Hæstiréttur íslands
Mál nr. 42/2006
Lykilorð
- Rán
- Frelsissvipting
- Fíkniefnalagabrot
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 11. maí 2006. |
|
Nr. 42/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Axel Karli Gíslasyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Rán. Frelsissvipting. Fíkniefnalagabrot. Skilorðsrof.
A var sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot auk þess að hafa svipt 17 ára pilt frelsi sínu og neytt hann með ofbeldi til að taka út fé. Var A með síðarnefnda brotinu talinn hafa brotið gegn 252. gr. og 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga, og var fyrrnefnda ákvæðið ekki talið tæma sök í málinu gagnvart því síðarnefnda. Við munnlegan flutning málsins lýsti ákæruvaldið því yfir að skilja bæri ákæru svo að auk brots gegn 252. gr. ætti brotið undir 1. mgr. 226. gr., en í ákæru var vísað til 226. gr. án nánari tilgreiningar. Í ljósi þessa og með vísan til 1. málsliðar 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga varð refsing A ekki tiltekin innan marka 2. mgr. 226. gr. heldur 1. málsliðar 252. gr. A framdi hluta brotanna örfáum klukkustundum eftir að honum var birtur skilorðsdómur og þótti það bera vott um styrkan og einbeittan brotavilja, sem metið var honum til refsiþyngingar. Auk þess þótti háttsemi hans til þess fallin að vekja hjá piltinum mikinn ótta. Hins vegar var litið til ungs aldurs A. Var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. janúar 2006 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms, ákvörðun um upptöku fíkniefna og greiðslu miskabóta og kostnaðar við að halda henni frammi, en þyngingar á refsingu ákærða.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar málsmeðferðar. Til vara krefst hann sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæru 21. október 2005 og að honum verði ekki gerð frekari refsing vegna sakargifta sem lýst er í ákæru 3. nóvember sama ár. Að þessu frágengnu krefst hann mildunar á refsingu. Loks krefst hann þess að bótakröfu Z verði vísað frá dómi.
I.
Krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er í fyrsta lagi reist á þeirri forsendu að þess hafi hvorki verið gætt fyrir þingfestingu málsins að tilkynna forráðamönnum ákærða að hann ætti að mæta fyrir dóm né hafi þeim verið birtur dómurinn. Vísar ákærði þessu til stuðnings til 2. mgr. 149. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 9. gr. laga nr. 37/1994. Í öðru lagi hafi ákæra ekki verið lesin heildstætt við þingfestingu málsins fyrir ákærða þrátt fyrir að þá hafi komið fram að hann hafi ekki verið búinn að lesa hana fyrir þinghaldið. Í þriðja lagi er krafan reist á því að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991.
Í 2. mgr. 149. gr. laga nr. 19/1991 segir að lögráðamaður komi í stað ákærða um ákvarðanir um áfrýjanir ef ákærði er ósjálfráða. Þetta ákvæði á samkvæmt efni sínu hvorki við um birtingu fyrirkalls né dóms. Ákærða var skipaður verjandi í héraði. Mætti verjandinn með ákærða við meðferð málsins og var ásamt honum mættur við uppsögu dómsins og gætti þannig hagsmuna hans. Við þingfestingu málsins var ákærða kynnt ákæran, sem honum hafði verið birt með fyrirkalli sex dögum áður, lið fyrir lið. Ákærði hafði þannig nægan tíma til að lesa ákæruna og kynna sér efni hennar. Var engin þörf eins og hér stóð á að lesa ákæruna í samfellu fyrir ákærða í réttinum. Ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Nauðsyn þessa úrræðis ræðst af aðstæðum hverju sinni. Eins og sönnunargögnum í málinu er háttað verður mati héraðsdóms á þessu ekki haggað.
Að öllu þessu athuguðu þykja ekki efni til að taka ómerkingarkröfu verjanda ákærða til greina.
II.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt báðum ákærum, upptöku fíkniefna, greiðslu miskabóta og þóknun til lögmanns brotaþola.
Ákærði var dæmdur 10. desember 2004 í fimm mánaða fangelsi, þar af fjóra mánuði skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnaði, tilraun til þjófnaða, umferðar-, fíkniefna- og vopnalagabrot. Með dómi 2. september 2005 var hann dæmdur í 16 mánaða fangelsi, þar af 13 mánuði skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir átta þjófnaðarbrot, eina tilraun til þjófnaðar, þrjú hilmingarbrot, þrjú fíkniefnalagabrot, nytjastuld, og umferðarlagabrot. Skilorðsbundni hluti fyrra dómsins var dæmdur með. Var meiri hluti brotanna framinn eftir uppsögu þess dóms. Eftir uppsögu hins áfrýjaða dóms var ákærði sakfelldur 2. febrúar 2006 fyrir hilmingu og líkamsárás, brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, en honum ekki gerð refsing. Brotin voru framin fyrir uppkvaðningu dómsins 2. september 2005.
