- Dánarbússkipti
- Samningur
- Málsástæða
|
Fimmtudaginn 17. september 2015. |
Nr. 8/2015.
|
A (Reimar Pétursson hrl.) gegn B C og D (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) |
Dánarbússkipti. Samningur. Málsástæða.
Árið 2007 var lokið einkaskiptum á dánarbúi E, föður málsaðila. Tveimur árum seinna komu fram eignir E við tiltekinn erlendan banka sem ekki hafði verið gert ráð fyrir við skiptin. Var því óskað eftir að þau yrðu tekin upp á ný auk þess sem skattstjóra var greint frá þessu og honum afhent ný skattframtöl fyrir E og dánarbú hans. Í janúar 2010 undirrituðu málsaðilar nýja erfðafjárskýrslu og í maí sama ár var gert „samkomulag um skiptingu viðbótareigna dánarbúsins“. Í samkomulaginu kom fram að ekki lægi fyrir hvað raunverulegt verðmæti viðbótareignar væri en A fengi greidda nánar tilgreinda fjárhæð og að hann ætti þar með ekki frekari kröfur á dánarbúið eða aðra erfingja. Í máli þessu leitaði A dóms um skyldu B, C og D til frekari greiðslu en kveðið var á um í samkomulaginu frá 2010. Talið var að með framburði tveggja vitna, sem höfðu veitt málsaðilum sérfræðilega aðstoð, meðal annars í samskiptum við skattyfirvöld og sýslumann í tengslum við framangreind atvik á árunum 2009 og 2010, hefði verið sýnt fram á að A hafði fyrir gerð samkomulagsins í maí 2010 haft fullnægjandi aðgang að upplýsingum um eignir dánarbús E, sem ekki hefðu komið til einkaskipta á árinu 2007, hvar þessar eignir hefðu verið varðveittar eftir lát E og tilkall sitt til arfs af þeim. Þá hefði A verið frjálst að ráðstafa hagsmunum sínum með samningi við aðra erfingja E um að falla frá arfstilkalli sínu að hluta og um uppgjör á arfinum með greiðslum úr hendi þeirra. Fyrir Hæstarétti byggði A meðal annars á því að ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða aðrar réttarreglur gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að hann yrðu óbundinn af samkomulaginu frá maí 2010. Þessi málsástæða var ekki höfð uppi í héraði og kom hún því ekki til álita við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með vísan til þessa voru B, C og D sýknuð af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. janúar 2015. Hann krefst þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér aðallega 485.708.301 krónu, til vara 345.622.625 krónur en að því frágengnu 315.000.000 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt „III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu“ frá 1. október 2007 til greiðsludags og að frádreginni innborgun 2. maí 2010 að fjárhæð 315.000.000 krónur. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi á mál þetta rætur að rekja til þess að faðir aðilanna, E, lést [...] maí 2007, en hann hafði þá setið í óskiptu búi eftir að eiginkona hans, F, sem var móðir stefndu, lést [...] febrúar 2002. Aðilarnir stóðu saman að beiðni um leyfi til einkaskipta á dánarbúinu og var hún ásamt erfðafjárskýrslu og einkaskiptagerð afhent sýslumanni, sem veitti leyfið og áritaði skýrsluna og skiptagerðina um samþykki 10. ágúst 2007. Samkvæmt þessum gögnum var hrein eign dánarbúsins að andvirði 215.441.085 krónur. Af henni tók áfrýjandi að arfi 26.930.136 krónur, en að öðru leyti skiptist féð milli stefndu og var skiptunum þannig lokið.
Með bréfi 28. desember 2009 tjáði nafngreindur héraðsdómslögmaður sýslumanni að eftir andlát föður málsaðila hafi komið fram eignir hans við tiltekinn erlendan banka og tekjur af þeim, sem erfingjum hafi ekki verið kunnugt um. Hafi því ekki verið tekið tillit til þessara eigna við einkaskipti á dánarbúinu, en andvirði þeirra væri 4.037.178.939 krónur. Væri óskað eftir að einkaskiptin yrðu tekin upp á ný, en þess var jafnframt getið að skattstjóra hafi verið greint frá þessum atvikum og honum afhent ný skattframtöl fyrir E og dánarbú hans til þess að taka upp álagningu opinberra gjalda vegna gjaldáranna frá og með 2004 til 2010. Í framhaldi af þessu undirrituðu aðilarnir erfðafjárskýrslu 29. janúar 2010 og áritaði sýslumaður hana um samþykki 18. febrúar sama ár. Samkvæmt skýrslunni nam andvirði viðbótareigna dánarbúsins fyrrgreindri fjárhæð, en til frádráttar kæmu endurálagðir skattar og kostnaður, 309.398.738 krónur, þannig að til skipta stæði 3.727.780.201 króna. Arfshlutur áfrýjanda átti að nema 12,5% af þeirri fjárhæð eða 465.972.525 krónum, en erfðafjárskattur af honum 23.298.626 krónum.
Málsaðilar undirrituðu 2. maí 2010 „samkomulag um skiptingu viðbótareigna dánarbúsins“, þar sem tiltekið var að eftir „upprunaleg skipti“ þess hafi komið fram eignir og tekjur af þeim, sem erfingjar hefðu ekki haft „vitneskju eða gögn um“. Skattstjóra hafi verið gerð grein fyrir þessu og leiðréttum skattframtölum skilað ásamt „leiðréttingu á erfðafjárskýrslu.“ Væru eignirnar „sundurliðaðar á meðfylgjandi yfirlitsblöðum“ og væri andvirði þeirra samtals fyrrnefndar 4.037.178.939 krónur „miðað við stöðu reikninga í lok árs 2009“. Frá því andvirði væru dregin endurálögð gjöld, kostnaður og erfðafjárskattur, samtals 494.737.748 krónur. Í samkomulaginu sagði síðan eftirfarandi: „Aðilar eru sammála um að ekki liggur fyrir hvað raunverulegt verðmæti skuldabréfaeignar og einingabréfa í fjárfestingasjóðum er miðað við innlausn svo fljótt sem auðið er eða hversu fljótt slík innlausn er möguleg. Að öllu framansögðu hafa undirritaðir erfingjar komist að samkomulagi um að við skiptin skuli greiða A með afhendingu á innistæðubréfi í Banque de Havilland samtals að fjárhæð íslenskar krónur 315.000.000 inn á bankareikning sem hann tilnefnir í Banque de Havilland innan svo fljótt sem auðið er eftir undirritun samkomulags þessa. B, C og D munu hlutast til um að framangreint innistæðubréf skuli fært af reikningum í þeirra nafni inn á nafn A. Aðrir erfingjar skulu þá teljast réttir eigendur að öðrum eignum sem falla undir þessi viðbótarskipti dánarbúsins og á A ekki frekari kröfur á dánarbúið eða aðra erfingja dánarbúsins. Aðilar eru sammála um að A skuli ekki bera neinn frekari kostnað af skiptum dánarbúsins. Með undirritun samkomulags þessa lýsa erfingjar því jafnframt yfir að þeim sé ekki kunnugt um neinar frekari eignir sem talist geti fallið undir dánarbúið.“
Í máli þessu, sem áfrýjandi höfðaði með stefnu 10. desember 2013, leitar hann dóms um skyldu stefndu til frekari greiðslu en að framan getur til uppgjörs á „arfskröfu“, sem nefnd er svo í stefnunni.
