Hæstiréttur íslands

Mál nr. 139/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Umboð


                                     

Mánudaginn 24. mars 2014.

Nr. 139/2014.

A

(Sigurður Kári Kristjánsson hdl.)

gegn

B

(Tómas Jónsson hrl.)

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Umboð.

Við opinber skipti dánarbús C kom upp ágreiningur um hvort einn lögerfingja C, A, hefði í heimildarleysi tekið út fjármuni af bankareikningum hennar, en A kvað úttektirnar hafa verið gerðar eftir umboði C. Var ágreiningnum vísað til úrlausnar héraðsdóms, þar sem annar lögerfingja C, B, tók við aðild málsins fyrir hönd dánarbúsins. Með úrskurði héraðsdóms, niðurstaða hvers var staðfest í Hæstarétti, var fallist á að A hefði í heimildarleysi framkvæmt úttektirnar, utan einnar sem sýnt var að C hefði sjálf staðið að enda lá í því tilviki fyrir kvittun sem hún undirritaði eigin hendi, og var A gert að endurgreiða dánarbúinu tilgreinda fjárhæð. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars tiltekið að skilja yrði kröfugerð B á þann hátt að yrði krafan tekin til greina skyldi féð dregið frá arfshluta A við skipti dánarbúsins. Þar var einnig áréttað að óumdeilt væri að C hefði veitt A umboð til úttekta á bankareikningum en það stæði A nær að sýna fram á hvert tilefni hefði verið til hverrar úttektar og ráðstöfunar á henni, að virtri þeirri meginreglu er gilti að umboðsmanni bæri að standa umbjóðanda sínum skil á erindum sem hann ræki fyrir hann í skjóli umboðs, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 7. október 2010 í máli nr. 4/2010. Var A ekki talin hafa fært sönnur á þetta.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2014, þar sem sóknaraðila var gert að greiða dánarbúi C 1.635.477 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. ágúst 2013 til greiðsludags. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila verði hafnað, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

C lést [...] 2012 og var dánarbú hennar tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms 21. september sama ár. Lögerfingjar C eru aðilar máls þessa, D, E og F. Í bréfi skiptastjóra dánarbúsins til héraðsdóms 18. apríl 2013 var meðal annars greint frá því að risið hafi ágreiningur vegna fjárúttekta sóknaraðila af bankareikningum hinnar látnu og hafi varnaraðili krafist þess að sóknaraðila yrði gert að endurgreiða dánarbúinu þær úttektir. Með bréfinu var þessu ágreiningsmáli ásamt tveimur öðrum vísað til úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 122. gr. laga nr. 21/1991.

Í málinu gerir varnaraðili þá kröfu á hendur sóknaraðila að henni verði gert að greiða dánarbúinu tiltekna fjárhæð. Skilja verður kröfugerð varnaraðila á þann hátt að verði krafan tekin til greina skuli féð dregið frá arfshluta sóknaraðila við skipti á búinu. Samkvæmt því var skiptastjóra heimilt að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 122. gr. laga nr. 21/1991.

Eins og áður greinir stendur ágreiningurinn um hvort sóknaraðili hafi í heimildarleysi tekið út fjármuni af tilgreindum bankareikningum C. Fyrir Hæstarétt hefur sóknaraðili lagt fram skriflega yfirlýsingu G 10. febrúar 2014 um að hann hafi lagt 160.000 krónur inn á bankareikning C að beiðni og fyrir hönd sóknaraðila og fylgir yfirlýsingunni viðskiptakvittun bankans frá 27. janúar 2012. Þá hefur sóknaraðili lagt fram yfirlit frá Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík um ferðir C á tímabilinu 16. júní 2011 til 31. janúar 2012. Varnaraðili hefur vefengt þýðingu þessara gagna, meðal annars á þeim grunni að hvorki séu tengsl G við málsaðila ljós né liggi tilgangur innborgunarinnar fyrir.

Óumdeilt er að C hafði veitt sóknaraðila umboð til úttekta á bankareikningunum. Sú meginregla gildir að umboðsmanni ber að standa umbjóðanda sínum skil á erindum sem hann rekur fyrir hann í skjóli umboðs, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 7. október 2010 í máli nr. 4/2010. Það stendur því sóknaraðila nær að sýna fram á hvert tilefni hafi verið til hverrar úttektar og ráðstöfun á henni. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðila ekki tekist að sýna fram á þetta og breyta nýframlögð gögn engu þar um. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

 Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2014.

Mál þetta, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi mótteknu 18. apríl 2013, var tekið til úrskurðar 21. janúar sl.

Sóknaraðili er B, [...], [...],[...].

Varnaraðili er A, [...],[...],[...].

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að varnaraðila verði gert að greiða dánarbúi C 2.035.477 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. mars 2013 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst aðallega sýknu af öllum kröfum sóknaraðila, en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Þá krefst hún málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.

