Hæstiréttur íslands

Mál nr. 210/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómstóll
  • Þjóðlenda
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. maí 2006.

Nr. 210/2006.

Þorsteinn Hjaltested

(Sigurbjörn Þorbergsson hdl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Björn Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Dómstólar. Þjóðlenda. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Í málinu deildu aðilar um mörk landsvæðis, sem tekið hafði verið eignarnámi úr landi jarðarinnar V. Talið var að Þ ætti lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr þrætu þessari og töldust ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 58/1998 ekki standa því í vegi, þótt íslenska ríkið gerði kröfu til þess í máli fyrir óbyggðanefnd að hluti hins umdeilda svæðis yrði talið þjóðlenda. Þá þótti ákvæði 2. mgr. 18. gr. ekki eiga við í málinu. Var kröfu R um frávísun málsins því hafnað.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2006, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með 1. gr. laga nr. 57/1942 um heimild fyrir Reykjavíkurbæ til þess að taka eignarnámi hluta af landi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi var bæjarstjórn Reykjavíkur leyft að taka spildu úr jörðinni eignarnámi til að auka við fyrirhugað friðland bæjarins. Fyrir liggur að þessarar heimildar var neytt og afsal gefið út 7. júní 1951 fyrir spildunni, sem talin var alls 689 hektarar að stærð, en hún er á svæði, sem nú er kennt við Heiðmörk. Samkvæmt kröfugerð sóknaraðila í héraði snýst deila aðila um hvar syðri mörk þessarar spildu liggja. Sóknaraðili á lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um ágreininginn, en niðurstaða héraðsdóms mun aðeins binda aðila þessa máls. Samkvæmt a. lið 7. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, er það á verksviði óbyggðanefndar, að skera úr um hvaða land teljist til þjóðlendna og ákvarða mörk þeirra og eignarlanda. Á meðan landsvæði er til slíkrar umfjöllunar hjá óbyggðanefnd verður ágreiningur um þessi mörk ekki borinn undir dómstóla, sbr. 2. mgr. 14. gr. sömu laga. Hin umdeildu mörk liggja að hluta innan þess svæðis sem íslenska ríkið gerir kröfu um að úrskurðað verði þjóðlenda. Deila aðila er hins vegar ekki um mörk eignarlanda og þjóðlendu og mun niðurstaða efnisþáttar málsins ekki varða störf óbyggðanefndar, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Á ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 58/1998 því ekki við hér. Reynir þar heldur ekki á aðild annarra samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðili skal greiða sóknaraðila kærumálskostnað svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Reykjavíkurborg, greiði sóknaraðila, Þorsteini Hjaltested, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

                                                                                                                                                                                                                                                                       

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2006.

I

Mál þetta var höfðað 16. nóvember 2005 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda, 16. mars 2006.  Stefnandi er Þorsteinn Hjaltested, Vatnsenda, Kópavogi en stefndi er Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu við Tjörnina, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að viðurkennt verði með dómi að syðri mörk eignarnáms Reykjavíkur, Heiðmerkur, sbr. lög nr. 57/1942, og jarðarinnar Vatnsenda milli punktanna A og E samkvæmt uppdrætti á dómskjali nr. 3, séu eftir línu sem dregin er eftir legu upprunalegrar Heiðmerkurgirðingar á eftirfarandi hátt:  Frá punkti A (362742,46 m 396101,52 m) þar sem Heiðmerkurgirðingin sker mæðuveikisgirðingu í suðvestri.  Þaðan eftir Heiðmerkurgirðingunni að punkti B (363645,20 m 396962,20 m) gegnum eftirfarandi hnit (Hnit AB):

1. 362742,46 m 396101,52 m A      8. 363236,70 m 396495,22 m     15. 363538,42 m 396827,05 m

2. 362912,09 m 396228,77 m          9. 363271,01 m 396532,98 m     16. 363552,64 m 396842,73 m

3. 362987,23 m 396285,13 m         10. 363301,75 m 396566,76 m    17. 363568,75 m 396859,62 m

4. 363049,16 m 396331,53 m         11. 363344,30 m 396613,40 m    18. 363584,05 m 396876,17 m

