Hæstiréttur íslands
Mál nr. 377/2008
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. og 17. júlí 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.
Ákærði Annþór Kristján Karlsson krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, en til vara sýknu. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð.
Ákærði X krefst aðallega sýknu, en til vara mildunar á refsingu.
Verjandi ákærða X á rannsóknarstigi málsins, Björn Ólafur Hallgrímsson hæstaréttarlögmaður, hefur krafist þess að þóknun fyrir þann starfa verði hækkuð frá því sem ákveðið var í héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, en ekki eru efni til að hreyfa við fyrrnefndri ákvörðun héraðsdóms um þóknun verjanda á rannsóknarstigi.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærðu, Annþór Kristján Karlsson og X, greiði hvor um sig málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Brynjars Níelssonar og Sveins Andra Sveinssonar, 373.500 krónur til hvors. Ákærðu greiði sameiginlega annan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 125.002 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2008.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 20. maí 2008 á hendur:
,,Annþóri Kristjáni Karlssyni, kennitala [...],
Aragerði 10, Vogum,
Ara Gunnarssyni, kennitala [...],
Laugateigi 22, Reykjavík,
Jóhannesi Páli Gunnarssyni, kennitala [...],
Blikaási 17, Hafnarfirði, og
X, kennitala [...],
[...], Reykjavík,
fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, framið á árinu 2007, með því að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 4.639,50 g af amfetamíni og 594,70 g af kókaíni frá Þýskalandi til Íslands, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni, en fíkniefnin, sem voru flutt til landsins með hraðsendingafyrirtækinu UPS, fundust við leit tollgæslu og lögreglu þann 15. nóvember í bifreið fyrirtækisins utan við húsnæði þess á Keflavíkurflugvelli og lagði lögreglan hald á þau.
Ákærði Annþór Kristján lagði á ráðin um innflutninginn með meðákærða Ara, lét senda fíkniefnin frá Þýskalandi til Íslands og hugðist móttaka eða láta móttaka þau hér á landi. Miðlaði ákærði upplýsingum milli hans og óþekkts sendanda efnanna ytra um tilhögun sendingarinnar og afhenti honum um 10.000 evrur og 500.000 krónur í reiðufé sem þóknun vegna innflutningsins.
Ákærði X lagði á ráðin um innflutninginn með meðákærða Jóhannesi og notaði sér aðstöðu sína sem starfsmaður hraðsendingafyrirtækisins UPS á Keflavíkurflugvelli til þess að miðla til hans upplýsingum um hvernig haga skyldi sendingu og móttöku fíkniefnanna þannig að þau kæmust til móttakanda efnanna hér á landi án afskipta yfirvalda og er efnin voru haldlögð gerði hann honum viðvart um það þannig að móttakendur efnanna reyndu ekki að nálgast þau hjá fyrirtækinu.
Ákærði Jóhannes Páll lagði á ráðin um innflutninginn með meðákærðu X og Ara og miðlaði upplýsingum milli þeirra um hvernig haga skyldi sendingu fíkniefnanna, þannig að þau kæmust til móttakanda hér á landi án afskipta yfirvalda. Þá upplýsti hann meðákærða Ara um að efnin hefðu verið haldlögð.
Ákærði Ari kom skilaboðum milli meðákærðu Jóhannesar og Annþórs Kristjáns um hvernig best væri að haga sendingu fíkniefnanna þannig að þau kæmust til skila til móttakanda hér á landi án afskipta yfirvalda. Ætlaði ákærði að sjá til þess að meðákærði Annþór gæti nálgast þau hér á landi.
Háttsemi ákærðu telst varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Þá er þess krafist að 4.729,40 g af amfetamíni og 596,35 g af kókaíni gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.“
Önnur ákæra var gefin út sama dag á hendur ákærða Annþóri Kristjáni Karlssyni. Þar er ákært ,,fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 30. janúar 2008, haft í vörslum sínum á heimili sínu samtals 89,90 g af amfetamíni, 1,65 g af kókaíni og eina MDMA töflu.
Telst háttsemi þessi varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001 og reglugerð nr. 848/2002, sem og reglugerð nr. 232/2001 að því er varðar meðferð ákærða á kókaíni.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er þess krafist að framangreind fíkniefni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Ennfremur er þess jafnframt krafist að gerð verði upptæk 13 millilítrar af stungulyfi er innihélt anabólíska stera sem hald var lagt í húsleit hjá ákærða hinn 30. janúar 2008, samkvæmt 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963 og 4. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.“
Málin voru sameinuð.
Verjandi ákærða Annþórs Kristjáns krefst sýknu og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða Ara krefst vægustu refsingar sem lög leifa og að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar refsivist. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Verjandi ákærða Jóhannesar Páls krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar refsivist. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða X krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar refsivist. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Ákæra á hendur öllum ákærðu
Samkvæmt yfirlitsskýrslu lögreglu, dagsettri 9. apríl 2008, hófst rannsókn máls þessa eftir að lagt var hald á fíkniefnin sem í ákæru greinir hinn 15. nóvember 2007. Því er lýst í skýrslunni hvernig skráður móttakandi pakkans sem innihelt fíkniefnin neitaði móttöku hans sökum þess að hann hefði ekki átt von á sendingu frá Þýskalandi þaðan sem pakkinn var sendur. Í kjölfarið hófst rannsókn sem lýst er í skýrslunni. Þar er greint frá grunsemdum á hendur ákærða X eftir að hlustað var á símtal hans hinn 15. nóvember 2007 við mann sem þá var staddur í París. Síðar kom í ljós að X ræddi þar við ákærða Jóhannes Pál. Síðan segir í skýrslunni að skriður hefði komist á rannsóknina eftir að hlustað var símtal milli ákærðu X og Jóhannesar Páls hinn 29. desember sl. er þeir ræddu frétt í blöðunum þennan dag, en þá greindu dagblöð frá haldlagningu fíkniefnanna.
Ákærði Jóhannes var handtekinn 23. janúar sl. ákærðu Ari og X hinn 24. sama mánaðar og ákærði Annþór 30. janúar sl.
Nú verður rakinn framburður ákærðu fyrir dómi og hjá lögreglu eftir því sem ástæða þykir og vitnisburður fyrir dómi.