Eins og fram kemur í héraðsdómi fór ákærði í félagi við tvo aðra menn inn á vinnustað Z, sem þá var 17 ára gamall, og þvingaði hann með ræsibyssu til að fara með sér út og setti hann í opið farangurrými bifreiðar, en ökumaður hennar hafði beðið fyrir utan vinnustaðinn ásamt öðrum pilti. Í rýminu voru tveir hundar af Doberman-kyni. Þaðan var ekið með piltinn á afvikinn stað og hrinti ákærði honum þar í jörðina, krafði hann um peninga og skaut skammt frá honum úr áðurnefndri byssu. Í framhaldi þess þvingaði ákærði piltinn á ný í farangursrýmið og neyddi hann eins og nánar er lýst í héraðsdómi til að taka fé út af reikningi sínum við tiltekinn banka. Ljóst er af gögnum málsins að um hálf klukkustund leið frá því að ákærði neyddi Z með sér út úr versluninni uns hann var frjáls ferða sinna eftir að hann hafði tekið féð út úr bankanum. Ákærði svipti þannig piltinn frelsi sínu og neyddi hann með ofbeldi til að taka út féð. Hefur hann með háttsemi sinni brotið gegn 252. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. 226. gr. sömu laga. Í verknaðarlýsingu 252. gr. er áskilnaður um að ofbeldi eða hótun um ofbeldi sé beitt en svo er ekki í 2. mgr. 226. gr. Tæmir fyrrnefnda ákvæðið hér því ekki sök gagnvart því síðarnefnda. Við munnlegan flutning málsins í héraði og fyrir Hæstarétti lýsti ákæruvaldið því yfir að skilja bæri ákæruna svo að auk brots gegn 252. gr. ætti brotið undir 1. mgr. 226. gr., en í ákæru er vísað til 226. gr. án nánari tilgreiningar. Í ljósi þessa og með vísan til 1. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laganna verður refsing ákærða ekki tiltekin innan takmarka 2. mgr. 226. gr. heldur 1. málsliðar 252. gr. Ákærði framdi brotin samkvæmt ákæru 21. október 2005 örfáum klukkustundum eftir að honum var birtur dómurinn 2. september sama ár. Er tekið undir með héraðsdómara að það beri vott um styrkan og einbeittan brotavilja, sem virða beri honum til refsiþyngingar, sbr. 6. töluliður 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður einnig metið til þyngingar refsingar ákærða að háttsemi hans, einkum sú að beina að Z ræsibyssu og skjóta úr henni skammt frá honum, var til þess fallin að vekja hjá piltinum mikinn ótta, en fram er komið að hann taldi að ræsibyssan væri raunverulegt skotvopn. Skilorðsbundna hluta refsingar dómsins 2. september 2005 ber að dæma með í máli þessu og gera ákærða í einu lagi refsingu með vísan til 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þegar framangreint er virt og að öðru leyti vísað til forsendna héraðsdóms um refsingu ákærða verður hún ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Frá henni skal draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 3. september 2005 að frátöldum 34 dögum sem ákærði var í afplánun refsidóms.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna, greiðslu miskabóta og þóknun réttargæslumanns brotaþola verða staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað að því er ákærða varðar verða staðfest að öðru leyti en því að hann verður einnig dæmdur til að greiða kostnað samkvæmt reikningi Landspítala-háskólasjúkrahúss að fjárhæð 23.200 krónur samkvæmt yfirliti um sakarkostnað.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Axel Karl Gíslason, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhaldsvist hans frá 3. september 2005 að frátöldum 34 dögum.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna, greiðslu miskabóta og þóknun til lögmanns brotaþola skulu vera óröskuð.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað að því er varðar ákærða skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að hann greiði einnig kostnað samkvæmt reikningi Landspítala- háskólasjúkrahúss að fjárhæð 23.200 krónur.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 423.662 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðna Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2005.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 21. október 2005 á hendur:
,,Axel Karli Gíslasyni, kennitala 250389-2569,
Hjallabrekku 2, Kópavogi,
B, kennitala [...],
[...], Selfossi,
C, kenntiala [...],
[...], Reykjavík,
D, kennitala [...],
[...], Reykjavík og
E, kennitala [...],
[...], Kópavogi,
fyrir frelsissviptingu og rán föstudaginn 2. september 2005, eins og hér greinir:
Ákærðu fóru saman að vinnustað Z, kennitala [...], í versluninni Bónus við Austurströnd á Seltjarnarnesi á fólksbifreiðinni OK-561, og var ökumaður bifreiðarinnar ákærði E. Fóru ákærðu Axel Karl, C og D inn í verslunina og þvingaði ákærði, Axel Karl, starfsmann verslunarinnar, Z, til að fara með þeim út og beindi að honum ræsibyssu í því skyni.
Er þeir komu að bifreiðinni OK-561, sem ákærði E hafði lagt í nálægri götu og beðið í ásamt ákærða B, þvinguðu ákærðu, Axel Karl og B, Z til að koma sér fyrir í farangursgeymslu bifreiðarinnar og var hann þar nauðugur er ákærði E ók bifreiðinni, með alla meðákærðu í farþegasætum, sem leið lá um götur Seltjarnarness og Reykjavíkur inn í Skerjafjörð að Reykjavíkurflugvelli. Í Skerjafirði var Z skipað út úr bifreiðinni og veittust ákærðu Axel Karl og B að honum fyrir utan bifreiðina. Ákærði B sló hann tvö til þrjú högg í andlitið en ákærði Axel Karl hrinti honum þannig að hann féll til jarðar. Ákærði Axel Karl hleypti síðan af skoti úr ræsibyssu skammt frá Z um leið og hann krafði hann um peninga. Saman þvinguðu ákærðu, Axel Karl og B, Z síðan til að fara á ný í farangursgeymslu bifreiðarinnar en því næst ók ákærði E, með alla meðákærðu í farþegasætum bifreiðarinnar, að Landsbankanum við Hagatorg þar sem ákærðu Axel Karl og B neyddu Z til að taka út í hraðbanka kr. 33.400 af reikningi sínum í bankanum og afhenda sér. Ákærðu fóru síðan allir saman á brott í bifreiðinni en Z varð eftir við Landsbankann og var þá laus.
Telst þetta varða við 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verð dæmdir til refsingar.
Bótakrafa.
Af hálfu Z er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 1000.000 auk dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags auk greiðslu vegna lögmannskostnaðar.“
Undir dómsmeðferð málsins féll ákæruvaldið frá þeim hluta þessarar ákæru á hendur ákærða B, er varðar það að hann hafi slegið Z tvö til þrjú högg í andlitið.
Hinn 3. nóvember 2005 var gefin út ákæra á hendur ákærða Axel Karli, þar sem ákært er ,,fyrir eftirtalin fíkniefnalagabrot á árinu 2005:
1. Þriðjudaginn 9. ágúst í Hegningarhúsinu að Skólavörðustíg 9 í Reykjavík haft í vörslum sínum 2,65 g af amfetamíni sem fangaverðir fundu við leit á ákærða.
M. 101-2005-30034
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.
2. Miðvikudaginn 14. september í fangelsinu að Litla-Hrauni í Árborg, haft í vörslum sínum 44,54 g af hassi sem fangaverðir fundu við leit á ákærða.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13,
1985, sbr. laga nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að gerð verði upptæk 2,54 g af amfetamíni og 44,54 g af hassi, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
Þá var gefin út ákærða dags. 3. nóvember 2005 á hendur ákærða B þar sem ákært er ,,fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 14. september 2005 í fangelsinu að Litla-Hrauni í Árborg afhent Axel Karli Gíslasyni, kt. 250389-2569, 44,54 g af hassi sem fangaverðir fundu við leit á Axel Karli.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985, sbr. lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að gerð verði upptæk 2,65 g af amfetamíni og 44,54 g af hassi, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
Málin voru sameinuð.
Verjandi ákærða Axels Karls krefst aðallega sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og sýknu af bótakröfu. Komi til óskilorðsundinnar refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar. Til þrautavara er krafist lækkunar á bótakröfu að mati dómsins. Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða B krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að bótakröfu verði vísað frá dómi og að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði að mati dómsins.
Jafnframt er krafist málsvarnarlauna vegna vinnu á rannsóknarstigi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin og gæsluvarðhaldsvist ákærða komi að fullu til frádráttar refsingu.
Krafist er hæfilegra málsvarnarlauna á rannsóknarstigi og vægustu refsingar vegna ákæru frá 3. nóvember 2005.