5. 363107,99 m 396375,77 m         12. 363405,69 m 396680,64 m    19. 363606,33 m 396900,79 m

6. 363169,69 m 396421,78 m         13. 363464,03 m 396744,84 m    20. 363631,21 m 396927,68 m

7. 363190,73 m 396444,87 m         14. 363511,54 m 396797,04 m    21. 363645,20 m 396962,20 m B

Þaðan í skurðpunkt girðingarenda, punkt C (hnit 22: 363707,08 m 397110,36 m), þaðan í girðingarenda, punkt D (363809,98 m 397167,61 m) og svo eftir legu gömlu Heiðmerkurgirðingarinnar í punkt E (365511,01 m 397751,40 m), þar sem hún sker landamerkjalínu milli Stríps og Stóra-Kóngafells, gegnum eftirfarandi hnit (Hnit DE):

23. 363809,98 m 397167,61 m D    29. 364011,67 m 397283,08 m     35. 364222,97 m 397384,31 m

24. 363871,92 m 397203,00 m         30. 364036,68 m 397297,32 m     36. 364222,97 m 397397,21 m

25. 363901,58 m 397220,05 m         31. 364083,41 m 397323,95 m     37. 364245,78 m 397405,41 m

26. 363945,83 m 397245,48 m         32. 364116,28 m 397342,80 m     38. 364309,33 m 397429,41 m

27. 363968,64 m 397258,54 m         33. 364150,21 m 397362,25 m     39. 364339,64 m 397440,84 m

28. 363994,66 m 397273,44 m         34. 364284,27 m 397420,02 m     40. 364371,66 m 397442,08 m

 

41. 364396,55m 397442,87 m         51. 364773,21 m 397527,04 m      61. 365072,92 m 397568,42 m

42. 364455,86 m 397444,96 m        52. 364799,92 m 397540,54 m      62. 365114,80 m 397571,78 m

43. 364508,92 m 397446,63 m        53. 364813,73 m 397547,45 m      63. 365136,63 m 397573,35 m

44. 364548,24 m 397448,14 m        54. 364827,29 m 397548,58 m      64. 365157,75 m 397575,09 m

45. 364561,79 m 397448,60 m        55. 364866,08 m 397551,85 m      65. 365301,93 m 397647,09 m

46. 364590,34 m 397449,51 m        56. 364902,27 m 397554,79 m      66. 365361,50 m 397676,66 m

47. 364622,10 m 397450,73 m        57. 364939,63 m 397557,81 m      67. 365479,96 m 397735,82 m

48. 364657,57 m 397468,44 m        58. 364951,38 m 397558,76 m      68. 365511,01 m 397751,40 m E

49. 364684,76 m 397481,95 m        59. 364994,78 m 397562,12 m  

50. 364726,51 m 397503,28 m        60. 365023,08 m 397564,44 m

    

Þá er þess krafist að stefnda verði gert skylt með dómi, að viðlögðum dagsektum, 1.000.000 króna fyrir hvern dag frá birtingardegi stefnu, að fjarlægja girðingu sem stefndi lét reisa á árabilinu frá 1991 til 1997 og liggur frá punkti með hnit 363631,21 m, 396927,68 m, í hálfhring til austurs og norðurs og endar í punkti með hnit 363877,83 m, 397206,39 m og er afmörkuð með blárri línu á uppdrætti á dómskjali nr. 3.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.  Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.  Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að taka eigi kröfur stefnanda til greina, þar á meðal kröfu hans um brottnám girðingarinnar, krefst stefndi þess að kröfu stefnanda um dagsektir verði synjað eða þær lækkaðar verulega og að dagsektir taki ekki gildi fyrr en að hæfilegum tíma liðnum frá uppkvaðningu dóms í málinu.

