Hæstiréttur íslands

Mál nr. 400/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Innstæða


                                     

Fimmtudaginn 19. september 2013.

Nr. 400/2013.

Glitnir hf.

(Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.)

gegn

Deutsche Bank AG

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð. Innstæða.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu D, sem lýst var við slit G hf. á grundvelli láns þeirra í millum, var skipað í réttindaröð við slitin sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ágreiningur aðila sneri að því hvort lán D til G hf. teldist innlán í merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012, og þar með hvort krafa D nyti forgangs við slit, eða hvort féð væri undanskilið tryggingavernd laganna og yrði þar með skipað í réttindaröð sem almennri kröfu við slitin. Fyrir Hæstarétti sneri ágreiningur aðila að því annars vegar hvort krafa D á hendur G hf. væri í formi verðbréfs og hins vegar hvort D teldist aðildarfyrirtæki í merkingu 9. gr. laga nr. 98/1999, en hvoru tveggja hefði þau réttaráhrif í för með sér að krafa D væri þar með undanskilin tryggingarvernd laga nr. 98/1998, sbr. síðari málslið 3. mgr. 9. gr.laganna  og 6. mgr. sömu greinar. Því var hafnað að svo væri og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2013 þar sem krafa sem varnaraðili lýsti við slit sóknaraðila að fjárhæð 2.593.065.833 krónur var viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að krafa varnaraðila njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Glitnir hf., greiði varnaraðila, Deutsche Bank AG, 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2013.

Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila til dómsins með bréfi 9. júní 2010. Um heimild til að bera ágreininginn undir dóminn vísaði slitastjórnin til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 23. júní 2010 og tekið til úrskurðar 9. apríl sl.

Sóknar­aðili er Deutsche Bank AG, London Branch, Winchester House, 1 Great Winchester Street, London, Bretlandi, en varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að fjárkrafa hans samtals að fjárhæð 2.593.065.833 krónur verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Þá krefst hann þess einnig að krafa að fjárhæð 1.360.900 krónur verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar.

Varnaraðili fellst á fjárhæð framangreindra fjárkrafna utan þess að hann krefst þess að kröfu að fjárhæð 1.360.900 krónur verði hafnað. Hann krefst þess einnig að því verði hafnað að skipa umræddum kröfum í skuldaröð sem forgangskröfum en að staðfest verði sú niðurstaða slitastjórnar hans að kröfurnar njóti rétthæðar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

I

Undir rekstri málsins tók kröfugerð varnaraðila nokkrum breytingum og hefur hann nú fallist á réttmæti þeirra fjárhæða sem fram koma í kröfulýsingu sóknaraðila, að frátalinni kröfu að fjárhæð 1.360.900 krónur. Varnaraðili féll frá varakröfu sem hann hafði uppi í greinargerð.

Upphaflega voru fleiri kröfuhafar aðilar að máli þessu til varnar við hlið Glitnis hf. en þeir féllu frá aðild sinni í þinghaldi 30. maí 2011 í kjölfar dóms Hæstaréttar 7. janúar 2011 í máli nr. 638/2010.

Þá ber að geta þess að portúgalski bankinn Banco Comercial Portugues S.A. stofnaði til þeirra kröfuréttinda sem um er deilt í máli þessu og lýsti kröfu vegna þeirra við slitameðferð varnaraðila. Með yfirlýsingu sem lögð var fram í þinghaldi 23. nóvember 2011 var tilkynnt um framsal kröfunnar frá þeim banka til sóknaraðila. Breyttist aðild málsins þar með, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 sem um þetta gilda, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þykir þó ekki ástæða til að aðgreina þessa tvo aðila sérstaklega í umfjöllun hér á eftir og verður látið sitja við að vísa til sóknaraðila, enda varða öll atvik sem lýsa þarf og varða stofnun kröfunnar og samskipti aðila fyrir framangreinda dagsetningu hinn portúgalska banka.

Máli þessu hefur verið frestað oft meðan beðið hefur verið niðurstöðu í öðrum málum sem talin voru fordæmisgefandi. Aðalmeðferð málsins fór fram 29. nóvember 2011 og var það þá tekið til úrskurðar. Í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar í máli nr. 169/2011 þar sem ákveðið var að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í sambærilegu máli var málið tekið fyrir að nýju og því frestað þar til niðurstaða þess álits lægi fyrir. Dómur EFTA-dómstólsins var kveðinn upp 22. nóvember 2012 og dómur Hæstaréttar í máli nr. 169/2011 var kveðinn upp 17. janúar sl. Í kjölfarið var mál þetta flutt að nýju 9. apríl sl.

