Hæstiréttur íslands
Mál nr. 536/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Haldlagning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. ágúst 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2017 þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að aflétt yrði haldi sóknaraðila á inneign á nánar tilgreindum bankareikningi sínum og honum gert að endurgreiða sér 3.918.263 krónur með nánar tilteknum vöxtum. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að haldinu verði aflétt og sér endurgreidd framangreind fjárhæð með vöxtum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gegndi varnaraðili starfi forstöðumanns leiðarkerfisstjórnunar A og var skráður fruminnherji hjá félaginu. Er hann grunaður um brot á 123. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með því að hafa látið B á ólögmætan hátt í té upplýsingar, sem hann bjó yfir vegna starfs síns um versnandi afkomu A skömmu áður en félagið birti aðkomuviðvörun á verðbréfamarkaði sem varð til þess að hlutabréf í því féllu í verði. B er talinn hafa miðlað upplýsingunum til C og hafi þeir tveir hagnýtt þær í viðskiptum með hlutabréf í A sem gengið var frá áður en upplýsingarnar voru kunngerðar á markaði. Með þessu móti hafi D ehf., þar sem B er framkvæmdastjóri og prókúruhafi, og C hagnast um samtals 47.593.983 krónur á umræddum hlutabréfaviðskiptum. Af hálfu sóknaraðila er því ennfremur haldið fram að grunur leiki á að hluti hagnaðarins hafi runnið til varnaraðila.
Við leit á heimili varnaraðila 24. maí 2017 var meðal annars lagt hald á rúmar 3.000.000 krónur í peningum. Hinn 29. sama mánaðar var lagt hald á innstæðu á reikningi varnaraðila hjá Arion banka hf. að fjárhæð 3.918.000 krónur og krefst varnaraðili þess sem fyrr segir að því haldi verði aflétt.
II
Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. og 1. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 er lögreglu meðal annars rétt að leggja hald á muni við rannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi ef ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Í því skyni er heimilt að leggja hald á inneign á bankareikningi, sbr. dóma Hæstaréttar 21. maí 2010 í máli nr. 301/2010 og 19. mars 2014 í máli nr. 188/2014.
Í 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er kveðið á um að gera megi upptækan ávinning af broti eða fjárhæð sem svarar til hans í heild eða að hluta. Ef færðar eru viðhlítandi sönnur á að maður hafi hlotið ávinning af broti verður fjárhæð, sem svarar til hans, gerð upptæk á grundvelli þessa lagaákvæðis jafnvel þótt sýnt sé fram á að þess fjár hafi verið aflað með lögmætum hætti, sbr. hins vegar 4. mgr. 69. gr. b. sem á við ef maður hefur gerst sekur um brot án þess að fyrir liggi að hann hafi sjálfur notið ávinnings af því.
Með skírskotun til þessa má gera þá fjármuni varnaraðila, sem hald hefur verið lagt á samkvæmt framansögðu, upptæka með dómi að því tilskildu að sannað verði svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að hann hafi hagnast á brotinu. Svo sem áður greinir er því meðal annars haldið fram af hálfu sóknaraðila að hluti hagnaðar af ætluðu broti varnaraðila hafi runnið til hans sjálfs. Eins og mál þetta horfir við nú eru til staðar vísbendingar um að sú staðhæfing sóknaraðila kunni að eiga við rök að styðjast, þar á meðal verður ekki séð af gögnum málsins að varnaraðili hafi gefið fullnægjandi skýringu á því hvernig peningar þeir, sem fundust við leit á heimili hans, hafi verið til komnir, en ekki verður ráðið af gögnunum að hann hafi krafist þess að haldi á þeim verði aflétt. Þá verður ekki talið að sóknaraðili hafi gengið gegn meðalhófsreglu 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 með því að leggja hald á um 7.000.000 krónur til að tryggja upptöku á ætluðum ávinningi varnaraðila af hagnaði áðurgreindra hlutabréfaviðskipta sem sóknaraðili kveður að hafi numið samtals 47.593.983 krónum.
Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Samkvæmt 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 dæmist kærumálskostnaður ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2017.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 22. ágúst sl. barst dóminum með kröfu sóknaraðila 6. júlí sl.