Hinn 16. mars 2006 fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar.  Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfunni verði hrundið og að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

II

Með þremur kaupsamningum á árunum 1923, 1927 og 1928 keypti Reykjavíkurbær jörðina Elliðavatn sem þá var í Seltjarnarneshreppi og voru kaupin gerð í tengslum við stækkun Elliðaárvirkjunar og gerð stíflumannvirkja í Elliðavatni.  Elliðaárvirkjun var tekin í notkun árið 1921 en stækkuð árið 1933. Elliðavatnsjörðinni var ráðstafað til Rafmagnsveitu Reykjavíkur, sem síðar var felld undir Orkuveitu Reykjavíkur, sem er sameignarfyrirtæki fjögurra sveitarfélaga.

Hugmyndin um friðland í Heiðmörk kom fram á fjórða áratug síðustu aldar og haustið 1938 voru settar fram af stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur til bæjarstjórnar Reykjavíkur tillögur um friðun skógarleifa á landi Elliðavatns og nánar tilteknum hlutum jarðanna Hólms og Vatnsenda. 

Á árinu 1942 fékkst lagaheimild til þess að selja Reykjavíkurbæ þjóðjörðina Hólm og með lögum nr. 57/1942 fékk Reykjavíkurbær heimild til að taka eignarnámi hluta úr landi jarðarinnar Vatnsenda til að auka við fyrirhugað friðland í Heiðmörk en eignarnám var nauðsynlegt þar sem á jörðinni hvíldi sú kvöð samkvæmt erfðaskrá að ekki mætti selja jörðina eða hluta hennar frjálsri sölu. 

Bæjarstjórn Reykjavíkur nýtti sér lagaheimild þessa og tók eignarnámi 689 hektara svæði. Í kjölfarið voru matsmennirnir Sigurður Jónsson og Björn Konráðsson kvaddir til að meta hið eignarnumda land til fjár.  Kemur fram í matsgerð þeirra að í ágúst 1949 hafi að mestu verið búið að girða af hið eignarnumda land og að takmörk hins eignarnumda landsvæðis ákvarðist að miklu leyti af girðingunni.  Var niðurstaða mats­mannanna að verð hins eignarnumda lands ásamt kostnaði væri 448.900 krónur.

Reykjavíkurbær sætti sig ekki við framangreinda niðurstöðu og óskaði yfirmats og voru hæstaréttardómararnir Árni Tryggvason og Jónatan Hallvarðsson og Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri skipaðir til starfans.  Niðurstaða matsgerðarinnar, sem dagsett var 5. júlí 1950, var að verðmæti landsins væri 345.000 krónur.  Með afsali 7. júní 1951 var hinu eignarnumda landi afsalað Reykjavíkurkaupstað.

Hið samfellda friðland fékk á þessum árum nafnið Heiðmörk en við það bættust síðar landspildur frá Vífilsstöðum og eignarlandi Garðakirkju.  Hið eignarnumda land var fellt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur með lögum nr. 52/1943.

Áður en matsstörfum lauk hafði landið verið girt á þrjá vegu og var stærðarákvörðun samkvæmt útreikningi Einars G.E. Sæmundsen og uppdrætti sem sýndi hið eignarnumda land, sbr. dómskjal nr. 8.  Samkvæmt mælingu Einars tók eignarnámið til 689 ha sem afmörkuðust þannig:

1.

Innan núverandi girðingar   

629,5 ha

2.

Sneiðin sunnan girðingar að landamerkjum Vatnsenda

og Garðalands, takmörk að austan og vestan eru

dregin í beinu framhaldi af núverandi girðingu

  29,5 ha

3.

Spilda norðan og austan Arnarbælis, af Vatnsenda-    

landi, sem nú er sunnan mæðiveikigirðingar og verður

að öllum líkindum tekin með

ca  30,0 ha

 

Svo kemur fram hjá Einari að Strípshraun sem lendi innan Heiðmerkurgirðingar sé um 114 ha að flatarmáli.