Sóknaraðili sundurliðar kröfur sínar með þeim hætti að í fyrsta lagi sé um að ræða kröfu að fjárhæð 2.271.867.500 krónur, sem sundurliðist í höfuðstól að fjárhæð 2.100.000.000 krónur og 16,1% samningsvexti á dag af þeim höfuðstól frá 11. júní 2008 til og með 11. desember sama ár, að fjárhæð 171.867.500 krónur. Í öðru lagi sé um að ræða kröfu að fjárhæð 321.198.333 krónur, sem sundurliðist í höfuðstól að fjárhæð 300.000.000 krónur og 16,1% samningsvexti á dag af þeim höfuðstól frá 12. júní 2008 til og með 17. nóvember sama ár, að fjárhæð 21.198.333 krónur. Í þriðja lagi sé krafa um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 321.198.333 krónum frá 17. nóvember 2008 til 11. desember sama ár, en af 2.593.065.833 krónum frá þeim degi til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 245.857.226 krónur. Samtala framangreindra fjárhæða er 2.593.065.833 krónur en um þá fjárhæð eru aðilar sammála en deila um hvort henni skuli skipa í skuldaröð sem forgangskröfu eða almennri kröfu. Sóknaraðili gerir einnig kröfu að fjárhæð 1.360.900 krónur,  sem hann kveður vera vegna útlagðs kostnaðar fram til 22. apríl 2009, og að hún verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Í greinargerð sóknaraðila er krafa hans sögð tilkomin vegna tveggja innlána hjá varnaraðila, hinu fyrra að fjárhæð kr. 2.100.000.000, en viðskiptadagur hafi verið 11. júní 2008 og fjárhæðin átt að vera laus til útborgunar 11. desember sama ár og hinu síðara að fjárhæð 300.000.000 krónur, en viðskiptadagur hafi verið 12. júní 2008 og fjárhæðin átta að vera laus til útborgunar 17. nóvember sama ár. Umsamdir vextir hafi í báðum tilvikum verið 16,1%.

Forsaga málsins sé sú að 9. júní 2008 hafi starfsmaður á vegum sóknaraðila í höfuðstöðvum hans í Lissabon í Portúgal haft samband við varnaraðila í Reykjavík og óskaði eftir því að fá að leggja fé inn á  reikning hjá varnaraðila í sex mánuði („ISK 6MT DEPO“).

Samskipti aðila vegna þessa innláns hafi átt sér stað í gegnum Reuters Deal Tracker, samskiptaforrit frá Reuters PLC. Reuters Deal Tracker sé í stuttu máli afgreiðslu- og eftirlitskerfi fyrir gjaldeyrisviðskipti sem geri notendum þess kleift að fylgja viðskiptum sínum eftir og halda utan um skjöl þeim tengdum innan bankakerfisins, bæði fyrir og eftir að viðskiptin eigi sér stað. Samskipti sóknaraðila og varnaraðila í gegnum Reuters Deal Tracker-kerfið séu skráð undir heitinu samtal vegna innlána (e. Deposit Conversation).

Samkomulag hafi komist á milli aðila um að BCP legði inn kr. 2.100.000.000 á reikning varnaraðila. Viðskiptadagur hafi verið 11. júní 2008 og fjárhæðin hafi átt að vera laus til útborgunar þann 11. desember sama ár, eða sex mánuðum síðar eins og sóknaraðili hafi óskað eftir. Umsamdir vextir hafi verið 16,1%. Í framhaldinu hafi viðkomandi skilmálar innlánanna farið til skoðunar og yfirferðar hjá sérstakri deild sóknaraðila sem hafi staðfest að þeir væru fullnægjandi.

Til staðfestingar á framangreindu skilmálum hafi BCP sent SWIFT-skilaboð, nr. 7524568997 þann 9. júní 2008 þar sem umsamin viðskipti hafi verið samþykkt. Samdægurs og með sama hætti hafi varnaraðili staðfest viðskiptin, með SWIFT-skeyti, nr. 62222832760, sem og að greiða sóknaraðila vexti samkvæmt skilmálunum að fjárhæð kr. 171.867.500.