II
Í hinum áfrýjaða dómi var lagt til grundvallar að með framburði tveggja vitna, sem höfðu veitt málsaðilum sérfræðilega aðstoð, meðal annars í samskiptum við skattyfirvöld og sýslumann í tengslum við framangreind atvik á árunum 2009 og 2010, væri sýnt að áfrýjandi hafi fyrir gerð samkomulagsins 2. maí 2010 haft fullnægjandi aðgang að upplýsingum um eignir dánarbús E, sem ekki komu til einkaskipta á árinu 2007, hvar þessar eignir hafi verið varðveittar eftir lát E og tilkall sitt til arfs af þeim. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um þetta staðfest. Áfrýjanda var frjálst að ráðstafa hagsmunum sínum með samningi við aðra erfingja E um að falla frá arfstilkalli sínu að hluta og um uppgjör á arfinum með greiðslum úr hendi þeirra. Samkvæmt héraðsdómsstefnu byggði áfrýjandi ekki á því að ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða aðrar réttarreglur gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að hann yrði óbundinn af samkomulagi sínu 2. maí 2010 við stefndu og getur hann ekki komið slíkum málsástæðum að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður því staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A (kt. [...]), [...], [...], gegn B (kt. [...]), [...], [...], C (kt. [...]), [...], en dvalarstað að [...], [...], og D (kt. [...]), [...], [...], með stefnu sem birt var þann 19., 20. og 27. desember 2013.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndu verði dæmd að óskiptu til að greiða stefnanda arfskröfu að fjárhæð 485.708.301 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 1. október 2007 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 315.000.000 króna þann 2. maí 2010.
Til vara að stefndu verði dæmd að óskiptu til að greiða stefnanda arfskröfu að fjárhæð 345.622.625 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. október 2007 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 315.000.000 króna þann 2. maí 2010.
Til þrautavara að stefndu verði dæmd að óskiptu til að greiða stefnanda arfskröfu að fjárhæð 315.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. október 2007 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 315.000.000 króna þann 2. maí 2010.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast þess að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað.
I.
Málavextir eru þeir að faðir allra málsaðila, E, lést [...] maí 2007. E hafði þá setið í óskiptu búi en maki hans var F, móðir allra stefndu, sem látist hafði [...] febrúar 2002 en stefnandi er ekki sammæðra stefndu. Óumdeilt er í málinu að miðað hafi verið við að arfshluti stefnanda hafi verið 12,5% í óskiptu búi þeirra E og F, á móti 29,17% hlut sérhvers hinna stefndu. Skömmu eftir andlát E var gengið frá beiðni til einkaskipta, erfðafjárskýrslu og einkaskiptagerð, en öll framangreind skjöl voru dagsett 31. júlí 2007 og samþykkt af sýslumanni 10. október 2007, en þeir G hrl. og H endurskoðandi sáu um frágang ofangreindra skjala fyrir hönd allra aðila þessa máls. Af hálfu stefndu er vísað til þess að H hafi við skiptin lagt til grundvallar skattframtal hins látna auk þess að kalla eftir yfirlitum frá öllum viðskiptabönkum.
Erfðafjárskýrslan og einkaskiptagerð, dags 31. júlí 2007, kváðu á um að hrein eign til skipta hafi þá verið samtals 215.441.085 krónur. Hafi komið fram eignir að fjárhæð 217.065.303 krónur en stærstur hluti þeirrar fjárhæðar, eða 173.325.587 krónur, hafi verið eignir sem fram hafi komið hjá Kaupþingi banka. Erfingjar lýstu yfir með undirritun sinni að í einkaskiptagerðinni komi fram tæmandi talning á eignum og skuldum dánarbúsins og að réttilega væri frá verðmætum þeirra eða matsverði greint í öllum atriðum. Aðilar hafi undirritað einkaskiptagerðina ásamt beiðni um leyfi til einkaskipta og erfðafjárskýrslu, allar dags. 31. júlí 2007, og voru þær lagðar inn til sýslumanns 2. ágúst 2007. Samkvæmt erfðafjárskýrslunni var hrein eign til skipta 215.441.085 krónur og þar af komu 12.5% í hlut stefnanda, eða 26.930.136 krónur.
Á síðari stigum áttu hins vegar eftir að koma í ljós umtalsverðar eignir erlendis sem faðir málsaðila lét eftir sig í vörslu Kaupþings banka og síðar Banque Havilland í Lúxemborg, sem ekki komu undir hin upphaflegu dánarbússkipti, en aðila greinir á um málavexti hvað þann þátt varðar og hvað þeir vissu eða máttu vita um þetta.
Það sem óumdeilt liggur fyrir í málinu er að þann 29. mars 2002 hafi E heitinn fundað með stefndu þar sem þau hafi skrifað upp á leyfi hans til setu í óskiptu búi eftir andlát móður þeirra. Þar hafi E einnig lagt fyrir stefndu skjal sem beri titilinn „KAUPTHING BANK Luxembourg UNLIMITED POST MORTEM POWER OF ATTORNEY“ og óskað eftir undirritun þeirra á skjalið. Vísa stefndu til þess að E hafi þá ekki greint þeim frá tilgangi skjalsins, hvað hann hygðist fyrir með það eða hvers vegna einungis nöfn hans og stefndu hefðu verið tilgreind á því, en það hafi verið viðtekinn háttur í samskiptum stefndu við föður þeirra að hann legði fyrir þau skjöl til undirritunar og þau orðið við þessu.
Það næsta er að í lok árs 2005 hafi stefnandi farið fram á að fá fyrir fram greiddan arf eftir föður sinn, en hann hafi fengið slíka fyrirframgreiðslu í minnst tvígang áður. E heitinn hafi þá verið kominn á [...] í Reykjavík og heilsu hans hrakað svo ekki hafi þótt rétt að hann undirritaði erfðafjárskýrslu um fyrir fram greiddan arf. Hafi stefnandi viljað að gengið yrði sem fyrst frá fyrirframgreiðslunni og stefndu fallist á að hann fengi greiðslu upp í væntanlegan arf með samkomulagi dags 27. janúar 2006. Samkomulagið ber með sér að vera samið af lögmanni stefnanda Rúnari S. Gíslasyni hdl. og Ásgeiri Thoroddsen hrl., sem lögmanni stefndu. Þar kemur m.a. fram að stefnandi staðfesti með undirritun sinni „að hann eigi engar frekari erfðakröfur hverju nafni sem nefnast á hendur E, búi hans eða hálfsystkinum“.
