Hæstiréttur íslands

Mál nr. 118/2000


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2000.

Nr. 118/2000.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Úlfari Ólafssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                              

Þjófnaður. Ítrekun.

Ú var ákærður fyrir þjófnað með því að hafa stolið áfengispela úr verslun ÁTVR. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu staðfest og Ú dæmdur til fangelsisrefsingar, en um var að ræða ítrekað brot.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. mars 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærða er í málinu gefið að sök að hafa stolið áfengispela úr verslun ÁTVR í Kringlunni í Reykjavík föstudaginn 1. október 1999. Í skýrslu Þorgeirs Baldurssonar verslunarstjóra fyrir dómi kom fram að hann hafi séð ákærða lauma koníakspela í vasa sinn er hann tíndi varning úr innkaupakröfu upp á afgreiðsluborð í versluninni. Hafi ákærði greitt fyrir þann varning, en ekki umræddan koníakspela. Var hann síðan stöðvaður á leið út úr versluninni.

Ákærði viðurkennir að hafa farið framhjá afgreiðsluborðinu án þess að greiða fyrir það áfengi, sem í ákæru er getið. Skýring hans á háttseminni, sem nánar er gerð grein fyrir í héraðsdómi, er fráleit. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu hans af ákæruefninu. Með vísan til forsendna dómsins verður jafnframt staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða og hefur þess þá verið gætt að ítrekunaráhrifa gætir frá eldri dómum fyrir auðgunarbrot, sem kveðnir voru upp yfir ákærða 27.  nóvember 1998, 15. september 1997 og 29. september 1994, sbr. 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Úlfar Ólafsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2000.

Ár 2000, miðvikudaginn 19. janúar, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Gretu Baldursdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-2711/1999: Ákæruvaldið gegn Úlfari Ólafssyni, sem tekið var til dóms 7. janúar sl.

Málið er höfðað með ákæru, dags. 9. nóvember 1999, gegn Úlfari Ólafssyni, kt. 090258-7619, Írabakka 10, Reykjavík, „fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 1. október 1999 stolið áfengispela, að verðmæti kr. 2.740, úr verslun ÁTVR, Kringlunni 8-12, Reykjavík.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

 

Málavextir

Málavextir eru þeir að föstudaginn 1. október 1999 voru lögreglumenn kallaðir að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) í Kringlunni 8-12 vegna þjófnaðar.  Sam­kvæmt því sem fram kemur í lögregluskýrslu, sem dagsett er 1. október 1999, hittu lög­reglumenn á vettvangi Þorgeir Baldursson sem tilkynnti um þjófnaðinn.  Var ákærði þá inni á lager verslunarinnar ásamt starfsmönnum hennar.  Ákærði var lítil­lega undir áhrifum áfengis.  Sagði Þorgeir lögreglumönnum að ákærði hafi verið bú­inn að fá afgreiðslu og verið á leið út úr versluninni er hann stöðvaði ákærða vegna hnupls.  Sagðist Þorgeir hafa séð Úlfar stinga inn á sig koníakspela en ekki greitt fyrir hann er hann var afgreiddur með aðra vöru.  Hafi koníakspelanum verið skilað aftur í versl­unina en verðmæti hans hafi verið kr. 2.740.

Þegar lögreglumenn ræddu við Úlfar gat hann ekki gert grein fyrir sér með skil­ríkjum.  Sagðist hann heita Agnar Páll Agnarsson og að fyrstu sex tölurnar í kennitölu sinni væru 170169 en svo hikaði hann á fjórum síðustu tölunum en sagði að þær væru 4959.  Ákærði bar fyrir sig minnisleysi þar sem hann væri ekki andlegu jafnvægi vegna þeirrar stöðu sem hann væri lentur í.  Sagði ákærði að lögheimili sitt væri Brekku­stígur 9 í Vestmannaeyjum.  Ákærði var handtekinn kl. 18:53 vegna þess að hann gat ekki gert grein fyrir sjálfum sér.  Var hann fluttur á lögreglustöðina við Hverf­isgötu 113 þar sem Björn Sigurðsson varðstjóri ræddi við hann.  Ákærði hélt því statt og stöðugt fram að nafn sitt væri Agnar Páll Agnarsson þrátt fyrir að mynd úr öku­skírteinakrá passaði ekki við hann og að hann gat ekki farið rétt með kennitölu sína.  Hringt var í símanúmer það sem ákærði gaf upp og svaraði Agnar Páll Agnars­son sem kvaðst gruna að ákærði væri Úlfar Ólafsson.  Viðurkenndi ákærði þá að hann væri Úlfar Ólafsson.  Samkvæmt því sem fram kemur í lögregluskýrslu viðurkenndi ákærði þjófnaðinn á koníakspelanum.  Ákærða var sleppt að loknum viðræðum við varð­stjóra.

