Hæstiréttur íslands
Mál nr. 557/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 1. nóvember 2006. |
|
Nr. 557/2006. |
B.B. og synir ehf. (Hlöðver Kjartansson hrl.) gegn Fljótavík ehf. (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
B ehf. höfðaði mál á hendur F ehf. og krafðist skaðabóta eða afsláttar af kaupverði bifreiðar, sem fyrrgreinda félagið hafði keypt af síðargreinda félaginu. Miðaði stór hluti kröfunnar að því að bæta tjón B ehf. vegna afnotamissi bifreiðarinnar. Fallist var á að þessi hluti kröfunnar væri svo vanreifaður að rétt væri að vísa honum frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2006, sem barst réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2006 um að hluta stefnukröfu sóknaraðila skuli vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið í heild til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísun til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, B.B. og synir ehf., greiði varnaraðila, Fljótavík ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2006.
Mál þetta höfðaði B. B. og synir ehf., [kt.], Saurum, Stykkishólmsbæ, með stefnu birtri 24. maí 2006 á hendur Fljótavík ehf., [kt.], Deildarási 7, Reykjavík. Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 3. október sl.
Í málinu krefst stefnandi greiðslu á 8.060.338 krónum auk dráttarvaxta og málskostnaðar.
Til úrskurðar hér er krafa stefnda um frávísun málsins og málskostnað að skaðlausu.
Stefnandi krefst þess að kröfu um frávísun málsins verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar sérstaklega í þessum þætti.
Stefnandi keypti bifreiðina RF-502, Volvo FH-16 6x4, af stefnda með samningi dagsettum 17. nóvember 2003. Hann telur að bifreiðin hafi verið haldin verulegum göllum og hefur höfðað mál þetta til heimtu skaðabóta eða afsláttar af kaupverðinu. Dómkröfu stefnanda má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi krefur hann um 940.948 krónur vegna viðgerða sem framkvæmdar hafa verið. Í öðru lagi er viðgerðarkostnaður samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna 1.178.949 krónur. Loks krefst hann bóta fyrir afnotamissi er hann telur nema 5.940.441 krónu.
Í sundurliðun dómkröfu í stefnu segir „Afnotamissir kr. 456.957 x 13 mánuðir, dskj. 30.” Síðar segir að krafan sé reist á áætlun stefnanda á dskj. 30. Dskj. 30 er óundirritað yfirlit sem virðist stafa frá stefnanda. Þar kemur fram hversu mikið sé ekið á einum mánuði, hvert gjald sé tekið og hver veltan sé. Þá eru tilgreindir ýmsir útgjaldaliðir og komist að þeirri niðurstöðu að „afgangur á mánuði með VSK” sé 568.911. Ekki er getið um fjölda mánaða sem afnotamissir hefur staðið.
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að málatilbúnaður stefnanda að því er varði kröfu um afnotamissi sé svo óljós og óskýr að ekki sé unnt að taka til varna. Þessi liður nemi meiru en 70% stefnufjárhæðar og því verði að vísa öllu málinu frá dómi. Ekki sé lögð fram matsgerð né gögn um kostnað við að leigja sams konar bifreið eða útvega nýja. Í stefnu sé einungis vísað til óundirritaðs yfirlitsblaðs. Þetta sé ekki nægileg útskýring á svo hárri kröfu. Útilokað sé að taka afstöðu til einstakra liða, hvernig þeir séu byggðir upp og reiknaðir. Ekki dugi að áskilja sér að bæta úr á síðari stigum. Málsgrundvöllur verði að koma fram í stefnu.
Stefndi andmælir frávísunarkröfu. Hann segir alvanalegt að aflað sé matsgerðar eftir að mál hafi verið höfðað, bæði af hálfu stefnanda og stefnda. Nægileg grein sé gerð fyrir bótagrundvellinum í stefnu og það verði lagt í vald dómkvadds matsmanns að leggja mat á afnotamissinn. Stefndi muni geta gert athugasemdir við matsmann.
Forsendur og niðurstaða.
Samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til að samhengi málsástæðna verði ljóst. Afnotamissir er almennt bótaskyldur á sama grundvelli og kostnaður af endurbótum og viðgerðum. Til að ákveða bætur er einnig nauðsynlegt að sýnt sé fram á hversu lengi stefnandi hefur ekki haft afnot umræddrar bifreiðar og eftir atvikum hver hagnaður hefur tapast eða hver kostnaður var eða hefði verið af því að afla bifreiðar í stað þeirrar sem brást. Þetta eru atvik eða fullyrðingar um atvik sem eiga að koma fram í stefnu. Þannig gefst stefnda eðlilegt færi á að hafa uppi þær varnir sem hann vill grípa til, hafa uppi málsástæður og undirbúa sönnunarfærslu. Varnir um aðferð við útreikning afnotamissis eiga að koma fram í greinargerð, en ekki fyrst á matsfundum. Það er ekki á valdi dómkvaddra matsmanna að ákveða að bætur skuli miðaðar við tap á hagnaði, en þeim verður falið að meta hversu mikið tap hefur orðið. Hins vegar hljóta þeir við mat sitt að taka mið af málatilbúnaði þess málsaðila sem um matið biður. Þá er meðal atvika sem nauðsynlegt er að komi fram í stefnu hversu lengi afnot hafa tapast. Hér og þar í stefnu kemur fram að bifreiðin hafi verið til viðgerðar, en ekki kemur fram samfelld greinargerð um afnotamissinn og hve lengi hann hefur staðið. Í sundurliðun kröfunnar er miðað við afnotamissi í 13 mánuði, þó ekki sé annars staðar í stefnunni beinlínis fullyrt að hann hafi staðið svo lengi. Nánari upplýsingar um þessi tímabil hefðu verið nauðsynlegar til að málefnið væri reifað á fullnægjandi hátt.
Að þessu virtu er krafa um afnotamissi svo vanreifuð að henni verður að vísa frá dómi. Aðrir kröfuliðir eru skýrðir nægilega og verður þeim ekki vísað frá dómi, þó með þessu sé drjúgur hluti stefnukröfu tekinn af dagskrá.
Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfu stefnanda um bætur fyrir afnotamissi er vísað frá dómi.