Hæstiréttur íslands
Mál nr. 699/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 6. nóvember 2014. |
|
Nr. 699/2014. |
K (Þuríður Halldórsdóttir hdl.) gegn M (enginn) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður
staðfestur.
Kærður var úrskurður
héraðsdóms þar sem máli K gegn M var vísað frá dómi með vísan til þess að ekki
yrði séð af málatilbúnaði K á hvaða atvikum og ástæðum kröfur hennar í málinu
byggðu og væri hann því í andstöðu við 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála, einkum e. lið ákvæðisins. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a.
að þær síðbúnu úrbætur sem K gerði á málatilbúnaði sínum í kæru til Hæstaréttar
gætu engu breytt um að málinu hefði réttilega verið vísað frá dómi eins og það
hefði legið fyrir í héraði. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun
málsins því staðfest.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 26. september 2014, sem sóknaraðili kveður sér fyrst hafa orðið kunnugt um 15. október sama ár, en með úrskurðinum var máli sóknaraðila á hendur varnaraðila vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar „eins og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða.“
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Í kæru til Hæstaréttar hefur sóknaraðili leitast við að gera nánari grein fyrir atvikum málsins og málsástæðum að baki dómkröfum sínum í héraðsdómsstefnu. Þær síðbúnu úrbætur á málatilbúnaði hennar geta engu breytt um að málinu var réttilega vísað frá dómi eins og það lá fyrir í héraði. Hinn kærði úrskurður verður því að þessu leyti staðfestur með vísan til forsendna hans. Eftir 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 skal í dómi eða úrskurði aðeins kveðið á um fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanns þess, sem nýtur gjafsóknar, en ekki annan kostnað af máli. Fer því um gjafsóknarkostnað sóknaraðila í héraði samkvæmt því, sem í dómsorði greinir, en málskostnaður fyrir héraðsdómi fellur niður.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Með því að gjafsókn sóknaraðila samkvæmt bréfi innanríkisráðuneytisins 8. september 2014 var bundin við rekstur málsins í héraði og hún hefur ekki lagt fyrir Hæstarétt gögn um að sér hafi verið veitt gjafsókn hér fyrir dómi verður gjafsóknarkostnaður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun málsins frá héraðsdómi er staðfest.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, K, í héraði greiðist úr ríkissjóði,
þar með talin þóknun lögmanns hennar, 301.828 krónur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 26. september 2014.
Mál þetta, sem þingfest var 18. júní
sl., og dómtekið þann 17. september sl., er höfðað af K, kt.
[...], til heimilis að [...], með stefnu birti 13. júní sl., á hendur M, kt. [...], til heimilis að [...].
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að
núgildandi samkomulag um sameiginlega forsjá, A, kt.
[...], dóttur stefnanda og stefnda, verði fellt úr gildi og að stefnanda verði
með dómi einni falin forsjá stúlkunnar til 18 ára aldurs hennar.
Þá er þess krafist að dæmt verði að
stefnda beri að greiða stefnanda einfalt meðlag með barninu frá dómsuppkvaðningu
til 18 ára aldurs.
Jafnframt er krafist málskostnaðar úr
hendi stefnda að viðbættum virðisaukaskatti, án tillits til þess hvort
gjafsóknarleyfi fæst vegna málsins, og beri málskostnaðarfjárhæðin dráttarvexti
skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 í samræmi við 4. mgr. 129. gr. laga nr.
91/1991.
Engar kröfur hafa komið fram af hálfu
stefnda.
Málatilbúnaður
stefnanda
Í stefnu gerir stefnandi í einu lagi
grein fyrir málavöxtum og málsástæðum sínum. Er málavöxtum þar lýst í „stuttu
máli“ þannig að stefnandi og stefndi hafi verið í sambúð og þeim fæðst stúlkan
A [...]. Sambúðin hafi verið erfið og hafi stefndi beitt stefnanda ofbeldi á
sambúðartímanum sem hann hafi verið dæmdur til refsingar fyrir. Sambúðinni hafi
verið slitið [...] og hafi þá verið staðfest samkomulag um sameiginlega forsjá.
Í stefnu er málsástæðum stefnanda
lýst svo að ekki séu forsendur fyrir sameiginlegri forsjá og hafi sáttameðferð
skv. 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 ekki borið árangur. Stefnandi hafi því
ekki aðra leið til úrslausnar en að höfða mál þetta á hendur stefnda og
krefjast þess að henni verði með dómi, einni falin forsjá stúlkunnar.