I

C, sem fædd var [...] 1918, lést [...] 2012. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2012 var dánarbú hennar tekið til opinberra skipta. Herdís Þorgeirsdóttir héraðsdómslögmaður var skipuð skiptastjóri í dánarbúinu. Lögerfingjar hinnar látnu eru dætur hennar, sóknaraðili, B, varnaraðili, A, og D, ásamt sonardætrum hinnar látnu, E og F. Við andlát C sat hún í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, H, sem lést [...] 2010.

Helstu eignir C við andlát hennar voru fasteignin að [...] í [...], sem nú hefur verið seld, auk innbús.

Þann 16. júní 2011 veitti C heitin varnaraðila umboð til úttekta af þremur bankareikningum sínum og þann 20. janúar 2012 af þeim fjórða. Samkvæmt umboðunum hafði varnaraðili fullt og ótakmarkað umboð til úttekta, útgáfu tékka og notkunar debetkorta af viðkomandi reikningum. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa tekið fjármuni af bankareikningunum og varið þeim í eigin þágu. Með bréfi til skiptastjóra 1. nóvember 2012 krafði lögmaður sóknaraðila varnaraðila skýringa á úttektum af þremur bankareikningum hinnar látnu. Lögmaður varnaraðila veitti skýringar með bréfi 8. janúar 2013. Lögmaður sóknaraðila hafnaði skýringum varnaraðila með bréfi til skiptastjóra 28. febrúar 2013 og krafðist þess að varnaraðili greiddi dánarbúi C 2.705.477 krónur. Varnaraðili hafnaði kröfum sóknaraðila. Með bréfi lögmanns sóknaraðila til skiptastjóra 15. mars 2013 var úrskýringum varnaraðila aftur hafnað og gerð fjárkrafa á hendur varnaraðila að fjárhæð 2.405.477 krónur. Varnaraðili veitti frekari skýringar með bréfi, dags. 20. mars 2013.

Skiptastjóri vísaði framangreindum ágreiningi aðila til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. með bréfi, dags. 18. apríl 2013. Við fyrirtöku málsins 8. júlí 2013 var lögð fram bókun um framsal skiptastjóra til sóknaraðila um aðild og forræði málsins, vegna þessa máls og tveggja annarra, en þrjú önnur mál hafa verið til meðferðar fyrir dóminum vegna ágreinings milli erfingja C.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar skýrslur, auk vitnanna I og J, starfsmanna Landsbankans.

II

Sóknaraðili kveður ágreining meðal erfingja um stórfelldar úttektir varnaraðila af bankareikningum C fyrir andlát hennar. Hún telji varnaraðila skulda dánarbúinu fé vegna þessara úttekta. C sjálf hafi lifað fremur fábrotnu lífi og ekki þurft á miklu fé að halda. Varnaraðili hafi búið í [...] í tugi ára. Skyndileg aðkoma hennar að fjárhagsmálefnum C síðasta árið fyrir andlátið, þar sem hún hafi fengið prókúruumboð að reikningum hennar, sé sérstök í ljósi þess að allir reikningar C hafi tæmst eftir það. Sóknaraðili telji að varnaraðili hafi tekið út af bankareikningum hinnar látnu án þess að sýnt sé að þeim fjármunum hafi verið varið af hinni látnu. Hún telji að varnaraðili hafi nýtt sér þessa fjármuni í eigin þágu.

Þann 16. júní 2011 hafi varnaraðili fengið prókúruumboð á þrjá reikninga C heitinnar, nr. [...], nr. [...] og nr. [...]. Þann sama dag hafi „C“ tekið út af reikningi nr. [...] og lagt 400.0000 krónur inn á reikning varnaraðila nr. [...] án skýringa. Sóknaraðili telji slíkt innlegg til varnaraðila vera með öllu óeðlilegt, verandi með móður sinni í bankanum að fá prókúru á þann sama reikning og tekið hafi verið út af, en úttektarreikningurinn hafi verið debetkortareikningur. Skýringar lögmanns varnaraðila í bréfi 8. janúar 2013 hvað þetta varði séu ekki réttar því samkvæmt yfirliti yfir reikninginn hafi verið tvær 400.000 króna útborganir, en bara önnur þeirra bakfærð. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að um gjöf hafi verið að ræða.

Varnaraðili hafi, eins og fyrr greini, fengið prókúru á reikning nr. [...] með umboði til úttekta 16. júní 2011. Fyrir liggi kvittanir um úttektir varnaraðila af reikningnum sem lagðar hafi verið inn á hennar eigin reikning án skýringa. Þessar úttektir séu 16. ágúst 2011 að fjárhæð 738.647 krónur og 19. janúar 2012 að fjárhæð 396.830 krónur, sem lagðar hafi verið inn á reikning varnaraðila nr. [...]. Eftir á skýringum varnaraðila í bréfi, dags. 8. janúar 2013, um úttektirnar sé hafnað. Útskýring vegna úttektar að fjárhæð 738.647 krónur eigi sér enga stoð í gögnum. Þá sé útskýring vegna úttektar að fjárhæð 396.830 krónur röng þar sem varnaraðili hafi sannanlega haft prókúru á úttektarreikningnum frá 16. júní 2011.