Af hálfu sóknaraðila, X, kt. [...], [...], Reykjavík, er krafist úrskurðar um að haldlagning varnaraðila, héraðssaksóknara, á fjármunum hans á bankareikningi nr. [...], verði felld niður og varnaraðili endurgreiði honum 3.918.263 krónur ásamt innstæðuvöxtum af reikningi nr. [...] frá 29. maí 2017 til greiðsludags inn á umræddan reikning. Þá er krafist greiðslu sakarkostnaðar vegna þessa þáttar málsins.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Mál þetta er rekið á grundvelli heimildar í 2. mgr. 69. gr. og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
I
Með kæru 10. mars 2017 kærði Fjármálaeftirlitið sóknaraðila, ásamt fleiri aðilum vegna ætlaðra innherjasvika vegna viðskipta með fjármálagerninga tengdum hlutabréfum A Sóknaraðili er forstöðumaður leiðarkerfisstjórnunar A., en er nú í tímabundnu leyfi vegna rannsóknar málsins. Þá taldist hann vera fruminnherji.
Vegna rannsóknar málsins var aflað dómsúrskurða og ráðist í aðgerðir 24. maí sl. Var meðal annars ráðist í húsleit á heimili sóknaraðila og þar haldlagðar yfir 3.000.000 króna í reiðufé. Aflað var upplýsinga um bankareikninga sóknaraðila og þann 29. maí sl. var haldlagður bankareikningur hans nr. [...] hjá Arion banka hf. með vísan til þess að um væri að ræða fjármuni sem kynnu að vera gerðir upptækir með dómi, sbr. 68. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 69. gr., 69. gr. b og 69. gr. c í almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Var þess krafist að innstæða bankareikningsins að fjárhæð 3.918.000 krónur yrði lögð inn á reikning á vegum varnaraðila.
Mánudaginn 26. júní sl. barst lögmanni sóknaraðila tölvuskeyti frá héraðssaksóknara um haldlagningu fjármunanna. Kemur þar fram að rökstuddur grunur sé um að fjármunir sem lagðir hafi verið inn á bankareikninginn séu afrakstur „hinna meintu brota.“ Í svari með tölvupósti næsta dag var þess óskað að haldlagningunni yrði aflétt en ekki hefur verið orðið við því.
II
Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að hann hafi haft ágætar tekjur í formi fastra mánaðarlauna og bónusgreiðslna vegna starfa sinna sem forstöðumaður leiðarkerfisstjórnunar A en ætla megi að samtala þessara launagreiðslna sé nálægt tveimur milljónum króna á mánuði. Þessar launagreiðslur hafi verið lagðar inn á bankareikning í eigu sóknaraðila nr. [...]. Þegar nokkur fjárhæð hafi safnast inn á reikninginn hafi hann millifært fjármuni af honum inn á reikning nr. [...] Sá reikningur sé lokaður í 30 daga frá innborgun, en beri hærri vexti en launareikningur nr. [...]. Reikningurinn hafi verið stofnaður í maí 2013.
Þegar reikningarnir tveir séu bornir saman komi í ljós að allar millifærslur inn á reikning nr. [...] stafi af greiðslum af reikningi nr. [...] að öðru leyti en því að 400.000 krónur hafi verið greiddar í reiðufé þann 19. maí 2017. Það sé því um að ræða eðlilegar millifærslur á milli launareiknings sem beri lága vexti yfir á bundinn hávaxtareikning í eigu sama aðila. Sóknaraðili hafi nýverið skilið og haft talsvert reiðufé handbært í tengslum við það uppgjör, auk þess sem hann hafi átt laust fé í gjaldeyri.
Í kæru Fjármálaeftirlitsins komi fram að hin meintu brot eigi að hafa átt sér stað á tímabilinu frá nóvember 2015 til febrúar 2017. Reikningur sóknaraðila hafi verið stofnaður í maí 2013 með innlögn 3.000.000 króna. Ef staða reikningsins vegna tímabilsins sé skoðuð megi sjá að oft hafi verið hærri fjárhæðir á reikningnum en sú fjárhæð sem hafi verið haldlögð í maí sl. Við upphaf hins meinta brotatímabils hafi staðan einungis verið um 1.800.000 krónum lægri en sú fjárhæð sem hafi verið haldlögð. Hreyfingar reikningsins hafi verið reglulegar og áþekkar yfir allt tímabilið, bæði fyrir og á yfirstandandi brotatímabili. Það sé augljóslega rangt að fjármunir á reikningnum séu afrakstur hinna meintu brota. Embætti héraðssaksóknara hafi annað hvort ekki hirt um að rannsaka reikninginn eða láti sér staðreyndir um tilurð fjármunanna í léttu rúmi liggja.
