Hæstiréttur íslands

Mál nr. 143/2006


Lykilorð

  • Einkaleyfi
  • Nytjaleyfi
  • Hlutafé


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. október 2006.

Nr. 143/2006.

NorðurBragð hf.

(Anton Björn Markússon hrl.)

gegn

Norðri ehf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

 

Einkaleyfi. Nytjaleyfi. Hlutafé.

N ehf. krafðist þess að lagt yrði bann við nýtingu NB hf. á einkaleyfi þess. Atvik málsins eru þau að N ehf. tók þátt í stofnun félags um bragðefnavinnslu í Hornafirði 20. október 1999. Sama dag sótti N ehf. um einkaleyfi á sérstakri ensímtæknilegri aðferð sem unnt er að nota til bragðefnavinnslu. Hlutafjárframlag N ehf. í félaginu, NB hf., var greitt í formi þekkingar, eins og nánar var kveðið á um í 1. lið samnings aðila frá 22. október 1999. Í málinu var deilt um túlkun á 1. lið samningsins, þ.e. hvort hlutafjárframlag N ehf. hafi einungis falist í almennri þekkingu á notkun ensímtæknilegrar aðferðar eða hvort um hafi verið að ræða nytjaleyfi á einkaleyfi N ehf. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að samkvæmt lögum nr. 17/1991 um einkaleyfi þurfi nytjaleyfissamningar ekki að uppfylla formskilyrði til að teljast gildir. Ljóst sé að hið umdeilda ákvæði sé ekki skýrt, en þegar það sé lesið með 2. lið samningsins verði að fallast á þá málsástæðu NB hf. að í 1. lið samkomulagsins hafi falist ótímabundið og óafturtækt nytjaleyfi á einkaleyfi N ehf. Var NB hf. því sýknað af kröfu N ehf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. mars 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kom fram að nafni áfrýjanda hafi verið breytt úr Norðurís hf. í NorðurBragð hf.

I.

Á hluthafafundi 20. október 1999 var nafni stefnda breytt úr Norðri hf. í Norðurhöfn ehf., þar sem til stóð að stofna nýtt hlutafélag með aðild hans, sem hlyti nafnið Norður hf. Því var ætlað að standa að framleiðslu bragðefna úr sjávarfangi og vinnslu á ensími með heitinu kríótín, sem nota átti við þá framleiðslu. Norður hf. var stofnað 22. október 1999, en nafni þess var síðar breytt í Norðurís hf., sem nú er áfrýjandi, en stefndi fékk þá aftur nafnið Norður ehf.

 Svo sem nánar greinir í héraðsdómi gerði stefndi, sem kveðst hafa sérhæft sig í nýsköpun og þróun á sviði prótínvinnslu, samning við Sjósókn ehf. um stofnun líftæknifyrirtækis 9. mars 1999. Sagði í 1. gr. samningsins að stefndi myndi leggja hinu nýja fyrirtæki „til afnota alla núverandi tækniþekkingu sína og réttindi varðandi framleiðslu á próteinasablöndu úr þorskslógi, Cryotin, til framleiðslu á bragðefnum og öðrum efnum, sem til verða við slíka framleiðslu.“ Sjósókn ehf. myndi leggja fyrirtækinu „til afnota alla núverandi markaðsþekkingu og markaðstengsl til sölu á sömu efnum.“ Hið nýja félag gekk á þessu stigi undir heitinu Sjávarensím. Í 2. gr. samningsins sagði að aðilar hans væru „sammála um að leggja fram sameiginlega, réttindi sín og þekkingu sbr. 1. gr. sem einn þekkingarpakka og semja um sameiginlegt endurgjald fyrir hann í formi hlutafjár“ við stofnun nýja félagsins. Skyldu hlutabréfin skiptast milli þeirra í hlutföllunum 80% til stefnda og 20% til Sjósóknar ehf. Í viljayfirlýsingu, sem sex félög gerðu sameiginlega 29. apríl 1999, þar á meðal stefndi og Sjósókn ehf., sagði að niðurstaða vinnuhóps um stofnun Sjávarensíma skyldi miða við það að félagið „yfirtaki þekkingu Norðurs ehf. og Sjósóknar ehf. á sviði framleiðslu og markaðsetningar bragðefna úr sjávarfangi annarsvegar og þekkingu Norðurs ehf. á sviði einangrunar og vinnslu sjávarensíma hinsvegar.“ Viðskiptaáætlun fyrir Sjávarensím hf. var gerð í ágúst 1999. Má ráða af henni að bragðefni, sem stefndi bjó yfir þekkingu til að vinna, hafi átt að leggja grunn að framleiðslu hins nýja félags.

Samkvæmt fundargerð stjórnarfundar í stefnda 23. september 1999 var samþykkt „að taka þátt í stofnun félags um bragðefnavinnslu í Hornafirði, sem gengið hefur undir vinnuheitinu Sjávarensím ehf. og að kaupa 58,788144% hlut í hinu óstofnaða félagi. Stjórnin samþykkir að greiða hlutinn með því að gera samning við hið væntanlega félag um að það fái einkarétt til hagnýtingar þekkingar Norðurs ehf. til að vinna bragðefni með kuldavirkum ensímum.“ Endurskoðanda stefnda hafi verið falið að semja matsskýrslu, þar sem fram kom að verðmæti framlags stefnda stæði „fyllilega undir því verðmæti sem mótframlag annarra ... gefur þessum hlut í félaginu eða með öðrum orðum að það sé meira virði en 53 mkr.“ Undir 5. lið í fundargerðinni var fjallað sérstaklega um samning stefnda við hið nýja félag um einkarétt til að nýta einkaleyfi stefnda við bragðefnavinnslu. Hluthafafundar var haldinn í stefnda 20. október 1999. Í fundargerð var bókað að hlutur stefnda í hinu nýja félagi yrði að nafnverði 4.000.000 krónur á genginu 13,227 eða að verðmæti 53.108.000 krónur. Hlutafjárframlagið yrði greitt með þekkingu í eigu stefnda „til kríótínvinnslu til bragðefnavinnslu, þekkingu til bragðefnavinnslu, vinnsluleiðbeiningum fyrir vinnslu á kríótíni, vinnsluleiðbeiningum til vinnslu bragðefna úr sjávarfangi með kríótíni, auk nafnsins Norðurs ásamt merki, og vörumerkinu North foods“. Í skýrslu endurskoðanda stefnda, sem dagsett var sama dag, sagði að verðmæti þekkingar og leiðbeininga, sem stefndi hygðist láta nýstofnuðu félagi í té, svaraði að minnsta kosti til hlutafjárins, sem væri endurgjaldið fyrir þekkinguna. Þar sagði jafnframt: „Matið er miðað við notagildi framlagðrar þekkingar („know how“) og viðeigandi vinnsluleiðbeininga í höndum hins nýstofnaða félags.“ Sama dag sótti stefndi um einkaleyfi á uppfinningu sinni sem hann nefndi „Aðferð til framleiðslu á prótínhydrólysötum með notkun sjávarprótínasa“. Í bréfi um einkaleyfið, sem veitt var 15. apríl 2005, sagði meðal annars: „Uppfinningin varðar aðferð til að fá fram með ensímtæknilegum aðferðum prótínhýdrólýsöt (vatnsrofin prótín) til neyslu, í dýrafóður og í snyrtivörur.“

Stofnsamningur fyrir áfrýjanda var gerður 22. október 1999. Samkvæmt honum skyldi hlutafé vera 6.804.093 krónur og greitt í reiðufé nema hlutur stefnda, sem þá hét Norðurhöfn ehf., sem var heimilað að greiða „með framsali á þekkingu til kríótínsvinnslu til bragðefnavinnslu, þekkingu til sjálfrar bragðefnavinnslunnar, vinnsluleiðbeiningum til vinnslu á kríótíni, vinnsluleiðbeiningum til vinnslu á bragðefnum úr sjávarfangi með kríótíni, auk nafnsins Norður“. Sama dag gerðu aðilar máls þessa með sér samkomulag. Hljóðuðu þrír fyrstu liðir þess svo:

„1. Við stofnun Norðurs mun NH leggja fram sem hlutafjárframlag af sinni hálfu þekkingu til kríótínsvinnslu til bragðefnavinnslu, þekkingu til sjálfrar bragðefnavinnslunnar, vinnsluleiðbeiningar fyrir vinnslu á kríótíni, og vinnsluleiðbeiningar til vinnslu á bragðefnum úr sjávarfangi með kríótíni, auk nafnsins Norður ásamt merki, og vörumerkið North foods. Um nánari útlistun framangreindra atriða vísast til viðeigandi hluta fyrirliggjandi einkaleyfisumsóknar NH dags. 20. október 1999, sem merkt skal sem fylgiskjal nr. 1, og telst órjúfanlegur hluti af samkomulagi þessu. Framlag NH við stofnun Norðurs samkv. framangreindu er metið til fjár sem stofnframlag NH til félagsins.

