Hæstiréttur íslands

Mál nr. 417/2017

Magni ehf. og Viðhald og nýsmíði ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
gegn
Graníthöllinni ehf. (Hilmar Magnússon hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Endurgreiðslukrafa

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem þb. G ehf. var gert að greiða G ehf. eftirstöðvar reiknings sem tilkominn var vegna hagsmunagæslu G ehf. fyrir þrotabúið á grundvelli 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sem hafði leitt til þess að tveimur greiðslum var rift og þrotabúinu dæmd ákveðin fjárhæð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að M ehf. og V ehf. bæru sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu sinni að reikningur G ehf. væri ekki í samræmi við þá vinnu sem innt hefði verið af hans hendi í þágu fyrrnefndra dómsmála. Þá sönnunarbyrði hefðu M ehf. og V ehf. ekki axlað. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2017, þar sem þrotabúi Graníthússins ehf. var gert að greiða varnaraðila 7.671.200 krónur að frádregnum 2.800.000 krónum.  Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðilar bera sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni að reikningur varnaraðila sé ekki í samræmi við þá vinnu sem innt var af hendi af hálfu varnaraðila í þágu þeirra dómsmála sem hér um ræðir. Þá sönnunarbyrði hafa sóknaraðilar ekki axlað. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Magni ehf. og Viðhald og nýsmíði ehf., greiði óskipt varnaraðila, Graníthöllinni ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 13. júní 2017

 

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 16. maí 2017, var þingfest 5. desember 2016, en málið barst dómnum með erindi skiptastjóra þrotabús Graníthússins ehf. 27. október 2016. Sóknaraðili er Graníthöllin ehf., Bæjarhrauni 26 í Hafnarfirði. Varnaraðilar eru Magni ehf., Helluhrauni 2 í Hafnarfirði, Viðhald og nýsmíði ehf., Kvisthaga 1 í Reykjavík, og þrotabú Graníthússins ehf., Borgartúni 25 í Reykjavík.

Kröfur sóknaraðila eru þær að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra varnaraðila þrotabús Graníthússins ehf. þess efnis að þrotabúinu verði gert að greiða sóknaraðila 8.058.700 krónur að frádregnum 2.800.000 krónum, með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.258.700 krónum frá 27. september 2016 til greiðsludags. Jafnframt er krafist viðurkenningar á því að umrædd krafa njóti rétthæðar á hendur þrotabúinu sem sérgreind krafa er greiðist af því fé sem búinu hefur áskotnast vegna aðgerða sóknaraðila svo langt sem til hrekkur, en til vara að hún njóti rétthæðar samkvæmt 2. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þannig að fyrst greiðist kostnaður sóknaraðila af því fé sem búinu hefur áskotnast af aðgerðum sóknaraðila áður en annar skiptakostnaður sé greiddur. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilar Magni ehf. og Viðhald og nýsmíði ehf. verði dæmdir in solidum til greiðslu málskostnaðar.

Varnaraðilar Magni ehf. og Viðhald og nýsmíði ehf. krefjast þess að  hrundið verði ákvörðun skiptastjóra varnaraðila þrotabús Graníthússins ehf. þess efnis að samþykkja sem búskröfu á hendur þrotabúinu kröfu sóknaraðila að fjárhæð 8.058.700 krónur, að frádregnum 2.800.000 krónum, með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.258.700 krónum frá 27. september 2016 til greiðsludags. Þá krefjast varnaraðilarnir þess að sóknaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað.

Varnaraðili þrotabú Graníthússins ehf. hefur ekki haft uppi kröfur í málinu.

I

Bú Graníthússins ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 30. janúar 2014 og Harpa Hörn Helgadóttir hdl. skipuð skiptastjóri í þrotabúinu. Skiptastjóri gaf út innköllun og rann kröfulýsingarfrestur út 14. apríl 2014. Á skiptafundi 13. október 2014 lýsti skiptastjóri því yfir að þrotabúið myndi ekki leita riftunar á greiðslum úr hinu gjaldþrota félagi til varnaraðila Magna ehf., að fjárhæð 6.200.000 króna, og til varnaraðila Viðhalds og Nýsmíði ehf., að fjárhæð 8.000.000 króna. Tilkynnti sóknaraðili þá um að hann ráðgerði að reka dómsmál vegna þessara ráðstafana, auk annarra, í eigin nafni til hagsbóta þrotabúinu samkvæmt 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sama dag höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðilum Magna ehf. og Viðhaldi og nýsmíði ehf. til riftunar og endurgreiðslu fjármunanna til þrotabúsins.