III
Varnaraðili vísar til þess að rannsókn máls á hendur sóknaraðila sé í fullum gangi og fyrir hendi sé sterkur grunur um að framin hafi verið refsiverð brot sem hafi leitt til mikils ólögmæts hagnaðar. Fyrir hendi sé grunur um bæði innherjasvik og peningaþvætti sem hvort um sig geti varðað allt að sex ára fangelsi.
Það sé ekki skilyrði fyrir haldlagningu eða kyrrsetningu að fjármunir þeir sem um ræði séu beinn afrakstur meintra brota. Augljóst sé að þeir fjármunir sem þannig sé aflað renni enda oftast saman við aðra fjármuni hinna brotlegu. Í 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála komi fram að leggja skuli hald á þá muni sem kunni að vera gerðir upptækir með dómi, en þannig hátti til í þessu máli. Fyrir liggi fordæmi Hæstaréttar um haldlagningu innstæðu á bankareikningi með sama hætti.
Rannsókn málsins sé ekki lokið en miði vel. Engin rök standi því til þess að haldi verði aflétt vegna tafa við rannsókn.
III
Heimild rannsakenda til að leggja hald á muni er að finna í 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem segir að leggja skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla megi að þeir, ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma, hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að vera gerðir upptækir. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna er lögreglu heimilt að leggja hald á muni án dómsúrskurðar nema ákvæði 2. mgr. greinarinnar eigi við. Í 72. gr. laganna segir að aflétta skuli haldi þegar þess sé ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli er endanlega lokið nema ákvæði a- til c-liðar 1. mgr. greinarinnar eigi við.
Samkvæmt 3. mgr. 69. gr., sbr. 2. mgr. 102. gr., laga nr. 88/2008 getur eigandi eða vörsluhafi munar, sem lögregla hefur lagt hald á, borið lögmæti haldlagningar undir dómara.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um afléttingu haldlagningar á innstæðu á bankareikningi hans á því að fjármunirnir séu ekki afrakstur þeirra brota sem séu til rannsóknar, heldur sé fyrst og fremst um að ræða laun hans, og heimild til haldlagningar liggi því ekki fyrir. Sóknaraðili hefur lagt fyrir dóminn gögn sem staðfesta að innstæða reikningsins er komin til vegna inneignar fyrir ætlað brotatímabil og vegna millifærslna af launareikningi hans.
Til rannsóknar eru innherjaviðskipti og peningaþvætti, sbr. 123. gr., sbr. 146. gr., laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn framangreindum ákvæðum varða allt að sex ára fangelsi. Er andlag brotanna talið nema 47.593.983 krónum.
Eins og að framan greinir verður lagt hald á muni ef ætla má að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að vera gerðir upptækir. Samkvæmt gögnum málsins var, auk framangreindrar innstæðu, einnig lagt hald á nokkurt reiðufé sem fannst á heimili sóknaraðila. Við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 eru uppfyllt verður að líta til þess eðlis peningaeigna að þær geta blandast öðrum fjármunum í eigu viðkomandi og þá er unnt að færa af bankareikningi á skömmum tíma. Auk beins ávinnings af broti er heimilt að gera upptækt jafnvirði slíks ávinnings, sbr. 69. gr. laga nr. 19/1940. Þegar litið er til þeirra fjárhæða sem um er að ræða í málinu þykir sýnt að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 til haldlagningar fjármunanna sem um ræðir á bankareikningi sóknaraðila.
Fyrir liggur að rannsókn málsins er ólokið. Þá eru ekki efni til þess að líta svo á að rannsókn málsins hafi tafist. Verður því ekki talið að varnaraðila sé skylt að aflétta haldi, sbr. 72. gr. laga nr. 88/2008.
Samkvæmt framansögðu er kröfum sóknaraðila, um að fella úr gildi ákvörðun varnaraðila, um að leggja hald á fjármuni á bankareikningi hans og endurgreiða honum fjárhæðina ásamt vöxtum, hafnað.
Ekki eru efni til að kveða á um málsvarnarlaun.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfum sóknaraðila, X, um að aflétt verði haldi varnaraðila, héraðssaksóknara, á fjármunum á bankareikningi hans nr. [...] og að varnaraðila verði gert að endurgreiða honum 3.918.263 krónur ásamt innstæðuvöxtum af reikningi nr. [...], frá 29. maí 2017 til greiðsludags, inn á reikning nr. [...], er hafnað.
Málskostnaður verður ekki úrskurðaður.