Hæstiréttur íslands

Mál nr. 216/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Niðurfelling saksóknar
  • Frestur


Þriðjudaginn 31

 

Þriðjudaginn 31. maí 2005.

Nr. 216/2005.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

Y og

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Z

(enginn)

 

Kærumál. Niðurfelling saksóknar. Frestur.

X, Y og Z voru kærðar fyrir meint húsbrot og eignaspjöll. Í kjölfar rannsóknar var þeim tilkynnt með bréfum 23. september 2004 að rannsókn væri lokið og að rannsóknargögn gæfu ekki tilefni til frekari aðgerða og málið væri fellt niður. Kæranda var sent bréf þann sama dag þar sem honum var tilkynnt um niðurfellingu málsins og vakin athygli á rétti hans til að bera ákvörðun um niðurfellingu undir ríkissaksóknara innan mánaðar, sbr. 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þann 26. október 2004 barst ríkssaksóknara bréf frá kæranda og gaf embættið í kjölfarið fyrirmæli um saksókn í málinu, sem leiddi til útgáfu ákæru á hendur X, Y og Z. Fallist var á það með héraðsdómara að þegar ríkissaksóknara barst kæran hafi verið liðinn sá mánaðar frestur sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 og því hafi ríkissaksóknara ekki verið rétt að hlutast til um útgáfu ákæru eins og gert var. Málinu var  því að vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2005, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilinn X krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði.

Varnaraðilinn Y krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði.

Varnaraðilinn Z hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda varnaraðilanna X og Z, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns og Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur til hvors þeirra.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2005.

Árið 2005, miðvikudaginn 18. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður í málinu nr. S-516/2005: Ákæruvaldið gegn X, Y og Z, en málið var tekið til úrskurðar samdægurs.

             Með ákæru dags. 12. apríl 2005 var höfðað mál á hendur X, Y og Z.  Allar eru ákærðar fyrir húsbrot og eignaspjöll, sem talin eru hafa átt sér stað 21. eða 22. mars 2003.

             Úrlausnarefni þessa úrskurðar er hvort það varðaði frávísun málsins að kæru­bréf til ríkissaksóknara, þar sem kærð var ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík um niðurfellingu málsins, barst ríkissaksóknara eftir að mánaðarfrestur var liðinn skv. 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála (hér á eftir skammstafað oml). 

             Verjendur allra ákærðu gera sams konar dómkröfu, þ.e. að málinu verði vísað frá dómi og að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði að mati dómsins.

             Ákæruvaldið krefst efnisdóms í málinu og að frávísun verði hafnað.

             Málsatvik eru í stuttu máli þau, að mál þetta sætti rannsókn hjá lögreglu­stjóranum í Reykjavík. Með bréfum dags. 23. september 2004 var öllum ákærðu og fleirum tilkynnt um lok rannsóknar málsins og að rannsóknargögn þættu ekki gefa tilefni til frekari aðgerða og að málið verði því látið niður falla.  Er í bréfinu vísað til 112. gr. oml.

             Kæranda málsins var einnig sent bréf, sem dags. er 23. september 2004, þar sem honum var tilkynnt um niðurfellingu málsins á grundvelli 114. gr. oml.  Í niðurlagi þess bréfs segir að bera megi ákvörðunina um niðurfellingu málsins undir ríkissaksóknara innan mánaðar, sbr. 2. mgr. 114. gr. oml. 

             Lögmaður kæranda málsins kærði ákvörðunina um niðurfellingu með bréfi dags. 22. október 2004, sem barst ríkissaksóknara 26. október 2004.  Ríkissaksóknari mælti síðan fyrir um það í bréfi 25. nóvember 2004, að ákæra skyldi gefin út á hendur ákærðu, sem gert var eins og áður er lýst.

             Niðurstaða

             Skv. 2. mgr. 114. gr. oml. getur sá, sem ekki vill una við ákvörðun lögreglu­stjóra, eins og hér stendur á, kært hana til ríkissaksóknara innan mánaðar frá því honum var tilkynnt um hana.  Segir í greinargerð með lögum nr. 84/1996, þar sem gerð var breyting á 114. gr. oml., að kærufrestur skv. 2. mgr. greinarinnar sé styttri en almennt gildi um stjórnsýslukærur þar sem þörf sé á því að máli verði lokið sem fyrst.  Tilkynningin til ákærðu um niðurfellinguna er ívilnandi stjórnvaldsákvörðun og máttu ákærðu treysta því að málið yrði ekki tekið upp á ný eftir að mánaðarfresturinn var liðinn þar sem ekki er til þess lagaheimild. Þegar kæran barst ríkissaksóknara 26. október 2004 var meira en mánuður liðinn frá því tjónþolanum var tilkynnt um niður­fellinguna, skv. 2. mgr. 114. gr. oml.

             Það er álit dómsins að túlka beri ákvæðið um frestinn þröngt. Er þá tekið mið af því sjónarmiði, sem lýst er í greinargerðinni og rakið var að framan um nauðsyn þess að máli sé lokið sem fyrst auk þess sem önnur túlkun þykir ótæk gagnvart ákærðu. Ætluðum tjónþola, sem kærði niðurfellingu málsins of seint, eru færar aðrar leiðir til heimtu skaðabóta.

             Að öllu þessu virtu er það mat dómsins að liðinn hafi verið mánaðarfresturinn, skv. 2. mgr. 114. gr. oml., er kæran barst ríkissaksóknara og eftir það var ekki unnt að gefa út ákæru. 

             Ber samkvæmt því að vísa máli þessu frá dómi og úrskurða að þóknun til verjenda ákærðu greiðist eins og greinir í úrskurðarorði.

 Eyjólfur Eyjólfsson, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Málinu nr. S-516/2005, ákæruvaldið gegn X, Y og Z er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóð, þar með taldar 60.000 krónur til hvers um sig, verjendanna Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærðu X, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærðu Y og Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærðu Z.