Hæstiréttur íslands

Mál nr. 371/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Matsmenn
  • Þóknun


Miðvikudaginn 16

 

Miðvikudaginn 16. ágúst 2006.

Nr. 371/2006.

Birgir Jónsson og

Magnús Axelsson

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Ómari Antonssyni

(Karl Axelsson hrl.)

 

Kærumál. Matsmenn. Þóknun.

Aðila greindi á um þóknun handa B og M vegna starfa þeirra sem matsmanna, sem Ó fékk þá dómkvadda til. Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var talið að greiða ætti matsmanni hæfileg laun fyrir störf hans, en ekki áskilið endurgjald sem kynni að miðast við rekstur hans. Af þeim sökum var því hafnað að hæfileg þóknun handa B og M ætti að fela í sér annað en laun fyrir vinnu við matið. Af sömu ástæðu var ekki talið hægt að leggja til grundvallar endurgjald sem sérfræðingar áskilja sér, enda væri tekið tillit til rekstrarkostnaðar við ákvörðun þess. Talið var að hæfilegt tímagjald fyrir vinnu B og M væri 6.000 krónur og var þóknun þeirra ákveðin með tilliti til þess.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2006, þar sem leyst var úr ágreiningi um þóknun handa sóknaraðilum vegna starfa þeirra sem matsmanna, sem varnaraðili fékk þá dómkvadda til. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að þóknun Birgis Jónssonar verði ákveðin 799.106 krónur og Magnúsar Axelssonar 2.510.599 krónur, hvort tveggja að meðtöldum útlögðum kostnaði, aksturskostnaði og virðisaukaskatti. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins leitaði varnaraðili 21. mars 2005 dómkvaðningar tveggja manna til að meta verðmæti jarðar sinnar, Horns í Hornafirði, verðmæti malarefnis úr jarðgöngum í landi hennar, sem matþoli, Vegagerðin, hafði þá látið hefja vinnu við, og verðrýrnun jarðarinnar vegna vegalagningar og jarðgangagerðar. Áður hafði matsnefnd eignarnámsbóta kveðið á um bætur handa varnaraðila vegna þeirra framkvæmda, sem hér um ræðir, en við niðurstöður hennar vildi hann ekki una að því leyti, sem matsgerðar var leitað. Á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2005 var sóknaraðilinn Birgir dómkvaddur sem matsmaður ásamt öðrum, sem leitaði síðar lausnar frá starfinu, og var sóknaraðilinn Magnús dómkvaddur í hans stað 24. sama mánaðar. Sóknaraðilar luku störfum með matsgerð, sem ekki var dagsett nánar en með orðunum „nóvember 2005“. Þeir gerðu reikninga vegna starfa sinna á hendur varnaraðila með þeim fjárhæðum, sem þeir krefjast í málinu samkvæmt framansögðu. Í reikningi sóknaraðilans Birgis, sem dagsettur var 10. apríl 2006, var tilgreint að unnin hafi verið 71 klukkustund við matið og voru áskildar 8.900 krónur fyrir hverja, eða 631.900 krónur. Útlagður kostnaður var talinn nema 12.390 krónum, en virðisaukaskattur 154.816 krónum. Í reikningi sóknaraðilans Magnúsar, sem dagsettur var 1. janúar 2006, kom fram að hann hafi unnið 175,5 klukkustundir við matið og væri verð fyrir hverja þeirra 10.900 krónur. Þóknun fyrir vinnu nam þannig 1.912.950 krónum, en þar við bættust 52.275 krónur fyrir akstur og 51.320 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Við samtölu þessara fjárhæða, 2.016.545 krónur, lagði sóknaraðilinn virðisaukaskatt að fjárhæð 494.054 krónur. Varnaraðili vildi ekki una við þessa reikninga og leitaði 11. apríl 2006 úrskurðar héraðsdómara um þóknun handa sóknaraðilum við matsstörfin, sbr. 2. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991. Með hinum kærða úrskurði var leyst úr ágreiningi aðilanna um þetta efni.

