Hæstiréttur íslands
Mál nr. 241/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Mánudaginn 30. júní 2003. |
|
Nr. 241/2003. |
K(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) M(Agnar Gústafsson hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem barnaverndarnefnd var heimilað að vista barnið X utan heimilis M og K í tólf mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2003, þar sem fallist var á kröfu varnaraðilans Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að honum yrði heimilað að vista dóttur sóknaraðila utan heimilis hennar og varnaraðilans M í tólf mánuði. Kæruheimild er í 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað og sér dæmdur málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Varnaraðilinn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðilinn M, sem tók ekki til varna í málinu í héraði, hefur skilað greinargerð til Hæstaréttar. Hann kveðst ekki gera athugasemdir við hinn kærða úrskurð, en krefst kærumálskostnaður án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að varnaraðilanum Barnaverndarnefnd Reykjavíkur sé heimilt að vista dóttur sóknaraðila og varnaraðilans M utan heimilis þeirra í tólf mánuði.
Fyrir héraðsdómi gerði sóknaraðili meðal annars kröfu um að varnaraðilanum Barnaverndarnefnd Reykjavíkur yrði gert að greiða sér málskostnað. Til þeirrar kröfu var ekki tekin afstaða með hinum kærða úrskurði. Þrátt fyrir það eru ekki næg efni til að ómerkja úrskurðinn, heldur verður ákvörðun tekin með dómi þessum um málskostnað í héraði. Rétt er að hann falli niður ásamt kærumálskostnaði. Fer um gjafsóknarkostnað sóknaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Samkvæmt 61. gr., sbr. 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga átti varnaraðilinn M rétt á gjafsókn vegna málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Hann gætti þess ekki fyrir héraðsdómi að leita á grundvelli þessarar heimildar eftir því að dómsmálaráðherra veitti honum gjafsókn eftir almennum reglum XX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem nauðsyn bar til, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 27. september 2001 í máli nr. 102/2001. Úr því hefur á hinn bóginn verið bætt undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti með því að dómsmálaráðherra hefur nú veitt varnaraðilanum gjafsókn á báðum dómstigum. Fer um gjafsóknarkostnað hans í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en gjafsóknarkostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðilans K í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, samtals 250.000 krónur.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðilans M í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Agnars Gústafssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 200.000 krónur.