Hæstiréttur íslands
Mál nr. 571/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Fimmtudaginn 23. október 2008. |
|
Nr. 571/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Björk Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni, þó ekki lengur en til mánudagsins10. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Tilgangur farbannsins er að tryggja nærveru varnaraðila meðan tekin er afstaða til beiðni pólskra dómsmálayfirvalda 11. september 2008 um að hann verði framseldur. Með vísan til þessa og forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði bönnuð för frá Íslandi allt til mánudagsins 10. nóvember nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með bréfi ríkissaksóknara, dags. 8. október 2008, hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um handtöku og framsal varnaraðila vegna gruns um refsiverð brot í Póllandi.
Samkvæmt beiðninni sé varnaraðili grunaður um eftirfarandi brot:
1. Á tímabilinu maí til nóvember 2006 að hafa tekið þátt í skipulagðri glæpastarfsemi ásamt öðrum mönnum sem hafði þann megintilgang að dreifa verulegu magni fíkniefna. Teljist sú háttsemi varða við 1. mgr. 258. gr. pólskra hegningarlaga.
2. Á tímabilinu október til nóvember 2006, er hann hafi starfað í framangreindri skipulagðri glæpastarfsemi m.a. selt A a.m.k. 200 g af amfetamíni. Teljist sú háttsemi varða við 56. gr. 3. hluta, pólsku fíkniefnalöggjafarinnar, sbr. 1. mgr. 65. gr. pólskra hegningarlaga.
Í dag hafi varnaraðili verið færður til skýrslutöku hjá lögreglu þar sem honum hafi verið kynnt framsalsbeiðnin. Hann kvaðst ekki geta fallist á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal. Málið verði nú sent ríkissaksóknara sem muni veita dómsmálaráðuneytinu umsögn um hvort uppfyllt séu skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.
Til að tryggja nærveru varnaraðila meðan framsalsmál hans sé til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum sé nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni með skírskotun til 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, b. liðar 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Varnaraðili hefur mótmælt farbannskröfunni og telur ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að hún verði tekin til greina. Krafa þessi um farbann er sett fram svo unnt verði að taka afstöðu til beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila til Póllands vegna ætlaðra brota þar í landi. Með vísan til þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu er fallist á með vísan til 1. mgr. 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, að uppfyllt séu skilyrði b-liðar 1. mgr. 103. gr. og 110 gr. laga nr. 19/1991. Verður því fallist á beiðni lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Varnaraðila, X, kt. [...], er bönnuð för frá Íslandi allt til mánudagsins 10. nóvember nk. kl. 16.00.