Með dómum Hæstaréttar Íslands 12. maí 2016 í máli nr. 565/2015 Viðhald og Nýsmíði ehf. gegn Graníthöllinni ehf. og máli nr. 566/2015 Magni ehf. gegn Graníthöllinni ehf., var fallist á kröfur sóknaraðila og varnaraðilum Magna ehf. og Viðhaldi og nýsmíði ehf. gert að endurgreiða þrotabúi Graníthússins ehf. fjármunina með dráttarvöxtum. Var málskostnaður til sóknaraðila fyrir héraðsdómi og í Hæstarétti ákveðinn samtals 1.400.000 krónur í hvoru máli. Greiddu varnaraðilar Magni ehf. og Viðhald og nýsmíði ehf. höfuðstól, dráttarvexti og málskostnað inn á fjárvörslureikning þrotabúsins. Í kjölfarið lýstu þeir kröfum á hendur þrotabúinu sem nam höfuðstól fjárkröfu þeirra samkvæmt 143. gr. laga nr. 21/1991.

Á skiptafundi 26. júlí 2016 lagði sóknaraðili fram reikning Lögskila ehf. vegna reksturs dómsmálanna, ásamt verkskýrslu vegna vinnu starfsmanna lögmanns­stofunnar í alls 256 klukkustundir á tímabilinu 6. janúar 2014 til 4. maí 2016 og yfirliti útlagðs kostnaðar. Heildarfjárhæð reikningsins var 8.058.700 krónur, þar af virðisaukaskattur 1.546.200 krónur. Á skiptafundi 27. september sama ár samþykkti skiptastjóri þrotabúsins greiðslu reikningsins að frádregnum þegar greiddum málskostnaði að fjárhæð 2.800.000 krónur, samtals 5.258.700 krónur. Af hálfu varnaraðila Magna ehf. og Viðhalds og nýsmíði ehf. var afstöðu skiptastjóra mótmælt á þeim grunni að reikningurinn væri of hár. Skiptastjóri boðaði til nýs skiptafundar 12. október sama ár í því augnamiði að jafna ágreining aðila um reikninginn, án árangurs. Í kjölfarið beindi skiptastjóri ágreiningi um að hvaða marki bæri að viðurkenna reikning Lögskila ehf. vegna vinnu og útlagðs kostnaðar í tengslum við rekstur dómsmálanna til úrlausnar héraðsdóms.

II

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að þrotabúi Graníthússins ehf. beri að greiða sóknaraðila þann kostnað sem hann hafi haft af málarekstrinum. Reikningur lögmannstofunnar byggi á útlögðum kostnaði við rekstur málanna tveggja og ítarlegri verkskýrslu sem skýri umfang vinnunnar og kostnað sem af henni hafi leitt fyrir sóknaraðila. Skiptastjóri þrotabúsins hafi yfirfarið reikninginn og samþykkt að greiða kostnað sóknaraðila.

Sóknaraðili segir reikninginn sanngjarnan og eðlilegan þegar horft sé til umfangs vinnunnar. Reikningurinn sé studdur ítarlegri verkskýrslu. Varnaraðilar Magni ehf. og Viðhald og nýsmíði ehf. hafi ekki hrakið þar tilgreint vinnuframlag að neinu leyti. Þá sé umkrafið tímagjald sanngjarnt og í hóf stillt. Tímagjaldið byggi á verðskrá lögmannstofunnar Lögskila ehf. Í munnlegum málflutningi var til þess vísað af hálfu lögmanns sóknaraðila að um jafnaðargjald væri að ræða sem tæki mið af því hvaða lögmenn hafi innt vinnuna af hendi.

