Hæstiréttur íslands

Mál nr. 648/2007


Lykilorð

  • Vopnalagabrot


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. júní 2008.

Nr. 648/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Árna Loga Sigurbjörnssyni

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Vopnalagabrot.

Á var sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum tilgreind vopn sem lögregla lagði hald á án þess að tryggja viðeigandi og áskilda geymslu þeirra. Þegar litið var til þess að vopnin voru tekin í innbroti á heimili Á, að hann hafði sérstaka geymslu fyrir vopnin þó að hún væri ekki fullnægjandi, að hann virtist hafa átt stærstan þátt í að lögreglu tókst að upplýsa málið og endurheimta vopnin, og að gögn lágu fyrir um að Á hefði endurbætt aðstöðu á heimili sínu í samráði við lögreglu, þótti rétt að fresta ákvörðun refsingar hans skilorðsbundið í tvö ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 26. nóvember 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst sýknu af refsikröfu ákæruvalds og að felld verði úr gildi ákvörðun héraðsdóms um upptöku á skotvopnum og skotfærum.

I

Samkvæmt I. kafla ákæru er ákærði sakaður um „að hafa haft í vörslum sínum“ tilgreind vopn sem lögregla lagði hald á að Brúnagerði 1 á Húsavík, „án þess að tryggja viðeigandi og áskilda geymslu þeirra“, nánar tiltekið á neðri hæð „í húsnæði Meindýravarna Íslands, einkahlutafélags í eigu ákærða, og í íbúð á efri hæð“. Við meðferð málsins kom fram að bú Meindýravarna Íslands ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 29. apríl 2005. Eftir ábendingu frá heilbrigðisfulltrúanum á Norðausturlandi fór lögregla 1. september 2005 inn í húsið Brúnagerði 1 á Húsavík. Neðri hæð hússins var í umráðum þrotabús Meindýravarna Íslands ehf. Lögregla lét skiptastjóra vita að hún ætlaði inn í húsnæðið og hleypti fulltrúi skiptastjóra henni inn. Efri hæðin var í eigu og umsjá fyrrverandi sambúðarkonu ákærða. Verður að telja upplýst að skipt hafi verið um lás þar eftir að ákærði flutti út í lok júlí 2005. Haldlögð voru á efri og neðri hæð þau vopn og vopnahlutar sem tilgreindir eru í töluliðum 1 til 18 í þessum kafla ákærunnar. Af þessu er ljóst að ákærði hafði umrædd vopn og vopnahluta ekki í vörslum sínum þegar lögregla lagði hald á þau 1. september 2005 eins og honum er gefið að sök í ákæru. Verður hann þegar af þessari ástæðu sýknaður af I. kafla ákærunnar.

II

Samkvæmt II. kafla ákæru er ákærða gefið að sök „að hafa haft í vörslum sínum“ vopn og skotfæri að Víðibakka í Öxarfirði „án þess að tryggja viðeigandi og áskilda geymslu þeirra“. Lögregla lagði hald á vopn og skotfæri sem nánar eru tilgreind í töluliðum 19 til 36 við húsleit 21. desember 2005 í íbúð í Vogum á Reykjanesi. Höfðu þau verið tekin frá heimili ákærða að Víðibakka í innbroti í lok nóvember sama ár. Ekki er með öllu ljóst af ákæru hvenær ákærða er gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum þau vopn og skotfæri sem þessi kafli ákærunnar tekur til. Verður að skilja ákæruna svo að átt sé við tímann fyrir nefnt innbrot.