Af hálfu stefndu er því svo lýst þannig að í september 2007 hafi þeim verið tilkynnt símleiðis af hálfu Kaupþings banka í Lúxemborg að E heitinn hafi átt umtalsverða fjármuni í eignastýringu hjá bankanum og væri bankinn þá að deila því fé niður í þrjú eignasöfn samkvæmt fyrirmælum hins látna, hvert í nafni eins af þeim. Af hálfu stefndu er fullyrt að þetta hafi komið þeim í opna skjöldu enda hafi þau enga vitneskju haft um umræddar eignir þar sem faðir þeirra hafi aldrei rætt við þau um þær. Hafi stefndu hvert fyrir sig í framhaldinu leitað ráðgjafar og oft rætt við starfsfólk bankans í Lúxemborg til að fá ráðleggingar um það hvernig með ætti að fara. Þessi skoðun ráðgjafa stefndu á málinu og álitsleitan til Kaupþings banka hafi hins vegar ekki skilað neinum ákveðnum ráðleggingum þegar bankinn féll í október 2008. Í kjölfarið hafi eignir í bankanum verið frystar og ekki hægt að hreyfa þær um níu mánaða skeið og hafi þetta enn aukið á óvissu um stöðu þessara eigna og hver afdrif þeirra yrðu.
Í júlí 2009 hafi nýr banki, Banque Havilland, tekið við eignum og starfsemi Kaupþings banka í Lúxemborg og stefndu þá aftur fengið aðgang að umræddum reikningum. Hafi þau þá ákveðið að leita ráða H endurskoðanda um hvernig fara bæri með féð og óskuðu þau í september 2009 eftir aðstoð hans. Að lokinni skoðun á málinu hafi H haldið fund með stefndu í byrjun nóvember 2009, og þar greint þeim frá þeim kostum sem væru í stöðunni og lagt til að þau leituðu aðstoðar I hdl., sem gert hafi verið í framhaldi. Að lokinni skoðun á málinu hafi I greint stefndu frá því að rétt væri að umræddar eignir yrðu taldar eign dánarbúsins. Hafi hann ráðlagt að láta taka upp skipti búsins og leggja málið fyrir skattyfirvöld til endurákvörðunar skatts hjá hinum látna og dánarbúinu. Hafi verið farið að þeim ráðum og I veitt umboð til að afla allra upplýsinga um viðbótareignirnar og til að fara með málið til sýslumanns og skattstjóra. Þá hafi stefndu falið þeim I og H að greina stefnanda að fullu frá umræddum eignum, leggja honum til öll gögn um þær og svara öllum fyrirspurnum sem hann kynni að hafa um þær. Hafi I kallað eftir nánari upplýsingum um viðbótareignirnar frá bankanum með bréfi dags 18. nóvember 2009 og svar borist við því 23. desember 2009, en útdrátt úr þeim gögnum sé að finna í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.
Af hálfu stefndu er því lýst svo, að fengnum gögnum frá bankanum hafi I síðan haft samband við lögmann stefnanda og greint honum frá hinum framkomnu viðbótareignum. Því næst hafi I fundað með stefnanda og greint honum frá því um hvaða eignir væri að ræða, hvert áætlað verðmæti væri og hvenær og með hvaða hætti stefndu hefðu fengið vitneskju um þær. Hafi I þá gert stefnanda ljóst að stefndu hafi verið gert kunnugt um eignirnar í september 2007 þegar haft hafi verið samband við þau af hálfu bankans. Þá muni I hafa greint stefnanda frá ástæðum þess að fjármunirnir hafi ekki verið gefnir upp við búið þegar í september 2007, þ.e. vegna óvissu og þess að stefndu hafi fengið afar misvísandi ráð þegar þau hafi leitað ráðgjafar um hvernig rétt væri að fara með þessa fjármuni. Þá mun I hafa farið með stefnanda yfir fyrirhugaða endurupptöku búskipta og endurákvörðun skatts E heitins og dánarbúsins sem af þessu leiddi. Hafi I afhent stefnanda öll gögn um viðbótareignir búsins sem hann hafði aflað frá bankanum. Þá muni I hafa áréttað við stefnanda rétt hans til að fá hver þau önnur gögn eða upplýsingar um viðbótareignirnar sem hann óskaði eftir. Stefnandi hafi þá haldið fleiri fundi með I og H, ýmist einn eða með ráðgjöfum sínum. Þá hafi I einnig komið stefnanda í samband við J, starfsmann bankans, en J hafi verið tengiliður og ráðgjafi E heitins frá upphafi viðskipta hans í bankanum.
Af hálfu stefnanda er þessu lýst svo að um þetta leyti hafi verið haldinn fundur stefnanda og stefndu B og C með þeim I hdl., og H endurskoðanda, þar sem farið hafi verið yfir þær eignir sem fram hefðu komið og hvað þyrfti að gera til að unnt væri að ljúka endurupptöku skipta. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að á fundinum hafi stefndu B og C hins vegar fullyrt að fyrir lægi bréf sem staðfesti að faðir þeirra hefði ánafnað stefndu öllum þeim eignum sem nú hefðu komið fram og væri á reikningum stefndu. Hafi stefnandi þá ekki rengt þetta þótt skjal þetta hafi þá ekki verið lagt fram en hann talið sig standa nokkuð höllum fæti með hliðsjón af þessum meinta vilja föður síns. Hafi þó verið ákveðið að stefnandi fengi sinn hlut af þessum fjármunum eða sem næmi 12.5%. Hafi stefnandi þá aflað mats hjá Landsbankanum á áætluðu verðmæti þeirra bréfa sem myndu þannig koma í hans hlut og hafi það verið nærri skráðu verðmæti bréfanna. Stefnanda hafi í framhaldi verið boðin eingreiðsla í peningum og gert samkomulag, dags 2. maí 2010, um greiðslu til hans að upphæð 315.000.000 króna, sem innt yrði af hendi í jöfnum hlutum af bankareikningum hvers hinna stefndu sem og gert var.