Verjandi ákærða C krefst aðallega sýknu og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Verði dæmd refsivist er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins og einnig vegna vinnu verjandans á rannsóknarstigi.
Verjandi ákærða D krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og jafnframt af bótakröfu, en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakröfu verði aðallega vísað frá dómi, en til vara að hún sæti verulegri lækkun. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Verjandi ákærða E krefst aðallega sýknu og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar, sem lög leyfa og refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði felldur á ríkissjóð, en einnig er krafist málsvarnarlauna vegna vinnu á rannsóknarstigi.
Ákæra dags. 21. október 2005.
Samkvæmt frumskýrslum lögreglunnar barst lögreglu tilkynning kl. 15.36, 2. september sl. um að Z, starfsmaður Bónusverslunarinnar á Seltjarnarnesi, hefði verið numinn brott af þremur mönnum og settur í farangursrými blárrar Subarubifreiðar og ekið með hann á brott. Í skýrslunni er lýst frásögn Y, starfsmanns Bónuss, sem kvaðst hafa séð þrjá pilta koma inn í verslunina og hafa tal af Z. Kvaðst Y hafa sótt verslunarstjórann er hann sá piltana ýta Z áleiðis út úr versluninni. Er Y fór út ásamt Þ, verslunarstjóra, kvaðst hann hafa séð þrjá pilta setjast inn í bláa Subarubifreið, sem hafi verið ekið á brott og er bifreiðinni var ekið framhjá þeim Þ hafi hann séð Z í farangursgeymslunni.
Frásögn Þ, verslunarstjóra, er á þann veg að hann kvað Y hafa komið að máli við sig og greint sér frá því að verið væri að neyða Z út úr versluninni. Kvað Þ þá Y hafa farið út og þá séð þrjá stráka setjast upp í bláa Subarubifreið og aka á brott, en hann kvaðst ekki hafa séð Z og kvaðst hann því hafa farið út á götuna í von um að þeir myndu stöðva bílinn, sem ekki hafi gerst, heldur hafi bifreiðinni verið ekið suður Nesveg og hafi Þ þá séð Z í farangursgeymslu bílsins.
Þá er haft eftir Ö að hann hafi séð þrjá stráka koma inn í verslunina, þar sem þeir svipuðust um. Kvaðst hann kannast við tvo þeirra, þá ákærðu Axel og C. Sagði Ö að mennirnir hafi rætt við Z og talað við hann, en ákærði Axel hafi ýtt Z með sér út úr versluninni. Er lögreglan kom á vettvang kom Z í fylgd kunningjakonu móður hans, sem áður hafði séð hann á gangi á Nesvegi og tekið hann upp í bifreið sína. Segir í skýrslunni að Z hafi sýnilega verið með blóðnasir og hrufl á enni. Kvaðst Z hafa verið við vinnu sína í Bónus, er þeir Axel og C hafi komið þar auk þriðja mannsins, sem hann þekkti ekki. Hafi þeir beðið hann um að koma út úr versluninni, sem hann hafi ekki viljað. Eftir það hafi Axel beint að honum byssu og spurt hvort hann vildi deyja. Hann hafi þá farið með þeim út og að blárri Subarubifreið, þar sem sér hafi verið skipað að koma sér fyrir í farangursgeymslunni, sem hann kvaðst hafa gert, og hafi verið ekið með hann á brott uns stöðvað hafi verið í Skerjafirði niður við sjó, þar sem honum hafi verið skipað út úr bifreiðinni. Eftir það hafi Axel kýlt hann í andlitið og skipað að leggjast í götuna, þar sem Axel sparkaði í andlit hans. Er hann lá í götunni hafi Axel beint byssu að höfði hans og hótað honum lífláti, ef hann ekki greiddi 450.000 krónur og hleypti Axel af skoti úr byssunni skammt frá höfði hans. Eftir þetta hafi Axel skipað honum aftur inn í farangursgeymslu bifreiðarinnar og hafi þá verið ekið með hann að Hagatorgi, þar sem honum hafi verið skipað út úr bifreiðinni og að taka út peninga í Landsbankanum við Hagatorg. Þetta kvaðst Z hafa gert og tekið út 33.400 krónur, sem hann kvaðst hafa afhent Axel, sem þá hafi dregið upp hníf og hótað Z lífláti ef hann segði frá þessu atviki. Og jafnframt að hefði hann ekki lokið við að greiða 450.000 krónur innan viku myndi hann koma og lemja hann á hverjum degi uns hann að greiddi að fullu. Tekin var skýrsla af Z hjá lögreglu sama dag. Ákærðu voru allir handteknir sama dag og úrskurðaðir í gæsluvarðhald daginn eftir.
Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi og hjá lögreglu eins og ástæða þykir.
Ákærði Axel Karl játaði að mestu leyti sök. Við þingfestingu málsins gerði hann þær athugasemdir við ákæruna að því leyti sem að honum sneri, að hann kvaðst ekki hafa hótað Z með ræsibyssu og að hann neiti að hafa þvingað Z í farangursgeymslu bifreiðarinnar og hann kvaðst ekki hafa neytt Z til að taka út peninga, sem lýst er í ákærunni. Ákærði kvað alla ákærðu hafa haldið að Bónusversluninni á þeim tíma sem í ákæru greinir og eins og þar er lýst. Hafi ákærði farið þar inn ásamt meðákærðu C og D, en ákærði kvaðst hafa beðið hina tvo síðastgreindu um að koma með sér inn í verslunina, en meðákærðu B og E hafi verið í bifreiðinni á meðan. Ástæðuna kvað ákærði þá að hann hafi ætlað að berja Z inni í versluninni en hætt við. Hann kvaðst ekki hafa greint meðákærðu frá því hvað vakti fyrir honum, og meðákærðu sem fóru með honum inn í verslunina hafi ekki vitað hvað fyrir ákærða vakti, en þeir hafi vitað að Z skuldaði ákærða pening. Meðákærðu hafi ekkert rætt við Z og engan þátt tekið í því að fá hann út úr versluninni. Nánar spurður um skuldina kvaðst ákærði