Hæstiréttur íslands
Mál nr. 153/2000
Lykilorð
- Skaðabætur
- Kaup
- Hlutafélag
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 7. desember 2000. |
|
Nr. 153/2000. |
Sigurður Alfreð Herlufsen og (Tómas Jónsson hrl.) Ó. Johnson & Kaaber hf. (Othar Örn Petersen hrl.) gegn Ómari Haffjörð Harðarsyni (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Skaðabætur. Kaup. Hlutafélög. Aðild.
Félagið KF ehf. var stofnað við samruna fyrirtækja ÓH og S. Í kjölfar slæmrar afkomu var tekin sú ákvörðun að hætta eiginlegum rekstri fyrirtækisins og voru gerðir fjórir samningar í því skyni að lágmarka persónulega ábyrgð ÓH og S. Samhliða samningi við ÓJK um dreifingu tiltekinna vara gegn greiðslu sölulauna til KF ehf. var meðal annars gerður samningur við viðskiptabanka fyrirtækisins um niðurgreiðslu skulda. Sala ÓJK samkvæmt samningnum reyndist ekki ná tilgreindri lágmarkssölu og reis ágreiningur milli S, sem var orðinn starfsmaður ÓJK, og Ó um viðbrögð við því. Ó, sem taldi að um vanefnd væri að ræða, krafðist skaðabóta. Kröfu hans var hafnað, enda taldist hann ekki geta reist kröfur á hendur ÓJK þar sem hann var ekki aðili að samningnum milli KF ehf. og ÓJK. Þrátt fyrir tengsl samningsins við aðra samninga, sem Ó var aðili að, töldust þau tengsl ekki getað skapað honum stöðu er jafngilti stöðu aðila að fyrstgreinda samningnum. Þá var ekki talið að ÓJK eða S hefðu bakað Ó tjón með saknæmum hætti. Var bótakröfu Ó hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandinn Sigurður Alfreð Herlufsen skaut málinu til Hæstaréttar 14. apríl 2000. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.
Áfrýjandinn Ó. Johnson & Kaaber hf. skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2000. Af hálfu félagsins er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnda, en til vara að þær verði lækkaðar. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur með þeirri breytingu að dráttarvextir skuli greiddir af 333.826 krónum frá 28. janúar 1998 til greiðsludags og af 782.985 krónum frá 28 janúar 1999 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að áfrýjendur verði óskipt dæmdir til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og nánar er lýst í héraðsdómi eru málavextir þeir að í árslok 1993 sameinuðust Kauphóll, einkafirma stefnda Ómars Haffjörð Harðarsonar, og Faxafell hf. sem var í eigu áfrýjandans Sigurðar Alfreðs Herlufsen undir nafninu Kauphóll/Faxafell ehf. Liður í þessum samruna var samningur milli stefnda Ómars og hins nýja félags 30. nóvember 1993 þar sem stefndi seldi félaginu ýmsar eignir atvinnurekstrar síns. Meðal hins selda voru umboð fyrir nokkra nafngreinda erlenda sælgætisframleiðendur. Var verðmæti umboðanna talið nema tæpum helmingi verðs hinna seldu eigna. Kaupverðið var meðal annars greitt með yfirtöku skulda og með afhendingu helmings hlutafjár í hinu nýja félagi. Við stofnun félagsins undirrituðu þeir Ómar og Sigurður 1. desember 1993 samning, sem nefndur var „Kaupsamningur um samruna fyrirtækja”, þar sem því var meðal annars lýst yfir að meiriháttar ákvarðanir nýja félagsins myndu ætíð teknar af þeim sameiginlega, sem þýði í raun að þeir hafi hvor um sig neitunarvald í málefnum félagsins.
Samþykktir fyrir Kauphól/Faxafell ehf. voru ákveðnar á hluthafafundi 9. nóvember 1995. Samkvæmt 17. gr. þeirra skyldi stjórn félagsins skipuð einum til þrem mönnum og skyldi afl atkvæða ráða afgreiðslu mála. Samkvæmt hlutafélagaskrá skipa stjórn félagsins Sigurður Alfreð Herlufsen, formaður, Ómar Haffjörð Harðarson og Sigríður Rósa Bjarnadóttir, sem er eiginkona Sigurðar.
Rekstur félagsins, sem einkum annaðist innflutning og heildsölu á sælgæti, gekk ekki sem skyldi og varð tap af rekstri þess. Söfnuðust upp allmiklar skuldir, sem þeir Sigurður og Ómar voru að einhverju leyti í persónulegum ábyrgðum fyrir. Í ársbyrjun 1997 var ákveðið að hætta eiginlegum rekstri félagsins. Voru 22. janúar 1997 gerðir fjórir samningar, er því tengdust.
Í fyrsta lagi gerðu Kauphóll/Faxafell ehf. og Ó. Johnson & Kaaber hf. með sér „Samning um dreifingu“. Með honum fékk síðarnefnda félagið, sem í samningnum er nefnt dreifingaraðili, rétt til að dreifa sælgæti frá sex nafngreindum sælgætisframleiðendum, sem fyrrnefnda félagið hafði átt í viðskiptum við. Samkvæmt 5. gr. samningsins skyldi Ó. Johnson & Kaaber hf. greiða 11% af nettó sölu sinni af vörum frá þessum framleiðendum inn á reikning Kauphóls/Faxafells ehf. í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Í 6. gr. samningsins er í 1. málslið ákvæði um mánaðarlega upplýsingaskyldu Ó. Johnson & Kaaber hf. varðandi sölu á umræddum vörum, en 2. málsliður greinarinnar er svohljóðandi: „Lágmarkssala er 25 milljónir á fyrsta ári samningsins en 30 milljónir eftir það, (sala án vsk.)“. Samningur þessi gilti í tvö ár, en skyldi endurnýjast ótímabundið að þeim tíma liðnum væri honum ekki sagt upp. Uppsagnarfrestur er 6 mánuðir. Í 1. mgr.11. gr. samningsins er tekið fram að samhliða samningnum séu gerðir þrír aðrir samningar, sem nánar eru tilgreindir, en 2. mgr 11.gr er svohljóðandi: „Dreifingaraðili hefur kynnt sér efni framangreindra samninga, og sættir sig við fyrir sitt leyti“.
Í öðru lagi gerðu Sparisjóður Hafnarfjarðar annars vegar og Kauphóll/Faxafell ehf. og eigendur þess félags, Sigurður Alfreð Herlufsen og Ómar Haffjörð Harðarson, hins vegar samkomulag um niðurgreiðslu skulda félagsins hjá sparisjóðnum, samtals að fjárhæð rúmlega 17 milljónir króna. Samkvæmt 3. gr. þessa samnings skyldi greiðslum samkvæmt fyrstgreinda samningnum ráðstafað til að greiða niður skuldirnar. Er 2. málsliður greinarinnar svohljóðandi: „Ef miðað er við lágmarkstölur samkvæmt samningnum þá greiðast kr. 2.750.000,- fyrsta árið og síðan kr. 3.300.000,-.“ Skyldi þessum greiðslum skipt með tilteknum hætti milli skulda, sem Sigurður var í ábyrgð fyrir og skulda, sem Ómar ábyrgðist. Í 4. gr. samningsins segir að skuldum Kauphóls/Faxafells ehf. við sparisjóðinn verði skuldbreytt þannig að þær verði í skilum miðað við greiðslugetu félagsins samkvæmt samningnum.