Ákærði Jóhannes Páll játar sök. Hann kvað meðákærða Annþór hafa leitað til Ara bróður síns í ágúst sl. með hugmynd um að flytja fíkniefni til landsins. Aðdragandann kvað ákærði þann að meðákærði X, æskuvinur og besti félagi hans, hefði komið að máli við ákærða er hann var í námi á Bifröst árið 2005 að því er hann taldi. Ákærði X hefði þá lýst því að ákveðinn möguleiki væri á því að ,,flytja inn pakka“ fram hjá tollinum án greiðslu tilskilinna gjalda. Ekki hafi verið rætt um fíkniefni í þessu sambandi. Ákærði taldi að það hefði verið síðar sem hann frétti af þeim möguleika, hvernig hægt hefði verið að taka sendingar af skrá eins og nánar er lýst í gögnum málsins. Ákæran er ekki byggð á því að það hafi verið gert og verður ekki vikið frekar að þessu við reifun málavaxta. Eftir þetta leið nokkur tími, en ákærði kvaðst hafa verið í neyslu fíkniefna á þessum tíma og möguleikinn sem meðákærði X nefndi hefði spurst út. Ákærði taldi meðákærða Annþór hafa frétt af þessu og því haft samband við meðákærða Ara sem hann hefði vitað að væri bróðir sinn. Aðspurður hvers vegna meðákærði Annþór hefði ekki haft samband við ákærða beint, kvaðst ákærði telja að það gæti m.a. stafað að því að ákærði ætti ekki farsíma. Meðákærði Ari hefði í kjölfarið leitað til sín. Hann kvaðst ekki hafa tekið vel í þetta fyrst í stað. Hann hefði að lokum látið til leiðsast og sett sig í samband við meðákærða X. Aldrei hefði verið rætt beinlínis hvert efnismagnið ætti að vera, en meðákærði X hefði viljað að það yrði sem allra minnst. Í upphafi hefði verið rætt um að ekki yrði sent meira en 1 kíló. Hann taldi víst að hann hefði nefnt fíkniefni er hann ræddi við meðákærða X. Honum hefði örugglega verið ljóst um hvað málið snerist, enda átti hann að fá háa fjárhæð í þóknun. Þeir meðákærði X hefðu margsinnis rætt innflutninginn, m.a. þyngd pakkans, auk þess sem meðákærði X hefði nefnt að suma daga væri mikið eftirlit með fíkniefnum á vinnustað hans þar sem notaðir voru hundar. Ákærði var spurður um lögregluskýrslu sem hann gaf 31. janúar sl. þar sem hann greindi svo frá að fíkniefni hefðu ekki verið rædd í þessu sambandi. Hann kvað þann framburð sinn ekki nægilega nákvæman að þessu leyti og því verða að draga hann til baka af ofangreindum ástæðum. Ákærði lýsti því að þeir meðákærði Ari hefðu ekki talið þátt sinn mikinn í málinu, en þeir hefðu ekki ráðið neinu varðandi efnismagn. Meðákærði Annþór hefði í raun ráðið því og hann hefði fjármagnað fíkniefnakaupin og annast allt það sem átti sér stað ytra. Þessar upplýsingar hefur ákærði eftir bróður sínum, meðákærða Ara. Meðákærði X hefði síðan gefið sér leiðbeiningar sem ákærði kom til meðákærða Ara, sem síðar kom þeim áleiðis til meðákærða Annþórs. Ákærði kvað sér frá upphafi hafa verið ljóst að meðákærði Annþór var maðurinn sem stóð að baki fíkniefnainnflutningnum því meðákærði Ari hefði margsinnis greint sér frá samskiptunum við meðákærða Annþór, fundum þeirra og fleiru.
Þeir meðákærði X hefðu rætt hvað pakkinn mætti vera þungur en hann hefði átt að vera sem léttastur. Þá hefðu þeir rætt þóknun meðákærða X. Heildarþóknunin yrði um 3 miljónir króna til hans og meðákærðu X og Ara. Meðákærði X útvegaði nafn sem skráðan móttakanda pakkans en það hefði verið gert með tilliti til þess hvaðan best væri að senda pakkann og hvert best væri að senda hann, að sögn ákærða. Þó hefði um tíma verið rætt um það að hentugt gæti verið að notast við tölvu við sendinguna. Þá hefði meðákærði X nefnt að suma daga væru hundar notaðir við leit, og stundum kæmu leitarhundar daglega í hálfan mánuð á vinnustað hans. Þá hefði meðákærði X nefnt að ekki væri æskilegt að pakkinn bærist til landsins á föstudegi. Ákærði hefði komið þessum upplýsingum til Ara sem síðan kom þeim til Annþórs sem fór ekki eftir því sem sagt var, heldur hagaði öllu eftir sínu höfði, utan að hann tók tillit til þess hvaðan pakkinn skyldi sendur.
Heildargreiðsla fyrir innflutninginn átti að vera um 3 milljónir króna. Í upphafi hefði verið rætt um að þeir meðákærði Ari fengju um 1 miljón króna í hlut, en X um 1,2 miljónir. Síðar hefði hlutur X hækkað á kostnað hlutar þeirra ákærðu Ara sem þá yrði um 800.000 krónur. Ákærði kvað meðákærða Annþór hafa mælst til þess að samskipti milli manna ættu sér stað í gegnum tölvunetföng og lýsti hann því hvernig þessu var háttað. Ákærði kvaðst þannig telja að samskipti meðákærðu Ara og Annþórs hefðu að miklu leyti farið fram í gegnum tvö póstföng sem notuð voru í þessu skyni. Samskipti þeirra meðákærða X í tengslum við málið fóru í gegnum netfangið með heitinu mallorca1998. Meðákærði X hefði stofnað netfangið í tölvu á heimili sínu. Ákærði kvaðst aldrei hafa notað tölvuna á heimili meðákærða X.
Ákærði Jóhannes Páll lýsti því að sending pakkans hefði frestast að minnsta kosti einu sinni. Hann lýsti því er hann fékk upplýsingar frá meðákærða Ara um að senda hefði átt fíkniefnin í bílavarahlutum. Ákærði var vegna þessa spurður um gögn sem fundust í tölvu meðákærða X þar sem spurt er um það hvort betra væri að senda pakkann stílaðan á einstakling eða verkstæði. Ákærði kvaðst hafa spurt meðákærða X að þessu í gegnum tölvuna. Þá lýsti hann að meðákærði X hefði lýst því fyrir sér eftir að hann bar framangreint erindi upp við hann, að það að láta vörureikning frá UPS fylgja pakkanum, þar sem innihaldinu væri lýst, væri til þess fallið að auka líkurnar á því að pakkinn kæmist hjá tollskoðun. Í gögnum málsins er vörureikningur frá UPS sem ákærði kvað meðákærða X hafa skilið eftir í tölvunni.
Ákærði kvað meðákærða X hafa ætlað að fylgjast með því hvort pakkinn sem hér um ræðir yrði stoppaður eða ekki. Ákveðið var að meðákærði X myndi engin boð senda ef pakkinn yrði stoppaður. Ef hann yrði ekki stoppaður myndi hann senda SMS skilaboð. Meðákærði X myndi þá vara ákærða við til að koma í veg fyrir að einhver nálgaðist pakkann. Kæmist pakkinn fram hjá tollskoðun, ætlaði X að flytja hann af staðnum og koma honum fyrir þar sem unnt væri að nálgast hann. Síðar í skýrslutökunni kvað ákærði sér hafa skilist að þetta hefði verið meiningin. Ákærði X er ekki ákærður fyrir að hafa ætlað að taka pakkann á þennan hátt og verður ekki vikið frekar að þessu.