hafa verið að innheimta skuldina fyrir kunningja sinn, en Z hafi aldrei spurt sig um það hvaða skuld um væri að ræða. Ákærði neitaði því að hafa þvingað Z út úr versluninni eins og lýst er í ákærunni og hann hafi þannig aldrei beint að honum ræsibyssu eins og þar greinir. Kvaðst ákærði fyrst hafa tekið fram ræsibyssuna eftir komuna í Skerjafjörð eins og síðar verður vikið að. Eftir að allir fjórir voru komnir út úr versluninni hafi verið farið að bifreiðinni, sem meðákærði E ók. Eftir að ákærði sá að tveir starfsmenn Bónuss komu út á eftir þeim kvaðst hann hafa sett Z í skottið. Nánar spurður um þetta kvaðst hann hafa sagt Z að fara í skottið og hafi hann hlýtt því. Meðákærði B hafi ekki tekið neinn þátt í þessu. Ákærði kvað rétta lýsinguna í ákærunni um að ekið hafi verið út í Skerjafjörð, en ákærði kvað Z ekki hafa verið nauðugan í skottinu. Hann hafi ekki beðið um að fara þaðan. Er komið var í Skerjafjörð kvaðst ákærði hafa tekið Z úr skottinu og kastað honum í jörðina og skotið úr byssunni ,,við hliðina á hausnum á honum svona tveimur metrum frá honum.“
Ákærði kvaðst ekki hafa krafið Z um peninga eins og lýst er í ákærunni. Hann hafi beðið Z um að borga það sem hann skuldaði ákærða og hafi Z játt því. Ákærði kvað Z hafa sagt að hann ætti innstæðu í Landsbankanum og hafi ákærði eftir þetta gefið meðákærða E fyrirmæli um að aka að Landsbankanum við Hagatorg, en ákærði kvaðst hafa gefið meðákærða fyrirmæli um hvert ekið skyldi er haldið var í Skerjafjörð. Ákærði kvaðst ekki, ásamt meðákærða B, hafa þvingað Z í farangursgeymslu bifreiðarinnar í Skerjafirðinum. Z hafi farið þangað sjálfur. Eftir þetta ákvað ákærði að haldið yrði að Hagatorgi eins og lýst er í ákæru. Ákærði kvað rangt að þeir meðákærði B hafi neytt Z til að taka út úr bankanum peninga og afhenda sér eins og lýst er í ákærunni. Kvað ákærði Z hafa sjálfviljugan gengið inn í bankann og síðan komið til baka og ákærðu hafi síðan haldið á brott í bifreiðinni. Ákærði kvað meðákærða B ekki hafa farið með Z inn í bankann. Aðspurður hvort Z hafi af fúsum og frjálsum vilja gert það sem hann gerði og lýst hefur verið, kvað ákærði að honum hafi kannski verið hótað einu sinni, en ekkert hafi verið gert við hann. Ákærði kvaðst hafa gefið meðákærða E fyrirmæli um það hvert skyldi ekið.
Ákærði B kvað ákæruna rétta utan að hann hafi ekki lagt hendur á Z, en fallið hefur verið frá þeim hluta ákæru eins og rakið var. Ákærði kvað alla ákærðu hafa haldið að verslun Bónuss, eins og lýst er í ákærunni, og að ákærði E hafi verið ökumaður. Þeir þrír sem í ákæru greinir hafi farið inn í Bónus, þar sem meðákærði Axel hafi ætlað að ræða við Z, en ekki hafi verið rætt áður um hvert erindi hann átti við Z. Ákærði kvaðst hafa beðið í bifreiðinni á meðan og lýsti því er meðákærðu komu út úr Bónus ásamt Z. Fram kom hjá ákærða að hann vissi ekki hvað átti sér stað inni í versluninni og hann sá heldur ekki hvort meðákærði Axel beindi að Z ræsibyssu eins og lýst er í ákæru og ákærði kvaðst heldur ekki vita hvort Z hafi farið út úr versluninni af fúsum og frjálsum vilja. Ákærði lýsti því svo að þegar starfsmenn Bónuss hafi komið út hafi verið ekið á brott með Z, þar sem þeir hafi ekki viljað ,,vera með nein læti.“ Nánar spurður um þetta kvað ákærði atburðarásina hafa farið úr böndum, er starfsmenn Bónuss komu út. Ákærði var spurður hvort ákveðið hafi verið fyrirfram að ganga í skrokk á Z og kvað hann svo ekki hafa verið, en það ,,átti að taka hann fyrir“, að sögn ákærða. Ákærði kvaðst ekki vita hvort Z hafi verið þvingaður í farangursgeymslu bifreiðinnar. Ákærði hafi ekki tekið þátt í því, enda hafi hann verið inni í bifreiðinni er Z fór í farangursgeymsluna. Ákærði kvaðst aldrei í þessari atburðarás hafa hótað Z. Eftir þetta hafi meðákærði E ekið af stað áleiðis í Skerjafjörð, eins og lýst er í ákæru, en ákærði kvaðst hafa vísað meðákærða E leiðina sem hann ók. Í Skerjafirði hafi meðákærði Axel farið út úr bílnum ásamt Z. Ákærði kvaðst hafa farið út úr bifreiðinni í Skerjafirðinum og viðrað tvo hunda, sem voru í bílnum. Ákærði kvað meðákærða Axel hafa hleypt af skoti úr ræsibyssunni fyrir utan bílinn í Skerjafirðinum. Hann kvaðst hafa séð meðákærða Axel hrinda Z einu sinni, þannig að hann sæi til, en telja að hann hafi ekki barið hann. Eftir þetta hafi meðákærði Axel og Z komið aftur inn í bílinn og annar hvor þeirra meðákærða Axels hafi gefið fyrirmæli um að ekið skyldi að Landsbankanum við Hagatorg. Ákærði kvaðst fyrst er ekið hafi verið að Hagatorgi hafa gert sér grein fyrir því að til hafi staðið að fá peninga hjá Z. Ákærði kvaðst hafa farið með Z inn í bankann til ,,að fylgjast með.“ Og til að tryggja að Z afhenti ákærða peningana. Meðákærði Axel hafi beðið fyrir utan bankann. Er ákærði var spurður hvort honum hafi ekki verið ljóst að Z hafi ekki verið í bílnum af fúsum og frjálsum vilja kvaðst ákærði þá ekki hafa viljað neitt vesen og er starfsmaður Bónuss kom út hafi verið ákveðið að færa Z í farangursrýmið og aka á brott með hann. Kvaðst ákærði vita að Z hafi ekki farið að fúsum og frjálsum vilja. Ákærði kvað síma, sem Z hafði meðferðis, hafa verið tekinn af honum í Skerjafirði, en ákærði mundi ekki hver gerði það.
