Hæstiréttur íslands

Mál nr. 183/2016

Ákæruvaldið (Ólafur Þ. Hauksson héraðssaksóknari)
gegn
X (Óttar Pálsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að héraðsdómara yrði ekki gert að víkja sæti í sakamáli. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2016, þar sem hafnað var kröfu hans um að sérfróður meðdómandi, Hrefna Sigríður Briem, víki sæti eða taki ekki sæti í málinu. Um kæruheimild vísar varnaraðili til a. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að framangreind krafa sín verði tekin til greina, en til vara að „ákvörðun héraðsdómara, sem færð var til bókar við fyrirtöku málsins hinn 13. nóvember 2015, um að Hrefna Sigríður Briem taki sæti í málinu sem sérfróður meðdómandi verði felld úr gildi.“

Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfum varnaraðila verði vísað frá dómi, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 er dómari, þar á meðal meðdómsmaður, vanhæfur til að fara með mál ef uppfyllt er eitthvert þeirra skilyrða sem talin eru upp í stafliðum a. til g. í greininni. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. greinarinnar að dómari skuli enn fremur víkja sæti í máli eftir útgáfu ákæru ef hann hefur fallist á kröfu um að ákærði sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Er hér um tæmandi talningu að ræða á ástæðum þess að dómari sé vanhæfur til meðferðar máls. Af hálfu varnaraðila er ekki vísað til þessarar lagagreinar vegna kröfu hans um að hinn sérfróði meðdómsmaður víki sæti í málinu eða taki ekki sæti í því.

Eftir a. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 sætir úrskurður héraðsdómara um hvort hann víki sæti í máli kæru til Hæstaréttar, en þá kæruheimild ber að skýra til samræmis við 6. gr. laganna. Þar sem röksemdir varnaraðila fyrir kröfunni falla ekki undir þá lagagrein verður kæra hans hvorki reist á a. lið 1. mgr. 192. gr. né öðrum stafliðum málsgreinarinnar. Brestur þannig heimild fyrir kæru varnaraðila og verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.                    

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2016.

                Mál þetta er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara 12. desember 2012 á hendur ákærðu X og Y fyrir umboðssvik, sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga, á hendur ákærða Z aðallega fyrir hlutdeild í umboðssvikum hinna tveggja fyrrgreindu en til vara fyrir hylmingu, sbr. 254. gr. almennra hegningarlaga, og til þrautavara fyrir peningaþvætti, sbr. 264. gr. sömu laga, og á hendur ákærða Þ fyrir hlutdeild í umboðssvikum ákærðu X og Y.

                Málið var þingfest 7. janúar 2013 og dómur kveðinn upp 5. júní 2014. Dóminum var áfrýjað og samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt um formhlið þess 13. apríl 2015. Dómur var kveðinn upp 22. sama mánaðar þar sem hinn áfrýjaði dómur var ómerktur ásamt meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og málinu vísað heim í hérað til úrlausnar á ný af þeirri ástæðu að sérfróður meðdómandi hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins. Í þinghaldi 5. júní 2015 krafðist sækjandi þess að dómsformaður viki sæti í málinu. Með úrskurði dómsins 23. september 2015 var kröfunni hafnað, en með dómi Hæstaréttar 13. október 2015 í málinu nr. 655/2015 var dómsformanni gert að víkja sæti með vísan til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008.

                Núverandi dómsformaður fékk málinu úthlutað 21. október sl. en hafði fram að þeim tíma engin afskipti af því. Við fyrirtöku málsins 13. nóvember sl. var fært til bókar að dómstjóri hefði ákveðið, að gengnum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 655/2015, að úthluta málinu til dómarans sem dómsformanns og jafnframt ákveðið að Símon Sigvaldason héraðsdómari tæki sæti í dóminum í stað Arngríms Ísberg héraðsdómara. Þá var upplýst um það að Hrefna Sigríður Briem viðskiptafræðingur myndi taka sæti í dóminum sem sérfróður meðdómandi.

                Ákærði X hefur krafist þess að Hrefna Sigríður Briem, sérfróður meðdómandi, víki sæti í máli þessu en til vara að hún taki ekki sæti í dóminum. Málið var tekið til úrskurðar um kröfuna 12. febrúar sl. er málflytjendum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um hana.

                                                                                              I

                Ákærði X byggir kröfur sínar á því að af ferilskrá sérfróða meðdómandans verði ráðið að menntun hennar og reynsla sé einkum á sviði stjórnunar. Sú sérkunnátta komi varla að gagni við úrlausn máls þessa. Af ferilskránni verði á hinn bóginn gagnályktað að meðdómandann skorti sérkunnáttu á sviði fjármála og/eða áhættustýringar sem óumdeilanlega sé nauðsynleg til þess að leysa úr ágreiningi um staðreyndir málsins, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008. Í málinu sé ákært fyrir umboðssvik og til úrlausnar sé hvort lán hafi verið veitt gegn fullnægjandi tryggingum. Flókin atvik séu að baki og flókin sjónarmið um mat á stöðu A banka fyrir og eftir viðskiptin. Þá sé mikilvægt að meta verðmæti félagsins B á tilteknum tíma, en um það liggi fyrir talsvert magn gagna. Mikilvægt sé að í dóminum sitji sérfróður meðdómandi sem geti lagt mat á framangreind atriði. Ekki verði séð af ferilskrá Hrefnu Sigríðar Briem að hún búi yfir þeirri reynslu og menntun sem sé æskileg. Þótt hún virðist að einhverju marki hafa komið að lánastarfsemi sé það ekki nægjanlegt til þess að talist geti vera um sérþekkingu að ræða. Hún sé sérfræðingur á sviði stjórnunar en ekki fjármála og henni beri því að víkja sæti. Varakrafan byggi að öllu leyti á sömu sjónarmiðum og aðalkrafan, en sé sett fram í öryggisskyni.