Ákærði Jóhannes Páll staðfesti að hann hefði hringt í meðákærða X frá París, daginn sem fíkniefnin voru haldlögð. Hann staðfesti að hljóðritað símtal, 15. nóvember, sama dag og fíkniefnin voru haldlögð, væri milli þeirra X. Hann hefði hringt fyrir forvitnissakir. Hann lýsti því að þetta hefði verið óþarfi af sinni hálfu vegna þess sem áður hefði verið ákveðið um afdrif sendingarinnar og lýst var að ofan. Sér hefði skilist á símtalinu að pakkinn hefði ekki komist í gegn. Hann kvaðst sama dag hafa farið á netkaffi í París þaðan sem hann ræddi við Ara og greindi honum frá málavöxtum. Þá er í ofangreindri símhlustun rætt um síma og lýsti ákærði því að hér væri um að ræða síma sem ákærði afhenti X í því skyni að senda skilaboðin. Ákærði kvað aldrei hafa verið nein illindi milli þeirra X.
Hann lýsti einnig samskiptum þeirra bræðra í tengslum við málið.
Ákærði kvað Ara hafa fengið í hendur 10.000 evrur og 500.000 krónur sem áttu að vera greiðsla til X. Ákærði kvað X ekki hafa viljað taka við peningunum og hafi ákærði þá geymt peningana á heimili sínu uns Ari fékk þá aftur í hendur og reyndi ítrekað að koma þeim til Annþórs. Þetta hefði tekið Ara nokkurn tíma þar sem Annþór var á þessum tíma nýlega laus úr refsivist og hann hefði lokað á öll samskipti við Ara. Ákærði kvaðst vita að Ari fór einu sinni á þessum tíma heim til Annþórs í Voga á Vatnsleysuströnd.
Ákærði var spurður út í MSN samskipti milli þeirra Ara. Hann lýsti því hvernig bókstafirnir T og A í samskiptunum hefðu átt við meðákærðu X og Annþór. Hann var spurður um tiltekin ummæli í MSN samskiptum þeirra bræðra hinn 30. nóvember sl. Hann kvað þá hugmynd hafa komið til tals eftir að fíkniefnin voru haldlögð um að flytja inn annan pakka. Allir ákærðu í málinu hefðu komið að þessari hugmynd að sögn ákærða. Ekki þykir ástæða til þess að reifa þetta frekar.
Ákærði kvað þá X margsinnis hafa rætt hvernig bregðast ætti við ef þeir yrðu handteknir vegna málsins. Ákveðið var að þeir segðu ekkert. Ákærði kvaðst hins vegar hafa ákveðið að gera hreint fyrir sínum dyrum.
Ákærði Ari játar sök utan það að hann kvaðst ekki hafa tekið þátt í skipulagningu fíkniefnainnflutningsins eins og lýst er í inngangskafla ákærunnar. Hann kvað aðdraganda málsins þann að Annþór hefði hringt í farsíma sinn og hefðu þeir mælt sér mót við World Class í Laugum. Ákærði kvað Grétu, unnustu sína, hafa verið vitni að þessu samtali. Hann lýsti því að komið hefði í ljós að Annþór hefði staðið á bak við ,,ágúst sendinguna“. Þar átti ákærði við aðra fíkniefnasendingu til landsins eftir sömu leið og í máli þessu. Er þessu lýst í gögnum málsins en verður ekki rakið frekar hér. Komið hafi fram hjá Annþóri að hann hefði viljað losna við einn millilið sem var í fyrrnefndri ágústsendingu og því hefði hann hringt í ákærða í því skyni að koma því til leiðar sem í ákæru greinir. Hlutverk ákærða hefði verið það sem lýst er í ákærunni en Jóhannes átti síðan að hafa samband við X. Fram kom hjá ákærða að hann hafði óljósar hugmyndir um það hvernig X átti að koma að pakkanum. Helst mátti skilja á honum að hann hefði talið að X hefði átt að taka pakkann til hliðar til að koma í veg fyrir tollskoðun ,,einhvern veginn á þá leið að tollgæslan myndi aldrei komast í pakkann“. Ákærði lýsti því að X hefði óskað eftir því að fá góða mynd af pakkanum svo að hann gæti séð hvort búið væri að hreyfa við honum. Þá hefði X sett fram þá kröfu að pakkanum fylgdi vörureikningur sem hann útbjó. Upphaflega hefði X viljað að sendingin væri í ,,keramikplötu“. Loks hefði X, vegna áhættu, krafist þess að einungis yrði flutt inn 1 kíló. Annþór hefði samþykkt það í fyrstu en síðar hefði honum fundist hann þurfa að greiða of mikið fyrir aðeins 1 kíló af fíkniefnum og því varð efnismagnið það sem raun ber vitni.
Ákærði kvaðst hafa hitt Annþór 6 til 7 sinnum á því tímabili sem hér um ræðir, oftast fyrir utan World Class í Laugum. Hann mundi dagsetningar illa en taldi að fundum þeirra hefði fyrst borið saman nálægt mánaðamótunum september/október 2007. Nokkrum dögum eftir fyrsta fund þeirra hefði Annþór afhent sér farsíma til notkunar í samskiptun þeirra. Þá hefðu þeir haft samband í gegnum netfangið kennt við annibeast. Annþór hefði stofnað netfangið og sambýliskona hefði afhent sér miða með upplýsingum um það m.a. lykilorð.
Ákærði hafnaði framburði Annþórs um að samskipti þeirra tengdust steraviðskiptum, en ákærða var kunnur framburður Annþórs um þetta.
Ákærði kvaðst hafa greint Grétu, unnustu sinni, frá hugmyndinni um að þeir Jóhannes Páll yrðu milliliðir í fíkniefnainnflutningi, eins og í ákæru greinir. Hann hefði nefnt þetta við Grétu daginn eftir að hann hitti Annþór í fyrsta skipti. Hún hefði alfarið verið á móti þessu. Hann kvað hugsanlegt að hann hefði af þessum sökum nefnt við hana að hann væri í steraviðskiptum við Annþór en þau viðskipti hefðu hefði hins vegar aldrei átt sér stað. Þá væri framburður Annþórs rangur um að hann hefði útbúið ofangreint netfang að beiðni ákærða í því skyni að hann gæti strítt bróður sínum.
Ákærði Ari lýsti því að Annþór hefði ætlað að senda fíkniefnin í sívalningum sem hann fengi hjá Reykjalundi. Síðan kvaðst hann vita til þess að aðili á vegum Annþórs hefði farið út, pakkað efninu og gert það sem þurfti.
