Hæstiréttur íslands

Mál nr. 538/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


Mánudaginn 5

 

Mánudaginn 5. október 2009.

Nr. 538/2009.

Reykjavíkurborg

(Gunnar Eydal hrl.)

gegn

A

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Lögræði.

 

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var að A skyldi sviptur sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a. og b. liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2009, þar sem hafnað var þeirri kröfu sóknaraðila að varnaraðili skyldi sviptur sjálfræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði sviptur sjálfræði tímabundið í sex mánuði.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn kærði úrskurðar verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2009.

                Með beiðni, sem dagsett er 2. þ.m., hefur sóknaraðili, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...],[...], verði sviptur sjálfræði í sex mánuði þar sem hann sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðveiki og fíkniefnaneyslu. Var málið þingfest 4. þ.m. og tekið til úrskurðar samdægurs. Um aðild að málinu vísar sóknaraðili til d- liðar 2. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfunni verði vísað frá dómi þar sem móðir varnaraðila sé andsnúin henni og velferðarsvið Reykjavíkurborgar eigi ekki sjálfstæða málsaðild þegar svo standi á. Þá mótmælir varnaraðili kröfunni efnislega. 

                Samkvæmt d-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga getur aðili lögræðismáls verið félagsmálastofnun eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað varnaraðila þegar talið er réttmætt að gera kröfuna vegna tilmæla aðila sjálfs, vandamanna, læknis hans eða vina, eða vegna vitneskju um hag aðila er fengist hefur á annan hátt. Orðalag þessa ákvæðis svo og athugasemdir við það í greinargerð verða ekki skilin öðru vísi en svo að sóknaraðili eigi hér sjálfstæða aðild og ber að synja kröfu varnaraðila um það að málinu verði vísað frá dómi.

                Fyrir liggur að varnaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, aðsóknargeðklofa, og vímufíkn. Hefur hann vistast nauðugur á geðdeild af þeim sökum frá 11. ágúst sl. Í málinu er staðfest vottorð Ólafs Bjarnasonar geðlæknis sem skoðaði varnaraðila þann dag. Kemur þar fram að hann hafi þá verið með geðrofseinkenni, án alls innsæis í veikindi sín, sett fram líflátshótanir og verið með greinilegar ranghugmyndir. Hafi hann virst geta verið hættulegur öðru fólki og því verið mikil þörf á því að vista hann á sjúkrahúsi. Þá eru í málinu tvö vottorð Karls Reynis Einarssonar læknis. Í því fyrra, sem dagsett er 31. f. m., segir læknirinn varnaraðila ekkert innsæi hafa í sjúkdóm sinn og sé nauðsynlegt að vista hann áfram á geðdeild til þess að tryggja það að hann fái nauðsynlega lyfjameðferð. Sé afar ólíklegt að hann muni vilja taka slíkri meðferð eftir að hann fari af sjúkrahúsinu.  Þá beinir læknirinn því til félagsmálayfirvalda að athuga hvort þau telji ástæðu vera til þess að svipta varnaraðila sjálfræði svo að gefa megi honum lyf  með forðasprautum á tveggja vikna fresti. Síðara vottorð læknisins er dagsett 2. þ. m. Segir þar að ástand varnaraðila hafi ekki breyst.  Hann sé ekki í geðrofsástandi en sé þó fullkomlega innsæislaus. Þótt hann samþykki áætlun um forðasprautur sé afar ólíklegt að slík áætlun standist án sjálfræðissviptingar og yfirgnæfandi líkur á því að hann myndi veikjast fljótlega aftur. Hins vegar hafi móðir varnaraðila haft samband daginn áður og lagst alfarið gegn því að hann verði sviptur sjálfræði. Vilji hún gera enn eina tilraun til þess að hann gangist sjálfviljugur undir læknismeðferð. Treystir læknirinn sér ekki til þess að mæla með því að varnaraðili verði sviptur sjálfræði gegn vilja fjölskyldunnar. 