Ákærði C neitar sök. Hann kvað alla ákærðu hafa hist í miðbænum á þessum tíma og hafi þeir farið á rúntinn. Þá hafi komið í ljós að meðákærði Axel hafi átt inni peninga hjá strák, sem ákærði vissi ekki hver var. Hafi þá verið ekið að verslun Bónuss á Seltjarnarnesi, þar sem strákurinn hafi unnið. Þar hafi ákærði farið inn ásamt meðákærða Axel og D. Ákærði kvaðst engin samskipti hafa átt við piltinn Z inni í Bónus og hafi hann komið út með þeim, þar sem meiningin hafi verið að ræða við hann. Kvaðst ákærði hafa gengið um 3 til 4 metrum á undan hinum út úr versluninni. Hann kvaðst ekki hafa séð meðákærða Axel beina ræsibyssu að Z og ekki væri rétt að Z hafi verið þvingaður út. Hann hafi gengið við hlið þeirra. Fram kom hjá ákærða að hann vissi ekki vegna hvers farið var með Z í burtu, er starfsmenn verslunarinnar komu út á eftir þeim. Er komið var að bifreiðinni hafi ekki verið annað pláss fyrir Z en í farangursrýminu þangað sem hann hafi verið beðinn um að fara, sem hann hafi gert. Ákærði mundi ekki hver bað hann um að koma sér fyrir þar. Ákærði kvað síðan hafa verið ekið í Skerjafjörðinn, en hann mundi ekki hvernig ákveðið var að halda þangað. Hann kvaðst hafa farið úr bílnum aðeins í því skyni aðeins í því skyni að hleypa meðákærða út. Hann hafi síðan farið aftur inn í bílinn. Þar hafi Z farið út úr skottinu og rætt við meðákærðu. Eftir það hafi verið haldið að Háskólabíói og meðákærðu Axel og B hafi komið til baka með peninga. Ákærði kvað þá meðákærðu E hafa haft orð á því við meðákærða Axel að láta af því sem fram fór, þar sem ákærði kvaðst ekki hafa vitað alveg hvort það sem fram fór hafi verið skynsamlegt. Hann mundi ekki viðbrögð meðákærða Axels við þessari athugasemd. Hjá lögreglunni greindi C meðal annars svo frá að meðákærði Axel Karl hafi skipað Z að leggjast í farangursrými bifreiðarinnar. Fyrir dómi kvaðst ákærði Z hafa verið beðinn um að fara í skottið. Hjá lögreglu bar ákærði C að meðákærði Axel Karl hafi skipað Z úr bílnum í Skerjafirðinum og að ákærði hafi séð meðákærða Axel Karl slá Z og hrinda honum í jörðina. Þá hafi meðákærði Axel Karl heypt af skoti úr byssu, en þarna hafi ákærði fyrst orðið þess var að meðákærði Axel hafði byssuna meðferðis. Ákærði kvaðst hafa hagað framburði sínum eins og hann gerði hjá lögreglu vegna þess að lögreglan hafi greint honum frá því að Z hafi verið sleginn. Ofangreindur framburður hans hjá lögreglunni væri ekki réttur.
Ákærði D neitar sök. Hann lýsti því að ákærðu hafi allir farið á rúntinn þennan dag, en meðákærði E hafi verið ökumaður. Meðákærði Axel Karl hafi ákveðið að haldið skyldi að Bónus á Seltjarnarnesi, þar sem hann hafi ætlað að ræða við Z, en ákærði vissi ekki hvaða erindi meðákærði átti við hann. Þeir þrír ákærðu sem í ákæru greinir hafi farið inn í Bónus, en ákærði kvaðst hafa fylgt straumnum er hann fór inn. Meðákærði Axel hafi rætt við Z inni og hafi Z komið út úr versluninni, en ákærða minnti að hann hafi gengið út á undan þeim meðákærðu Axel og Z. Ákærði kvaðst engin samskipti hafa átt við Z. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvort Z kom út af fúsum og frjálsum vilja og hann hafi ekki séð meðákærða Axel með ræsibyssu eins og lýst er í ákærunni. Hjá lögreglunni bar ákærði D um þetta á þann veg, að meðákærði Axel Karl hafi beint byssu að Z og neytt hann út úr versluninni. Í skýrslunni segir að honum hafi brugðið við þetta. Hann hafi talið að þeir ætluðu einungis á rúntinn saman. Hann hafi sagt meðákærða Axel Karli að hætta þessu rugli og láta Z vera. Meðákærði Axel Karl hafi þvertekið fyrir það og neytt Z út úr versluninni. Fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa nefnt byssuna við skýrslutökuna hjá lögreglu sökum þess að lögreglan hefði greint sér frá því að meðákærði Axel Karl hefði haft byssu meðferðis. Kvaðst ákærði hafa átt við það í skýrslunni, að verið gæti að meðákærði Axel Karl hefði haft byssu meðferðis. Hann væri ekki viss. Hann viti og muni ekki hvort meðákærði Axel Karl hafi beint byssunni að Z. Fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa sagt að þeir skildu ekki vekja svona mikla athygli, því fólk hafi veitt þeim athygli og þetta hafi verið orðið ,,eitthvað æsilegt.“ Ákærði var þá spurður hvort hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að Z hafi ekki farið í bílinn af fúsum og frjálsum vilja. Kvað ákærði það hafa verið bæði og. Eftir að út var komið, þar sem meðákærði Axel hafi ætlað að ræða við Z, hafi starfsmenn Bónuss komið á eftir þeim. Þá hafi verið farið að bílnum og ákærði sest inn í hann og hann viti ekki hvernig það gerðist að Z fór í farangursrýmið. Hann hafi ekki séð það. Eftir þetta hafi verið ekið út í Skerjafjörð, en ákærði kvaðst ekki muna hvers vegna ákveðið var að halda þangað. Hann kvaðst hafa farið út úr bílnum í Skerjafirði er hann heyrði einhver læti, en þá hafi Z verið á leiðinni í farangursgeymsluna aftur. Hjá lögreglunni greindi ákærði svo frá að meðákærði Axel Karl hafi neytt Z úr farangursrýminu í Skerjafirðinum. Stuttu síðar hafi hann heyrt skothvell og farið út og beðið meðákærða Axel Karl um að hætta þessu. Hann hafi þá séð að Z var blóðugur í framan. Meðákærði hafi sagt ákærða að Z skuldaði honum peninga, sem hann ætlaði að ná út úr honum og að þeir væru á leið í banka til að sækja peninga. Ákærði var spurður út í þennan framburð fyrir dómi og dró hann þá mjög úr honum og kvaðst hafa heyrt smáhvelli og Z gæti hafa verið blóðugur. Hann myndi það ekki. Óþarfi er að rekja framburð hans frekar um þetta. Síðan hafi verið ekið að bankanum við Háskólabíó, þar sem meðákærðu Axel Karl og B hafi farið úr bílnum ásamt Z, sem ekki hafi komið aftur. Ákærði kvaðst ekki vita hvort teknir hafi verið út peningar. Hann hafi orðið eftir í bílnum ásamt meðákærða E og C. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvað til stóð er hann fór inn í verslun Bónuss. Hann hafi hvorki hótað Z, lagt á hann hendur eða ógnað honum.
