Hæstiréttur íslands
Mál nr. 520/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
- Fíkniefnalagabrot
- Upptaka
- Ítrekun
|
|
Miðvikudaginn 19. desember 2012. |
|
Nr. 520/2012:
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Skúla Þór Hilmarssyni (Björgvin Jónsson hrl.) |
Líkamsárás. Fíkniefnalagabrot. Upptaka. Ítrekun.
S var ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni, líkamsárás og fíkniefnalagabrot, með því að hafa í miðbæ Reykjavíkur veist að lögreglumanni við skyldustörf með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði og hlaut yfirborsáverka á höfði og fyrir að hafa við sama tilefni haft í vörslum sínum 4,68 g af amfetamíni. Á grundvelli játningar S var hann sakfelldur fyrir vörslu fíkniefna og líkamsárás, sem talin var varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þess að S hefði neitað því að hafa gert sér grein fyrir því að brotaþoli væri lögreglumaður að störfum er atvik málsins gerðust var hann sýknaður af ákæru um brot gegn valdstjórninni. Við ákvörðun refsingar S var höfð hliðsjón af 218. gr. b. og 71. gr. almennra hegningarlaga, þar sem S hafði áður gerst sekur um brot gegn 218. gr. sömu laga, og einnig til 78. gr. laganna, þar sem brotin voru framin áður en S var með héraðsdómi í janúar 2012 dæmdur fyrir þjófnað, fíkniefnabrot og umferðarlagabrot. Var refsing hans ákveðin fangelsi í fimm mánuði og mælt fyrir um upptöku fíkniefnanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2012. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að refsing verði dæmd eins væg og lög leyfa.
Ákærði hefur játað sakargiftir fyrir dómi að öðru leyti en því að hann neitar að hafa gert sér grein fyrir að brotaþoli hafi verið lögreglumaður að störfum umrætt sinn og þar með gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með játningu hans sem er í samræmi við gögn málsins er sannað að hann hafi gerst sekur um vörslu fíkniefna eins og lýst er í ákæru. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Eru brot hans réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru að öðru leyti en því að líkamsárás hans verður ekki jafnframt heimfærð undir 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2010, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 24. mars 2011 í máli nr. 493/2010, var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennara hegningarlaga. Með líkamsárás þeirri sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir hefur ákærði ítrekað gerst sekur um brot gegn þessu ákvæði. Við ákvörðun refsingar hans verður því litið til 1. mgr. 218. gr. b. og 71. gr. sömu laga og einnig til 77. gr. og 78. gr. laganna, en brotin voru framin áður en hann var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2012 dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir þjófnað, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Er refsing hans með hliðsjón af framansögðu ákveðin fangelsi í fimm mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Skúli Þór Hilmarsson, sæti fangelsi í fimm mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 266.893 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2012.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 15. mars sl. á hendur ákærða, Skúla Þór Hilmarssyni, kt. [...], [...],[...], „fyrir brot gegn valdstjórninni, líkamsárás og fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 30. júlí 2011 á horni Lækjargötu og Austurstrætis í Reykjavík, slegið lögreglumanninn A, sem þar var við skyldustörf, að minnsta kosti þremur hnefahöggum í andlitið, með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði og hlaut yfirborðsáverka á höfði og fyrir að hafa umrætt sinn haft í vörslum sínum 4,68 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á ákærða.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningar-laga nr. 19/1940, 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með áorðnum breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og að þau fíkniefni sem hald var lagt á verði gerð upptæk skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“
