Hæstiréttur íslands
Mál nr. 80/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 6. febrúar 2013. |
|
Nr. 80/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Jónas Þór Jónasson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. Hafnað var kröfu X um að í stað gæsluvarðhalds skyldi hann vistaður á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. febrúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. mars 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá er þess krafist að varnaraðili verði í gæsluvarðhaldi á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Engin efni eru til að mæla fyrir um vistun varnaraðila á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun í stað gæsluvarðhalds vegna meltingarsjúkdóms eða þunglyndis, enda ber samkvæmt 22. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga að veita honum viðeigandi heilbrigðisþjónustu meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. 2. mgr. 77. gr. sömu laga.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. mars 2013 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að undanfarna mánuði hafi lögreglan rannsakað tíu mál er varði meint kynferðisbrot X gegn stúlkum undir lögaldri, í sumum tilvikum undir kynferðislegum lögaldri. Um keimlík mál sé að ræða þar sem kærði beiti markvissum aðferðum við að fá stúlkurnar til kynferðisathafna undir því yfirskini að hann sé áhugaljósmyndari. Við rannsókn á tölvu kærða hafi komið í ljós gríðarlega mikið efni, samskipti og myndefni sem staðfesti umfang málanna og grun um kynferðisbrot. Mál þessi hafi verið send ríkissaksóknara sem hyggist gefa út ákæru innan tíðar. Kærði hafi gengist undir sálfræðimat í tengslum við rannsókn þeirra mála.
Þau brot sem til skoðunar séu í umræddum tíu málum varði við 194. gr., 2. og 3. mgr. 202. gr., 209. gr., 199., 225. gr. almennra hegningarlaga og að auki 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Nánar um lýsingu, framburði aðila og sönnunarstöðu málanna sé vísað til meðfylgjandi greinargerða rannsakara, dags. maí og júní 2012.
Auk ofangreindra tíu mála hafi lögregla nú til rannsóknar eftirgreind sex mál:
Mál nr. 007-2013-1773 Í máli þessu mun kærði hafi sett sig í samband við stúlku, sem er fædd árið 1996, í nóvember 2012 og óskað eftir því að hún kæmi í nektarmyndatöku fyrir 100.000 krónur með því skilyrði að hún sendi honum myndir af sér fáklæddri. Þá segi hann að nauðsynlegt sé að þau „myndi traust” áður en myndatakan fari fram. Myndatakan hafi þó ekki farið fram.
Mál nr. 007-2013-2987 Í greinargerð segir að kærði hafi 18. desember sl. sett sig í samband við aðra stúlku, sem fædd er 1996, í gegnum síðuna „X Áhugaljósmyndari.” Hafi kærði boðið henni að koma í nektarmyndatöku fyrir 100.000 krónur. Fram komi í samskiptum þeirra að hún sé undir 18 ára aldri.
Mál nr. 007-2013-2988 Í þessu máli hafi kærði sett sig í samband við þriðju stúlkuna 13. desember sl., sem einnig er fædd árið 1996, í gegnum síðuna „X Áhugaljósmyndari.” Hafi hann boðið henni að koma í nektarmyndatöku fyrir 100.000 krónur. Hún kveði það koma fram á Facebook síðu sinni að hún sé 16 ára gömul.
Mál nr. 007-2013-3033 Í greinargerð komi fram að kærði hafi í þessu máli sett sig í samband við fjórðu stúlkuna 21. desember 2012 á Facebook í gegnum síðu hans „X Áhugaljósmyndari”. Stúlka þessi sé fædd árið 1999. Hafi hann boðið henni að koma í nektarmyndatöku fyrir 100.000 krónur, þrátt fyrir að hún hefði sagt honum aldur sinn.
Mál nr. 007-2013-3643 Mál þetta varði stúlku sem er fædd árið 1992. Um þrjú tilvik sé að ræða sem hafi átt sér stað á árinu 2008 er stúlkan var 15 ára gömul. Hafi hún borið um að í eitt skiptið hafi kærði áreitt hana kynferðislega á heimili vinar hans, í annað skiptið hafi hann áreitt hana og sett fingur í leggöng gegn vilja hennar og í þriðja skiptið hafi hann áreitt hana og haft við hana önnur kynferðismök og samræði, allt gegn vilja hennar.
Mál nr. 007-2013-4741 Þetta mál varði stúlku sem fædd er árið 1994. Um tvö tilvik sé að ræða sem átt hafi sér stað sumarið 2008 eða 2009 er stúlkan var 14 eða 15 ára gömul. Hafi hún borið um að í fyrra skiptið hefði kærði áreitt hana með því að káfa á brjóstum hennar á meðan hún svaf. Í seinna skiptið hafi hann áreitt hana í gufubaði og gert tilraun til þess að setja getnaðarlim sinn í leggöng hennar en hann hafi þvingað hana til þess að sitja í kjöltu sér.