Sóknaraðili bendir á að dæmdur málskostnaður honum til handa sé í raun skaðabætur sem varnaraðilar Magni ehf. og Viðhald og nýsmíði ehf. hafi verið dæmdir til að greiða vegna kostnaðar sem sóknaraðili hafi haft af málarekstrinum. Lögmaður sóknaraðila sé ekki bundinn af þeirri ákvörðun dómara gagnvart umbjóðanda sínum, ekki frekar en ef málskostnaður hefði verið felldur niður. Samkvæmt 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé ábyrgð á greiðslu kostnaðar við rekstur dómsmálanna felld á þrotabú. Engar takmarkanir sé að finna í lagaákvæðinu að öðru leyti en því að búinu hafi áskotnast fé sem staðið geti undir kostnaðinum og þá að svo miklu leyti sem fjármunir hrökkvi til. Sanngjarnt og eðlilegt sé að slíkur kostnaður greiðist af þrotabúinu, áskotnist því fé af aðgerðum sóknaraðila. Ella sæti sóknaraðili uppi með tjón sitt óbætt, þrotabúinu og kröfuhöfum til auðgunar. Þá væri lagaákvæðið óþarft þyrfti sá sem tæki að sér að halda uppi hagsmunum þrotabús að sæta málskostnaðarákvörðun dómara. Í þessu sambandi vísar sóknaraðili enn fremur til 114. gr. eldri gjaldþrotalaga nr. 6/1978.

Af hálfu sóknaraðila er áréttað að raunkostnaður þrotabúsins vegna málaferlanna sé 3.712.500 krónur þar sem búið fái endurgreiddan virðisaukaskatt af reikningnum sem innskatt. Þá sé dráttarvaxta krafist frá þeim degi sem skiptastjóri hafi samþykkt á skiptafundi greiðslu á kostnaði sóknaraðila. Þann dag hafi krafa sóknaraðila fallið í gjalddaga.

Kröfu um viðurkenningu á því að fjárkrafan skuli teljast sérgreind krafa við skiptin byggi sóknaraðili á því að samkvæmt 130. gr. laga nr. 21/1991 beri að endurgreiða þann kostnað sem sóknaraðili hafi haft af aðgerðum sínum að því leyti sem búinu hafi áskotnast fé af þeim aðgerðum. Þannig skuli fyrst greiða kostnað þess aðila sem staðið hafi að aðgerðum og skuli kostnaðurinn greiddur af því fé sem búinu hafi áskotnast, áður en annar kostnaður eða kröfur séu greiddar. Verði krafa sóknaraðila talin falla undir skiptakostnað í skilningi 2. töluliðar 110. gr. laga nr. 21/1991, geri sóknaraðili til vara þá kröfu að kostnaður sóknaraðila verði greiddur undir þeim lið áður en annar kostnaður verði greiddur, hrökkvi fé til þess sem greiðst hefur til búsins vegna aðgerða sóknaraðila. Í báðum tilfellum skuli vextir af kröfunni njóta sömu rétthæðar og krafan sjálf þar sem einungis vextir af kröfum samkvæmt 112. og 113. gr. laga nr. 21/1991 teljist eftirstæðir, sbr. 1. tölulið 114. gr. sömu laga.

Um dráttarvexti vísar sóknaraðili til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

III

Varnaraðilar Magni ehf. og Viðhald og nýsmíði ehf. segja reikning Lögskila ehf. eiga sér takmarkaða stoð í raunveruleikanum. Samkvæmt reikningnum hafi 256 klukkustundum verið varið í undirbúning og rekstur dómsmálanna tveggja. Vinnuliðurinn einn nemi 6.400.000 krónum. Upp í þann kostnað hafi komið málskostnaður úr hendi varnaraðila, samtals að fjárhæð 2.800.000 krónur, eða sem svari til 112 stunda vinnu miðað við 25.000 króna tímagjald lögmanns sóknaraðila. Eftir standi þá 3.600.000 króna, sem svari til 144 tíma vinnu lögmanns sóknaraðila.

Varnaraðilar byggja á því að enginn fótur sé fyrir vinnulið reikningsins og því sé skiptastjóra óheimilt að fella þennan kostnað á þrotabúið. Benda varnaraðilar á í því sambandi að í tímaskrá með reikningnum séu skráðir tímar sem ekkert hafi að gera með rekstur dómsmálanna tveggja. Stefnur í málunum tveimur hafi verið gefnar út 13. október 2014, sama dag og heimild til að reka málin hafi verið veitt á skiptafundi. Fyrst þá hafi sóknaraðili getað efnt til kostnaðar sem unnt sé að endurkrefja þrotabúið um. Þá komi hvergi fram í gögnum þrotabúsins að skiptastjóra hafi verið gerð grein fyrir þegar áföllnum kostnaði og fengið hann samþykktan, líkt og borið hafi að gera til að unnt væri að krefja þrotabúið um hann síðar. 