Málavextir
Fyrir liggur að aðfaranótt laugardagsins 30. júlí 2011 voru þrír óeinkennisklæddir lögreglumenn á ferð í bíl í miðbænum. Sá þeir til ferða tveggja manna sem þeir álitu að væru riðnir við líkamsárás. Samkvæmt lögregluskýrslu B voru menn þessir á hlaupum og veittu lögreglumennirnir þeim eftirför á bílnum. Óku þeir þá uppi á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Segir í skýrslunni að þeir hafi stigið úr bílnum og gert um leið þá grein fyrir sér, að þeir væru lögreglumenn. Var ákærði þá vinstra megin við bílinn en bróðir hans, C, hægra megin. A lögreglumaður sem ekið hafði bílnum hafði afskipti af ákærða og skipti engum togum að ákærði sló hann þrjú hnefahögg í andlitið og veitti honum þá áverka sem lýst er í ákærunni. Hefur ákærði játað þetta skýlaust. Þá liggur einnig fyrir að ákærði var í þetta sinn með á sér þau fíkniefni sem ákært er fyrir. Hefur ákærði með þessu athæfi sínu orðið sekur um líkamsárás og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, eins og réttilega er tilfært í ákærunni.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði neitar sök að því er tekur til brots gegn valdstjórninni og kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að A væri lögreglumaður. Hann segir þá bræður hafa verið á skokki að forða sér frá átökum fólks, ekki langt frá vettvangi þessa máls. Hafi þá komið aðvífandi lítill fólksbíll og numið staðar með hemlahvin, um 1 ½ til 2 metra frá honum. Út úr honum hafi stokkið maður ökumanns megin og annar maður þeim megin sem bróðir hans var. Segir ákærði ökumanninn hafa veist að sér með framrétta handleggina. Hafi hann því haldið að þetta athæfi hans væri í tengslum við hin átökin og að mennirnir væru að ráðast á þá. Kveðst hann því hafa kýlt manninn. Mennirnir hafi svo haft hann undir en hann getað slitið sig lausan enda hafi hann búist við því að vera barinn. Þegar hann komst á fætur hafi verið kallað: „Þetta er lögreglan, þetta er lögreglan, ég „meisa“ þig!“ Kveðst hann þá hafa rétt upp hendurnar og öskrað á þá „Segja það fyrr!“ Hafi hann lagst á magann og þá verið „meisaður“ í hnakkann. Hann giskar á að allt hafi þetta ekki tekið nema 30-40 sekúndur. Hann segir sérstaklega aðspurður manninn ekki hafa sagt stakt orð áður enn hann veittist að sér. Kveðst hann muna þetta vel. Hann kveðst hafa verið „í því“ en þó ekki ofurölvi. Þá kveðst hann hafa verið búinn að neyta amfetamíns og sjálfsagt einhvers róandi efnis einnig. Hann muni þetta þó allt og kveðst geta fullyrt að þeir hafi ekki gert grein fyrir sér þegar þeir komu út úr bílnum. Kveðst hann aðspurður halda að ástand hans hafi ekki haft þau áhrif að hann hafi ekki heyrt í manninum. Hann segir mennina ekki hafa borið nein einkenni; verið fjórir ungir strákar í smábíl. Undir ákærða er borið það sem fram er komið í málinu að A hefði haft af honum afskipti tæpum fjórum vikum áður við umferðareftirlit. Er hann spurður hvort hann hefði þekkt hann þeirra vegna. Þrátt fyrir þetta kveðst hann ekki hafa kannast við manninn þegar hann kom úr bílnum.
Vitnið A hefur skýrt frá því að hann hafi stigið úr bílnum vinstra megin en félagar hans hægra megin. Kveðst hann hafa lent beint í flasinu á ákærða, sem hann kannaðist við frá fyrri afskiptum. Kveðst hann hafa öskrað og ítrekað að hann væri lögreglumaður. Hafi hann ekki haft ráðrúm til þess að taka fram skilríki sín. Þegar hann var að stíga úr bílnum hafi hann séð að ákærði var með kreppta hnefa og í boxarastellingu. Áður en hann vissi af hafði hann fengið hnefahögg á vangann svo hann vankaðist lítillega. Þá hafi hann fengið fleiri högg í andlitið þar á meðal á nefið. Hafi hann þá tekið utan um ákærða og stympingar orðið með þeim. Hafi þeir endað í götunni en félagi hans, D, hafi komið honum til aðstoðar og þeir reynt að yfirbuga manninn. Hann hafi hins vegar sýnt mikinn mótþróa. Bróðir ákærða, C, hafi komið að þeim en D þá snúið sér að honum en sjálfur hafi hann staðið upp, tekið upp gasbrúsa sinn og kallað „Gas!“ Hafi hann sett gas á manninn og þeir yfirbugað hann og flutt á lögreglustöðina.