Þegar sendingin fór frá Þýskalandi hefði Jóhannes Páll verið staddur í París. Hann kvað X hafa fengið farsíma til notkunar í tengslum við þetta. Eftir að X hefði séð til þess að pakkinn kæmist í gegn hefði hann átt að keyra pakkann til Reykjavíkur og síðan að senda sms í síma sem ákærði hafði undir höndum og greina frá staðsetningu pakkans. Ákærði hugðist síðan koma þeim skilaboðum til Annþórs. Ákærði kvað Jóhannes Pál hafa greint sér frá því sama dag og sendingin var haldlögð, hvernig farið hefði. Þá hefði ákærði árangurslaust reynt að koma sms skilaboðum um þetta til Annþórs.
Ákærði kvaðst einu sinni hafa komið á heimili Annþórs í Vogum á Vatnsleysuströnd. Það hafi verið í desember sl. til að skila Annþóri 10.000 evrum og 500.000 krónum. Ákærði kvaðst hafa farið á heimili hans þar sem sér reyndist ómögulegt að ná til hans í síma eða á annan hátt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Peningana hefði Annþór afhent ákærða fyrir utan verslunina Teigakjör hér í borg en Annþór bar einnig um fund þeirra ákærðu þar þótt hann lýsti öðru tilefni. Ákærði hefði afhent Jóhannesi peningana sem voru þóknun til X. Peningarnir hefðu farið sömu leið til baka til Annþórs þar sem lagt var hald á fíkniefnasendinguna. Ákærði kvað framburð Annþórs rangan um að ákærði hefði komið oft á heimili hans þeirra erinda að nota þar tölvu og að hann hefði haft frjálsan aðgang að heimili Annþórs í Vogum á Vatnsleysuströnd.
Ákærði kvað þá meðákærða Jóhannes Pál hafa átt að fá 600.000 til 800.000 þúsund krónur í hlut fyrir þátttöku sína í málinu. Upphaflega var rætt um hærri fjárhæð en þetta var niðurstaðan þótt fjárhæðin hefði aldrei verið ákveðin.
Ákærði kvað fíkniefnasendinguna ítrekað hafa frestast af ástæðum sem hann vissi ekki. Hann kvað þá Jóhannes Pál hafa rætt að losa sig úr málinu. Hann var spurður um símtal til Þýskalands 20. desember 2007, úr farsíma sem ákærði hafði þá undir höndum. Hann ítrekaði það sem hann hefur allan tímann greint frá, að hann hefði engin samskipti haft við Þýskaland á þessum tíma og hann hefði ekki hringt þangað. Hann kvaðst ekki hafa skýringu á þessu.
Ákærði kvað mikinn vinskap með þeim bræðrum. Þeir hittust oft og ræddu iðulega málið. Þá ræddu þeir einnig saman á MSN spjallrás þar sem þeir notuðu bókstafina A og T um þá Annþór og X. Ákærði var spurður um ,,plan B“ sem fram kemur á spjallrás er þeir bræður ræða þar saman. Hann kvað upp hafa komið vangaveltur um það hvort flytja ætti inn fíkniefni aftur, fyrst sendingin sem hér um ræðir var haldlögð. Þetta hefði m.a. verið rætt við Annþór sem hefði verið til í þetta. Ekkert varð úr þessu. Þá skýrði ákærði önnur MSN samskipti þeirra Jóhannesar Páls tengd málinu en þetta hafi verið ,,endalaus hausverkur“, stöðugar frestanir á sendingunni, stöðug samskipti Jóhannesar við X, sem hefði verið ,,pirraður“. Samskipti þeirra bræðra á spjallrásinni hafi varðað þessa erfiðleika. Hann kvað ekki unnt að skilja þessi samskipti á þann veg að þeir bræður hefðu komið að skipulagningu málsins. Hvorugur hefði haft nokkurt boðvald yfir Annþóri.
Ákærði Ari kvaðst hafa ákveðið að játa aðild sína að málinu. Hann vísaði í því sambandi til fjölskyldu sinnar og kvaðst hafa metið hagsmunum sínum best borgið með því að játa sök.
Ákærði Annþór Kristján neitar sök. Af meðákærðu kvaðst hann aðeins þekkja Ara. Hann kvað kynni þeirra vera vegna sterakaupa sinna af Ara. Ákærði kvaðst upphaflega hafa hringt í Ara vegna þessara viðskipta. Hann kvað Ara hafa óskað eftir því að ákærði afhenti síma sem þeir myndu nota í tengslum við steraviðskiptin. Þetta hefði ákærði gert. Hann mundi ekki hversu marga síma hann keypti í þessu skyni en undir rannsókn málsins kvaðst hann hafa keypt 8 síma. Ákærði hefði í fyrstu lagt út fyrir símunum en Ari hefði síðan endurgreitt þá. Þá liggja fyrir upplýsingar meðal gagna málsins að á tímabilinu 28. september 2007 til 12. nóvember 2007 voru alls 69 tengingar milli símanna sem sagðir voru notaðir vegna steraviðskiptanna en ákærði kvaðst engin önnur samskipti hafa haft við ákærða Ara. Því tengist þetta allt steraviðskiptunum, en rétt sé að geta þess að tengingar milli síma skráist þótt ekki náist samband. Er ákærði var spurður nánar um steraviðskiptin, magn sem hann hefði keypt og tegund, kaus hann að svara þeirri spurningu ekki. Hann kvaðst heldur ekki ætla að áætla hvað hann hefði greitt mikið fyrir sterana.
Ákærði var spurður út í fjármál sín, en kaus að svara ekki spurningum þar um. Ákærði kvaðst hafa greint Ara frá því að tölvukerfið á heimili hans í Vogum á Vatnsleysuströnd væri þannig að ómögulegt væri að komast í kerfið utan frá. Hann mundi ekki hvernig þetta bar upphaflega á góma. Hann kvað lögreglu, og hverjum sem er, ómögulegt að brjótast inn í tölvukerfið. Hann kvað Ara hafa fundist þetta mjög athyglisvert og hefði hann viljað fá að notfæra sér tölvukerfið. Ákærða kvaðst hafa grunað að Ari væri að gera eitthvað ólöglegt fyrst hann sótti svo mjög í tölvu hans og kvaðst hann hafa talið að áhugi Ara tengdist sterunum en hann hefði orðað það við ákærða.
