Hæstiréttur íslands
Mál nr. 431/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Mánudaginn 24. ágúst 2015. |
|
Nr. 431/2015 |
K.B. Umbúðir ehf. Sigurður L. Sævarsson og Jón Snorri Snorrason (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) gegn þrotabúi Splasts ehf. (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni þrotabús S ehf. um dómkvaðningu matsmanns til þess að meta sannvirði eigna, sem ýmist höfðu verið seldar eða keyptar í viðskiptum S ehf. við K ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2015 þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um að dómkvaddur yrði einn hæfur og óvilhallur matsmaður til að meta sannvirði eigna, sem varnaraðili ýmist seldi eða keypti í viðskiptum við sóknaraðilann K.B. Umbúðir ehf. á nánar tilgreindum dögum. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði áðurgreindri beiðni varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem dómsorði greinir.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila óskipt kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Fallist er á beiðni varnaraðila, þrotabús Splasts ehf., 19. febrúar 2015, um dómkvaðningu matsmanns til þess að meta sannvirði eigna, sem ýmist voru seldar eða keyptar í viðskiptum hans við sóknaraðilann, K.B. Umbúðir ehf., eins og nánar greinir í matsbeiðni.
Sóknaraðilar K.B. Umbúðir ehf., Sigurður L. Sævarsson og Jón Snorri Snorrason greiði óskipt varnaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2015.
Málið var þingfest 20. mars sl. og tekið til úrskurðar 13. maí sl.
Sóknaraðili, þrotabú Splasts ehf., Borgartúni 26, Reykjavík, krefst þess, með vísan til XI. og IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkvaddur verði einn hæfur og óvilhallur matsmaður til að meta sannvirði eigna, sem ýmist voru seldar eða keyptar af hálfu Sigurplasts ehf. í viðskiptum við varnaraðila, K.B. Umbúðir ehf., á nánar tilgreindum dögum.
Varnaraðilar, K.B. Umbúðir ehf., Barrholti 33, Mosfellsbæ, Sigurður L. Sævarsson, Suðurmýri 4, Seltjarnarnesi og Jón Snorri Snorrason, Suðurhlíð 38c, Reykjavík, krefjast þess að umbeðinni dómkvaðningu verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar.
Málavextir:
Bú sóknaraðila, sem bar áður nafnið Sigurplast ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2010. Hinn 8. desember 2011 höfðaði sóknaraðili mál fyrir dóminum á hendur varnaraðilum til riftunar 26 nánar tilgreindra ráðstafana félagsins áður en það var tekið til gjaldþrotaskipta, endurgreiðslu vegna þeirra ráðstafana og greiðslu skaðabóta. Í málinu var m.a. deilt um sölu Sigurplasts ehf. á vörum til varnaraðila, K.B. Umbúða ehf., á eða nálægt kostnaðarverði, og kaup Sigurplasts ehf. á vörum frá sama varnaraðila á hærra verði en Sigurplast ehf. hafði áður flutt inn sams konar vörur. Með dómi uppkveðnum 28. janúar sl. í máli E-218/2012 voru varnaraðilar sýknaðir af kröfum sóknaraðila. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að ekkert mat liggi fyrir í málinu sem sýni fram á hvert hæfilegt endurgjald fyrir vörurnar hefði verið miðað við verðlag þegar Sigurplast ehf. og varnaraðilinn, K.B. Umbúðir ehf., áttu í viðskiptum með þær. Væri því ósannað að viðkomandi vörur hefði mátt selja á því verði sem sóknaraðili miðaði við eða að um rýrnun á eignum Sigurplasts ehf. hafi verið að ræða. Kröfur á hendur varnaraðilunum, Sigurði L. Sævarssyni og Jóni Snorra Snorrasyni, sem voru stjórnendur félagsins, byggði sóknaraðili á grundvelli 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og almennra reglna skaðabótaréttar. Þar sem K.B. umbúðir ehf. var sýknað af kröfum sóknaraðila taldi dómurinn að ekki kæmi til álita krafa sóknaraðila á hendur þeim og voru þeir jafnframt sýknaðir. Sóknaraðili hefur áfrýjað málinu til Hæstaréttar.