Af hálfu stefndu er aðdraganda ofangreinds samkomulags hins vegar lýst svo, að eftir að fengnum leiðbeiningum skattyfirvalda um hver væri rétt skattaleg meðferð viðbótareignanna hafi dánarbúið, með bréfi dags 29. desember 2009, óskað eftir leiðréttingu á skattframtölum fyrir E heitinn fyrir gjaldárin 2004-2007 og dánarbúið fyrir gjaldárin 2008-2010 og hafi skattstjórinn í Reykjavík fallist á erindið í bréfi dags 30. desember 2009. Hafi aðilar sent sýslumanni leiðrétta erfðafjárskýrslu, dags 29. janúar 2010, þar sem verðmæti viðbótareigna var talið nema 4.037.178.939 krónum, skuldir 309.398.738 krónum og hrein eign til skipta því numið 3.727.780.201 krónu. Hafi 12.5% þeirra fjármuna átt að koma í arfshlut stefnanda, eða 465.972.525 krónur. Viðbótareignirnar hafi hins vegar að stærstum hluta verið verðbréf ýmiss konar en að litlu leyti reiðufé en aðilum hafi verið ljóst að verðmæti bréfanna hafi verið hátt metið í erfðafjárskýrslunni. Megi í því sambandi benda á að eftir að stefnandi hafi fengið öll gögn frá I um eignirnar hafi hann leitað sér aðstoðar sérfræðings við mat á þeim, K, fyrrum útibússtjóra Búnaðarbankans og síðar Landsbanka Íslands hf., og hafi stefnandi, I og K fundað um viðbótareignirnar og mat á þeim. Þá hafi Landsbankinn hf. framkvæmt verðmat fyrir stefnanda á eignasafninu, en samkvæmt því mati hafi verðmæti viðbótareignanna verið talið vera 3.267.716.812 krónur, en að teknu tilliti til skulda hafi hrein eign til skipta verið 2.958.318.074 krónur og arfshlutur stefnanda þá metinn 369.789.760 krónur.
Stefnanda hafi þá hins vegar ekki hugnast að fá arfshlut sinn í eignum búsins afhentan heldur sóst eftir að gera samkomulag um að fá tiltekna fjárhæð greidda í reiðufé sem fullnaðaruppgjör á sínum hlut. Hafi stefnandi gert tillögu um að hann fengi greitt fyrir arfshlut sinn 408.464.601 krónu á grunni framangreinds mats Landsbankans hf., sem nemi 12,5% af verðmati á eignum búsins, án tillits til skulda. Að loknum samningaviðræðum hafi aðilar gert samkomulagið 2. maí 2010, en samkvæmt því skyldi greiða stefnanda alls 315.000.000 króna á bankareikning sem hann tilnefni „svo fljótt sem auðið er eftir undirritun“, eins og segi í samkomulaginu og hafi það verið efnt. Hafi m.a. verið tekið fram í samkomulaginu að stefnandi ætti ekki frekari kröfur á dánarbúið eða aðra erfingja dánarbúsins, en einnig að aðilar væru sammála um að stefnandi skyldi ekki bera neinn frekari kostnað af skiptum búsins.
Það næsta er að þann 7. febrúar 2011 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins formlega rannsókn á skattskilum E heitins, dánarbús hans og erfingja. Hafi rannsókn lokið 29. október 2012 með útgáfu skýrslu skattrannsóknarstjóra. Af hálfu stefndu hafi verið gerðar athugasemdir við skýrsluna, síðast með bréfi Deloitte dags 31. maí 2012. Hafi skattrannsóknarstjóri sent ríkisskattstjóra skýrsluna með bréfi dags 29. október 2012, en með bréfi dags. 22. október 2013 hafi ríkisskattstjóri lýst því yfir að ekki yrði fallist á niðurstöður skattrannsóknarstjóra í skýrslunni og að ekki yrði annað séð en að meðferð málsins hjá skattstjóra hefði verið í samræmi við lög. Kemur fram í bréfinu að með vísan til þessa telji ríkisskattstjóri ekki ástæðu til að aðhafast frekar í máli dánarbúsins og yrði málið því sent aftur til skattrannsóknarstjóra.
Af hálfu stefndu er því lýst að 29. ágúst 2012 hafi H síðan afhent stefnda B lokað umslag. Hafi H þá greint frá því að umslagið væri frá föður aðila og verið afhent honum með fyrirmælum um að það bærist stefnda B að föður hans látnum. H hafi lagt það í bankahólf sitt en þar hefði það gleymst til þess tíma. Hafi innihald umslagsins reynst vera afrit af fyrrnefndu skjali er beri titilinn, „KAUPTHING BANK Luxembourg UNLIMITED POST MORTEM POWER OF ATTORNEY“ og stefndu hafi undirritað að ósk föður þeirra 29. mars 2002.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dags 5. desember 2012, hafi þess svo verið krafist að stefnanda yrðu greiddar 584.713.433 krónur auk dráttarvaxta. Þá hafi með bréfi lögmannsins, dags. 11. maí 2013, þess verið krafist að stefnanda yrðu greiddar 730.453.200 krónur auk dráttarvaxta, en tekið fram að hann væri tilbúinn að fallast á greiðslu að fjárhæð 600.000.000 króna, að viðbættum innheimtukostnaði. Komi fram að kröfurnar séu byggðar á því að stefndu hafi skipt með sér viðbótareignum búsins í september 2007, en leynt stefnanda tilvist þeirra þar til í árslok 2009. Að mati stefndu hafi enginn fótur verið fyrir kröfum stefnanda. Þrátt fyrir það hafi stefndu samþykkt að ræða við stefnanda í því skyni að koma afstöðu sinni á framfæri. Af hálfu stefndu hafi stefndi D tekið þátt í þeim viðræðum og hafi þær staðið með hléum fram að því að stefna í málinu hafi verið birt í árslok 2013. Í ljósi hinna löngu og ítarlegu viðræðna af hálfu aðila, þar sem afstaða stefndu hafi verið komið rækilega á framfæri, hafi þau ekki talið tilefni til að svara frekar fyrrgreindum kröfugerðum bréflega.
Af hálfu stefnanda er því hins vegar haldið fram í málinu að hann hafi ekki vitað betur 31. júlí 2007 en að með fyrrgreindri erfðafjárskýrslu og einkaskiptagerð hafi allar eignir dánarbúsins komið fram og þeim verið skipt. Það hafi því komið honum í opna skjöldu þegar hann hafi fengið þær fréttir í lok árs 2009 að komið hefðu fram verulegar viðbótareignir í dánarbúinu erlendis. Hann hafi síðan gert samkomulag við stefndu um arfskörfu dags 2. maí 2010, þar sem 315.000.000 króna hafi komið í hans hlut. Hafi hann þá lagt til grundvallar því að stefndu hafi ekki vitað um eða haft aðgang að umræddum viðbótareignum erlendis fyrr en um það sama leyti árið 2009.
Þann 4. mars 2011 hafi stefnandi hins vegar verið boðaður í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hafi stefnandi þar fyrst fengið ávæning af því að stefndu hefðu í reynd haft vitneskju um viðbótareignir dánarbúsins eigi síðar en árið 2007. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á dánarbúinu hafi lokið 29. október 2012 með útkomu skýrslu sem stefnandi hafi fengið eintak af. Skýrslan hafi m.a. að geyma sannanir fyrir því að stefndu hafi skipt á milli sín viðbótareignum dánarbúsins 12.14. september 2007, eignum sem ekki hafi komið fram við fyrri skipti á búinu. Þessum eignum hafi stefndu haldið leyndum fyrir stefnanda sem og opinberum aðilum allt til áramóta 2009−2010. Með skýrslunni hafi stefnandi í fyrsta sinn séð skjal það sem stefndu hafi byggt á þegar þau hafi staðhæft að þau ættu ein þá fjármuni sem færðir höfðu verið á reikninga þeirra þriggja. Skjalið beri heitið ,,Unlimited post mortem power of attorney“ og sé dags. 29. mars 2002. Þegar stefnandi hafi leitað greiningar á skjalinu hafi honum orðið ljóst að skjalið væri ekki ígildi erfðaskrár eða ánöfnun eigna á nokkurn hátt heldur aðeins umboð. Stefnanda hafi þá orðið ljóst að hann hafi verið blekktur um innhald skjalsins við endurupptöku skipta á dánarbúinu.
