Hæstiréttur íslands

Mál nr. 41/2016

K (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)
gegn
M (Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjafsókn

Reifun

M og K kærðu úrskurð héraðsdóms og kröfðust þess að fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanna þeirra vegna gjafsóknar í héraði yrði ákveðin hærri en gert var í hinum kærða úrskurði. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annar fram að umtalsverð vinna hefði legið að baki niðurstöðu í málinu sem hefði verið tekið fyrir alls 11 sinnum í héraði, þar af tvívegis með þátttöku sálfræðings. Þá hefðu sættir ítrekað verið reyndar, bæði með milligöngu lögmanna og aðstoð sérfræðings. Sálfræðingur hefði verið dómkvaddur til að leggja mat á forsjárhæfi aðila en sættir náðust ekki fyrr en að loknum skýrslutökum við aðalmeðferð málsins. Að þessu virtu, svo og framlögðum tímaskýrslum lögmanna aðila, var fallist á kröfu M og K um að hækka bæri málflutningsþóknunina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2016, þar sem leyst var úr ágreiningi aðila um málskostnað og kveðið á um gjafsóknarkostnað í máli þeirra sem að öðru leyti var lokið með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málflutningsþóknun lögmanns síns vegna reksturs málsins í héraði verði ákveðin 2.228.750 krónur, en til vara þóknunin verði ákveðin að mati réttarins.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar fyrir sitt leyti með kæru 18. janúar 2016. Hann krefst þess aðallega að málflutningsþóknun lögmanns síns vegna reksturs málsins í héraði verði ákveðin 1.850.550 krónur, en til vara að þóknunin verði ákveðin að mati réttarins.

Varnaraðili höfðaði mál þetta 14. nóvember 2014 á hendur sóknaraðila og krafðist þess að sér yrði falin forsjá dóttur þeirra, en til vara að aðilum yrði dæmd sameiginleg forsjá og að lögheimili barnsins yrði hjá varnaraðila. Þá krafðist hann þess að með dómi yrði mælt fyrir um inntak umgengnisréttar barnsins. Málinu lauk með dómsátt 22. desember 2015 um að sóknaraðili færi áfram ein með forsjá barnsins og samkomulagi um umgengni varnaraðila við það. Ágreiningur um málskostnað var lagður í úrskurð héraðsdóms, sem felldi niður málskostnað milli aðila, en ákvað gjafsóknarkostnað þeirra úr ríkissjóði.

Í málinu liggja fyrir málskostnaðarreikningar lögmanna málsaðila og er ljóst að umtalsverð vinna liggur að baki niðurstöðu í málinu. Málið var tekið fyrir alls 11 sinnum í héraði, þar af tvívegis með þátttöku sálfræðings. Meðan á málarekstrinum stóð voru ítrekað reyndar sættir, bæði fyrir milligöngu lögmanna aðila og með aðstoð sérfræðings. Þá var dómkvaddur sálfræðingur til að leggja mat á forsjárhæfi aðila. Að loknum skýrslutökum við aðalmeðferð málsins 22. desember 2015 tóku við sáttaumleitanir dómara, er lauk sem fyrr segir með sátt um annað en málskostnað.

Aðilar, sem báðir nutu gjafsóknar í máli þessu, hafa lagt fram málskostnaðarreikninga ásamt tímaskýrslum, þar sem grein er gerð fyrir vinnustundum lögmanna þeirra við rekstur málsins. Styðja málsaðilar kröfur sínar um hækkun á málflutningsþóknun við tímaskýrslurnar. Að þeim virtum verður fallist á með málsaðilum að hækka beri málflutningsþóknun lögmanna svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, K, í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þorbjargar I. Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 1.400.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, M, í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 1.300.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2016.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri hinn 14. nóvember 2014. Málið var tekið til úrskurðar um málskostnaðarkröfu aðila hinn 22. desember sl.

Stefnandi er M, [...], Reykjavík, en stefnda er K, [...], Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda voru þær, að honum yrði dæmd forsjá dóttur hans A til 18 ára aldurs hennar, en til vara að málsaðilum yrði dæmd sameiginleg forsjá barnsins og að lögheimili barnsins yrði hjá stefnanda. Þá krafðist stefnandi þess að með dómi yrði mælt fyrir um inntak umgengnisréttar barnsins og þess aðila er ekki fengi dæmt lögheimili barnsins. Einnig krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Stefnda gerði kröfu um sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að lögheimili barnsins yrði ákveðið hjá stefndu og að umgengni föður við barnið yrði þannig: Regluleg umgengni aðra hvora helgi frá leikskóla/skólalokum á föstudegi til upphafs skóla á mánudagsmorgni þar á eftir. Sumarumgengni í fjórar vikur í skólaleyfi á sumri, 2 og 2 vikur í senn. Páskaumgengni hverja páska í fimm daga í páskaleyfi skóla, annað hvert ár á páskadag. Jólaumgengni í alls fjóra daga í jólaleyfi skóla, en barnið verði ávallt á aðfangadag hjá móður. Þá krafðist stefnda málskostnaðar.

Máli þessu var úthlutað dómara þann 1. janúar 2015. Málið var fyrst tekið fyrir þann 16. febrúar 2015 og síðan þann 24. febrúar, 20. maí, 11. september, 5. október og 15. október 2015. Til þinghalda þann 20. maí, 11. september og 5. október 2015 var boðað með þátttöku sérfræðings, B sálfræðings, sbr. 2. mgr. 40. gr. barnalaga nr. 76/2003 með síðari breytingum.

Að loknum skýrslutökum þegar aðalmeðferð málsins fór fram þann 22. desember 2015, varð sátt með aðilum um annað en málskostnað.

II.

Mál þetta höfðaði stefnandi til þess að fá dæmda forsjá dóttur aðila, A.

                Eins og áður greinir var sátt með aðilum um annað en málskostnað. Með sáttinni er samkomulag um að móðir fari áfram ein með forsjá barnsins. Þá komust aðilar að samkomulagi um umgengni stefnanda við barnið í sumarleyfi, um jól og áramót og um páska.

                Með hliðsjón af því að sátt náðist um forsjá og umgengni þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

                Innanríkisráðherra veitti stefnanda gjafsókn, 15. júní 2015, til að reka málið fyrir héraðsdómi. Var gjafsóknin takmörkuð við réttargjöld, þóknun lögmanns og undirmatsgerð. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl. sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðin 900.000 krónur.

                Innanríkisráðherra veitti stefndu gjafsókn, 1. september 2015, til að reka málið fyrir héraðsdómi. Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hrl. sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðin 900.000 krónur.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn ásamt meðdómsmönnunum Aðalsteini Sigfússyni sálfræðingi og Rögnu Ólafsdóttur sálfræðingi.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Málskostnaður fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, M, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 900.000 krónur.

                Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hrl., 900.000 krónur.