Ákærði var spurður um netfangið sem Ari kvað þá Annþór hafa notað í samskiptum sín á milli. Ákærði kvaðst engin tölvusamskipti hafa átt við Ara. Netfagið væri þannig til komið að ákærði Ari hefði beðið sig um að útbúa það en tilgangurinn hefði verið sá að Ari ætlaði að hrekkja bróður sinn og segjast vera ákærði Annþór. Hann kvaðst ekki hafa spurt nánar út í þetta. Hann hefði þá búið til netfangið sem hér um ræðir. Hann kvaðst síðan hafa sent unnustu sína með miða til Ara með upplýsingum um netfangið. Í framhaldinu hefði Ari komið ítrekað á heimili hans í því skyni að fara í tölvuna. Hann mundi ekki hversu oft hann kom en taldi hann hafa komið nærri 10 sinnum. Ari gæti auk þessa hafa komið er enginn var heima. Ákærði kvaðst hafa veitt Ara óheftan aðgang að heimili sínu í því skyni að hann kæmist þar í tölvuna. Hann kvaðst ekki hafa haft önnur kynni af Ara en þau sem vörðuðu steraviðskiptin. Hann hefði treyst Ara og tók fram að ,,fullt af fólki“ hefði aðgang að húsi hans á sama hátt og Ari.
Ákærði vísaði á bug framburði Ara að því er varðar mál þetta. Enging illindi hafi verið milli þeirra Ara og hann geti ekki skýrt hvers vegna hann hafði ákærða fyrir rangri sök. Hins vegar væri hugsanlegt að Ari hefði í upphafi verið búinn að útbúa sögu um að ákærði ætti fíkniefnin og að hann hefði sagt bróður sínum það og haldið sig við þann framburð. Ákærði viti þetta þó ekki en hann telji þetta svona.
Ákærði X neitar sök. Hann kvað þá meðákærða Jóhannes Pál vera æskufélaga og þeir hafi haldið sambandi alla tíð. Hann hefði engar skýringar á því hvers vegna Jóhannes ber hann sökum í málinu. Hann kvaðst ekki hafa þekkt meðákærða Annþór á þessum tíma og ekki minnast þess að Jóhannes hefði rætt um hann við sig. X kvað þá Jóhannes hafa verið í netsambandi og þau samskipti tengdust vináttu þeirra en ekki máli þessu. Hann var spurður um netfangið mallorca1998 sem ákærði Jóhannes kvað þá hafa notað í samskiptum þeirra tengdu málinu. Hann kannaðist ekki við þetta netfang. Hann kvaðst engar skýringar geta gefið á því hvers vegna tengingar við netfangið fundust bæði í heimatölvu ákærða og í tölvu sem hann notaði á vinnustaðnum. Nánar aðspurður kvað hann gesti á heimili sínu hafa haft aðgang að heimilistölvunni. Fram kom undir rannsókn málsins að tengingar við þetta netfang úr heimilistölvu ákærða nema tugum skipta og þá var netfangið stofnað á heimilistölvu ákærða. Hann kvaðst ekki hafa skýringar á þessu. Ákærði hafði engar skýringar á því hvers vegna þetta fannst í vinnutölvu hans, en hann kvað samstarfsmenn sína hafa haft aðgang að þeirri tölvu þótt þeir hefðu ekki afnot af henni. Þá kvað ákærði vörureikning merktan UPS, sem Jóhannes kvað kominn frá ákærða, ekki líkjast vörureikningum sem UPS noti. Hver sem er geti útbúið vörureikning eins og þann sem hér um ræðir.
Ákærði X kvaðst hafa verið við störf daginn sem lagt var hald á pakkann en pakkinn hefði verið kominn út í bíl til útkeyrslu er lagt var hald á hann. Bíllinn var ekki sá sem ákærði ók þennan dag. Ákærði lýsti venjulegum vinnudegi og störfum tollgæslu þennan dag og að hann hefði aðeins fylgt tollgæslunni með pakkann að gegnumlýsingartæki. Að öðru leyti hefði hann ekki komið að málinu. Hann lýsti vinnuferli á vinnustaðnum og samskiptum sínum við Maríu tollvörð. Pakkinn sem hér um ræðir hefði fengið venjulega meðferð og lýsti ákærði því. Ákærði lýsti því hvernig áður var stundað að taka pakka fram hjá tollinum á afgreiðslu UPS. Ákærði kvaðst eitt sinn hafa rætt þetta við Jóhannes. Þeir hefðu svo ekki rætt þetta frekar. Ekki er ástæða til að rekja þetta frekar, enda ákærða ekki gefið að sök í ákæru að hafa ætlað að koma pakka fram hjá tollskoðun.
Ákærði X var spurður um símtal þeirra Jóhannesar, sem staddur var í París 15. nóvember 2007, sama dag og pakkinn var haldlagður. Hann kvað ekkert í símtalinu tengjast málinu. Þá var ákærði spurður um símtal milli þeirra Jóhannesar sama dag og fréttir birtust í dagblöðum um haldlagningu fíkniefnanna. Í samtalinu spyr Jóhannes m.a. hvort ákærði sé búinn að kíkja í blöðin í dag. Ákærði segir að svo sé og Jóhannes svarar þá magnað. Ákærði hefði þá sagt að þetta yrði ekki rætt frekar. Fyrir dómi kvað ákærði þetta vera vegna þess að starf hans heimili honum ekki að ræða það sem þar fer fram. Ákærði tók fram að hann hefði áður greint meðákærða Jóhannesi frá haldlagningunni eða er hún átti sér stað. Aðspurður vegna hvers hann vildi þá ekki ræða þetta símleiðis kvaðst ákærði telja að hann hefði verið upptekinn og ekki viljað ræða þetta í síma.
Vitnið Gréta Jóna Vignisdóttir, sambýliskona ákærða Ara, kom fyrir dóminn. Hún lýsti því er Ari greindi henni frá hugmynd um að flytja inn fíkniefni ásamt ákærðu Jóhannesi og X en Ari hefði síðar greint sér frá aðild Annþórs. Hún kvaðst hafa vitað hvar X ynni og að innflutningurinn færi þar í gegn þótt hún vissi þetta ekki nánar. Hún kvaðst hafa tekið þessari hugmynd mjög illa og talið að ekkert hefði orðið úr þessu. Hún lýsti því er hún fann farsíma í þvottahúsi. Í ljós kom að í minni símans voru þrjú númer sem merkt voru ,,hinn“ ,,ég“, auk eins símanúmers í viðbót. Ari hefði sagt að símarnir tengdust steraviðskiptum. Hún lýsti því er hún varð vitni að símtali þeirra Ara og Annþórs, en Ari hefði greint sér frá því hver hringdi og sagt að símtalið tengdist steraviðskiptum.
Vitnið Katrín Andrésdóttir, móðir ákærðu Jóhannesar Páls og Ara, kom fyrir dóminn. Hún lýsti því er Jóhannes greindi henni frá því á árinu 2005 að X hefði nefnt við hann góða leið til að flytja fíkniefni til landsins. Engin skýring hefði verið á því hvers vegna Jóhannes greindi henni frá þessu nema ef vera kynni einlægni hans að sögn Katrínar.