Nákvæm mörk eignarnámsspildunnar hafa leitt til ágreinings milli aðila máls þessa.  Í málinu er deilt um mörk í suðri við svokallaða Vatnsendakrika og eru sjónarmið stefnanda að mörk hins eignarnumda lands skuli á þessu svæði miðast við svonefnda Heiðmerkurgirðingu eins og hún var reist utan um hið eignarnumda land á árunum 1947-1949.  Sjónarmið stefnda eru þau að sunnan Heiðmerkurgirðingarinnar eigi að koma land eins og segi í lýsingu Einars G. E. Sæmundsen.  Eðlilegast sé og í samræmi við lýsingu hans að draga beina línu úr vörðubroti sem standi á hraunbrún austan við Vatnsendakrika og vestur í þann punkt þar sem Heiðmerkurgirðingin skeri beina línu milli Arnarbælis og Húsfells enda hafi það verið ætluð merkjalína Vatnsenda gagnvart Garðakirkjulandi.  

Stefndi gaf Vatnsveitu Reykjavíkur og síðar Orkuveitu Reykjavíkur leyfi til vatnstöku á svæði því sem hann taldi að væri innan marka hins eignarnumda lands og var borað eftir vatni á hinu umdeilda landsvæði.  Þáverandi eigandi Vatnsenda leit svo á að borholur væru á svæði sem tilheyrðu honum og krafðist þess að lögbann yrði sett á framkvæmdirnar. Ekki var leyst úr ágreiningi aðila í tengslum við lögbannsmálið á sínum tíma þar sem Vatnsveita Reykjavíkur féll frá nýtingu borholanna og í kjölfarið fóru af stað samningaviðræður milli aðila sem stóðu allt fram til ársins 1999 er þáverandi eigandi Vatnsendajarðarinnar, Magnús Hjaltested, lést.

Stefndi gerir athugasemdir við það að í málatilbúnaði stefnanda sé í engu getið um að stefnandi hafi gert samning við Kópavogskaupstað um leigu á landi sunnan Heiðmerkurgirðingar og hafi selt bænum leyfi til vatnstöku.  Hafi  Kópavogsbær þegar borað eftir vatni á þessu svæði sem sé að öllum líkindum innan þeirra 689 ha sem Reykjavíkurbær hafi tekið eignarnámi. Telur stefndi að gera verði ráð fyrir að samningar stefnanda við Kópavogsbæ séu undirrót dómsmáls þessa þó að þess sé hvergi getið.

Fyrir óbyggðanefnd er nú rekið mál nr. 2/2004 á grundvelli laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Það mál hefur ekki verið til lykta leitt hjá nefndinni.  Samkvæmt gögnum málsins gerir íslenska ríkið í því máli meðal annars kröfu til þess að hluti þess lands sem um er deilt í máli þessu verði lýst þjóðlenda.  Þá verður af gögnum málsins ráðið að kröfugerð stefnda í því máli sé sú að land það sem stefndi telur sig hafa tekið eignarnámi, meðal annars sú landspilda sem í máli þessu er deilt um, sé eignarland hans.

III

Stefnandi kveður mál þetta tilkomið vegna ágreinings aðila um mörk eignarnumins lands sem Reykjavíkurbær hafi tekið eignarnámi úr landi jarðarinnar Vatnsenda samkvæmt heimild laga nr. 57/1942.  Hafi ágreiningurinn komið upp á árinu 1991 vegna framkvæmda Vatnsveitu Reykjavíkur utan girðingar sem markað hafi eignarnámið  á sínum tíma.  Enn sem komið sé takmarkist ágreiningur aðila við mörk í suðri við svokallaða Vatnsendakrika.  Til grundvallar mati á hinu eignarnumda landi hafi verið lagðar mælingar Einars G. E. Sæmundsen skógfræðings Reykjavíkur og uppdráttur hans af hinu eignarnumda landi.  Hafi hinu ætlaða eignarnámi verið skipt í þrennt og sé meginhluti þess innan girðingar en tvö svæði utan girðingar.  Uppdrátturinn sem fylgt hafi þessum mælingum hafi týnst og því hafi verið deilt um legu þeirra svæða er legið hafi utan girðingar.  Sé í þessu máli deilt um mörk hins eignarnumda lands við svonefnda Vatnsendakrika.  Byggist kröfugerð stefnanda á að viðurkennt sé að mörk hins eignarnumda lands á því svæði skuli miðast við svonefnda Heiðmerkurgirðingu eins og hún hafi verið reist utan um hið eignarnumda land á árunum 1947-1949.

