Hæstiréttur íslands
Mál nr. 218/2009
Lykilorð
- Fjársvik
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2010. |
|
Nr. 218/2009. |
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson settur saksóknari) gegn Karli Georg Sigurbjörnssyni (Ragnar H. Hall hrl.) |
Fjársvik.
K var ákærður fyrir fjársvik með því að hafa í tengslum við milligöngu sína sem lögmaður um sölu á tíu stofnfjárbréfum í Sparisjóði Hafnarfjarðar styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd S, sem annaðist samskipti við K fyrir sína hönd og fjögurra annarra eigenda bréfanna, um að það hámarksverð sem kaupendur bréfanna væru tilbúnir að greiða seljendum væri 25.000.000 krónur, en hið rétta hefði verið að K hefði á sama tíma samið við kaupendur bréfanna um að greiða 45.000.000 krónur fyrir hvert þeirra. Var K gefið að sök að hafa leynt verðmuninum og með þessu fengið eigendur bréfanna til að selja stofnfjárbréfin á lægra verðinu og því haft af þeim samtals 200.000.000 krónur. Var háttsemin í ákæru talin varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Talið var sannað að K hefði ekki ákveðið verðið sem eigendum bréfanna bauðst fyrir þau heldur hefði það verið ákveðið af öðrum og hann hefði ekki haft leyfi umbjóðanda síns til bjóða annað verð fyrir þau. Hlutverk K í þessum viðskiptum hefði því eingöngu verið, sem lögmaður, að vera umboðsmaður kaupanda í viðskiptum þar sem aðrir en hann höfðu ákveðið verð og önnur kjör. Þótti ekki fært að fallast á það með ákæruvaldinu að K hefði styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd S með því að hafa milligöngu um kaup á stofnfjárbréfum hans og félaga hans á framangreindu verði. Var K því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2009 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess nú að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing, auk þess sem hann verði sviptur lögmannsréttindum.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, til vara að héraðsdómur verði staðfestur, en að því frágengnu að honum verði ekki gerð refsing eða hún ákveðin svo væg sem lög frekast leyfa. Þá krefst hann þess aðallega að kröfu um sviptingu lögmannsréttinda verði vísað frá Hæstarétti, en til vara krefst hann sýknu af henni.
Ekki eru efni til að verða við aðalkröfu ákærða um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, Karls Georgs Sigurbjörnssonar, 502.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2009.
I
Málið, sem dómtekið var 19. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 23. júlí 2008 á hendur „Karli Georg Sigurbjörnssyni, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir fjársvik, með því að hafa í janúar og í byrjun febrúar 2006, í tengslum við milligöngu sína sem lögmaður um sölu á tíu stofnfjárbréfum í Sparisjóði Hafnarfjarðar, sem seljendur óskuðu samþykkis sparisjóðsstjórnar til að framselja fimmtudaginn 9. febrúar 2006, og samþykkt var daginn eftir, styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd Sigurðar Þórðarsonar kt. [...], sem annaðist samskipti við ákærða fyrir sína hönd og fjögurra annarra eigenda bréfanna, um að það hámarksverð sem kaupendur bréfanna væru tilbúnir að greiða seljendum fyrir hvert stofnfjárbréf væri kr. 25.000.000, en hið rétta var að ákærði hafði á sama tíma samið við kaupendur bréfanna um að greiða kr. 45.000.000 fyrir hvert þeirra. Með þessu fékk ákærði, sem leyndi verðmuninum, eftirgreinda fimm eigendur bréfanna til að selja stofnfjárbréfin á lægra verðinu og hafði af þeim samtals kr. 200.000.000, svo sem hér er lýst:
1. Við sölu Sigurbergs Sveinssonar, kt. [...], á tveimur stofnfjárbréfum, nr. 21 og 21A til Fons eignarhaldsfélags hf., kt. [...], sem ákærði greiddi Sigurbergi fyrir kr. 50.000.000, föstudaginn 10. febrúar 2006, þrátt fyrir að raunverulegt söluverð bréfanna til Fons eignarhaldsfélags hf., sem greitt var inn á reikning Lögmanna Laugardal ehf. 13. sama mánaðar, væri kr. 90.000.000.
