Hæstiréttur íslands
Mál nr. 120/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 24. mars 2004. |
|
Nr. 120/2004. |
Ríkislögreglustjóri (Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Ólafur Ragnarsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl 2004 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Eins og fram kemur í úrskurði héraðsdómara er varnaraðili grunaður um að eiga aðild að innflutningi á rúmlega 400 grömmum af amfetamíni og hafa með því brotið gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Það brot eitt og sér er ekki þess efnis að gæsluvarðhaldi verði beitt samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni réttarins 1999, bls. 207 í máli nr. 30/1999. Auk þessa fíkniefnabrots er varnaraðili sakaður um háttsemi, sem getur varðað við 1. mgr. 124. gr. og 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga. Brot gegn fyrrnefnda ákvæðinu getur ekki varðað þyngri refsingu en fangelsi í sex mánuði og brot gegn því síðarnefnda ekki þyngri en tveimur árum. Þegar allt framangreint er virt þykja ekki alveg næg efni til þess að beita gæsluvarðhaldi með stoð í 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2004.
Ríkislögreglustjóri hefur gert kröfu um það að X, en með dvalarstað að [ ], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl nk. klukkan 16.00.
Í greinargerð ríkislögreglustjóra segir að af hálfu sýslumannsins á Eskifirði, ríkislögreglustjórans og ýmissa annarra lögreglustjóraembætta, hafi verið unnið að rannsókn eftirgreinds sakamáls í kjölfar þess að miðvikudaginn 11. þ.m. hafi fundist í höfninni í Neskaupsstað lík af karlmanni, sem augljóslega hafði verið varpað í höfnina með viðfestum sökkum. Í samræmi við ákvæði b-liðar 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 hafi verið óskað aðstoðar frá ríkislögreglustjóra og hafi efnahagsbrotadeild embættisins veitt rannsóknaraðstoð frá miðvikudeginum 11. febrúar s.l.
Líkið hafi fundist í höfninni í Neskaupsstað, klukkan 11.09 miðvikudaginn 11. febrúar s.l., þegar kafarar hafi verið að vinna við köfun við hafnarkantinn. Þeim hafi strax þótt ljóst á umbúnaði þess að því hefði verið komið fyrir í höfninni. Líkinu hafi verið vandlega pakkað inn í plast og sökkur festar við það. Þá haf rannsókn á líkinu leitt í ljós, eftir að því hafi verið komið á land, að á því hafi verið djúpir áverkar eftir eggvopn. Frekari rannsókn á líkinu við réttarkrufningu í Reykjavík hafi leitt í ljós að innvortis í því hafi verið rúmlega 400 grömm af hvítu efni pakkað í [...] gúmmíhylki sem hafi við fyrstu athugun verið talið amfetamín. Þá þyki ljóst að stungusárin á líkinu hafi komið til eftir lát viðkomandi. Ekki liggi enn fyrir dánarorsök en líkindi séu talin vera fyrir því að gúmmíhylkin sem viðkomandi hafi gleypt hafi leitt til heiftarlegra veikinda og jafnvel dauða.
[...]
Álit dómsins:
Með vísan til fyrirliggjandi rannsóknargagna, þar með talinna lögregluskýrslna af kærða og Y, sem þeir hafa staðfest fyrir dómi, er fallist á með ríkislögreglustjóra að rökstuddur grunur sé fyrir því að kærði hafi átt þátt í innflutningi á verulegu magni hættulegra fíkniefna og með einum og öðrum hætti komið með refsiverðum hætti að atburðarás sem leiddi til dauða A og refsiverðri meðferð á líki hans þannig að varði við 124. gr., 173. gr. a, og jafnframt 1. mgr. 220. gr. eða 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með vísan til þess magns amfetamíns sem kærði átti þátt í innflutningi á og 12 ára refsiramma 173. gr. a almennra hegningarlaga þykir ljóst að fyrra skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er uppfyllt. Auk þátttöku í stórfelldu fíkniefnabroti sem fólst í innflutningi á fíkniefnum með sérstaklega hættulegum hætti, liggur fyrir sterkur grunur um að kærði hafi átt þátt í atburðarrás sem leiddi til þess að fyrrnefndur A lést á voveiflegan hátt án þess að komast undir læknishendur og eftirfarandi óhugnanlegri meðferð á líkinu. Ætla verður að kærði muni sæta þungri fangelsisrefsingu vegna meintra brota sem telja verður alvarleg og sérstaklega ógeðfelld. Með hliðsjón af framangreindu þykja almannahagsmunir krefjast þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi.
Kærði er borinn og barnfæddur hér á landi. Þrátt fyrir alþjóðlegt eðli innflutnings fíkniefna og að kærða hefur nokkur tengsl við útlönd þykir ríkissaksóknari ekki hafa sýnt fram á að ástæða sé til að ætla að kærði muni reyna að komast úr landi til að komast undan málsókn og refsingu fengi hann að ganga laus. Skilyrði b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála þykir því ekki uppfyllt.
Þar sem fullnægt er skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að taka kröfu ríkislögreglustjóra um áframhaldandi gæsluvarðhald kærða til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu styttri tíma.
Sigurður T. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl nk. klukkan 16.00.