Með framkvæmd eignarnámsins hafi landi jarðarinnar Vatnsenda í raun verið skipt í tvennt með Heiðmörkina á milli.  Tilgangur eignarnámsins hafi verið að vernda gamlar skógarleifar og tryggja Reykvíkingum skógræktar- og útivistarsvæði til frambúðar. 

Framangreindar mælingar Einars G.E. Sæmundsen hafi verið gerðar með tækni þess tíma.  Nýjar mælingar Sigurgeirs Skúlasonar landfræðings sýni að hið rétta sé að hið eignarnumda land innan girðingar séu 647,7 ha.  Þá sé sneið utan girðingar meðfram landi Garðabæjar um það bil 12,4 ha, sbr. kort á dómskjali 3.  Misræmi milli stærðar samkvæmt stærðarákvörðunarskjali Einars og útreikninga og mælinga Sigurgeirs sé eðlilegt.  Eldri stærðarákvörðunin taki mið af mælitækni þess tíma sem sé ónákvæm miðað við tölvutækni nútímans.  Gera verði þó fyrirvara um að sneið sunnan og vestan girðingar sé hugsanlega stærri en mælingar Sigurgeirs gefi til kynna.  Ástæða þess sé að landamerkjapunktur í Húsafelli sé umdeildur en vestari mörk svæðisins séu lína dregin frá Arnarbæli í Hnífhól og þaðan í Húsafell.  Þessi lína liggi á mörkum Vatnsenda og Garðakirkjulands.  Stefnandi veki þó athygli á því að samanlögð stærð reita 1 og 2 sé nánast sú sama eftir báðum mælingum þótt innbyrðis stærðir séu mismunandi.

Uppdráttur sá er Einar hafi gert og fylgt hafi mælingunni hafi týnst og hafi því verið örðugt að skera úr um deilu sem varð til á árinu 1991 um legu svæða merkt samkvæmt lýsingu Einars nr. 2 og 3.  Uppdrátturinn hafi nýlega komið í leitirnar og megi sjá viðkomandi svæði merkt á honum.  Annars vegar sé það svæði merkt 2 við mörk Vatnsendalands og lands Garðakirkju.  Muni þessi 29,5 ha sneið vera tilkomin vegna landræmu sem myndast hafi milli svonefndrar Mæðuveikisgirðingar er Heiðmörkin hafi miðast við í vestri annars vegar og hins vegar landamerkja Vatnsenda og Garðakirkju.  Þar sem Mæðuveikisgirðingin hafi ekki legið á landamerkjum hafi myndast þessi landræma sem tekin hafi verið eignarnámi um leið og land innan girðingar eins og gögn Einars beri skýrlega með sér.

Varðandi spildu norðan og austan Arnarbælis megi sjá almenna staðsetningu hennar merkta nr. 3 á uppdrætti á dómskjali 8.  Stefnandi hafni alfarið að sá hluti landsins hafi nokkurn tíma verið tekinn eignarnámi.  Skipti það ekki máli hér þar sem ljóst sé af gögnum málsins að þetta landsvæði liggi fjarri hinu umþrætta svæði í Vatnsenda­krikum.

Stefnandi telur að líta beri til þess að tilgangur eignarnámsins hafi verið skógrækt og að skapa útivistarsvæði fyrir Reykvíkinga, sbr. undirbúningsgögn vegna setningar laga nr. 57/1942 og lögskýringargögn.  Sé Heiðmörk ætlað að vera dvalar og hvíldar­staður Reykvíkinga samkvæmt 1. gr. reglna um landnám og skógrækt í Heiðmörk.  Samkvæmt 2. gr. sömu reglna skuli Skógrækt Reykjavíkur sjá um að skóggræðsla fari fram í Heiðmörk samkvæmt settum reglum.  Þegar litið sé til umþrætts svæðis í Vatnsendakrikum sé ljóst að það svæði henti ekki til skógræktar.  Hin upprunalega girðing hafi legið í hraunjaðrinum á mörkum þess svæðis sem talist gat gróðursælt og hentugt til skógræktar og hraunsins sem nú sé umþrætt.  Stefnandi telji að líta beri til nýrra stærðarútreikninga Sigurgeirs Sigurðssonar sem sýni að hið eignarnumda land sé síður en svo minna en stefndi hafi mátt gera ráð fyrir og í raun stærra innan girðingar en upprunalegar áætlanir hafi gert ráð fyrir.