Í þriðja lagi gerðu Kauphóll/Faxafell ehf. og Ó. Johnson & Kaaber hf. samning um kaup síðarnefnda félagsins á ýmsu lausafé fyrrnefnda félagsins. Loks gerðu Sigurður Alfreð Herlufsen og Ómar Haffjörð Harðarsson með sér samkomulag um uppgjör á greiðslu skulda Kauphóls/Faxafells ehf.
Í síðastgreindum þrem samningum er tekið fram að þeir séu gerðir samhliða fyrstnefnda samningunum með hliðstæðum hætti og gert var í 1. mgr 11. gr þess samnings og áður var lýst. Gerðu þeir Ómar og Sigurður sér vonir um að með þessum samningum tækist að greiða niður skuldir Kauphóls/Faxafells ehf. við sparisjóðinn og losa eigendurna þannig úr þeim persónulegu ábyrgðum, sem þeir höfðu tekist á hendur vegna skuldanna. Réði Sigurður sig í framhaldi af þessu til starfa hjá Ó. Johnson & Kaaber hf.
Á árinu 1997 skilaði Ó. Johnson & Kaaber hf. greiðslum inn á reikning Kauphóls/Faxafells ehf. hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar í samræmi við sölu á vörum þeirra framleiðenda, sem fyrstnefndi samningurinn tók til, en salan var allmiklu minni en lámarkssala sú, sem tilgreind var í áður tilvitnaðri 6. gr. samningsins. Reis ágreiningur milli eigenda Kauphóls/Faxafells ehf., þeirra Sigurðar og Ómars, um hvernig við þessu skyldi bregðast. Ritaði stefndi 25. febrúar 1998 bréf fyrir hönd Kauphóls/Faxafells ehf. til áfrýjandans Ó. Johnson & Kaaber hf. og taldi veruleg vanskil vera af hálfu hans þar sem 11% umboðslaunum hefði ekki verið skilað af lágmarkssölu samkvæmt 6. gr. samningsins og var gerð krafa um greiðslu. Í kjölfar þess bréfs fylgdi síðan innheimtubréf 28. apríl 1998 til Ó. Johnson & Kaaber hf. vegna ætlaðra vanskila. Þessu andmælti áfrýjandinn Sigurður með bréfi sama dag til stefnda, þar sem því var lýst að samningarnir við Ó. Johnson & Kaaber hf. hafi verið hagfelldir fyrir Kauphól/Faxafell ehf. og liggi hagsmunir félagsins og eigenda þess í tilvist þessara samninga og að þeir verði framlengdir. Tók hann einnig fram að hann væri ekki sammála þeirri túlkun stefnda að Ó. Johnson & Kaaber hf. bæri að greiða lámarksumboðslaun hvað sem raunverulegri sölu liði. Taldi hann ámælisvert að framangreindar aðgerðir hafi ekki verið bornar undir sig og lýsti yfir umboðsleysi stefnda til framangreindra athafna í nafni Kauphóls/Faxafells ehf. Tilraunir á árinu 1998 til að ná samkomulagi milli málsaðila tókust ekki. Með bréfi 11. janúar 1999 til áfrýjandans Ó. Johnson og Kaaber hf. tilkynnti stefndi fyrir hönd Kauphóls/Faxafells ehf. um riftun fyrrgreinds samnings og krafðist uppgjörs samkvæmt sínum skilningi á honum. Þessu andmælti áfrýjandinn Sigurður með bréfi 14. janúar 1999 á svipuðum grundvelli og fyrr. Sendi hann áfrýjandanum Ó. Johnson & Kaaber hf. afrit af bréfinu og lýsti riftunaryfirlýsingu stefnda marklausa.
Stefndi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi 16. maí 1999. Reisir hann kröfur sínar á því að áfrýjendur hafi sameinast um að koma í veg fyrir réttar efndir þeirra samninga, sem að framan er lýst, og með því valdið honum fjártjóni enda hafi þessar vanefndir leitt til þess að minna greiddist en ella upp í þær skuldir Kauphóls/Faxafells ehf. við Sparisjóð Hafnarfjarðar, sem hann var í ábyrgð fyrir. Hafi hann af þessum sökum orðið að leysa til sín hluta af kröfum sparisjóðsins á hendur félaginu.
II.
Bótakrafa stefnda á hendur áfrýjandanum Ó. Johnson & Kaaber hf. er á því reist að félagið hafi bakað stefnda tjón á saknæman hátt með því að vanefna samning félagsins við Kauphól/Faxafell ehf. Samningur þessi tengist með ákveðnum hætti öðrum samningum, sem stefndi sé aðili að, og hann hafi beina hagsmuni af réttum efndum samningsins. Kröfur samkvæmt honum hafi reynst óinnheimtanlegar vegna afstöðu áfrýjandans Sigurðar og af þessum sökum hafi hann öðlast skaðabótakröfu á hendur áfrýjandanum Ó. Johnson & Kaaber hf. vegna vanefndanna.
Það er almenn regla kröfuréttar að aðilar samings hafa einir forræði á túlkun hans og framkvæmd og geta einir haft uppi kröfur í tilefni af ætlaðri vanefnd hans. Eiga aðrir, svo sem ábyrgðarmenn á skuldum samningsaðila, almennt ekki aðild að slíkum málum, enda þótt þeir kunni að hafa hagsmuni af því hvernig samningur er skýrður eða framkvæmdur. Þar sem stefndi er ekki aðili að framangreindum samningi milli Kauphóls/Faxafells ehf. og áfrýjandans Ó. Johnson & Kaaber hf. getur hann ekki reist kröfur á hendur félaginu á því einu að tiltekin framkvæmd hans og túlkun hefði orðið honum hagfelldari en önnur.
Samningur áfrýjandans Ó. Johnson & Kaaber hf. og Kauphóls/Faxafells ehf. tengist öðrum samningum, sem gerðir voru 22. janúar 1997 eins og að framan er lýst, þar á meðal samningi við Sparisjóð Hafnarfjarðar, sem stefndi er aðili að. Ekki verður fallist á að þau tengsl séu slík að það geti skapað honum stöðu, er jafngildi stöðu aðila að fyrstgreinda samingnum, eða veitt honum með öðrum hætti heimild til að hafa uppi bótakröfu á hendur viðsemjanda Kauphóls/Faxafells ehf. vegna framkvæmdar hans. Þar sem stefndi hefur heldur ekki sýnt fram á að áfrýjandinn Ó. Johnson & Kaaber hf. hafi bakað honum tjón með öðrum saknæmum hætti verður félagið sýknað af kröfum stefnda í málinu.
III.
Bótakrafa stefnda á hendur áfrýjandanum Sigurði Alfreð Herlufsen er á því reist að hann hafi bakað stefnda tjón á saknæman hátt með því að koma í veg fyrir, í krafti meirihlutaaðstöðu í stjórn félagsins, að Kauphóll//Faxafell ehf. beindi kröfum að áfrýjandanum Ó. Johnson & Kaaber hf. vegna ætlaðra vanefnda síðargreinda félagsins á margnefndum samningi.