Þá eru enn til meðferðar fyrir héraðsdómi mál nr. E-219, 220 og 221/2012 sem sóknaraðili höfðaði til riftunar á öðrum ráðstöfunum í rekstri Sigurplasts ehf. áður en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Er varnaraðilum, Sigurði og Jóni Snorra, jafnframt stefnt í málum nr. 220 og 221/2012 og Sigurði í máli nr. 219/2012. Sóknaraðili kveðst ætla að leggja fram matsbeiðni, samhljóða þessari, í þessum þremur málum.
Efni matsbeiðni
Í matsbeiðni kemur fram að ætlun sóknaraðila með beiðninni sé sú að afla matsgerðar til að leiða í ljós hver eðlileg og venjuleg álagning hefði verið á þeim vörum sem Sigurplast ehf. seldi varnaraðila, K.B. Umbúðum ehf., og með því á hvaða verði hefði mátt selja vörurnar til ótengdra aðila, hver ávinningur varnaraðila af viðskiptunum hafi verið og þar með tjón sóknaraðila. Þá hyggist sóknaraðili jafnframt leiða í ljós hvert eðlilegt og venjulegt verð hefði verið á þeim vörum sem Sigurplast ehf. keypti af sama varnaraðila, hefði félagið keypt þær inn sjálft og um leið hver ávinningur varnaraðila af viðskiptunum hafi verið og þar með tjón sóknaraðila. Sóknaraðili óskar eftir því að matsmaður leggi mat á hæfilegt endurgjald með hliðsjón af eðlilegu og venjulegu markaðsverði varanna í ofangreindum viðskiptum og með hliðsjón af neðangreindum viðmiðum:
Vegna sölu á vörum til varnaraðila, K.B. Umbúða ehf., sé í fyrsta lagi óskað eftir því að matsmaður meti hvert sé eðlilegt og venjulegt verð varanna við sölu þeirra til viðskiptavina sóknaraðila út frá fyrri álagningu í rekstri hans á sömu eða sambærilegar vörutegundir í viðskiptum við ótengda aðila, að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem matsmaður telur eðlileg í viðskiptum og kunni að hafa áhrif á söluverðið.
Um mat á endurgjaldi vegna innkaupa Sigurplasts ehf. sé óskað eftir því að matið byggi á því verði sem félagið hafði áður greitt fyrir sömu eða sambærilegar vörur, áður en það hóf að stunda innkaup sín fyrir milligöngu varnaraðila, K.B. Umbúða ehf., að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem matsmaður telur eðlileg í viðskiptum og kunni að hafa áhrif á innkaupsverðið. Í öðru lagi sé óskað eftir því að matsmaður leggi mat á það hvert geti talist hafa verið eðlilegt og venjulegt útsöluverð og innkaupsverð á þeim vörum og vörutegundum sem Sigurplast ehf. seldi og keypti af varnaraðila, K.B. Umbúðum ehf., út frá markaðsaðstæðum og markaði fyrir þær vörur á þeim tíma er ráðstafanir með þær áttu sér stað. Matið felist þá meðal annars í því að matsmaður meti hvað Splast ehf. hefði þurft að greiða fyrir sömu vörur frá ótengdum þriðja aðila, og hvað félagið hefði getað selt ótengdum þriðja aðila sömu vörur á, á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað.
Óskað sé eftir sérfræðimati og rökstuddu áliti hins dómkvadda matsmanns á eftirfarandi spurningum:
Hvert var hæfilegt endurgjald fyrir vörur sem matsbeiðandi seldi matsþola K.B. Umbúðum ehf. í eftirfarandi viðskiptum (nánari lýsing á hinum seldu vörum innan sviga):
1. Kröfuliður 1 í stefnu: Sala á „180ml dósum IIC“ (Jokey glær 180 ml plastdós) vörunúmer 1184040730, þann 21. apríl 2010 fyrir samtals kr. 79.107, sbr. dskj. nr. 10, bls. 1.
Kostnaðarverð sömu vara var skráð samtals kr. 79.094 í bókhaldi matsþola.