2. Með samkomulagi þessu veitir NH Norðri alheims einkarétt á nýtingu þekkingar samkv. 1. tl. hér að framan samkv. hluta framangreindrar einkaleyfisumsóknar samkv. fylgiskj. nr. 1., en sá réttur fylgir ekki hlutafjárframlagi NH til Norðurs. Norður samþykkir að greiða NH 2% framleiðslugjald af verði seldra afurða, sem framleiddar eru samkv. framangreindu alheims einkanýtingar-rétti, og skal framleiðslugjaldið reiknast af FOB skilaverði afurða. Gjalddagi framleiðslugjaldsins er 30 dögum eftir afhendingu seldra afurða. Dráttarvextir reiknast á gjaldfallna fjárhæð ef hún er ekki greidd á gjalddaga.

3. Samkomulag þetta er ótímabundið, og er óuppsegjanlegt af hálfu beggja aðila meðan einkaleyfi NH er í gildi, nema skriflegt samkomulag verði um annað. Þó er NH heimilt að segja upp samkomulagi þessu með 3ja mánaða fyrirvara ef verulegar vanefndir verða á greiðslu framleiðslugjalds samkv. samkomulagi þessu. ... Með sama hætti er NH heimilt að segja samkomulagi þessu upp með 3ja mánaða fyrirvara ef framleiðsla samkv. einkaleyfi NH er hætt af hálfu Norðurs um 12 mánaða skeið eða lengur. Að lokum er NH heimilt að segja samkomulagi þessu upp með 3ja mánaða fyrirvara ef ársframleiðsla Norðurs á bragðefnum samkv. framangreindu nær ekki 450 tonnum á ári, en þó ekki fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2005.“

Samkvæmt gögnum málsins leitaði stefndi eftir bankaláni 5. maí 2000, en í umsókn hans um það sagði meðal annars eftirfarandi: „Félagið á 3.200.000 kr. hlut í NorðurÍs hf. sem það eignaðist sem greiðslu fyrir að láta NorðurÍs hf. ... í té þekkingu og leyfi til að framleiða bragðefni samkvæmt framangreindri aðferð sem þróuð hefur verið hjá Norðri ehf.“ Í skýrslu stjórnar stefnda í ársreikningi fyrir árið 1999, sem dagsett var 22. maí 2000, sagði meðal annars að félagið hafi sótt um einkaleyfi á ákveðnum aðferðum til kríótínvinnslu til bragðefnavinnslu. Einnig, að stofndagur áfrýjanda hafi verið 22. október 1999 og hann hafi tekið yfir „þann hluta rekstrarins sem snéri að vinnslu Kríótíns og bragðefnavinnslu.“ Áfrýjandi hafi fengið alheims einkaafnotarétt á nýtingu hluta þekkingar stefnda til vinnslu bragðefna til manneldis. Sagði jafnframt að gerður hafi verið „samningur um framleiðslugjald af seldum afurðum“, en einnig hafi stefndi fengið hlutabréf í áfrýjanda „sem gagngjald fyrir framleiðsluleyfið.“

Með bréfi 7. janúar 2005 tilkynnti stefndi áfrýjanda að hann segði upp samkomulagi þeirra frá 22. október 1999 á grundvelli áðurgreindrar heimildar í 3. lið þess, því ársframleiðsla áfrýjanda hefði ekki náð þeim 450 tonnum, sem þar um ræddi. Áfrýjandi ber ekki brigður á að stefnda hafi verið heimilt að segja samkomulagi þeirra upp. Hann telur á hinn bóginn uppsögnina engu breyta um heimild sína til að nýta sem fyrr þá vinnsluaðferð, sem stefndi hefur einkaleyfi á, þar sem stefndi hafi með hlutafjárframlagi sínu í áfrýjanda látið í té ótímabundið og óafturkræft nytjaleyfi fyrir vinnsluaðferðinni. Þessu er stefndi ósammála og leitast hann við að fá lagt bann við þessari starfsemi áfrýjanda í máli þessu.

II.

Málsaðilar deila um hvað hafi falist í hlutafjárframlagi stefnda, hvort það hafi eingöngu verið yfirfærsla á almennri þekkingu á notkun ensímtæknilegrar aðferðar eða hvort um hafi verið að ræða nytjaleyfi á einkaleyfi hans. Heldur áfrýjandi því fram að í áðurgreindum 1. lið samkomulags þeirra 22. október 1999 hafi falist að stefndi hafi við stofnun áfrýjanda veitt honum almenn afnotaréttindi af þekkingu og vinnsluleiðbeiningum til bragðefnavinnslu, svo sem greint hafi verið í stofnsamningi og sérfræðiskýrslu endurskoðandans. Í 2. lið hafi áfrýjanda verið veitt tiltekin viðbótarréttindi, sem felist í alheims einkarétti til að nýta þekkingu samkvæmt einkaleyfisumsókn stefnda, en sá réttur hafi ekki fylgt hlutafjárframlagi stefnda til áfrýjanda, eins og tekið sé fram í 2. lið. Fyrir þessi viðbótarréttindi skyldi áfrýjandi greiða sérstakt 2% framleiðslugjald. Stefndi heldur því hins vegar fram, að í 1. lið felist ekki að áfrýjanda sé veitt nytjaleyfi, heldur hafi nytjaleyfið falist í 2. lið samkomulagsins, sem hafi verið sagt upp og réttur áfrýjanda til að nýta einkaleyfið þar með fallið niður.

Samkvæmt lögum nr. 17/1991 um einkaleyfi þurfa nytjaleyfissamningar ekki að uppfylla formskilyrði til þess að teljast gildir. Ljóst er að hið umdeilda ákvæði 1. liðar samkomulags aðilanna frá 22. október 1999, um hvað felist í hlutafjárframlagi stefnda, er ekki skýrt. Þegar samkomulagið í heild er lesið og 1. og 2. liður eru lesnir saman, verður þó að fallast á með áfrýjanda að orðalag 2. liðar, þar sem tekið var fram að alheims einkaréttur á „nýtingu þekkingar samkv. 1. tl. hér að framan“ fylgi ekki hlutafjárframlagi stefnda til áfrýjanda, renni stoðum undir þá málsástæðu hans að í 1. lið samkomulagsins hafi falist ótímabundið og óafturtækt nytjaleyfi á einkaleyfi stefnda, en í 2. lið hafi verið gert sérstakt samkomulag um að áfrýjandi fengi til viðbótar nytjaleyfinu einkarétt á nýtingunni gegn greiðslu sérstaks framleiðslugjalds. Samkvæmt þessu verður að fallast á með áfrýjanda að með hlutafjárframlagi stefnda hafi honum verið veittur réttur til að nýta þá vinnsluaðferð, sem stefndi hefur síðan fengið einkaleyfi fyrir, og að sá réttur standi óhaggaður af uppsögn stefnda á 2. lið samkomulags þeirra frá 22. október 1999. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.

Rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, NorðurBragð hf., er sýkn af kröfu stefnda, Norðurs ehf.

Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

         

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2006.

I

Mál þetta var þingfest 30. júní 2005 og dómtekið 17. febrúar 2006.  Stefnandi er Norður ehf., Brúnavegi 8, Reykjavík, en stefndi er Norðurís hf., Dalbraut 2, Höfn í Hornafirði.