Vitnið Birgir Örn Birgisson kvaðst hafa verið á Kanaríeyjum 3. til 16. desember sl. ásamt unnustu sinni og Berglindi, systur sinni og sambýliskonu Jóhannesar, og Jóhannesi. Þá hefði Jóhannes greint frá því að hann væri að útvega mann á flugvellinum fyrir annan mann í því skyni að flytja til landsins pakka. Þá hefði komið í ljós að ákærði Annþór ætti hlut að máli. Síðar ræddi Birgir Örn við systur sína í síma, daginn sem Jóhannes og Ari voru handteknir. Í símtalinu er nefnt hvort handtakan tengist Anna dæminu. Birgir Örn kvaðst þarna hafa verið að ræða um ákærða Annþór.
Vitnið Valrún Erla Vilhelmsdóttir kom fyrir dóminn, en hún er fyrrverandi sambýliskona ákærða Annþórs. Hún kvaðst hafa hitt Ara einu sinni, en hjá lögreglunni greindi hún frá því að hún hefði afhent honum miða frá Annþóri. Bæði Ari og Annþór hafa borið um þetta. Hún muni ekki eftir þessu erindi er hún kom fyrir dóminn. Hún kvaðst ekki minnast þess að hafa séð Ara á heimili þeirra Annþórs að Akurgerði 10, Vogum á Vatnsleysuströnd, er hún bjó þar á þeim tíma sem hér um ræðir.
Vitnið Gísli Gíslason, starfsmaður UPS, starfaði þar með ákærða X. Hann lýsti starfi sínu og ákærða X að hluta. Hann lýsti því er fíkniefnapakkinn sem hér um ræðir fannst í bifreið sem Yngvi starfsmaður átti að keyra þennan dag. Þá lýsti hann samskiptunum við viðskiptavini og sendingu og afhendingu pakka. Hann lýsti því að hver starfsmaður um sig hefði sína tölvu á vinnustaðnum, en það komi hins vegar fyrir að starfsmenn þurfi að fara í tölvur annarra starfsmanna í því skyni að komast í tiltekin forrit þar.
Pálmi Pálmason rannsóknarlögreglumaður lýsti vinnu sinni við rannsókn málsins. Hann lýsti aðdraganda málsins og því að lögreglu hefðu borist upplýsingar úr ýmsum áttum um ákærðu Annþór og X og tvo aðra einstaklinga sem ekki koma við sögu máls þessa. Hann lýsti rannsókn lögreglunnar og grunsemdum um bræðurna Ara og Jóhannes eftir að fíkniefnapakkinn var haldlagður. Ævar Pálmi kvað ákærða Ara hafa verið samvinnuþýðan undir rannsókn málsins og framburður hans hafi skipt sköpum varðandi það að upplýsa það. Hann kvað hið sama eiga við um framburð ákærða Jóhannesar. Hann hafi verið samvinnuþýður undir rannsókn málsins og framburður hans hafi verið mikilvægur við uppljóstran þess.
Vitnið Hrannar Þór Arason rannsóknarlögreglumaður lýsti vinnu sinni að rannsókninni. Hann kvað ákærða Ara hafa verið samvinnuþýðan undir rannsókn málsins og framburður hans hafi verið mikilvægur við uppljóstran þess. Hann kvað hið sama eiga við um ákærða Jóhannes.
Vitnið Guðmundur Baldursson lögreglufulltrúi lýsti vinnu sinni að rannsókninni. Hann kvað upptökur úr eftirlitsmyndavélum hjá UPS ekki hafa verið skoðaðar og skýrði hvers vegna.
Vitnið Loftur Guðni Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður lýsti rannsókn sinni við málið, sem aðallega fólst í rannsókn á tölvum og tölvugögnum. Hann skoðaði tölvu ákærða X. Hann lýsti því hvernig rannsóknin var og hvernig netfangið mallorca1998 fannst í tölvunni, bæði í heimilistölvunni og vinnutölvu hans. Hann kvað þennan textastreng hafa fundist í vinnutölvu X á 12 stöðum. Hann skýrði hvernig svona gögn vistast í tölvum þrátt fyrir að gögnum hafi verið eytt. Þá lýsti hann því hvernig IP tölur voru notaðar til að ráða tölvusamskiptin.
Lofti Guðna var gerð grein fyrir því að ákærði X kannaðist ekki við að hafa farið inn á netfangið mallorca1998 á heimilistölvu sinni. Hann var spurður hvort mögulegt væri að einhver fyrir utan heimili ákærða X hefði farið inn á fyrrgreint netfang á tölvu hans. Hann kvað það mögulegt, væri beinirinn ekki með viðeigandi vörn. Hins vegar var beinirinn á heimili ákærða X með öryggisstillingu þannig að til að komast inn á hann utan frá hefði þurft dulkóðunarlykil. Hann lýsti því hvernig gögn á nýrri tölvu X hefðu getað vistast þar.
Hann kvaðst hafa notað sömu aðferð við rannsókn á tölvum annarra ákærðu. Hann kvað ekki hafa verið skoðað sérstaklega hvernig öryggisuppsetningu tölvu ákærða Annþórs var háttað. Hann lýsti því að í tölvu Annþórs hefði fundist textastrengurinn annibeast en hann kvaðst hafa verið beðinn um að leita að þessu og fundið. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa fundið beininn og grunur hefði verið um að kapall hefði legið yfir í næsta hús þar sem beinirinn hefði verið staðsettur.
Vitnið Sigvaldi Arnar Lárusson rannsóknalögreglumaður ritaði skýrslu um símasamskipti Annþórs og Ara í gegnum 2 tiltekin símanúmer. Í skýrslunni segir að 69 sinnum hefðu verið höfð samskipti milli símanna. Hann taldi að öll samskiptin væru skráð, hvort sem samband næðist eða ekki. Hann kvað síðustu samskiptin í gegnum þessa síma hafa átt sér stað 12. nóvember 2007.
Vitnið Hildur Kjartansdóttir, yfirmaður tolladeildar UPS, kom fyrir dóminn og lýsti samskiptum við X við starf sitt. Ekki þykir ástæða til að rekja vitnisburð hennar frekar.
Vitnið María Magdalena Birgisdóttir Olsen, varðstjóri hjá Tollgæslunni, kom fyrir dóminn. Hún lýsti vinnu sinni í tengslum við UPS. Vitnisburðurinn varpar ekki ljósi á málavexti og verður ekki reifaður.
Vitnið Sigmundur Bjarnason yfirtollvörður kom fyrir dóminn og lýsti vinni sinni að eftirliti með aðstoð leitarhunds. Hann kvaðst hafa verið með leitarhundinn sem fann pakkann sem hér um ræðir en þetta hefði verið hefðbundin leit.
Vitnið Fríða María Sigurðardóttir, starfsmaður UPS, kom fyrir dóminn. Hún var samstarfsmaður X á þessum tíma. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við það að aðrir starfsmenn færu í tölvu X á vinnustaðnum.