Ákærði tilkynnti lögreglu um innbrotið 26. nóvember 2005. Hafði hann þá verið fjarverandi í nokkra daga. Í samantektarskýrslu lögreglu um málið kemur fram að nágranni hafi séð til mannaferða að kvöldi 22. eða 23. nóvember og er talið að þá hafi innbrotið verið framið. Tekinn var talsverður fjöldi skotvopna, bæði virkra og safngripa. Í framangreindri skýrslu lögreglu segir að ákærða hafi verið afhentur hluti vopnanna „aðallega skrautbyssur og algerlega óvirk vopn.“ Í haldlagningarskýrslu vegna húsleitarinnar eru skráð öll þau vopn sem ákært er fyrir í þessum kafla, en þar segir í lokin að vopnin verði flutt á lögreglustöðina í Keflavík til frekari skoðunar. Engin gögn eru þó í málinu um að rannsókn hafi farið fram af hálfu lögreglu á ástandi þeirra vopna sem stolið var frá Víðibakka eftir að þau fundust. Ákærði var ekki yfirheyrður um ástand vopnanna, hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi, eins og þó var gert varðandi vopn í I. kafla ákæru. Í greinargerð verjanda fyrir Hæstarétti kemur hins vegar fram að sjö byssur hafi verið geymdar í rekka, þ. e. byssur í töluliðum 20, 21, 23, 24, 26 og 29 og hafi þær verið virkar, en byssur í töluliðum 22, 27, 30, 31 og 32 hafi verið safngripir eða eftirlíkingar, óvirkar og ónothæfar. Verður þetta lagt til grundvallar.

Upplýst er að við þjófnaðinn var brotinn upp sérútbúinn rekki fyrir skotvopn sem var læstur. Kveðst ákærði hafa verið með lykilinn á sér. Verður að skilja framburð hans svo að rekkinn hafi verið tekinn út á árinu 1986 eða 1987 og hafi hann flutt hann með sér að Víðibakka. Á þessum árum fékk ákærði leyfi til innflutnings á skotvopnum og til þess að hlaða skotfæri til endursölu. Hann kvaðst hafa geymt skammbyssu, startbyssur og skotfæri í læstu skattholi úr tré og falið lykilinn í skúffu í því. Hafi verið gengið frá lyklinum í umslagi sem sett hafi verið undir fóður í skúffunni. Þegar lögregla ljósmyndaði vettvang lá lykillinn laus í skúffunni. Ákærði upplýsti að einhverjir úr fjölskyldu hans hefðu vitað hvar lykilinn var geymdur. Hann kvaðst hafa verið með hunda í húsinu, sem hlytu að hafa þekkt þjófana. Af þessum ástæðum taldi ákærði strax að kunnugir hefðu átt hlut að innbrotinu. Hann átti stóran hlut að því að upplýsa málið.

Með vopnalögum nr. 16/1998, sem tóku gildi 1. september það ár, voru hertar reglur um vörslur skotvopna og skotfæra í þeim tilgangi að tryggja að óviðkomandi næðu ekki til þeirra, sbr. 23. gr. laganna. Reglugerð nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl. var sett 21. desember sama ár með heimild í vopnalögum. Í 33. gr. hennar segir að íbúar þar sem skotvopn eru geymd skuli gæta þess að húsnæði sé læst séu þeir fjarverandi. Þá sé skylt að geyma skotvopn og skotfæri í aðskildum læstum hirslum og eigi einstaklingur fleiri en þrjú skotvopn sé honum „skylt að geyma þau í sérútbúnum vopnaskáp“ sem samþykktur sé af lögreglustjóra.

Leggja verður frásögn ákærða til grundvallar um að virkar byssur hafi verið geymdar í sérstökum læstum byssurekka, sem á sínum tíma hafi verið tekinn út af yfirvaldi og að skotfæri hafi verið geymd aðskilin í læstum skáp, en lykillinn að honum verið falinn í skúffu í sama skáp. Upplýst er að ákærði safnar byssum og er að minnsta kosti hluti safns hans og skotvopna réttilega skráð. Hann hefur leyfi til notkunar vopna vegna starfs síns sem meindýraeyðir. Hann hefur einnig haft leyfi til viðgerða og sölu skotvopna.