Dómkröfur stefnanda eru að lagt verði bann við nýtingu stefnda á einkaleyfi stefnanda, sbr. einkaleyfisskráningu hans nr. 2002 frá 15. apríl 2005. 

Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði endurgjald fyrir nýtingu einkaleyfisins að fjárhæð 4.200.000 krónur.  Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði alfarið sýknaður af kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.

II

Samkvæmt gögnum málsins var félagið Norður ehf. stofnað á árinu 1983 og hóf það starfsemi sína sem líftæknifyrirtæki og sérhæfði sig í vinnslu ensíma úr sjávarfangi.  Þessu félagi var skipt upp í tvö félög á árinu 1999, Ensímtækni ehf. og stefnanda, Norður ehf. og sérhæfir stefnandi sig í nýsköpun og þróun á sviði prótínvinnslu.

Á árinu 1998 hóf Norður ehf. kynningu á Hornafirði á starfsemi sinni eftir að hafa borist fyrirspurnir þaðan um hugsanlegt samstarf á sviði vinnslu bragðefna og ensíma og undirrituðu Norður ehf, Sjósókn ehf. og ýmsir aðilar á Hornafirði viljayfirlýsingu af þessu tilefni 29. apríl 1999.  Áður eða þann 9. mars 1999 höfðu Norður ehf. forveri stefnanda og Sjósókn ehf. gert með sér samning um að standa sameiginlega að stofnun fyrirtækis og leita eftir samstarfi við þriðja aðila og kemur fram í þessum samningi að Norður ehf. muni leggja þessu félagi til alla núverandi tækniþekkingu sína og réttindi varðandi framleiðslu á prótínasablöndu úr þorskslógi, svokölluðu kríótíni, til framleiðslu á bragðefnum og öðrum efnum sem til verði við slíka framleiðslu.  Sjósókn ehf. skyldi leggja félaginu til alla núverandi markaðsþekkingu og markaðstengsl til sölu á sömu efnum.  Með yfirlýsingu sömu aðila 21. október 1999 gerðu þeir samning sín á milli um að stefnandi framseldi Sjósókn ehf. 20% af hlutafé sínu í stefnda og með þessari yfirlýsingu lýstu stefnandi og Sjósókn ehf. því yfir að samningur þeirra frá 9. mars 1999 væri uppfylltur.

Hinn 20. október 1999 sótti stefnandi um einkaleyfi á uppfinningu sinni sem kallast: Aðferð til framleiðslu á prótínhydroysötum með notkun á sjávarprótínasa.  Fékkst einkaleyfið skráð 15. apríl 2005 undir númerinu 2002.

Með stofnsamningi 22. október 1999 var stefndi svo stofnaður og voru stofnendur 15 talsins.  Við stofnun fékk stefndi nafnið Norður hf. og síðar var nafni félagsins breytt í Norðurís hf.  Eftir að mál þetta var höfðað var nafni félagsins breytt í Norðurbragð hf.

Stefnandi, sem þá hét Norðurhöfn ehf., var stærsti hluthafinn við stofnun stefnda með 4.000.000 króna framlag að nafnverði en heildarhlutafé félagsins var að nafnverði 6.804.093 krónur.  Í stofnsamningi vegna stefnda kemur að tilgangur félagsins sé framleiðsla á ensímum til bragðefnavinnslu, framleiðsla og sala á hvers konar bragðefnum, útflutningsstarfsemi, fasteignarekstur, lánastarfsemi og önnur skyld starfsemi. 

Samkvæmt stofnsamningnum skyldi hlutafé allt greitt í reiðufé en sérstaklega tekið fram að stefnandi hafði heimild til að greiða hlutafé sitt með framsali á þekkingu til kríótínvinnslu til bragðefnavinnslu, þekkingu til sjálfrar bragðefnavinnslunnar, vinnsluleiðbeiningum til vinnslu á kríótíni, vinnsluleiðbeiningum til vinnslu á bragðefnum úr sjávarfangi með kríótíni, auk nafnsins Norðurs, merkis þess og vörumerkisins North foods, en verðmæti þessa voru sögð nema að minnsta kosti hlutafjárframlagi stefnanda í stefnda.

Hinn 22. október 1999 gerðu aðilar þessa máls með sér samkomulag þar sem meðal annars kemur fram að stefnandi leggi fram sem hlutafjárframlag,  það sem tilgreint er í framangreindum stofnsamningi, nánar tiltekið þekkingu, vinnsluleiðbeiningar, nafn og vörumerki.  Þá er um þetta vísað til fyrirliggjandi einkaleyfisumsóknar sem teljist órjúfanlegur hluti samkomulagsins og að tilgreint framlag stefnanda sé metið til fjár sem stofnframlag stefnanda til stefnda.

Með samkomulaginu veitti stefnandi stefnda alheims einkarétt á nýtingu framangreindrar þekkingar samkvæmt hluta einkaleyfisumsóknar hans en tekið var fram að sá réttur fylgdi ekki hlutafjárframlagi stefnanda til stefnda.  Skyldi stefndi greiða stefnanda 2% framleiðslugjald af verði seldra afurða sem framleiddar yrðu samkvæmt þessum alheims einkanýtingarrétti og skyldi framleiðslugjaldið reiknast af FOB skilaverði afurða.  Stefndi skyldi þó ekkert framleiðslugjald greiða af fyrstu 450 tonnum af bragðefnum, framleiddum af stefnda á grundvelli alheims einkanýtingaréttarins.

Framangreint samkomulag skyldi vera ótímabundið og óuppsegjanlegt af beggja hálfu meðan einkaleyfi stefnanda væri í gildi nema skriflegt samkomulag væri gert um annað eða vanefndir yrðu af hálfu stefnda.  Þá væri stefnanda heimilt að segja samkomulaginu upp ef stefndi hætti framleiðslu í 12 mánuði eða lengur eða ef ársframleiðsla stefnda næði ekki 450 tonnum á ári, en þó eigi fyrr en 1. janúar 2005.

Með bréfi 7. janúar 2005 sagði stefnandi framangreindu samkomulagi aðila upp á þeim grundvelli að ársframleiðsla stefnda næði ekki 450 tonnum.  Kemur fram í uppsagnarbréfinu að uppsögnin taki þegar gildi og komi til framkvæmda 7. apríl 2005.  Eftir það falli niður réttur stefnda til að framleiða bragðefni og ensím til bragðefnavinnslu.  Þá áréttaði stefnandi í bréfi sínu að hann hafnaði því að stefnda væri heimilt að halda framleiðslu áfram í andstöðu við eiganda einkaleyfis.

Með bréfi 8. febrúar 2005 mótmælti stefndi því að uppsögn stefnanda kæmi til framkvæmda fyrr en 15. apríl 2005 þar sem hann hafi ekki móttekið bréf stefnanda fyrr en 14. janúar 2005.  Þá mótmælti stefndi þeim sjónarmiðum stefnanda að þegar uppsögnin kæmi til framkvæmda félli niður almennur framleiðsluréttur stefnda til bragðefnavinnslunnar.  Taldi stefndi að alheims einkanýtingarréttur stefnda félli niður þannig að stefnandi gæti veitt fleirum rétt til framleiðslu á grundvelli einkaleyfis síns, en almennur framleiðsluréttur stæði eftir.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 17. nóvember 2005 var hafnað kröfu stefnda um að málinu væri vísað frá dómi.

III

Stefnandi kveður stefnda hafa haldið áfram framleiðslu eftir einkaleyfi stefnanda í óþökk stefnanda þrátt fyrir uppsögn samnings aðila og virðist sem stefndi telji sér það heimilt þar sem einkaleyfið sjálft hafi verið lagt fram sem hlutafjárframlag við stofnun stefnda.  Þessu mótmælir stefnandi. 