2. Kröfuliður 2 í stefnu: Sala á „210ml dósum IIC“ (Jokey glær 210 ml plastdós) vörunúmer 184040732, þann 21. apríl 2010 fyrir samtals kr. 435.410, sbr. dskj. nr. 12, bls. 1 og dskj. nr. 10, bls. 1.
Kostnaðarverð sömu vara var skráð samtals kr. 435.453 í bókhaldi matsþola.
3. Kröfuliður 3 í stefnu: Sala á „280ml dósum IIC“ (Jokey glær 280 ml plastdós) vörunúmer 184040734, þann 21. apríl 2010 fyrir samtals kr. 702.404, sbr. dskj. nr. 12, bls. 2 og dskj. nr. 10, bls. 1.
Kostnaðarverð sömu vara var skráð samtals kr. 702.089 í bókhaldi matsþola.
4. Kröfuliður 5 í stefnu: Sala á „180-330ml lokum“ (lok á 180 til 330 ml Jokey plastdósir), vörunúmer 184040739, þann 21. apríl 2010 fyrir samtals kr. 369.600, sbr. dskj. nr. 12, bls. 4 og dskj. nr. 10, bls. 1.
Kostnaðarverð sömu vara var skráð samtals kr. 369.661 í bókhaldi matsþola.
5. Kröfuliður 6 í stefnu: Sala á „500ml lokum“ (lok á 500 ml Jokey plastdósir) vörunúmer 184040769, þann 21. apríl 2010 fyrir samtals kr. 18.865, sbr. dskj. nr. 12, bls. 7 og dskj. nr. 10, bls. 1.
Kostnaðarverð sömu vara var skráð samtals kr. 23.366 í bókhaldi matsþola.
6. Kröfuliður 7 í stefnu: Sala á „280ml dósum IIC“ (Jokey glær 280 ml plastdós) vörunúmer 184040834, þann 21. apríl 2010 fyrir samtals kr. 184.467, sbr. dskj. nr. 12, bls. 7 og dskj. nr. 10, bls. 1.
Kostnaðarverð sömu vara var skráð samtals kr. 228.383 í bókhaldi matsþola.
7. Kröfuliður 8 í stefnu: Sala á „280ml lokum“ (lok á 280 ml Jokey plastdósir) vörunúmer 184040839, þann 21. apríl 2010 fyrir samtals kr. 69.414, sbr. dskj. nr. 12, bls. 8 og dskj. nr. 10, bls. 3.
Kostnaðarverð sömu vara var skráð samtals kr. 69.436 í bókhaldi matsþola.
8. Kröfuliður 10 í stefnu: Sala á „Hands. filmum“ (handstrekkifilma til að plasta bretti) vörunúmer 11105000, þann 17. maí 2010 fyrir samtals kr. 223.773, sbr. dskj. nr. 12, bls. 9-10 og dskj. nr. 10, bls. 3.
Kostnaðarverð sömu vara var skráð samtals kr. 210.471 í bókhaldi matsþola.
9. Kröfuliður 23 í stefnu: Sala á „100ml PET POWER“ (brún „meðalaflaska“ 100 ml innflutt frá PET Power), vörunúmer 184040404, þann 10. september 2010 fyrir samtals kr. 123.726, sbr. dskj. nr. 12, bls. 11, dskj. nr. 10, bls. 6 og dskj. nr. 19, bls. 9.
Kostnaðarverð sömu vara var skráð samtals kr. 107.588 í bókhaldi matsþola.
Hvert var hæfilegt endurgjald fyrir vörur sem matsbeiðandi keypti af matsþola K.B. Umbúðum ehf. í eftirfarandi viðskiptum (nánari lýsing á hinum keyptu vörum innan sviga):
Kröfuliður 9 í stefnu: Kaup á 13.500 einingum af „úðadælu 35/410“ (hvít úðadæla líkt og notað er fyrir rúðusprey og tjöruhreinsi á bíla) vörunúmer 183030733, þann 23. apríl 2010 fyrir samtals kr. 405.000, sbr. dskj. nr. 13, bls. 1 og dskj. nr. 11, bls. 4.