2. Við sölu Jónasar Hallgrímssonar, kt. [...], á tveimur stofnfjárbréfum, nr. 25 og 25A til Fons eignarhaldsfélags hf. sem ákærði greiddi Jónasi fyrir kr. 50.000.000, föstudaginn 10. febrúar 2006, þrátt fyrir að raunverulegt söluverð bréfanna til Fons eignarhaldsfélags hf., sem greitt var inn á reikning Lögmanna Laugardal ehf. 13. sama mánaðar, væri kr. 90.000.000.
3. Við sölu Sigurðar Þórðarsonar á tveimur stofnfjárbréfum, nr. 22 og 22A til Fjárfestingafélagsins Vatnaskil ehf., kt. [...], sem ákærði greiddi Sigurði fyrir kr. 50.000.000, föstudaginn 10. febrúar 2006, þrátt fyrir að raunverulegt söluverð bréfanna til Fjárfestingafélagsins Vatnaskila ehf., sem greitt var inn á reikning Lögmanna Laugardal ehf. sama dag, væri kr. 90.000.000.
4. Við sölu Harðar Zóphaníassonar, kt. [...], á tveimur stofnfjárbréfum, nr. 8 til JP fjárfestinga ehf., kt. [...], og nr. 8A til SGP fjárfestinga ehf., kt. [...], sem ákærði greiddi Herði fyrir kr. 50.000.000, föstudaginn 10. febrúar 2006, þrátt fyrir að raunverulegt söluverð bréfanna til JP fjárfestinga ehf. og SGP fjárfestinga ehf., sem greitt var inn á reikning Lögmanna Laugardal ehf. sama dag, væri kr. 90.000.000.
5. Við sölu Kristínar Einarsdóttur, kt. [...], á tveimur stofnfjárbréfum, nr. 42 og 42A til Fjárfestingafélagsins Kletts hf., kt. [...], sem ákærði greiddi Kristínu fyrir kr. 50.000.000, föstudaginn 10. febrúar 2006, þrátt fyrir að raunverulegt söluverð bréfanna til Fjárfestingafélagsins Kletts hf., sem greitt var inn á reikning Lögmanna Laugardal ehf. 19. apríl 2006, væri kr. 90.000.000.
Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Auk þess er þess krafist með vísan til 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 31/1961, að ákærði verði sviptur rétti til að vera lögmaður í skilningi laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Framangreindir fimm brotaþolar; Sigurbergur Sveinsson, Jónas Hallgrímsson, Sigurður Þórðarson, Hörður Zóphaníasson og Kristín Einarsdóttir krefjast þess að ákærði verði dæmdur til að greiða þeim hverju og einu kr. 40.000.000 í skaðabætur auk dráttarvaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 10. febrúar 2006 til greiðsludags auk kostnaðar samkvæmt reikningi lögmanns þeirra.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunum verði vísað frá dómi.
II
Upphaf máls þessa er að rekja til bréfs Fjármálaeftirlitsins til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra 16. desember 2005. Þar segir að Fjármálaeftirlitið hafi haft til athugunar mánuðina á undan hvort myndast hafi virkur eignarhlutur í Sparisjóði Hafnarfjarðar í andstöðu við 40. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002. Í framhaldinu hóf lögreglan rannsókn sem varð umfangsmikil, tugir manna voru yfirheyrðir og margra skjala aflað. Ekki er þörf á að rekja gang þeirrar rannsóknar, enda ekki til umfjöllunar í málinu nema að hluta til. Með bréfum 7. febrúar og 9. maí 2007 kærði lögmaður, fyrir hönd framangreindra brotaþola, ákærða til lögreglunnar fyrir ætlaðar blekkingar við sölu á stofnfjárbréfum þeirra í sparisjóðnum með milligöngu ákærða. Ákæran byggir á rannsókn lögreglunnar á grundvelli þessara bréfa.