Kveður stefnandi það ætíð hafa verið grundvallaratriði í samskiptum aðila að stefnandi ætti einkaleyfið einn og færi með það eftir almennum reglum þar um.  Þess vegna hafi verið um tvískipta gerninga að ræða, annars vegar stofnsamning þar sem þekking og vinnsluleiðbeiningar hafi verið látnar í té og hins vegar sérstakan samning sem gerður hafi verið við stefnda sjálfan en ekki milli stofnenda félagsins.  Á meðan stefndi hafi staðið við samninginn af sinni hálfu hafi engin úrræði verið fyrir stefnanda að segja honum upp.  Það hafi því ekki verið nema vegna brostinna væntinga sem stefnandi hafi átt þess kost að segja samningnum upp og hafi stefnandi því eðli málsins samkvæmt verið óbundinn af frekari samskiptum við stefnda.

Hafi samningur aðila verið mjög hagstæður stefnda vegna gjaldfrelsis fyrstu 450 tonnanna og þess að hann hafi verið óuppsegjanlegur við venjulegar aðstæður.  Sé ljóst að ef til hafi staðið að veita stefnda óafturkræft leyfi til að framleiða samkvæmt einkaleyfi stefnanda án nokkurra takmarkana hefði þurft að orða það skýrt í samningnum á milli aðilanna.  Sé því ljóst að stefndi hefði ekki fengið svo mikil tækifæri til að láta reyna á starfsemi sína án greiðslna eða möguleika á því að samningnum yrði sagt upp fyrr en svo mörgum árum síðar ef ætlunin hefði verið að veita stefnda óafturkræfan rétt til nýtingar einkaleyfisins. Uppsagnarákvæði samningsins hefðu tekið skýrt á þessu atriði og hefði verið orðað skýrt hvernig færi með rétt stefnda til áframhaldandi framleiðslu ekki síst vegna þess að ljóst var að grundvöllur fyrir starfsemi stefnda yrði ekki lengur fyrir hendi ef til uppsagnar samningsins kæmi.  Hafi ákvæði samningsins af þeim sökum verið svo hagstæð fyrir stefnda og honum gefin svo mikil tækifæri til að sanna að starfsemi hans gæti verið arðvænleg vegna þess að aðilar hafi gert sér grein fyrir því að uppsögn samningsins þýddu væntanlega endalok á starfsemi stefnda.  Hefði það ekki verið skilningur þeirra sem að samningnum stóðu hefði ekki verið eins mikið staðið við bakið á stefnda í upphafi.

Þá megi benda á að ef skilningur aðila á samningnum hefði verið með þeim hætti sem stefndi hafi haldið fram hefði verið sett ákvæði í samninginn um rétt stefnda til að yfirtaka einkaleyfið ef stefnandi myndi hætta að greiða árgjöld þess og láta einkaleyfið þar með falla niður.  Hefðu aðilar aldrei gert samninginn þess efnis sem stefndi haldi fram nema skýrt hefði verið tekið á þessum atriðum.

Ef ætlunin hafi aðeins verið að semja um að stefndi hefði einkarétt til nýtingar einkaleyfisins en að honum slepptum væri nytjaleyfisréttur fyrir hendi án endurgjalds, hefði einnig verið tekið skýrt fram í samningnum hvaða afleiðingar það hefði ef stefnandi til dæmis leyfði öðrum aðila einnig að framleiða samkvæmt einkaleyfi sínu.  Sé það alveg ljóst að hefði það verið rétti tilgangurinn og meiningin með gerð samningsins hefðu ákvæði samningsins verið um margt á annan veg en raun beri vitni.

Stefnandi kveður að ljóst sé að hlutafjárframlag stefnanda við stofnun stefnda hafi verið bundið við yfirfærslu þekkingar og leiðbeiningar.  Sú yfir­færsla hafi að öllu leyti farið fram.  Hvers kyns afnotaréttur að einkaleyfisverndaðri aðferð hafi hins vegar byggt á sérstökum samningi sem nú hafi verið sagt upp.  Uppsögn samnings feli í sér að réttindi og skyldur samkvæmt honum falli niður og geti stefnandi því gert nýjan samning um alheims einkanýtingarrétt á aðferð sinni við hvern þann sem hann kjósi.  Réttindi stefnda til framleiðslu séu því fallin niður.

Telur stefnandi að það gangi algerlega gegn tilgangi laga um einkaleyfi að líta svo á að félag geti nýtt einkaleyfi annars aðila án gagngjalds fyrir það.  Sá sem sæki um einkaleyfi hafi eytt gífurlegum tíma og fjármunum í að þróa uppfinningu sína og koma henni á laggirnar, og með nytjaleyfissamningum við framleiðendur samkvæmt einkaleyfinu gefist honum færi á að fá hluta af kostnaði sínum endurheimtan.  Þar sem einkaleyfi sé yfirleitt verðmætasta og mikilvægasta eign eiganda þess sé ljóst að allir nytjaleyfissamningar sem séu verulega frábrugðnir því sem venjulegt geti talist verði að vera mjög skýrt orðaðir.  Samningur aðila sem hér um ræði taki á engan hátt á því að um sérstaklega rúman rétt nytjaleyfishafa sé að ræða og verði ákvæði hans því ekki túlkuð á þann hátt sem stefndi geri.

Kröfu sína um hæfilegt endurgjald kveðst stefnandi byggja á 57. og 58. gr. laga um einkaleyfi nr. 17/1991.  Stefndi hafi frá 15. apríl 2005 og til dagsins í dag haldið framleiðslu sinni áfram með nýtingu á einkaleyfi stefnanda.  Stefnandi hafi þar með ekki getað gert nýjan samning við annan framleiðanda þar sem hann hafi ekki getað veitt öðrum einkarétt til framleiðslu samkvæmt einkaleyfi sínu sem væri eðli málsins samkvæmt ábatasamara fyrir stefnanda.  Þar að auki eigi stefndi ekki að hagnast á þessu broti sínu og krefjist stefnandi því greiðslu endurgjalds og bóta úr hendi stefnda sem nemi þeirri fjárhæð sem stefnandi gæti haft frá framleiðanda fyrir nýtingu á einkaleyfi sínu.  Samkvæmt áætlun stefnanda hafi verið gert ráð fyrir 84.000.000 króna veltu á árinu 2005 vegna einkaleyfisins og hefði hann krafið framleiðanda um að minnsta kosti 5% framleiðslugjald á þessu ári, eða 350.000 krónur á mánuði.  Miðað við að uppsögn samningsins hafi tekið gildi 15. apríl 2005 og að málarekstri þessum ljúki í apríl á árinu 2006 þyki ekki óvarlegt að krefjast 4.200.000 króna endurgjalds sem samsvari 350.000 krónum í 12 mánuði.  Verði að telja kröfu þessa hófsama.

Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar stefnandi til ákvæða einkaleyfalaga nr. 17/1991 og sérstaklega til IX. kafla þeirra um endurgjaldskröfu stefnanda.  Þá byggir stefnandi enn fremur á almennum reglum samningaréttarins.  Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Stefndi kveður stefnanda hafa átt frumkvæði að stofnun stefnda í þeim tilgangi að hagnýta uppfinningu til vinnslu bragðefna.  Tilgangur með stofnun stefnda hafi verið að hrinda í framkvæmd hugmyndum stefnanda um framleiðslu og markaðssetningu bragðefna úr sjávarfangi.  Frá upphafi þess að stefnandi hafði frumkvæði ásamt Sjósókn ehf. að stofnun stefnda hafi verið gert ráð fyrir því að félagið fengi til afnota alla tækniþekkingu og réttindi stefnanda varðandi framleiðslu á próteinasablöndu úr þorskslógi, svokölluðu kríótín, til framleiðslu á bragðefnum og öðrum efnum sem verði til við slíka framleiðslu eins og fram komi í samkomulagi um stofnun líftæknifyrirtækis milli Norðurs ehf. og Sjósóknar 9. mars 1999.

Við stofnun stefnda hafi stefnandi lagt fram alla þekkingu til framleiðslu bragðefna og vinnsluleiðbeiningar og annað “know how” sem hlutafjárframlag alls að nafnverði 4.000.000 króna á genginu 13,227, en heildarhlutafé hafi verið 6.804.093 krónur að nafnverði.  Um hafi verið að ræða 58,8% hlut í hinu nýja félagi.  Tilgangur stefnanda með framsali á hinum fjárhagslegu verðmætum sem í uppfinningunni hafi falist og nú njóti einkaleyfaverndar hafi verið að hagnast á notkun hinnar vernduðu uppfinningar í viðskiptum með framleiðslu bragðefna.  Í stað þess að stefnandi færi sjálfur í framleiðslu hafi verið ákveðið að stofna sérstakt félag um framleiðslu bragðefna úr sjávarfangi og aðrir fjárfestar fengnir til liðs við stefnanda, svo sem Sjósókn ehf., Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og síðar fleiri aðilar.