Varnaraðili hafi fengið prókúru á reikning nr. [...] með umboði 20. janúar 2012. Þetta hafi verið sama dag og C heitin hafi lagst inn á spítala. Fyrir liggi kvittanir um úttektir varnaraðila af reikningum sem hafi verið lagðar inn á reikning hennar án skýringa, auk þess sem um peningaúttekt hafi verið að ræða. Þann 20. janúar 2012 hafi hún tekið út 300.000 krónur sem hún hafi lagt inn á reikning sinn nr. 0111-15-630304 og 200.000 krónur í peningum. Útskýringum vegna framangreindra greiðslna sé hafnað. Skýringar vegna úttektar að fjárhæð 300.000 krónur eigi enga stoð í gögnum. Þá sé ljóst að útskýringar vegna úttektar að fjárhæð 200.000 krónur séu rangar, sbr. úttektarkvittun þar sem komi fram að varnaraðili hafi sjálf tekið fjárhæðina út.

Skuld varnaraðila við dánarbúið samkvæmt framangreindum úttektum nemi 2.035.477 krónum. Sóknaraðili telji að allar úttektir varnaraðila af bankareikningum hinnar látnu, sem ekki séu haldbærar skýringar á, beri að líta á sem sjálftökulán varnaraðila. Hún skuldi því búi C þær fjárhæðir sem að framan séu raktar. Að auki sé fjöldi smárra úttekta varnaraðila af reikningum hinnar látnu, en ekki sé gerð endurgreiðslukrafa vegna þeirra.

Sóknaraðili byggi kröfu sína meðal annars á því að varnaraðili hafi án heimildar hagnýtt sér bankareikning móður sinnar og gengið í hann sem eigin væri. Varnaraðili hafi einungis haft heimild til að taka út peninga af reikningum í þágu hinnar látnu, en alls ekki í eigin þágu. Málsskjölin beri ekki með sér að hin látna hafi ætlað að lána varnaraðila eða gefa henni peninga. Varnaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir slíku.

Ef ferill úttekta af bankareikningum C er skoðaður í heild sjáist að ekki hafi neinar háar fjárhæðir verið teknar út af reikningunum fyrr en um það leyti sem varnaraðili hafi farið að skipta sér af fjárhagsmálefnum móður sinnar, í upphafi árs 2011, og fengið í kjölfarið prókúruumboð.

Þegar stórar fjárhæðir séu teknar af bankareikningi gamallar konu og lagðar inn á reikning annars manns verði að gefa skýringar á því að fjárhæðirnar séu annað en lán, t.d. gjöf. Stórgjafir sem þessar séu skattskyldar, en þær komi ekki fram á skattframtölum. Varnaraðili hafi sönnunarbyrðina fyrir því að peningaúttektirnar séu annað en lán, en henni hafi alls ekki tekist að sýna fram á að svo sé. Gera verði auknar kröfur til varnaraðila þar sem hún virðist hafa séð um fjármál og bankaviðskipti C þegar hún hafi verið á Íslandi og tekið út af reikningum hennar á þeim tíma.

Við hverja úttekt af bankareikningum C hefði átt að fylgja skýring. Verði að virða það henni til tómlætis að hafa ekki gefið þær fyrr en með eftir á skýringum í bréfi lögmanns hennar frá 8. janúar 2013. Auknar líkur séu á því að ekki hafi verið réttmætur grundvöllur fyrir úttektunum þar sem þær séu gerðar í svo stórum stíl og markvisst er dregið hafi að endalokum hjá C.

Sóknaraðili telji skuld varnaraðila við búið vera eins og hverja aðra eign sem skiptastjóri eigi að skrifa upp á, sbr. 54. gr. laga nr. 20/1991. Þetta sé bersýnilegt af gögnum málsins. Varnaraðili hafi sönnunarbyrðina fyrir öðru. Sóknaraðili vísi um þetta til almennra reglna kröfuréttar um endurgreiðslu fjár. Jafnframt sé vísað til almennra reglna kröfuréttar um tómlæti. Vegna vaxtakröfu sóknaraðila sé vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnaðarkröfu sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé vísað til laga nr. 50/1987 um virðisaukaskatt, en sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyld.