Ágreiningsefnið snúist um að stefnandi telji að brotið hafi verið á rétti hans til arfshlutar frá þeim tíma sem stefndu hafi látið færa óskráðar eignir dánarbúsins á eigin bankareikninga í stað þess að fara þá þegar fram á endurupptöku skiptanna. Þá liggi fyrir að stefndu hafi að einhverju marki nýtt innistæður þessara reikninga, þó þær fjárhæðir komi ekki fram með skýrum hætti í skýrslu skattrannsóknarstjóra, áður en hafist hafi verið handa við endurupptöku skiptanna. Það fé sem stefndu hafi þannig nýtt í eigin þágu fyrir endurupptöku skiptana hafi ekki skilað sér inn í búið. Stefnandi hafi krafðist leiðréttingar með bréfi, dags 5. desember 2012, sem sent hafi verið öllum stefndu, sem hafi haft yfirskriftina vangreiddur arfur og brostnar forsendur. Í bréfinu hafi stefnandi rakið málavexti og farið fram á leiðréttingu. Kröfur stefnanda hafi miðað að því að hann yrði jafn settur og ef skiptin hefðu verið endurupptekin þegar eftir að eignir dánarbúsins erlendis hafi komið í ljós. Ítrekunarbréf hafi verið sent 11. maí 2013 á alla stefndu en krafa stefnanda sé í bréfi þessu leiðrétt eftir nánari skoðun á ítarlegri skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þar sem stefndu hafi ekki sinnt kröfum stefnanda hafi hann stefnt kröfum sínum fyrir dóm til að ná fram rétti sínum.
II.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína um greiðslu 485.708.301 krónu á að samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra hafi heildarstaða eignasafns dánarbús nr. 100120, þann 1. ágúst 2007, verið 4.090.175.167 krónur þegar stefndu hafi borið að hlutast til um endurupptöku skipta á því, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991. Hlutur stefnanda sé 12,5% af þeirri fjárhæð eða 511.271.896 krónur. Hlutur stefnanda að frádregnum erfðafjárskatti, sem í tilviki þessa bús hafi verið 5%, geri stefnufjárhæðina 485.708.301 krónu, en skatturinn sé þegar greiddur og tekið tillit til þess í kröfugerð.
Stefndu geti ekki lagt aðra og lægri fjárhæð til grundvallar þar sem þeim hafi þegar í ágúst 2007 borið að tilkynna sýslumanni um þessar eignir sem hefðu átt að koma til skipta við gerð erfðafjárskýrslu búsins dags 31. júlí 2007. Stefnandi byggi á að stefndu hafi vitað um ótilgreindar eignir búsins svo snemma sem 29. mars 2002, þegar þau hafi undirritað umboðið ,,Unlimited Post Mortem Power of Attorney“, þar sem tilgreindur sé bankareikningur í Kaupthing Bank, Luxembourg. Einnig sé ljóst að stefndu hafi vitað um þessar eignir dánarbúsins 28. og 30. ágúst 2007, þegar þau hafi stofnað reikninga þá sem eignum búsins hafi verið deilt niður á.
Í ágúst 2007 hafi á meðal eigna búsins verið verðmæti sem hafi orðið að engu í bankahruninu í október 2008. Þessi verðmæti hafi stefnandi átt tilkall til að hluta í ágúst 2007 og hefði átt að eiga kost á ráðstafa þeim þá eða síðar fyrir hrun ef stefndu hefðu farið að lögum, sbr. fyrrgreinda grein laga um skipti á dánarbúum, o.fl.
Í tilgreiningu eigna í erfðafjárskýrslu dags 29. desember 2009 og kynningu á eignum búsins fyrir undirritun hennar, sé ekkert tillit tekið til ráðstöfunar stefndu á fjármunum búsins í eigin þarfir allt frá því að þau hafi fært innistæður af reikningi búsins inn á eigin reikninga í september 2007 og þar til gagna hafa verið aflað til frágangs á síðari erfðafjárskýrslu dags 29. desember 2009. Fyrir liggi að stefndu hafi þegar í september 2007 byrjað að ráðstafa eignum búsins.
Kröfu um dráttarvexti frá 1. október 2007 byggi stefnandi á því að stefndu sjálf hafi stofnað reikninga í Banque Havilland S.A., 28. og 30. ágúst 2007, augljóslega í þeim tilgangi að skipta eignum dánarbúsins á milli sín og færa þær allar inn á þessa nýstofnuðu reikninga sína. Hafi það gengið eftir 12.14. september 2007. Af skýrslutöku yfir stefndu verði ekki annað ráðið en þau hafi talið sig hafa fullan ráðstöfunarrétt yfir allri innistæðu þessara reikninga frá stofnun þeirra í eigin þágu. Á yfirlitum reikninga stefndu komi fram að þau hafi þegar verið farin að ráðstafa fjármunum dánarbúsins til eigin þarfa í september og október 2007. Stefnandi hafi á móti enga vitneskju haft um þessar eignir fyrr en um áramót 2009−2010 og ekkert getað með ávöxtun eða ráðstöfun þeirra gert frá ágúst 2007 og til þeirrar stundar að stefndu hafi greitt stefnanda 315.000.000 króna þann 2. maí 2010 á grundvelli samkomulags, sem hvað stefnanda varði, hafi byggt á þeirri forsendu að þessar eignir hefðu ekki komið í ljós fyrr en undir lok ársins 2009 og væru fram til þess óhreyfðar.
Dráttarvaxtakrafan frá 1. október 2007 byggi á að stefndu hafi leynt stefnanda réttum arfshluta frá ágúst 2007 án þess að nokkur haldbær rök réttlæti þá háttsemi. Stefnandi telji engin rök til þess að viðurkenna aðra og lægri vexti en dráttarvexti fyrir þann tíma þar sem leynt hafi verið lögmætum arfshluta hans og honum þá jafnframt meinað að ávaxta arfshlutann eftir eigin vilja frá þeim tíma. Stefndu hafi vitað um tilvist eignasafns dánarbúsins frá 29. mars 2002, þótt þau hafi ekki vitað um stöðu þess á hverjum tíma fyrr en eftir andlát föður þeirra. Þau hafi ákveðið að leyna tilvist eignasafnsins með því að stofna þrjá reikninga í eigin nafni 28. og 30. ágúst 2007 sem eignir dánarbúsins hafi síðan allar verið færðar inn á. Rök stefndu í skýrslutökum fyrir ástæðum undanskots eigna séu haldlausar. Stefndu hafi þar borið því við að þau hafi leitað til fjölda sérfræðinga um hvað hefði átt að gera en engin svör hafi verið á sama veg en þau hafi þó neitað að gefa upp nöfn þeirra sem leitað hafi verið til. Ákvæði 95. gr. laga nr. 20/1991 kveði skýrt á um hvað erfingjum beri að gera ef litið væri svo á að eignirnar hefðu ekki komið fram fyrr en eftir lok einkaskipta 31. júlí 2007.