Með sama hætti hafi starfsmaður á vegum sóknaraðila í höfuðstöðvum bankans í Lissabon samband við varnaraðila í Reykjavík, þann 11. júní 2008, og hafi óskað eftir því að fá að leggja inn 300 milljónir króna hjá bankanum („DP ISK 300 MIO“). Samskiptin hafi átt sér stað í gegnum Reuters Deal Tracker með sama hætti og lýst hafi verið hér að framan.

Samkomulag hafi komist á milli aðila um að BCP legði kr. 300.000.000 inn á reikning varnaraðila. Viðskiptadagur hafi verið 12. júní 2008. Fjárhæðin hafi átt að vera laus til útborgunar þann 17. nóvember 2008. Umsamdir vextir hafi verið 16,1%.

Þann 11. júní 2008 hafi sóknaraðili sent SWIFT-skeyti nr. 7524586841 til staðfestingar á framangreindum skilmálum og þar séu framangreind viðskipti samþykkt. Samdægurs og með sama hætti hafi varnaraðili staðfest viðskiptin, með SWIFT-skeyti, nr. 6222835226, sem og að greiða sóknaraðila vexti samkvæmt skilmálunum að fjárhæð kr. 21.198.333.

Framangreindar fjárhæðir hafi ekki verið greiddar inn á reikning sóknaraðila þann 17. nóvember og 11. desember 2008.

Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd.

Varnaraðila var 24. nóvember 2008 veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Með lögum nr. 44/2009, sem breyttu nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, var varnaraðili tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 12. maí sama ár slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur varnaraðila. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Í samræmi við ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002 eins og greininni var breytt með lögum nr. 44/2009 fer um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki sem er til slitameðferðar eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Sóknaraðili lýsti þeim kröfum sem að ofan eru raktar innan kröfulýsingarfrests. Slitastjórn varnaraðila samþykkti hluta krafna sóknaraðila sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 en hafnaði því að þær nytu stöðu í skuldaröð samkvæmt 112. gr. sömu laga. Mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu innan lögboðinna tímamarka og voru mótmælin tekin fyrir á kröfuhafafundum í samræmi við ákvæði laga. Sættir tókust ekki og var ágreiningnum vísað til úrlausnar dómsins í kjölfarið eins og að framan er nefnt.

II

Af hálfu sóknaraðila er einkum byggt á því að þær kröfur sem hann hafi lýst sem forgangskröfum séu innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999 og njóti þar með forgangs við slit varnaraðila á grundvelli 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.

Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 segi að með innstæðu samkvæmt 1. mgr. greinarinnar sé átt við innstæðu sem tilkomin sé vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði beri að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum. Tekið er fram að tryggingin nái ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar séu af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.

Sóknaraðili byggir einkum á að niðurstaða málsins ráðist af efni framangreindra lagaákvæða. Hann vísar til ákvæðis 3. gr. laga nr. 98/1999 um skilgreiningu þess hvað teljist aðildarfyrirtæki samkvæmt þeim lögum. Sóknaraðili falli ekki undir þá skilgreiningu og því komi ekki til greina að telja að krafa hans njóti ekki forgangs á grundvelli 6. mgr. 9. gr. laga  nr. 98/1999. Sóknaraðili kveðst byggja á því að um ágreining aðila gildi íslensk lög og því komi ekki til greina að byggja niðurstöðu á 2. gr. tilskipunar 94/19/EB. Þá vísaði sóknaraðili og til þess við munnlegan málflutning að sú málsástæða varnaraðila að sóknaraðili sé undanskilin tryggingavernd laga nr. 98/1999 þar sem hann sé lánastofnun í skilningi 2.mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB hafi fyrst komið fram við munnlegan málflutning og væri því of seint fram komin. Yrði því ekki á henni byggt í málinu.