III

Varnaraðili kveðst hafa flust af landi brott árið 1969. Hún hafi því verið búsett erlendis í um 44 ár, lengst af í [...], en einnig í [...] og [...]. Samband hennar við foreldra sína hafi engu að síður alltaf verið mjög gott. Móðir hennar hafi leitað til hennar nokkrum misserum fyrir andlát sitt þar sem hún hafi um alllangt skeið haft áhyggjur af ráðstöfun fjármuna af bankareikningum þeirra hjóna. Systur hennar, sóknaraðili, D, og B hafi í langan tíma aðstoðað foreldra þeirra við úttektir af bankareikningum þeirra og annast fjárhagsmálefni þeirra hjóna að einhverju leyti.

Sóknaraðili krefjist þess að varnaraðila verði gert að endurgreiða dánarbúi C 400.000 krónur, sem ráðstafað hafi verið af reikningi hinnar látnu nr. [...] þann 16. júní 2011 til varnaraðila. Varnaraðili mótmæli þessari kröfu sóknaraðila og krefjist sýknu af þessum hluta kröfugerðar hennar. Ósannað sé að umræddum fjármunum hafi í raun verið ráðstafað inn á bankareikning varnaraðila þar sem fram komi á reikningsyfirliti bankareikningsins að greiðslan hafi verið bakfærð 16. júní 2011. Teljist það hins vegar sannað að umræddum fjármunum hafi verið ráðstafað inn á bankareikning varnaraðila, byggi varnaraðili dómkröfu sína á því að um gjöf C til hennar hafi verið að ræða og að C hafi annast millifærsluna sjálf og undirritað viðskiptakvittun þar um með eigin hendi. Varnaraðili byggi á því að C heitinni hafi verið þessi ráðstöfun heimil. Lífsgjafir sem þessar séu heimilar lögum samkvæmt. C hafi verið fullráða og hafi haft fulla heimild til að ráðstafa eignum sínum með gjafagerningi til dóttur sinnar í lifanda lífi með þessum hætti. C heitin hafi alla tíð verið viljasterk og fylgst mjög náið með sínum fjármálum. Ráðstöfun fjármunanna hafi verið samkvæmt hennar eigin vilja. Hafi sú ráðstöfun verið endanleg og hafi eignar- og ráðstöfunarréttur yfir fénu færst alfarið til varnaraðila, án nokkurra skilyrða. Fullyrðing sóknaraðila um að greiðslan sé óeðlileg sé röng og ósönnuð, ekki síst í ljósi þess að systur varnaraðila, þ. á m. sóknaraðili, hafi notið ríkulegra greiðslna frá móður þeirra á löngu tímabili, sem engar skýringar hafi verið gefnar á þótt eftir þeim hafi verið leitað.

Sóknaraðili krefjist endurgreiðslu fjármuna sem ráðstafað hafi verið af reikningi hinnar látnu nr. [...] þann 16. ágúst 2011 að fjárhæð 738.647 krónur og þann 19. janúar 2012 að fjárhæð 396.830 krónur. Varnaraðili byggi sýknukröfu sína vegna þessa hluta kröfu sóknaraðila á því að hin látna hafi veitt sér umboð til úttekta af ofangreindum bankareikningi 16. júní 2011. Gildi þess umboðs hafi ekki verið hnekkt af hálfu sóknaraðila. Henni hafi því verið heimilt að ráðstafa ofangreindum fjármunum af bankareikningi hinnar látnu. Hún hafi gert það með samþykki og að beiðni hennar. Samkvæmt umboðinu hafi hún haft fullt og ótakmarkað umboð til úttekta, útgáfu tékka og notkunar debetkorts af reikningnum. Umboð hennar hafi aldrei verið afturkallað eða skilyrt með nokkrum hætti af hálfu hinnar látnu allt til dánardags, auk þess sem hin látna hafi aldrei gert neinar athugasemdir við þær millifærslur sem sóknaraðili krefjist nú endurgreiðslu á. Þá bendi hún á að hin látna hafi í flestum eða öllum tilvikum farið með henni í bankann þegar ofangreindar og fleiri greiðslur hafi átt sér stað. C hafi verið bundin við hjólastól og því hafi millifærslurnar verið framkvæmdar af varnaraðila. Með vísan til ákvæða II. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 10. gr. laganna, hafi ráðstafanir varnaraðila bundið hina látnu og verið endanlegar, enda gerðar innan marka þess umboðs sem varnaraðila hafi verið veitt. Engin gögn málsins bendi til þess að varnaraðili hafi með ráðstöfunum sínum farið út fyrir umboð sitt, enda ekki á því byggt af hálfu sóknaraðila. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna varnaraðila af þessum hluta dómkrafna sóknaraðila.