Þá er gerður sá áskilnaður í stefnu
að komi til þess að stefndi taki til varna, óski stefnandi þess að dómari skipi
sérfróðan aðila til að kanna aðstæður og hæfni aðila til að fara með forsjá
barnsins, skv. 3. mgr. 42. barnalaga nr. 76/2003. Þá er og gerður áskilnaður
til framlagningar matsbeiðni, hafi dómari ekki frumkvæði í þeim efnum.
Þá eru ítrekaðar kröfur um meðlag og
málskostnað, óháð gjafsókn stefnanda, og því lýst að þar sem stefnandi sé ekki
virðisaukaskattskyld sé henni nauðsynlegt að fá tildæmdan virðisaukaskatt á
málskostnað.
Um lagarök vísar stefnandi til 2.
mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, hvað varðar kröfu sína um forsjá. Kröfu um
álitsgerð styður stefnandi 3. og 4. mgr. 42. gr. sömu laga. Kröfu um
málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, og um
virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísar stefnandi til laga nr. 50/1988.
Loks gerir stefnandi sérstakan
áskilnað um framlagningu frekari gagna og til þess að koma að nýjum málsástæðum
og kröfum, allt fram að dómtöku málsins, sbr. 41. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Máli sínu til stuðnings hefur
stefnandi lagt fram vottorð um sáttameðferð dags. 26. mars sl., og staðfestingu
á sambúðarslitum og sameiginlegri forsjá dags. [...]. Í ofangreindu vottorði
staðfestist að sættir hafi ekki tekist með aðilum, og kemur þar fram að stefndi
hafi ekki mætt í boðaðar fyrirtökur hjá sýslumanni. Þá hefur stefnandi lagt
fram gjafsóknarleyfi dagsett 8. september 2014.
Niðurstaða
Við
þingfestingu málsins var ekki mætt af hálfu stefnda og ber því samkvæmt 1. mgr.
96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda
að því leyti sem er samrýmanlegt framlögðum gögnum, nema gallar séu á málinu
sem varða frávísun þess án kröfu.
Stefnandi
byggir kröfu sína á því að ekki séu forsendur fyrir sameiginlegri forsjá, og að
sáttameðferð hjá sýslumanni, skv. 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003, hafi ekki
borið árangur. Í stefnu er þess þó í engu getið hvaða atvik eða ástæður liggja
að baki forsendubresti á því samkomulagi aðila sem krafist er ógildingar á. Þá
verður málsatvikalýsing stefnanda ekki skilin á annan veg en hún lýsi eingöngu
málsatvikum fram að sambúðarslitum aðila, og hefur stefnandi í engu lýst
atvikum sem liggja að baki kröfu hans, né heldur verður það ráðið af framlögðum
gögnum.
Í
VI. kafla barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um meðferð dómsmála vegna
ágreinings um forsjá og lögheimili barns. Eru þar ríkar skyldur lagðar á dómara
máls um að upplýsa mál, þannig að niðurstaða þess hafi hag barns að
leiðarljósi. Að öðru leyti en mælir fyrir um í áðurnefndum kafla gilda þó
almennar reglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 38. gr.
barnalaga nr. 76/2003.
Ekki
verður séð af málatilbúnaði stefnanda á hverjum atvikum og ástæðum kröfur
hennar byggja. Þá liggja engin gögn frammi er skýra vanbúnað þennan á málatilbúnaði
stefnanda. Að framansögðu virtu verður að telja að málatilbúnaður stefnanda sé
í andstöðu við grunnreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan
málatilbúnað, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum e. lið 1. mgr.
greinarinnar. Verður af þessum sökum ekki komist hjá því að vísa málinu frá
dómi ex officio.
Stefnandi
hefur gjafsókn fyrir dóminum og greiðist kostnaður hennar af málinu því úr
ríkissjóði. Samkvæmt framlagðri tímaskýrslu lögmanns stefnanda nemur
málskostnaður samtals 304.828 kr., þar af þóknun lögmanns stefnanda 301.828
kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Úrskurðinn
kveður upp Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara.
ÚRSKURÐAR O R Ð :
Máli
þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður
samtals að fjárhæð 304.828 krónur, þar af þóknun lögmanns stefnanda 301.828
krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.