Verður nú vikið að framburði ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði neitar sakargiftum.  Hann kvaðst muna eftir því að hafa verið með áfeng­is­pela í vasanum er hann kom inn í ÁTVR, en ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis og lyfja.  Hann hafi ætlað að kaupa bjór en þar sem hann var með slæman brotaferil taldi hann að það liti illa út ef hann væri stöðvaður með pelann í vasanum.  Hafi ákærði því tekið pelann úr vasanum og komið honum fyrir í innkaupakörfu.  Er hann kom að kassanum hafi hann tekið pelann úr körfunni og stungið honum aftur á sig svo að hann þyrfti ekki að borga pelann aftur.  Hafi ákærði ekkert verið að fela það og taldi hann að afgreiðslustúlkan á kassanum hafi séð það.  Starfsmenn ÁTVR hafi svo stöðv­að hann og þeir hringt á lögregluna.  Ákærði sagði að ekkert hafi verið hlutstað á hann og hafi hann síðan verið fluttur niður á lögreglustöð.  Ákærði viðurkenndi að hafa reynt að ljúga til nafns.  Hann kvaðst ekki muna hvort hann hafi tjáð sig um þjófn­aðinn er hann var til yfirheyrslu hjá lögreglunni.  Aðspurður kvaðst hann ekki kann­ast við það er áfengispelinn var tekinn af honum hvort strikamerki á pelanum hafi verið farið af.

Vitnið Þorgeir Baldursson, verslunarstjóri, kom fyrir dóminn.  Hann kvaðst hafa séð ákærða stinga áfengispela í vasann er hann beið við kassann.  Þegar ákærði hafi verið á leiðinni út úr búðinni hafi hann verið stöðvaður.  Hafi ákærði verið spurður að því hvort hann væri með eitthvað sem hann greiddi ekki fyrir og hafi ákærði þá tekið upp áfengispela.  Aðspurður um það hvort strikamerki á áfengispelanum hafi verið kannað kvað vitnið það ekki hafa verið gert þar sem vitnið hafi séð ákærða stinga inn á sig pelanum.  Vitnið sagði að morguninn eftir hafi farið fram talning á birgðum af þessari tegund áfengispela og hafi ekkert vantað upp á þegar umræddur áfengispeli hafi verið talinn með.

Vitnið Ingólfur Arnarson, lögreglumaður, kom fyrir dóminn.  Hann kvað að þeir Víðir Ragnarsson, lögreglumaður, hafi verið kallaðir út vegna þjófnaðar í Kringlunni.  Hafi vitnið farið í ÁTVR þar hafi ákærði verið með starfsmönnum verslunarinnar á meðan Víðir sinnti öðru máli.  Hafi ákærði ekki getað framvísað persónuskilríkjum og þess vegna hafi hann verið fluttur niður á lögreglustöð.  Hann hafi viðurkennt að hafa stolið áfengispelanum en ávallt sagt rangt til nafns.  Ákærði hafi þó að lokum við­ur­kennt hver hann væri.  Aðspurður kvað vitnið ekki hafa verið tekna formlega skýrslu af ákærða.  Kvaðst vitnið hafa séð ákærða drekka bjór á leiðinni úr lögreglubifreiðinni en vitnið hafi þó ekki merkt að ákærði væri undir áhrifum áfengis.