Eins og að framan er rakið greindi stefnda og áfrýjandann Sigurð á um hvernig bregðast skyldi við framkvæmd áfrýjandans Ó. Johnson & Kaaber hf. á samningi félagsins við Kauphól/Faxafell ehf. Af gögnum málsins er ljóst að áfrýjandinn Sigurður kom í veg fyrir það í krafti meirihlutaðstöðu sinnar í stjórn félagsins og framangreinds samkomulags við stofnun þess að stefndi gæti fyrir hönd Kauphóls/Faxafells ehf. haft uppi bótakröfu vegna þeirra vanefnda, er hann taldi að orðið hefðu af hálfu áfrýjandans Ó. Johnson & Kaaber hf. Eins og að framan er rakið skýrði hann þessa afstöðu með túlkun sinni á framangreindri 6. gr. samningsins og því að samningarnir við Ó. Johnson & Kaaber hf. væru hagfelldir og að hagsmunir félagsins og eigenda þess lægju til lengri tíma litið fyrst og fremst í tilvist þessara saminga og framlengingu þeirra. Þessi afstaða áfrýjandans er ekki saknæm eða augljóslega ómálefnaleg, þannig að skapað geti bótaábyrgð fyrir hann. Verður hann því sýknaður af kröfu stefnda í málinu.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Sigurður Alfreð Herlufsen og Ó. Johnson & Kaaber hf., eru sýknir af kröfum stefnda, Ómars Haffjörð Harðarsonar.
Stefndi greiði hvorum áfrýjenda samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2000.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 16. janúar sl., og þingfest var þann 25. maí 1999, höfðaði Ómar Haffjörð Harðarson, kt. 250939-2219, Brúarflöt 3, Garðabæ, gegn Sigurði Alfreð Herlufsen, kt. 210636-2269, Suðurvangi 12, Hafnarfirði, og Ó. Johnson & Kaaber hf., kt. 490269-3479, Sætúni 8, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda l.116.811 krónur með dráttarvöxtum af fjárhæðum og eftir tímabilum sem hér segir: Af 333.826 krónum frá 28. janúar 1997 til greiðsludags og af 782.985 krónum frá 28. janúar 1998 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðaryfirliti og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi hefur ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti af lögmannskostnaði við mál þetta.
Stefndi, Sigurður Alfreð Herlufsen, gerir aðallega þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður skv. mati réttarins. Þess er krafist að málskostnaðurinn beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, 15 dögum frá dómsuppkvaðningu. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði látinn falla niður.
Dómkröfur stefnda, Ó. Johnson & Kaaber hf., eru aðallega þær að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu samkvæmt málskostnaðarreikningi. Til vara gerir stefndi þá kröfu að krafa stefnanda verði stórlega lækkuð og að málskostnaður verði í því tilviki látinn falla niður.
II
Málavextir
Hinn 1. desember 1993 varð til fyrirtækið Kauphóll/Faxafell hf., nú Kauphóll/Faxafell ehf., við samruna tveggja fyrirtækja, Kauphóls hf., fyrirtækis stefnanda, og Faxafells hf., fyrirtækis stefnda Sigurðar. Við samrunann var undirritað hluthafasamkomulag þar sem aðilar lýstu því m.a. yfir að þeir myndu deila með sér áhættu og hagnaði af rekstrinum. Þar kemur einnig fram að meiriháttar ákvarðanir skuli skuli ætíð gerðar sameiginlega og að báðir aðilar hafi neitunarvald um ákvarðanir sem varða fyrirtækið. Samþykktir fyrir Kauphól/Faxafell ehf. voru undirritaðar 9. nóvember 1995.
Fjárhagsstaða fyrirtækjanna fyrir samrunann var þannig að eignir Kauphóls hf. námu 3.521.079 krónur umfram skuldir en eignir Faxafells hf. umfram skuldir voru metnar á 4.750.823 krónur. Við samrunann keypti Kauphóll/Faxafell ehf. af stefnanda umboðin Gustaf Heede, Trolli, Penguin, Beacon ofl. á kr. 5.773.289. Nefnd umboð eru öll sælgætisumboð en starfsemi Kauphóls/Faxafells ehf. hefur verið á sviði innflutnings og heildsölu á sælgæti.
Stjórn félagsins er skipuð þremur mönnum og er stefndi Sigurður stjórnarformaður, en aðrir í stjórn eru eiginkona hans, Sigríður R. Bjarnadóttir, og stefnandi. Fyrirliggjandi vottorðum úr Hlutafélagaskrá varðandi Kauphól/Faxafen ehf. ber ekki saman um hvort stefnandi er einn framkvæmdastjóri félagsins eða hann og stefndi Sigurður báðir.
Kauphóll/Faxafell ehf. lenti í fjárhagsvandræðum og í árslok 1996 lögðu eigendur fyrirtækisins niður rekstur félagsins, seldu eignir og leigðu viðskiptasambönd og umboð sem tilheyrðu félaginu. Hafa bæði stefnandi og stefndi Sigurður verið í umtalsverðum persónulegum ábyrgðum vegna skulda félagsins. Þann 22. janúar 1997 voru gerðir nokkrir samningar í kjölfar þess að rekstri félagsins var hætt. Í fyrsta lagi gerðu Kauphóll/Faxafell ehf. og stefndi Ó. Johnson & Kaaber hf. samning um sölu á sælgæti frá tilteknum erlendum birgjum. Í öðru lagi gerðu sömu aðilar kaupsamning um lausafjármuni Kauphóls/Faxafells hf. Í þriðja lagi gerðu stefnandi og stefndi Sigurður, persónulega og fyrir hönd Kauphóls/Faxafells ehf. samkomulag við Sparisjóð Hafnarfjarðar um niðurgreiðslu skulda Kauphóls/Faxafells ehf. Í fjórða lagi gerðu stefnandi og stefndi Sigurður með sér samkomulag um uppgreiðslu skulda Kauphóls/Faxafells efh. og lúkningu ágreiningsmála um uppgjör og ábyrgð á skuldum fyrirtækisins.
Stefnandi og stefndi Sigurður eru sammála um að samningar þessir hafi verið til hagsbóta fyrir Kauphól/Faxafell ehf. sem var illa statt fjárhagslega á þessum tíma. Ennfremur fólu samningar þessir í sér þær skuldbindingar fyrir stefnanda að hann gat ekki lengur haft atvinnu af starfsemi þeirri sem Kauphóll/Faxafell ehf. hafði rekið. Hætti stefnandi eftir gerð samningsins að starfa fyrir fyrirtækið sem hætti rekstri og stefndi Sigurður réð sig til starfa hjá stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. þar sem hann starfar enn.