Af tímaskránni megi ráða að aldrei hefðu getað farið fleiri 152 klukkustundir í meðferð dómsmálanna tveggja sem sóknaraðili hafi tekið að sér að reka. Þá sé rúmlega talið enda sé ótrúlegt að lögmaður sóknaraðila hafi þurft fræðilega upprifjun í gjaldþrotarétti og umfangsmikil fræðastörf til að flytja sömu málin á nokkurra mánaða fresti, fyrst í héraði og síðan fyrir Hæstarétti Íslands. Þá verði að horfa til þess að dómsmálin hafi verið efnislega samhljóða og sömu gögn verið í þeim báðum. Eigi sóknaraðili einhverja kröfu á hendur þrotabúinu sé hún að hámarki fyrir 8 tíma sem greiða eigi 200.000 krónur fyrir, auk virðisaukaskatts, sé tekið mið af tímagjaldi lögmanns sóknaraðila.

Af tímaskránni megi einnig ráða að lögmaður sóknaraðila hafi látið starfsmann sinn, Betzy Ósk Hilmarsdóttur, vinna að stefnugerð fyrir skiptafundinn 13. október 2014. Hún hafi jafnframt unnið að málinu allt til flutnings þess í Hæstarétti í byrjun maí 2016. Varnaraðilar telji þrotbúinu með öllu óskylt að greiða sóknaraðila fyrir störf aðstoðarmanns eða fulltrúa lögmanns sóknaraðila og þá geti tímagjald slíkra aðila aldrei verið hið sama og þess hæstaréttarlögmanns sem ráðinn hafi verið til verksins. Hvorki sóknaraðili, né Hilmar Magnússon lögmaður, hafi upplýst skiptastjóra um þetta fyrirkomulag gjaldtöku þegar leitað hafi verið eftir heimild skiptastjóra til að reka riftunarmálin. Þá mótmæli varnaraðilar því að sóknaraðila beri sérstakt gjald fyrir akstur lögmanns hans frá skrifstofu til dómstóla, enda hafi ekki verið gerð grein fyrir þeirri gjaldtöku þegar sóknaraðili hafi leitað heimildar til málarekstrarins á skiptafundi.

Með vísan til alls framangreinds sé á því byggt af hálfu varnaraðila Magna ehf. og Viðhalds og nýsmíði ehf. að krafa sóknaraðila sé ósanngjörn og án nokkurs efnislegs rökstuðnings sem standist skoðun. Krafa sóknaraðila, sem byggi á reikningi lögmanns hans, beri í raun aðeins vott um græðgi og endurspegli það viðhorf að þrotabú sem eignir séu í skuli skipt í þágu annarra en kröfuhafa. Verði reikningur sóknaraðila tekinn til greina sé ljóst að kostnaður vegna starfa skiptastjóra og lögmanns sóknaraðila við skipti á þrotabúi Graníthússins ehf. sé þegar orðinn 16.494.694 krónur, eða um helmingur af öllum eignum þrotabúsins. Skiptum sé ekki lokið og mestar líkur á því, ef fram heldur sem horfir, að skiptastjórinn og sóknaraðili skipti eignum þrotabúsins á milli sín. Lög um gjaldþrotaskipti séu ekki sett fyrir lögmenn heldur til að tryggja að við skuldaskil á grundvelli þeirra fái kröfuhafar, sem eins sé ástatt um, hlutdeild í eignum bús ef þeim er til að dreifa.

Varnaraðilar Magni ehf. og Viðhald og nýsmíði ehf. segja í lögum nr. 21/1991 ekki vera að finna ákvæði um hvernig ákvarða skuli kostnað kröfuhafa sem rekið hafi mál á grundvelli 130. gr. laganna, leiði málareksturinn til þess að þrotabúi áskotnasti fé. Um kostnað sem kröfuhafi geti endurkrafið þrotabú um gildi því almennar reglur samninga- og kröfuréttar, meðal annars regla 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. og dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 273/2004. Samkvæmt því eigi seljandi vöru eða þjónustu rétt til sanngjarns verðs eða þóknunar fyrir það sem hann láti af hendi. Varnaraðilar hafni því að það teljist eðlilegt og sanngjarnt miðað við umfang málanna, og þá tíma sem lögmaður sóknaraðila hafi skrifað beint á málareksturinn, að honum beri 6.400.000 krónur í þóknun. Engu skipti við það mat hvort þrotabúið fái virðisaukaskatt endurgreiddan, líkt og sóknaraðili byggi á, enda sé þá aðeins verið að varpa lögmannskostnaði sóknaraðila á ríkissjóð, þar sem útsköttun þrotabúsins sé engin. Sóknaraðili hafi ekki getað vænst annars og meira en endurgreiðslu kostnaðar sem sannanlega hafi verið stofnað til vegna málaferlanna. Að auki hafi sóknaraðila borið að gera skiptastjóra grein fyrir væntanlegum kostnaði, enda hafi verið vélað um hagsmuni kröfuhafa þrotabúsins. Af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 423/1996 sé ljóst að skiptastjóri geti ekki tekið sér hvaða þóknun sem er. Sama takmörkun sé á rétti þeirra sem taki að sér að reka mál um hagsmuni þrotabúsins til endurgreiðslu á kostnaði.