Kærði hafi neitað sök í þessum málum.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að nú í morgun hafi henni borist tilkynningar um tvö ný mál til viðbótar og verði teknar skýrslur af brotaþolum á mánudaginn næstkomandi. Hafi hér verið um að ræða gróf kynferðisbrot, sjá nánar meðfylgjandi upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. í dag.
Rökstuddur grunur sé um að kærði hafi framið kynferðisbrot gegn ungum stúlkum er varði refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum. Lögreglan líti þessi mál mjög alvarlegum augum enda hafi kærði yfirburði í aldri og þroska fram yfir stúlkurnar. Eins og rakið sé hér að ofan eru sex mál til rannsóknar hjá lögreglu. Tvö mál varði meint brot á árinu 2008 eða 2009. Hin málin séu vegna meintra brota frá því í desember 2012. Að mati lögreglu endurspegli það aukinn ásetning kærða að hann hafi ekki látið segjast, eftir að rannsókn lögreglu hófst á þeim málum sem nú séu hjá ríkissaksóknara í ákærumeðferð, en haldið áfram samskiptum við ungar stúlkur í gegnum áhugaljósmyndasíðu sína á Facebook. Hafi hann m.a. boðið þeim greiðslu fyrir nektarmyndartöku og/eða beðið þær um að bera sig fyrir framan vefmyndavél til þess að hann gæti lagt mat á myndefni sitt eins og rakið hafi verið hér að ofan.
Hinn 18. janúar sl. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-35/2013. Ekkert nýtt hafi komið fram í málinu sem breytt geti þeirri niðurstöðu og hafi málum frá því sá úrskurður var kveðinn upp fjölgað úr fjórum í sex.
Það sé mat lögreglu að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum gangi hann laus, á meðan málum hans er ekki lokið, sbr. c. liður 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Sé því krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Ríkislögreglustjóri hefur til meðferðar tíu mál er varða ætluð kynferðis- og barnaverndarlagabrot kærða á árunum 2010 og 2011, í flestum tilvikum gegn stúlkum undir lögaldri. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi er afgreiðslu þessara mála ólokið af hálfu ríkissaksóknara, en upplýst er að gefin verði út ákæra á hendur honum. Í flestum þessara mála er kærði grunaður um að hafa verið í tölvusamskiptum við stúlkur á aldrinum 12 til 15 ára og leitast þar við að fá þær í nektarmyndatökur eða taka þátt í myndatöku, sem sýni kynferðislegar athafnir karls og konu, hvatt þær til að afklæðast fyrir framan vefmyndavél og haft sjálfur uppi kynferðislega tilburði við þær bæði í tali og verki. Einnig er til athugunar önnur ætluð kynferðisbrot kærða frá þessum árum. Eftir að mál þessi komu til kasta ríkissaksóknara bárust sóknaraðila fjórar kærur út af málum þar sem rökstuddur grunur er um að kærði hafi sett sig í samband við stúlkur á aldrinum 13 til 16 ára til að fá þær í nektarmyndatöku gegn greiðslu. Til viðbótar við þessi mál hafa jafnframt borist tvær kærur þar sem kærði er sakaður um kynferðisbrot gegn tveimur unglingsstúlkum á árunum 2008 eða 2009, auk þess sem boðað hefur verið að fleiri kærur séu í farvatninu.
Með skírskotun til þess sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila og með vísan til rannsóknargagna málsins er á það fallist að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Nokkuð langt er um liðið síðan flest þessara brota áttu sér stað. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að ný mál hafa komið upp, þar sem kærði er undir rökstuddum grun um hafa mjög nýlega, eftir að lögreglurannsókn á eldri málum var hafin, í fjögur skipti á samskiptavefnum Facebook reynt að fá jafn margar stúlkur, á aldrinum 13 til 16 ára, til að koma til sín í nektarmyndatöku gegn greiðslu, og í eitt skipti tælt stúlku til að afklæðast fyrir framan vefmyndavél undir því yfirskini að hann þurfi að leggja mat á viðfangsefnið. Sú háttsemi gefur til kynna áframhaldandi, einbeittan ásetning kærða til að leita eftir kynferðislegu samneyti við ungar stúlkur án þess að skeyta nokkru um þroska þeirra og aldur. Því telur dómurinn að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan mál hans eru til meðferðar fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt þessu er fallist á með sóknaraðila að skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt og verður krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald því tekin til greina. Ekki þykir efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Fyrir dómi kom fram að kærði er með sjúkdóm sem kallar á tiltekna lyfjameðferð og mataræði. Verður að ætla að honum verði tryggður sá aðbúnað og meðferð sem heilsufar hans krefst meðan á varðhaldi stendur.
Ásmundur Helgason kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt[...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til 1. mars 2013, kl. 16:00.