Varakröfuna byggi stefnandi á hlutfallslegum útreikningi á stöðu dánarbúsins 1. júlí 2007 og 29. janúar 2010. Hlutur stefnanda í dánarbúinu sé 12,5% en samkvæmt erfðafjárskýrslu 29. janúar 2010 hafi hann átt 442.673.899 krónur eftir greiðslu arfs. Greiðslan sem stefnandi hafi fengið hafi verið 315.000.000 króna eða 71,2585% af réttmætum arfshluta. Hlutur stefnanda í búinu 1. júlí 2007 að frádregnum erfðafjárskatti sé eins og greini í aðalkröfu 485.708.301 króna, en 71.1585% af þeirri fjárhæð sé varakrafan sem sé 345.622.625 krónur. Stefnandi byggi kröfu sína um vexti af varakröfu frá 1. október 2007 á sömu rökum og getið sé um varðandi aðalkröfuna.
Þrautavarakröfu um greiðslu 315.000.000 króna auk dráttarvaxta frá 1. október 2007, byggi stefnandi á að ef, þrátt fyrir allt, yrði litið svo að stefnandi hefði sæst á greiðslu skerts hlutar í dánarbúinu, að sömu fjárhæð og hann hafi gert 29. janúar 2010, hafi hann þó átt að eiga þess kost að ávaxta það fé frá þeim sama tíma og stefndu færðu fjármuni búsins inn á sína reikninga. Að öðru leyti byggi stefnandi kröfu sína um vexti af þrautavarakröfu frá 1. október 2007 á sömu rökum og gilda um aðalkröfu.
Stefnandi vísi til meginreglna erfðalaga og laga um skipti á dánarbúum o.fl. Um varnarþing vísist til 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en kröfu um málskostnað styðji stefnandi við 129. gr., og 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.
III.
Stefndu byggja sýknukröfu sína aðallega á því að þeir hafi uppfyllt allar upplýsingaskyldur við stefnanda áður en gengið hafi verið frá erfðafjárskýrslu og samkomulagi um uppgjör vegna þeirra viðbótareigna í dánarbúi föður þeirra sem í ljós hafi komið í september 2007. Þá hafi stefndu þegar í nóvember 2009 falið H endurskoðanda og I hdl. að afla ítarlegra upplýsinga um viðkomandi eignir, allt frá því áður en faðir þeirra lést og fram til nóvember 2009, leggja þær fyrir stefnanda og veita honum hverjar þær upplýsingar sem hann eða ráðgjafar hans kynnu að óska eftir. Til þess hafi stefndu veitt I víðtækt umboð til að afla gagna frá bankanum. Hafi stefnandi því mátt vita, áður en viðbótareignunum hafi verið skipt, allt það sem stefndu vissu um umræddar viðbótareignir búsins.
Stefnandi hafi vitað, þegar gengið var frá erfðafjárskýrslu 29. janúar 2010, að stefndu hefðu enga vitneskju haft um viðbótareignirnar fyrr en í september 2007 þegar Kaupþing banki í Lúxemborg hafi tilkynnt þeim um þær og að þeim hefði verið skipt niður á reikninga í nafni þeirra þriggja. Þá hafi stefnandi einnig fengið fulla vitneskju um eignasafnið, verðmæti þess, samsetningu og breytingar á því allt frá árinu 2003 og fram til þess að gengið hafi verið frá skiptum á því. Jafnvel þótt stefndu hefðu ekki veitt stefnanda upplýsingar um hvenær þeim hefði borist vitneskja um eignirnar eða um önnur atriði þeim tengd þá hafi það staðið stefnanda nær, eftir að stefndu höfðu gefið þær eignir upp við búið, að nýta rétt sinn til að kalla eftir frekari upplýsingum sem hann taldi sig þurfa, hvort sem væri frá lögmanni búsins, banka eða frá stefndu.
Stefndu hafi ekki haft vitneskju um viðbótareignirnar áður en þeim hafi verið tilkynnt um þær í september 2007. Mótmælt sé að undirritun á skjal að beiðni föður þeirra árið 2002 skjal sem þau hafi engar skýringar fengið á frá honum og ekki séð aftur fyrr en eftir að bankinn hafi opnað aftur hafi gefið þeim tilefni til að kalla eftir upplýsingum frá Kaupþingi fimm árum síðar. Slíkum staðhæfingum sé mótmælt sem ósönnuðum. Stefndu hafi mátt ætla, að hverjar sem skyldur þeirra væru til að veita atbeina að því að fá upplýst hverjar eignir féllu undir búið, þá hafi þeim verið fullnægt með því að fulltrúa lögerfingja hafi verið veitt umboð til að leita heimildar sýslumanns til að óska eftir upplýsingum frá öllum innlánsstofnunum um eignir búsins.
Stefndu hafi hvorki átt aðkomu að þeirri ráðstöfun á viðbótareignum búsins sem hafi átt sér stað í september 2007, þegar þeim var skipt á þrjá reikninga í þeirra nafni, né að þeirri aðgerð að stofna þá reikninga og sé því mótmælt sem ósönnuðu. Þvert á móti sé byggt á að fyrir liggi að þær aðgerðir hafi verið framkvæmdar af bankanum sjálfum samkvæmt skriflegum fyrirmælum sem þar hafi legið fyrir frá föður þeirra. Þá sé því af sömu ástæðu mótmælt að umrædd færsla fjármuna á reikninga í nafni stefndu verði talin „ráðstöfun stefndu á fjármunum búsins í eigin þarfir“, svo sem nefnt sé í stefnu.
Mótmælt sé að ekki verði annað ráðið af skýrslutöku yfir stefndu en að þau hafi „talið sig hafa fullan ráðstöfunarrétt yfir allri innistæðu þessara reikninga í eigin þágu“. Þvert á móti verði ráðið af öllum gögnum málsins að þau hafi lagt sig fram um að raska sem minnst þessu eignasafni þar til fyrir lægi hvernig rétt væri að ráðstafa því.