Sóknaraðili kveðst byggja á að verðbréf séu framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum, svo sem hlutabréf, skuldabréf, áskriftarréttindi, skiptanleg verðbréf eða breytanleg verðbréf. Í skilyrðinu um framseljanleika felist nánar tiltekið að réttindi þau sem felist í eignarhaldi viðkomandi skilríkja (verðbréfa) geti færst yfir á annan aðila. Sóknaraðili kveður að sú staðfesting sem liggi fyrir í máli þessu á innstæðu hans eigi ekkert skylt með verðbréfum sem verslað sé með á fjármagnsmarkaði. Sóknaraðili hafi fengið einfalda kvittun um millifærslu og móttöku fjármuna sem feli ekki í sér eignarheimild vegna innstæðunnar. Slík skjöl séu ekki framseljanlegir gerningar í eðli sínu og geti því ekki gengið kaupum og sölum á fjármagnsmarkaði, enda felist engin réttindi til innstæðunnar í eignarhaldi kvittunarinnar sem slíkrar. Slík kvittun geti því ekki talist verðbréf eins og hugtakið sé skilgreint í lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

Gera verði skýran greinarmun á milli kröfu varnaraðila í slitabú varnaraðila Glitnis annars vegar og þeim undirliggjandi réttindum sem séu tilefni kröfunnar hins vegar. Kröfur á hendur bönkunum, þ.á m. varnaraðila, gangi kaupum og sölum um þessar mundir og slitastjórnir bankanna hafi útbúið sérstök framsalsform í þessu skyni sem séu aðgengileg á heimasíðum þeirra. Slíkt framsal feli það í sér að framseljandi gefi eftir (selji) réttinn til útborgunar úr búinu þegar og ef til slíkrar útborgunar komi. Engar takmarkanir séu gerðar á slíku framsali, svo framarlega sem aðilar fylgi þeim formreglum sem slitastjórnirnar hafi sett í þessum efnum. Því séu í raun allar kröfur á hendur bönkunum framseljanlegar í þessum skilningi, sama hvaða nafni þær nefnist. Það geri þær hins vegar ekki að verðbréfum. Að öðrum kosti væri hægt að halda því fram að allar kröfur, sem ekki sé beinlínis bannað framsal á, féllu innan skilgreiningar á hugtakinu verðbréf í lögum um verðbréfaviðskipti. Þetta eigi við um kröfu sóknaraðila en núverandi sóknaraðili hafi fengið kröfuna framselda til sín eftir að varnaraðili varð slitabú. Af öllu ofangreindu sé ljóst að krafa sóknaraðila geti ekki talist verðbréf í skilningi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og beri ekki slík einkenni.

Varnaraðili kveðst gera kröfu um að fá greiddan kostnað sem til hafi fallið fram til 22. apríl 2009. Um sé að ræða útlagðan kostnað sem varnaraðili hafi þegar greitt. Annars vegar sé hér um að ræða lögfræðikostnað að fjárhæð €7.135,80 og hins vegar annan útlagðan kostnað að fjárhæð €905,92. Samtals séu þetta €8.041,72 eða 1.360.900 krónur miðað við skráð sölugengi evru gagnvart íslenskri krónu þann 22. Apríl 2009, sbr. 3. mgr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Telja verði að varnaraðili eigi rétt á að fá þann kostnað sem sannanlega hafi fallið til fyrir úrskurðardag, vegna kröfu á hendur varnaraðila, viðurkenndan sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, líkt og gerð hafi verið krafa um í kröfulýsingu.

Sóknaraðili kveðst gera kröfu um málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts en hann sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili hér á landi.

Um lagarök sé einkum vísað til ákvæða laga nr. 44/2005, nr. 21/1991, nr. 62/1994, nr. 98/1999 nr. 161/2002, nr. 125/2008, nr. 38/2001, nr. 44/2009, nr. 2/1993, nr. 91/1991 og nr. 43/2003, þá sérstaklega ákvæða fyrrgreindra laga sem vísað sé til í greinargerð auk reglugerða. Þá sé vísað til ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 65. og 72. gr., alþjóðasamninga um mannréttindi sem Ísland er aðili að og meginreglna kröfuréttarins. Að auki sé vísað til  17., 19., 80., 44., 67. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um málskostnað og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað. Einnig sé vísað til tilskipunar 2001/24/EB og tilskipunar 94/19/EB, þá sérstaklega þeirra ákvæða sem vísað sé til í greinargerð.  

III

Af hálfu varnaraðila var við munnlegan málflutning lýst yfir að ágreiningur aðila snúist nú aðeins um hvort krafa sú sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila skuli viðurkennd sem forgangskrafa á þeim grunni að um tryggða innstæða í skilningi laga nr. 98/1999 sé að ræða, en varnaraðili telji svo ekki vera. Þá sé einnig deilt um rétt sóknaraðila til greiðslu kostnaðar. Um annað sé ekki deilt í málinu.