Ákærði gætti þess ekki að uppfylla kröfur 33. gr. núgildandi reglugerðar nr. 787/1998 um varðveislu skotvopna þeirra sem stolið var frá Víðibakka. Byssurekkinn þar sem ákærði geymdi sjö virk skotvopn uppfyllti ekki kröfur 5. mgr. greinarinnar. Ákærði hefur sjálfur upplýst að honum hafi verið kunnugt um að fólk, sem var í neyslu og afbrotum og tengdist fjölskyldu hans, hafi haft vitneskju um hvernig hann bjó um vopn sín, meðal annars hvar hann geymdi lykilinn að skápnum þar sem hluta vopnanna og skotfæranna hafði verið komið fyrir. Með þá vitneskju verður að meta ákærða til gáleysis að skilja lykilinn eftir á þeim stað sem hann lýsir, þegar hann fór að heiman í einhverja daga. Þar sem hann er atvinnumaður og safnari og hafði mikinn fjölda vopna í vörslum sínum hvíldi á honum rík varúðarskylda. Samkvæmt skilgreiningu 2. mgr. 1. gr. vopnalaga á orðinu „skotvopn“ tekur 23. gr. laganna ekki til veiðiboga í 19. tölulið þessa kafla ákærunnar og ekki þeirra vopna sem teljast ónýt eða forngripir. Nýtur ákærði vafa sem stafar af því að ekki liggur fyrir rannsókn á ástandi þeirra vopna og muna sem hald var lagt á.

Samkvæmt framansögðu er ákærði sakfelldur fyrir að tryggja ekki á fullnægjandi hátt viðeigandi og áskilda geymslu vopna, vopnahluta og skotfæra samkvæmt ákæruliðum 20, 21, 23, 24, 26, 29, 33, 34, 35 og 36. Hann hefur ekki áður sætt refsingu. Þegar litið er til þess að vopnin voru tekin í innbroti á heimili ákærða, að hann hafði sérstaka geymslu fyrir vopnin þó að hún væri ekki fullnægjandi, að hann virðist hafa átt stærstan þátt í að lögreglu tókst að upplýsa málið og endurheimta vopnin, og að gögn liggja fyrir um að ákærði hefur endurbætt aðstöðu á heimili sínu í samráði við lögreglu, þykir rétt að fresta ákvörðun refsingar skilorðsbundið í tvö ár frá uppsögu dóms þessa eins og nánar segir í dómsorði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar í héraði og áfrýjunarkostnaðar málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans að teknu tilliti til virðisaukaskatts, allt svo sem nánar greinir í dómsorði.

III

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga skal gera upptæk skotvopn og skotfæri sem „finnast vörslulaus eða í vörslu manns án heimildar“ og „vopn sem ólögmæt teljast samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.“ Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skal gera upptæk vopn sem brot er framið með þó að sökunautur hafi leyfi fyrir þeim. Í 3. mgr. er ennfremur vísað til 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði er sakfelldur fyrir að hafa ekki geymt vopnin á fullnægjandi hátt, en ekki fyrir að hafa haft undir höndum ólögmæt vopn eða vopn án heimildar, og hann hefur ekki sjálfur notað þau til þess að fremja afbrot. Þar sem þeim var stolið frá ákærða verða þau ekki talin hafa verið vörslulaus í skilningi ákvæðisins. Þykja skilyrði upptöku ekki vera fyrir hendi.

Dómsorð:

Fresta skal ákvörðun refsingar ákærða, Árna Loga Sigurbjörnssonar, og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður, samtals 589.510 krónur, greiðist að hálfu af ákærða en að hálfu úr ríkissjóði. Þar af eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

Hafnað er kröfu um upptöku vopna, vopnahluta og skotfæra.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 19. október 2007.

Mál þetta, sem var dómtekið 8. þ.m., höfðaði sýslumaðurinn á Húsavík 1. júní sl. með ákæru gegn Árna Loga Sigurbjörnssyni, kt. [...]

„fyrir eftirtalin vopnalagabrot, með því að hafa haft í vörslum sínum fjölda vopna, vopnahluta og skotfæra, án þess að tryggja viðeigandi og áskilda geymslu þeirra í læstum hirslum þar sem óviðkomandi aðili næði ekki til þeirra, svo sem hér greinir:

                                                                         I.