Forsaga málsins er sú, samkvæmt því sem upplýstist við aðalmeðferð, að einstakir stofnfjáreigendur í sparisjóðnum munu hafa haft hug á því að leyft yrði að selja stofnfjárbréf sjóðsins á frjálsum markaði. Ekki fékk þessi hugmynd þó nægan hljómgrunn fyrr en á árinu 2005, en á aðalfundi sparisjóðsins 20. apríl myndaðist meirihluti fyrir því að breyta samþykktum sparisjóðsins á þann veg að heimilt yrði að selja stofnfjárbréf. Á þessum aðalfundi tók ný stjórn við í sparisjóðnum og munu menn úr henni hafa rætt það við forsvarsmann fyrirtækisins A. Holding að það kæmi að því að mynda virkan markað með stofnfjárbréfin. Þeir stofnfjáreigendur sem leiddu framangreindar breytingar réðu ákærða og Sigurð G. Guðjónsson hrl. til að aðstoða þá við aðalfundinn. Í framhaldinu var sömu mönnum falið af forsvarsmanni A. Holding að annast milligöngu um sölu stofnfjáreigenda á bréfum sínum. Þeim stofnfjáreigendum, sem vildu selja bréf, var sagt að þeir gætu snúið sér til lögmannsstofu ákærða er tæki við bréfunum, aflaði samþykkis stjórnar sparisjóðsins og sæi um framsal þeirra. A. Holding lagði fram fé til að lögmannsstofa ákærða gæti greitt stofnfjáreigendum fyrir sín bréf og voru greiddar 25 milljónir króna fyrir hvert bréf og þar eð hver og einn stofnfjáreigandi átti tvö bréf komu 50 milljónir í hlut hvers. Bréfin voru svo seld kaupendum sem A. Holding valdi eða samþykkti á 45 milljónir hvert bréf eða 90 milljónir fyrir hlut hvers stofnfjáreiganda.
III
Ákærði skýrði svo frá við aðalmeðferð að hann hefði sem lögmaður unnið fyrir fyrirtækið A. Holding, sem er dótturfélag Baugs hf. Upphafið var að Stefán Hilmarsson, fyrir hönd A. Holding, leitaði til sín og Sigurðar G. Guðjónssonar og bað þá að aðstoða við framboð Páls Pálssonar til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar í ársbyrjun 2005. Þeir tóku verkið að sér, en fyrir lá að til stóð að fella sitjandi stjórn. Í framhaldinu var ákveðið að ákærði og Sigurður tækju að sér að aðstoða þáverandi stofnfjáreigendur við að selja stofnfjárbréf sín til A. Holding. Þeir fengu lista með nöfnum stofnfjáreigenda og hringdu í þá flesta og báðu þá að hitta sig. Eigendur bréfanna komu svo með þau og hittu þá Sigurð og afhentu þeim bréfin. Þeirra hlutverk var að sjá um að bréfin væru réttilega framseld, stjórn sparisjóðsins samþykkti söluna og eigendurnir fengju sínar greiðslur, það er að vinna venjuleg lögmannsstörf. Kaupandi bréfanna var A. Holding þótt þau hefðu verið framseld til annarra. Félagið lagði fram fé til kaupanna og valdi menn til að kaupa af sér og ákvað verðið til þeirra. Ákærði kvaðst ekki hafa komið að ákvörðunum um verð eða val á kaupendum á hlutum af A. Holding. Hann kvaðst á síðari stigum hafa vitað að þeir sem keyptu af A. Holding greiddu hærra verð en stofnfjáreigendurnir en það var honum óviðkomandi. Hann kvað engan stofnfjáreiganda hafa beðið sig að selja fyrir sig bréf.
Varðandi þá 5 einstaklinga sem tilgreindir eru í ákærunni kvaðst ákærði ekki hafa hringt í þá heldur hefðu Stefán Hilmarsson og Ingólfur Flygenring haft samband við sig um miðjan nóvember 2005 og sagt sér að Sigurður Þórðarson myndi hafa samband við hann og hann ætti að ganga frá þeim viðskiptum. Sigurður hafði samband við hann og sagði hann honum að hann gæti gengið frá viðskiptunum við hann. Um miðjan desember hittust þeir og kvað ákærði Sigurð þá hafa þekkt málið, en hann vildi ekki ganga frá sölunni fyrr en eftir áramótin. Sigurður kom fram fyrir sína hönd og þeirra fjögurra sem nefndir eru í ákærunni. Í janúar hafði Sigurður samband til að kanna hvort það stæði ekki að hann og félagar hans gætu selt og í febrúar var svo gengið frá sölunni. Kvaðst ákærði hafa hitt Sigurð á skrifstofu hans þar sem hann afhenti honum bréfin og lét ákærða hafa upplýsingar um reikningsnúmer seljenda. Ákærði kvað rétt farið með tölur og dagsetningar í ákærunni varðandi sölu fimmmenninganna á stofnfjárbréfum þeirra.