Stefndi hafi því gagngert verið settur á stofn til að nýta einkaleyfi stefnanda.  Með vísan til stofnsamnings fyrir stefnda 22. október 1999 og sérfræðiskýrslu Hjörleifs Pálssonar endurskoðanda 20. október 1999 hafi stefnandi skuldbundið sig til þess að leggja fram tiltekin verðmæti sem fólgin voru í þekkingu til bragðefnavinnslu sem hlutafjárframlag við stofnun stefnda.  Telur stefndi að í hlutafjárframlagi skuli vera fólgin fjárhagsleg verðmæti, en þekking ein og sér án nýtingaréttar teljist ekki til fjárhagslegra verðmæta sem hægt sé að meta sem hlutafjárframlag, sbr. fyrirliggjandi álitsgerð Deloitte, dagsetta 15. desember 2004.  Í stofnsamningi stefnda sé vísað til þess að stefnandi hafi heimild til að greiða hlutafé sitt í öðrum verðmætum en peningum og skyldu þau verðmæti vera metin samkvæmt tilgreindri sérfræðiskýrslu Hjörleifs Pálssonar.  Þar segi meðal annars að matið sé byggt á notagildi framlagðrar þekkingar, svokölluðu “know how”.

Að mati stefnda sé ljóst að framsal á þekkingu stefnanda til bragðefnavinnslu ein og sér hefði enga þýðingu haft nema stefnda væri um leið veittur réttur til að hagnýta þá þekkingu sem í uppfinningunni felist.  Framangreint framsal stefnanda á nýtingarrétti hafi verið skilyrðislaust og án takmarkana og sé það því óafturkræft.  Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingu sinni um annað eða að um takmarkað framsal hafi verið að ræða enda hafi hlutafjárframlag stefnanda verið grunnurinn að starfi hins nýstofnaða félags. Ef kröfur stefnanda í máli þessu nái fram að ganga muni rekstrargrundvelli verða kippt undan starfsemi stefnda, en um leið hefði stefnandi fengið í hendur fjárhagsleg verðmæti í formi hlutabréfa, án þess að fullt endurgjald hafi verið látið af hendi í samræmi við hlutafélagalög. 

Hlutafjárframlag stefnanda hafi falið í sér heimild nýstofnaðs félags til að nýta uppfinninguna í atvinnuskyni.  Slík heimild sé nefnd nytjaleyfi.  Nytjaleyfissamningur stefnanda hafi falið í sér skilyrðislaust framsal á afnotarétti uppfinningar við framleiðslu á bragðefnum sem síðar hafi orðið afnotaréttur að einkaleyfisverndaðri aðferð sem tiltekin hafi verið í stofnsamningi félagsins ásamt með skírskotun til samtímagagna sem stafi frá stefnanda svo sem samnings milli stefnanda og Sjósóknar 9. mars 1999, fundargerðum stjórnar- og hluthafafunda stefnanda og skýrslu stjórnar stefnanda í ársreikningi vegna rekstrarársins 1999.  Gegn afhendingu stefnanda til stefnda á afnotum allrar þekkingar stefnanda og réttindum til einangrunar ensíma og vinnslu bragðefna hafi stefnandi fengið sem endurgjald hlutafé í hinu nýja félagi.  Hér hafi verið um að ræða almennt nytjaleyfi á tiltekinni aðferð til bragðefnavinnslu en það hafi ekki tekið til annarra mögulegra nota einkaleyfisins, svo sem til snyrtivöruframleiðslu eða himnulosunar á fiski.  Þeim rétti hafi stefnandi haldið óskertum.  Þá hafi stefnandi einnig haft heimild  til að veita öðrum aðilum samskonar nytjaleyfi til bragðefnavinnslu án þess að það bryti í bága við almennt nytjaleyfi stefnda.

Við stofnun hins nýja félags hafi verið undirritað samkomulag milli aðila sem falið hafi í sér samningsbundin viðbótarréttindi til stefnda umfram hlutafjárframlag stefnanda til félagsins, sbr. samkomulag 22. október 1999.  Samkvæmt þessu samkomulagi hafi verið um að ræða aðskilda leyfisveitingu stefnanda til stefnda frá hinu almenna nytjaleyfi.  Með þessu samkomulagi hafi stefnandi skuldbundið sig til að veita stefnda alheims einkanýtingarrétt á þekkingu samkvæmt einkaleyfi stefnanda.

Í framangreindu samkomulagi milli aðila sé áréttað hið almenna nytjaleyfi sem gengið hafði verið frá í stofnsamningi.  Segi í 1. tölulið samningsins að framlag stefnanda við stofnun stefnda sé metið til fjár sem stofnframlag stefnanda til félagsins.  Hér sé að sjálfsögðu verið að tala um tiltekin réttindi til aðferðar til bragðefnavinnslu en ekki um einkaleyfið sjálft eins og stefnandi haldi ranglega fram í stefnu.  Einskorðist réttindi stefnda samkvæmt 1. tölulið samkomulagsins við hið almenna nytjaleyfi.

Hins vegar hafi stefnda verið veitt viðbótarréttindi samkvæmt 2. tölulið samkomulagsins sem felist í alheims einkanýtingarrétti til að nýta þekkingu samkvæmt einkaleyfi stefnanda, en sá réttur fylgi ekki hlutafjárframlagi stefnanda til stefnda eins og tekið sé fram í samkomulaginu.  Hér hafi verið um að ræða mun víðtækari réttindi sem hafi falist í því að stefndi greiddi sérstakt 2% framleiðslugjald að uppfylltum ákveðnum skilyrðum fyrir einkanýtingaréttinn.  Hér hafi því verið samið um einkanytjaleyfi sem sé afmarkað að því er varði leyfisgjald og leyfistíma og hafi það innihaldið ákveðið uppsagnarákvæði sem stefnandi hafi nýtt sér síðan.

Tilgangur með einkanytjaleyfi á aðferðum stefnanda samkvæmt einkaleyfi nr. 2002 hafi verið að verjast því að stefnandi gæti veitt öðrum aðilum almennt nytjaleyfi og þar með væri stefndi verndaður frá samkeppni um sölu á samskonar vörum.  Sú vernd hafi átt að falla niður ef ákveðin skilyrði væru ekki uppfyllt.

Telur stefndi ljóst að þrátt fyrir uppsögn stefnanda á samkomulagi aðila frá 22. október 1999 geti stefndi eftir sem áður haldið óbreyttri starfsemi á grundvelli almenns nytjaleyfis þótt hann sitji ekki lengur einn að hagnýtingu þekkingarinnar samkvæmt einkaleyfinu.  Þetta byggi hann á samtímagögnum varðandi stofnun stefnda svo sem fundargerðum og samningum.  Þá telur stefndi að gögn sem stafi frá stefnanda sjálfum beri eindregið með sér að almennt nytjaleyfi hafi verið skilyrðislaust veitt með framlagningu hlutafjár í hið nýja félag þegar stefnandi hafi fengið hlutabréf í stefnda í staðinn fyrir framleiðslu- og afnotaréttinn.

Þá kveðst stefndi byggja kröfur sínar á því að honum hafi verið veittur fornotkunarréttur á hinni einkaleyfisvernduðu aðferð sem grundvallist á þeim samningum og yfirlýsingum sem stefnandi hafi staðið að við stofnun stefnda árið 1999.   Hafi stefnandi skuldbundið sig í samningi um stofnun líftæknifyrirtækis við Sjósókn sem gerður var 9. mars 1999 að afhenda hinu nýja félagi til afnota alla tækniþekkingu og réttindi varðandi framleiðslu bragðefna og hafi aðilar samningsins sammælst um að leggja sameiginlega fram réttindi sín og þekkingu sem einn þekkingarpakka og semja um sameiginlegt endurgjald fyrir hann í formi hlutafjár við stofnun stefnda.  Stefnandi hafi síðan lagt fram einkaleyfisumsókn 20. október 1999 og miðist forgangsréttur vegna einkaleyfisins við þann dag.  Á þeim tíma hafði stefnandi skuldbundið sig til að veita hinu nýja félagi afnotarétt að aðferð þeirri sem sótt var um einkaleyfi fyrir og hafi sú notkun hafist strax eftir að stefndi hóf starfsemi sína eftir stofnun árið 1999.