Ákærði E neitar sök. Hann kvað alla fimm ákærðu hafa hist í miðbænum og hafi þeir farið saman á rúntinn, en ákærði hafi verið ökumaður. Hann hafi verið beðinn um að aka að verslun Bónuss á Seltjarnarnesi, sem hann gerði. Skömmu áður en þeir komu að Bónus hafi ákærði frétt að innheimta ætti skuld hjá Z. Ákærði kvað réttan framburð sinn hjá lögreglunni um þetta, þar sem hann lýsti því svo að meðákærði Axel Karl hafi sagt að hann þyrfti að fara í Bónus til að ræða við einhvern gaur, taka hann inn í bílinn og keyra með hann á afvikinn stað og fá hann til að greiða skuld. Þrír ákærðu, sem lýst er í ákærunni, hafi farið inn í Bónus til að ræða við Z. Stuttu síðar hafi allir fjórir komið gangandi út úr versluninni, en hann mundi ekki í hvaða röð þeir komu. Ákærði kvað Z hafa gengið á eftir ákærðu út úr versluninni, en hann hafi ekki verið þvingaður. Er þeir komu að bifreið ákærða hafi meðákærðu Axel Karl og B þvingað Z í farangursgeymsluna. Ákærði kvaðst sjálfur hafa ákveðið að aka út í Skerjafjörð. Þar kvaðst hann hafa verið inni í bifreiðinni og ekki geta borið um það sem átti sér stað fyrir utan bifreiðina. Eftir að mennirnir komu aftur inn í bílinn kvaðst hann hafa fengið fyrirmæli um að aka að Landsbankanum við Hagatorg, sem hann hafi gert. Þar hafi meðákærðu Axel Karl og B farið út ásamt Z, en komið til baka með peninga.
Vitnið Z kvaðst hafa verið við störf í Bónus á þessum tíma, er hann sá þrjá menn koma inn í verslunina, en hann kvaðst kannast við ákærða C. Z kvaðst hafa farið innar í verslunina, en ákærði Axel Karl hafi þá komið að honum með byssu og skipað honum að koma með sér út til viðræðna. Ákærði Axel Karl hafi þá tekið að ýta byssunni í hann og hafi hann þá samþykkt að koma með honum út. Z kvaðst síðan hafa hætt við er þeir voru komnir að útidyrum. Axel hafi þá orðið pirraður og gripið í hann og hann hafi þá gengið með þeim út. Z kvaðst engin samskipti hafa átt við hina tvo mennina, sem komu inn í verslunina. Z lýsti því er þeir gengu að bifreið sem lagt var þarna nærri. Þar hafi verið fyrir tveir menn, ökumaður og annar sem stóð fyrir utan bifreiðina. Z kvað Axel Karl hafa skipað sér í farangursrými bifreiðarinnar, en hann hafi farið þangað nauðugur eins og út úr versluninni. Aðrir hafi ekki komið þar nærri. Eftir að hann var kominn í skottið hafi Axel tekið af honum farsíma og hent honum út um gluggann. Z skýrði ástæðu þess að Axel Karl teldi sig eiga hjá honum peninga. Það tengist öðru máli og er óþarft að rekja það frekar hér. Eftir að hann fór í skottið hafi verið ekið áleiðis út í Skerjafjörð og kvað hann greinilegt að það hafi verið ákveðið fyrirfram. Er þangað var komið hafi tveir eða þrír af mönnunum staðið fyrir utan bifreiðina, en Axel skipaði honum úr skottinu og er hann kom út hafi Axel slegið hann og skipað honum að leggjast niður, sem hann hafi neitað að gera. Þá hafi ákærði Axel beint byssunni að honum svo hann lagðist niður, en þá hafi ákærði Axel sparkað framan í hann svo úr blæddi. Ákærði hafi þessu næst beint byssunni að honum og hótað honum einhverju og loks hleypt af skoti fyrir framan höfuð hans. Z fannst allan tímann sem um raunverulegt skotvopn hefði verið að ræða og hann hafi verið mjög hræddur um líf sitt. Eftir þetta hafi einn af piltunum reynt að róa ástandið og sagt að þeir skyldu frekar gera þetta, ef Z borgaði ekki. Z kvað ákærða B ekki hafa komið fram við sig í Skerjafirði eins og lýst er í ákærunni, hafa slegið sig eins og þar greinir. Ákærði Axel hafi þá sagt að þeir myndu fara í bankann, en hann hafi áður spurt hvort hann ætti peninga í banka. Farið hafi verið í Landsbankann, en ekki hraðbanka vegna þess að Z hafði engin skilríki og ekkert meðferðis. Allir persónulegir munir hafi orðið eftir í Bónus á vinnustað hans. Z kvað ákærða Axel og annan mann til hafa fylgt sér í banka, en þá hafi Axel skilið byssuna eftir í bílnum, en tekið með sér hníf að sögn Z. Axel hafi beðið fyrir utan bankann á meðan Z fór inn og hinn maðurinn hafi einnig komið með sér inn í bankann. Kvaðst Z hafa tekið út 33.400 krónur af reikningi sínum og afhent Axel peningana. Z kvaðst hafa verið orðinn svo stressaður á þessari stundu, að hann hafi ekki hugsað rökrétt og því ekki leitað aðstoðar í bankanum. Hafi Axel haft í hótunum ef Z greindi frá. Hjá lögreglu lýsti Z því svo, að ákærði Axel hafi sagst myndu drepa hann og foreldrar hans fengju að kenna á því einnig ef hann greindi frá þessum atburði. Mennirnir hafi síðan gengið á brott. Ákærði kvað einungis ákærða Axel hafa þvingað sig til að taka út peninga. Ákærði B hafi ekki átt þar hlut að máli. Hann hafi ekki haft nein samskipti við hann. Z kvaðst hafa orðið mjög hræddur og í Skerjafirðinum kvaðst hann hafa óttast um líf sitt. Hann lýsti aðstoð sem hann hefur fengið eftir þetta og líðan sinni.
Vitnið Y kvaðst hafa verið við störf sín í Bónus á þessum tíma. Hann hafi séð þrjá menn koma þar inn og ganga á bak við rekka, þar sem þeir ræddu við Z. Hann kvaðst ekki hafa séð hver mannanna ræddi við Z og hvort fleiri en einn gerðu það. Síðan hafi verið stuggað við Z, sem hafi virst hálf skelkaður og fór hann út. Hafi Y þá hlaupið og sótt Þ verslunarstjóra. Þessu næst hafi hann hlaupið út og séð mennina setjast inn í bíl, sem ók framhjá, og sá hann Z þá í skottinu. Hann kvaðst ekki hafa séð Z fara í skottið. Y kvaðst ekki hafa séð Z hótað, eða hvort hann hafi verið þvingaður út úr búðinni. Honum hafi hins vegar virst Z skelkaður og stressaður og greinilegt að hann hafi ekki viljað fara með mönnunum. Y kvaðst hafa haft tal af verslunarstjóranum, eins og rakið var, og sér hafi ekki litist á þetta. Y kvað einn mannanna hafa haldið í Z eins og hann ýtti honum út úr versluninni, en mjög stutt hafi verið á milli Z og þessa manns.