Ákærði bar að eftir stjórnarskipti í sparisjóðnum hefði verið ákveðið að stofnfjáreigendur mættu selja bréf sín. Eins og áður sagði gengu hann og Sigurður G. Guðjónsson frá viðskiptum langflestra stofnfjáreigenda, en Sigurður Þórðarson og félagar voru eftir. Kvað ákærði í raun enga nauðsyn hafa borið til að kaupa af þeim þar eð kaupandinn hafði þegar náð meirihluta í sparisjóðnum. Þeir Sigurður G. Guðjónsson fengu hins vegar fyrirmæli um að kaupa af þeim á sömu kjörum og keypt hafði verið af öðrum stofnfjáreigendum og gekk það eftir. Verðið var fastákveðið 25 milljónir króna á hvert bréf og þar eð allir áttu tvö bréf fékk hver um sig 50 milljónir. Ákærði kvaðst ekki hafa komið að ákvörðun verðsins, það hafi Hafnfirðingarnir, eins og hann orðaði það, og Stefán Hilmarsson gert. Sér var bara sagt að þetta væri verðið sem hann ætti að kaupa bréfin á. Þá kvað hann Stefán Hilmarsson hafa lofað því að allir stofnfjáreigendur myndu sitja við sama borð hvað varðaði sölu á bréfunum og enginn yrði skilinn eftir. Um miðjan nóvember var staðan sú að Sigurður Þórðarson og félagar voru orðnir einir eftir og þrátt fyrir að enga nauðsyn bar til að kaupa bréf þeirra hefði það verið gert vegna samkomulagsins. Ákærði kvaðst hafa sagt Sigurði Þórðarsyni að Baugur hf. stæði á bak við kaupin og virtist hann vita það. Þá kvað ákærði að stofnfjáreigendum hefði ekki hafa staðið til boða að kaupa á öðru verði en 50 milljónir fyrir hver tvö bréf. Þeir hefðu aldrei átt þess kost að fá 90 milljónir fyrir bréfin sín. Mismunurinn var þóknun sem A. Holding tók fyrir að koma kaupunum á og fjármagna þau. Ákærði kannaðist við að greiðslur vegna kaupanna hefðu farið um reikning lögmannsstofu sinnar. Hann kvaðst hafa unnið að þessum málum sem lögmaður og sem slíkur komið fram sem milligöngumaður um kaupin. Hann hefði ekki haft leyfi til þess að bjóða annað verð en umræddar 50 milljónir fyrir hver tvö bréf og allir stofnfjáreigendur, þar með talinn Sigurður Þórðarson, sættu sig við það og vissu um það þegar þeir komu á hans fund.
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður bar að hann hefði tekið að sér ásamt ákærða að vinna fyrir þá menn sem unnu að því koma á nýrri stjórn í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þeir sem voru fyrir hópnum voru meðal annars Ingólfur Flygenring og Páll Pálsson. Eitt af markmiðum þessa hóps var að vinna að því að selja mætti stofnfjárbréf í sparisjóðnum. Það var hugmynd hópsins að 25 milljónir myndu fást fyrir hvert bréf og þar með fengi hver eigandi 50 milljónir. Aðalfundurinn var haldinn 20. apríl 2005 og vann listi þeirra sem þeir ákærðu unnu fyrir. Eftir fundinn tóku þeir svo að sér að taka við stofnfjárbréfum frá seljendum og settu það skilyrði að kaupverðið yrði áður lagt inn á fjárvörslureikning skrifstofu ákærða. Þeir voru þá að vinna fyrir A. Holding og gaf félagið þeim þau fyrirmæli að ekki mætti greiða fyrir stofnfjárbréfin fyrr en meirihluti þeirra væri í þeirra vörslum. Síðan gekk þetta þannig fyrir sig að stofnfjáreigendur komu á skrifstofu ákærða og afhentu bréfin og framseldu og fengu síðar greitt þegar tilskyldum meirihluta var náð. Þegar komið var fram á haust voru Sigurður Þórðarson og félagar nánast einir eftir með stofnfjárbréf og þegar A. Holding vissi af því vildi Stefán Hilmarsson að keypt yrði af þeim. Það gekk svo eftir í febrúar 2006 eftir allnokkrar viðræður ákærða og Sigurðar Þórðarsonar. Sigurður bar að Sigurði Þórðarsyni hefði alltaf verið ljóst að verðið fyrir hver tvö bréf væri 50 milljónir og allir sem komu á fund þeirra ákærða vissu að þetta væri verðið sem í boði væri og ekki annað. Þeir ákærði höfðu haft fyrirmæli um að ekki yrði greitt hærra verð fyrir bréfin. Það hafi hins vegar verið Stefán Hilmarsson, sem var í forsvari A. Holding sem ákvað að bréfin yrðu seld áfram á 90 milljónir og hefðu þeir ákærði ekkert haft með það að gera.