Til viðbótar ofangreindum málsástæðum byggi varnaraðili á því að í báðum tilvikum hafi verið um gjöf frá hinni látnu til sín að ræða og raunar einnig til barna sinna. Í því sambandi bendi varnaraðili á að um árabil hafi systkini hennar, þ.e. sóknaraðili, D, og K heitinn [...], notið verulega góðs af gjafmildi foreldra sinna og þegið veruleg fjárframlög frá þeim hjónum. Þau hafi gefið þeim, börnum þeirra og barnabörnum, fjölmargar gjafir og staðið undir ýmiss konar útgjöldum vegna þeirra, svo sem vegna flugferða, húsnæðiskaupa og fleira. Varnaraðili og börn hennar hafi hins vegar verið undanskilin, en hún hafi verið búsett erlendis frá árinu 1969. Með þessum greiðslum hafi hin látna viljað jafna stöðu varnaraðila gagnvart systkinum sínum og endurgjalda henni jafnframt alla þá aðstoð sem hún hafi veitt foreldrum sínum á undangengnum árum, en systur varnaraðila hafi árum saman tekið sér greiðslur frá móður sinni og föður fyrir þá aðstoð sem þær hafi veitt foreldrum sínum. Hinni látnu hafi verið heimilt að ráðstafa eigum sínum með þessum hætti í lifanda lífi. C heitin [...] hafi verið fullráða. Hún hafi verið viljasterk og fylgst náið með sínum fjármálum. Gjafirnar hafi hún innt af hendi samkvæmt eigin vilja og viljinn til að færa varnaraðila og börnum hennar gjafir hafi verið ótvíræður. Ráðstöfun fjármunanna með þessum gjafagerningum hafi verið endanleg. Með henni hafi eignar- og ráðstöfunarréttur yfir fénu færst alfarið til varnaraðila og barna hennar án nokkurra skilyrða. Að þessu virtu beri að sýkna varnaraðila af dómkröfum sóknaraðila að þessu leyti.

Sóknaraðili krefjist þess að varnaraðila verði gert að endurgreiða dánarbúinu annars vegar 300.000 krónur og hins vegar 200.000 krónur sem ráðstafað hafi verið af reikningi nr. [...] þann 20. janúar 2012. Varnaraðili mótmæli þessum hluta kröfu sóknaraðila og krefjist sýknu. Sýknukrafan byggist á því að hin látna hafi veitt varnaraðila umboð til úttekta af ofangreindum bankareikningi, 20. janúar 2012. Gildi umboðsins hafi ekki verið hnekkt af hálfu sóknaraðila og það hafi verið í fullu gildi þegar umræddar greiðslur hafi átt sér stað. Varnaraðila hafi því verið heimilt að ráðstafa ofangreindum fjármunum af bankareikningi hinnar látnu og gert það með samþykki og að beiðni hennar. Varnaraðili hafi haft fullt og ótakmarkað umboð til úttekta, útgáfu tékka og notkunar debetkorts af ofangreindum reikningi. Umboðið hafi aldrei verið afturkallað eða skilyrt með nokkrum hætti af hálfu hinnar látnu allt til dánardags, auk þess sem engar athugasemdir hafi verið gerðar við millifærslurnar. Þá hafi hin látna farið með varnaraðila í bankann í flest eða öll skipti sem tekið hafi verið út eða millifært af bankareikningum hennar. Það hafi verið gert að hennar beiðni og með hennar samþykki. Með vísan til II. kafla laga nr. 7/1936, einkum 10. gr. laganna, hafi hin látna verið bundin af ráðstöfunum varnaraðila. Ráðstafanirnar hafi verið endanlegar, enda gerðar innan marka umboðs. Engin gögn liggi fyrir sem bendi til þess að varnaraðili hafi með ráðstöfunum sínum farið út fyrir umboð sitt, enda sé ekki á því byggt af hálfu sóknaraðila. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna varnaraðila af þessum hluta dómkrafna sóknaraðila.

Varnaraðili byggi einnig á því, hvað varði fyrri greiðsluna af ofangreindum reikningi, að fjárhæð 300.000 krónur, að um hafi verið að ræða greiðslu hinnar látnu til hennar vegna ýmiss kostnaðar sem hún hafi lagt út fyrir vegna hinnar látnu. Hluta þeirrar fjárhæðar hafi hún endurgreitt inn á reikning hinnar látnu nr. [...] þann 27. janúar 2012, þ.e. 160.000 krónur. Mismunurinn, 140.000 krónur, hafi verið greiðsla vegna ýmiss kostnaður í þágu hinnar látnu og gjöf hennar til varnaraðila. Slík ráðstöfun af reikningi hinnar látnu hafi verið heimil og lögum samkvæmt. Varnaraðili verði ekki krafinn um endurgreiðslu fjármunanna, a.m.k. ekki í þeim mæli sem sóknaraðili krefjist. Beri því að sýkna hana af þessum hluta dómkrafna sóknaraðila.