Á árinu 1998 kom upp ágreiningur með aðilum um dreifingarsamning þann sem Kauphóll/Faxafells ehf. gerði við stefnda Ó. Johnson og Kaaber hf. hinn 22. janúar 1997 um sölu á sælgæti frá tilteknum erlendum birgjum. Stefnandi taldi samninginn fela það í sér að dreifingaraðilinn, stefndi Ó. Johnson & Kaaber hf., hafi skuldbundið sig til að greiða Kauphóli/Faxafelli ehf. 11% af nettósölu vara frá ákveðnum birgjum, sem tilgreindir eru í 5. gr. samningsins. Jafnframt væri áskilið í 6. gr. tiltekið lágmark veltu sem greiða bæri þóknun af, þ.e. 25 milljónir króna fyrsta árið en 30 milljónir króna eftir það á gildistíma samningsins og væri þá átt við sölu án virðisaukaskatts. Að mati Ó. Johnson & Kaaber hf. bar hins vegar ekki að skýra 6. gr. samningsins þannig að í henni fælist að félagið ábyrgðist þessar fjárhæðir sem lágmarkstölur fyrir uppgjör þóknunar til viðsemjandans, heldur hafi þetta ákvæði verið sett í samninginn að kröfu stefnanda og hafi verið litið á þetta ákvæði sem leið til að auðvelda stefnanda að segja upp samningnum. Stefndi Sigurður hefur lýst því að ákvæði þetta hafi einungis verið sett sem markmið sem báðir samningsaðilar skyldu stefna að.
Í framhaldi af framangreindum ágreiningi fól stefnandi sem framkvæmdastjóri Kauphóls/Faxafells ehf. lögmanni innheimtu þeirrar kröfu sem hann taldi félagið eiga á hendur stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. vegna vanefnda á samningnum. Höfuðstóll þeirrar innheimtu var 1.201.120 krónur miðað við árslok 1997 og var kröfubréf sent 28. apríl 1998. Lögmaður stefnda Sigurðar sendi lögmanni þeim sem kröfuna hafði til innheimtu bréf dagsett sama dag og lýsti andstöðu við innheimtuaðgerðirnar og að stefnandi hefði ekkert umboð til að hefja slíkar aðgerðir án samþykkis stefnda Sigurðar.
Með yfirlýsingu lögmanns stefnanda 11. janúar 1999 rifti stefnandi, fyrir hönd Kauphóls/Faxafells ehf., samningnum við stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. vegna vanefnda. Þetta gerði stefnandi í krafti stöðu sinnar sem framkvæmdastjóri Kauphóls/Faxafells ehf. Lögmaður stefnda Sigurðar svaraði þessari yfirlýsingu með bréfi, dags. 14. janúar 1999, til lögmanns stefnanda, þar sem þeirri afstöðu er lýst að stefndi Sigurður og eiginkona hans séu andvíg riftuninni enda sé hún markleysa þar sem stefnanda hafi skort heimild frá stefnda Sigurði til að taka slíka ákvörðun. Byggðist sú afstaða á því að stefndi Sigurður og eiginkona hans mynduðu meirihluti stjórnar Kauphóls/Faxafells ehf. en samkvæmt samþykktum fyrirtækisins bindi meirihluti stjórnar félagið. Stefnandi hafi einungis verið annar framkvæmdastjóri félagsins og meðstjórnandi og það fælist engan veginn í starfi hans að taka einn ákvarðanir sem vörðuðu mikilvæga hagsmuni félagsins.
Stefnandi telur að vanefnd hins stefnda félags Ó. Johnson & Kaaber á samningnum hafi valdið sér umtalsverðu fjártjóni, þar sem hann hafi orðið að greiða verulegar fjárhæðir vegna ábyrgðar á skuldbindingum Kauphóls/Faxafells ehf., sem tekjur þess félags hefðu nægt til að greiða ef hið stefnda félag hefði efnt samninginn réttilega. Stefndi Sigurður bendir á að hann hafi þurft að leysa til sín 8.496.464 krónur af skuldum Kauphóls/Faxafells ehf. sem hann var í persónulegum ábyrgðum fyrir hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Hann hefur þegar hafið innheimtuaðgerðir vegna þeirrar kröfu á hendur Kauphóli/Faxafelli ehf. og þann 23. júní sl. var gert fjárnám í umræddum dreifingarsamningi fyrir kröfu stefnda Sigurðar á hendur Kauphóli/Faxafelli ehf. að fjárhæð kr. 7.771.109.
Stefndu halda því fram að stefnandi hafi gert samning við fyrirtækið Þórð Sveinsson ehf. um Heede umboðið þvert ofan í þá samninga sem fyrr eru nefndir. Séu slíkir samningar hans augljóslega ólögmætir og lýsi þeim óheilindum sem hann hafi sýnt stefndu og sem valdið hafi þeim tjóni þar sem hann hafi með þessu stofnað til samkeppni við stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. um sölu og dreifingu á vörum frá Heede. Þessu hefur stefnandi mótmælt.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu stefnandi Ómar H. Harðarson, stefndi Sigurður A. Herlufsen og Friðþjófur Ó. Johnson forstjóri stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf., Einnig gáfu skýrslu vitnin Frosti Sigurjónsson, Ólafur Johnson markaðsstjóri Ó. Johnson & Kaaber hf. og Alfreð Jóhannsson sölustjóri stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf..
Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort stefnandi geti átt aðild að máli þessu og ef svo er hvort stefndu beri ábyrgð á meintu tjóni hans.
III
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefndu hafi sameinast um að koma í veg fyrir réttar efndir þeirra samninga sem aðilar gerðu með sér 22. janúar 1997 og með því valdið honum fjártjóni. Samkvæmt efni framangreindra samninga hafi tekjur Kauphóls/Faxafells ehf. af viðskiptunum við stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. átt að vera 2.750.000 krónur fyrir tímabilið 28. janúar 1997 27. janúar 1998. Félagið hafi hins vegar aðeins fengist til að greiða 1.748.521 krónu samkvæmt samningnum. Mismunurinn sem hið stefnda félag eigi ógreiddan nemi 1.001.479 krónum. Af þeirri fjárhæð hafi 333.826 krónur átt að fara til greiðslu á skuldum sem stefnandi hafi verið ábyrgur fyrir gagnvart viðkomandi kröfuhafa, Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi stefnandi neyðst til að greiða þetta sjálfur. Auk þessa telur stefnandi sig hafa orðið fyrir sams konar tjóni vegna vanefnda á umræddum samningum tímabilið 28. janúar 1998 27. janúar 1999. Þá hafi Kauphóll/Faxafell ehf. átt að fá 3.300.000 krónur í tekjur af viðskiptunum við hið stefnda félag, en það aðeins greitt 951.045 krónur. Vanti því 2.348.955 krónur upp á að þóknunin hafi verið réttilega gerð upp. Af þeirri fjárhæð hafi 782.985 krónur átt að fara til greiðslu á skuldum sem stefnandi hafi verið ábyrgur fyrir gagnvart kröfuhafanum Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi stefnandi neyðst til að greiða þetta sjálfur.
Mismunur þess sem þannig átti að greiða upp í umræddar kröfur og þess sem hið stefnda félag hafi greitt sé samtals 1.116.811 krónur. Stefnandi krefst þess að stefndu bæti honum það tjón sem hann telur þá hafa valdið sér. Er bótakröfunni beint að þeim sameiginlega. Bótaskylda hins stefnda félags byggist á því að félagið hafi vanefnt umræddan samning og þannig valdið stefnanda tjóni. Bótaskyldu stefnda Sigurðar rökstyður stefnandi hins vegar þannig að hann hafi komið í veg fyrir að stefnandi gæti fylgt eftir kröfu Kauphóls/Faxafells ehf. gegn hinu stefnda félagi og þannig valdið stefnanda tjóni.