Að Brúnagerði 1 á Húsavík, nánar tiltekið í húsnæði Meindýravarna Íslands, einkahlutafélags í eigu ákærða, og í íbúð á efri hæð, en lögregla lagði hald á neðangreind vopn víðsvegar um húsið fimmtudaginn 1. september 2005:

1.        Husquarna haglabyssa.

2.        Stevens haglabyssa, nr. UC36.

3.        Casnar haglabyssa, nr. 1688.

4.        Fabarm Brescia haglabyssa, nr. 348006.

5.        Omega model 30 pumpa, nr. A360855.

6.        Nikko M-1000, nr. J25712.

7.        Remington CBC, nr. C132170.

1.        Remington CBC, nr. C139986.

2.        Harrington & Richardson, nr. AX469370.

3.        Iver Johnson riffill nr. I673.666.

4.        Toz riffill, nr. 12310.

5.        Loftriffill (1).

6.        Loftriffill (2).

7.        Loftriffill (3).

8.        Fabarm haglabyssa, nr. 490280.

9.        AyA Eibar haglabyssa, nr. 22615.

10.     Baikal haglabyssa, nr. Y09035.

11.     Remington 1100, nr. L471148.

(Mál nr. 025-2006-674)

                                                                         II.

Að Víðibakka í Öxarfirði, en lögregla lagði hald á neðangreind vopn og skotfæri að Aragerði 10 í Vogum þann 21. desember 2005 eftir að þeim hafði verið stolið frá Víðibakka í innbroti í nóvember 2005:

12.     Whitetail hunter 16500 veiðibogi.

13.     Sako Finnbear L61R riffill, nr. 44042.

14.     Winchester Mod. 94 riffill, nr. 3229705.

15.     M80 haglabyssa (útboraður riffill), nr. S73592.

16.     Parker Hale Alpine Model Sporter riffill, nr. 1024.

17.     Brno Mod. 2 riffill, nr. 4096.

18.     Diana Mod. 6 loftskammbyssa.

19.     HW 35 (weihrauch) loftriffill.

20.     Husquarna GA-16 haglabyssa.

21.     Remington 1100 Diamond Anniversary haglabyssa, nr. LE80-1084.

22.     Remington 1100 haglabyssa, nr. M642736X.

23.     Skammbyssa Mod. 1900 af óþekktri tegund.

24.     Skammbyssa, nafn- og númerslaus m. utanáliggjandi hamri.

25.     Junker Spain skammbyssa, nr. 095936.

26.     4 stk. skotgeymar í riffla og/eða skammbyssur.

27.     3 pakkar með 26 haglaskotum GA-20.

28.     28 stk. 9mm skammbyssuskot.

29.     50 stk. cal 45 skammbyssuskot.

 (Mál nr. 025-2005-2707)

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 23. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga, nr. 16/1998, og 33. gr., sbr. 59. gr., reglugerðar, nr. 787/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er krafist upptöku á framantöldum vopnum/vopnahlutum, að undanskildum þeim sem merkt eru nr. 2, 7, 8, 9 og 15, 4 skotgeymum, 72 haglaskotum og 78 skammbyssuskotum, sbr. 37. gr., sbr. 2. gr., vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að kröfu um upptöku muna verði hafnað.

                                                                  I.

Þann 1. nóvember 2005 kom staðgengill heilbrigðisfulltrúans á Norð-Austurlandi því á framfæri við lögreglu að íbúi að Brúnagerði 1, Húsavík, hefði tilkynnt um vopn, eiturefni og jafnvel sprengiefni sem væru aðgengileg almenningi, þar sem hver sem væri kæmist inn á neðri hæð hússins, þar sem vopnin og efnin væru. Lögregla fór inn í húsnæðið í samráði við skiptastjóra þrotabús Meindýravarna Íslands ehf. Ákærði mun hafa verið fyrirsvarsmaður þess félags. Lögregla kveður dyr að neðri hæð hússins hafa verið ólæstar og hafi hver sem var getað farið þar inn. Eiturefni, skotfæri og skotvopn hafi verið þar á víð og dreif. Tók lögregla vopnin í sína vörslu og einnig vopn sem voru í íbúð á efri hæð að ósk húsráðanda. Þau vopn sem lögregla tók á neðri hæðinni og ákærða er gefið að sök að hafa ekki tryggt viðeigandi geymslu á eru tilgreind nr. 1-14 í I. kafla ákæru, en þau sem hún tók á efri hæð eru nr. 15-18 í sama kafla.