Stefndi kveðst líta svo á að í samræmi við þau sjónarmið sem liggi til grundvallar fornotkunarrétti, sbr. 4. gr. laga nr.  17/1991,  sé stefnda eftir sem áður heimil notkun á hinni einkaleyfisvernduðu aðferð til bragðefnavinnslu þar sem leyfi til hagnýtingar hafi verið veitt áður en umsókn um einkaleyfi hafi verið lögð fram og stefndi hafi frá stofnun hagnýtt sér þá aðferð.  Sé stefnda því heimil áframhaldandi hagnýting þar sem hann hafi gert verulegar ráðstafanir og ráðist í mikinn kostnað til að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni hér á landi.

Beri stefnandi að færa allar sönnur á staðhæfingar sínar um að hlutafjárframlag stefnanda við stofnun stefnda hafi verið bundið við yfirfærslu þekkingar og leiðbeiningar og afnotaréttur af einkaleyfisverndaðri aðferð hafi byggt á sérstökum samningi sem nú hafi verið sagt upp.  Þessi túlkun stefnanda styðjist ekki við framlögð gögn sem bendi til hins gagnstæða.  Hafi verið um að ræða tvö aðskilin afnotaréttindi, annars vegar almennt ótímabundið nytjaleyfi sem hafi verið framselt stefnda skilyrðislaust og hins vegar skilyrt einkanytjaleyfi sem hafi verið uppsegjanlegt og hafi stefnandi sagt því upp.

Hefði stefnanda sem einkaleyfishafa, og þeim uppfinningamönnum sem verið hafi hluthafar í stefnanda þegar stefndi var stofnaður, verið í lófa lagið að setja inn skýrari ákvæði í stofnsamning eða samkomulag aðila og í samninga við aðra hluthafa stefnda um framsal þeirra réttinda til afnota hinnar vernduðu uppfinningar og sömuleiðis samninga sína við aðra hluthafa stefnda um framsal þeirra á réttindum til afnota af hinni vernduðu uppfinningu.  Ákvæði um að réttindin væru takmörkuð með tilteknum hætti, væru háð leyfisgjaldi eða tímabundin, hafi ekki verið sett í samninga aðila heldur hafi almennur nýtingarréttur á hinni vernduðu uppfinningu verið lagður fram skilyrðislaust og án takmarkana sem hlutafjárframlag við stofnun stefnda.  Verði stefnandi að bera hallann af skorti á sönnun um að framsal stefnanda á nýtingarrétti á uppfinningunni hafi verið bundið frekari skilyrðum, s.s. um að gerður væri sérstakur nytjaleyfissamningur eða að réttur stefnda til almenns nytjaleyfis væri afmarkaður eða tímabundinn.  Skoðun á gögnum sem liggi til grundvallar undirbúningi og stofnun stefnda bendi eindregið til þess að réttindi til handa stefnda til afnota á uppfinningu stefnanda til framleiðslu bragðefna hafi verið afhent skilyrðislaust og án takmarkana enda meginforsenda fyrir rekstri stefnda.

Þá hafi stefnandi enn fremur alla sönnunarbyrði um að leyfisveiting til stefnda til nýtingar á hinni einkaleyfisvernduðu aðferð hafi verið takmörkuð og þrengri en gögn málsins gefi til kynna.  Engar sönnur hafi verið færðar á að hið almenna nytjaleyfi hafi fallið úr gildi á sama tíma og einkanytjaleyfið.  Ef svo væri myndu réttindi stefnanda til hlutabréfa í stefnda falla niður og bæri stefnanda að selja þau bréf og myndi hann þar með hagnast eftir sem áður á hlutabréfeign sinni þótt almenna nytjaleyfið félli niður. Málatilbúnaður stefnanda sé því byggður á veikum grunni og gangi ekki upp.  Sé sú þversögn í málatilbúnaði stefnanda að næði aðalkrafan fram að ganga yrðu hlutabréf stefnanda í stefnda verðlaus þar sem kippt væri öllum stoðum undan rekstri stefnda. 

Haldi stefnandi því fram að við gerð starfslokasamnings við Berg Benediktsson hafi verið kvittað fyrir greiðslu hlutafjárframlagsins og eigi stefndi á þeim grundvelli engan rétt á hendur stefnanda.  Hér hafi verið um að ræða starfslokasamning sem undirritaður hafi verið af framkvæmdarstjóra stefnda og hafi hann fjallað um  persónulegt uppgjör við Berg sem starfsmann stefnda.  Hafi samningur þessi verið óviðkomandi hlutafjárframlagi einstakra hluthafa stefnda eða stofnsamningi sem stefnandi hafi verið aðili að ásamt öðrum hluthöfum.  Þá hafi framkvæmdastjóri stefnda ekkert umboð haft til að afsala þeim réttindum sem stefnandi haldi fram að gert hafi verið með starfslokasamningnum, án samþykkis hluthafafundar stefnda.

Þá haldi stefnandi því líka fram að nauðsynlegt hefði verið að gera sérstakan nytjaleyfissamning um nýtingu stefnda á uppfinningu stefnanda. Engin krafa sé í lögum um sérstakt form eða efni nytjaleyfissamninga.  Hafi stefndi ítrekað bent á að um þau atriði sem mestu máli hafi skipt varðandi veitingu almenns nytjaleyfis og um endurgjald fyrir slíkt leyfi hafi verið samið í stofnsamningi fyrir stefnda og  samkomulagi sem staðfest hafi verið af stjórn stefnanda með skuldbindandi hætti og rakið í árskýrslu stefnanda svo ekki hafi verið þörf á sérstökum samningi um þetta efni.  Hafi stefnandi aldrei áskilið sérstakt endurgjald fyrir hið almenna nytjaleyfi eða  gert kröfu um að stefndi gerði nytjaleyfissamning við stefnanda.  Stefnanda hafi líka verið í lófa lagið að leggja slíkan nytjaleyfissamning fram í upphafi.  Beri stefnandi því hallann af öllum skorti á sönnun um einhverjar takmarkanir á þeim afnotarétti sem veittur hafi verið af hinni einkaleyfisvernduðu aðferð til stefnda.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um endurgjald sem hann reisi á 57. og 58. gr. laga nr. 17/1991.  Sú krafa sé tilhæfulaus og ósönnuð.  Sé krafan byggð á áætlun stefnanda um veltu stefnda á árinu 2005 og eigi stefnandi kröfu til að minnsta kosti 5% framleiðslugjalds fram til apríl 2006, eða alls 4.200.000 krónur í bætur. 

Samkomulag aðila um alheims einkanýtingarrétt stefnda hafi aðeins gert ráð fyrir 2% framleiðslugjaldi og sé 5% gjald því úr lausu lofti gripið og eigi enga stoð í gögnum málsins, samningum aðila eða almennum reglum.  Samkomulagi aðila um framleiðslugjald fyrir alheims einkanýtingarrétt hafi stefnandi sagt upp og hafi sú uppsögn tekið gildi 15. apríl 2005.   Geti stefnandi ekki gert kröfu um endurgjald fyrir nýtingu á einkaleyfinu eftir að uppsögnin tók gildi og endurgjald stefnda fyrir hið almenna nytjaleyfi hafi þegar verið greitt samkvæmt fyrrgreindri sérfræðiskýrslu Hjörleifs Pálssonar endurskoðanda og hafi stefnandi fengið hlutabréf í stefnda í staðinn.  Þá hafi stefnandi engin gögn lagt fram um veltu á árinu 2005 sem hann byggi áætlanir sínar á og sé áætlun stefnanda því tilhæfulaus með öllu.  Grundvöllur bótakröfu stefnanda sé því byggður á ófullnægjandi gögnum.  Þá hafi ekki verið sýnt fram á tjón stefnanda á því að hafa ekki getað að eigin sögn veitt öðrum einkarétt til framleiðslu samkvæmt einkaleyfinu og loks séu engin skilyrði fyrir hendi sem leiða muni til bótaskyldu af hálfu stefnda.

