Hæstiréttur íslands
Mál nr. 19/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 14. janúar 2000. |
|
Nr. 19/2000. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Karl Georg Sigurbjörnsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli A. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. janúar 2000, sem barst réttinum 13. sama mánaðar ásamt kærumálsgögnum. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 1. febrúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2000.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X [...] verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 1. febrúar 2000 klukkan 16:00.
[...]
Verið sé að rannsaka ætluð brot kærða gegn lögum um ávana- og fíkniefni og/eða 173.gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sem geti varðað þungri fangelsisrefsingu ef sannast. Rannsókn málsins sé ekki lokið og veruleg hætta á að kærði geti spillt fyrir henni ef hann endurheimti nú frelsi sitt.
Heimild til gæsluvarðhalds er reist á a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.
Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið brot er varðað getur fangelsisrefsingu samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn máls þessa er mjög umfangsmikil og er henni ekki lokið. Hefur kærði borið að eiga aðild að málinu. Telja verður því, með vísan til þess sem að framan er rakið, nauðsynlegt að koma í veg fyrir að kærði torveldi rannsókn málsins, svo sem með því að skjóta undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni og samseka.
Með vísan til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík því tekin til greina eins og hún er fram sett.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, [...] sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 1. febrúar 2000 kl. 16.00.