Vitnið Yngvi Jón Rafnsson, starfsmaður UPS, lýsti starfi sínu hjá fyrirtækinu og samskiptum við viðskiptavini og fleira. Hann kvaðst hafa verið við störf er pakkinn sem hér um ræðir var haldlagður, en pakkinn hefði verið tekinn til skoðunar úr bílnum sem vitnið ók þennan dag.
Vitnið Magnús Einarsson kom fyrir dóminn. Hann staðfesti að hafa heimsótt ákærða Annþór á Litla-Hraun 19. mars sl. Hann kvaðst muna að málin sem hér um ræðir voru rædd. Hann lýsti því að hann hefði að ósk ákærða Annþórs verið skráður eigandi að Mercedes Benz bifreið, árgerðar 2004.
Meðal gagna málsins er matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, sem dagsett er 3. desember 2007. Rannsökuð voru sýni efna sem lagt var hald á. Þar segir að styrkur amfetamínbasa í þurru sýni sem rannsakað var, hafi verið 6,5% sem samsvari 8,8% af amfetamínsúlfati. Um kókaínið segir að styrkur kókaíns í sýninu hafi verið 36% sem samsvari 36% kókaínklóríði.
Jakob Kristinsson dósent kom fyrir dóminn, skýrði og staðfesti matsgerðina. Hann kvað amfetamínið sem greint var hafa verið undir miðgildi og meðalgildi styrks amfetamíns sem rannsakað var á árunum 2006 og 2007. Efnið væri þannig fremur dauft. Sama eigi við um kókaínið sem rannsakað var.
Niðurstaða ákæru á hendur öllum ákærðu
Ákærðu Ari og Jóhannes Páll játa sök, en ákærði Ari kvaðst ekki hafa tekið þátt í skipulagningu innflutningsins. Ákærðu Annþór Kristján og X neita sök.
Ákærðu Ari og Jóhannes Páll játuðu aðild sína að málinu í annarri skýrslutöku hjá lögreglu. Báðir sættu þá einangrun í gæsluvarðhaldi og lýstu þá flestu því sem málið varðar og rakið hefur verið efnislega á sama veg. Þá báru þeir ítarlega um málið fyrir dómi á rannsóknarstigi málsins. Breytingar og/eða nýjar upplýsingar, sem fram komu hjá hvorum um sig eftir því sem rannsóknin vannst, eru eðlilegar og eins og gengur og gerist í rannsóknum af þessu tagi. Að mati dómsins hefur ekkert komið fram í málinu sem rýrir gildi framburðar þeirra. Ákærðu Ari og Jóhannes Páll eru bræður. Fram kom að þeir höfðu mikið samband á þeim tíma sem hér um ræðir. Báðir höfðu frá upphafi vitneskju um ákærðu X og Annþór Kristján og hlutverk þeirra þótt aðeins annar þeirra hefði beint samband við ákærða X og hinn við ákærða Annþór Kristján.
Við mat á trúverðugleika efnislega samhljóða framburðar ákærðu Ara og Jóhannesar Páls annars vegar, og hins vegar á framburði ákærðu Annþórs Kristjáns og X, ber að líta til þess sem fram hefur komið í málinu og er til þess fallið að styðja framburð hvers um sig. Má í þessu sambandi vísa til framburðar ákærðu Ara og Jóhannesar Páls um tölvusamskipti og ákveðin netföng í því sambandi. Framburður ákærða X um netfangið mallorca1998, tilurð þess og notkun, er mjög ótrúverðugur og í andstöðu við annað sem fram er komið í málinu. Fyrir liggur að netfangið fannst 36 sinnum í 12 skjölum á hörðum diski í fartölvu ákærða X. Hann kannaðist ekki við netfangið og gat engar skýringar gefið á því hvers vegna þetta fannst í tölvu hans. Þá liggur fyrir að netfangið var stofnað í tölvu með IP tölu sem ákærði X var skráður fyrir og ákærði Jóhannes Páll bar einnig um þetta. Fyrrgreint netfang fannst einnig í tölvu sem hann notaði á vinnustað sínum. Að svo miklu leyti sem ákærði X gaf skýringar á tilvist netfangsins í tölvu á vinnustað sínum og á heimili eru þær að mati dómsins fráleitar. Ekkert í málinu styður framburð hans þannig að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðu málsins.
Framburður ákærða Annþórs Kristjáns um tilganginn með stofnun netfangsins með heitinu annibeast er mjög ótrúverðugur. Við rannsókn á tölvu ákærða fannst netfangið annibeast í 25 skipti á stýriskerfidiski eins og nánar er lýst í gögnum málsins. Ekkert í gögnum málsins styður framburð hans. Þá er framburður hans um ótakmarkaðan aðgang ákærða Ara að heimili hans í Vogum á Vatnsleysuströnd, og um tíðar ferðir Ara þangað í því skyni að komast þar í tölvu fráleitur. Framburður ákærða Annþórs Kristjáns verður ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni.
Eins og rakið var bera ákærðu Ari og Jóhannes Páll efnislega á sama veg um flesta þætti málsins. Ákærði Jóhannes Páll hefur borið um ítrekuð samskipi sín og ákærða X vegna málsins þar sem m.a. var rætt um þyngd pakkans, þóknun til ákærða X, áhættu vegna þessa og komu fíkniefnaleitarhunda á vinnustað X. Framburður ákærða Ara styður flest það sem ákærði Jóhannes Páll ber um þetta. Um framburð ákærða Ara má segja hið sama og stuðning sem hann fær af framburði ákærða Jóhannesar Páls. Vegna hins nána sambands hinna ákærðu bræðra var hvor um sig nálægt því að geta talist vera í beinu sambandi við þann ákærða sem hinn bróðirinn var í beinu sambandi við. Eins og rakið hefur verið styður flest í málinu framburð ákærðu Ara og Jóhannesar Páls. Auk þess sem rakið var um tölvusamskiptin má nefna upplýsingar úr símhlustunum. Þá virðist ákærði Jóhannes Páll hafa rætt fíkniefnainnflutninginn eða hugsanlegan innflutning við fleiri. Má í þessu sambandi vísa til vitnisburðar Katrínar, móður hans, og Birgis Arnar Birgissonar. Þá greindi ákærði Ari, Grétu Jónu, sambýliskonu sinni, frá hugmyndinni og hverjir ættu hlut að máli.
Að öllu þessu og örðum gögnum málsins virtum er það mat dómsins að leggja beri framburð ákærðu Ara og Jóhannesar Páls til grundvallar niðurstöðu málsins.
Sannað er með framburði ákærðu Ara og Jóhannesar Páls og með því mikla magni fíkniefna sem lagt var hald á að fíkniefnin voru ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni.
Sannað er með öllu því sem rakið var að ofan, með öðrum gögnum málsins, og með framburði ákærðu Ara og Jóhannesar Páls hjá lögreglu og fyrir dómi, en gegn neitun ákærðu Annþórs Kristjáns og X, að allir ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir.