Vitnið Víðir Ragnarsson, lögreglumaður, kom fyrir dóminn.  Hann sagði að Ingólfur Arnarson, lögreglumaður, hefði farið inn í ÁTVR og rætt við ákærða og vitni að málinu.  Hafi vitnið síðan komið að málinu þegar ákærði var handtekinn og kominn að lögreglubílnum.  Ákærði hafi svo verið færður niður á lögreglustöð fyrir Björn Sigurðs­son varðstjóra.  Hafi ákærði getað illa gert grein fyrir nafni sínu.  Vitnið sagði að ákærði hefði verið undir einhverjum áfengisáhrifum.  Kvað vitnið ákærða hafa játað verknaðinn fyrir varðstjóra.

Vitnið Björn Sigurðsson, lögregluvarðstjóri, kom fyrir dóminn.  Hann sagði að honum hafi fundist brot ákærða ómerkilegt.  Vitnið bar að ákærði hefði gefið upp ranga kennitölu en kvaðst ekki muna hvort ákærði hafi játað brotið.  Hafi vitninu fundist ákærði vera lipur og að brotið hefði legið ljóst fyrir.

 

Niðurstaða

Ákærði, Úlfar Ólafsson, hefur neitað sök.  Hann hefur viðurkennt að hafa stungið inn á sig áfengispela er hann var inni í ÁTVR í Kringlunni, en hefur haldið því fram að hann hafi verið með pelann er hann kom í verslunina en tekið hann úr vasanum og stungið honum í körfu eftir að hann kom inn.  Hafi ákærði vegna brotaferils síns gert þetta til þess að vekja ekki grunsemdir um að hafa stolið áfengispelanum.  Þessi fram­burð­ur ákærða þykir ótrúverðugur.  Vitnin Ingólfur Arnarson og Víðir Ragnarsson, lög­reglumenn, báru fyrir dómi að ákærði hefði játað fyrir varðstjóra þann verknað sem í ákæru greinir.  Vitnið Björn Sigurðsson, lögregluvarðstjóri, kvaðst ekki muna hvort ákærði hefði játað brotið en taldi að brotið hefði legið ljóst fyrir.  Vitnið Þorgeir Bald­ursson, verslunarstjóri ÁTVR í Kringlunni bar fyrir dómi að hann hefði séð ákærða stinga inn á sig áfengispelanum.  Hann sagði að birgðir í versluninni hafi verið kann­aðar eftir að pelanum var skilað og ekki hafi neitt vantað upp á þær.

Þegar framburður framangreindra vitna er virtur þykir dóminum sannað þrátt fyrir neitun ákærða, að ákærði hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar brotið við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1975 hlotið 17 refsidóma, þar af eru þrír hæstaréttardómar.  Hann hefur m.a. verið dæmdur fyrir manndráp, þjófn­að, fjársvik, skjalafals, nytjastuld, umferðarlagabrot og áfengislagabrot.  Ákærði hlaut síðast dóm 31. mars 1999, 450.000 kr. sekt og sviptingu ökuréttar í 3 ár frá 19. júní 1999 að telja vegna brots gegn 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. um­ferð­ar­laga nr. 45/1987.  Þar áður hlaut hann dóm 27. nóvember 1998, 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 244. gr. almennra hegn­ing­arlaga nr. 19/1940.  Þann 8. júlí 1999 fékk hann reynslulausn í 1 ár á eftirstöðvum refs­ingar 60 dögum.  Með broti sínu nú hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar sbr. 1. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga.  Reynslulausnin er því tekin upp og dæmd refs­ing í einu lagi sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga.

Þegar litið er til sakarferils ákærða, sérstaklega þess að hann hefur ítrekað áður verið dæmdur fyrir þjófnað, þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.  Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda, Hilmars Ingimund­arsonar hæstaréttarlögmanns sem þykir hæfileg 35.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins fór með málið Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi lög­reglu­stjór­ans í Reykjavík.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Úlfar Ólafsson, sæti fangelsi í 3 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns 35.000 krónur.