Stefndu hafi hvorki brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991 né öðrum ákvæðum þeirra laga. Þau mótmæli því að í ákvæðinu felist viss tímafrestur til að gefa viðbótareignir upp til skipta. Hafi skilyrðum ákvæðisins verið fullnægt þegar viðbótareignirnar voru gefnar upp við búið í september 2009. Jafnvel þótt slíkur frestur yrði talinn felast í ákvæðinu sé ósannað að stefndu hafi farið út fyrir hann. Réttmætar ástæður séu fyrir því að töf hafi orðið á því að viðbótareignirnar hafi verið gefnar upp við búið. Þótt brotið væri gegn 2. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991, myndi slíkt ekki geta leitt til þess að skipti yrðu miðuð við stöðu búsins á öðru tímamarki en við lok skipta, sem stefnandi virðist byggja á, en í málatilbúnaði hans felist þó ekki krafa um endurupptöku skipta, enda séu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991 til þess ekki uppfyllt. Þótt kröfur stefnanda virðist byggðar á sök stefndu hafi hann ekki uppi skaðabótakröfur, enda sé af hans hálfu ekki myndast við að sanna bótagrundvöll, svo sem hvort skilyrði almennu skaðabótareglunnar eða annarrar bótareglu eigi við. Þá sé umfang meints tjóns ósannað og í hverju það ætti að vera fólgið. Krafa stefnanda um fjárkröfu verði heldur ekki byggð á lögum nr. 20/1991, svo sem 2. mgr. 84. gr., enda séu skilyrði ekki uppfyllt fyrir slíku og engan rökstuðning fyrir því að finna í stefnu.
Með samkomulagi málsaðila, 27. janúar 2006, þar sem staðfest hafi verið að stefnandi „eigi engar frekari erfðakröfur hverju nafni sem nefnast á hendur E, búi hans eða hálfsystkinum“, hafi hann afsalað sér kröfum til frekari arfs og sé bundinn við samkomulagið, enda ekkert komið fram sem raskað geti gildi þess og séu hvorki hafðar uppi kröfur né málsástæður þess efnis. Stefnandi hafi sem aðrir erfingjar við einkaskipti rétt til að ráðstafa réttindum með bindandi hætti og megi um það vísa sérstaklega til 28. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Því hafi allar frekari greiðslur dánarbúsins og stefndu til stefnanda, vegna síðar til kominna eigna, verið inntar af hendi umfram skyldu og sé mótmælt sem ósönnuðu að stefnanda hafi stofnast réttur til frekari krafna af hendi dánarbúsins eða stefndu, þar á meðal krafna er hann hafi uppi í þessu máli.
Fyrirliggjandi erfðafjárskýrsla vegna viðbótareigna dánarbúsins sé rétt, enda ósannað að eignirnar séu eða hafi verið aðrar og meiri við lok skipta en þar komi fram, eða 4.037.178.939 krónur. Af þeim sökum og með vísan til grandsemi stefnanda hafi aðilar verið fyllilega bærir til að ráðstafa réttindum með því samkomulagi sem þeir hafi gert 2. maí 2010 og séu við það bundnir. Það samkomulag sé að fullu í gildi, enda taki það til sakarefnisins og ráðstafi því, stefndu hafi þegar uppfyllt það að fullu og í því sé sérstaklega kveðið á um að stefnandi ætti ekki frekari kröfur á dánarbúið eða aðra erfingja. Samkomulagið sé stefnanda í vil í ljósi hagræðis af því að fá uppgjör í reiðufé og losna undan frekari ábyrgð á kostnaði búsins. Samkomulaginu verði ekki raskað með dómi enda engin slík krafa eða málsástæða höfð uppi af hálfu stefnanda um ógildingu eða breytingu. Þar sem í öllum dómkröfum stefnanda felist breyting á samkomulagi aðila um fullnaðaruppgjör, án þess að teflt sé fram málsástæðum sem heimili breytingu á því, verði að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Ítrekuð séu mótmæli við að skipti verði miðuð við stöðu á öðru tímamarki en við lok skipta, enda önnur tilhögun á bússkiptum ekki gerleg og engin lagastoð fyrir slíkri kröfu. Þá sé mótmælt sem órökstuddu að miða skuli við tímamarkið 1. ágúst 2007, sem sé um mánuði áður en stefndu hafi borist vitneskja um umræddar eignir.
Mótmælt sé þeirri forsendu fyrir útreikningi aðalkröfu stefnanda að ekkert tillit skuli tekið til skulda dánarbúsins sem að stærstum hluta séu ógreiddir tekju- og fjármagnstekjuskattar búsins og þar áður föður aðila, allt aftur til ársins 2004.
Ef til kæmi að fallist yrði að einhverju leyti á kröfur stefnanda, byggi stefndu á að til frádráttar skuli koma sá arfur sem stefnandi hafi fengið fyrir fram greiddan eftir föður aðila, sbr. 2. sbr. 1. mgr. 29. gr. erfðalaga nr. 8/1962, framreiknaður til verðlags til þess tíma sem frádráttur hafi átt sér stað, þ.e. við dómsuppsögu, sbr. einkum 31. gr. erfðalaga. Muni hér annars vegar vera um að ræða kröfu vegna fyrirframgreiðslu arfs samkvæmt erfðafjárskýrslu dags 1. ágúst 1989, þar sem stefnanda hafi verið greiddar 4.000.000 króna í reiðufé og hins vegar samkvæmt erfðafjárskýrslu dags 29. janúar 2001, þar sem honum séu úthlutuð hlutabréf úr búinu að verðmæti 20.000.000 króna.
Vaxtakröfum stefnanda sé mótmælt sem ósönnuðum og órökstuddum enda engin lagarök færð fyrir þeim. Kröfum um dráttarvexti og upphafsdegi þeirra sé mótmælt sem órökstuddum. Vaxtakröfur stefnanda séu að hluta til fallnar niður fyrir fyrningu. Að því leyti sem þær séu byggðar á að stefndu hafi leynt stefnanda upplýsingum um viðbótareignir sé vísað til fyrrgreindra mótbára. Stefnandi hafi notið að fullu vaxta og verðbóta sem eignir búsins hafi borið allt til þess að hann hafi fengið fullnaðargreiðslu á arfshluta sínum 29. janúar 2010. Þótt kröfur stefnanda væru byggðar á 2. mgr. 84. gr. laga nr. 20/1991 yrðu dráttarvextir ekki greiddir á þeim grundvelli.
Því sé mótmælt að skýrsla skattrannsóknarstjóra hafi sjálfstætt sönnunargildi í málinu, svo sem um þær staðhæfingar að eignir dánarbúsins hafi verið metnar á 4.090.175.167 krónur, 1. ágúst 2007, eins og vísað sé til í stefnu. Mun áreiðanlegri upplýsingar um stöðu búsins, á ýmsum tímum sé að finna í gögnum sem aflað hafi verið beint frá viðkomandi banka fyrir hönd dánarbúsins og fram komi t.d. í fylgiskjali með erfðafjárskýrslu aðila dags 29. janúar 2010. Hvað áreiðanleika varði sé bent á að ríkisskattstjóri hafi lýst yfir í bréfi 22. október 2013 að ekki verði fallist á niðurstöður skattrannsóknarstjóra í málinu og ekki sé ástæða til að aðhafast frekar í því.