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til meginreglna íslensks kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, svo og sakarreglunnar. Dráttarvaxta er krafist frá þeim tíma er greiðslur áttu að fara fram samkvæmt dreifingarsamningi Kauphóls/Faxafells ehf. við hið stefnda félag. Um lagastoð fyrir dráttarvaxtakröfunni vísar stefnandi til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggist á 130. gr. laga nr. 90/1991 um meðferð einkamála. Um heimild til höfðunar málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er vísað til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Málsástæður og lagarög stefnanda Sigurðar A. Herlufsen
Stefndi Sigurður byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á aðildarskorti. Stefnandi virðist byggja kröfur sínar aðallega á meintum vanefndum dreifingarsamningsins frá 22. janúar 1997 sem hvorki hann né stefndi Sigurður séu aðilar að. Samningurinn sé á milli Kauphóls/Faxafells ehf. annars vegar og stefnda Ó. Johnson & Kaaber hins vegar. Jafnvel þó að hluti af greiðslum Ó. Johnson & Kaaber samkvæmt samningnum hafi átt að renna til þess að greiða niður skuldir, sem stefnandi var í ábyrgð fyrir hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar samkvæmt sérstöku samkomulagi við Sparisjóð Hafnarfjarðar frá sama tíma, þá breyti það ekki aðild stefnanda. Þess beri að geta að samstefndi Ó. Johnson & Kaaber sé ekki aðili að því greiðslusamkomulagi.
Stefndi Sigurður telur að þótt stefnandi hafi þurft að leysa til sín eitthvað af skuldum Kauphóls/Faxafells ehf. hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar þá öðlist hann einungis kröfu á Kauphól/Faxafell ehf., rétt eins og stefndi Sigurður, en ekki á hendur stefndu.
Á það er bent að samningsaðilinn sjálfur, Kauphóll/Faxafell ehf., hafi ekki haft uppi vanefndakröfur vegna samningsins. Stefnandi hafi þó haft uppi ólögmætar tilraunir til þess f.h. fyrirtækisins en sökum umboðsleysis hans séu þær tilraunir augljóslega markleysa.
Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni eða hafi í það minnsta ekki sannað meint tjón sitt. Á það er bent að stefnandi telji tjón sitt felast í því að vegna meintra vanefnda Ó. Johnson & Kaaber hafi komið lægri upphæðir til greiðslu skulda Kauphóls/Faxafells ehf. sem stefnandi sé ábyrgur fyrir og hann hafi þurft að greiða þær sjálfur. Í málinu liggi aðeins fyrir gögn um að stefnandi hafi greitt 437.434 krónur af stefnufjárhæðinni. Engin gögn liggi hins vegar fyrir um að nauðsynlegt hafi verið fyrir stefnanda að leysa til sín þá upphæð og engin gögn liggi fyrir um að stefnandi hafi reynt að innheimta kröfuna á hendur aðalskuldaranum Kauphóli/Faxafelli ehf. Engin sönnum um ógjaldfærni Kauphóls/Faxafells ehf. hafi verið lögð fram og sé því hafnað að hálfu stefnda að fyrirtækið sé ekki greiðslufært fyrir kröfu stefnanda.
Þá er því einnig hafnað af hálfu stefnda að skilja beri dreifingasamning Ó. Johnson & Kaaber og Kauphóls/Faxafells ehf. frá 22. janúar 1997 þannig að Ó. Johnson & Kaaber beri að greiða Kauphóli/Faxafelli ehf. tiltekin umboðslaun án tillits til vörusölu. Að hálfu stefnda er á því byggt að Kauphóll/Faxafell ehf. hafi aldrei átt slíka kröfu og því hafi stefndi ekki valdið stefnanda tjóni með því að neita honum um að fylgja eftir meintri kröfu Kauphóls/Faxafells ehf. á hendur Ó. Johnson & Kaaber. Samkvæmt 5. gr. dreifingasamningsins miðist umboðssölulaunin við hlutfall af nettósölu og ekki sé tilgreint neitt lágmark á umboðssölulaunin. Í 6. gr. samningsins sem fjalli aðallega um upplýsingaskyldu Ó. Johnson & Kaaber til Kauphóls/Faxafells ehf. sé ákvæði um lágmarkssölu. Ákvæðið sé hins vegar ekki með neinum hætti tengt við rétt Kauphóls/Faxafells ehf. til umboðslauna og ekki sé minnst á áhrif þess ef lágmarkssölu er ekki náð. Þess sé heldur ekki getið í samningnum að sú skylda hvíli á Ó. Johnson & Kaaber að ná tiltekinni lágmarkssölu. Stefnandi hafi sjálfur að eigin ósk verið einn í sambandi við stærsta birgjann, Heede umboðið, sbr. 4. gr. samningsins, og ráðið miklu um sölumöguleika á vörum frá þeim aðila. Ósanngjörn skilyrði stefnanda um staðgreiðslu hafi m.a. orðið til þess að sú vara fékkst ekki afhent á réttum tíma og salan því ekki orðið eins mikil og væntingar stóðu til. Augljós svik stefnanda með samningum við fyrirtækið Þórð Sveinsson ehf. hafi að sjálfsögðu einnig dregið úr sölunni.
Stefndi Sigurður byggir á því að ákvæðið um lágmarkssölu hafi einungis verið sett til þess að lýsa þeim markmiðum samningsin sem báðir aðilar skyldu stefna að, en réttur Kauphóls/Faxafells ehf. til umboðslauna hafi einungis miðast við raunverulega sölu. Þá telur stefndi Sigurður túlkun stefnanda óeðlilega og ósanngjarna og ekki í samræmi við vilja aðila. Stefnandi hafi notið lögfræðiaðstoðar og verið í lófa lagið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við samningsgerðina.
Í þriðja lagi er því hafnað af hálfu stefnda Sigurðar að stefndi hafi hagað sér með ólögmætum eða saknæmum hætti eða þannig að önnur skilyrði almennu skaðabótareglunnar séu uppfyllt. Efnislegur ágreiningur sé með aðilum um túlkun á dreifingarsamningnum. Þá hafi verið ágreiningur með eigendum Kauphóls/Faxafells ehf. um leiðir til þess að gæta hagsmuna fyrirtækisins. Stefndi Sigurður hafi talið hagsmunum Kauphóls/Faxafells ehf. best borgið með því að viðhalda samstarfinu við Ó. Johnson & Kaaber í stað þess að hafa uppi óréttmætar kröfur gegn þeim, enda sé samningurinn við Ó. Johnson & Kaaber helsta eign Kauphóls/Faxafells ehf.. Skoðun stefnda Sigurðar verði að teljast eðlileg og réttmæt og fráleitt sé að telja afstöðu hans ólögmæta eða saknæma eins stefnandi gefi í skyn í stefnu með tilvísun til almennu skaðabótareglunnar. Starf hans hjá Ó. Johnson & Kaaber breyti þar engu um. Þá séu skilyrði um orsakatengsl og sennilega afleiðingu heldur ekki uppfyllt.