Sé ljóst af uppdrætti Einars G. E. Sæmundsen sem nú liggi fyrir á dómskjali 8 að staðhæfingar Vatnsveitunnar og Reykjavíkurborgar um staðsetningu lands utan girðingar við eignarnámið eigi ekki við rök að styðjast.  Uppdrátturinn taki af allan vafa um að mörk eignarnámsins við Vatnsendakrika skuli miðast við legu Heiðmerkur­­girðingar eins og hún hafi verið fram til ársins 1991.  Upprunalegir samningar Reykjavíkurborgar við Skógræktarfélag Reykjavíkur miðist við Heiðmerkur­­gir­ðingu, sbr. 1. gr. í samningi milli þeirra 3. mars 1950.  Borholur Vatns­veitunnar frá 1991 séu utan Heiðmerkurgirðingar eins og hún hafi verið fyrir framkvæmdirnar og því í landi Vatnsenda.  Lega Heiðmerkurgirðingarinnar sé í raun óumdeild eins og sjá megi af kortum sem gerð hafi verið á vegum stefnda og fyrirtækja hans á dómskjölum nr. 20-24 og nr. 38.

Dagana 27. og 29. maí 2005 hafi Gísli Óskarsson mælingamaður fyrir milligöngu Kópavogsbæjar að ósk lögmanns stefnanda hnitsett legu girðingarinnar og ummerki eftir upprunalega legu hennar.  Séu þau merki og lega girðingarinnar í samræmi við uppdrátt Einars G. E. Sæmundsen svo og kort Vatnsveitu Reykjavíkur og Orkuveitu Reykjavíkur á dómskjölum nr. 20-24 og nr. 38.  Á þessum mælingum Gísla byggist kröfugerð stefnanda.  Hafi fulltrúum stefnda verið boðið að vera viðstaddir göngu um legu girðingar og hnitsetningu en því hafi ekki verið sinnt.  Einnig sé byggt á mælingum Sigurgeirs Skúlasonar landfræðings sem gerðar hafi verið í tengslum við málarekstur fyrir óbyggðanefnd á árinu 2004.  Mælingar þeirra falli algerlega saman.

Frá þeim stað þar sem Heiðmerkurgirðingin hafi verið rofin af starfsmönnum stefnda hafi verið sjáanleg greinileg ummerki eftir legu girðingarinnar nokkurn spöl frá hvorum enda.  Miðist kröfugerð stefnanda við þessi ummerki.  Þó hafi starfsmenn stefnda afmáð verksummerki um girðinguna á kafla með jarðýtum.  Skurðpunktur C sé fundinn með því að framlengja stefnu sjáanlegra ummerkja frá hvorum enda í beinar línur þar til þær skerist.  Sé sú aðferð í samræmi við fyrirliggjandi eldri kort.

Stefnandi telur ljóst að á hinu umþrætta svæði við Vatnsendakrika þar sem girðing hafi verið rofin hafi einungis verið einn hornstaur á Heiðmerkurgirðingunni.  Starfsmenn á vegum stefnda hafi rifið upp girðinguna og afmáð verksummerki um hana á kafla.  Sé rétt að stefndi beri hallann af þessum verknaði sínum og eignarnámsmörk verði miðuð við skurðpunkt C milli fyrirliggjandi stefnu á girðingarbrotum enda sé það í samræmi við fyrirliggjandi gögn.

Varðandi mörk kröfugerðar í norðaustri hafi landeigendur Vatnsenda og Elliðalands sammælst um það í málflutningi fyrir óbyggðanefnd að miða landamerki jarðanna við beina línu milli Stríps og Stóra-Kóngafells þar sem óvíst sé um staðsetningu og tilvist vörðu sem nefnd sé í landamerkjabréfi frá 1883.