Brot ákærðu er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákæra á hendur Annþóri Kristjáni Karlssyni einum
Ákærði neitar sök og kvaðst ekki hafa vitað af fíkniefnunum á heimili sínu.
Einar Helgason hefur fyrir dómi játað að eiga fíkniefnin sem hér um ræðir og hafa geymt á heimili ákærða án vitundar hans.
Er samkvæmt þessu ósannað að ákærði hafi vitað um fíkniefnin á heimili hans og verður hann því ekki sakfelldur fyrir vörslu þeirra.
Ákærði Annþór Kristján er sýknaður af sakarefni samkvæmt þessari ákæru.
Þótt hugur ákærðu Ara og Jóhannesar Páls, og eftir því sem þeir bera, hugur ákærða X, hafi ekki staðið til þess að flutt yrði inn jafn mikið magn fíkniefna og raun bar vitni, bera allir ákærðu fulla refsiábyrgð.
Ákærðu frömdu brot sín í samvinnu og er það virt til þyngingar við refsiákvörðun, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Efnismagnið sem lagt var hald á, efnistegund og styrkur fíkniefnanna hefur áhrif á saknæmi brota ákærðu. Um styrk fíkniefnanna vísast til vitnisburðar Jakobs Kristinssonar. Brot ákærðu eru stórfelld.
Ákærðu Annþór Kristján og X eiga sér engar málsbætur.
Ákærði Annþór Kristján hefur frá árinu 1993 hlotið 10 refsidóma fyrir skjalafals, þjófnað, nytjastuld, líkamsárás, húsbrot, frelsissviptingu og fíkniefnabrot. Tveir síðustu dómarnir eru annars vegar dómur frá 21. nóvember 2003, 7 mánaða fangelsi skilorðsbundið fyrir fíkniefnabrot og hins vegar Hæstaréttardómur frá 28. apríl 2005, 3 ára fangelsi fyrir líkamsárás en þá var fyrrgreindur skilorðsdómur dæmdur með. Með dóminum 21. nóvember 2003, var ákærði dæmdur fyrir innflutning fíkniefna í samvinnu við fleiri menn. Hefur dómurinn ítrekunaráhrif, sbr. 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og er tekið mið af þessu til þyngingar við refsiákvörðun. Að öllu þessu virtu, og að virtum sakaferli ákærða að öðru leyti, þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 4 ár.
Ákærði X gekkst undir viðurlagaákvörðun fyrir eignaspjöll á árinu 2006. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2½ ár.
Ákærðu Ari og Jóhannes Páll hafa játað brot sín hreinskilnislega. Við blasir að framburður þeirra var mjög mikilvægur og skipti sköpum til að unnt yrði að upplýsa málið. Auk þessa er vísað til vitnisburðar rannsóknarlögreglumannanna Ævars Pálma Pálmasonar og Hrannars Þórs Arasonar. Þetta er virt ákærðu Ara og Jóhannesi Páli til lækkunar refsingar, sbr. 8. og 9. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, en í dómaframkvæmd hefur þessi heimild til lækkunar refsingar varðað mjög miklu við refsiákvörðun, sbr. t.d. Hæstaréttarmálið nr. 364/2005.
Ákærði Jóhannes Páll gekkst undir lögreglustjórasátt á árinu 2000 fyrir fíkniefnabrot og þá hlaut hann skilorðsdóm á árinu 2002 fyrir fíkniefnabrot. Að öllu ofangreindu virtu þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð 1½ ár.
Ákærði Ari gekkst undir lögreglustjórasátt á árinu 2002 fyrir þjófnað og hann hlaut ákærufrestun á árinu 2003 fyrir þjófnað. Hann gekkst undir viðurlagaákvörðun á árinu 2005 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð 1½ ár.
Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal gæsluvarðhaldsvist sem hver um sig hefur sætt vegna málsins koma til frádráttar refsivist eins og lýst er í dómsorði.
Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974, skulu fíkniefnin sem í báðum ákærum greinir dæmd upptæk eins og nánar greinir í dómsorði. Þá eru 13 ml af stungulyfi sem innihélt anabólíska stera dæmd upptæk, sbr. tilvitnuð ákvæði lyfsölulaga og lyfjalaga í ákæru á hendur ákærða Annþóri Kristjáni.
Ákærði Annþór Kristján greiði Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni 1.245.000 krónur í málsvarnarlaun fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð og Karli Georg Sigurbjörnssyni hæstaréttarlögmanni 622.500 krónur vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi málsins.
Ákærði X greiði Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni 1.245.000 krónur í málsvarnarlaun fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð og Birni Ólafi Hallgrímssyni hæstaréttarlögmanni 622.500 krónur vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi málsins.
Ákærði Ari greiði Ingimar Ingimarssyni héraðsdómslögmanni 1.743.000 krónur í málsvarnarlaun fyrir vinnu undir rannsókn og dómsmeðferð málsins.
Ákærði Jóhannes Páll greiði Þormóði Skorra Steingrímssyni héraðsdómslögmanni 1.743.000 krónur í málsvarnarlaun fyrir vinnu undir rannsókn og dómsmeðferð málsins.
Þóknun lögmanna er í öllum tilvikum ákvörðuð með virðisaukaskatti.
Dóminum hefur ekki borist heildarreikningur um annan sakarkostnað.
Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Allan V. Magnússon og Jón Finnbjörnsson kveða upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Annþór Kristján Karlsson, sæti fangelsi í 4 ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 31. janúar 2008 til 7. mars 2008.
Ákærði, X Kristjánsson, sæti fangelsi í 2½ ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 25. janúar 2008 til dagsins í dag.
Ákærði, Jóhannes Páll Gunnarsson, sæti fangelsi í 1½ ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 24. janúar 2008 til 22. febrúar 2008.
Ákærði, Ari Gunnarsson, sæti fangelsi í 1½ ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 25. janúar 2008 til 22. febrúar 2008.
Upptæk eru dæmd 4.729,4 g af amfetamíni, 596,35 g af kókaíni, 1 MDMA tafla og 13 ml af stungulyfi sem inniheldur anabólíska stera.
Ákærði Annþór Kristján greiði Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni 1.245.000 krónur í málsvarnarlaun og Karli Georg Sigurbjörnssyni hæstaréttarlögmanni 622.500 krónur vegna verjandastarfa.
Ákærði X greiði Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni 1.245.000 krónur í málsvarnarlaun og Birni Ólafi Hallgrímssyni hæstaréttarlögmanni 622.500 krónur vegna verjandastarfa.
Ákærði Ari greiði Ingimar Ingimarssyni héraðsdómslögmanni 1.743.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Jóhannes Páll greiði Þormóði Skorra Steingrímssyni héraðsdómslögmanni 1.743.000 krónur í málsvarnarlaun.