A er spurður nánar um það hvenær nákvæmlega hann hafi sagst vera lögreglumaður. Svarar hann að almennt sé venja hans í málum af þessu tagi að hann kunngeri það að hann sé lögreglumaður. Í þessu tilviki hafi hann ekki haft ráðrúm til þess að sýna skilríki sem hann var með í vasa sínum. Hann segist hafa sagst vera lögreglumaður um leið og hann sté út úr bílnum. Hann segir að þá hafi ekki verið nema 2 3 metrar í ákærða þegar hann sté úr bílnum. Nánar aðspurður segist hann hafa sagt „Lögreglan!“ áður en maðurinn réðist á hann og einnig kveðst hann halda að hann hafi sagt þetta eftir hana. Hafi hann kallað þetta upp. Hann bendir þó á að hann hafi vankast við fyrsta höggið og langt sé auk þess liðið frá atvikinu. Hann segist hafa verið jakkaklæddur og með „tækjabelti“ um sig miðjan. Þá segist hann hafa verið með heyrnartæki í hlustinni. Ákærði hafi virst vera undir áhrifum einhverra efna. Hann kveðst ekki geta sagt hvernig ákærði skynjaði það sem fram fór. Hann segir þá bræður hins vegar hafa numið staðar þegar þeir lögreglumennirnir komu aðvífandi á bílnum og áður en þeir stigu út úr honum. Hafi bræðurnir verið með kreppta hnefana líklegir til átaka. Sjálfur hafi hann ekki ætlað sér að lenda í átökum við ákærða. Hann kveðst sjálfur ekki minnast þess að hafa verið með framrétta handleggina þegar hann sté út úr bílnum og nálgaðist ákærða. Minni hann að hann hafi þá verið að seilast í vasann eftir skilríkjum. Hann segist ekki hafa beðið þess bætur að vera sleginn. Hafi nef hans ekki gróið rétt saman og sé enn skakkt þrátt fyrir aðgerð þegar þurfti að brjóta það upp aftur. Verði það ekki lagað úr þessu. Þá hafi hann orðið fyrir andlegu áfalli af þessu. Hann kveðst vera 100% viss um það að hann hafi sagt til sín áður en hann var sleginn, enda starfi hann eftir þeim reglum sem hann hafi lært.
B lögreglumaður hefur skýrt frá því að hann hafi setið við hlið A í bílnum. Þriðji lögreglumaðurinn hafi setið fyrir aftan A. Þeir hafi náð bræðrunum á bílnum og kveðst hann hafa farið úr bílnum hægra megin en þeir hinir vinstra megin. Kveðst hann hafa kynnt sig sem lögreglumann fyrir C þegar hann gerði sig líklegan til árásar. Hafi C þá róast og kveðst hann hafa tekið C taki. Jafnframt hafi hann litið yfir bílinn nokkrum sekúndum síðar og séð ákærða þar í dansi með hendurnar fyrir sér eins og hnefaleikamaður. Kveðst hann þá hafa dregið C með sér í áttina að þeim hinum. Hann hafi svo orðið þess var að þeir hinir voru komnir í götuna og báðir lögreglumennirnir á ákærða. Þeir hafi svo komist á fætur allir og ákærði hlaupið á brott en svo numið staðar. Hafi þá einn þeirra tekið upp gasbrúsa og öskrað að hann væri með „meis“. Hafi ákærði þá lagst í götuna og verið yfirbugaður. Hann segist ekki geta sagt neitt um orð eða athafnir A þegar hann sté út úr bílnum. Muni hann ekki eftir því enda verið upptekinn af C.
D lögreglumaður hefur skýrt frá því að hafi stigið út úr bílnum hægra megin, þegar þeir höfðu ekið bræðurna uppi, og öskrað „Lögreglan!“ Hafi annar þeirra þá numið staðar en hinn hafi veist beint að A, vinstra megin við bílinn, og náð að snúa hann niður. Hann hafi farið A til hjálpar en sá sem A hafði tekist á við hafi slitið sig frá honum. Hafi hann haft tak á manninum en svo sleppt því en maðurinn hlaupið á brott en svo numið staðar. Hafi hann þá verið handjárnaður. Hann segir allt hafa gerst svo hratt að ekki hafi gefist tími til þess að taka fram skilríki. Hann segir ákærða virst vera æstan þegar þeir komu akandi að þeim. Hann segist hins vegar ekki hafa séð allt sem gerðist vinstra megin við bílinn. Hann kveðst hafa heyrt að hinir lögreglumennirnir kynntu sig einnig sem lögreglumenn þegar þeir stigu úr bílnum. Á honum er að skilja að atburðarásin hafi tekið örskamma stund. Hann segir ákærða hafa náð að hlaupast á brott og þeir þá kallað aftur „Lögreglan!“ og maðurinn þá numið staðar. Hann kveðst ekki vita hvort maðurinn hafi þá fyrst gert sér grein fyrir því að þeir væru lögregla.