Auk þess sem að framan sé rakið kveðst stefndi byggja kröfur sínar á meginreglum samningaréttar, ákvæðum hlutafélagalaga og ákvæðum laga um einkaleyfi og réttarfar.  Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991.

V

Ekki er deilt um að uppsögn samkomulags aðila hafi tekið gildi 15. apríl 2005 en eins og rakið hefur verið er ágreiningur milli aðila um hvort stefnda sé heimilt eftir uppsögn samkomulagsins að framleiða bragðefni og ensím til bragðefnavinnslu samkvæmt einkaleyfi stefnanda.  Stefnandi telur að með uppsögn samkomulagsins hafi fallið niður framleiðsluréttur stefnanda en stefndi hins vegar telur að með uppsögn samningsins hafi eingöngu fallið niður alheims einkanýtingarréttur stefnda sem hafi varið hann fyrir samkeppni. 

Aðilar máls þessa gerðu með sér samkomulag um alheims einkanýtingarrétt stefnda til nýtingar á þekkingu samkvæmt hluta einkaleyfisumsóknar stefnanda hinn 22. október 1999.  Kemur þar fram í 1. gr. að stefnandi muni við stofnun stefnda leggja fram sem hlutafjárframlag af sinni hálfu þekkingu til kríótínvinnslu til bragðefnavinnslu, þekkingu til sjálfrar bragðefnavinnslunnar, vinnsluleiðbeiningar við vinnslu á kríótíni, og vinnsluleiðbeiningar til vinnslu á bragðefnum úr sjávarfangi með kríótíni, auk nafnsins Norður ásamt merki og vörumerkinu North foods.  Um nánari útlistun framangreindra atriða var vísað til viðeigandi hluta fyrirliggjandi einkaleyfisumsóknar stefnanda 20. október 1999 sem teljist órjúfanlegur hluti af samkomulaginu.  Framlag stefnanda við stofnun stefnda samkvæmt framangreindu væri metið til fjár sem stofnframlag stefnanda til stefnda.

Í 2. gr. samkomulags aðila veitti stefnandi stefnda alheims einkarétt á nýtingu þekkingar samkvæmt 1. gr. samkvæmt hluta einkaleyfisumsóknar hans, en tekið var fram að sá réttur fylgdi ekki hlutafjárframlagi stefnanda til stefnda.  Þá samþykkti stefndi samkvæmt samkomulaginu að greiða stefnanda 2% framleiðslugjald af verði seldra afurða sem framleiddar væru samkvæmt þessum alheims einkanýtingarrétti. 

Þá segir í 3. gr. samkomulagsins að samkomulag þetta sé ótímabundið og óuppsegjanlegt af hálfu beggja meðan einkaleyfi stefnanda sé í gildi nema skriflegt samkomulag verði um annað.  Þó sé stefnanda heimilt að segja upp samkomulagi þessu með þriggja mánaða fyrirvara ef verulegar vanefndir verða á greiðslu framleiðslugjalds og voru aðilar sammála um að fimm mánaða vanskil væru veruleg.  Þá var stefnanda heimilt að segja samkomulaginu upp með þriggja mánaða fyrirvara ef stefndi hætti framleiðslu samkvæmt einkaleyfi stefnanda í 12 mánuði eða lengur og ef ársframleiðsla stefnda á bragðefnum næði ekki 450 tonnum á ári en þó ekki fyrr en 1. janúar 2005.  Þá var í 4. gr. samkomulagsins ákvæði um að ekkert framleiðslugjald skyldi greiðast af fyrstu 450 tonnunum af bragðefnum sem framleidd væru á grundvelli alheims nýtingarréttarins.

Sama dag og framangreint samkomulag milli aðila var undirritað var gerður stofnsamningur fyrir stefnda og var stærsti hluthafinn stefnandi með hlutafé að nafnverði 4.000.000 króna en heildarhlutafé félagsins var að nafnverði 6.804.093 krónur.  Samkvæmt samningi þessum skyldi hlutaféð greitt í reiðufé en stefnanda var heimilað að greiða hlutaféð með framsali á þekkingu, leiðbeiningum, nafni, merki og vörumerki og eins og nánar greinir hér að ofan og er ákvæði stofnsamningsins samhljóða 1. gr. samkomulags aðila að þessu leyti og vísað til þess að þetta sé í samræmi við sérfræðiskýrslu Hjörleifs Pálssonar, löggilts endurskoðanda. 

Sérfræðiskýrsla Hjörleifs Pálssonar er dagsett 20. október 1999 og leggur hann þar mat á framangreind verðmæti sem stefnandi lagði til við stofnun stefnda.  Kemur fram að matið sé miðað við notagildi framlagðrar þekkingar (“know how”) og viðeigandi vinnsluleiðbeininga í höndum stefnda.  Hafi vinna við þróun þekkingarinnar þegar verið innt af hendi og staðfesti Hjörleifur að verðmæti hinnar framlögðu þekkingar og viðeigandi vinnsluleiðbeininga svari að minnsta kosti til hlutafjárframlagsins sem sé endurgjaldið fyrir þekkinguna.

Stefndi heldur því fram að í hlutafjárframlagi stefnanda hafi falist skilyrðislaust óafturkræft framsal á nýtingarrétti sem sé án takmarkana.  Hafi þannig falist í hlutafjárframlagi stefnanda almennt nytjaleyfi til handa stefnda.  Sé hið almenna nytjaleyfi áréttað í 1. gr. samkomulags aðila auk þess sem samtímagögn varðandi stofnun stefnda, fundargerðir og samningar beri þetta með sér.  Þá beri gögn sem stafi frá stefnanda sjálfum þetta eindregið með sér.  Sé ljóst að mati stefnda að framsal á þekkingu án nýtingarréttar hafi enga þýðingu.  Þá sé 2. gr. samkomulags aðila viðbótarákvæði sem verndað hafi stefnda gegn samkeppni. 

Eins og að framan er rakið er nákvæmlega tilgreint samkomulagi aðila,  stofnsamningi fyrir stefnda og sérfræðiskýrslu Hjörleifs Pálssonar hvað stefnandi lét af hendi til greiðslu hlutafjár í stefnda. Var hlutafjárframlag stefnanda í formi þekkingar, vinnsluleiðbeininga, nafns, merkis og vörumerkis. Samkvæmt skýru ákvæði samkomulags aðila, sem fær stuðning í stofnsamningi fyrir stefnda og í sérfræðiskýrslu Hjörleifs Pálssonar verður ekki annað ráðið en að þar sé upptalið nákvæmlega hvað stefnandi lét af hendi til að greiða hlutafé sitt í stefnda.  Hvergi í þessum skjölum er vikið að samningi um framleiðslurétt stefnda að öðru leyti en gert er í 2. gr. samkomulagsins og er því vandséð hvernig túlka megi umrædda 1. gr. í samkomulagi aðila á þann hátt að innifalið í hlutafjárframlagi stefnanda hafi verið skilyrðislaust framsal á afnotarétti einkaleyfis stefnanda.  Þá verður það á engan hátt ráðið af gögnum þeim sem stefndi nefnir samtímagögn sem stafi frá stefnanda eða öðrum gögnum að um slíkt framsal hafi verið að ræða.  Við mat á sönnunargildi fyrirliggjandi álitsgerðar endurskoðanda stefnda verður að líta til þess að hún endurspeglar einungis túlkun hans á umdeildum samningum aðila.  Þá er til þess að líta að samningur milli Norðurs ehf., forvera stefnanda og Sjósóknar ehf. í mars 1999 um stofnun líftæknifyrirtækis er ekki samningur milli aðila þessa máls og verður efni hans á engan hátt bindandi fyrir það samkomulag sem aðilar þessa máls gerðu síðar.  Að því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefndi engin haldbær gögn lagt fram sem styðja framangreindar fullyrðingar hans um að hann hafi, þrátt fyrir uppsögn á samkomulagi aðila, heimild til að halda áfram framleiðslu á grundvelli einkaleyfis stefnanda og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.  