Við meðferð málsins hefur varnaraðili lýst því yfir að ekki sé deilt um þann fjölda klukkustunda, sem sóknaraðilar hafi varið til starfa sinna. Í hinum kærða úrskurði er greint frá þeim rökum, sem sóknaraðilar hafa fært fyrir fjárhæð umkrafinnar þóknunar fyrir vinnu við matsgerðina. Verður að fallast á með héraðsdómara að sú fjárhæð sé að mun of há. Með vísan til þess, sem greinir í hinum kærða úrskurði, er hæfilegt tímagjald fyrir vinnu hvors sóknaraðila 6.000 krónur. Samkvæmt því verður þóknun handa sóknaraðilanum Birgi 426.000 krónur, auk virðisaukaskatts af þeirri fjárhæð, 104.370 krónur, og útlagðs kostnaðar, 12.390 krónur, eða alls 542.760 krónur. Á sama hátt verður þóknun sóknaraðilans Magnúsar 1.053.000 krónur, auk greiðslu fyrir akstur, 52.275 krónur, virðisaukaskatts af þeim fjárhæðum, 270.792 krónur, og útlagðs kostnaðar, 51.320 krónur, eða samtals 1.427.387 krónur.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómsorð:

Þóknun handa sóknaraðilum, Birgi Jónssyni og Magnúsi Axelssyni, fyrir störf við matsgerð, sem varnaraðili, Ómar Antonsson, fékk þá dómkvadda til að gera, er ákveðin þannig að þóknun Birgis nemur alls 542.760 krónum, en Magnúsar 1.427.387 krónum.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

                                                                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 206.

Málið barst dóminum 24. apríl sl. og var þingfest 19. maí sl.  Það var tekið til úr­skurðar að loknum munnlegum flutningi 7. júní sl. 

Sóknaraðili er Ómar Antonsson, Hagatúni 20, Hornafirði.

Varnaraðilar eru Birgir Jónsson, Seiðakvísl 24, Reykjavík, og Magnús Axels­son, Miðengi 1, Selfossi.

Með beiðni 21. mars 2005 óskaði sóknaraðili eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að “skoða og meta:  Verðmæti jarðarinnar Horns I í Hornafirði á hvern hektara, verðmæti malarefnis úr væntanlegum jarðgöngum á hvern rúmmetra og verð­rýrnun jarðarinnar vegna fyrirhugaðrar vegalagningar og jarðgangagerðar.”  Varnar­aðilar voru dómkvaddir til verksins og hafa þeir unnið matsgerð sem dagsett er í nóvember 2005.  Þeir gerðu sóknaraðila reikninga fyrir störf sín og með bréfi til dómsins 11. apríl sl. beiddist hann þess að úrskurðað yrði um reikningana, sbr. 1. mgr. 66. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að þóknun þeirra verði úrskurðuð í sam­ræmi við reikninga þeirra.  Þá er krafist málskostnaðar og við ákvörðun hans tekið til­lit til eigin vinnu þeirra við að rita greinargerð um matsstörfin.

Reikningur varnaraðilans Birgis er fyrir vinnu í 71 klukkustund og áskilur hann sér 8.900 krónur á hverja stund auk virðisaukaskatts.  Varnaraðilinn Magnús gerir reikning fyrir vinnu í 175,5 stundir og áskilur sér 10.900 krónur fyrir hverja stund auk virðisaukaskatts.  Ekki er ágreiningur um fjölda vinnustunda og heldur ekki um útlagðan kostnað sem varnaraðilar hafa gert sóknaraðila reikning fyrir.  Eftir stendur þá ágreiningur um hvort tímagjald varnaraðila sé hæfilegt og tekur reifun máls­ins hér á eftir mið af því.   

II

Í beiðni sóknaraðila segir að varnaraðilar hafi tilkynnt sér í apríl sl. að mats­gerðin væri tilbúin.  Þá hafi verið óskað eftir reikningum og hafi varnaraðilinn Birgir upp­lýst að reikningur hans fyrir þóknun og kostnað væri samtals 799.106 krónur og reikningur Magnúsar 2.510.599 krónur eða samtals 3.309.705 krónur.  Sóknaraðili kveðst hafa tjáð varnaraðilum að þessar fjárhæðir væru langt umfram það sem hann teldi eðlilegt og var þess í framhaldinu krafist að dómurinn úrskurðaði um reikn­ingana.