Um rétthæð kröfunnar byggir varnaraðili á því í fyrsta lagi að krafa sóknaraðila sé undanskilin tryggingavernd samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Teflir varnaraðili fram sjónarmiðum um að samkvæmt 2. gr. tilskipunar 94/19/EB sé óheimilt að tryggja innstæður lánastofnana og túlka verði íslensk lög til samræmis og vilji löggjafans hafi ekki staðið til þess að veita slíkum aðilum forgangsrétt við slitameðferð. Þá vísar varnaraðili og til þess að þegar umrædd tilskipun hafi fyrst verið innleidd í íslenskan rétt með lögum 39/1996, sem breyttu lögum nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði hafi efni tilskipunarinnar réttilega verið innleitt. Við samþykkt laga nr. 98/1999 hafi lagaákvæðin tekið á sig þá mynd sem nú sé í gildi, en ekki verði séð að það hafi verið tilgangur löggjafans að víkja frá efni tilskipunarinnar. Varnaraðili telur að á grundvelli framangreindra sjónarmiða eigi að hafna því að krafa sóknaraðila njóti forgangs við slitameðferðina. Varnaraðili mótmælti því að málsástæður geti að einhverju leyti talist of seint fram komnar og taldi þær fyllilega eiga stoð í greinargerð.

Að framangreindu frágengnu kveðst varnaraðili vísa til undantekningar í 2. ml. 3. mgr. 9. gr. innstæðulaga og byggja á því að krafa sóknaraðila teljist til krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka í formi verðbréfa í merkingu ákvæðisins.

Lög nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti hafi verið í gildi þegar innstæðulögin hafi verið sett og beri því að leggja skilgreiningu hugtaksins verðbréf í þeim lögum til grundvallar við samanburðarskýringu á innstæðulögum. Núgildandi lög um verðbréfaviðskipti séu nr. 108/2007. Í 3. tölul. 2. gr. laga nr. 13/1996 sé verðbréf skilgreint sem hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteignum eða einstökum lausafjármunum. Lög nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti hafi komið í stað laga nr. 13/1996 og hafi í þeim lögum verið bætt við í dæmaskyni tilteknum tegundum verðbréfa, þ.e. hlutabréf, skuldabréf, áskriftarréttindi, skiptanleg verðbréf og breytanleg verðbréf. Í athugasemdum með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 33/2003 sé staðfest að skilgreining laga nr. 33/2003 sé efnislega hin sama og í lögum nr. 13/1996 og þar sérstaklega tekið fram: ,,Fyrsta atriði skilgreiningarinnar er að um sé að ræða ,,hvers konar framseljanleg kröfuréttindi.“ Hún er því ekki bundin við ákveðið form skuldbindingar, heldur nægir að skuldbinding sé hæf til framsals og gildir einu hvort slík framsöl þurfi að fara fram skriflega eða með öðrum hætti.“

Skilgreining á hugtakinu verðbréf hafi ekki breyst með gildistöku laga nr. 108/2007 en varnaraðili telji rétt að benda á að hvað varði eðli verðbréfa sé eftirfarandi tiltekið í greinargerð með lögum nr. 198/2007: ,,Eftir sem áður geta verðbréf bæði verið kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar og skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum.“ Hvað varði merkingu þess að ,,hægt sé að eiga viðskipti með [verðbréfin] á fjármagnsmarkaði“, þá sé tekið fram eftirfarandi í greinargerð laganna: ,,Með viðskiptum á fjármagnsmarkaði er átt við viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði, á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) eða viðskipti fyrir milligöngu fjármálafyrirtækis með leyfi til verðbréfaviðskipta.“ Varnaraðili byggi á því að millibankamarkaður teljist skipulegur markaður í framangreindum skilningi.

Þau viðskipti sem hér séu til skoðunar hafi farið fram á eins konar heildsölumarkaði með skammtímafjármagn sem lánastofnanir notist við til þess að útvega sér fjármögnun til skemmri tíma. Skjölin sem verði til, ýmist á pappír eða rafrænt útgefin, geti verið af ýmsu tagi, t.d. verðbréf eða víxlar og geti þannig verið framseljanleg.