Í fjórða lagi byggir stefndi Sigurður sýknukröfu sína á samkomulagi stefnanda og stefnda Sigurðar frá 22. janúar 1997 um lok ágreiningsmála. Í 1. gr. samningsins lýsi aðilar því yfir að öll ágreiningsmál aðila um innbyrðis uppgjör og ábyrgð á skuldum fyrirtækisins Kauphóls/Faxafells ehf. séu útkljáð og hvorugur eigi kröfu á hinn vegna þeirra atriða, hverju nafni sem nefnist. Það sé yfirlýsing sem gildi þrátt fyrir að öðrum samhliða samningum ljúki, sbr. niðurlag 2. gr. sama samnings. Málssókn þessi fjalli einmitt um uppgjör á skuldum Kauphóls/Faxafells ehf. sem stefnandi sé í ábyrgð fyrir. Stefnandi hafi ekki rift nefndum samningi við stefnda Sigurð enda séu ekki skilyrði til þess. Þá virðist sem hann hafi með samkomulaginu fyrirgert meintum kröfurétti sínum á hendur stefnda Sigurði sem málssókn þessi fjalli um.
Varakrafa stefnda byggir á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna meint tjón sitt og t.a.m. hafi hann einungis lagt fram sönnun um að hann hafi innleyst 437.434 krónur af skuldum Kauphóls/Faxafells ehf. Einnig yrði um óeðlilega auðgun að ræða að hálfu stefnanda ef stefnukröfur hans yrðu teknar til greina.
Stefndi Sigurður vísar til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og almennra reglna samningaréttarins um túlkun og skuldbindingargildi samninga. Einnig er vísað til almennu skaðabótareglunnar og skilyrða hennar og meginreglna kröfuréttarins. Um dráttarvaxtakröfuna er vísað til 3. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf.
Stefndi Ó. Johnson & Kaaber styður aðalkröfu sína eftirfarandi málsástæðum og lagarökum:
1. Aðildarskortur. Stefndi Ó. Johnson & Kaaber hf. byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að stefnandi sé ekki aðili að samningi Kauphóls/Faxafells ehf. og stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. dags. 22. janúar 1997. Þar sem stefnandi standi utan samningssambandsins geti hann ekki haft uppi kröfur á hendur stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. vegna meintra vanefnda á samningnum. Stefndi Ó. Johnson & Kaaber telur að málsókn þessa megi rekja til ágreinings milli eigenda Kauphóls/Faxafells ehf., þ.e. stefnanda og stefnda Sigurðar. Ágreiningur eigenda viðsemjenda stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. séu fyrirtækinu algerlega óviðkomandi. Skuldir stefnanda við Sparisjóð Hafnarfjarðar séu stefnda Ó. Johnson & Kaaber alls óviðkomandi, enda sé stefndi Ó. Johnson & Kaaber ekki aðili að samkomulagi Sparisjóðs Hafnarfjarðar og eigenda Kauphóls/Faxafells ehf. um ráðstöfun á greiðslum frá stefnda Ó. Johnson & Kaaber. Ekki verði talið að það samkomulag veiti stefnanda aðild að réttarsambandi stefnda Ó. Johnson & Kaaber og Kauphóls/Faxafells ehf.
Stefndi Ó. Johnson & Kaaber byggir á því að hafi stefnandi þurft að leysa til sín hluta af skuldum Kauphóls/Faxafells ehf. við Sparisjóð Hafnarfjarðar svo sem hann fullyrði án þess að hafa lagt fram sönnur fyrir eignist hann eingöngu kröfur á hendur Kauphóli/Faxafelli ehf. sem aðalskuldara kröfunnar. Um annars konar réttarsamband eða réttarsamband við aðra aðila geti ekki verið að ræða.
2. Samningur hefur ekki verið vanefndur. Af hálfu stefnda Ó. Johnson & Kaaber er á því byggt að sameiginlegur skilningur samningsaðila hafi verið sá að greiðsla umboðssölulauna samkvæmt samningnum fæli í sér að stefndi Ó. Johnson & Kaaber greiddi Kauphóli/Faxafelli ehf. 11% af nettósölu félagsins á þeim vörum sem féllu undir samninginn, en ekki að stefndi Ó. Johnson & Kaaber greiddi 11% af því sem talið væri að yrði lágmarkssala á gildistíma samningsins. Þessi skilningur styðjist við orðalag samningsins og samhengi tilvísunar til lágmarkssölu við skyldu stefnda Ó. Johnson & Kaaber til að veita Kauphóli/Faxafelli ehf. upplýsingar um sölu og einingarverð seldra vara. Ennfremur sé ekki kveðið á um skyldu stefnda Ó. Johnson & Kaaber til að ná fram tilgreindri lágmarkssölu. Þá sé ekki kveðið á um áhrif þess ef lágmarkssölu sé ekki er náð, svo sem eðlilegt hefði verið ef túlkun stefnanda hefði verið lögð til grundvallar.
Þá tekur stefndi Ó. Johnson & Kaaber fram að stjórnarformaður Kauphóls/Faxafells ehf., meðstefndi Sigurður, hafi tilkynnt stefnda Ó. Johnson & Kaaber að samningur hans við Kauphól/Faxafell ehf., fæli ekki í sér skyldu til að greiða Kauphóli/Faxafelli ehf. lágmarksumboðslaun, hvað sem raunverulegri sölu liði. Samkvæmt tilkynningu frá sama aðila sé samningur Kauphóls/Faxafells ehf. og stefnda Ó. Johnson & Kaaber í fullu gildi og hafi yfirlýsingar um riftun samningsins vegna vanefnda verið dregnar til baka. Ennfremur hafi komið fram að meðstefndi Sigurður telji stefnda Ó. Johnson & Kaaber hafa staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum að öllu leyti.
Af hálfu stefnda Ó. Johnson & Kaaber er á það bent að stefnandi byggi kröfu sína á túlkun ákvæðis samningsins um lágmarkssölu. Stefnandi hafi ekki haldið því fram að stefndi Ó. Johnson & Kaaber hafi ekki greitt Kauphóli/Faxafelli 11% af raunverulegri sölu. Orðalag samningsins, yfirlýsingar meðstefnda um efndir stefndi Ó. Johnson & Kaaber og rökstuðningur kröfugerðar stefnanda leiði til þess að sýkna beri stefnda Ó. Johnson & Kaaber af kröfum stefnanda, enda hafi ofangreindur samningur verið réttilega efndur af hálfu stefnda Ó. Johnson & Kaaber.
Stefndi Ó. Johnson & Kaaber tekur fram að einu vanefndirnar sem orðið hafi á samningnum séu af völdum stefnanda, þ.e.a.s. samningur hans við Þórð Sveinsson hf. um kaup á vöru frá Heede Bolcher A/S. Stefnandi sé sem eigandi Kauphóls/Faxafells ehf. skuldbundinn til að stofna ekki til samkeppni við stefnda Ó. Johnson & Kaaber á meðan samningurinn sé í gildi. Stefnandi hafi því vanefnt samninginn með ofangreindri háttsemi.
3. Skilyrði sakarreglu um bótaskyldu eru ekki uppfyllt. Stefndi Ó. Johnson & Kaaber telur að engin orsakatengsl séu milli þess tjóns sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir og meintum vanefndum stefnda Ó. Johnson & Kaaber. Ósannað sé að greiðsla á skuldabréfi nr. 93743 við Sparisjóð Hafnarfjarðar standi í tengslum við samning stefnda Ó. Johnson & Kaaber og Kauphóls/Faxafell ehf. Þá séu skilyrði sakarreglunnar um vávæni ekki uppfyllt. Efndir ofangreinds samnings séu ekki almennt til þess fallnar að valda meintu tjóni stefnanda. Ennfremur séu önnur skilyrði bótaskyldu samkvæmt sakarreglu ekki uppfyllt, enda hafi stefndi Ó. Johnson & Kaaber ætíð verið í góðri trú um réttar efndir sínar við Kauphól/Faxafell ehf.