Varðandi greiðslu að fjárhæð 200.000 krónur byggi varnaraðili á því að umræddir fjármunir hafi ekki verið lagðir inn á bankareikning hennar, heldur hafi verið um úttekt reiðufjár af reikningnum að ræða. Þá úttekt hafi varnaraðili annast á grundvelli þess umboðs sem hún hafi haft til slíkra úttekta. Féð hafi verið tekið út fyrir hina látnu sem hafi haft fjármunina í sínum vörslum og til eigin ráðstöfunar. Ósannað sé að umræddum fjármunum hafi verið ráðstafað til varnaraðila eða henni til hagsbóta. Beri því að sýkna hana af þessum hluta dómkröfu sóknaraðila.

Með vísan til þess sem að ofan greini sé því mótmælt að varnaraðili hafi án heimildar hagnýtt sér bankareikninga hinnar látnu og gengið í þá sem sína eigin. Eins og að framan greini hafi allar þær millifærslur og fjárúttektir sem varði sakarefni þessa máls farið fram samkvæmt vilja og vitund hinnar látnu og með hennar samþykki, enda hafi hún í flestum eða öllum tilvikum verið viðstödd þegar greiðslurnar hafi átt sér stað. Engin gögn bendi til annars en að svo hafi verið. Þá sé engum gögnum til að dreifa sem bendi til þess að hin látna hafi nokkru sinni gert athugasemdir við greiðslurnar.

Þeirri fullyrðingu sóknaraðila að engar stórar úttektir hafi átt sér stað af reikningum hinnar látnu fyrr en um það leyti sem hún hafi fengið umboð til úttekta af þeim sé mótmælt sem röngum. Fyrir liggi að háar fjárhæðir hafi verið millifærðar af bankareikningum hinnar látnu, t.d. reikningi nr. [...], og inn á bankareikning sóknaraðila áður en hin látna hafi veitt varnaraðila umboðið. Þær skýri meðal annars hvers vegna hin látna hafi leitað til varnaraðila varðandi fjárhagsmálefni sín.

Hvað athugasemdir sóknaraðila um að skýringar hafi skort vegna þeirra greiðslna sem um sé deilt í máli þessu, byggi varnaraðili á því að skortur á skýringum einn og sér geti ekki leitt til þess að fallist verði á dómkröfur sóknaraðila. Í því sambandi bendi hún á að þær fjárhæðir sem sóknaraðili hafi fengið greiddar af reikningum hinnar látnu og H séu jafnframt óútskýrðar. Hins vegar hafi varnaraðili, öfugt við sóknaraðila, lagt sig fram um að gera grein fyrir þeim greiðslum sem um sé deilt í máli þessu.

Með vísan til framangreindra málsástæðna sé því mótmælt að varnaraðili standi í skuld við dánarbúið og að sú skuld sé eign þess sem skrifa beri upp, skv. 54. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Dráttarvaxtakröfu sóknaraðila sé jafnframt mótmælt. Krafist sé dráttarvaxta frá 15. mars 2013. Sé þar væntanlega verið að vísa til bréfs sem lögmaður sóknaraðila hafi sent skiptastjóra dánarbúsins. Varnaraðili telji að verði á annað borð fallist á dómkröfu sóknaraðila geti upphafsdagur dráttarvaxta aldrei miðast við fyrra tímamark en 15. apríl 2013, með vísan til ákvæða 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Verði fallist á dómkröfur sóknaraðila, í heild eða hluta, krefjist varnaraðili þess til vara að dómkröfur sóknaraðila verði lækkaðar verulega. Varakröfu sinni til stuðnings vísi varnaraðili til þeirra málsástæðna sem færðar séu fyrir aðalkröfu hennar um sýknu. Að því marki sem á þær verði fallist skuli þær leiða til lækkunar á dómkröfum sóknaraðila.

Þá krefjist hún þess að verði fallist á dómkröfu sóknaraðila verði fjárhæð hennar lækkuð sem nemi arfshlut hennar, þ.e. um ¼ af heildarfjárhæð kröfunnar, en varnaraðili sé lögerfingi hinnar látnu, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962, auk þeirra endurgreiðslna sem varnaraðili hafi þegar innt af hendi til hinnar látnu og getið sé um í umfjöllun um sýknukröfu varnaraðila.

Dómkröfum sínum til stuðnings vísi varnaraðili til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar, auk þess sem vísað sé til ákvæða II. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 10. gr. laganna. Þá sé vísað til ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., s.s. 54. gr., auk meginreglna erfðaréttarins og ákvæða erfðalaga nr. 8/1962. Málskostnaðarkrafa varnaraðila byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum. Auk þess krefjist hún virðisaukaskatts á dæmdan málskostnað, en hún sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili í skilningi laga nr. 50/1988.

IV

Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða dánarbúi móður þeirra, C, 2.035.477 krónur sem hún hafi tekið út af bankareikningum hennar á grundvelli skriflegra umboða og nýtt í eigin þágu. Varnaraðili fékk 16. júní 2011 umboð til úttekta af þremur bankareikningum móður sinnar og af þeim fjórða 20. janúar 2012. C lést [...] 2012.