Stefndu vísi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um kröfu sína um málskostnað. Þar sem þau geti ekki nýtt greiddan virðisaukaskatt sem innskatt sé krafist að tekið verði tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar. Stefndu byggi kröfu sína á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og réttar efndir krafna. Þá styðji stefndu kröfu sína við ákvæði laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum, lög nr. 150/2007 um fyrningu, lög nr. 38/2001 um vexti og verðbætur og meginreglur íslensks réttar, einkum erfða-, skipta-, kröfu- og samningaréttar.
IV.
Málatilbúnaður stefnanda og kröfugerð á hendur stefndu verður að skiljast svo að grundvallist á því að stefnandi telji sig ekki fullum fetum bundinn af samkomulagi því sem málsaðilar gerðu dags 2. maí 2010 um innbyrðis uppgjör stefnanda og stefndu á viðbótareigum dánarbúsins, sem ekki komu til skipta í upphaflegri einkaskiptagerð, dags 31. júlí 2007. Virðist stefnandi byggja á því að stefndu hafi vísvitandi leynt hann upplýsingum um þann umtalsverða viðbótararf þeirra sem síðar kom fram hjá Kaupþingi banka í Lúxemborg og sem síðar varð Banque Havilland, en stefndu hafi mátt vera kunnugt um tilvist fjármunanna erlendis allt frá árinu 2002 þegar þau hafi ritað á umboð hjá föður þeirra sem tengdist fjármunum hans erlendis. Stefndu byggja hins vegar á því að þau hafi ekkert vitað um tilvist eða umfang þessara fjármuna fyrr en í september árið 2007 þegar Kaupþing tilkynnir þeim um fjármunina sem hafi verið í eignastýringu hjá bankanum úti. Stefnandi byggir á því að honum hafi ekki verið tilkynnt um þessa viðbótarfjármuni dánarbúsins eða veittar upplýsingar um þá fyrr en síðla hausts 2009 og hafi hann þá miðað við að stefndu hefðu ekki haft vitneskju um eða haft ráðstöfun fjármunanna fyrr á hendi. Það hafi reynst rangt, sbr. umfangsmikla skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um dánarbú E, sem stefnandi byggir á, en rannsókn þeirri lauk þann 29. október 2012. Virðist á því byggt af hálfu stefnanda að stefndu hafi frá 1. október 2007, einhliða og án hans vitundar, ráðstafað og jafnvel hagnýtt sér þessa viðbótarfjármuni sem hafi þá þegar átt að koma til skipta í dánarbúinu árið 2007, og þar með hafi verið brostnar forsendur fyrir því samkomulagi sem hann gerði við stefndu um skiptingu þessara fjármuna 2. maí 2010 og hann vilji nú fá hlut sinn réttan úr hendi stefndu svo sem lýst sé í kröfugerð stefnanda.
Af hálfu stefndu er hins vegar byggt á því að stefnandi hafi haft fullnægjandi aðgang að öllum upplýsingum um viðbótareignir dánarbúsins áður en samkomulag þeirra um skiptingu þeirra eigna hafi verið gert 2. maí 2010. Stefnandi hafi haustið 2009 verið upplýstur um að stefndu hafi fengið upplýsingar um tilvist fjármunanna í september árið 2007, sem bankinn úti hafi sjálfur lagt inn á þrjá aðgreinda reikninga í jöfnum hlutum hjá öllum stefndu samkvæmt fyrirmælum föður þeirra, samkvæmt umboðinu frá 29. mars 2002, en tekið hafi umtalverðan tíma fyrir stefndu að vinna úr því hvernig ætti með þetta að fara gagnvart dánarbúinu, auk þess sem fjármunirnir hafi síðan verið frystir erlendis frá falli Kaupþings í október 2008 og þar til í júlí 2009 þegar Banque Haviland hafi tekið við bankastarfseminni í Lúxemborg. Sú ráðstöfun að stefnandi hafi fengið útborgun í lausafé á sínum arfshluta með samkomulaginu 2. maí 2010 hafi verið samkvæmt hans eigin óskum þar um og hann haft hagræði af því.
Með hliðsjón af vitnisburði þeirra H endurskoðanda, og I lögmanns, sem önnuðust um einkaskipti málsaðila, verður að miða við það að stefnandi hafi haft fullnægjandi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um stöðu dánarbúsins áður en hann gerði samkomulagið við stefndu dags 2. maí 2010 um skiptingu á þeim viðbótarfjármunum dánarbúsins sem um er deilt í máli þessu. Í framburði I kom fram að á fundum þeim sem haldnir hefðu verið með erfingjum dánarbúsins í desember 2009 og í janúar 2010 hafi hann upplýst stefnanda um að hann hafi að hans mati átt arfskröfu sem lögerfingi varðandi viðbótareignirnar sem samsvaraði 12.5% af eignunum, að stefndu hefðu vitað um þessa fjármuni og haft þá á reikningum sínum erlendis síðan haustið 2007, auk þess sem stefnandi hafi þá jafnframt fengið aðgang að öllum gögnum frá bankanum úti sem vörðuðu eignasafnið. Þá hefur vitnið L, sem starfaði við eignastýringu fyrir E heitinn í bankanum Lúxemborg, upplýst fyrir dómi að fyrrgreindir þrír bankareikningar í nafni stefndu hafi verið stofnaðir að frumkvæði bankans úti, og að það hafi verið gert samkvæmt umboðinu frá 29. mars 2002, en stefndu hafi ekki staðið að þeim gjörningi.
Fallast ber á með stefnanda að stefndu hafi þrátt fyrir tilgreindar ástæður dregið það óhæfilega lengi að upplýsa stefnanda um tilvist þeirra viðbótareigna í bankanum í Lúxemborg sem tilheyrt hafi dánarbúinu. Það breytir því þó ekki að þegar stefnandi gerir samkomulag við stefndu þann 2. maí 2010 um skiptingu eigna dánarbúsins virðist hann a.m.k. hafa haft aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um stöðu þess, sem og um stöðu sína sem erfingja, svo sem að framan greinir. Þá verður ekki séð að stefnandi hafi í máli þessu fært sönnur á að stefndu hafi misfarið með umræddar viðbótareignir búsins, þannig að tiltekið tjón hafi leitt af, áður en samkomulagið 2. maí 2010 var gert um skiptingu þeirra fjármuna.
Með vísan alls til framangreinds er það því niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á af hálfu stefnanda að grundvöllur sé til að fallast á kröfur hans í málinu, hvorki samkvæmt aðalkröfu, varakröfu, né þrautavarakröfu, eins og þær liggja fyrir, og með vísan til þess ber því að sýkna stefndu af dómkröfum stefnanda í málinu.
Eins og málið liggur fyrir þykir þó rétt að málskostnaður falli niður.
Málið flutti Rúnar S. Gíslason héraðsdómslögmaður, fyrir hönd stefnanda, en Hörður Helgi Helgason héraðsdómslögmaður, fyrir hönd stefndu.
Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð
Stefndu, B, C og D, skulu vera sýkn af dómkröfum stefnanda, A, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.