu sem hann telji rétt að komi til frádráttar.
Krafist sé 4,5% vaxta vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáningabóta og varanlegs miska frá slysdeginum fram að stöðugleikatímamarki, en frá þeim degi einnig af bótum vegna varanlegrar örorku samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga fram til 13. júní 2003, en dráttarvaxta frá því tímamarki, sbr. lög nr. 38/2001, eins og segi í kröfubréfi 13. maí 2003.
Kröfur stefnanda styðjist við skaðabótalög nr. 50/1993 með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur, þ.á m. reglur um vinnuveitendaábyrgð. Einnig vísi stefnandi til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglugerðar nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð auk viðauka. Um vaxtakröfuna vísi stefnandi sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af stefnda hálfu er málsatvikum lýst þannig að stefnandi hafi orðið fyrir því óhappi 9. júlí 1999 að sperrur hafi fallið ofan á hann er hann var við vinnu fyrir stefnda. Stefnandi hafi ásamt Kristjáni Sigurðssyni unnið við að taka sperrur úr sperrustæðu, en sperrurnar hafi stefndi keypt frá Húsasmiðjunni hf. Vörubifreið á vegum Húsasmiðjunnar hf. hafi sett sperrustæðuna þar sem hún var staðsett þegar óhappið átti sér stað. Hvergi hafi komið fram að starfsmenn stefnda hafi gengið frá timburstæðunni og verði stefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Þegar þetta gerðist hefði stefnandi unnið hjá stefnda í nokkra mánuði við ýmis verkefni sem tengdust byggingarvinnu. Á árunum 1998 til 1999 hafi stefnandi unnið hjá ýmsum öðrum aðilum og hafi hann því haft töluverða reynslu af ýmissi verkamannavinnu þegar óhappið átti sér stað þótt ungur væri að árum. Réttargæslustefndi hafi neitað bótaskyldu, en stefnandi hafi fengið greiddar 106.752 krónur úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu ásamt vöxtum að fjárhæð 3.042 krónur 4. júní 2003. Þar sem stefndu hafi neitað bótaskyldu hafi stefnandi höfðað mál þetta til að fá skorið úr meintri bótaskyldu stefnda.
Stefndu byggi aðallega á því að meint tjón stefnanda verði ekki rakið til atvika sem stefndi verði gerður ábyrgur fyrir. Tjónið verði hvorki rakið til sakar starfsmanna stefnda né hættulegra aðstæðna sem stefndi beri ábyrgð á. Tjónið verði alfarið rakið til óhappatilviljunar og/eða eigin sakar stefnanda. Verkið sem stefnandi hafi unnið hafi verið einfalt í framkvæmd og hafi ekki kallað á sérstaka þjálfun hans eða stöðugt eftirlit verkstjóra. Verkið hafi falist í því að losa vír af sperrustæðu og færa sperrur til, en það hafi stefnandi gert ásamt öðrum starfsmanni. Eðli máls samkvæmt þurfi að fara sérstaklega varlega þegar losað sé um sperrustæðu þar sem ávallt sé hætta á að ysta röð hennar geti fallið. Stefnandi hafi bæði haft aldur og starfsþjálfun til þess að geta áttað sig á slíkri hugsanlegri hættu. Hætta sem þessi sé ekkert meiri en gengur og gerist við öll hefðbundin störf við byggingarframkvæmdir og hafi því alls ekki kallað á einhverjar sérstakar ráðstafanir af hálfu verkstjóra stefnda. Með eðlilegri aðgæslu gegns og skynsams verkamanns hefði stefnandi átt að átta sig á hættunni og þannig getað forðast óhappið. Þetta hafi átt sérstaklega við um fyrirliggjandi aðstæður, en eins og fram komi í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins sama dag hafi millileggið ekki náð undir alla stæðuna. Á það hafi stefnandi átt að koma auga með hefðbundinni aðgæslu. Stefnanda hafi borð að gæta sérstaklega vel að sér þegar sperrurnar voru losaðar og hann hafi ekki átt að standa þannig að þær gætu fallið yfir hann. Tjónið sé þannig alfarið að rekja til hreinnar óhappatilviljunar og/eða eigin sakar hans. Verkstjórn, aðbúnaður, hollustuhættir og öryggisráðstafanir á vinnustað stefnda hafi fullnægt í einu og öllu þeim kröfum sem gerðar væru samkvæmt reglugerðum sem stefnandi vísi til. Engin rök séu til að beita strangari mælikvarða við sakarmat í þessu máli þar sem vinnuaðstæður hafi ekki verið hættulegri en gengur og gerist við byggingarframkvæmdir. Órökstuddum fullyrðingum í stefnu um strangara sakarmat sé harðlega mótmælt.