                Aðrir ákærðu taka undir sjónarmið ákærða X.

                                                                                              II

                Sækjandi krefst þess að kröfu ákærða X verði hafnað. Hann telji ekki lagaskilyrði til þess að verða við kröfunni. Það sé í hendi dómara að tilnefna sérfróðan meðdómanda, sbr. 3. gr. laga nr. 88/2008, en samkvæmt 5. gr. laganna skuli hann gefa málflytjendum kost á að gera athugasemdir. Þeir geti gert athugsemdir sem lúti að hæfi meðdómsmanna, en í 6. gr. laganna séu tæmandi talin þau tilvik sem valdi vanhæfi. Skortur á sérkunnáttu sé ekki þar á meðal. Hins vegar bendir sækjandi á að ljóst sé að þekking sérfróða meðdómandans sé a.m.k. jafnmikil og ákærðu.

                                                                                              III

                Ákærði X heldur því fram að sérfróðan meðdómanda, sem ákveðið hefur verið að taki sæti í dóminum við aðalmeðferð málsins, skorti sérþekkingu með hliðsjón af sakarefni málsins og krefst þess að hún víki sæti.

                Dómari sem telur þörf á sérfróðum meðdómanda velur sjálfur mann til starfans. Í þinghaldi 13. nóvember sl. var málflytjendum tilkynnt að Hrefna Sigríður Briem viðskiptafræðingur myndi taka sæti í dóminum sem sérfróður meðdómandi. Í framhaldi af þinghaldinu var þeim sent starfsferilsyfirlit Hrefnu til þess að þeim gæfist kostur á að gera athugasemdir teldu þeir tilefni til, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 88/2008. Í þinghaldi 5. janúar sl. var fært til bókar að ákærði X gerði athugasemd við sérfróðan meðdómanda. Dómari tók athugasemdina til skoðunar en við fyrirtöku í málinu 13. janúar sl. upplýsti dómari að hún teldi ekki þörf á viðbrögðum vegna þeirra. Við fyrirtöku málsins 4. febrúar sl. krafðist ákærði X þess að meðdómandanum yrði gert að víkja sæti og var málflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna 12. febrúar sl.

                Þótt það sé í höndum dómara hvort hann kallar til sérfróða meðdómsmenn og hverjir það verða er ljóst að hann hefur ekki fullkomlega óbundnar hendur við val á meðdómanda heldur verður hann að velja meðdómanda sem hefur sérþekkingu á þeim ágreiningsatriðum sem uppi eru í málinu. Ákærði X telur skýrt að í máli þessu sé þörf á þekkingu á sviði fjármála og/eða áhættustýringar. Það sakarefni sem hér er til úrlausnar er umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum vegna lánveitingar A banka en ákæruvaldið telur lánveitinguna hafa verið án fullnægjandi trygginga og fjármunum bankans hafa verið stefnt í verulega hættu.

                Í ferilskrá Hrefnu Sigríðar Briem kemur fram að hún hefur lokið B.Sc.- og M.Sc.-gráðum í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hún stýrir nú B.Sc.-námi við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og ber ábyrgð á gæðum þess náms. Stór hluti af námi í viðskiptafræði lýtur að fjármálum. Hrefna hefur því menntun á því sviði sem sakarefni málsins lýtur að og hefur umsjón með námi á því sviði. Þá hefur hún sérþekkingu á bankastarfsemi, einkum vegna starfa sinna fyrir BYR sparisjóð, áður Sparisjóð vélstjóra, um árabil þar sem starf hennar laut meðal annars að ákvarðanatökum í lánastarfsemi. Frá árinu 2011 hefur Hrefna Sigríður verið formaður vottunarnefndar á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja en sú nefnd ber ábyrgð á námi fyrir bankastarfsmenn, sem leiðir til vottunar fyrir fjármálaráðgjafa. Með tilliti til framangreinds auk annarra starfa og menntunar verður að telja að Hrefna Sigríður Briem hafi fullnægjandi sérfræðiþekkingu til þess að vera sérfróður meðdómandi í máli þessu. Verður kröfum ákærða X um að meðdómandinn víki sæti eða taki ekki sæti í málinu því hafnað.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Hafnað er kröfum ákærða, X, um að sérfróður meðdómandi, Hrefna Sigríður Briem, víki sæti eða taki ekki sæti í máli þessu.