Sóknaraðili krefst þess í fyrsta lagi að varnaraðila verði gert að greiða 400.000 krónur sem teknar voru af reikningi C heitinnar nr. [...] og lagðar inn á reikning í eigu varnaraðila. Millifærsla þessi var framkvæmd 16. júní 2011, sama dag og C undirritaði umboð til handa varnaraðila. Meðal gagna málsins er viðskiptakvittun vegna umræddrar millifærslu. Þar kemur fram að 415.000 krónur voru teknar út af ofangreindum reikningi C og 400.000 krónur lagðar inn á reikning varnaraðila. C er skráð viðskiptamaður á kvittuninni og hún hefur undirritað hana eigin hendi.

Varnaraðili byggir á því að umrædd greiðsla hafi verið bakfærð svo sem sjá megi á reikningsyfirliti. Samkvæmt yfirliti yfir reikning nr. [...] voru þann 16. júní 2011 teknar 400.000 krónur af reikningnum sem voru bakfærðar samdægurs. Eftir stendur hins vegar úttekt að fjárhæð 415.000 krónur í samræmi við fyrrgreinda viðskiptakvittun. Þykir því sannað að umrædd fjárhæð hafi verið millifærð inn á reikning varnaraðila. Fyrir liggur að millifærslan var framkvæmd af C heitinni, en varnaraðili bar fyrir dóminum að hún hafi verið með henni í bankanum og hafi verið um gjöf til sín að ræða. Ekkert liggur fyrir um að C hafi ekki verið til þess bær að framkvæma þessa ráðstöfun eða að varnaraðili haft haft nokkur óeðlileg áhrif á hana. Verður þessum hluta kröfu sóknaraðila því hafnað.

Í öðru lagi er krafist endurgreiðslu vegna millifærslu 16. ágúst 2011 af reikningi nr. [...], að fjárhæð 738.647 krónur. Í málinu liggur fyrir viðskiptakvittun vegna viðkomandi millifærslu. Á henni er C skráð viðskiptamaður, en varnaraðili ritar undir kvittunina. Samkvæmt henni voru 938.647 krónur teknar út af ofangreindum reikningi og 738.647 krónur lagðar inn á reikning í eigu varnaraðila. Varnaraðili greindi svo frá að þessi greiðsla hafi verið vegna ýmiss kostnaðar, auk þess sem um gjafir til hennar og barna hennar hafi verið að ræða. Varnaraðili byggir á því að hún hafi haft fullt umboð til framangreindrar ráðstöfunar. Þá hafi C verið með sér í bankanum þegar flestar eða allar úttektirnar hafi farið fram og þær hafi verið með vitund og vilja hennar.

Óumdeilt er í málinu að varnaraðili hafði gild umboð til úttekta af bankareikningum C heitinnar [...]. Umboð þessi veittu varnaraðila heimild til úttekta af reikningum C í hennar þágu. Í framburði tveggja starfsmanna Landsbankans sem staðfestu vottun sína á umrædd umboð kom fram að þær mundu eftir því að C hafi komið í bankann og undirritað umboðin. Þær mundu hins vegar ekki eftir því að hafa afgreitt einstakar millifærslur eða í hvaða skipti C hefði komið í bankann. Engin staðfesting liggur fyrir á því að C hafi fylgt varnaraðila í bankann umrætt sinn. Þá hafa engir reikningar verið lagðir fram til stuðnings því að varnaraðili hafi lagt út kostnað fyrir móður sína. Í framburði beggja málsaðila fyrir dóminum kom fram að C var í greiðsluþjónustu sem sá um regluleg útgjöld hennar. Hún var á þessum tíma á tíræðisaldri og dvaldi á stundum á öldrunarstofnunum. Varnaraðili hafði á þessum tíma verið búsett erlendis í áratugi. Varnaraðili hefur lagt fram kvittanir vegna kaupa hennar á flugmiðum milli [...] og Íslands. Í málinu liggur hins vegar ekkert fyrir um að C hafi samþykkt að greiða þann kostnað. Þá verður ekki dregin sú ályktun að um gjöf hafi verið að ræða á því að C og maður hennar hafi í gegnum árin styrkt börn sín, t.d. til náms, með fjárframlögum. Ekkert liggur fyrir í málinu um vilja C eða að henni hafi verið þessi ráðstöfun kunn. Verður ekki fallist á að varnaraðili hafi sýnt fram á að um endurgreiðslu vegna útlagðs kostnaðar eða gjöf hafi verið að ræða, en telja verður að henni hafi við þessar aðstæður borið að tryggja sér sönnun þess. Verður varnaraðila því gert að greiða dánarbúinu umrædda fjárhæð.