Sigurður Þórðarson bar að síðari hluta árs hefði hann og félagar hans haft hug á að selja stofnfjárbréf sín í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þessi áhugi kom til vegna stjórnarbreytingar í sparisjóðnum. Hann kvaðst ekki hafa verið í sambandi þá stofnfjáreigendur sem áður höfðu selt sín bréf, en Ingólfur Flygenring hefði bent honum á að ræða við ákærða um söluna. Ingólfur hefði sagt sér að ákærði hefði aðila sem vildi kaupa bréfin eins og Sigurður orðaði það. Eftir þetta samtal við Ingólf kvaðst Sigurður eingöngu hafa átt samskipti við ákærða um sölu bréfanna. Hann kvaðst ekki hafa reynt að selja bréfin annars staðar og ekki hafa haft samband við þá sem keyptu bréfin. Þá kvaðst hann hafa rætt um verð bréfanna við ákærða og hvort ekki væri hægt að fá hærra verð fyrir þau, en hjá honum kom fram að aðeins var um eitt verð að ræða og hefði hann skýrt félögum sínum frá því. Hann kvaðst ekki hafa vitað að þau yrðu seld öðrum á 90 milljónir. Ekkert kvaðst hann kannast við A. Holding og ekki hafði hann nein samskipti við Stefán Hilmarsson. Sigurður kvaðst hafa litið á ákærða sem fulltrúa kaupenda en vitað að hann var ekki að kaupa bréfin sjálfur.
Framangreindir fjórir stofnfjáreigendur sem seldu stofnfjárbréf sín með milligöngu Sigurðar Þórðarsonar komu fyrir dóm. Frásögn þeirra var í aðalatriðum sú að þeir hefðu fengið vitneskju um það frá Sigurði síðla árs 2005 að hægt væri að fá 50 milljónir fyrir tvö bréf og fólu þeir honum að annast söluna fyrir sig. Upplýsingar um verðið komu frá Sigurði og vissi einn þeirra að hann hafði þær frá ákærða. Þá bar annar að þetta verð hefði verið til umræðu í bænum á þessum tíma. Enginn þeirra kannaðist við A. Holding eða Stefán Hilmarsson en þeir vissu um aðkomu ákærða að viðskiptunum án þess að vita fyrir hvern eða hverja hann vann. Ekki vissu þeir þá að bréfin átti að selja aftur og þá við hærra verði, en þeim var ljóst þegar þeir framseldu bréfin hver var kaupandinn.
Ingólfur Flygenring var einn af þeim undirbjó mótframboð til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar vorið 2005. Aðalástæða þessa var óánægja með stjórn sjóðsins og rekstur hans. Einnig var óánægja með hömlur sem voru á viðskiptum með stofnfjárbréf sjóðsins en hann átti forkaupsrétt að þeim og þess vegna var enginn markaður með þau. Eftir stjórnarskipti var leyfilegt að selja bréfin, en ekki vissi Ingólfur hvernig verðið á bréfunum var reiknað út eða hver gerði það. Hann kvaðst hafa bent einhverjum stofnfjáreigendum á að ákærði tæki við stofnfjárbréfum gegn 50 milljóna greiðslu fyrir tvö bréf. Varðandi viðskipti Sigurðar Þórðarsonar kvaðst Ingólfur hafa hitt Sigurð og þá spurði hann Ingólf hvort hægt væri að selja bréfin. Þetta var í október 2005 og spurði Sigurður sig nokkrum sinnum um þetta. Fyrst var hann eingöngu að ræða um sín bréf en að lokum fyrir hina fjóra. Ingólfur kvaðst hafa sagt honum að það hefði verið markaður fyrir bréfin en hann vissi ekki hvernig það væri núna, enda Sigurður og félagar orðnir lítill minnihluti og bréf þeirra einskis virði. Ingólfur kvaðst hafa hringt í ákærða, en hann hefði séð um þessi mál og því næst sagði Ingólfur Sigurði að hringja í ákærða. Ingólfur kvað aldrei hafa verið rætt um annað verð en 50 milljónir fyrir tvö bréf og höfðu allir selt á því verði. Hann kvaðst ekki hafa heyrt um 90 milljónir fyrir bréfin fyrr en eftir að Sigurður var búinn að selja og hann sagði sér frá því og þar með að hann hefði verið svikinn. Sigurður hefði sagt sér að honum hefði ekki tekist að selja sín bréf, hvorki fyrir 50 né 90 milljónir og því sætt sig við verðið sem hann fékk hjá ákærða.