Kröfugerð íslenska ríkisins í máli óbyggðanefndar nr. 2/2004 skeri eignarnámsmörkin norðaustan við hin umþrættu mörk við Vatnsendakrika.  Það hafi ekki áhrif á sakarefni þessa máls þar sem stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um réttindi sín um mörk eignarnámsins óháð niðurstöðu óbyggðanefndar um þjóðlendumörk.  Í þessu máli sé krafist viðurkenningar á mörkum eignarnámsins frá árinu 1942 gagnvart Vatnsenda og skarast málatilbúnaður stefnanda því á engan hátt við málarekstur ríkisins fyrir óbyggðanefnd.

Stefnandi byggi kröfur sínar um staðfestingu marka eignarnáms á því að samkvæmt fyrirliggjandi heimildum um eignarnám Heiðmerkurlands hafi mörk þess miðast við legu Heiðmerkurgirðingar á því svæði sem dregið sé á kort á dómskjali nr. 3 milli punkta A til E.  Hafi stefnandi sannað með fullnægjandi hætti legu þessarar gömlu girðingar.  Þar sem vafi kunni að leika á því hvar hún hafi legið, sbr. punktur C, beri stefndi hallann af skorti á sönnun þar um þar sem hann hafi eyðilagt sjálfa girðinguna á þeim stað og afmáð ummerki hennar.  Sé eignarréttur stefnanda friðhelgur og njóti verndar 72. gr.stjórnarskrár nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995.  Verði að túlka skerðingu á eignarrétti og heimildir til þess þröngt og skýra allan vafa eignarnámsþola í hag.

Kröfugerð stefnanda um að stefnda verði gert að fjarlægja girðingu sem reist hafi verið af stefnda á árabilinu 1991-1997 út frá endastaurum við rof gömlu girðingarinnar byggist á því að stefndi hafi brotið gegn þágildandi ákvæði 12. gr. laga nr. 10/1965, sbr. nú 9. gr. laga nr. 135/2001, en þar sagði að ef girðing væri gerð á landamerkjum skyldi hún reist þannig að á hvorugan væri gengið sem land ættu að henni.  Hafi verið ólögmætt af hálfu stefnda að reisa nýja girðingu sem liggi með þeim hætti að gróflega sé gengið á eignarrétt stefnanda.  Hafi verið fullkomin sátt um legu upprunalegu girðingarinnar og mörk eignarnámsins allt þar til Vatnsveita Reykjavíkur hafi tekið að nýta hluta úr Heiðmörkinni til iðnaðarnota og tekið aðliggjandi svæði úr skógræktarnotkun og borað eftir köldu vatni á landi utan marka eignarnámsins.  Hafi stefnandi brýna lögvarða hagsmuni fyrir því að girðingin verði fjarlægð án tafar enda reist á hans landi án hans vitundar og í algeru heimildarleysi. Heimild til að setja fram kröfu um dagsektir byggist á 4. tl. 114. gr. laga nr. 91/1991 og sé hún sett fram í því skyni að knýja stefnda til að falla frá því ólögmæta ástandi sem hann hafi komið á.  Sé fjárhæð kröfunnar stillt í hóf enda um stórt sveitarfélag að ræða sem farið hafi fram með algera lögleysu gagnvart einstaklingi. 

Um lagarök að öðru leyti en vísað hefur verið til vísar stefnandi til meginreglna eignaréttarins svo og 1. gr. 2. mgr. 2. gr.  og 3. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl.  Um varnarþing vísist til 4. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 og til 129. gr. þeirra laga um málskostnaðarkröfu.