Matsbeiðandi hafði áður keypt inn sömu vörur og hefði þá greitt kr. 203.175 fyrir sama magn.
Kröfuliður 12 í stefnu: Kaup á 1.530 einingum af „tappa 61mm UN“ (svartir tappar á 10 og 20 L brúsa) vörunúmer 183030065, þann 17. maí 2010 fyrir samtals kr. 66.007, sbr. dskj. nr. 13, bls. 2-3 og dskj. nr. 11, bls. 4.
Matsbeiðandi hafði áður keypt inn sömu vörur og hefði þá greitt kr. 29.636 fyrir sama magn.
Kröfuliður 12 í stefnu: Kaup á 340 einingum af „tappa 61mm klór“ (svartir tappar á 10 og 20 L brúsa) vörunúmer 183030066, þann 17. maí 2010 fyrir samtals kr. 43.598, sbr. dskj. nr. 13, bls. 2-3 og dskj. nr. 11, bls. 4.
Matsbeiðandi hafði áður keypt inn sömu vörur og hefði þá greitt kr. 19.370 fyrir sama magn.
Kröfuliðir 13-16 í stefnu: Kaup á 10.350 einingum af „tappa 61mm UN“ (svartir tappar með öndun á 10 og 20 L brúsa) vörunúmer 183030065, þann 23. júní 2010 fyrir samtals kr. 468.157, sbr. dskj. nr. 11 og dskj. nr. 17.
Matsbeiðandi hafði áður keypt inn sömu vörur og hefði þá greitt kr. 200.480,- fyrir sama magn.
Kröfuliður 20 í stefnu: Kaup á 5.400 einingum af „tappa 61mm klór“ (svartir tappar með öndun á 10 og 20 L brúsa) vörunúmer 183030066, þann 19. júlí 2010 fyrir samtals kr. 774.204,-, sbr. dskj. nr. 10, bls. 8, dskj. nr. 11, bls. 18 og dskj. nr. 13, bls. 5.
Matsbeiðandi hafði áður keypt inn sömu vörur og hefði þá greitt kr. 307.638,- fyrir sama magn.
Kröfuliður 25 í stefnu: Kaup á 8.000 einingum af „úðadælu m/hærri ró“ (hvít úðadæla líkt og notað er fyrir rúðusprey og tjöruhreinsi á bíla, með hærri skrúfgangi) vörunúmer 183030720, þann 16. september 2010 fyrir samtals kr. 672.000, sbr. dskj. nr. 11, bls. 32 og 35 og dskj. nr. 13, bls. 7.
Matsbeiðandi hafði áður keypt inn sömu vörur og hefði þá greitt kr. 217.840,- fyrir sama magn.
Kröfuliður 26 í stefnu: Kaup á 97.500 stk. af svokölluðum ROPP töppum (28 mm tappi með innleggi fyrir 1 L flöskur og PET flöskur) vörunúmer 183030574, þann 16. september 2010, fyrir samtals kr. 1.958.804, sbr. dskj. nr. 11, bls. 33 og 36, dskj. nr. 13, bls. 6 og dskj. nr. 15.
Matsbeiðandi hafði fært niður birgðir sínar á sömu vöru um 100.000 stk. þann 10. nóvember 2009.
Kröfuliður 27 í stefnu: Kaup á 8.500 einingum af „úðadælu m/hærri ró“ (hvít úðadæla líkt og notað er fyrir rúðusprey og tjöruhreinsi á bíla, með hærri skrúfgangi fyrir PET flöskur) vörunúmer 183030720, þann 30. september 2010 fyrir samtals kr. 792.030, sbr. dskj. nr. 11, bls. 31 og dskj. nr. 13, bls. 6.
Matsbeiðandi hafði áður keypt inn sömu vörur og hefði þá greitt kr. 231.455,- fyrir sama magn.
Óskar sóknaraðili þess að matsmaður geri grein fyrir niðurstöðu sinni út frá hvorri aðferð fyrir sig ef þær skila ólíkri niðurstöðu að mati matsmanns.