Kröfur þær sem mál þetta taki til hafi að mati varnaraðila öll megineinkenni verðbréfs, þ.e. að þau séu framseljanleg, ekki sé gerð krafa um tiltekið form og feli í sér útgefið skjal sem sé ávísun á verðmæti og hafi peningalegt gildi. Kröfur um greiðslu í reiðufé geti þannig talist verðbréf. Tilgangur og efni viðskipta aðila geti jafnframt talist sambærilegur öðrum tegundum gerninga sem falli undir undantekninguna í innstæðulögum, sbr. t.d. skuldabréf, sem feli með sambærilegum hætti í sér að banka séu lánaðir fjármunir á tilteknum umsömdum kjörum, oft með skilgreindum endurgreiðsludegi. Af viðskiptum málsaðila leiði einfaldlega krafa um greiðslu í peningum.

Kröfu sóknaraðila um áfallinn kostnað fyrir 22. apríl 2009 sé hafnað enda telji varnaraðili ekki hafa verið sýnt fram á grundvöll kostnaðarkröfunnar og hvers vegna varnaraðili ætti að bera kostnað sem sóknaraðili hafi stofnað til. Kostnaðarkrafa sóknaraðila sé ekki nægjanlega rökstudd. Varnaraðili bendi á í þessu sambandi að heimild til greiðslustöðvunar hafi fengist í nóvember 2008 og því óheimilt af hálfu sóknaraðila að krefjast umrædds kostnaðar, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili kveðst m.a. vísa til laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 44. gr. laga nr. 44/2009, laga nr. 43/1933 um viðskiptabanka og sparisjóði (fallin úr gildi), laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og eldri laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 og 13/1996, laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB um innlánstryggingarkerfi, meginreglu gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og meginreglna samningaréttar um túlkun samninga. Kröfu um málskostnað byggi varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Eins og áður hefur komið fram hafa ágreiningsatriði máls þessa orðið færri eftir því sem fleiri dómar hafa gengið sem fordæmisgildi hafa við úrlausn þess. Lá því fyrir er mál þetta var flutt hið síðara sinni að aðilar deila ekki lengur um að sóknaraðili hafi átt innstæðu hjá varnaraðila í skilningi tilskipunar 94/19/EB og laga nr. 98/1999. Þegar vísað er til síðastnefndra laga er í öllum tilvikum átt við ákvæði þeirra eins og þau voru áður en lög nr. 79/2012 tóku gildi en með þeim lögum var tilvitnuðum ákvæðum breytt umtalsvert.

Vísa aðilar báðir til niðurstöðu EFTA-dómstólsins 22. nóvember 2012 í máli Aresbank gegn Landsbankanum hf., sem og til dóms Hæstaréttar í máli nr. 169/2011 sem féll 17. janúar 2013. Var í því máli lýst mjög sambærilegum viðskiptum og fjallað er um í því máli sem hér er til úrlausnar.

Með lögum nr. 125/2008 var bætt ákvæði inn í lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki þar sem mælt var fyrir um það að við slit fjármálafyrirtækis skyldu gilda sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skuli kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóti rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Regluna er nú að finna í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Ákvæði þetta hefur verið skilið svo í dómaframkvæmd að hér sé vísað til innstæðna sem njóti tryggingaverndar laga nr. 98/1999 en innstæður sem teldust undanþegnar slíkri vernd nytu ekki forgangsstöðu við slitameðferð fjármálafyrirtækis.

Stendur því eftir að skera úr um hvort innstæða sóknaraðila teljist tryggð innstæða og njóti þar af leiðandi stöðu forgangskröfu við slitameðferð varnaraðila. Varnaraðili byggir á því að svo geti ekki verið, annars vegar með vísan til reglu 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og hins vegar með vísan til 2. ml. 3. mgr. sömu lagagreinar, en báðar tilvitnaðar reglur kveða á um undantekningu frá tryggingavernd.

Í 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 er kveðið á um að undanskilið tryggingu samkvæmt 1. mgr. greinarinnar séu innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja, svo og móður og dótturfyrirtækja þeirra, fyrir þeirra eigin reikning. Aðrar undanþágur sem mælt er fyrir um í greininni hafa hér ekki þýðingu. Í 3. gr. laganna er skilgreint hverjir skuli eiga aðild að tryggingasjóðnum. Segir þar að viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýti sér heimildir til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, sem hafi staðfestu hér á landi, skuli eiga aðild að sjóðnum. Þá kemur m.a. fram í lokamálslið greinarinnar að umrædd fyrirtæki séu í lögunum nefnd aðildarfyrirtæki.