Páll Pálsson bar að óánægja hefði verið meðal stofnfjáreigenda með starfsemi sparisjóðsins og ræddu menn um hvernig úr mætti bæta. Starfsemi annarra sparisjóða var með öðrum hætti, meðal annars vegna þess að þar var leyfður markaður með stofnfjárbréf. Páll og fleiri vildu breyta samþykktum sparisjóðsins á þá lund að leyfð yrðu viðskipti með stofnfjárbréf og kvaðst Páll hafa leitt hópinn. Á aðalfundi vorið 2005 myndaðist nýr meirihluti og breytti hann samþykktum sjóðsins. Hann kvaðst hafa þekkt Stefán Hilmarsson og í viðræðum við hann og þar með A. Holding kvaðst hann hafa lagt áherslu á að keypt yrði af öllum stofnfjáreigendum, enginn yrði skilinn eftir með sín bréf. Verðgildið var reiknað út frá ýmsum forsendum og varð niðurstaðan 50 milljónir fyrir tvö bréf, sem almenn sátt virtist ríkja um. Þetta verð var komið á bréfin þegar ákærði tók að sér að annast milligöngu um viðskipti með þau. Páll kannaðist við að hafa sagt stofnfjáreigendum að þeir gætu fengið framangreinda fjárhæð fyrir bréfin. Hann kvað Ingólf Flygenring hafa sagt sér að Sigurður Þórðarson væri í vandræðum með sín bréf, en sjálfur hefði hann aldrei haft samband við Sigurð og vissi bara um hans mál í gegnum Ingólf. Milli þeirra Ingólfs kom til tals að Sigurður og félagar myndu sitja við sama borð og aðrir varðandi sölu bréfanna. Þessar viðræður voru haustið eða í árslok 2005. Hann kvaðst ekki hafa vitað að bréfin yrðu seld á 90 milljónir.
Stefán Hilmarsson fyrirsvarsmaður A. Holding bar að Páll Pálsson, Ingólfur Flygenring og aðrir menn úr hópi stofnfjáreigenda Sparisjóðs Hafnarfjarðar hefðu leitað til sín fyrir aðalfund sparisjóðsins 2005. Erindi þeirra var að leita aðstoðar til að gera viðskipti með stofnfjárbréf frjáls og leituðu þeir eftir því hvort félagið gæti orðið milliliður milli stofnfjáreigenda og nýrra kaupenda. Eftir aðalfundinn hófust viðræður við nýja stjórn sparisjóðsins sem beitti sér fyrir breytingum á samþykktum sjóðsins sem gerðu viðskipti með stofnfjárbréf heimil. Stefán kvaðst hafa leitað til ákærða og samið við hann og Sigurð G. Guðjónsson um lögfræðiþjónustu. Samningurinn gekk út á að A. Holding lagði fé inn á reikning lögmannstofu ákærða og átti að greiða af því fé til eigenda stofnfjárbréfa eftir því sem þeir komu með bréfin. Verðmæti bréfanna var ákveðið á grundvelli hugmyndar frá þeim mönnum sem upphaflega leituðu til Stefáns en ákærði átti engan þátt í að ákveða það. Varðandi Sigurð Þórðarson og félaga kvað Stefán þá hafa selt með þeim síðustu. Hann kvaðst hafa frétt um sumarið að Sigurður og félagar væru orðnir hræddir um að lokast inni með sín bréf og kvaðst hann því hafa komið þeim skilaboðum til stjórnar sparisjóðsins að keypt yrði af öllum, enginn yrði skilinn eftir með sín bréf. Ingólfur Flygenring hefði síðar spurt sig um það hvort þetta væri ekki rétt og hefði hann staðfest það. Stofnfjárbréfin voru síðan seld fjárfestum og kvaðst Stefán hafa reiknað verðið til þeirra út og miðað við upplausnarverð sparisjóðsins á þessum tíma og sættu kaupendurnir sig við það, enda höfðu þeir ráðagerðir, sem síðar rættust, um að byggja upp mun stærra fjármálafyrirtæki. Ákærði kom þarna hvergi nálægt. Hann fékk bara þau fyrirmæli frá A. Holding að verð bréfanna til nýju kaupendanna væri 90 milljónir fyrir hver tvö bréf. Verðmismunurinn var vegna þeirrar áhættu sem félagið tók í þessum viðskiptum. Stefán bar að eftir að meirihluti hafði náðst í sparisjóðnum hefði enginn kaupandi verið að bréfum minnihlutans.