Í beiðni lögmanns sóknaraðila segir síðan:  “Af hálfu umbjóðanda okkar er talið að fjárhæðir reikninga matsmanna verði að teljast óhæfilegar.  Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. laga um meðferð einkamála eiga matsmenn rétt á hæfilegri þóknun vegna starfa sinna.  Umbjóðandi okkar bendir m.a. á að ekki þekkist dæmi um svo háar þókn­anir fyrir matsstörf og að fjárhæðir reikninganna geti ekki talist í samræmi við um­fang verksins, en matsbeiðandi var aldrei upplýstur um að kostnaður gæti numið ná­lægt þeirri fjárhæð, sem nú er krafist greiðslu á.  Þótt matsgögn hafi verið mörg og mats­fundur hafi verið langur getur það ekki réttlætt viðlíka kostnað.”  Við munnlegan flutn­ing kom fram hjá lögmanni sóknaraðila að ekki væri ágreiningur um þann tíma­fjölda sem varnaraðilar teldu sig hafa varið til matsstarfanna.

III

Í greinargerð varnaraðila kemur fram að mismunur á tímagjaldi þeirra skýrist af því að Magnús vinni samkvæmt gjaldskrá fyrir útselda vinnu en Birgir sé í föstu starfi og ekki með sjálfstæðan rekstur.  Magnús starfi sjálfstætt og verði að taka með í reikn­inginn, þegar hann reiknar sér þóknun, ýmis gjöld sem slíkri starfsemi fylgi.  Þá hafi Magnús mun lengri reynslu af matsstörfum en Birgir.  Varnaraðilar byggja á því að þeir hafi áskilið sér endurgjald fyrir hverja klukkustund sem sé í samræmi við það sem sambærilegir sérfræðingar taki og vitna þar til lögmanna og endurskoðenda. 

Þá byggja varnaraðilar á því að sérfræðistörf séu verðmæt, enda búi þar að baki góð menntun og starfsreynsla.  Á þeim grunni skili sérfræðingar vandaðri vinnu og hún sé dýr, enda talin þóknunarinnar virði.

IV

Um matsgerðir er fjallað í IX. kafla laga um meðferð einkamála.  Af ákvæðum kaflans verður ekki annað ráðið en eingöngu verði einstaklingar dómkvaddir sem mats­menn.  Í 2. mgr. 63. gr. laganna segir að matsmaður eigi rétt á hæfilegri þóknun fyrir störf sín samkvæmt reikningi og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar úr hendi mats­beiðanda.  Það á með öðrum orðum að greiða matsmanni hæfileg laun fyrir störf hans, en ekki að greiða honum áskilið endurgjald sem kann að miðast við rekstur hans.  Hafi hann útgjöld af matsstarfanum á hann að gera grein fyrir þeim með reikningi og á þá rétt á að fá þau endurgreidd.  Af þessum sökum hafnar dómurinn því að hæfileg þóknun til varnaraðila eigi að fela í sér annað en laun fyrir vinnu við matið.  Þá er af sömu ástæðu ekki hægt að leggja til grundvallar endurgjald sem sérfræðingar, eins og lög­menn og endurskoðendur, áskilja sér, enda er tekið tillit til rekstrarkostnaðar við ákvörðun þess.  Af gögnum þeim sem liggja fyrir dóminum varðandi endurgjald sér­fræð­inga og viðmiðunarreglum dómstólaráðs má draga þá ályktun að um helmingur hins áskilda gjalds séu laun en um helmingur vegna reksturs starfans.  Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að hæfileg þóknun til handa varnaraðilum séu 5.000 krónur á tímann auk virðisaukaskatts.  Ágreiningslaust er að varnaraðilinn Magnús vann 175,5 tíma og á því að greiða honum 877.500 krónur og varnaraðilinn Birgir vann 71 tíma og á því að greiða honum 355.000 krónur.  Þá á að greiða varnaraðilum virðis­aukaskatt af þessum fjárhæðum og útlagðan kostnað og akstur eins og þeir krefjast með reikningum sínum og er ágreiningslaust.

 Rétt er að málskostnaður falli niður.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Sóknaraðili, Ómar Antonsson, greiði varnaraðila, Magnúsi Axelssyni, 877.500 krónur auk virðisaukaskatts og varnaraðila Birgi Jónssyni, 355.000 krónur auk virðis­auka­skatts.  Sóknaraðili greiði varnaraðilum fyrir útlagðan kostnað og akstur samkvæmt reikningum þeirra. 

Málskostnaður fellur niður.