Vitnið Þ, verslunarstjóri í Bónus, var við störf sín á þessum tíma. Honum hafði verið gert viðvart um atburð máls þessa. Hann hafi þá haldið út ásamt Y, sem hafi sagt að strákar, sem höfðu verið inni í versluninni, væru í bíl, sem lagt var skammt frá. Lýsti Þ því er hann reyndi að stöðva akstur bifreiðarinnar, sem ekki tókst, heldur hafi verið ekið framhjá honum, en hann hafi þá séð Z í skotti bifreiðarinnar. Lýsti Þ ráðstöfunum sínum af þessum sökum.
Vitnið V kvaðst hafa verið stödd í anddyri Bónuss á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hún kvað tvo menn hafa gengið framhjá og ýtt hinum þriðja á undan sér. Sá hafi þráast við og sagst ekki geta farið. Heyrði hún á tal þeirra, að þeir hafi rætt um hraðbanka. Sá sem ýtt var á hafi ítrekað reynt að fara inn aftur, en hinir tveir hefðu þá ýtt á hann áleiðis út. Mennirnir hafi síðan horfið fyrir hornið og hún ekki séð til ferða þeirra eftir það. Nánar aðspurð um þetta kvað hún aðallega einn hafa ýtt manninum, sem hafi verið starfsmaður Bónuss, þriðji maðurinn hafi verið þarna nálægt. Sá sem ýtti hafi verið í grárri peysu.
Fyrir liggur og ráða má af ljósmyndum úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar, að maðurinn í gráu peysunni er ákærði Axel Karl.
Vitnið T, starfsmaður Landsbankans, lýsti því er hún afgreiddi mann sem starfsmaður. Samstarfsmaður hafi áður sagt henni að það lægi afskaplega mikið á. Maðurinn hafi ekki haft nein skilríki meðferðis, en hann hafi tekið alla innstæðu af reikningi sínum.
Vitnið Rúdólf Rafn Adólfsson geðhjúkrunarfræðingur staðfesti og skýrði vottorð, sem hann ritaði eftir viðtal við Z. Greindi hann frá afleiðingum þessa atburðar á hann. Z hafi verið tilfinningalega dofinn og hafi upplifað vanmátt og hjálparleysi. Svefntruflanir og kvíði hafi gert vart við sig af þessum sökum.
Niðurstaða ákæru dags. 21. október 2005.
Í ákæru er því lýst er allir ákærðu fóru saman á vinnustað Z, þar sem ákærðu Axel Karl, C og D fóru inn. Því er lýst að ákærði Axel Karl hafi þvingað Z út úr versluninni með því að beina að honum ræsibyssu. Engin lýsing er í ákæru á því hver ætlaður þáttur ákærðu C og D er í þessari atburðarás. Ekkert er vikið að þessum tveimur ákærðu í efnislýsingu ákærunnar varðandi það sem síðar gerðist og er ekki unnt af ráða af ákærunni á hvern hátt þeir eiga þátt í ætluðu ránsbroti. Efnislýsing ákærunnar varðandi þessa tvo ákærðu stappar nærri því að varði frávísun, en eftir atvikum þykir rétt að efnisdómur gangi.
Að öllu ofanrituðu og að öðrum gögnum málsins virtum er ósannað að ákærðu C og D hafi gerst sekir um brot þau sem í ákæru greinir og ber að sýkna þá báða.
Ákærða B er gefið að sök að hafa ásamt ákærða Axel Karli þvingað Z til að koma sér fyrir í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Ákærði B hefur neitað þessu og Z kvað ákærða Axel Karl hafa skipað sér í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Er samkvæmt þessu ósannað að ákærði B hafi tekið þátt í þessu eins og honum er gefið að sök í ákærunni og er hann sýknaður af þeim hluta ákærunnar.
Eins og áður var rakið féll ákæruvaldið frá þeim hluta ákæru á hendur ákærða B sem lýtur að því að hann hafi slegið Z tvö til þrjú högg í andlitið. Verður því ekki vikið að því frekar. Eftir stendur að ákærða B er gefið að sök að hafa ásamt meðákærða Axeli Karli veist að Z fyrir utan bifreiðina í Skerjafirði. Þá er lýst háttsemi ákærða Axels Karls gagnvart Z og síðan er ákærða B gefið að sök að hafa ásamt meðákærða Axel Karli þvingað Z til að fara á ný í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Ákærði B hefur neitað að hafa tekið þátt í þessu á þann hátt sem nú hefur verið lýst og í ákæru greinir. Z kvað B ekki hafa komið fram við sig í Skerjafirði eins og lýst er í ákærunni.
Að þessu virtu er ósannað að ákærði B hafi gerst sekur um háttsemi þá sem fjallað er um hér að ofan og er hann sýknaður af þeim hluta ákærunnar.
Í niðurlagi ákæru eru ákærðu B og Axel Karli gefið að sök að hafa neytt Z til að taka út peninga í hraðbanka. Hið rétta er að Z tók út peninga í Landsbanka Íslands við Hagatorg, en þetta kemur ekki að sök eins og á stendur. Ákærði B kvaðst fyrst hafa gert sér grein fyrir því er ekið var að Hagatorgi að til stóð að fá peninga hjá Z sem bar fyrir dóminum að ákærði Axel Karl hafi þvingað sig til þess að taka út peninga. Ákærði B hafi þar ekki átt hlut að máli. Er samkvæmt þessu ósannað að ákærði B hafi neytt Z til að taka út peninga og er hann sýknaður af því.
Samkvæmt öllu ofanrituðu er ákærði B sýknaður af háttsemi þeirri sem honum er gefin að sök.
Ákærði E ók ákærðu eins og lýst er í ákærðu. Hann kvað Z hafa verið þvingaðan í skott bifreiðarinnar við Bónus og ók hann eftir það sem leið lá út í Skerjafjörð. Áður hefur verið vikið að því sem þar gerðist. Ákærði vissi samkvæmt þessu að Z var ekki í bifreið hans af fúsum og frjálsum vilja og með því að aka honum um nauðugum í farangursrými bifreiðarinnar hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar er ósannað að ákærði hafi vitað hvað fram fór í Skerjafirði fyrir utan bifreiðina og að öðru leyti er ósannað að ákærði E hafi vitað af hótunum í garð Z sem tengjast ránsbrotinu. Ber samkvæmt þessu að sýkna hann af broti gegn 252. gr. almennra hegningarlaga.
Að mestu leyti er sannað með játningu Axels Karls að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem í ákæru greinir.