Í þriðja lagi er gerð krafa um endurgreiðslu vegna millifærslu af reikningi nr. [...], þann 19. janúar 2012, að fjárhæð 396.830 krónur, sem lagðar hafi verið inn á reikning varnaraðila. Samkvæmt viðskiptakvittun vegna viðkomandi millifærslu er C skráð viðskiptamaður, en varnaraðili ritar undir kvittunina. Samkvæmt henni voru 396.830 krónur teknar út af ofangreindum reikningi og hann eyðilagður. Sama fjárhæð var lögð inn á reikning í eigu varnaraðila. Varnaraðili hefur gefið sömu skýringar á þessari færslu og annarri færslunni að fjárhæð 738.647 krónur. Með vísan til umfjöllunar um þann lið kröfunnar verður varnaraðila gert að endurgreiða dánarbúinu umrædda fjárhæð.

Í fjórða lagi er um að ræða færslu að fjárhæð 300.000 krónur sem millifærðar voru 20. janúar 2012 af reikningi C nr. [...] og lagðar inn á reikning í eigu varnaraðila. Fyrir liggur viðskiptakvittun með undirritun varnaraðila, þar sem hún er jafnframt skráð viðskiptamaður, sem sýnir þessa færslu. Varnaraðili bar fyrir dóminum að hún hefði fengið þessa greiðslu þar sem hún hefði keypt ýmislegt fyrir móður sína, t.d. gjafir og blóm. Hún hafi svo greitt 160.000 krónur af þessari fjárhæð til baka inn á reikning móður sinnar nr. [...] þann 27. janúar 2012. Þá byggir hún jafnframt á því að hún hafi haft fullt umboð til framangreindrar ráðstöfunar. C hafi verið með sér í bankanum þegar flestar eða allar úttektirnar hafi farið fram og þær hafi verið með vitund hennar og vilja.

Fyrir liggur að þennan sama dag ritaði C heitin undir umboð til varnaraðila vegna þessa reiknings. Starfsmenn Landsbankans sem komu fyrir dóminn gátu ekki staðfest að neinar millifærslur hefðu farið fram samhliða undirritun umboðanna. Með vísan til þess sem fram kemur varðandi aðra millifærsluna að fjárhæð 738.647 krónur og þess að engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á kostnað sem greiddur hafi verið af varnaraðila verður henni gert að endurgreiða dánarbúinu umrædda fjárhæð. Samkvæmt yfirliti yfir bankareikning nr. [...] liggur fyrir að 27. janúar 2012 voru 160.000 krónur lagðar inn á reikninginn. Á yfirlitinu kemur fram að um almenna innborgun sé að ræða, en engar nánari upplýsingar er þar að finna, svo sem hver hafi lagt fjárhæðina inn eða af hvaða reikningi hún hafi komið. Varnaraðili hefur ekki lagt fram nein gögn sem staðfesta að það hafi verið hún sem hafi lagt þessa fjárhæð inn. Er því ekki hægt að fallast á að þessi fjárhæð komi til lækkunar kröfunni.

Í fimmta lagi er gerð krafa um endurgreiðslu vegna úttektar peninga af reikningi C nr. [...] að fjárhæð 200.000 krónur, þann 20. janúar 2012. Fyrir liggur viðskiptakvittun með undirritun varnaraðila, þar sem hún er jafnframt skráð viðskiptamaður, sem sýnir þessa færslu. Varnaraðili skýrði frá því að C hefði verið með sér í bankanum og fengið þessa peninga til þess að eiga sjálf í veskinu. Eins og fyrr segir liggur ekki fyrir staðfesting þess að C hafi verið í bankanum umrætt sinn, þrátt fyrir undirritun hennar á umboð sama dag. Þá liggur ekkert fyrir um það að hún hafi fengið þessa peninga til sín. Verður að telja að varnaraðila hafi við þessar aðstæður borið að tryggja sér sönnun þess. Þar sem sú sönnun liggur ekki fyrir verður fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að endurgreiða dánarbúi C umrædda fjárhæð.

Varnaraðili byggir meðal annars á því að sóknaraðili hafi fengið greiddar háar fjárhæðir af reikningum foreldra sinna sem engar skýringar hafi verið gefnar á. Ágreiningur vegna þeirra greiðslna er til umfjöllunar í öðru máli sem rekið er fyrir dóminum og hefur ekki áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Varnaraðili hefur krafist lækkunar á kröfu sóknaraðila sem nemi arfshlut hennar, eða um fjórðung. Það er ekki á verksviði dómsins í máli þessu að ákvarða úthlutun úr dánarbúinu og þykir því ekki unnt að fallast á þessa kröfu.

Samkvæmt öllu framangreindu verður varnaraðila gert að greiða dánarbúi C 1.635.477 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ekki þykir unnt að miða upphafstíma dráttarvaxta við fyrra tímamark en framlagningu greinargerðar sóknaraðila í máli þessu, 26. ágúst 2013, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Samkvæmt úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðili, A, greiði dánarbúi C 1.635.477 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. ágúst 2013 til greiðsludags.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, B, 500.000 krónur í málskostnað.