4. Stefnandi hefur ekki takmarkað meint tjón sitt. Stefndi Ó. Johnson & Kaaber byggir á því að hafi stefnandi þurft að leysa til sín skuldir Kauphóls/Faxafells ehf., svo sem hann haldi fram, geti hann beint kröfum sínum að því félagi í samræmi við það kröfuréttarlega samband sem gildi milli stefnanda sem ábyrgðarmanns og Kauphóls/Faxafells ehf. sem aðalskuldara kröfunnar. Ólíkt meðstefnda Sigurði hefur stefnandi ekki krafið Kauphól/Faxafell ehf. um greiðslu skulda fyrirtækisins við hann. Hafi stefnandi því ekki reynt að takmarka meint tjón sem hann telji stefndu bótaskyld vegna. Stefnanda sé heimilt að grípa til þessa úrræðis og fylgja því eftir með fjárnámi. Tjónþola sé skylt að draga úr tjóni sínu og þar sem hann hafi vanrækt þessa skyldu sína geti hann ekki krafist skaðabóta fyrir það tjón sem af vanrækslunni leiði, enda verði að telja að allt hið meinta tjón sé afleiðing af því að stefnandi hélt ekki upp kröfurétti sínum á hendur því félagi sem hann á hlut í.
Stefndi Ó. Johnson & Kaaber hf. styður varakröfu sína svo að verði ekki fallist á sýknukröfu í málinu byggir stefndi Ó. Johnson & Kaaber hf. á því að fjárhæð tjóns stefnanda sé ósannað og vísað sé til viðskiptakvittunar sem hann hafi lagt fram í málinu. Kvittunin sýni greiðslu á 437.434 krónum en stefnufjárhæðin sé 1.116.811 krónur en stefnandi virðist byggja á því að sú fjárhæð nemi hlutdeild hans í meintri skuld stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. við Kauphól/Faxafell ehf. Stefnandi hafi þar af leiðandi ekki sýnt fram á annað og meira tjón en sem nemi 437.434 krónum og verði stefndu því ekki dæmd til greiðslu skaðabóta sem nemi hærri fjárhæð, enda væri að öðrum kosti um ólögmæta auðgun stefnanda að ræða.
Stefndi Ó. Johnson & Kaaber hf. byggir mál sitt á 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, almennum reglum skaðabótaréttarins, þar með talið sakarreglunni, meginreglum samningaréttar, þar með talið um túlkun samningsákvæða, og meginreglum kröfuréttar. Til stuðnings kröfum um málskostnað vísast til XXI. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
V
Niðurstaða
Í máli þessu er ágreiningur um túlkun dreifingarsamnings sem gerður var 22. janúar 1997 milli annars vegar Kauphóls/Faxafells hf. og hins vegar stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. Hafa báðir stefndu haldið því fram að sýkna beri þá af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, þar sem stefnandi byggi kröfur sínar á umræddum dreifingarsamningi sem hann sé ekki aðili að. Stefnandi gerir í máli þessu kröfur um skaðabætur þar sem hann telur sig hafa orðið fyrir tjóni sem rekja megi til háttsemi beggja stefndu. Verður því ekki fallist á það með stefndu að sýkna beri þá af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts. Breytir þar engu þótt stefnandi kunni að hafa eignast endurkröfurétt á hendur Kauphóli/Faxafelli ehf. vegna innlausnar hans á skuldum félagsins.
Ágreiningur er með aðilum um túlkun 6. greinar umrædds dreifingarsamnings.
Kveður stefnandi það hafa ráðið úrslitum varðandi samningsgerðina af hans hálfu fyrir hönd Kauphóls/Faxafells ehf. að inni í samningnum væri ákvæði um lágmarkssölu sem þýddi að ef sala væri lægri en þar greinir, yrðu greiðslur aldrei lægri en sem nemur 11% af þeim viðmiðunartölum sem getið er um í samningnum. Samkvæmt 5. gr. samningsins á dreifingaraðili, stefndi Ó Johnson & Kaaber hf. að greiða 11% af nettósölu sinni, heildsöluverði að frádregnum afslætti frá nánar tilgreindum birgjum. Greiðsluna á samkvæmt samningnum að greiða inn á reikning Kauphóls/Faxafells hf. hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Í 6. gr. samningsins stendur: “Dreifingaraðili gefur heildsala upp mánaðarlega sölu í einingum og krónum ásamt útsöluverði per einingu á hverjum tíma. Lágmarkssala er 25 milljónir á fyrsta ári samningsins en 30 milljónir eftir það, (sala án vsk.).”
Stefndu mótmæla þeirri túlkun stefnanda á orðalagi 6. gr. að þar sé átt við að aldrei sé um lægra viðmið að ræða. Kveður stefndi Sigurður að þetta ákvæði veiti Kauphóli/Faxafelli ehf. engan rétt til umboðslauna af lágmarkssölu heldur hafi þetta ákvæði einungis verið sett í samninginn í því skyni að lýsa þeim markmiðum samningsins sem báðir aðilar skyldu stefna að með samningnum. Stefndi Ó. Johnson & Kaaber hf. vísar um rökstuðning hvað þetta snertir, meðal annars til þess að meðstefndi Sigurður, stjórnarformaður Kauphóls/Faxafells ehf. líti svo á að samningurinn feli ekki í sér skyldu til lágmarksumboðslauna. Hefur það og komið fram hjá forstjóra stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. að ákvæðið hafi verið sett í samninginn í greiðaskyni við stefnanda til að auðvelda honum að segja honum upp.
Verður það orðalag samningsins að lágmarkssala sé 25 milljónir fyrsta árið og 30 milljónir eftir það ekki skilið á annan veg en að ekki skyldi miðað við lægri fjárhæð við útreikning umboðslauna til Kauphóls/Faxafells ehf., enda vandséð hver tilgangur þessa ákvæðis geti verið annar en að tryggja lágmarksþóknun og þykja skýringar stefndu á tilgangi þessa ákvæðis í samningnum hæpnar og ekki eiga við rök að styðjast. Þykir því verða að fallast á það með stefnanda að stefndi Ó. Johnson & Kaaber hf. hafi gengist undir þann samning að greiða fyrirtækinu Kauphóli/Faxafeni ehf. að lágmarki 11% af umræddri lágmarkssölu sem þýðir kr. 2.750.000 fyrsta árið og kr. 3.300.000 á ári eftir það. Þar sem stefndi Ó. Johnson & Kaaber hf. hefur aðeins greitt í samræmi við raunverulega sölu, sem var undir þeirri lágmarkssölu sem í samningnum greinir, hefur fyrirtækið því vanefnt samninginn sem nemur mismuninum.
Ekki er ágreiningur milli aðila um útreikning umboðslauna að gefnum framangreindum forsendum og eru því vanefndir stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. gagnvart Kauphóli/Faxafelli ehf. vegna tímabilsins 28. janúar 1997- 27. janúar 1998 kr. 1.001.479 og kr. 2.348.955 vegna tímabilsins 28. janúar 1998-27. janúar 1999.