Málsástæður varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að umbeðin matsgerð sé þýðingarlaus í málinu og beri dómara því að hafna kröfu sóknaraðila, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Stefnukröfur sóknaraðila í héraðsdómsmálinu, vegna þeirra kröfuliða sem matsbeiðnin lúti að, hafi byggst á því að viðskiptakjör varnaraðila, K.B. Umbúða ehf., gagnvart hinu gjaldþrota félagi, hefðu ekki samrýmst viðskiptakjörum annarra viðskiptamanna félagsins. Málatilbúnaður sóknaraðila um þessa kröfuliði hafi þannig verið byggður á því að hlutlægur mælikvarði, þ.e. bókhald hins gjaldþrota félags, endurspeglaði viðskiptakjör þess gagnvart viðsemjendum sínum og öfugt. Málatilbúnaður hans hafi ekki verið reistur á því að viðskiptin hefðu falið í sér frávik frá „hæfilegu endurgjaldi“ út frá „venjulegu markaðsverði“ þegar viðskiptin fóru fram. Varnaraðilar telja að í matsbeiðninni felist tilraun sóknaraðila til að færa sönnur á atriði sem kröfur hans í héraðsdómsmálinu hafi ekki byggst á. Samkvæmt útilokunarreglu einkamálaréttarfars sé sóknaraðili bundinn af málatilbúnaði sínum eins og lagt hafi verið upp með hann í stefnu í héraðsdómsmálinu.
Varnaraðilar byggja á því að matsbeiðnin standist ekki þær kröfur sem fram komi í niðurlagi 1. mgr. 61. gr. og 2. ml. 5. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, þar sem í henni séu ákveðnar forsendur lagðar fyrir matsmann sem geri matsbeiðnina afar óskýra og bindi jafnframt hendur matsmanns. Þessi þáttur matsbeiðninnar gerir matsmanni mjög erfitt um vik að svara matsspurningum.
Varnaraðilar byggja á því að matsbeiðni sé of seint fram komin og vísa til þess að þeir hafi bent á það strax í greinargerð sinni að staðhæfingar sóknaraðila, meðal annars um þau atrið sem matsbeiðni lúti að, væru ósannaðar. Það sé meginregla í einkamálaréttarfari að hraða beri máli eftir föngum. Þannig hafi sóknaraðila borið að óska eftir dómkvaðningu matsmanns á fyrri stigum málsmeðferðar fyrir héraðsdómi. Þar sem sóknaraðili hafi látið undir höfuð leggjast að nýta þann tíma sem honum hafi gefist frá því greinargerð var skilað í héraðsdómsmálinu, til að afla þess mats sem nú sé farið fram á, beri að synja um dómkvaðningu matsmanns. Í þessu samhengi vísa varnaraðilar til þess að fyrir liggi málflutningsyfirlýsing sem bókuð hafi verið í þingbók í máli nr. E-218/2012 þann 19. júní 2014, þessa efnis: Aðilar eru sammála um að rétt sé að láta fara fram aðalmeðferð í þessu máli áður en önnur mál sem rekin eru af hálfu þrotabúsins, þ.e. mál nr. E-219, 220, 221/2012, koma til aðalmeðferðar. Það er vísað til þess að í öllum þessum málum mun reyna á gjaldfærni stefnanda og fyrirliggjandi matsgerð. Með þessari yfirlýsingu hafi hendur aðila verið bundnar með framhald þessa máls og rekstur framangreindra mála fyrir héraðsdómi og ljóst að sóknaraðili hygðist ekki reyna að hnekkja því mati um gjaldfærni sem lagt hafi verið fram.
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að dómkvaddur verði matsmaður til að leggja mat á sannvirði eigna, sem ýmist voru seldar eða keyptar af hálfu Sigurplasts ehf. í viðskiptum við varnaraðila, K.B. Umbúðir ehf., á nánar tilgreindum dögum. Hyggst sóknaraðili leggja matsgerðina fram í Hæstarétti í tengslum við áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 28. janúar sl. í máli E-218/2012.
Krafa varnaraðila um að synjað verði um dómkvaðningu matsmanna í málinu byggist á því að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði fyrir því að verða við beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns þar sem hún sé bersýnilega þýðingarlaus, standist ekki lagakröfur og sé of seint fram komin.