Verði ekki fallist á sýknukröfuna krefst stefndi verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda. Vísað sé til þess sem áður segi um eigin sök í því sambandi. Jafnframt byggi stefndi kröfu sína um lækkun á því að ekki komi til álita að notast við meðaltekjur iðnaðarmanna sem tekjuviðmiðun þar sem stefnandi hafi ekki numið neina iðn. Því sé jafnframt harðlega mótmælt að miða beri við meðaltekjur verkamanna enda hafi tekjuöflun stefnanda bæði fyrir og eftir slys verið undir lágmarkstekjum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Verði niðurstaða dómsins sú að um bótaskylt tjón sé að ræða eigi að beita 3. mgr. 7. gr. laganna við uppgjör tjóns. Í gögnum málsins bendi ekkert til þess að breytinga sé að vænta hjá stefnanda þannig að ætla megi að tekjur hans verði í framtíðinni hærri en sem nemi lágmarkstekjunum og séu því engar forsendur til þess að beita 2. mgr. 7. gr. sömu laga, en fullyrðingum um hið gagnstæða í málatilbúnaði stefnanda sé harðlega mótmælt.
Stefndi mótmæli sönnunargildi örorkumatsins en varanlegur miski og varanleg örorka stefnanda sé þar of hátt metin eins og fram kom við munnlegan málflutning. Þar var því og haldið fram að matsgerðin væri ótraust sönnunargagn og á henni væru annmarkar. Matsmennirnir hafi ekki verið dómkvaddir. Slysið hafi ekki haft áhrif á getu stefnanda til að afla vinnutekna. Þá hafi í matsgerðinni ekki verið tekin afstaða til ákverka er stefnandi hefði tvívegis hlotið áður.
Útreikningi á tímabundnu atvinnutjóni og þjáningabótum sé jafnframt mótmælt sem röngum sem og stöðugleikatímapunkti. Þjáningabætur beri ekki að greiða eftir að stefnandi hafi hafið störf að nýju. Krafist sé lækkunar á kröfu stefnanda vegna greiðslu réttargæslustefnda úr slysatryggingu launþega að fjárhæð 106.752 krónur og að allar greiðslur, sem stefnandi kunni að hafa fengið frá þriðja aðila, komi til frádráttar bótakröfu hans. Upphafstíma dráttarvaxtakröfu sé sérstaklega mótmælt sem röngum. Við munnlegan málflutning var því haldið fram að vextir, sem fallið hefðu á kröfu stefnanda fjórum árum fyrir þingfestingardag eða fyrr, væru fyrndir.