Samkvæmt samkomulagi 22. janúar 1997 sem stefnandi, stefndi Sigurður og Kauphóll/Faxafell ehf. gerðu við Sparisjóð Hafnarfjarðar, sem gerður var samhliða dreifingarsamningnum, skyldi 1/3 af greiðslum samkvæmt umræddum dreifingarsamningi greiðast inn á skuldir sem stefnandi væri ábyrgur fyrir vegna Kauphóls/Faxafells ehf. og 2/3 til greiðslu skulda sem stefndi Sigurður væri ábyrgur fyrir vegna Kauphóls/Faxafells ehf. en í 3 grein þessa samnings er vísað til þess að ef miðað sé við lágmarkstölur samkvæmt umræddum dreifingarsamningi greiðist samtals inn á umræddan reikning kr. 2.750.000 fyrsta árið og síðan 3.300.000.
Stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. var kunnugt um, samning þennan, enda hans getið í dreifingarsamningnum. Náði samningur þessi meðal annars til skulda Kauphóls/Faxafells ehf. að fjárhæð kr. 4.400.000 með veði í fasteign stefnanda að Brúarflöt 3. Er því ljóst að vanefndir á dreifingarsamningnum urðu þess valdandi að stefnandi varð óhjákvæmilega fyrir tjóni, þar sem skuld sú sem hann ábyrgðist með fasteign sinni hefði lækkað um kr. 333.826 frá 28. janúar 1997 og kr. 782.985 frá 28. janúar 1998 umfram það sem greiddist inn á skuldina vegna raunverulegrar sölu samkvæmt samningnum og hefur hann því orðið fyrir tjóni sem nemur þessum mismun. Af því sem nú hefur verið rakið er ljóst að tjón stefnanda verður rakið til og er afleiðing þess að umræddur dreifingarsamningur var vanefndur af stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf.
Stefnandi telur að tjón það sem hann varð fyrir megi rekja til saknæmrar háttsemi beggja stefndu. Stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. fyrir að vanefna samninginn og stefnda Sigurðar fyrir að að koma í veg fyrir að stefnandi gæti fylgt eftir kröfu Kauphóls/Faxafells ehf. gegn stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. og þannig komið í veg fyrir að félagið gæti leitað lögmæts réttar síns með kröfu um efndir samningsins, stefnanda til góða. Stefndi Sigurður hefur bent á að samningsaðilinn sjálfur, Kauphóll/Faxafell ehf. hafi ekki haft uppi vanefndakröfur sjálfur vegna samningsins. Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi Sigurður kom í veg fyrir að stefnandi gæti gert kröfu fyrir hönd Kauphóls/Faxafells ehf. á hendur stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. í krafti meirihluta stöðu sinnar í fyrirtækinu og vegna samnings milli aðila um að um meiri háttar ákvarðanir yrðu þeir báðir að standa að. Af þeim sökum gat stefnandi ekki fyrir hönd fyrirtækisins leitað réttar síns gagnvart samningsaðilanum. Af því sem áður hefur komið fram um vanefndir Ó. Johnson & Kaaber hf. á margnefndum dreifingarsamningi þykir það leitt í ljós að stefndi Sigurður, með þeirri háttsemi sem nú hefur verið lýst, beri ásamt Ó. Johnson & Kaaber hf. ábyrgð á því tjóni sem stefndi varð fyrir vegna þess að umræddur samningur var vanefndur enda verður því slegið föstu að báðir stefndu vissu eða máttu vita að vanefndir samningsins yrðu til þess að lægri fjárhæð greiddist inn á skuldir þær sem stefnandi var ábyrgur fyrir hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar.
Stefndi Sigurður byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að með samningi þeirra stefnanda frá 22. janúar 1997 um lok ágreiningsmála, komi fram í 1. gr. samningsins að aðilar lýsi því yfir að öll ágreiningsmál aðila um innbyrðis uppgjör og ábyrgð á skuldum fyrirtækisins Kauphóls/Faxafells ehf. séu útkljáð og hvorugur eigi kröfu á hinn vegna þeirra atriða, hverju nafni sem nefnist. Umrætt samkomulag fjallar eins og stendur í 1. gr. samkomulagsins, um uppgjör á greiðslu skulda fyrirtækisins Kauphóls/Faxafells ehf. Eins og áður hefur komið fram, fjallar mál þetta um skaðabótakröfu sem stefnandi telur sig eiga á hendur stefndu en ekki um innbyrðis uppgjör stefnanda og stefnda Sigurðar og ábyrgð á skuldum fyrirtækisins. Verður því ekki fallist á að stefnandi hafi með umræddu samkomulagi fyrirgert kröfurétti á hendur stefnda Sigurði í máli þessu.
Stefndu hafa haldið því fram að sala hafi orðið minni en ella af ástæðum sem rekja hafi mátt til aðgerða eða aðgerðarleysis stefnanda, meðal annars að hann hafi dregið að afhenda vörur frá fyrirtækinu Heede til stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf., verið með ósanngjarnar kröfur um greiðsluform og ekki komið pöntunum áleiðis. Stefnandi hefur mótmælt því og engin gögn liggja frammi í málinu því til sönnunar að stefnanda verði kennt um meintan drátt á afhendingu vara frá Heede til stefnda Ó. Johnson & Kaaber hf. eða að sala hafi orðið minni en efni stóðu til vegna vöruskorts sem rekja megi til háttsemi stefnanda. Ekki þykja stefndu heldur hafa sýnt fram á það með óyggjandi hætti gegn neitun stefnanda að hann hafi brotið ákvæði dreifingarsamningsins með því að eiga viðskipti við samkeppnisaðila Ó. Johnson & Kaaber hf. Þykir því ósannað að stefnandi eigi sjálfur nokkra sök á því tjóni sem hann hefur orðið fyrir.
Ekki verður heldur fallist á það með stefndu að stefnandi hafi ekki reynt að takmarka tjón sitt. Hann hefur innt af hendi greiðslur til Sparisjóðs Hafnarfjarðar vegna þeirra skulda sem hann ábyrgist fyrir Kauphól/Faxafell ehf. Gögn málsins styðja það að Kauphóll/Faxafell ehf. er í dag varla í stakk búið til að endurgreiða stefnanda það sem hann hefur þurft að greiða vegna ábyrgða, en helsta eign Kauphóls/Faxafells ehf. í dag er umræddur dreifingarsamningur, sem stefndi Sigurður hefur þegar gert fjárnám í vegna tæplega 8 milljóna kröfu. Þykja stefndu ekki hafa sýnt fram á að tjón stefnanda hefði orðið minna þótt hann hefði freistað þess að fá endurgreitt innleystar kröfur frá Kauphóli/Faxafelli ehf. Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður tekin til greina krafa stefnanda eins og hún er fram sett.
Eftir úrslitum þessum verða stefndu dæmdir in solidum til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilegur kr. 300.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndu Sigurður Herlufsen og Ó. Johnson & Kaaber hf. greiði stefnanda Ómari H. Harðarsyni in solidum kr.1.116.811 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af kr 333.826 frá 28. janúar 1997 til greiðsludags og af kr. 782.985 frá 28. janúar 1998 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda in solidum kr. 300.000 í málskostnað þar með talinn virðisaukaskatt.