                Læknirinn hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorðin. Hann segir varnaraðila nú hafa verið lagðan í sjötta sinn inn á sjúkrahús vegna geðsjúkdóms frá árinu 2002. Þar af hafi hann a. m. k. fjórum sinnum vistaður nauðugur. Þá hafi hann tvisvar sinnum a. m. k. strokið af geðdeild. Eftir síðustu innlögn árið 2008 hafi hann verið útskrifaður með það fyrir augum að hann fengi forðasprautur á tveggja vikna fresti. Hann hafi hins vegar ekki komið í eftirlit eða sprautur og þegar hann kom á geðdeild nú síðast hafi hann verið æstur og illa hirtur og með aðsóknarranghugmyndir. Hafi þurft að “sprauta hann niður” í upphafi með tvenns konar lyfjum, róandi lyfi og geðrofslyfi. Undanfarnar tvær vikur hafi hann hins vegar verið rólegur og kurteis á deildinni. Hann sé nú betur hirtur og ekki eins spenntur og ekki truflaður í hugsunum. Hafi ekki borið á neinum aðsóknar- eða ranghugmyndum eða ofskynjunum upp á síðkastið. Hann telji sig ekki vera haldinn geðklofa nú en kannast þó við að hafa einhvern tíma heyrt raddir. Telji hann sig ekki þurfa á meðferð að halda. Hann samþykki þó að koma á hálfsmánaðar fresti til þess að fá sprautu og reglulega á göngudeild til eftirlits. Á hinn bóginn gangi hann með áætlanir um það að leggjast í ferðalög. Geðrænt séð sé hann nú nálægt því að vera í sínu skásta formi. Læknirinn telur vera yfirgnæfandi líkur á því að varnaraðili komi til þess að fá lyfin eða sæta eftirliti, þótt það sé vissulega ekki útilokað. Sé ólíklegt að varnaraðili fylgi eftir þeirri áætlun um sjúkdómsmeðferð nema hann verði sjálfræðissviptur. Á hinn bóginn hafi nú komið í ljós að móðir varnaraðila sé alfarið mótfallin því að hann verði sviptur sjálfræði. Eftir að hafa farið yfir málið kveðst læknirinn ekki vera reiðubúinn til þess að mæla eindregið með því að hann verði sviptur sjálfræði gegn vilja nánustu ættingja. Ástæðan sé sú að það sé almennt séð betra að samstaða sé milli ættingja sjúklings og þeirra sem veiti læknismeðferð. Sé ekki góð reynsla á geðdeildinni af því að framfylgja meðferð við þær aðstæður. Kveðst hann álíta að hefði hann vitað í upphafi um afstöðu móðurinnar hefði þetta mál að líkindum ekki farið lengra. Um framhaldið sé það að segja að mest hætta sé á því að varnaraðili neiti að sæta læknismeðferðinni og verði veikur aftur, fái ranghugmyndir og ofskynjanir og skeyti skapi sínu á dauðum hlutum eins og gerst hafi nú síðast. Það leiði svo til þess að hann verði húsnæðislaus og ferlið hæfist að nýju með nauðungarvistun og læknismeðhöndlun gegn vilja hans.  Hann kveður sjúkdómsástand varnaraðila ekki hafa breyst frá því sem segi í vottorðinu 31. ágúst sl.  Hann segir kalt mat sitt vera það að verði hann ekki sviptur sjálfræði sé líklegast að allt fari í sama farið aftur hjá honum. Innlögn á spítala sé ekki bráðnauðsynlegur hluti af þeirri meðferð sem varnaraðili þurfi á að halda heldur skipti það mestu máli að hann komi í eftirlit á göngudeild og fái forðasprautur. Ef varnaraðili yrði sjálfræðissviptur nú myndi það skila þeim árangri að hann fengi þá lyfjameðferð sem hann þurfi á að halda. Hins vegar þyki honum sex mánuðir ekki vera langur tími í sjálfræðissviptingu væri farið út í hana á annað borð og hafi hann verið þeirrar skoðunar að ef til sjálfræðissviptingar kæmi, þyrfti hún að vara í eitt til tvö ár til þess að varnaraðili hefði nægan tíma til þess að ná bata.

Niðurstaða.

                Geðlæknir sá sem stundað hefur varnaraðila að undanförnu kveður geðhagi varnaraðila nú vera með skásta móti. Hann telur ekki vera útilokað að varnaraðili muni sæta nauðsynlegri læknismeðferð af frjálsum vilja, þótt það geti ekki talist líklegt. Þá kveðst hann ekki treysta sér til þess að mæla eindregið með því að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í ósætti við aðstandendur, enda sé ekki góð reynsla af læknismeðferð við slíkar aðstæður. Þá er á lækninum að skilja að sjálfræðissvipting einungis í sex mánuði sé til takmarkaðs gagns. Svipting sjálfræðis hefur í för með sér mikla skerðingu á þeim grundvallarrétti manns að ráða högum sínum og verður ekki gerð nema ótvíræða nauðsyn beri til. Hefur ekki verið nægilega leitt í ljós að svo sé. Ber því að synja kröfu sóknaraðila að svipta varnaraðila sjálfræði í sex mánuði.

                Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þ.m.t. þóknun til talsmanns varnaraðila, Kristjáns Stefánssonar hrl., 50.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Synjað er kröfu sóknaraðila, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, um það að varnaraðili, A, skuli sviptur sjálfræði.

Úr ríkissjóði greiðist allur málskostnaður, þ.m.t. þóknun til talsmanns varnaraðila, Kristjáns Stefánssonar hrl., 50.000 krónur.