                                                                         II.

Ákærði ber að hann hafi verið fyrirsvarsmaður Meindýravarna Íslands ehf. Það félag mun hafa orðið gjaldþrota á fyrri hluta ársins 2005. Ákærði kveður húsnæðið á neðri hæð Brúnagerðis 1 hafa verið læst, bílskúrshurð hafi þó ekki verið með lás, en lokað með „borðabolta“. Ákærði kannast við þau vopn sem lögregla haldlagði á efri hæð hússins. Kveðst hann hafa búið þar, en verið fluttur út.

Ákærði bar fyrir lögreglu um einstök vopn í ákæru og endurtók það fyrir dómi að þau sem lögregla fann að Brúnagerði 1 væru ýmist biluð eða sundurtekin og ónothæf sem skotvopn. Skotfæri hefðu söfnunargildi, en ekki notagildi.

Bjarni Höskuldsson lögregluvarðstjóri staðfesti frumskýrslu lögreglu. Lýsti hann aðkomu á neðri hæð svo að þar hefðu legið byssur og byssuhlutar á víð og dreif. Byssur sem voru haldlagðar á efri hæð hefðu staðið úti í horni í forstofuherbergi.

Sigurður Brynjúlfsson yfirlögregluþjónn ber að hann hafi komið að því að skrá byssur og byssuhluta þarna og koma í örugga geymslu. Segir hann að töluvert hafi verið um hluta úr byssum, en einnig hafi eitthvað verið þarna af virkum vopnum.

                                                                  III.

Seint í nóvember 2005 var brotist inn á heimili ákærða að Víðibakka, Norðurþingi. Brotin var þverslá úr byssurekka sem stóð á gangi og teknir úr honum rifflar og haglabyssa. Byssur og einn bogi höfðu hangið á vegg og hafði þeim einnig verið stolið. Lykill að stofuskenk hafði verið tekinn úr skúffu, sem ákærði kvað engan eiga að vita um nema sig og fjölskyldu sína. Úr skenknum hafði verið stolið skammbyssu og fjórum startbyssum.

Ákærði lagði hart að sér við að aðstoða lögreglu við að upplýsa málið. Með tilstyrk hans hafði lögregla upp á öllum vopnunum nema skammbyssunni, sem mun enn vera ófundin. Vopnin eru nánar talin í ákærulið II. 

                                                                         IV.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 16/1998 er með vopni í þeim lögum átt við hvert það tæki eða efni sem unnt er að beita til að deyða eða skaða heilsu manna eða dýra tímabundið eða varanlega, enda sé með tilliti til aðstæðna ástæða til að ætla að fyrirhugað sé að nota tækið eða efnið í þeim tilgangi.

Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er átt við með skotvopni í lögunum vopn eða tæki sem hægt er með sprengikrafti, samanþjöppuðu lofti eða á annan sambærilegan hátt að skjóta úr kúlum, höglum eða öðrum skeytum.

Byssur og byssuhlutar sem lögregla haldlagði að Brúnagerði 1 eru skotvopn í þessum skilningi. Verður ekki talið að þau hafi ekki verið það lengur, þótt þau hafi í einhverjum tilvikum, eða jafnvel öllum, þurft lagfæringar eða samsetningar við til að unnt yrði að skjóta úr þeim kúlum eða höglum. Er hið sama að segja um vopn sem stolið var að Víðibakka. Ekki er ástæða til að fjölyrða sérstaklega um skotfærin, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Verða þau talin skotfæri þrátt fyrir þá mótbáru sem ákærði hafði uppi að um safngripi hafi verið að ræða.