Um lagarök vísi stefndi til reglna kröfuréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, reglna um orsakatengsl og sennilega afleiðingu, reglna um eigin sök og ákvæða skaðabótalaga, einkum 3. mgr. 7. gr og 4. mgr. 5. gr. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Eins og fram hefur komið slasaðist stefnandi þegar ysta röð úr timburstafla féll á bak hans og herðar er hann vann hjá stefnda við að færa til sperrur á vinnusvæði stefnda 9. júlí 1999. Ástæða þess að röðin féll er talin sú að millilegg á milli tveggja stafla var of stutt þannig að stuðningur við röðina var ótraustur. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 bar stefnda að tryggja að gætt væri fyllsta öryggis á vinnustaðnum. Bar stefnda meðal annars að sjá til þess að umræddu byggingarefni væri staflað þannig að ekki væri hætta á að það félli er starfsmenn stefnda unnu við að umstafla því, en ósannað er gegn andmælum stefnanda að öðrum verði um það kennt að ekki var tryggilega gengið frá staflanum. Stefnandi hafði takmarkaða reynslu af sambærilegum störfum og hér um ræðir og hann var nýlega 18 ára gamall þegar slysið varð. Ekki hefur komið fram að honum hafi verið leiðbeint um það hvernig hann skyldi bera sig að við verkið, en samkvæmt 1. mgr. 37. gr. framangreindra laga ber stefndi ábyrgð á því að vinnu sé hagað þannig að gætt sé fyllsta öryggis, sbr. a lið 13. gr. laganna. Stefnda bar einnig að sjá til þess að stefnandi fengi nauðsynlega kennslu og þjálfun vegna starfa sinna þannig að hann gæti framkvæmt þau þannig að ekki stafaði hætta af, sbr. 1. mgr. 14. gr. sömu laga. Ekki verður fallist á að um eigin sök stefnanda hafi verið að ræða. Verður að telja með vísan til þessa að stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda vegna slyssins og að honum beri því að greiða honum bætur vegna þess samkvæmt eftirfarandi sjónarmiðum, viðmiðunum og lagareglum.
Tímabundið atvinnutjón ber að bæta samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, en bætur vegna þess eru ákveðnar fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt. Í matsgerð læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Guðmundar Björnssonar 28. apríl 2003 er haft eftir stefnanda að hann hafi misst einn mánuð úr vinnu eftir slysið. Eins og fram kemur í læknisfræðilegum gögnum málsins tognaði stefnandi á hálsi, öxl og brjósthrygg og eymsl voru yfir hryggjatindum hálsliða og dofi fram í hægri hendi. Stefnandi fékk bólgueyðandi lyf og verkjalyf í tíu daga. Stefnandi byggir kröfuna um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón á því að tekjur hans á þeim tíma sem hann hafi verið talinn óvinnufær hafi verið 41.508 krónum lægri en meðaltekjur hans á mánuði tvo mánuði fyrir slysið. Með vísan til þess sem að framan greinir verður að telja fram komna næga sönnun þess að stefnandi hafi orðið fyrir umræddu tjóni og verður þessi kröfuliður stefnanda því tekinn til greina.
Samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga skal greiða þjáningabætur fyrir tímabilið frá því að tjón varð þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt. Mat á því hvenær heilsufar er orðið stöðugt er læknisfræðilegt og fer ekki endilega saman við þann tíma þegar tjónþoli getur hafið vinnu að nýju. Í ofangreindri matsgerð er þjáningatímabil talið vera tveir mánuðir eftir slysið eða fram að stöðugleikatímpunkti sem er talinn 9. september 1999. Matsgerðin er ekki haldin slíkum annmörkum að hún verði af þeim sökum ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins, enda hefur ekkert komið fram sem hnekkir henni um það sem hér skiptir máli. Þjáningabætur eru samkvæmt framangreindri lagagrein 1.300 krónur fyrir hvern dag sem tjónþoli er rúmfastur og 700 krónur fyrir hvern dag sem hann er veikur án þess að vera rúmfastur, en fjárhæðir bóta breytast samkvæmt 15. gr. laganna mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna. Krafa stefnanda um þjáningabætur, að fjárhæð 57.000 krónur, er miðuð við þetta. Ber með vísan til framangreindra atriða að taka þennan kröfulið til greina.