Magnús Ægir Magnússon var ráðinn sparisjóðsstjóri skömmu eftir að ný stjórn tók við eftir aðalfund 2005 og tók þátt í að breyta reglum hans til að hægt væri að selja stofnfjárbréfin. Þetta var sama þróun og hafði orðið í öðrum stórum sparisjóðum. Magnús kvað Ingólf Flygenring hafa sagt sér að Sigurður Þórðarson hefði nálgast sig varðandi sölu á bréfum sínum, einnig hefði þetta komið til tals á stjórnarfundi. Einnig kvaðst Magnús hafa vitað að allir stofnfjáreigendur ættu að sitja við sama borð um sölu á bréfum, en einhverjir þeirra höfðu ekki selt sín bréf og þar með talinn Sigurður.
Jón Auðunn Jónsson var lögmaður sparisjóðsins á þessum tíma og hafði verið það frá 1990. Hann bar að fljótlega eftir aðalfund 2005 hefðu hafist viðskipti með stofnfjárbréf sjóðsins, en árin þar á undan hafði mjög verið þrýst á af hálfu sumra stofnfjáreigenda að leyft yrði að selja bréfin. Hann kvað það hafa verið alþekkt á þessum tíma að verðmæti tveggja bréfa væri 45 til 50 milljónir og hefði það verð byggst á útreiknuðu verðmæti sjóðsins. Jón Auðunn kvaðst fyrst hafa heyrt af störfum ákærða að málefnum sjóðsins rétt fyrir aðalfundinn. Hann kvaðst hafa átt hlut í Kletti hf. sem keypti stofnfjárbréf Kristínar Einarsdóttur, en kvaðst ekki muna til þess að hafa átt samskipti við ákærða varðandi þessi viðskipti. Klettur hf. greiddi 90 milljónir fyrir bréfin tvö. Jón Auðunn sagði að skýrt hefði verið frá því á stjórnarfundi í sparisjóðnum í desember 2005 að Sigurður Þórðarson og félagar vildu selja bréf sín á þessu verði, 50 milljónum, en þeir vildu fresta sölunni fram á árið 2006. Hann kvað ákærða og Sigurð G. Guðjónsson hafa tekið við bréfunum af seljendum og tryggt þeim greiðslur. Gangverð tveggja bréfa var 50 milljónir og kvað Jón Auðunn Sigurð Þórðarson hafa viljað fá staðfestingu á því að hann og félagar hans gætu selt bréf sín á þessu verði. Kvaðst Jón Auðunn líta svo á að samningur hefði komist á um þetta verð á bréfunum og að allir stofnfjáreigendur gætu selt bréf sín á því.
Allmargir seljendur stofnfjárbréfa í sparisjóðnum gáfu skýrslu við aðalmeðferð. Þeim bar saman um að annaðhvort hefði Páll Pálsson eða Ingólfur Flygenring komið þeim skilaboðum til þeirra að hægt væri að selja stofnbréfin fyrir 50 milljónir, en hver átti tvö bréf. Ýmist var seljendunum vísað á lögmannsstofu ákærða eða hringt var í þá frá stofunni og þeim boðið að koma til að ganga frá málunum. Á stofunni afhentu seljendurnir bréfin og greiðslan barst síðan frá henni. Öllum bar saman um að þau hefðu ekki samið um verð bréfanna á stofunni eða við ákærða, það hefði verið ákveðið áður og þeim verið sagt það, annaðhvort af framangreindum mönnum eða það hefði verið rætt um það manna á milli í Hafnarfirði. Enginn seljendanna kannaðist við A. Holding eða Stefán Hilmarsson. Þá vissu þeir heldur ekki að til hefði staðið að selja bréfin áfram við hærra verði en þeir fengu fyrir þau.