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið var stefnda með samkomulagi aðila veittur alheims einkaréttur á nýtingu þekkingar samkvæmt einkaleyfi stefnanda en annar framleiðsluréttur til handa stefnda fólst ekki í samkomulagi aðila.  Hefði svo átt að vera var nauðsynlegt, ekki síst með tilliti til þess að hér er um að ræða mikilsverð réttindi sem stefndi virðist byggja tilverugrundvöll sinn á, að taka það fram með skýrum og ótvíræðum hætti í samningi aðila eins og gert var varðandi veitingu stefnda á alheims einkarétti á nýtingu þekkingar samkvæmt einkaleyfi stefnanda.  Sönnunarbyrðin fyrir því að slíkur samningur hafi verið gerður hvílir alfarið á stefnda og hefur honum ekki tekist sú sönnun.

Eins og rakið hefur verið er ágreiningslaust að stefnandi sagði samkomulagi sínu við stefnda upp þar sem stefndi fullnægði ekki því skilyrði samningsins að framleiða 450 tonn á ári.  Tók uppsögnin gildi 15. apríl 2005 og með vísan til þess sem að framan er rakið féll þá niður heimild stefnda til framleiðslu samkvæmt einkaleyfi stefnanda. 

Samkvæmt gögnum málsins var Bergur Benediktsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, ráðinn tæknilegur framkvæmdastjóri stefnda og var hann ráðinn til þess að yfirfæra þá þekkingu og vinnsluleiðbeiningar sem voru samkvæmt framansögðu stærsti hluti hlutafjárframlags stefnanda.  Kemur fram í starfslokasamningi Bergs og stefnda að með honum séu samningsaðilar sammála um að Bergur hafi af sinni hálfu uppfyllt ákvæði samninga um yfirfærslu þekkingar samkvæmt samningi aðila.  Undir þennan samning ritar fyrirsvarsmaður stefnda.  Af málatilbúnaði stefnda verður ekki ráðið að ágreiningur sé um það í málinu að sá hluti samkomulags aðila sem lýtur að yfirfærslu  þekkingar og vinnsluleiðbeininga af hálfu stefnanda til stefnda hafi verið efndur og því ekki efni til að fjalla um það frekar hvort fyrirsvarsmaður stefnda hafi með undirritun sinni á starfslokasamning Bergs farið út fyrir umboð sitt svo sem ráða má af málatilbúnaði stefnda.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er ljóst að stefnandi hefur staðið við samkomulag aðila og stofnsamning um greiðslu hlutafjár í stefnda.

Í 4. gr. laga nr. 17/1991 um einkaleyfi  segir að hagnýti einhver sér uppfinningu í atvinnuskyni hér á landi þegar annar leggi inn einkaleyfisumsókn um hana megi hinn fyrrnefndi halda þeirri hagnýtingu áfram með sem líkustum hætti þrátt fyrir veitt einkaleyfi, svo fremi að hún sé ekki augljós misbeiting gagnvart umsækjanda eða einhverjum sem hann sækir rétt sinn til.  Á sama hátt er hagnýting heimil þeim sem gert hefur verulegar ráðstafanir til að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni hér á landi. 

Eins og slegið hefur verið föstu byggðist heimild stefnda til nýtingar á einkaleyfi stefnanda á 2. gr. samkomulags aðila frá 22. október 1999.  Forgangsréttur stefnanda til einkaleyfis miðast við umsókn hans 20. október 1999.  Verður því ekki fallist á það með stefnda að honum sé heimil notkun á hinni einkaleyfisvernduðu aðferð til bragðefnavinnslu á grundvelli tilvitnaðrar 4. gr. á þeim grundvelli að leyfi til hagnýtingar hafi verið veitt áður en umsókn um einkaleyfi hafi verið sett fram.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er ljóst að stefnandi hefur ekki lengur heimild til áframhaldandi framleiðslu á grundvelli einkaleyfis stefnanda og verður því krafa stefnanda um að lagt verði bann við nýtingu stefnda á einkaleyfi stefnanda tekin til greina.

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um hæfilegt endurgjald á 57. og 58. gr. laga nr. 17/1991 um einkaleyfi.  Samkvæmt 57. gr. skal sá sem af ásetningi skerðir einkarétt þann er einkaleyfi veitir sæta sektum eða, ef sök er mikil, fangelsi, allt að þremur mánuðum.  Ef brot er framið af félagi eða öðru fyrirtæki er heimilt að dæma það í fésekt.  Sá sem misgert er við á sókn sakar.  Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. skal sá sem af ásetningi eða gáleysi skerðir einkaleyfisrétt greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu uppfinningar og að auki skaðabætur fyrir annað það tjón sem skerðingin hefur haft í för með sér.  Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins  er sá skyldur til að greiða endurgjald og skaðabætur samkvæmt 1. mgr. ef hann skerðir einkaleyfisrétt án þess að um ásetning eða gáleysi hafi verið að ræða ef og að því marki sem það telst sanngjarnt.

Eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað verður ekki annað ráðið en að krafa hans um hæfilegt endurgjald byggi aðeins á 58. gr. laganna.  Er krafa stefnanda um endurgjald og skaðabætur og byggir hann hana á því að hann hafi ekki getað gert nýjan samning við annan framleiðanda þar sem hann hafi ekki getað veitt neinum öðrum einkarétt til framleiðslu samkvæmt einkaleyfi sínu en það sé eðli málsins mun ábatasamara fyrir stefnanda að geta veitt einum aðila einkarétt.  Þá eigi stefndi ekki að hagnast á broti sínu.  Byggir stefnandi útreikning kröfunnar á því að samkvæmt áætlun hans hafi verið gert ráð fyrir 84.000.000 króna veltu og hefði hann krafið framleiðanda um að minnsta kosti 5% framleiðslugjald á árinu eða sem samsvari 350.000 krónum á mánuði frá apríl 2005 til apríl 2006 eða samtals 4.200.000 króna endurgjald.  Samkvæmt því er krafan eingöngu um endurgjald þótt stefnandi lýsi því í upphafi að um sé að ræða endurgjald og skaðbætur.  Er því allsendis óljóst hvort og þá á hvaða hátt stefnandi hafi orðið fyrir tjóni og hvert umfang þess tjóns hafi verið.

Þá er fullyrðingum í stefnu um áætlun veltu engum gögnum studd og á engan hátt rökstutt á hverju stefnandi byggir kröfu um 5% framleiðslugjald af veltu en samningur aðila gerði ráð fyrir 2% framleiðslugjaldi af verði seldra afurða.  Þykir stefnandi ekki hafa lagt fram haldbær gögn sem sýna nægilega fram á grundvöll og fjárhæð kröfunnar og brestur þannig mjög á að krafa hans að þessu leyti sé studd viðhlítandi gögnum til að á hana verði lagður efnisdómur, sbr. d-, e- og g-liðir 1.mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Verður því ekki hjá því komist að vísa þessari kröfu stefnanda frá dómi þrátt fyrir að frávísunarkröfu stefnda hafi áður verið hrundið, sbr. 3. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 en krafa stefnda um frávísun þessarar kröfu byggði á öðrum málsástæðum og lagarökum en frávísun kröfunnar byggir á nú og hefði stefnandi getað bætt úr þeim ágöllum, sem nú leiða til frávísunar kröfu hans, við meðferð málsins.

Eftir atvikum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ragnheiður M. Ólafsdóttir hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Jón Ögmundsson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefnda, Norðurís hf., er bönnuð nýting á einkaleyfi stefnanda, Norðurs ehf., sbr. einkaleyfisskráningu nr. 2002 frá 15. apríl 2005.

Vísað er frá dómi kröfu stefnanda um að stefndi greiði 4.200.000 krónur í endurgjald fyrir nýtingu einkaleyfisins.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.