C, bróðir ákærða, hefur skýrt frá því að þeir hafi verið á leið yfir Lækjargötu á heimleið þegar bíl hafi verið ekið að þeim. Hafi lögreglumennirnir, sem hann kannaðist við frá því helgina áður, stigið úr honum og hann verið handtekinn. Skúli Þór hafi hlaupið en einn lögreglumaðurinn þá tekið upp merki og hrópað í fyrsta sinni „Lögreglan!“ Hann hafi þá numið staðar lagst í götuna. Í því hafi hann fengið gasbunu í hausinn.
Niðurstaða
Lögreglumennirnir þrír voru óeinkennisklæddir og á ómerktum bíl. Þá liggur það fyrir að þeir sýndu ákærða ekki skilríki. Ákærði hefur staðfastlega neitað því að hafa vitað að mennirnir í bílnum væru lögreglumenn og þeir ekki gert grein fyrir sér áður en þeim laust saman. Hafi hann því haldið að þeir væru árásarmenn og fyrst áttað sig á því á hlaupunum frá þeim eftir átökin, þegar þetta var kallað á eftir honum. Þá hafi hann numið staðar. Fram er komið að bílnum var ekið geyst að þeim bræðrum og að þeir höfðu áður verið riðnir við eða komið nærri átökum þarna skammt frá vettvangi. Þá er einnig komið fram að ákærði setti sig í áflogastellingar þegar hann sá bílinn nálgast og að hann var bæði undir áhrifum áfengis og róandi og örvandi efna. Þeim C, bróður ákærða, og D, lögreglumanni, ber saman við ákærða um það að hann hafi numið staðar þegar kallað var á eftir honum að þetta væri lögreglan. Þá bera þeir A og B, lögreglumenn, á svipaðan hátt og segja ákærða hafa numið staðar þegar kallað var „meis“ eða gas á eftir honum. Lögreglumennirnir hafa allir verið rækilega spurðir út í það hvort A hafi sagt ákærða að hann væri lögreglumaður áður en til átakanna kom. Er ekki unnt að segja að framburður A sjálfs hafi verið einarðlegur um það atriði og B hefur sagt að hann muni það ekki. D fullyrðir aftur á móti að það hafi A gert.
Dómarinn álítur ákærða hafi verið trúverðugan í framburði sínum og framgöngu í málinu. Þegar gætt er að því að bíl lögreglumannanna var ekið geyst að þeim bræðrunum, því að hann hafði þá þegar sett sig í áflogastöðu, því að hann var undir áhrifum ýmissa vímuefna og loks því að hann nam þegar staðar kallað var á eftir honum að lögreglan ætti í hlut, er ekki unnt að hafna þeirri viðbáru ákærða að hann hafi, þegar hann réðst á A, álitið að þar færi árásarmaður en ekki lögreglumaður. Ber því með vísan til 18. gr. almennra hegningarlaga að sýkna ákærða af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. þeirra laga.
Viðurlög og sakarkostnaður
Ákærða hefur áður verið refsað fyrir líkamsárás, en hann var dæmdur í 6 mánaða fangelsi í júlí 2010 í héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og var sá dómur staðfestur í hæstarétti. Ákærða var síðast refsað í janúar sl. að hann var dæmdur í 3 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, fíkniefna- og umferðarbrot. Fyrir liggur að ákærði, sem nú afplánar fangelsisrefsingu, hafði afplánað helming hennar 1. febrúar sl. og tvo þriðju hluta hennar 17. mars sl. Vegna þessa málareksturs hefur ekki komið til álita að hann fengi skilorðsbundna reynslulausn af eftirstöðvun refsingarinnar. Ekki verður séð að neitt hafi verið aðhafst í málinu frá 19. nóvember sl. til þess er ákært var í því hinn 15. f.m. Með hliðsjón af þessu og af 78. gr. almennra hegningarlaga ber að ákveða refsingu ákærða fangelsi í 30 daga.
Dæma ber að ákærði sæti upptöku fíkniefna, eins og krafist er í ákæru.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Reyni Loga Ólafssyni hdl. 50.000 krónur í málsvarnarlaun en 100.000 króna málsvarnarlaun verjandans greiðast úr ríkissjóði.
Ekki er kunnugt um annan sakarkostnað.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Skúli Þór Hilmarsson, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði greiði verjanda sínum, Reyni Loga Ólafssyni hdl. 50.000 krónur í málsvarnarlaun en 100.000 króna málsvarnarlaun verjandans greiðist úr ríkissjóði.