Forsvarsmenn fjögurra kaupenda stofnfjárbréfa komu fyrir dóm. Þeir keyptu allir stofnbréf á 45 milljónir hvert bréf. Þrír þeirra gerðu sín viðskipti með milligöngu ákærða og kom fram hjá þeim að verðið hefði verið fast og ekki til að semja um. Enginn þeirra vissi um A. Holding, en einn hafði fengið upplýsingar um bréfin frá Stefáni Hilmarssyni. Fjórði forsvarsmaðurinn keypti bréfin fyrir milligöngu Stefáns Hilmarssonar og vissi ekkert um A. Holding eða ákærða og þátt hans í málinu. Þá kom fram hjá þeim að þeir vissu ekki hvað stofnfjáreigendur fengu fyrir bréfin. Þá kom og fram að þetta hefði verið álitlegur fjárfestingarkostur og miklir framtíðarmöguleikar í því fólgnir að frjáls markaður myndaðist með stofnfjárbréfin.
IV
Í ákærunni er ákærða gefið að sök að hafa, í tengslum við milligöngu sína sem lögmaður, styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd Sigurðar Þórðarsonar, sem annaðist samskipti við hann fyrir sína hönd og fjögurra annarra eigenda stofnfjárbréfa, um að það hámarksverð sem kaupendur bréfanna væru tilbúnir að greiða seljendum fyrir hvert stofnfjárbréf væri 25 milljónir. Hið rétta hafi hins vegar verið að ákærði hafði á sama tíma samið við kaupendur bréfanna um að þeir greiddu 45 milljónir fyrir hvert þeirra. Með þessu hafi ákærði, sem leyndi verðmuninum, fengið framangreinda fimm eigendur bréfanna til að selja þau á lægra verðinu og haft af þeim samtals 200 milljónir.
Hér að framan var því lýst að ákærði og Sigurður G. Guðjónsson hrl. voru ráðnir til tiltekinna starfa sem lögmenn. Fyrst í tengslum við aðalfund Sparisjóðs Hafnarfjarðar í apríl 2005 og síðar til að annast milligöngu um sölu stofnfjárbréfanna fyrir A. Holding. Með vísun til þess sem rakið var í köflunum hér að framan telur dómurinn sannað að ákærði hafi ekki ákveðið verðið sem eigendum bréfanna bauðst fyrir þau heldur hafi það verið ákveðið af öðrum og hann hafi ekki haft leyfi umbjóðanda síns til að bjóða annað en framangreint verð fyrir þau. Þá er á sama hátt sannað að hann hafði hvorki leyfi til að selja þau við öðru verði en A. Holding hafði ákveðið né til annarra en þeirra sem það ákvað að selja þau til. Hlutverk ákærða í þessum viðskiptum var því eingöngu, sem lögmaður, að vera milligöngumaður um viðskipti þar sem aðrir en hann höfðu ákveðið verð og önnur kjör í viðskiptunum.
Samkvæmt þessu er ekki hægt að fallast á það með ákæruvaldinu að ákærði hafi styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd Sigurðar Þórðarsonar með því að hafa milligöngu um kaup á stofnfjárbréfum hans og félaga hans á framangreindu verði. Hvort þeir hefðu getað selt þau öðrum fyrir annað verð er úrlausn þessa máls óviðkomandi, enda ósannað að ákærði hafi, í starfi sínu sem lögmaður A. Holding, mátt eða getað haft milligöngu um kaup á öðru verði en félagið hafði ákveðið. Ákærði verður því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins og skal sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Ragnars H. Hall hrl., 1.059.744 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Kröfum um bætur og lögmannskostnað er vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Ákærði, Karl Georg Sigurbjörnsson, er sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.
Sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Ragnars H. Hall hrl., 1.059.744 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Kröfum um bætur og lögmannskostnað er vísað frá dómi.