Því hefur margsinnis verið slegið föstu í dómaframkvæmd að aðilar eigi, samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, rétt á því að afla þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Almennt sé það hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt. Af þeim sökum ber dómara jafnan að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann eða matsmenn nema skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, matsbeiðnin lúti að atriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðir matsmenn, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málslið 1. mgr. 61. gr. laganna.
Þótt fallast megi á það með varnaraðilum að sóknaraðili hefði átt kost á að koma fram með matsbeiðni þessa á fyrri stigum málsins þá liggur ekkert fyrir um að hún muni valda töfum á meðferð þess í Hæstarétti. Þá verður ekki séð að sóknaraðili hafi, með bókun í þingbók í máli nr. E-218/2012, fyrirgert rétti sínum til að krefjast matsgerðar enda snýr bókunin aðallega að því að fresta aðalmeðferð í öðrum riftunarmálum sem sóknaraðili hafði höfðað. Í þessu samhengi verður að horfa til þess að það er Hæstaréttar, en ekki dómara í matsmáli þessu, að taka afstöðu til þess við efnisúrlausn málsins hvort byggt verði á matsgerð þeirri sem sóknaraðili hyggst afla. Er því ekki unnt að hafna matsbeiðni á þeim grunni að hún sé of seint fram komin.
Hvað varðar þá málsástæðu varnaraðila að í matsbeiðninni felist tilraun sóknaraðila til að færa sönnur á atriði sem kröfur hans í héraðsdómsmálinu hafi ekki byggst á þá er til þess að líta að í stefnu málsins er á því byggt að tilgreindar vörur hafi verið seldar eða keyptar á óeðlilegu verði. Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi kosið að byggja fjárhæð riftunarkrafna sinna á upplýsingum úr bókhaldi Sigurplasts ehf. um, að því hann taldi, sambærileg viðskipti, þá fæst ekki séð að sú aðferðafræði að leggja fram matsgerð sérfræðings um sannvirði þessara eigna félagsins, feli í sér nýja málsástæðu eða raski grundvelli málsins enda væri sóknaraðila heimilt að lækka fjárhæð krafna sinna í samræmi við niðurstöður matsmanns. Hér er enn fremur aftur um að ræða atriði sem Hæstiréttur mun taka afstöðu til við efnisúrlausn málsins. Þótt fallist yrði á það með varnaraðila að sóknaraðili byggi matsbeiðni á umdeilanlegum forsendum þá er til þess að líta að matsmanni ber samkvæmt 5. mgr. 61. gr. laga 91/1991 að vinna verk sitt af bestu vitund og samviskusemi. Að því leyti sem dómkvaðning matsmanns leiðir ekki til annars hefur hann frjálsar hendur um hvaða sjónarmið hann leggur til grundvallar og eftir atvikum hvaða gagna hann aflar sér til afnota við matið, en matsþoli á þess kost á matsfundi að koma að athugasemdum sínum og ábendingum um framkvæmd mats, sbr. 2. mgr. 62. gr. laganna. Verður sóknaraðili að bera halla af því ef sönnunargildi matsgerðar verður rýrara en ella vegna þess að lögð hefur verið til grundvallar í mati forsenda sóknaraðila sem reynist ekki eiga við rök að styðjast. Verður matsbeiðni því ekki hafnað á grundvelli þess að hún sé þýðingarlaus eða standist ekki lagakröfur.
Í ljósi alls framangreinds verður ekki séð að skilyrði séu fyrir því að meina sóknaraðila að fá dómkvaddan matsmann til þess að meta þau atriði sem hann óskar eftir, enda ber hann sjálfur kostnað af matsgerðinni og áhættu af því hvort hún komi honum að notum. Ber því að fallast á dómkvaðningu matsmanns til að svara þeim spurningum sem greinir í matsbeiðni.
Ekki var krafist málskostnaðar af hálfu sóknaraðila. Með hliðsjón af niðurstöðu málsins eru ekki efni til að fallast á kröfu varnaraðila um málskostnað úr hendi sóknaraðila.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Fallist er á beiðni sóknaraðila, þrotabús Splasts ehf., um dómkvaðningu.