Í matsgerðinni er varanlegur miski stefnanda vegna tognunar í hálsi og mjóbaki sérstaklega metinn 4% vegna vinnuslyssins sem hér um ræðir. Þar kemur einnig fram að stefnandi hafði verki í baki þegar skoðun fór fram hjá matsmönnum 5. maí 2003 og að eymsl voru á hálsi og hryggtindum á mótum háls- og brjósthryggjar og meðfram hryggtindum á mjóbaki. Ber að leggja matið til grundvallar við úrlausn á þessum kröfulið stefnanda enda hefur því ekki verið hnekkt. Bætur eru reiknaðar samkvæmt 4. gr., sbr. 15. gr. skaðabótalaga. Ber með vísan til þess að taka kröfu stefnanda um bætur fyrir varanlegan miska til greina að fjárhæð 218.013 krónur.
Fram hefur komið að stefnandi hóf störf hjá stefnda í desember 1998. Hann stundaði nám við Iðnskólann veturinn áður en hætti námi um vorið. Á árunum 1996 til 1998 voru tekjur stefnanda samkvæmt skattframtölum hans mjög lágar, sérstaklega á árinu 1996 þegar stefnandi var 15 og 16 ára gamall og hafði nánast engar tekjur. Að þessu virtu geta laun hans næstu þrjú árin fyrir slysið ekki talist rétt viðmiðun við ákvörðun bóta hans fyrir varanlega örorku enda verða þau ekki talinn sá mælikvarði sem réttilega verði notaður á líklegar framtíðartekjur hans. Þykir því rétt að árslaun til ákvörðunar bóta samkvæmt þeim lið í kröfugerð stefnanda verði metin sérstaklega eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Aðalkrafa stefnanda er byggð á því að eðlilegt og sanngjarnt sé að miða við meðaltekjur iðnaðaðmanna við ákvörðun árslauna, enda séu þær nærri almennum meðaltekjum launþega. Þegar litið er til þess að stefnandi hætti í námi og hefur að því er best verður séð engar áætlanir um frekara nám og með hliðsjón af því að stefnandi hefur unnið ýmis verkamannastörf, eins og fram kemur í málatilbúnaði hans, verður að telja rétt að miða við meðaltekjur verkamanna við útreikninga á tjóni stefnanda vegna varanlegrar örorku eins og gert er í varakröfu stefnanda. Verður krafa stefnanda fyrir varanlega örorku, að fjárhæð 1.065.924 krónur, því tekin til greina. Stefnandi fékk greiddar úr slysatryggingu launþega 106.752 krónur vegna slyssins eins og fram kemur í bréfi réttargæslustefnda til lögmanns stefnanda 27. maí 2003, en óumdeilt er að fjárhæðina beri að draga frá kröfu stefnanda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Kemur sú fjárhæð því til frádráttar á framangreindri kröfu.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið ber stefnda að greiða stefnanda samtals 1.275.693 krónur ásamt vöxtum eins og krafist er, en dráttarvextir reiknast samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. júlí 2003 samkvæmt 9. gr. sömu laga. Telja verður að vextir hafi orðið gjaldkræfir þegar unnt var að meta tjónið, sem hefur í fyrsta lagi verið þegar heilsufar stefnanda var orðið stöðugt, en það var samkvæmt ofangreindri matsgerð 9. september 1999. Fyrning var rofin með birtingu stefnu 5. september 2003 samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905 en það var innan fyrningarfrests sem er 4 ár samkvæmt 2. tl. 3. gr. sömu laga. Vaxtakrafa stefnanda hefur því ekki að neinu leyti fallið niður fyrir fyrningu.
Stefnda ber að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Alefli ehf., greiði stefnanda, Smára Á. Snæfeld, 1.275.693 krónur með 4.5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 316.521 krónu frá 9. júlí 1999 til 9. september sama ár, en af 1.275.693 krónum frá þeim degi til 13. júlí 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 350.000 krónur í málskostnað.