Lögum nr. 98/1999 er ætlað að innleiða tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi en í 2. gr. tilskipunarinnar segir m.a. að innlán af hálfu annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning teljist ekki til innlána sem megi endurgreiða í gegnum tryggingakerfi.

Í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska Efnahagssvæðið segir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Umrædd lagagrein var skýrð svo í dómi Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010 að lögskýring í samræmi við ákvæðið taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast er unnt gefin merking er rúmist innan þeirra og næst komist því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eigi á Evrópska efnahagssvæðinu, en hún geti á hinn bóginn ekki leitt til þess að litið verði framhjá orðum íslenskra laga.

Undantekningarregla 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, sbr. 3. gr. sömu laga undanskilur þar greind fjármálafyrirtæki „sem staðfestu hafa hér á landi“ tryggingavernd með nánar greindum hætti. Hinn portúgalski banki sem stofnaði til hins umrædda innláns hjá varnaraðila hefur ekki staðfestu hér á landi. Fellur hann þegar af þeirri ástæðu ekki undir greinda undantekningarreglu. Geta lögskýringarsjónarmið leidd af 3. gr. laga nr. 2/1993 ekki breytt þessum skilningi á lagaákvæðinu, enda orðalagið skýrt og veitir ekki svigrúm til þeirrar niðurstöðu sem varnaraðili krefst. Fær þessi niðurstaða að mati dómsins styrka stoð í þeim dómi Hæstaréttar sem síðast var vitnað til. Eru heldur ekki efni til að telja að önnur þau lögskýringarsjónarmið sem varnaraðili hefur teflt fram geti hnekkt skýru orðalagi lagaákvæðisins að þessu leyti. Eru því engin efni til annars en að fallast á með sóknaraðila að kröfu hans verði ekki hafnað með vísan til 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu liggur fyrir að taka afstöðu til þess hvort umrædd krafa geti talist verðbréf í skilningi 2. ml. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Þar kemur fram að trygging nái ekki til skuldabréfa, víxla eð annarra krafna sem útgefnar séu af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa. Því er ítarlega lýst hér að framan hvernig umræddir samningar málsaðila komust á í öndverðu. Er að mati dómsins ekki unnt að fallast á með varnaraðila að þar sé lýst útgáfu verðbréfs í skilningu umrædds lagaákvæðis. Verður ekki séð að umræddir gerningar séu þess eðlis að viðskipti sé hægt að eiga með þá á fjármálamarkaði. Ekki er unnt að fallast á með varnaraðila að dómur Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012 hafi fordæmisgildi við úrlausn máls þessa enda fjallar það mál um löggerning sem torvelt er að bera saman við þá samninga sem hér er um deilt. Á hinn bóginn fá þau sjónarmið, sem dómurinn hefur hér að frama vísað til, skýra stoð í dómum Hæstaréttar 28. október 2011 í málum nr. 276/2011 og 277/2011, sem snérust í meginatriðum um viðskipti sem svipar mjög til þeirra viðskipta sem um ræðir í máli þessu. Voru í þessum málum hafðar uppi málsástæður sem lutu að því að umrædd innlán teldust verðbréf. Því var hafnað í umræddum dómum og eiga að mati dómsins við sömu sjónarmið í þessu máli. Verður því einnig hafnað þeim röksemdum sem varnaraðili teflir fram á þessum grunni til stuðnings því að krafa sóknaraðila skuli ekki njóta forgangs við slitameðferð varnaraðila.

Þegar af þeim ástæðum sem raktar eru hér að framan er það niðurstaða dómsins að fallast beri á með sóknaraðila að krafa hans að fjárhæð 2.593.065.833 krónur skuli njóta stöðu í réttindaröð sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.

Fallist er á með varnaraðila að krafa að fjárhæð 1.360.900 krónur, sem sóknaraðili kveður að fallið hafi til vegna kostnaðar hans við að halda fram kröfu sinni, sé ekki nægilega rökstudd til að unnt sé að taka efnislega afstöðu til hennar. Verður henni hafnað þegar af þeirri ástæðu.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði og er þar tekið tillit til virðisaukaskatts.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómara.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Krafa sóknaraðila, Deutsche Bank A.G., London Branch, að fjárhæð 2.593.065.833 krónur, er viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, Glitnis hf.

Hafnað er kröfu sóknaraðila að fjárhæð 1.360.900 krónur.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 1.882.500 krónur í málskostnað.