Samkvæmt öllu framangreindu telja varnaraðilar að hrinda skuli þeirri ákvörðun skiptastjóra að samþykkja  kröfu sóknaraðila, sem byggi á reikningi Lögskila ehf., um greiðslu 8.058.700 króna að frádregnum 2.800.000, auk dráttarvaxta af 5.258.700 frá 27. september 2016 til greiðsludags, hvort heldur sem, sértökukröfu eða búskröfu. Þá beri að úrskurða sóknaraðila til greiðslu málskostnaðar samkvæmt 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

IV

Samkvæmt 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. getur lánardrottinn, hvers krafa á hendur þrotabúi hefur ekki þegar verið hafnað, haldið uppi hagsmunum sem þrotabúið kann að njóta eða geta notið í eigin nafni til hagsbóta búinu, hafi skiptastjóri ákveðið að gera það ekki. Skal þá tilkynna það skiptastjóra tafarlaust og lánardrottinn sjálfur bera kostnað og áhættu af aðgerðum sínum en hann getur krafið þrotabúið um endurgreiðslu kostnaðar að því leyti sem búinu áskotnast fé af þeim. 

Ágreiningur málsaðila lítur að eftirstöðvum reiknings Lögskila ehf. sem sóknaraðili gerir kröfu um að þrotabú Graníthússins ehf. greiði vegna hagsmunagæslu hans fyrir þrotabúið á grundvelli 130. gr. laga nr. 21/1991, sem leiddi til þess að tveimur greiðslum hins gjaldþrota félags var rift og þrotabúinu dæmdar samtals 14.200.000 krónur ásamt dráttarvöxtum. Svo sem áður segir er heildarfjárhæð reikningsins 8.058.700 krónur með virðisaukaskatti, en 2.800.000 krónur af þeirri fjárhæð hafa þegar verið inntar af hendi. 

Á reikningi Lögskila ehf. kemur fram að krafið sé um kostnað vegna 256 klukkustunda vinnu á tímagjaldinu 25.000 krónur, eða samtals að fjárhæð 6.400.000 krónur, aksturskostnað vegna 17 ferða, samtals að fjárhæð 42.500 krónur, og annan útlagðan kostnað að fjárhæð 70.000 krónur, allt að viðbættum virðisaukaskatti. Mótmæli varnaraðila Magna ehf. og Viðhalds og nýsmíði ehf. við að eftirstöðvar reikningsins skuli greiddur af þrotabúinu eru á því byggð að krafið sé um greiðslu fyrir vinnustundir sem ekkert hafi með rekstur dómsmálanna tveggja að gera og vinnu sem unnin hafi verið áður en skiptastjóri hafi veitt sóknaraðila heimild til málshöfðunarinnar á skiptafundi 13. október 2014. Við munnlegan flutning málsins kom fram hjá lögmanni varnaraðila Magna ehf. og Viðhalds og nýsmíði ehf. að athugasemdir væru ekki gerðar við tímagjald það sem fram komi á reikningnum.

Við úrlausn á ágreiningi aðila er fyrst til þess að líta að samkvæmt 130. gr. laga nr. 21/1991 voru aðgerðir sóknaraðila í eigin nafni og áhættu, til hagsbóta þrotabúi Graníthússins ehf., ekki háðar samþykki skiptastjóra þrotabúsins. Svo sem áður segir lá fyrir 13. október 2014 að af hálfu þrotabúsins yrði ekki ráðist í riftunarmál án aðkomu kröfuhafa og tilkynnti sóknaraðili þá að hann hygðist höfða og reka umrædd tvö dómsmál. Sóknaraðili stofnaði til alls kostnaðar vegna þessa sjálfur og á eigin áhættu. Honum er hins vegar heimilt að endurkrefja þrotabúið um kostnað að því marki sem þrotabúinu áskotnaðist fé vegna aðgerðanna, sbr. áður tilvitnaða 130. gr. Í því sambandi verður ekki gerður greinarmunur á kostnaði sem stofnaðist til fyrir eða eftir skiptafundinn 13. október 2014, verði talið að hann sé í eðlilegum tengslum við þann málarekstur sóknaraðila sem leiddi til þess að þrotabúinu áskotnaðist fé.