Nú verður vikið að þeim hlutum ákærunnar þar sem ekki liggur fyrir skýlaus játning. Ákærði Axel Karl kvað Z hafa komið út úr versluninni af fúsum og frjálsum vilja og hann hafi ekki beint að honum ræsibyssu. Dómurinn telur þennan framburð ákærða ótrúverðugan. Z lýsti því að hann hafi allan tímann talið að um raunverulegt skotvopn hafi verið að ræða. Hann hafi því hlýtt skipunum ákærða. Vitnisburður Y, sem kvað Z hafa verið skelkaðan og stressaðan er hann gaf yfirgaf Bónus og hann hafi greinilega ekki viljað fara, og vitnisburður V styðja vitnisburð Z, sem lagður er til grundvallar varðandi þetta. Er samkvæmt þessu sannað að ákærði Axel Karl þvingaði Z út úr versluninni á þann hátt sem lýst er í ákæru.
Sannað er með vitnisburði Z og með framburði E að ákærði Axel Karl þvingaði Z inn í farangursgeymslu bifreiðarinnar, en þessi niðurstaða styðst að nokkru við framburð ákærða sjálfs, sem kvaðst hafa sagt Z að fara í skottið. Þá er sannað með framburði ákærða og með framburði B um vitnisburði Z, að ákærði veittist að Z fyrir utan bifreiðina í Skerjafirði eins og lýst er í ákærunni og skipaði honum að lokum að fara aftur í farangursgeymsluna. Þá er sannað með vitnisburði Z og með framburði ákærða að hluta og með öðrum gögnum málsins að ákærði skipaði Z að taka út peninga eins og hann gerði, en eins og rakið var kemur ekki að sök þótt í ákærunni sé því lýst að um hraðabanka hafi verið að ræða, en svo var ekki eins og fram hefur komið.
Er háttsemi ákærða Axels Karls rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákæra dags. 3. nóvember 2005.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða Axels Karls fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessari ákæru greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða. Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.
Ákæra dags. 3. nóvember 2005.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða B, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessari ákæru greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða. Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.
Ákærði Axel Karl hlaut sama dag og hann framdi frelsissviptingar- og ránsbrot sitt 16 mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnað, hylmingu, umferðarlagabrot og fíkniefnabrot. 13 mánuðir af refsivistinni voru skilorðsbundnir til 3 ára. Með þeim dómi var dæmdur upp 5 mánaða skilorðsbundinn dómur frá 10. desember 2004, er ákærði hlaut fyrir þjófnað. Ákærði framdi brot sitt nokkrum klukkustundum eftir að honum var birtur skilorðsdómurinn. Hefur hann með brotum sínum nú rofið skilorðshluta dómsins frá 2. september 2005 og er ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Að rjúfa skilorð dómsins samdægurs þykir bera vott um styrkan og einbeittan brotavilja ákærða og er það virt til refsihækkunar, sbr. 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Á móti kemur að ákærði hefur að mestu leyti játað brot sitt og er ungur að árum. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.
Eins og sakaferli ákærða er háttað þykir ekki koma til álita að skilorðsbinda refsinguna, hvorki að hluta né í heild. Til frádráttar refsingunni og með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga komi gæsluvarðhald er ákærði sætti vegna málsins.
Sakaferill ákærða B hefur ekki áhrif á refsiákvörðun eins og á stendur. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð 150.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 12 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði E hlaut í nóvember 2002, 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Hann hefur staðið skilorð þess dóms. Hann hlaut skilorðsbundna ákærufrestun fyrir þjófnað á árinu 1997 og hefur auk þess gengist undir tvær sáttir fyrir umferðarlagabrot og hlaut dóm árið 1998 fyrir umferðarlagabrot. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 5 mánuði, en eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til afplánunar refsivistar ákærða E skal draga frá henni gæsluvarðhald sem hann sætti vegna málsins, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði Axel Karl skal með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 sæta upptöku á 44,54 g af hassi og 2,65 g af amfetamíni.
Z á rétt á miskabótum úr hendi ákærða Axels Karls og E á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 300.000 krónur auk vaxta eins og í dómsorði greinir, en dráttarvextir reiknast frá 2. desember 2005 er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar. Auk þessa greiði þessir tveir ákærðu 93.375 krónur í lögmannsþóknun til Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns fyrir að halda kröfunni fram.
286.350 króna málsvarnarlaun til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða C, bæði á rannsóknarstigi málsins og undir dómsmeðferð, greiðist úr ríkissjóði.
186.750 króna málsvarnarlaun til Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærða D, greiðast úr ríkissjóði.
152.886 króna verjandaþóknun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns vegna verjandastarfa fyrir ákærða D á rannsóknarstigi málsins greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Axel Karl greiði 435.750 króna málsvarnarlaun til Jóhannesar Ásgeirssonar héraðsdómslögmanns vegna vinnu verjandans undir rannsókn málsins og við dómsmeðferð.
Ákærði E greiði 3/4 hluta af 286.350 króna málsvarnarlaunum til Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns á móti 1/4 hluta, sem greiðist úr ríkissjóði en þóknunin er fyrir verjandastörf á rannsóknarstigi málsins og undir dómsmeðferð.
Ákærði B greiði 1/5 hluta af 286.350 króna málsvarnarlaunum til Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns á móti 4/5 hlutum, sem greiðist úr ríkissjóði en þóknunin er fyrir verjandastörf á rannsóknarstigi málsins og undir dómsmeðferð.
Við ákvörðun þóknunar hér að ofan hefur í öllum tilvikum verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Elsa Kjartansdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærðu C og D eru sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði Axel Karl Gíslason sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði E sæti fangelsi í 5 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Frá refsivist ákærðu Axels Karls og E skal draga gæsluvarðhaldsvist er þeir sættu vegna málsins.
Ákærði B greiði 150.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 12 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.
Ákærðu Axel Karl og E greiði Z, kt. 040588-3198, 300.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta frá 2. desember 2005 að telja og til greiðsludags og 93.375 króna í lögmannsþóknun til Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns fyrir að halda bótakröfunni fram.
Upptæk eru dæmd 44,54 g af hassi og 2,65 g af amfetamíni.
Ákærði Axel Karl greiði 435.750 króna málsvarnarlaun til Jóhannesar Ásgeirssonar héraðsdómslögmanns.
286.350 króna málsvarnarlaun til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða C, greiðist úr ríkissjóði.
187.750 króna málsvarnarlaun til Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærða D, greiðist úr ríkissjóði.
152.886 króna verjandaþóknun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða D á rannsóknarstigi málsins, greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði E greiði 3/4 hluta af 286.350 króna málsvarnarlaunum til Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns á móti 1/4 hluta, sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði B greiði 1/5 hluta af 286.350 króna málsvarnarlaunum til Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns á mót 4/5 hlutum, sem greiðist úr ríkissjóði.