IV

Stefndi kveður að eins og fram komi í stefnu og sýnt sé á dómskjali nr. 3 sé þjóðlendumál rekið fyrir óbyggðanefnd á grundvelli laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlanda og afrétta.  Hafi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins í þjóðlendumálinu nr. 2/2004 gert kröfu til þess að hluti þess lands sem stefndi hafi tekið eignarnámi verði lýst þjóðlenda.  Geri stefnandi kröfu til þess að mörk eignarlands hans, Vatnsenda og Heiðmerkurlands stefnda verði samkvæmt Heiðmerkurgirðingu að sunnan.  Hluta þessa lands telji ríkið vera þjóðlendu.  Þá sé ágreiningur milli eiganda Vatnsenda og eiganda Garðakirkjulands um vesturmörk Vatnsenda þar sem Garðakirkjuland dragi beina línu milli Hnífhóls og Húsafells en Vatnsendi dragi mörkin mun vestar eða úr Hnífhól í Búrfellsdal.  Stefnandi viðurkenni ekki Húsafell sem hornpunkt í þjóðlendumálinu.  Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 58/1998 verði mál sem heyri undir óbyggðanefnd samkvæmt 7. gr. laganna, þ.e. meðal annars um mörk þjóðlendu og eignarlanda, ekki borið undir dómstóla fyrr en nefndin hafi lokið umfjöllun sinni um það.  Á meðan þjóðlendumálið sé til úrlausnar hjá óbyggðanefnd verði það ekki rekið fyrir héraðsdómi.  Því beri þegar af þeirri ástæðu og með vísan til 24. gr. laga nr. 91/1991 að vísa máli þessu frá héraðsdómi.

Eins og fram komi í stefnu hafi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins gert kröfu til þess að hluti þess lands sem stefndi hafi tekið eignarnámi verði lýst þjóðlenda.  Íslenska ríkið eigi því óhjákvæmilega að eiga aðild að þessu dómsmáli og þar sem því hafi ekki verið stefnt beri með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að vísa máli þessu frá héraðsdómi.  Þá sé gerð krafa um línu sem nái annars vegar að landi Garðakirkjulands og hins vegar að landi Elliðavatns en eigendum þessara jarða hafi ekki verið stefnt til aðildar að málinu.

Þá verði að telja að Kópavogskaupstaður eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa en ákvörðun um mörk hins eignarnumda lands og Vatnsenda sé um leið ákvörðun um staðarmörk sveitarfélaganna, stefnda og Kópavogs.  Kópavogskaupstaður eigi því óhjákvæmilega aðild að þessu dómsmáli og þar sem honum hafi ekki verið stefnt í máli þessu beri með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að vísa máli þessu frá héraðsdómi.

V

Það er meginregla í íslensku einkamálaréttarfari að dómstólar hafa vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til.  Frá þeirri meginreglu skal víkja ef sakarefnið er skilið undan lögsögu dómstóla samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. 

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína fyrst og fremst á því að þjóðlendumál sé rekið fyrir óbyggðanefnd meðal annars um það landsvæði sem hér er deilt um og meðan því máli sé ekki lokið verði það ekki borið undir dómstóla.  Í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 58/1998 segir að mál sem heyri undir óbyggðanefnd samkvæmt 7. gr. verði ekki borið undir dómstóla fyrr en eftir að nefndin hafi lokið umfjöllun sinni um það.  Þá segir í 7. gr. laganna að hlutverk óbyggðanefndar skuli vera: a. að kanna og skera úr um hvaða land teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, b. að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur sé sem afréttur og c. að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið með vissu hvaða álitaefni er til umfjöllunar í máli nr. 2/2004 fyrir óbyggðanefnd en óumdeilt er að íslenska ríkið hefur í kröfugerð sinni í því máli krafist þess að hluti þess lands sem deilt er um í þessu máli verði lýst þjóðlenda.  Í málinu liggja fyrir uppdrættir sem sína kröfulínur íslenska ríkisins um þjóðlendumörk á svæðinu.  Þá liggur fyrir uppdráttur sem sýnir kröfulínur stefnda í óbyggðamálinu yfir það landsvæði sem hann gerir kröfu til að sé eignarland hans, þ.e. það land sem hann telur sig hafa tekið eignarnámi á sínum tíma og innan þess lands er landsvæði það sem deilt er um í máli þessu.  Er því ljóst að svæði það sem deilt er um í þessu máli er til umfjöllunar hjá óbyggðanefnd og verður mál þetta því ekki borið undir dómstóla fyrr en nefndin hefur lokið umfjöllun um málið, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 58/1998.  Verður því þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá dómi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. 

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir eftir atvikum rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurbjörn Þorbergsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Hjörleifur Kvaran hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.