Reikningi Lögskila ehf. fylgir ítarleg verkskýrsla þar sem skráð er vinna Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns og annarra starfsmanna á lögmanns­stofunni Lögskilum ehf. fyrir sóknaraðila, allt frá 6. janúar 2014 fram til 4. maí 2016. Til þess verður að líta að þrotabú Graníthússins ehf. verður aðeins krafið um kostnað við vinnu lögmanna fyrir sóknaraðila að því marki sem hún var unnin í þágu þrotabúsins, en búið verður ekki krafið um endurgreiðslu vegna vinnu í þágu hagsmuna sóknaraðila sjálfs sem kröfuhafa. Af verkskýrslunni má ráða að eiginleg vinna lögmannsins við riftunarmálin hafi hafist eftir fund með skiptastjóra þrotabúsins 3. september 2014 „... til að fara yfir riftunarmöguleika og að Graníthöllin muni reka þau á eigin kostnað“. Með vísan til þessa verður fallist á mótmæli varnaraðila að því marki sem krafið er um kostnað vegna starfa lögmannsins fyrir sóknaraðila sem fram fóru fyrir þann tíma, eða alls 12 vinnustundir og kostnað við akstur vegna 5 ferða, samtals 387.500 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum. Varnaraðilar hafa að öðru leyti ekki fært fram haldbær rök eða gögn því til stuðnings að einstakir liðir skýrslunnar hafi ekkert haft með rekstur riftunarmálanna tveggja að gera. Þá hafa þeir ekki sýnt fram á að sú tímaskráning sem reikningurinn byggir á sé ósanngjörn eða of mikil. Svo sem vísað var til í munnlegum málflutningi lögmanns sóknaraðila fóru varnaraðilar ekki þá leið að afla sér matsgerðar dómkvaddra matsmanna til þess að hnekkja reikningnum, svo sem þeim hefði verið í lófa lagið að gera. Jafnframt verður að fallast á það með sóknaraðila, sem einnig var vísað til af hálfu lögmanns hans í munnlegum málflutningi, að allar vísanir varnaraðila til starfa skiptastjóra, bæði almennt og í máli þessu, og þeirra lagareglna er um störf skiptastjóra gilda, séu haldlausar, enda verður úrlausn máls þessa ekki á þeim reist heldur skýringu á 130. gr. laga nr. 21/1991. Með sömu rökum verður hafnað þeim málatilbúnaði varnaraðila að sóknaraðila hafi borið að leita heimildar hjá skiptastjóra fyrir útgjöldum við málareksturinn, enda á sá málatilbúnaður varnaraðila sér ekki stoð í tilvitnuðu ákvæði 130. gr. Að endingu verður ekki séð að máli skipti, hvað rétt sóknaraðila til endurgreiðslu varðar samkvæmt títtnefndu ákvæði laga nr. 21/1991, hvaða lögmaður eða lögmenn inntu þau störf af hendi sem sóknaraðili krefst greiðslu fyrir.

Samkvæmt öllu framanröktu verður þrotabúi Graníthússins ehf. gert að greiða sóknaraðila 7.671.200 krónur (8.058.700-387.500) að frádregnum 2.800.000 krónum, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.871.200 krónum frá 27. september 2016 til greiðsludags. Samkvæmt skýru orðalagi 130. gr. laga nr. 21/1991 skal krafa sóknaraðila greiðist af því fé sem þrotabúinu hefur áskotnast vegna aðgerða hans samkvæmt framansögðu.

Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður varnaraðilum Magna ehf. og Viðhaldi og nýsmíði ehf. gert að greiða sóknaraðila málskostnað óskipt sem hæfilega þykir ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðili þrotabú Graníthússins ehf. greiði sóknaraðila, Graníthöllinni ehf., 7.671.200 krónur, sem frá dragast 2.800.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.871.200 krónum frá 27. september 2016 til greiðsludags, sem greiðist af því fé sem þrotabúinu áskotnaðist vegna aðgerða sóknaraðila.

Varnaraðilar Magni ehf. og Viðhald og nýsmíði ehf. greiði sóknaraðila óskipt 500.000 krónur í málskostnað.