Samkvæmt 23. grein sömu laga skal eigandi eða vörsluaðili skotvopns og skotfæra ábyrgjast vörslu þeirra með þeim hætti að óviðkomandi aðili nái ekki til þeirra. Skulu skotvopn og skotfæri geymd í aðskildum og læstum hirslum þegar þau eru ekki í notkun. Er ráðherra heimilað að setja nánari ákvæði í reglugerð, m.a. að setja skilyrði um tiltekna geymslu skotvopna eftir að tilteknum skotvopnafjölda er náð. Samkvæmt 5. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 787/1998, sem sett er samkvæmt þessari heimild, er einstaklingi sem á fleiri en þrjú skotvopn skylt að geyma þau í sérútbúnum vopnaskáp sem samþykktur er af lögreglustjóra. Þarf ekki að fara í grafgötur um það að gegn þessari skyldu var freklega brotið hér. Þótt ákærði hafi verið búinn að yfirgefa húsnæðið að Brúnagerði 1 verður ekki talinn leika vafi á að hann beri ábyrgð á því hvernig vopnin þar voru geymd, bæði á efri og neðri hæð, enda engin ástæða til að ætla að húsráðandi á efri hæð og þrotabú Meindýravarna Íslands ehf. hafi breytt geymslu þeirra til hins verra eftir að ákærði flutti þaðan.

Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við þar greind laga- og reglugerðarákvæði. 

                                                                         V.

Ákærði hefur ekki sætt refsingum samkvæmt sakavottorði. Geymsluháttur hans á verulegum fjölda skotvopna og skotvopnahluta er óforsvaranlegur og enn ámælis­verðari en ella með tilliti til þess að ákærði á að teljast fagmaður í meðferð skotvopna, en hann fékk t.d. árið 1987 leyfi til fimm ára til að flytja inn og selja skotvopn og skotfæri, sama ár leyfi til jafnlangs tíma til að mega hlaða skotfæri til endursölu og þann 10. janúar 2002 fékk hann leyfi til fimm ára til að nota skotvopn innan bæjarmarka Húsavíkur vegna eyðingar vargfugls og meindýra.

Brot þau sem ákærði er hér sakfelldur fyrir varða sekt eða fangelsi allt að fjórum árum. Með tilliti til þess hve hér var um mikinn fjölda vopna að ræða verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvo mánuði, sem með tilliti til sakaferils hans er rétt að skilorðsbinda eins og greinir í dómsorði.

 Með því að varsla ákærða á vopnunum var með ólögmætum hætti verður fallist á kröfu ákæruvaldsins um upptöku þeirra með skírskotun til tilvitnaðra ákvæða í ákæru.

Dæma ber ákærða til greiðslu sakarkostnaðar. Er þar um að tefla málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., sem ákveðast eins og greinir í dómsorði, að virðisaukaskatti meðtöldum og að teknu tilliti til hugsanlegs kostnaðar af ferðalagi verjandans á dómþing. 

Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Árni Logi Sigurbjörnsson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Upptæk eru Husquarna haglabyssa, Casnar haglabyssa, nr. 1688, Fabarm Brescia haglabyssa, nr. 348006, Omega model 30 pumpa, nr. A360855, Nikko M-1000, nr. J25712, Iver Johnson riffill nr. I673.666, Toz riffill, nr. 12310, þrír loftrifflar, Fabarm haglabyssa, nr. 490280, AyA Eibar haglabyssa, nr. 22615, Baikal haglabyssa, nr. Y09035, Remington 1100, nr. L471148, Whitetail hunter 16500 veiðibogi, Sako Finnbear L61R riffill, nr. 44042, Winchester Mod. 94 riffill, nr. 3229705, M80 haglabyssa (útboraður riffill), nr. S73592, Parker Hale Alpine Model Sporter riffill, nr. 1024, Brno Mod. 2 riffill, nr. 4096, Diana Mod. 6 loftskammbyssa, HW 35 (weihrauch) loftriffill, Husquarna GA-16 haglabyssa, Remington 1100 Diamond Anniversary haglabyssa, nr. LE80-1084, Remington 1100 haglabyssa, nr. M642736X, skammbyssa Mod. 1900 af óþekktri tegund, skammbyssa, nafn- og númerslaus m. utanáliggjandi hamri, Junker Spain skammbyssa, nr. 095936, 4 skotgeymar, 72 haglaskot og 78 skammbyssuskot.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 250.000 krónur.